Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 117/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 117/2016

Föstudaginn  8. júlí  2016

A

gegn

barnaverndarnefnd B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi 23. mars 2016 kærði C hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun barnaverndarnefndar B um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A vegna barna hennar, D, E og F.

Í gögnum málsins kemur fram að málefni barnanna hafi verið flutt frá Barnavernd G til Barnaverndar B 22. júní 2014. Þar áður hafi málefni barnanna verið til meðferðar hjá Barnavernd H. Samkvæmt bókun barnaverndarnefndar B 28. janúar 2016 samþykkti kærandi að börn hennar yrðu vistuð utan heimilis á grundvelli b-liðar 27. gr. bvl. í allt að fjóra mánuði frá X að telja. Auk þess samþykkti kærandi að undirgangast forsjárhæfismat og gerð meðferðaráætlunar.

Með tölvupósti 24. febrúar 2016 fór kærandi fram á styrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Meðfylgjandi var tímaskýsla lögmanns fyrir unnar stundir á tímabilinu 23. janúar 2016 til og með 23. febrúar 2016, samtals 37 stundir.

Með bréfi barnaverndarnefndar B 24. febrúar 2016 var tekin ákvörðun um að veita kæranda styrk sem nam 22 klst. fyrir vinnu lögmanns, samtals að fjárhæð 275.000 krónum eða 314.000 með virðisaukaskatti. Vísað var til þess að ákvörðun væri byggð á umfangi máls og að teknu tilliti til fjárstyrkja sem veittir hafa verið vegna sambærilegra mála.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og Barnavernd B verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar.

Fram kemur í kæru að lögmaður hafi komið að málinu X og hafi fengið aðgang að gögnum málsins ásamt greinargerð eftir hádegi X Fyrirhugað hafi verið að taka mál kæranda fyrir 28. janúar og hafi lögmaður óskað strax eftir fresti svo að unnt væri að vinna málið með ítarlegum hætti þar sem greinargerðin hafi verið 34 blaðsíður og meðfylgjandi 71 fylgiskjöl voru í heildina rúmar 150 blaðsíður. Frestur hafi ekki verið veittur og því upphófst mikil vinna lögmanns við að kynna sér málið sem hafi verið umfangsmikið, enda um að ræða þrjú börn og langvarandi afskipti barnaverndarnefndar á þremur mismunandi stöðum. Kærandi sé auk þess [...] og með [...] sem gerði það að verkum að hún hafi átt afar erfitt með að kynna sér þau gögn sem lágu fyrir. Lögmaður þurfti ásamt því að kynna sér nýtt mál til hlítar á skömmum tíma að fara vandlega yfir gögnin með kæranda og tryggja að hún áttaði sig á því sem þar kom fram, enda hafi það verið forsenda þess að kærandi hefði færi á því að nýta sér lögbundinn andmælarétt. Þetta hafi tekið verulegan tíma ásamt því að undirbúningur fyrir fund nefndarinnar, ritun átta blaðsíðna greinargerðar, samskipti svo og mætingar lögmanns með kæranda eftir fundinn til að ganga frá tímabundinnni vistun hafi tekið þann tíma sem fram hafi komið í tímaskýrslu lögmanns. Lögmaðurinn hafi þurft að frumlesa töluverðan fjölda gagna í málinu ásamt því að vinna málið af kostgæfni á þeim skamma tíma sem veittur hafi verið frá því að gögnin voru afhent og þar til málið var tekið fyrir. Í ljósi þess að fjöldi barnaverndarnefnda höfðu komið að málinu og um hafi verið að ræða þrjú börn kæranda hafi málið verið flókið. Það væri því óásættanlegt að kæranda væri einungis veittur styrkur fyrir rétt rúmlega helmingi þeirra tíma sem unnir hafi verið í hennar þágu og voru nauðsynlegir í ljósi aðstæðna. Kærandi dregur í efa að málið sé sambærilegt öðrum málum og hægt hafi verið að leggja það að jöfnu við mál þar sem lögmenn hafa mögulega komið að þeim á fyrri stigum og aðstæður kæranda hafi verið með sambærilegum hætti. Kærandi sé einstæð móðir með þrjú börn. Hún sé í örorkumati og á framfærslu félagsþjónustu B. Hún hafi því enga burði til að greiða fyrir þá lögmannsþjónustu sem hún þurfti á að halda vegna fyrirtöku málsins hjá barnaverndarnefndinni. Þá verði að hafa í huga að við styrkveitingu væri ekki miðað við fullt tímagjald lögmanna.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, sé barnaverndarnefnd skylt að veita foreldri fjárstyrk til að greiða fyrir aðstoð lögmanns sem veitt sé í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls. Barnaverndarnefndin skal veita foreldrum fjárstyrk eftir reglum sem nefndin setur. Þá komi fram í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs máls. Ljóst sé að Barnavernd B hafi ekki tekið tillit til þess við ákvörðun um styrkveitingu til kæranda.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndar velferðarmála 27. apríl 2016 við greinargerð barnaverndarnefndar B segir að í greinargerð nefndarinnar hafi mál kæranda verið borið saman við annað barnaverndarmál. Þrátt fyrir að sá einstaklingur hafi ekki talað íslensku geri það málið ekki sjálfkrafa flóknara en mál kæranda. Þá sé ekki rétt að lögmaður kæranda hafi fengið viku undirbúning, enda hafi gögn málsins borist eftir hádegi á föstudegi og umræddur fundur hafi verið haldinn seinnipart fimmtudags í vikunni á eftir. Kæranda hafi jafnframt verið bent á að það tæki því ekki að óska eftir því að fá gögn málsins fyrr, þegar henni var tilkynnt rétt fyrir árslok 2015 að hún yrði að leita sér aðstoðar lögmanns, þar sem það myndi ekki flýta fyrir afhendingu gagnana. Þetta hafi jafnframt valdið misskilningi þar sem kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því sem var lagt upp af hálfu barnaverndarnefndarinnar og hafi kærandi talið að hún ætti að fá lögmann í málið þegar hún fengi gögnin afhent.

Vel geti verið að lögmenn veigri sér við því að krefjast greiðslu fyrir þá tíma sem raunverulega fara í mál, enda viðkvæmur málaflokkur. Styrkur vegna aðstoðar lögmanns sé grundvöllur þess að efnalitlir foreldrar og þá sérstaklega foreldrar sem búa við slæma félagslega stöðu geti sinnt andmælarétti sínum. Um hafi verið að ræða verulegt hagsmunamál fyrir kæranda. Þrátt fyrir að starfsmenn barnaverndar séu vitni að slíku reglulega í starfi sínu eðli málsins samkvæmt og telji mögulega ekki mikla hagsmuni í húfi þegar um sé að ræða vistun utan heimilis þá sé það ekki raunveruleiki þess sem standi frammi fyrir slíkri áætlun. Það sé skylda lögmanns að fara yfir alla þætti málsins og tryggja að hlið skjólstæðings sé dregin fram og skýrð. Það hafi einfaldlega í þessu tilfelli tekið langan tíma í ljósi aðstæðna.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B kemur fram að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 28. janúar 2016 og þar lagt til að börn kæranda yrðu vistuð utan heimilis í samtals X mánuði. Meginmál greinargerðar starfsmanna nefndarinnar hafi verið 34 blaðsíður þar sem ítarlega hafi verið farið yfir málavexti og vitnað beint til fylgiskjala, sem voru 71 talsins, aðallega dagálar barnaverndarnefndarinnar sem séu ekki langir. Afskipti barnaverndar megi rekja til ársins 2013 en málið hafi verið flutt til Barnavendar B frá G 22. júlí 2014. Lítil vinnsla hafi verið í málinu fyrr en síðla árs 2015. Miðað við það sem almennt gerist í barnaverndarmálum hafi umrætt mál ekki verið umfangsmeira en önnur sem nefndin hafi til meðferðar.

Í lok árs 2015 hafi kærandi verið upplýst um þá fyrirætlun starfsmanna að bera mál hennar fyrir barnaverndarnefnd. Ítrekað hafi verið nefnt við kæranda að finna sér lögmann og að hún fengi aðstoð við að greiða niður þann kostnað. Kærandi kvaðst vera með lögmann en neitaði að gefa upp nafn hans. Líkur benda til þess að kærandi hafi á þeim tímapunkti ekki leitað sér aðstoðar, heldur beðið með það fram á  síðustu stund. Lögmaður kæranda hafi fengið gögn málsins viku fyrir fund og hafi félagsráðgjafi fundað með lögmanni sérstaklega fyrir fundinn til að fara yfir málsatvik og stöðu málsins.

Reglur um veitingu fjárstyrkja til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 47. gr. bvl. voru samþykktar í félagsmálaráði B 2. júní 2009. Þar segi að fjárhæð styrkjar skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda.

Að jafnaði sé styrkur vegna lögmannskostnaðar um 20 klukkustundir vegna fyrirtöku máls hjá barnaverndarnefnd. Tímaskýrsla lögmanns kæranda var 37 klukkustundir sem sé með því mesta sem óskað hafi verið eftir að fá styrk fyrir hjá nefndinni frá árinu 2009. Lögmenn sem hafa þurft að styðjast við túlka í samskiptum sínum við umbjóðendur sína hafi ekki gert viðlíka háa reikninga. Til samanburðar hafi tímaskýrsla lögmanns, sem gætti hagsmuna einstaklings  sem hvorki hafa talað né lesið íslensku, verið 25 klukkustundir fyrir vinnu á tímabilinu 5. nóvember 2014 til og með 29. júní 2015 en á þeim tíma hafi mál viðkomandi barns þrisvar sinnum verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar. Vegna vistunar utan heimilis í 12 mánuði, vegna umgengni á meðan vistun stóð og til að úrskurða um farbann.

Eftir yfirferð á tímaskýrslu og með tilliti til þess að lögmaður kæranda gekk frá samkomulagi um vistun barna kæranda eftir fund nefndarinnar hafi verið ákveðið að greiða styrk fyrir 22 klst. á tímagjaldinu 12.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Vakin sé athygli á því að lögmaður kæranda hafi samkvæmt tímaskýrslu skrifað samtals 9,25 klst. á yfirferð gagna. Það sé rúmlega heill vinnudagur. Þá hafi lögmaðurinn fundað með kæranda í samtals 8 klst. á tveim dögum. Undirbúningur greinargerðar og undirbúningsfundur hafi verið 9,5 klst. þann 27. janúar og undirbúningur fundar, fundur með kæranda og fundur barnaverndar samtals 6,5 klst. þann 28. janúar. Þá hafi lögmaðurinn skrifað 3 klst. á fund með starfsmanni þar sem kærandi undirritaði samþykki fyrir vistun og síðan samtals 1 klst. til viðbótar í samskipti. Samþykki fyrir vistun sem lá fyrir að kærandi var samþykk.

Ljóst sé að lögmaður kæranda lagði mun meiri vinnu í málið á kostnað kæranda miðað við þá hagsmuni sem voru í húfi en málinu hafi lokið þannig að kærandi samþykkti vistun barna sinna utan heimilis í X mánuði. Ámælisvert sé að lögmaður hyggist innheimta mismun reiknings og þess sem styrks sem veittur hafi verið til kæranda að fjárhæð 314.000 krónur þar sem krafist var vistunar utan heimilis í X mánuði og samkomulag hafi verið gert um X mánaða vistun.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 24. febrúar 2016 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi og barnaverndarnefndinni verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar. Með ákvörðuninni taldi barnaverndarnefnd B að greiða skyldi færri tíma en kærandi telur að lögmaður hennar hafi unnið fyrir hana í málinu.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tengslum við andmælarétt foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Félagsmálaráð B, sem áður fór með málefni barnaverndarnefndar B, samþykkti þann 2. júní 2009 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. bvl. nr. 80/2002. Í 2. mgr. 4. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins, í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og tekið skuli tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald skuli ákveðið af félagsmálastjóra B í samráði við lögfræðing félagsmálaráðs. Samkvæmt 1. gr. reglnanna er fjárstyrkur veittur vegna fyrirtöku á fundi félagsmálanefndar og undirbúnings vegna fyrirtöku málsins þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð fram tímaskýrsla lögmanns frá 24. febrúar 2016 vegna lögmannsaðstoðar við kæranda á tímabilinu 23. janúar 2016 til og með 23. febrúar sama árs. Aðstoð lögmanns var veitt eftir að Velferðarsvið B lagði til við barnaverndarnefnd B að börn kæranda yrðu vistuð tímabundið utan heimilis á grundvelli b-liðar 27. gr. bvl. í X mánuði.  Málinu lauk með þeim hætti að kærandi samþykkti vistun barna sinna utan heimilis í X mánuði.

Samkvæmt ofangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. bvl. skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Samkvæmt reglunum ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk, en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns vegna málsins. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar, eins og önnur gögn málsins, við ákvörðun styrkfjárhæðar.

Í sundurliðaðri tímaskýrslu lögmanns kæranda er vinna lögmannsins, vegna hagsmunagæslu  fyrir kæranda, tilgreind á tímabilinu 23. janúar 2016 til og með 23. febrúar sama árs, samtals 37,25 vinnustundir. Tímaskýrsla lögmanns, sem er greinargóð og sundurliðuð, verður því ásamt öðrum gögnum málsins lögð til grundvallar um eðli og umfang málsins og horfa verður til þegar tekin er ákvörðun samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. og 5. gr. reglna barnaverndarnefndar B frá 2. júní 2009 um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, eins og áður er rakið.

Í bréfi undirrituðu af J hdl., á bréfsefni B, dags. 24. febrúar 2016 kemur fram að samþykkt sé að veita fjárstyrk sem nemur 22 klst. vinnu lögmanns eða sem nemur 275.000 kr. eða 314.000 kr. með vsk., og er það rökstutt á eftirfarandi hátt: „Að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmanns, umfangi máls og að rekju [teknu] tilliti til fjárstyrkja sem veittir hafa verið vegna sambærilegra mála er ákveðið að veita umbj. þínum styrk sem nemur 22[.] klst. vinnu lögmanns.“

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. bvl. nr. 80/2002, skal tímaskýrsla lögmanns fylgja beiðni um fjárstyrk. Tímaskýrsla lögmanns liggur fyrir í málinu þar sem gerð er grein fyrir 37,25 vinnustundum sem unnar höfðu verið vegna þess máls sem hér um ræðir.

Eins og fram hefur komið telur úrskurðarnefnd velferðarmála að horfa verði meðal annars til tímaskýrslu lögmanns þegar ákveðin er fjárhæð styrks samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur barnaverndarnefnd B ekki fært málefnaleg rök fyrir því hvers vegna ekki hafi verið byggt á tímaskýrslunni að öllu leyti.

Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins á hvaða forsendum hafi verið veittur fjárstyrkur fyrir 22 klst. Eingöngu hafi verið vísað til þess að um sé að ræða mál sambærilegt öðrum málum þar sem barnaverndarnefnd B hafi komist að þeirri niðurstöðu að 22 klst. sé sá tími sem fallist sé á að greitt verði fyrir í málum sem þessu og öðrum sambærilegum málum.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndar B til meðferðar að nýju.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar B, frá 24. febrúar 2016, í máli A vegna fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, er felld úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndar B til meðferðar að nýju.


Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir, formaður

 

 


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta