Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 391/2023-Úskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 391/2023

Föstudaginn 17. nóvember 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 10. ágúst 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs G frá 14. júlí 2023 vegna umgengni hennar við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul. Barnaverndarþjónusta B fer með forsjá stúlkunnar. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum en hún hefur verið hjá þeim frá janúar 2022. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Mál stúlkunnar hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) frá fæðingu hennar vegna fíkniefnaneyslu foreldra. Neyðarvista þurfti stúlkuna árið 2022. Kærandi var svipt forsjár stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E 3. janúar 2023 sem staðfestur var með dómi Landsréttar 9. júní 2023.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs G þann 14. júlí 2023. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu B, dags. 19. júní 2023, sem lögðu til umgengni, þrisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Þá var lagt til að kærandi ætti kost á umgengni í formi myndsímtala til viðbótar við almenna umgengni, frá næstu áramótum. Kærandi var ekki samþykk tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Umdæmisráð ákveður að stúlkan, D, eigi umgengni við móður sína, A, í þrjú skipti á ári, þrjár klukkustundir í senn að fósturmæðrum stúlkunnar viðstöddum. Þá verði umgengni í gegnum myndsímtal til viðbótar í tvö skipti á hverju ári, frá 1. janúar 2024.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. ágúst 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. ágúst 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 22. september 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að gerð sé krafa um hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um aukna umgengni kæranda við dóttur sína, nánar tiltekið einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn, auk myndsímtals einu sinni í mánuði. Þá krefst kærandi þess að umgengni verði án eftirlits. Að lokum krefst kærandi þess að úrskurðanefnd velferðarmála úrskurði um kvaðningu tengslasérfræðings til að meta tengsl móður og barns og hagsmuni barnsins af umgengninni.

Með dómi héraðsdóms E frá 3. janúar 2023 hafi kærandi berið svipt forsjá stúlkunnar og hafi dómur héraðsdóms síðar verið staðfestur með dómi Landsréttar frá 9. júní 2023. Sótt hafi verið um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Eftir að fyrri dómur gekk um forsjársviptingu kæranda hafi hún farið fram á það við barnavernd að umgengni hennar við barnið yrði eins oft og mögulegt væri. Á teymisfundi barnaverndar hinn 8. febrúar 2023 [hafi verið lagt til] að umgengi kæranda við dóttur hennar yrði ákveðin fjórða hvern mánuð í þrjá tíma í senn. Auk þessa hafi síðar verið fallist á tvö myndsímtöl á ári.

Líkt og rakið sé í greinargerð lögmanns kæranda til umdæmisráðs G, dags. 14. júní 2023, þá hafi aðstæður kæranda breyst til hins betra frá því að Héraðsdómur E komst að þeirri niðurstöðu, sem síðar hafi verið staðfest af Landsrétti, að svipta ætti kæranda forsjá dóttur sinnar á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Kærandi hafi verið edrú frá 28. júní 2022, eða í rúmt ár, og hafi slitið öll sín tengsl við þá aðila sem tengjast hennar fyrri neyslusögu. Þá lýsa hennar nánustu skyldmenni sem og meðferðaraðilar mikilli viðhorfsbreytingu kæranda til hins betra. Kærandi hafi verið í eftirmeðferð og tekið þátt í ýmsum virkniúrræðum og námskeiðum. Þá mun kærandi hefja fullt nám í haust. Vísað sé til framangreindrar greinargerðar og umfjöllunar um aðstæður kæranda að öðru leyti.

Til stuðnings kröfu kæranda um umgengni við dóttur sína sé vísað til 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að foreldri eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Þá segir í 1. mgr. 74. gr. laganna að barn eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Enn fremur segir í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Ljóst sé og óumdeilt sé að tengsl kæranda og dóttur hennar séu mjög sterk. Umgengni kæranda barnið hafi ávallt gengið vel og sé þetta staðfest í umfjöllun um afstöðu fósturforeldra barnsins í hinni kærðu ákvörðun.

Í hinni kærðu ákvörðun umdæmisráðs G komi fram að umgengni kæranda við barnið valdi henni tilfinningalegu álagi og að bakslag hafi komið í líðan hennar og aðlögun á fósturheimilinu eftir hverja umgengni. Þá segir í ákvörðuninni að það sé mat umdæmisráðsins að farið verði tafarlaust í að veita stúlkunni nauðsynlega aðstoð eða meðferð til að hjálpa henni að vinna í líðan sinni vegna fyrri áfalla. Þá sé stúlkan í viðkvæmri stöðu og mikilvægt sé að ró hennar verði ekki raskað á þessum tímapunkti í hennar lífi með aukinni umgengni eins og þeirri sem kærandi gerir kröfu um. Í þessu samhengi skal vísa til þess að á fundi umdæmisráðs G, þar sem mál kæranda og dóttur hennar hafi verið tekið fyrir, hafi yfirmaður barnaverndarþjónustu B, verið inntur eftir því hvaða aðstoð barnið væri að fá til þess að vinna úr fyrri áföllum. Í svari yfirmannsins hafi komið fram að barnið væri ekki að fá neina aðstoð en verið væri að skoða að fá sérfræðing til aðstoðar. Með hinum kærða úrskurði sé verið að synja um meiri umgengni kæranda aðallega á þeim forsendum að barnið sé viðkvæmt vegna fyrri áfalla en á sama tíma sé barnið búið að vera í fóstri í eitt og hálft ár en barnavernd hafi ekki aðhafst neitt til að hjálpa því að vinna úr áföllum sínum. Röksemdafærsla umdæmisráðs sé því afar mótsagnarkennd og ljóst sé að ekki sé hægt að rökstyðja synjun á aukinni umgengni á þessum forsendum. Einnig sé hægt að benda á að hvergi sé þeim möguleika velt upp af hálfu barnaverndaryfirvalda að mögulega geti vanlíðan barnsins eftir umgengni vel tengst því að hún sakni móður sinnar og eigi erfitt með að kveðja hana og sjá hana eins lítið og raun ber vitni, sérstaklega í ljósi þeirra sterku tengsla sem séu á milli þeirra mæðgna. Með aðstoð sérfræðinga væri hægt að skera úr um hver sé raunveruleg orsök vanlíðunar barnsins. Aftur á móti sé það nokkuð ljóst, með tilliti til skýlausra réttinda bæði barns og móður skv. framangreindum ákvæðum barnaverndarlaga, skyldu barnaverndaryfirvalda til að hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi í starfsemi sinni og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, að þrátt fyrir að barnið upplifi vanlíðan eftir umgengni með móður sinni þá hafi umdæmisráðinu verið í lófa lagið að samþykkja kröfu kæranda um aukna umgengni með þeim fyrirvara að aðlögun fyrir aukna umgengni þyrfti að fara fram eða í það minnsta að aukin umgengni myndi einungis hefjast á síðara tímamarki, t.d. þegar barnaverndaryfirvöld hefðu loks leitað sérfræðinga til að aðstoða barnið við að vinna úr áföllum sínum.

Auk þess sem að framan greinir sé vísað til 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, en þar segi að við mat á því hvort að umgengni foreldris við barn í fóstri sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur skuli taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Dóttir kæranda hafi verið sett í varanlegt fóstur. Ljóst sé að markmið með umgengni kynforeldra við börn sem séu í varanlegu fóstri sé að viðhalda þeim tengslum sem fyrir séu. Kærandi telji að því markmiði að viðhalda þeim tengslum verði ekki náð með minni umgengni en þeirri sem krafist sé af hennar hálfu. Þó færa megi rök fyrir því að aukin umgengni kæranda við dóttur hennar kunni að raska aðlögun hennar í fóstri til skemmri tíma þá verði að taka tillit til þess að dóttir kæranda sé í varanlegu fóstri og það þjónar hagsmunum barnsins betur að tengslum þess við kynmóður sína sé við haldið. Þá hafi barnið verið í fóstri í eitt og hálft ár og megi því ætla að aðlögun í fóstri sé lokið.

Áréttað sé að ákvörðun um umgengni skuli ávallt tekin með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og eiga hagsmunir fósturforeldra ekki að hafa forgang við slíka ákvörðun sbr. 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Umgengni barns við kynmóður sína skuli ekki vera takmörkuð ef slíkt þjónar ekki best hagsmunum barnsins.

Líkt og fram komi í greinargerð lögmanns kæranda til umdæmisráðs G, dags. 14. júní 2023 sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála frá 28. október 2022 í máli nr. 379/2022 til stuðnings kröfum kæranda. Í málinu hafi verið kallaður til tengslasérfræðingur og var úrskurðuð umgengni einu sinni í mánuði. Í því máli hafi tengslin þó ekki verið eins sterk og kærandi hafi við dóttur sína. Séu því öll rök sem standa til þess að kærandi ætti að fá þá umgengni sem krafist sé í.

Hvað varðar málavexti og aðstæður kæranda að öðru leyti sé vísað til gagna málsins.

III. Sjónarmið barnaverndarþjónustu B

Í greinargerð barnaverndarþjónustu B segir að kærandi hafi verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms E þann 3. janúar 2023. Dómur héraðsdóms hafi síðar verið staðfestur í Landsrétti þann 9. júní 2023. Auk þess hafi með bréfi Hæstaréttar Íslands dags. 31. ágúst 2023 verið tilkynnt um að áfrýjunarbeiðni kæranda væri hafnað. Barnaverndarþjónusta B fari því nú með forsjá stúlkunnar.

Í kæru sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um aukna umgengni hennar við stúlkuna, nánar tiltekið einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn, auk myndsímatals einu sinni í mánuði og að umgengnin verði án eftirlits. Jafnframt sé gerð krafa um að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um kvaðningu tengslasérfræðings til að meta tengsl móður og barns.

Hinn kærði úrskurður kveði á um að kærandi eigi umgengni við dóttur sína í þrjú skipti á ári, þrjár klukkustundir í senn að fósturmæðrum viðstöddum. Þá verði umgengni í gegnum myndsímtal til viðbótar í tvö skipti á hverju ári, frá 1. janúar 2024.

Með vísan til kröfu kæranda sé um að ræða töluverða aukningu á umgengni. Slík krafa sé skiljanleg en reynt hafi verið að höfða til kæranda og óska eftir svigrúmi á meðan stúlkan aðlagast á fósturheimili. Þó svo að stúlkan hafi verið lengi í vistun á heimili núverandi fósturforeldra, þá sé það þekkt í málum sem þessum að það sé fyrst þegar endanleg niðurstaða næst í málum þegar hægt sé að fara að vinna með eiginlegan stöðugleika og horfa til framtíðar. Stúlkan hafi yfir æviskeið sitt verið ítrekað vistuð utan heimilis, fyrst með það að markmiðið að styrkja kæranda í foreldrahlutverki sínu með viðeigandi úrræðum, svo með tímabundnu fóstri. En eftir að ljóst hafi verið að vægari aðgerðir dugðu ekki, hafi verið gripið til frekari íþyngjandi ákvarðana með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi.

Það hafi ekki verið fyrr en Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni kæranda sem það hafi endanlega legið fyrir að stúlkan væri ekki að snúa til móður sinnar. Þetta sé vandasamt fyrir alla aðila, stúlkuna, móður, fósturforeldra og jafnvel fleiri. En kærandi fór strax og niðurstaða héraðsdóms lá fyrir af stað með umgengnismál, hafi henni verið bent á að ekki væri tímabært að fá svo mikla umgengni líkt og hún fór fram á á þessum tímapunkti, málið væri enn á viðkvæmu stigi, stúlkan í viðkvæmri stöðu og mikilvægt að ró hennar verði ekki raskað á þeim tímapunkti í lífi hennar með aukinni umgengni.

Vissulega gangi umgengni kæranda og stúlkunnar fyrir eins og staða málsins sé í dag, en fleiri aðilar séu að gera kröfu um umgengni og má nefna, föður stúlkunnar, móðurömmu auk föðurömmu og afa stúlkunnar. Málið sé því ekki einfalt. Ljóst sé að það er gagnkvæmur réttur kæranda og stúlkunnar að fá að njóta samvista við hvor aðra og umgengni til þess fallin að viðhalda tengslum fari það ekki gegn hagsmunum stúlkunnar. Í máli þessu sé ekkert sem bendir til þess að umgengni stúlkunnar við kæranda sé andstæð hagsmunum hennar, þrátt fyrir að á þessu stigi sé aukin umgengni ekki talin vera til hagsbóta fyrir stúlkuna. Tengsl kæranda og stúlkunnar hafi ekki verið ágreiningsefni í málinu, vandi kæranda hafi verið langvarandi vímuefnaneysla, geðrænn vandi og vanhæfni til að setja mörk og tryggja lágmarksöryggi stúlkunnar. Ekki sé að sjá hvað tengslasérfræðingur eigi að meta í þeim efnum, því hafi ekki verið talin þörf á slíku mati, líkt og komið hafi fram í hinum kærða úrskurði. Við þetta megi bæta að ekki sé að sjá á hverju kærandi byggi kröfu sína um að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um kvaðningu tengslasérfræðings til að meta tengsl kæranda og stúlkunnar. Fyrir þeirri kröfu skortir lagastoð og sé því hafnað. Ef um ágreiningsatriði hefði verið að ræða hefði verið hægt að gera slíka kröfu undir rekstri málsins fyrir dómi en það hafi ekki verið gert.

Það sem geri stöðuna í þessu máli erfiða sé að nýlega sé komin endanleg niðurstaða í mál kæranda þar sem hún hafi verið svipt forsjá stúlkunnar og henni því komið fyrir í varanlegu fóstri. Þó að stúlkan hafi verið hjá sömu fósturforeldrum í töluverðan tíma, þá sé samt aðlögun í tímabundnu fóstri allt önnur en í varanlegu fóstri. Þegar um varanlegt fóstur sé að ræða sé barni komið fyrir í fóstur þar til það verði sjálfráða. Markmiðið með slíkri ráðstöfun sé að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra. Hvert mál þurfi svo að skoða sérstaklega því erfitt sé að gefa sömu leiðbeiningar um inntak umgengnisréttarins í hverju máli sem þessu fyrir sig. Það skuli þó ávallt meta hagsmuni og þarfir barna í hverju máli. Umgengni verði að vera í samræmi við markmiðin með fóstri og því eðlilegt að umgengni sé ríkari þegar fóstri sé ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barnið snúi aftur til foreldra sinna. Þegar aftur á móti barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vari þar til barn verður lögráða, líkt og í þessu máli, verði almennt að gera ráð fyrir því að foreldri hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og því eins og í máli þessu, verið svipt forsjá af ástæðum sem lýst er í 29. gr. frumvarpsins með barnavemdarlögum nr. 80/2002. Markið fóstursins í slíkum málum er að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taka að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður kunna hagsmunir barnsins að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Það skuli þó ítrekað að þessi tímapunktur í jafn mikla umgengni og kærandi gerir tilkall til telur barnaverndarþjónusta Eyjafjarðar ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar. Það sé ekki útilokað að þegar að stúlkan hafi öðlast þann stöðugleika sem hún þarf og sömuleiðis kærandi að þá geti aðstæður verið á þann veg að það þjóni hagsmunum stúlkunnar að auka umgengni miðað við þá umgengni sem nú sé í gildi. Þetta krefjist allt tíma og reynslu.

Undir rekstri málsins hjá barnaverndarþjónustu B hafi verið framkvæmt forsjárhæfnimat af F þann 19. febrúar 2022, þrátt fyrir að eldra mat frá 2020 lægi fyrir, einnig unnið af F. Í eldra matinu hafi verið talað um að ef kærandi falli aftur að þá skuli skoða varanlega vistun stúlkunnar. Matsmaður lagði til í mati sínu að til að tryggja öryggi og velferð stúlkunnar að þá skuli hún í varanlegt fóstur. Einnig lagði hann til ákveðna meðferð með stúlkuna sem hafi verið gert, en taldi ekki tímabært að hún færi í greiningarferli enda aðstæður hennar búnar að vera erfiðar. Að öðru leiti sé vísað til meðfylgjandi gagna um frekari málsmeðferð og aðstæður stúlkunnar og kæranda.

Eins og fram komi í gögnum málsins þá hafi barnavernd haft afskipti af málefnum stúlkunnar frá því á árinu 2018 vegna vímuefnaneyslu kæranda. Stúlkan hafi á tímabilinu ítrekað verið vistuð utan heimilis. Áður hafði barnavernd haft afskipti af málefnum eldra barns móður nær óslitið frá árinu 2015, en því máli lauk í lok árs 2017 þar sem kærandi afsalaði sér forsjá barnsins. Þrátt fyrir þessa erfiðu lífsreynslu að vera nauðug í að afsala sér forsjá barns síns, þá hafi sagan endurtekið sig. Í matsgerðum sé gert mikið úr þeim áhættuþætti að ef kærandi falli aftur að þá gæti stúlkan skaðast varanlega svo mikið sé áfall þessarar stúlku á stuttri ævi hennar. Kærandi hafi aðeins haldið sér edrú í rúmt ár og því engan vegin tímabært að auka umgengnina svo mikið líkt og kærandi gerir kröfu um. Tíminn verði að leiða í ljós árangur og stöðugleika stúlkunnar og sömuleiðis kæranda. Þá getur kærandi með vísan til 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga óskað eftir endurskoðun á hinum kærða úrskurði að liðnum hið minnsta 12 mánuðum frá því að umdæmisráð kvað upp úrskurð sinn.

Staðan í dag sé þannig eins og fram hafi komið að kærandi hafi nú verið svipt forsjá með dómi eftir að öll dómstig hafa verið tæmd og því loks núna komin ákveðin endapunktur. Umgengni hafi tekið mið af hagsmunum stúlkunnar miðað við viðkvæma stöðu hennar og sé þörf á frekari stöðugleika hvað það varðar að sinni. Kröfur kæranda séu því óraunhæfar á þessum tímapunkti í lífi stúlkunnar. Það hafi verið mikil vinna í skrefum með stúlkuna, fyrst ákveðin rannsóknarvinna í gegnum Barnahús svo greiningarvinna og sé nú vinna hafin með sálfræðingi þar sem þess sé óskað að líðan stúlkunnar verði metin út frá mögulegri áfallastreituröskun hennar og að lagt verði mat á getu og þörf stúlkunnar á sálfræðilegri meðferð. Þá hafa fósturmæðurnar ávallt verið í handleiðslu til þess að geta verið til staðar fyrir stúlkuna út frá þeim áföllum sem hún hefur gengið í gegnum. Allt taki þetta tíma með jafn ungt barn og stúlkan sé og því óraunhæft að ætla að þessi vinna ætti að vera löngu hafin líkt og haldið sé fram í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Rétt sé að benda á að réttur aðila til að njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu má takmarka ef brýn nauðsyn ber til vegna réttinda annarra sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hér sé verið að gæta að réttindum stúlkunnar, en hún eigi rétt á öryggi, vernd og umönnun sem velferð hennar krefst. Allar ákvarðanir er varði börn í störfum barnaverndarþjónustu séu byggðar á því sem börnum sé fyrir bestu. Við mat á því hvort umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barna sé litið til þess hversu lengi fóstrinu sé ætlað að vara. Í máli þessu sé það óumdeilt að stúlkan verði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Svo aukin umgengni líkt og kærandi gerir kröfum um samrýmist ekki þeim markmiðum sem stefnt sé að með varanlegu fóstri og sér í lagi ekki að svo stöddu. Það sé meginregla í barnarétti að þar sem réttindi barna og foreldra togast á, vega hagsmunir barna þyngra. Eins erfitt og það sé fyrir kæranda að sætta sig við það þá sé mál þetta þannig í dag að stúlkan þarf lengri tíma áður en umgengni sé aukin.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið auk meðfylgjandi gagna skal það áréttað að ekki sé á nokkum hátt efast um ást móður í garð dóttur sinnar og skiljanlegt að hún þrái meiri samveru við stúlkuna. Það sé hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að móðir hafa áður lagt upp með að taka á sínum málum en ekki náð að sýna úthald. Þykir slíkt fullreynt og sé það mat barnaverndarþjónustu B að kærandi verði að sýna fram á meiri stöðugleika og veita stúlkunni meira svigrúm til að vinna úr sínum áföllum.

IV. Afstaða stúlkunnar

Með vísan til ungs aldur stúlkunnar var henni ekki útvegaður talsmaður eða afstöðu hennar til umgengni aflað sérstaklega.

V. Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til kærunnar með tölvupósti 14. nóvember 2023. Í svari fósturforeldra sem barst með tölvupóst samdægurs kemur fram að þau hafi ekki breytt skoðun sinni varðandi aukna umgengni kæranda við stúlkuna. Frá því að úrskurður féll hafi verið ein umgengni sem gekk vel en hún hafði mikil áhrif andlega og líkamlega á líðan stúlkunnar eins og áður hefur verið. Telja fósturforeldrar því að aukin umgengni verði ekki til hagsbóta fyrir stúlkuna og benda á að stúlkan sé nú byrjuð í meðferð hjá sálfræðingi vegna áfallastreitu.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, D er X ára gömul og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að stúlkan hefði umgengni við kæranda þrisvar sinnum á ári, í þrjár klukkustundir í senn að fósturmæðrum viðstöddum. Þá var ákveðin umgengni í formi myndsímtala í tvö skipti á ári, frá 1. janúar 2024.

Í hinum úrskurðinum kemur fram að stúlkan hafi verið vistuð hjá fósturforeldrum síðan í janúar 2022, þá nýlega orðin X ára gömul. Fram kemur að stúlkan sé í afar viðkvæmri stöðu og mikilvægt sé að ró hennar verði ekki raskað með aukinni umgengni eins og þeirri sem kærandi gerir kröfu um.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um aukna umgengni. Þá krefst kærandi þess að umgengni verði án eftirlits. Að lokum krefst kærandi þess að úrskurðanefnd velferðarmála úrskurði um kvaðningu tengslasérfræðings til að meta tengsl móður og barns og hagsmuni barnsins af umgengninni.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði. Í þessu felst meðal annars að úrskurðarnefndin getur ekki úrskurðað um aukna umgengni eða um kvaðningu tengslasérfræðings.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu B, sem lögð var fyrir umdæmisráð G, kemur fram að stúlkan hafi frá upphafi vistunar átt mjög erfitt eftir umgengni þó hún virðist njóta sín meðan á henni stendur. Stúlkan verði óörugg í fasi, pissar á sig, á erfitt með svefn og verður erfiðari í hegðun. Þá virðast gamlar minningar skjóta upp kollinum og fer stúlkan þá að ræða fjölskyldu sína, aðstæður og áföll sem hún hefur upplifað sem valda henni kvíða og vanlíðan. Þá talar hún ítrekað um eftir umgengni að fósturforeldrar megi ekki skilja sig eftir og sýnir hegðun sem bendir til óöryggis og hræðslu. Þetta eigi bæði við um umgengni á staðnum og rafræna umgengni. Umgengi að viðstöddum fósturforeldrum virðist henta stúlkunni betur. Stúlkan sé hvatvís og eigi erfitt með skap og hegðun auk þess sem allar breytingar eru henni erfiðar. Þá sé aðlögun í varanlegri vistun enn í gangi og staða stúlkunnar viðkvæm. Forsenda þess að stúlkunni líði betur er að stöðugleiki ríki í hennar daglega lífi og að auka við umgengni er ekki talið þjóna hagsmunum hennar að svo stöddu. 

Samkvæmt gögnum málsins var afstöðu stúlkunnar ekki aflað vegna ungs aldurs hennar. Afstaða fósturforeldra er að aukinn umgengni stúlkunnar við kæranda stúlkan setji líðan hennar og aðlögun í uppnám og séu henni tilfinningalega of erfið og krefjandi.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi. Þó að líðan stúlkunnar hafi skánað undanfarið eftir umgengni, verður að telja að með því að gera breytingu á umgengni yrði þar með tekin áhætta að raska þeim stöðugleika sem þarf að vera í lífi hennar. Með hliðsjón af núverandi aðstæðum þá telur úrskurðarnefndin að líðan og öryggi barnsins sé best tryggt með því að umgengni fari fram undir eftirliti. 

Með hliðsjón af atvikum máls verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs G frá 14. júlí 2023. Kröfu kæranda um að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði til tengslasérfræðing er vísað frá nefndinni.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs G frá 14. júlí 2023 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

Kröfu kæranda um að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði til tengslasérfræðing er vísað frá nefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta