Mál nr. 234/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 234/2020
Mánudaginn 24. ágúst 2020
A
gegn
Barnaverndarnefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur
Með kæru, móttekinni 5. maí 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B 7. apríl 2020 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan D er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 16. júní 2020. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.
Mál stúlkunnar hefur verið til meðferðar hjá Barnavernd B frá því að hún var í móðurkviði. Stúlkan hefur ekki verið í umsjá kæranda frá því í apríl 2019 þegar beitt var neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Stúlkan hefur verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum sínum í tímabundnu fóstri frá 25. júní 2019.
Á fundi Barnaverndarnefndar B 1. október 2019 var ákveðið að höfða forsjársviptingarmál fyrir Héraðsdómi B þar sem gerð var krafa um að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar.
Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 16. október 2019 var bókað að á meðan forsjársviptingarmálið yrði rekið fyrir dómstólum yrði umgengni á þriggja vikna fresti, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti og í húsnæði Barnaverndar B eða á stað sem aðilar kæmu sér saman um. Kærandi samþykkti ekki tillöguna en féllst á eina umgengni samkvæmt fyrirkomulagi í tillögu starfsmanna þar til málið yrði lagt fyrir barnaverndarnefnd. Umgengni fór fram 3. nóvember 2019 en alvarlegt atvik kom upp í umgengninni þegar kærandi […]. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 6. nóvember 2019 var lagt til að engin umgengni yrði á milli kæranda og stúlkunnar fyrr en kærandi hefði leitað sér meðferðar vegna Í vanda og sýnt fram á árangur. Að mati starfsmanna Barnaverndar B væri ekki hægt að tryggja öryggi stúlkunnar, fósturforeldra og starfsmanna Barnaverndar B á meðan Í vandi kæranda væri ómeðhöndlaður. Engin umgengni var frá 3. nóvember til 27. desember 2019 vegna […]kæranda sem var lögð inn á E vegna veikinda sinna þann 11. nóvember 2019. Kærandi er […] samkvæmt úrskurði Héraðsdóms B frá 6. mars 2020.
Kærandi skilaði sér ekki úr leyfi af E 11.–12. janúar 2020 og féll í neyslu. Á fundi Barnaverndarnefndar B þann 22. janúar 2020 var lagt til að umgengni færi ekki fram fyrr en kærandi væri í betra jafnvægi. Upplýsingar bárust frá E í lok janúar 2020 um batnandi líðan kæranda. Í kjölfarið var bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 6. febrúar 2020 að umgengni yrði til reynslu í eitt skipti á E í 30 mínútur. Umgengni fór fram þann 7. febrúar og gekk vel.
Kærandi óskaði eftir vikulegri umgengni við stúlkuna og jafnframt að fallið yrði frá kröfum um að hún yrði svipt forsjá stúlkunnar. Fjallað var um umgengni kæranda við stúlkuna á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 14. febrúar 2020 þar sem lagt var til að umgengni yrði á þriggja vikna fresti í eina klukkustund í senn undir eftirliti. Töldu starfsmenn að þannig yrði hægt að viðhalda tengslum stúlkunnar og kæranda. Samkvæmt tillögum starfsmanna átti umgengni að vera með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmálið væri rekið fyrir dómstólum.
Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengnina á fundi nefndarinnar þann 7. apríl 2020. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, á þriggja vikna fresti í klukkustund í senn. Umgengni verði undir eftirliti í húsnæði geðdeildar, Barnaverndar eða á öðrum stað sem aðilar koma sér saman um. Fósturforeldrum er heimilt að vera viðstaddir umgengnina kjósi þeir það. Skilyrði er að móðir sé í jafnvægi og edrú þegar umgengni fer fram. Umgengni verði með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmálið er rekið fyrir dómstólum.“
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. maí 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. maí 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 11. júní 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess aðallega að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að umgengni verði aðra hvora helgi eða aðra hvora viku. Þá verði umgengni í gegnum Skype eða sambærilega myndsímtalatækni þá viku sem umgengni við kæranda fari ekki fram. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði ákveðin meiri en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.
Kærandi sé með H og sé á H lyfjameðferð. Hún sé ekki metin hættuleg sjálfri sér eða öðrum inni á deild. Að mati fagteymis hamli Í ástand henni ekki að hitta barnið. Samskipti við lækna og aðra fagaðila hafi verið góð og kærandi verið til fullrar samvinnu. Batahorfur séu góðar. Hún sýni ábyrgð á eigin bata en kærandi hafi haldið húsnæði sínu þrátt fyrir veikindi sín.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala frá 24. mars síðastliðnum hafi kærandi verið talin í það góðu jafnvægi að hún gæti farið heim í tímabundið leyfi en stuðningur hafi verið veittur í formi daglegra símtala. Kærandi hafi þá verið metin hvorki hættuleg sjálfri sér né öðrum og til hafi staðið að endurmeta stöðuna þegar samkomubanni yrði aflétt.
Kærandi kveðist hafa verið útskrifuð frá Landspítala þann 27. mars síðastliðinn. Hún hafi engin Hreinkenni haft í langan tíma og sinni lyfjagjöf og bata sínum óaðfinnanlega. Staða kæranda sé allt önnur nú en þegar forsjársviptingarmál hófst í héraðsdómi. Af þeim sökum sé mikilvægt að tengslum barns og kæranda verði viðhaldið eins sterkum og unnt sé þar sem ekki sé útséð um hvort barnið muni snúa aftur til kæranda. Því séu ríkir hagsmunir barnsins að halda tengslum við kæranda með meiri umgengni en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Barnaverndarnefnd B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Kynforeldrar eigi með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengi sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Lagagreinin kveði á um rétt kynforeldra til umgengni við börn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldri og aðra nákomna samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.
Tillögur starfsmanna um umgengni, sem hafi verið lagðar fram á fundi Barnaverndarnefndar B þann 31. mars 2020 og nefndin fallist á, byggi á því að stuðlað verði að því að stúlkan upplifi ró í lífi sínu og hagsmunir hennar hafðir að leiðarljósi. Nefndin bendi á að rúmt ár sé síðan stúlkan, sem sé einungis tveggja ára gömul, hafi verið í umsjá kæranda. Gögn málsins beri með sér að stúlkan hafi aðlagast fósturvistun vel. Umgengni við kæranda hafi gengið vel eftir að hún hafi verið til samvinnu um að þiggja aðstoð vegna Í vanda síns. Ekki sé litið fram hjá því að geðslag kæranda hafi verið í miklu ójafnvægi. Þegar ákvörðun Barnaverndarnefndar B um umgengni var tekin hafi einungis mánuður verið liðinn frá því að kærandi hafi[…]. Kærandi sé komin skammt á veg með að vinna í sínu máli og málið afar viðkvæmt af þessum sökum.
Kærandi sé nú í samstarfi við fagaðila og hennar Í vandi meðhöndlaður. Það sé jákvætt fyrir stúlkuna að líðan kæranda sé góð og hún í jafnvægi þegar umgengni fari fram. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með því að kærandi eigi umgengni við stúlkuna á þriggja vikna fresti á meðan málið væri rekið fyrir dómstólum sé gætt að því að tengslum mæðgnanna sé viðhaldið og umgengni í samræmi við hagsmuni stúlkunnar. Frá 2. apríl til 25. júní 2019 hafi stúlkan verið vistuð […]. Hún hafi verið í umsjá fósturforeldra frá þeim tíma og hafi ríka hagsmuni af því að stöðugleiki sé í hennar lífi.
Með vísan til framangreinds, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. þyki umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.
IV. Niðurstaða
Stúlkan D er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 16. júní 2020. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.
Með hinum kærða úrskurði frá 7. apríl 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna á þriggja vikna fresti í klukkustund í senn. Umgengni yrði undir eftirliti í húsnæði geðdeildar, barnaverndar eða á öðrum stað sem aðilar kæmu sér saman um. Fósturforeldrum væri heimilt að vera viðstaddir umgengnina. Skilyrði væri að kærandi væri í jafnvægi og edrú þegar umgengni færi fram. Umgengni yrði með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum.
Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði aðra hvora helgi eða aðra hvora viku. Þá verði umgengni í gegnum myndsímtal þá viku sem hefðbundin umgengni fari ekki fram. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði ákveðin meiri en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi glímt við alvarleg veikindi um langan tíma. Staða kæranda hefur verið mjög óstöðug og mikilvægt í ljósi ungs aldurs stúlkunnar að tryggja öryggi hennar, velferð og þroskamöguleika.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna við foreldra er ákveðin á meðan forsjársviptingarmál eru rekin fyrir dómstólum.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 7. apríl 2020 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson