Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 127/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 127/2020

Mánudaginn 8. júní 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd E

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 6. mars 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar E, dags. 11. febrúar 2020, um að drengurinn C, fái lyf og undirgangist sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X aldursári en hann er sonur kæranda og D. Kærandi fer ein með forsjá drengsins. Drengurinn á X systkini sammæðra, X eldri og X yngra.

Mál drengsins hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu 2006, en á árunum 2014-2018 var mál drengsins til meðferðar hjá Barnavernd H vegna áreitis og hótana kæranda í garð [… ]. Kærandi hlaut þriggja ára skilorðsbundinn dóm vegna þessa. Máli drengsins var lokað sumarið 2018 þar sem hann dvaldi erlendis með kæranda og aðstæður hans óþekktar. Alls hafa borist 42 tilkynningar og þrjár bakvaktarskýrslur vegna drengsins til Barnaverndar E og hefur hann verið vistaður X sinnum utan heimilis, X sinni á vegum Barnaverndar E þegar hann var nýfæddur og í X skipti á vegum Barnaverndar H á árunum 2014-1016. Ítrekaðar tilkynningar hafa borist frá skóla drengsins á árunum 2018 til 2020 þar sem miklar áhyggjur hafa verið af námi hans, hegðun og líðan. Tilkynningarefni frá skóla voru langar, óútskýrðar fjarverur drengsins frá skóla, jafnvel mánuðum saman, og erfið hegðun hans þegar hann var í skólanum. Hegðun drengsins hafi farið versnandi í skóla og fari ekkert nám fram sökum hegðunar hans, auk þess sem hegðun hans hafi mikil áhrif á skólastarf og kennslu samnemenda hans. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að kærandi samþykki stuðning í skóla en það hafi ekki gengið eftir. Kærandi hafi einnig hafnað stuðningi og samvinnu við Barnavernd E. Þann 2. febrúar 2020 hafi för kæranda úr landi með drenginn og bróður hans verið stöðvuð og neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. bvl. verið beitt.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 4. febrúar 2020 þar sem fyrir lá tillaga um að drengurinn myndi vistast utan heimilis kæranda í sex mánuði og að gerð yrði áætlun um meðferð máls á grundvelli 23. gr. bvl. þar sem fram komi að sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat verði gert á stöðu og líðan drengsins og að kærandi verði til samvinnu um að drengurinn fái þau lyf sem hann er í þörf fyrir. Á fundi nefndarinnar kom fram að kærandi væri ekki til samvinnu við Barnavernd E og var málið því tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd E ákveður að drengurinn C, fái nauðsynleg lyf og undirgangist sálfræðilegt- og læknisfræðilegt mat á grundvelli b liðar 1. mgr. 26. gr. barnavernarlaga nr. 80/2002

Úrskurður þessi gildir í sex mánuði.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. mars 2020. Með bréfi, dags. 11. mars 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndarnefndar E. Greinargerð Barnaverndarnefndar E barst 31. mars 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Með tölvupósti, dags. 20. maí 2020, tilkynnti lögmaður kæranda að hún gætti ekki lengur hagsmuna kæranda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar E, dags. 11. febrúar 2020, og þess krafist hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Í kæru kemur fram að með hinum kærða úrskurði hafi Barnaverndarnefnd E úrskurðað að C fengi nauðsynleg lyf og undirgengist sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl

Í gögnum frá barnavernd sé ekkert sem liggur fyrir um að barnið hafi einhverja sjúkdóma og þurfi lyf, hvað þá nauðsynleg lyf. Engin vottorð liggi fyrir frá læknum, sjúkdómsgreiningar eða annað. Það eina sem liggi fyrir í málinu sé ADHD greining frá árinu 2015.

Kærandi vilji koma því á framfæri að frá því að C hafi verið greindur með ADHD hafi barnavernd og skóli drengsins ítrekað reynt að koma því við að hún samþykki að barnið taki lyf vegna þeirrar greiningar. Kærandi sé hins vegar ekki sammála því að barnið þurfi lyf við ADHD og sé ósátt við að verið sé að ota því að henni að gefa barninu amfetamínskyld lyf þar sem hún hafi áhyggjur af því að um ávanabindandi lyf sé að ræða. Afar skiptar skoðanir séu á meðal fræðimanna og lækna um gæði og gildi þessara lyfja og því telji kærandi að það ætti að mæta meiri skilningi að hún vilji ekki að barnið verði sett á þessi lyf.

C sé afar glaður, orkumikill og fjörugur drengur og fari oft mikið fyrir honum. Að mati kæranda þurfi hann eingöngu fleiri möguleika til að hleypa út orkunni yfir skóladaginn en að vera hann lyfjaður niður með ávanabindandi lyfjum. Kærandi kveður skólann ekki hafa viljað taka þetta til greina og svarið sé ávallt það að barnið sé með hegðunarvandamál og þurfi lyf við ADHD. Drengurinn hafi meira að segja verið tekinn úr […] sem hafi hjálpað honum að hleypa út orku þar sem hann hafi ekki þótt hegða sér nægilega vel í þeim tímum.

Að mati kæranda sé skólakerfið á Íslandi einfaldlega ekki byggt fyrir börn sem passa ekki inn í hið fyrir fram ákveðna box. Það sé ekki þar með sagt að það sé eitthvað að barninu og að það þurfi að passa inn í þetta box. Hvað þá að það þurfi að gefa barninu lyf til þess að passa í boxið.

Að mati kæranda sé það kerfið sem sé vandamálið en ekki barnið og því sé ekki þörf fyrir sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat eða lyfjagjöf.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar E

Í greinargerð Barnaverndarnefndar E kemur fram að samkvæmt greiningu frá Þroska- og hegðunarstöð, dags. 25. mars 2015, sé drengurinn greindur með ADHD, kækjaröskun og einkenni áráttu og þráhyggju, skynúrvinnsluvanda, slaka fínhreyfifærni, vitsmunaþroska rétt undir meðallagi, geðrænan vanda í fjölskyldu og erfiðleika í félagslegu umhverfi. Í bréfi G, dags. 8. október 2018, komi meðal annars fram að drengurinn sé á lyfinu Concerta vegna ADHD greiningar. Í samtali við barnalækni þann 26. mars 2020 hafi komið fram að drengnum hafi verið ávísað Concerta 18 mg og einnig hafi G ávísað lágum skammti af Rison.

Samkvæmt gögnum málsins hafi skólaganga drengsins gengið erfiðlega sl. ár en hann hafi eytt löngum tímabilum erlendis með kæranda. Engar upplýsingar liggi fyrir um hvort drengurinn hafi sótt skóla/nám þau tímabil. Þegar drengurinn sé á landinu gangi hann í P en lítið nám hafi farið fram þar sl. ár þar sem hegðun drengsins sé erfið. Hann sé ofbeldisfullur gagnvart starfsfólki og samnemendum og ekki hafi reynst gerlegt að hafa drenginn inni í almennum kennslustundum. Áhyggjur hafi verið af uppeldisaðstæðum drengsins þar sem hann hafi ekki viljað fara heim úr skólanum og ítrekað ekki verið í viðeigandi fatnaði í skólanum. Kærandi hafi ítrekað neitað að sótt verði um aðstoð fyrir drenginn á vegum skólans. Að hálfu skólans hafi verið reynt að fá hana til samstarfs svo að hægt væri að vinna með hegðun drengsins en hún hafi neitað að skrifa undir umsóknir um stuðning og brugðist illa við beiðnum skólastjórnenda. Hafi starfsmenn skólans þurft að slíta samtölum við kæranda þar sem hún hafi verið dónaleg og ógnandi við skólastarfsmenn. Kærandi hafi einnig neitað að vera í samvinnu við Barnavernd E og sagt starfsmenn óhæfa og hafi bannað starfsfólki að koma nálægt drengnum eða systkinum hans.

Fjallað hafi verið um mál drengsins á fundi Barnaverndarnefndar E þann 4. febrúar 2020. Fyrir fundinum hafi legið greinargerð starfsmanna, dags. 30. janúar 2020, með tillögu um að drengurinn vistist utan heimilis kæranda í sex mánuði og að gerð væri áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. bvl. þar sem fram komi að sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat verði gert á stöðu og líðan drengsins og að kærandi verði til samvinnu um að drengurinn fái þau lyf sem hann sé í þörf fyrir. Í greinargerð starfsmanna komi fram að í ljósi þess að alvarlegar áhyggjur séu af drengnum, hegðun hans og uppeldisaðstæðum og þar sem ekki hafi gengið að fá kæranda til samvinnu, hvorki við skóla né barnavernd, sé lagt til að drengurinn verði vistaður utan heimilis í allt að sex mánuði. Ekki þurfi að grípa til svo íþyngjandi aðgerða ef kærandi samþykki stuðning fyrir drenginn í skóla en ekki sé hægt að líta fram hjá alvarlegri hegðun hans og líðan og vanrækslu kæranda varðandi skólamál og aðbúnað drengsins. Kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum þann 4. febrúar 2020 og gert grein fyrir afstöðu sinni. Mótmælti kærandi því að vera í samstarfi við Barnavernd E og kom fram að hún væri ekki sátt við vinnubrögð og starfsmenn nefndarinnar.

Niðurstaða nefndarinnar þann 4. febrúar 2020 hafi verið sú að vista drenginn utan heimilis kæranda á grundvelli 27. gr. bvl. vegna mikilla áhyggna af velferð, öryggi og líðan drengsins í umsjá kæranda þar sem hann hafi búið við óviðunandi uppeldisaðstæður og verið vanræktur. Í niðurstöðu sinni hafi nefndin vísað til þess að barnaverndaryfirvöldum sé skylt að beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu börnum fyrir bestu og það sé mat nefndarinnar að hagsmunir drengsins séu best tryggðir með því að vistast utan heimilis til að tryggja honum stöðugleika og öruggar aðstæður um leið og unnið verði að því bæta uppeldisaðstæður hans í umsjá kæranda. Hafi T verið falið að krefjast þess fyrir dómi að vistun drengsins standi í fjóra mánuði til viðbótar. Enn fremur hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt sé að drengurinn fái nauðsynlega lyfjagjöf og undirgangist sálfræðilegt mat. Þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir því að gerð yrði áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. bvl. um fyrirgreint, hafi verið úrskurðað á grundvelli 26. gr. bvl. um að drengurinn fengi nauðsynlega lyfjagjöf og myndi undargangast sálfræðilegt mat. Lágu úrskurðir nefndarinnar fyrir þann 11. febrúar 2020. Þann 18. febrúar 2020 hafi verið farið á heimili kæranda og úrskurði samkvæmt 27. gr. bvl. framfylgt með aðstoð lögreglu og lásasmiðs þar sem kærandi hafi ekki verið í samvinnu við Barnavernd E. Drengurinn hafi frá 18. febrúar 2020 dvalið í búsetuúrræði á vegum M á meðan mál hans sé metið með tilliti til stuðningsþarfa hans. Sótt hafi verið um styrkt fóstur þegar stuðningsþörf hans liggur fyrir. Kærandi hafi undirritað meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. þar sem hún meðal annars samþykkti að undirgangast forsjárhæfnimat og geðmat. Hún hafi dregið samþykki sitt fyrir fyrrgreindu til baka. Kærandi hafi verið með ógnandi tilburði á samfélagsmiðlum og birt myndbönd þar sem hún hafi verið fyrir utan skrifstofur M þar sem hún taldi drenginn dvelja. Á fundi barnaverndarnefndar þann 17. mars 2020 hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að brýnir hagsmunir drengsins mæli með því að dvalarstað hans verði haldið leyndum en fyrir fundinn lá það mat starfsmanna að það þjóni hagsmunum drengsins best að dvalarstað hans verði haldið leyndum til að tryggja stöðugleika hans, enda væri staða kæranda slæm, hún væri í miklu andlegu ójafnvægi og óútreiknanleg og tilefni væri til að hafa miklar áhyggjur af óstöðugleika hennar. Það séu ekki hagsmunir drengsins að kærandi geti mætt fyrirvaralaust fyrir utan vistunarúrræði hans þar sem slíkar heimsóknir kæranda hafi áhrif á andlega líðan og jafnvægi drengsins. Þá hafi kærandi ítrekað verið að birta viðkvæmar persónuupplýsingar og trúnaðargögn um drenginn, meðal annars skýrslu talsmanns, á samfélagsmiðlum. Mál drengsins verði lagt fyrir fund nefndarinnar 31. mars 2020 með tillögu um að úrskurðað verði um heftan aðgang kæranda og lögmanns hennar að gögnum málsins á grundvelli 2. mgr. 45. gr. bvl., en fyrir liggur það mat starfsmanna að tryggja þurfi hagsmuni drengsins með tilliti til einkalífs og að kærandi hafi sýnt dómgreindarbrest með birtingu trúnaðargagna sem skaði hagsmuni drengsins, sbr. bókun meðferðarfundar þann 20. mars 2020. Þá hafi löglærður talsmaður drengsins einnig gert alvarlegar athugasemdir við birtingu talsmannaskýslu og krafist þess að slíkar birtingar eigi sér ekki stað í framtíðinni með hagsmuni drengsins að leiðarljósi.

Vel hafi gengið með drenginn á M á vistunartíma og hafi hann sýnt framfarir gagnvart starfsmönnum og í hegðun en hann sé í þörf fyrir mikið utanumhald og hlýju. Drengurinn hafi fengið að vera í símasambandi við kæranda á tímabili vistunar en hann hafi takmarkað viljað hringja í hana eða svara símtölum hennar. Í skýrslu löglærðs talsmanns, dags. 13. mars 2020, komi fram að afstaða drengsins sé sú að hann vilji fara aftur í umsjá kæranda en líðan hans á M sé góð. Á tímabili vistunar drengsins á M hafi verið unnið að því að fá þjónustu fyrir drenginn, bæði hjá G og sálfræðingi. Mál drengsins hafi í því skyni verið tekið fyrir þann 21. febrúar 2020 á samráðsfundi á X þar sem óskað hafi verið eftir aðkomu G fyrir drenginn í ljósi þess hve erfiða hegðun drengurinn hefði sýnt í skóla og einnig vegna vanlíðanar. Fram kom hjá starfsmönnum G að búið væri að loka máli drengsins hjá þeim og ekki væri ástæða eins og staðan væri nú til að skoða málið frekar. Fram kom að drengurinn væri með uppáskrifuð lyf frá barnalækni í L og réttast væri að hafa samband við hann vegna drengsins. Einnig hafi verið lagt til af starfsmanni G að sálfræðingar barnaverndar myndu hitta drenginn og skima hann fyrir áfallasteitu og öðru. Þessu hafi verið mótmælt, bæði af starfsmanni barnaverndar og skólahjúkrunarfræðingi P þar sem drengurinn hefði sýnt af sér langvarandi hegðunarerfiðleika og vanlíðan.

Eins og staðan sé núna sé drengurinn ekki á neinum lyfjum og sé það mat starfsmanna Barnaverndar E að ekki sé þörf á lyfjagjöf fyrir drenginn að svo stöddu þar sem vel hafi gengið með hann á M. Mögulega þurfi hins vegar að endurskoða það þegar drengurinn sé kominn í skóla og reynsla fæst af hegðun hans í slíkri rútínu varðandi skóla og reynsla sé komin á hegðun drengsins og þarfir þar.

Hvað varði aðkomu sálfræðings hafi málsstjóri rætt við yfirmann á M vegna drengsins, sbr. dagál, dags. 18. mars 2020. Óskað hafi verið eftir að sálfræðingur myndi hitta drenginn til að þess að byrja með í úrræði M þar sem þeir gætu eytt tíma saman og kynnst áður en sest yrði niður í formlegum sálfræðitíma. Úrræði M sé tímabundið lokað vegna Covid-19 og muni þessi vinna fara af stað um leið og ástandið breytist. Ákveðið hafi verið að fara þessa leið þar sem drengurinn hafði sagt við talsmann að hann vildi ekki hitta sálfræðing. Ekki hafi verið talið ráðlegt að neyða drenginn í sálfræðiviðtöl heldur leyfa honum að kynnast sálfræðingnum í rólegheitum fyrst.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til forsendna niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar frá 11. febrúar 2020 sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Ljóst sé að kærandi sé ekki í neinni samvinnu um að tryggja hagsmuni drengsins, rétt hans til lyfja, verði hann talinn í þörf fyrir þau, eða til sálfræðiaðstoðar. Það sé mat starfsmanna Barnaverndar E og Barnaverndarnefndar E að mikilvægt sé að drengurinn fái þau lyf sem hann sé talinn í þörf fyrir, verði það niðurstaða lækna, og einnig að hann fái sálfræðiþjónustu vil að vinna úr þeim áföllum og þeirri vanrækslu sem hann hafi búið við í umsjá kæranda.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er á X aldursári og fer kærandi ein með forsjá hans. Kærandi er móðir drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar E var ákveðið að drengurinn fengi nauðsynleg lyf og myndi undirgangast sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. Kærandi telur að drengurinn sé ekki í þörf fyrir sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat eða lyfjagjöf.

Í 1. mgr. 26. gr. bvl. eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. getur barnaverndarnefndin við þessar aðstæður gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skulu ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. hennar ávallt vera tímabundnar og standa eigi lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

Í málinu liggur fyrir að drengurinn á við margvíslega erfiðleika að stríða. Þessu til stuðnings liggur fyrir greining frá 25. mars 2015 þar sem fram kemur að drengurinn glími við ADHD, kækjaröskun, áráttu, þráhyggju og fleira. Í málinu liggur að drengurinn hefur verið að nota lyf vegna erfiðleika sinna.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ráðið af gögnum málsins að brýna nauðsyn beri til að drengurinn fái viðeigandi læknisfræðilega meðferð. Einn þáttur í þeirri meðferð er lyfjagjöf eftir ráðleggingum læknis. Úrskurðarnefndin telur að það þjóni hagsmunum drengsins best að hann fái viðeigandi þjónustu og meðferð í samræmi við greiningar sínar. Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar E, dags. 11. febrúar 2020, um að C, fái nauðsynleg lyf og undirgangist sálfræðilegt og læknisfræðilegt mat, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta