Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 309/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 309/2021

Fimmtudaginn 30. september 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 24. júní 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. júní 2021 vegna umgengni hans við D, og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul stúlka og E er X ára gamall drengur. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en móðir afsalaði sér forsjá þeirra með dómsátt þann 5. febrúar 2018. Faðir hefur aldrei farið með forsjá barnanna. Kærandi er móðurafi barnanna.

Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 1. júní 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 27. maí 2021. Að mati starfsmanna eru það ekki hagsmunir barnanna að hitta móðurafa í umgengni að svo stöddu til þess að mynda ný tengsl þar sem móðurafi hafi ekki verið í miklum samskiptum við börnin. Það séu því engin rök fyrir því að fara gegn vilja barnanna. Kærandi var ekki samþykkur mati starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 10. júní 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að Dog E, njóti ekki umgengni við móðurafa barnanna, A.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála þann sama dag var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 16. júlí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi, dags.  13. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála frekari upplýsinga í málinu frá Barnaverndarnefnd B. Svör bárust með bréfi, dags. 24. september 2021, og voru þau send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum veitt umgengni við börnin í samræmi við kröfur hans fyrir nefndinni. Kröfurnar séu þær að eiga umgengni við börnin fyrst einu sinni í viku á fjögurra vikna tímabili til aðlögunar. Í fyrstu viku eigi börnin klukkustundar umgengni við kæranda á heimili móður að móður viðstaddri. Í annarri viku verði umgengni við kæranda í klukkustund á heimili kæranda með móður. Í þriðju viku verði umgengni við kæranda á heimili móður í klukkustund með móður og í tuttugu mínútur án hennar. Í fjórðu viku verði umgengni við kæranda á heimili móður í 90 mínútur með móður en í tuttugu mínútur án hennar. Eftir aðlögunartímabil verði afstaða barnanna til reglulegrar umgengni könnuð. Eftir það verði umgengni við kæranda einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn. 

Fram kemur í kæru að málið hafi verið tekið fyrir vegna kröfu kæranda um umgengni við barnabörn sín sem séu í varanlegu fóstri en móðirin hafi verið þvinguð til að afsala sér forsjá þeirra með dómsátt þann 5. febrúar 2018. Umgengniskröfunni hafi fylgt ítarleg greinargerð þar sem skýrðar séu forsendur kæranda fyrir kröfunni og vísað til íslenskra laga, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B sé enga umfjöllun að finna um rök kæranda fyrir kröfunni heldur látið við það sitja að nefna þau án þess að þeim sé í nokkru svarað.

Ekkert sé fjallað um þá staðreynd að það sé barnaverndarnefnd sem beri ábyrgð á því að tengsl barnanna við kæranda hafi verið rofin. Grundvallarforsendan fyrir dómsátt þeirri sem hafi verið gerð þann 5. febrúar 2018 hafi verið sú að móðir barnanna hefði við þau ríkulega umgengni. Hefði það gengið eftir hefði kærandi umgengist barnabörn sín reglulega, líkt og hann hafi gert áður. Þar sem barnavernd hafi ekki staðið við það samkomulag sem hafi verið gert með dómsáttinni, hafi kærandi engan aðgang haft að barnabörnunum sínum frá því að þau hafi verið sett í fóstur. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi dómstóllinn ítrekað lýst því yfir að hafi fjölskyldutengsl verið rofin fyrir tilstuðlan barnaverndaryfirvalda, geti yfirvöldin ekki notað þau tengslarof sem réttlætingu fyrir enn frekari tengslarofum, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málunum ML gegn Noregi, Strand Lobben gegn Noregi og Pedersen gegn Noregi.

Ekki sé þess heldur nein merki að finna í úrskurðinum að barnaverndarnefnd hafi skoðað möguleikann á því að gefa börnunum raunhæft tækifæri til að mynda sér skoðun með því að koma á umgengni fyrst og ræða svo við börnin. Það gefi augaleið að með því að spyrja X ára barn hvort það vilji fá nýjan kennara, lækni eða barnaverndarfulltrúa án þess að gefa því færi á að hitta viðkomandi, yrðu svörin neikvæð. Rétta leiðin sé vitanlega sú að koma fyrst á einhverjum lágmarkssamskiptum og spyrja börnin svo hvort þau vilji frekari samskipti. Vegna tengslarofs barnaverndar á milli kæranda og barnanna, muni börnin ekki eftir kæranda. Ljóst sé að þau geti ekki myndað sér heilbrigða skoðun á því hvort þau vilji samband við hann þegar þau muni ekki hver hann er. Þrátt fyrir þetta komist barnavernd að þeirri niðurstöðu að viðtal sem hafi verið tekið við börnin á heimili fósturforeldra þeirra, án þess að þau hafi fengið neitt nema eina ljósmynd til að grundvalla afstöðu sína á, sé marktæk heimild um vilja barnanna. Og það eftir að börnin hafi verið útilokuð úr lífi kæranda í mörg ár.

Tilgangurinn með rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sé sá að afla nægilegra upplýsinga til þess að hægt sé að taka sem réttustu ákvörðun í máli. Sú regla þjóni litlum tilgangi ef stjórnvöld komist upp með að vísa til raka aðila fyrir kröfum sínum, án þess skoða þau af alvöru og án þess að taka nokkra afstöðu til þeirra. Verði ekki séð að barnaverndarnefnd hafi á nokkurn hátt skoðað rök kæranda í málinu, kynnt sér löggjöfina, dómaframkvæmdina eða þau meginsjónarmið sem liggi að baki rétti barna til að halda tengslum við kæranda, ömmu og aðra nána ættingja.

Bent sé á að réttur barna í fóstri til að halda sambandi við fjölskyldu sína sé túlkaður rúmt, sbr. umfjöllun Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna:

„The Committee urges that references to ‘family’ and ‘school’ not be understood as narrowly defined. The references to ‘family’ (or to ‘parents’) must be understood within the local context and may mean not only the ‘nuclear’ family, but also the extended family or even broader communal definitions including grandparents, siblings, other relatives, guardians or care providers, neighbours, [...]

Engum blöðum sé um það að fletta að á Íslandi teljist afar og ömmur til nánustu fjölskyldu og verði því ekki annað séð en að barnaverndarnefnd beri að taka rökstudda afstöðu til kröfu kæranda um umgengni við börnin. Ekki sé nóg að vísa til vilja barnanna eins og hér standi á, enda hafi Mannréttindadómstóll Evrópu gefið það út að nauðsynlegt sé að skoða á hverju vilji barnsins byggist, sbr. til dæmis umfjöllun dómstólsins í málum Pisica gegn Moldovu og Ignaccolo-Zenide gegn Rúmeníu. Í seinna málinu hafi dómstóllinn tekið fram að kanna þyrfti vilja barnsins við hlutlausar aðstæður en heimili fósturforeldra teljist ekki hlutlaus vettvangur.

Hafa beri í huga að samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu njóti umgengni við barnabörn verndar 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til dæmis dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Beccarini og Ridolfi gegn Ítalíu, Bogonosovy gegn Rússlandi og Manuello og Nevi gegn Ítalíu. Í síðastnefndum dómi dómstólsins hafði Ítalía verið dæmd brotleg gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu vegna þess að ekki hefði verið gert nægilega mikið til að reyna að koma á sambandi á milli afans og ömmunnar annars vegar og barnabarnsins hins vegar. Þó hafi legið fyrir í talsmannsskýrslum að barnið hafi ekki viljað hitta afa sinn og óttaðist hann. Kvað Mannréttindadómstóll Evrópu á um skaðabótaskyldu ríkisins vegna þessa, enda sé sú vernd sem felist í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu afar rík. Í forsendum dómsins hafi meðal annars komið fram:

,,...the Court could not ignore the fact that the applicants had been unable to see their granddaughter for about twelve years and that, despite all their efforts to re-establish the family tie, no measure to that effect had been taken by the authorities. The Court concluded that there had been a violation of the applicant´s rights to respect for family life under Article 8.”

Í því máli sem hér um ræði hafi barnavernd ekkert gert til að tryggja samskipti barnanna við kæranda við upphaf vistunar. Þá hafi barnavernd hvorki upplýst né leiðbeint kæranda um mögulegan rétt sinn til að óska eftir umgengni við barnabörnin. Þá hafi barnavernd engar tilraunir gert til að koma á sambandi á milli þeirra að nýju þegar kærandi hafi sóst eftir því, sbr. mál þetta. Verði ekki annað talið, miðað við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, en að þarna sé um að ræða brot gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða systkinin E á X ári og D X ára. Börnin lúti forsjá Barnaverndarnefndar B en móðir þeirra hafi afsalað sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Faðir barnanna hafi aldrei farið með forsjá barnanna. Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið í máli barnanna frá því í byrjun árs 2013. Börnin hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á F síðan í mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafi aðlagast vel á fósturheimilinu á F og eigi börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína.

Kærandi hafi hingað til ekki átt neina umgengni við barnabörnin frá því að börnin hafi verið vistuð utan heimilis og hafi hann ekki gert kröfu um að eiga umgengni við þau fyrr en nú. Fram hafi komið hjá móður í samskiptum við starfsmenn barnaverndar að kærandi hafi hvorki verið í miklum samskiptum við móður né barnabörn sín áður en þau hafi verið vistuð utan heimilis.

Í bréfi lögmanns kæranda, dags. 10. maí 2021, hafi verið lagt til að kærandi fengi umgengni við barnabörn sín einu sinni í viku, á fjögurra vikna tímabili. Fyrst með móður og svo einnig án hennar. Þegar aðlögunarferli lyki hafi kærandi óskað eftir því að afstaða barnanna varðandi umgengni þeirra, yrði könnuð á ný og hafi hann þá óskað eftir mánaðarlegri umgengni við börnin.

Báðum börnunum hafi verið skipaður talsmaður til þess að afla afstöðu þeirra vegna beiðni um umgengni við kæranda. Í talsmannsskýrslu, dags. 10. mars 2021, hafi komið fram hjá báðum börnunum að hvorugt þeirra ætti minningar um kæranda. D hafi ekki sagst muna eftir honum og E hafi sagt að hann hefði ekki einu sinni munað nafn kæranda. Þegar D hafi verið spurð hvort hún vildi hitta kæranda hafi hún sagt „Ég þarf ekki að hitta hann því ég man ekkert eftir honum þó að ég hafi verið að skoða myndaalbúm þar sem var mynd af honum“. E hafi sagt „Mér finnst óþarfi að hitta hann en ég sagði það ekki síðast en ég er að hugsa það núna. Svo vitum við ekki einu sinni hvort hann er dáinn eða ekki“.

Afstöðu fósturforeldra til kröfu móðurafa um aukna umgengni hafi verið aflað. Afstaða þeirra hafi borist barnavernd þann 17. mars síðastliðinn, en þar hafi komið fram að þau styðji ákvörðun barnanna. Fósturforeldrar setji sig þó ekki upp á móti því að kærandi hitti börnin af og til í umgengni sem þau eigi við móður sína.

Börnin hafi nú búið á fósturheimilinu þar sem þau séu í dag síðan í byrjun árs 2017 og hafi börnin myndað sterk og innihaldsrík tengsl við fósturforeldra sína. Það komi fram hjá fósturforeldrum að börnin upplifi sig sem hluta af samfélaginu á F og séu þau hluti af stórfjölskyldu fósturforeldra. Í dag búi börnin við mikinn stöðugleika, séu í góðu jafnvægi og hafi tekið miklum framförum. Fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið þeim erfið. D hafi glímt við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti. Þá hafi bæði börnin glímt við mikla innri streitu vegna vanrækslu og áfalla sem hafi birst í hegðun þeirra, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og vanda í að mynda og viðhalda tengslum eftir að hafa verið tekin úr streituvaldandi aðstæðum og óöryggi. Bæði börnin hafi á einlægan hátt unnið mikið með áföll sín og tilfinningar og verið opinská um þau við fósturforeldra sína og sálfræðinga. Fyrstu tvö árin á fósturheimilinu hafi bæði börnin haft mikla þörf fyrir öryggi, stöðugleika og traust til að ná jafnvægi og minnka innri streitu og að aðlagast nýju heimili og umhverfi.

Það jafnvægi sem ríki í lífi barnanna í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum og þeim fagaðilum sem börnin hafi notið aðstoðar frá en börnin séu bæði í mánaðarlegum sálfræðiviðtölum. Fósturforeldrar haldi vel utan um þeirra mál og ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á í lífi barnanna. Það sé því mat starfsmanna barnaverndar, út frá gögnum málsins, að ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á í lífi barnanna og af þeim sökum sé mikilvægt að fara varlega í allar breytingar á þeirra högum.

Að mati Barnaverndarnefndar B séu engin rök fyrir því að fara gegn vilja barnanna sem telja sig ekki í þörf fyrir að eiga umgengni við kæranda. Fram komi í skýrslu talsmanns að þau eigi ekki minningar um hann, muni ekki eftir honum og telji sig því ekki í þörf fyrir að eiga við hann sérstaka umgengni. Börnin eigi umgengni við kynforeldra sína og börnin þekki vel sinn uppruna. Umgengni við kæranda sé ekki til þess fallin að búa börnunum öryggi og stöðugleika í lífi þeirra, heldur er þvert á móti hætta á að hún geti raskað þeirri ró sem skapast hefur í lífi barnanna.

Móðir barnanna hafi afsalað sér forsjá þeirra og stefnt sé að því að þau alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Umgengni þurfi því að ákvarðast í samræmi við hagsmuni og þarfir barnanna, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í barnaverndarstarfi gildi sú meginregla að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og fari hagsmunir barnanna og kæranda ekki saman skulu hagsmunir kæranda víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með úrskurði nefndarinnar þann 10. júní 2021 sé fyrst og fremst horft til hagsmuna barnanna. Eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fjallað um í málum sínum séu það lögvarin réttindi barna að þau búi við stöðugleika, frið og ró í varanlegu fóstri, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldrum sínum áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 201/2020 þar sem fjallað sé um umgengni kynforeldris við barn sem vistað sé í varanlegu fóstri, hafi verið tekið fram í niðurstöðu að með umgengni kynforeldris við barnið væri ekki verið að reyna að styrkja tengsl á milli kynforeldris og barns heldur að viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Börnin eigi umgengni við kynforeldra sína og einnig aðra ættingja og því þekki börnin sinn uppruna.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barna

Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 10. mars 2021. Í skýrslu talsmanns kemur fram að D muni ekki eftir kæranda og E hafi verið búinn að gleyma nafninu hans. Aðspurð hvort þau myndu vilja hitta hann sagði D að hún þyrfti þess ekki og E að það væri óþarfi.

V. Afstaða fósturforeldra

Samkvæmt gögnum málsins vilja fósturforeldrar taka afstöðu með börnunum og að börnin hafi enga umgengni við kæranda. Fósturforeldrar hafi bent á að börnin eigi talsvert mikla umgengni við ættingja sína úr upprunafjölskyldu þeirra. Að jafnaði eigi börnin umgengni sjö til átta sinnum á ári við kynforeldra og aðila þeim tengdum. Fósturforeldrar myndu þó ekki setja sig upp á móti því að móðurafi myndi hitta börnin af og til í þeirri umgengni sem þau eiga við móður sína.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul stúlka og Eer X ára gamall strákur. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en kynmóðir afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Kærandi er móðurafi barnanna. Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að kærandi hefði enga umgengni við börnin.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að móðir hafi farið ein með forsjá barnanna fram til 6. febrúar 2018 þegar hún afsalaði sér forsjánni með dómsátt. Börnin hafa verið í fóstri hjá fósturforeldrum frá því í lok mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og svo í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafa aðlagast vel á fósturheimilinu og eiga börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína. Faðir barnanna fór aldrei með forsjá barnanna. Kærandi hafi ekki átt umgengni við börnin frá því að þau voru vistuð utan heimilis árið 2017. Hann hafi frá þeim tíma ekki gert kröfu um umgengni fyrr en nú. Börnin hafa greint talsmanni frá því að þau vilji ekki eiga umgengni við kæranda. Að mati barnaverndarnefndar séu hagsmunir barnanna ekki fólgnir í því að hafa umgengni við kæranda. 

Kærandi, sem eru móðurafi barnanna, krefst þess að eiga umgengni við börnin fyrst einu sinni í viku á fjögurra vikna tímabili til aðlögunar. Í fyrstu viku eigi börnin klukkustundar umgengni við kæranda á heimili móður að móður viðstaddri. Í annarri viku verði umgengni við kæranda í klukkustund á heimili kæranda með móður. Í þriðju viku verði umgengni við kæranda á heimili móður í klukkustund með móður og í tuttugu mínútur án hennar. Í fjórðu viku verði umgengni við kæranda á heimili móður í 90 mínútur með móður en tuttugu mínútum án hennar. Að aðlögunartímabili loknu verði afstaða barnanna til reglulegrar umgengni könnuð. Eftir það verði umgengni við kæranda einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn. 

Kærandi telur að Barnaverndarnefnd B hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Í málinu liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða barnanna áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þá liggur fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, afstaða kæranda og afstaða fósturforeldra. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að barnaverndarnefnd hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd getur á sama hátt ákveðið að aðrir sem telja sig nákomna barninu njóti ekki umgengnisréttar ef hún telur að skilyrðum 2. mgr. sé ekki fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl., er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að börnin færu aftur í umsjá móður. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnanna í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þeirrra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess hvort kærandi teljist nákominn börnunum í skilningi 2. mgr. 74. gr. bvl. en barnaverndarnefnd metur hvort aðili telst nákominn í skilningi lagaákvæðisins. Við lögskýringu á lagaákvæðinu ber að líta til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að túlka bæri þar hverjir teldust nákomnir út frá stöðu barns og hagsmunum þess. 

Kærandi er náskyldur börnunum en ekki nátengdur þeim af því að tengsl hans við þau eru engin líkt og fram kemur í skýrslu talsmanns barnanna. Það að kærandi hefur engin tengsl við börnin skiptir máli við skilgreiningar á því hvort umgengni kæranda við þau verði talin þeim til hagsbóta, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl., og þegar metið er hvað þjóni hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar, en telja verður að ætlun löggjafans hafi verið sú að túlka bæri það hverjir teldust nákomnir barni út frá stöðu barnsins og hagsmunum þess. Orðalag í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála gefa ekki tilefni til annarra ályktana varðandi framangreindar skilgreiningar á þessum lagaákvæðum. Að þessu virtu verður að telja kæranda nákomin börnunum vegna náins skyldleika við þau, en eins og fram hefur komið er hann móðurafi þeirra.

Að mati Barnaverndarnefndar B eru engin rök fyrir því að fara gegn vilja barnanna sem telja sig ekki í þörf fyrir að eiga umgengni við kæranda. Fram kom í skýrslu talsmanns að þau eigi ekki minningar um hann, muni ekki eftir honum og telji sig því ekki í þörf fyrir að eiga við hann sérstaka umgengni. Börnin eigi umgengni við kynforeldra sína og börnin þekki vel sinn uppruna. Umgengni við kæranda sé ekki til þess fallin að búa börnunum öryggi og stöðugleika í lífi þeirra, heldur er þvert á móti hætta á að hún geti raskað þeirri ró sem skapast hefur í lífi barnanna.

Samkvæmt gögnum málsins hafa börnin búið á fósturheimilinu frá því í byrjun árs 2017 og hafa myndað sterk tengsl við fósturforeldra sína. Þau búa við stöðugleika, eru í góðu jafnvægi og hafa tekið miklum framförum, þrátt fyrir að fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið þeim erfið.  Staða barnanna er þrátt fyrir þetta viðkvæm og ekki langt síðan jafnvægi komst á líf þeirra í fóstrinu. Börnin eiga umgengni við kynforeldra sína og marga aðra ættingja þeim tengdum. Samkvæmt framangreindu eiga börnin talsverða umgengni við kynforeldra og aðra nákomna og telur úrskurðarnefndin að þau þekki uppruna sinn vel. Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns þar sem fram kemur að börnin telji sig ekki vera í þörf fyrir sérstaka umgengni við kæranda.

Úrskurðarnefndin telur það ekki vera til hagsbóta fyrir börnin, sbr. áskilnað 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, að þvinga fram umgengni þeirra við kæranda, enda getur það truflað fóstrið og skapað óþarfa togstreitu í lífi barnanna. Úrskurðarnefndin horfir þá sérstaklega til þess að ekki hafa skapast tengsl á milli kæranda og barnanna, börnin hafa sjálf lýst því yfir að þau hafi ekki þörf fyrir sérstaka umgengni við kæranda og styðja fósturforeldrar börnin í þeirri afstöðu sinni. 

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umgengni barnanna við kæranda þjóni ekki hagsmunum þeirra og þörfum. Samkvæmt því ber að staðfesta hinn kærða úrskurð um að kærandi skuli ekki eiga sérstaka umgengni við börnin.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. júní 2021 varðandi umgengni D og E, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta