Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 25/2012.

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 10. apríl 2013, var tekið fyrir mál nr. 25/2012, A gegn barnaverndarnefnd C vegna dóttur hans, B.

 

Kærð er ákvörðun Barnaverndar C, frá meðferðarfundi 13. mars 2012, þar sem ákveðið var að loka máli kæranda.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna dóttur hans, B.

 

Dóttir kæranda lýtur sameiginlegri forsjár föður og móður sinnar, D, en þau eru fráskilin. Kærandi hefur haft áhyggjur af því að móðir stúlkunnar hefur verið í tengslum við mann, E, sem hefur verið dæmdur fyrir kynferðisglæp gagnvart þroska­heftri stúlku sem og vörslu á barnaklámi og hafi hann umgengist dóttur kæranda. Kærandi hefur ítrekað tilkynnt barnaverndaryfirvöldum að barnsmóðir hans umgangist kynferðis­brotamann.

 

Kærandi er ósáttur við könnun Barnaverndar C á máli þessu og að því skuli hafa verið lokað 13. mars 2012. Í kærunni vísar hann til þess sem fram kemur í bréfi Barna­verndarstofu 4. desember s.á. en þar var afgreidd kæra hans vegna málsmeðferðar barnaverndar C á máli hans er varðar tilkynningar hans til hennar á árinu 2012 sem hann telur að hafi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti.

 

Kærunefnd barnaverndarmála lítur svo á að kæran, sem kærandi hefur beint til hennar með kæru 15. desember 2012, varði aðeins þann þátt málsins sem fjallað er um í bréfi Barnaverndarstofu frá 4. desember s.á., undir lið I. Þar er bent á að ákvörðun Barna­verndar C um að loka málinu 13. mars 2012 sé kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Aðrir þættir málsins koma því aðeins til umfjöllunar og skoðunar hér að því marki sem þeir geta skipt máli við úrlausn á því hvort réttmætt hafi verið af hálfu Barnaverndar C að loka málinu framangreindan dag.

Kæra kæranda til kærunefndar barnaverndarmála er dagsett 15. desember 2012, en hin kærða ákvörðun var tekin 13. mars 2012. Barnavernd C leiðbeindi kæranda í kjölfarið þess efnis að leita liðsinnis Barnaverndarstofu ef hann væri óánægður með niðurstöðu Barnaverndar, en láðist að benda honum á kæruheimild 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Kærandi fór að ráðleggingunum og leitaði til Barnaverndarstofu. Honum barst svar Barnaverndarstofu þegar hún hafði lokið athugun sinni á málinu, dags. 4. desember 2012.

 

Kæra kæranda barst því að liðnum kærufresti til kærunefndar barnaverndarmála skv. 51. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 51. gr. barnaverndarlaga geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því viðkomandi var tilkynnt um úrskurð nefndarinnar. Í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Í kjölfar hinn kærðu ákvörðunar frá 13. mars 2012 fékk kærandi leiðbeiningar varðandi framhald málsins og var honum ráðlagt að leita til Barnaverndarstofu en honum var ekki leiðbeint um kæruheimild til kærunefndarinnar. Kærandi fór að þeim ráðleggingum og barst honum svar Barnaverndarstofu þegar hún hafði lokið athugun sinni á málinu, dags. 4. desember 2012. Með vísan til framanskráðs verður að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr en eftir að kærufrestur var liðinn. Þykir því rétt að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar fyrir kærunefnd barna­verndarmála.

 

Barnavernd C krefst þess að máli þessu verði vísað frá þar sem nú hafi staðið yfir ný könnun í málinu frá 3. september 2012 á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002, á aðstæðum dóttur kæranda og sé þeirri könnun ekki lokið. Því sé ekki ljóst hvaða lögvarða hagsmuni kærandi hafi nú af úrlausn málsins fyrir kærunefnd barnaverndarmála. Gerir Barnavernd C því þá kröfu að málinu verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála. Verði ekki fallist á frávísun málsins er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

Í gögnum málsins kemur fram að fyrsta tilkynning kæranda vegna máls þessa barst Barnavernd C 16. nóvember 2011. Fram kom í tilkynningu að kærasti móður væri dæmdur fyrir kynferðisglæp gagnvart þroskaheftri stúlku sem og vörslu á barnaklámi. Umgangist hann dóttur kæranda en móðir hundsi ítrekað óskir kæranda um að maðurinn umgangist ekki barnið. Með tilkynningunni voru afrit af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. mars 1998, ljósmynd af Netinu og tölvupóstur milli móður og föður. Frekari upplýsingar koma fram í tilkynningu kæranda 22. nóvember s.á.

Síðan var tilkynnt undir nafnleynd 21. nóvember 2011 vegna áhyggna af stúlkunni á heimili móður hennar vegna sambands móðurinnar við dæmdan kynferðisbrotamann. Fram kom að móðirin hafi ekki brugðist við þrátt fyrir að vita af dómum mannsins.

 

Kærandi sendi Barnavernd tölvupóst 22. nóvember 2011 þar sem hann sagðist hafa komist að samkomulagi við móður og að hætta væri ekki lengur til staðar og því ekki þörf á aðgerðum Barnaverndar C í málinu. Barnavernd C tilkynnti móður stúlkunnar með bréfi 15. janúar 2012 að ekki væri tilefni til aðkomu starfsmanna Barnaverndar C að málinu.

 

Ný tilkynning barst frá kæranda til Barnaverndar C 15. febrúar 2012 þess efnis að móðir umgangist kynferðisbrotamann. Degi síðar, eða 16. febrúar 2012, var haft samband við kæranda og honum boðið viðtal 22. febrúar 2012. Ný tilkynning barst 20. febrúar 2012 sama efnis og var hún undir nafnleynd. Kærandi kom til viðtals 22. febrúar 2012 og lýsti skoðunum sínum. Í gögnum málsins kemur fram að ekkert hafi komið fram hjá kæranda sem ekki hafi komið fram í tilkynningu hans. Kærandi og starfsmaður Barnaverndar áttu í tölvupóstssamskiptum vegna máls 23., 24. og 29. febrúar 2012 og kom kærandi þá á framfæri frekari upplýsingum um málið.

 

Móðir stúlkunnar var boðuð í viðtal 2. mars 2012 vegna tilkynninganna, með bréfi 28. febrúar 2012. Meðal gagna málsins er óundirritað skjal um könnun máls, 28. febrúar 2012, þar sem fram kemur að könnun máls feli í sér að rætt verði við kæranda og móður vegna könnunarinnar. Um sé að ræða svo kölluð greinandi viðtöl en gert ráð fyrir að metið verði að þeim loknum hvort ástæða sé til þess að hafa könnun umfangsmeiri og t.a.m. afla upplýsinga frá leikskóla eða heilsugæslu. Í þeim tilvikum sem talin sé þörf á frekari könnun sé gert nýtt skjal þar sem tilgreint sé hvaðan upplýsinga verði aflað og kynnt fyrir foreldrum og þeirra undirskrifta óskað á skjalið.

 

Móðir stúlkunnar óskaði eftir fresti á viðtali og kom síðan í viðtal 9. mars 2012 ásamt lögmanni sínum. Í dagálsnótu, 9. mars 2012, um greinandi viðtal við móður stúlkunnar, kom meðal annars fram að hún telji kæranda vera með þráhyggju gagnvart sér. Sagðist hún vera í samskiptum við mann sem heiti E og þekki hún sögu hans vegna brots sem átt hafi sér stað fyrir 15 árum, en það hafi ekki beinst gegn barni. Hann væri ekki á heimili hennar og hefði ekki umgengist dóttur hennar nema í tvö til þrjú skipti og þá í margmenni. E væri búinn að vera í tvö ár í AA-samtökunum og í vinnu með sponsor. Þá væri hann í viðtölum við félagsráðgjafa og í mikilli vinnu með sjálfan sig. Teldi hún kæranda vera búinn að brjóta á réttindum barna hennar með því að senda út upplýsingar um þau víða og meðal annars kalla tíu ára son hennar kynferðisbrotamann vegna atviks í sumarbústað sem hafi verið leikur með öðrum börnum. Kvaðst hún alltaf gæta öryggis dóttur sinnar og velferðar og hafa hagsmuni hennar í fyrsta sæti. Hún ætli sér að fara hægt í kynni sín við E, en hún áskildi sér rétt að hafa leyfi til að treysta dómgreind sinni og hitta fólk án afskipta fyrrum manns síns.

 

Málið var síðan tekið fyrir á meðferðarfundi 13. mars 2012. Ekki var talin ástæða til frekari afskipta af málinu á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og var foreldrum tilkynnt um það með bréfi 14. mars 2012. Í niðurstöðu könnunar, sbr. bréf 14. mars 2012, kemur eftirfarandi meðal annars fram:

 

Um er að ræða tæplega 5 ára stúlku sem lýtur forsjá beggja foreldra sinna. Faðir hefur tilkynnt um áhyggjur sínar af umgengni dóttur sinnar við dæmdan kynferðisbrotamann, sem er vinur móður telpunnar. Fram hefur komið hjá móður að henni sé ljóst hvert brot mannsins var, en að maðurinn hafi aldrei komið á heimili hennar þegar stúlkan er heima, en hitt hana nokkrum sinnum í margmenni með móður hennar. Hún segist munu gæta öryggis og velferðar dóttur sinnar í hvívetna. Með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í málinu er ekki talið tilefni til frekari aðkomu starfsmanna Barnaverndar C af málinu. Málinu er lokið hjá Barnavernd C og verður foreldrum sent bréf um það.“

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi er ósáttur við meðferð máls Barnaverndar C vegna dóttur hans, einkum varðandi samskipti móður stúlkunnar og stúlkunnar við dæmdan kynferðisbrotamann annars vegar og umönnunar og gistingar stúlkunnar hins vegar hjá fyrrverandi sambýlismanni móður, sem kærandi telur óhæfan til þess að annast hana.

 

Auk þess sem fram kemur í kæru reifar kærandi málavexti og afstöðu sína í bréfum til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 21. janúar og 21. febrúar 2013.

 

Í bréfi kæranda til kærunefndarinnar, dags. 21. janúar 2013, kemur fram að hann hafi á síðasta ári sent inn fjórar tilkynningar vegna vanrækslu móður á uppeldi dóttur þeirra til Barnaverndar C. Hafi það bæði verið vegna samskipta dóttur hans, B, við dæmdan ofbeldis- og kynferðisbrotamann og einnig vegna umönnunar og gistinga stúlkunnar hjá óhæfum og veikum aðila, fyrrum sambýlismanns móður. Verður hér gerð grein fyrir málflutningi kæranda varðandi atvik og meðferð málsins fram að þeim tíma er Barnavernd C lokaði málinu, 13. mars 2012.

 

Kærandi tilkynnti 16. nóvember 2011 vegna samgangs dóttur hans við kynferðisbrotamanninn E. Fram kemur að móðirin hafi viðurkennt á fundi með lögmönnum, 10. nóvember 2011, að maðurinn væri kominn inn á heimilið með börnunum. Kærandi kveðst hafa dregið tilkynninguna til baka 22. nóvember 2011, þar sem móðirin hafi fullyrt að E myndi ekki umgangast stúlkuna framar og hafi hann ákveðið að trúa henni. Kærandi bendir á hvort ekki hefði verið ástæða fyrir Barnavernd á þessu stigi málsins að kalla eftir lögregluskýrslum umrædds manns, þar sem um grafalvarlegt mál væri að ræða þar sem kynferðisbrotamaður með dóm fyrir vörslu á barnaklámi hafi sóst í vinfengi dóttur hans sem þá hafi verið fjögurra ára.

 

Kærandi tilkynnti í annað sinn, 13. febrúar 2012, en í ljós hafi komið að móðirin hafi sagt ósatt um samgang stúlkunnar við kynferðisbrotamanninn. Barnavernd hafi ákveðið að hefja könnun, en könnunni hafi verið lokið 14. mars 2012 eftir eitt viðtal við móður án frekari skoðunar. Kærandi óskar að kærunefnd barnaverndarmála skoði verklag F ráðgjafa, sem hafi stýrt könnuninni 13. febrúar 2012. Kærandi hafi verið mjög ósáttur við fundinn með henni 22. febrúar 2012, þar sem hún hafi talað um réttindi kynferðisbrotamanna og gamlan dóm, en lítið gert úr hættunni sem dóttur hans hafi verið í og ekkert minnst á rétt stúlkunnar til verndar. Hafi þessi fyrsti fundar ekki verið í samræmi við vinnulag sem mælt sé með í Handbók Barnaverndarstofu frá 2012. Kærandi bendir á að í tölvupósti til hans frá F komi fram að Barnavernd C geti ekkert gert til að vernda barnið hans. Kærandi spyr ef Barnavernd geti ekki varið börnin fyrir kynferðisbrotamönnum hver í ósköpunum eigi að gera það og hvert sé lögskipað hlutverk Barnaverndar. Á þessum tíma hafi Barnavernd C ekki verið búin að kalla eftir lögregluskýrslum um manninn né á nokkurn hátt búin að kanna annað ofbeldi gegn hans nánustu sem búið hafi verið að upplýsa um. Kærandi kveðst hafa verið afar ósáttur við að Barnavernd C hafi lokið málinu eftir eitt viðtal við hann og annað við móðurina og óski eftir því að kærunefnd barnaverndarmála taki afstöðu til þess.

 

Eins og að framan er lýst tekur kærunefnd barnaverndarmála með úrskurði þessum afstöðu til réttmætis þeirrar ákvörðunar Barnaverndar C að loka málinu 13. mars 2012. Um verklag og aðra þætti í meðferð málsins verður aðeins fjallað að því marki sem þau atriði hafa þýðingu við úrlausn á því hvort ákvörðunin hafi verið réttmæt, eins og áður er komið fram.

 

 

III. Sjónarmið Barnaverndar C

 

Í bréfi Barnaverndar C, dags. 13. febrúar 2013, kemur fram að skv. 22. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Það sjónarmið vegi einnig þungt að öll afskipti barnaverndarnefnda af málefnum fjölskyldu feli í sér íhlutun í mál sem venjulegast mundu teljast einkamál. Af þessum sökum meðal annars sé það meginregla að könnun máls gangi ekki lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Það sé hins vegar álitamál og huglægt mat hverju sinni hversu langt skuli ganga til að fullnægja framangreindum sjónarmiðum.

 

Í máli þessu sé um að ræða foreldra sem fari sameiginlega með forsjá barns og séu þau ekki sammála um tengsl og samskipti móður við mann sem hlotið hafi refsidóm vegna kynferðisbrots og áhrif þess á dóttur þeirra. Í fyrstu hafi virst að foreldrar hefðu náð sátt um hagsmuni barnsins en síðar hafi kærandi lýst áframhaldandi áhyggjum af aðstæðum barnsins og hafi höfðað forsjármál. Móðir hafi hins vegar lýst því í viðtali 9. mars 2012 að faðir hefði þráhyggju gagnvart sér. Við mat á því hversu langt eigi að ganga hverju sinni í afskiptum sé meðal annars litið til þess hvort áður hafi verið afskipti á grundvelli barnaverndarlaga vegna barna forsjárhafa, afstöðu forsjárhafa og hvernig sambandi tilkynnanda og forsjárhafa sé háttað. Í mars 2012 hafi ekki þótt ástæða til frekari afskipta á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002, en sú afstaða hafi breyst í kjölfar ítrekaðra tilkynninga kæranda og upplýsinga sem borist hafi eftir þann tíma. Hin kærða ákvörðun sem tekin hafi verið 13. mars 2012 hafi hins vegar byggt á þeim gögnum sem til hafi verið á þeim tíma og á því sem fram hafi komið í greinandi viðtölum við báða foreldra. Við þá ákvörðun hafi verið stuðst við ákvæði barnaverndarlaga um könnun máls og þau ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem við eigi, svo sem varðandi jafnræði og meðalhóf.

 


 

IV. Forsendur og niðurstaða

 

Hin kærða ákvörðun var tekin á meðferðarfundi 13. mars 2012. Í fundargerð er rakið að upplýsinga hafi verið aflað með viðtölum við foreldra barnsins. Af fundargerð verður ráðið að á fundinum hafi verið starfsmenn Barnaverndar C sem tekið hafi ákvörðun um að loka málinu. Rökin fyrir því voru þau að ekki var talið tilefni til frekari aðkomu starfsmanna að málinu með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram höfðu komið í málinu. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga er barnaverndarnefnd heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála. Hún getur einnig með reglum sem hún sjálf setur framselt tilgreindum starfsmönnum vald til að taka einstakar ákvarðanir samkvæmt lögunum.

 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga er markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum laganna, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Enn fremur segir þar að í þessu skyni skuli barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skuli að­stoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefji.

 

Þá segir í 1. mgr. 23. gr. sömu laga að þegar mál hafi verið næganlega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst er niður­stöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta.

 

Samkvæmt þessu verður hér að leysa úr því hvort þess hafi verið gætt af hálfu Barnaverndar C að afla nauðsynlegra upplýsinga um barnið sem um ræðir þannig að unnt yrði að meta hvort þörf væri á úrræðum og þá til hverra úrræða skyldi grípa samkvæmt barna­verndarlögum. Í gögnum málsins kemur ekki fram að aflað hafi verið upplýsinga um líðan barnsins áður en ákvörðun var tekin um að loka málinu. Þó kemur þar fram að ráðgert hafi verið af hálfu Barnaverndar að meta hvort afla þyrfti upplýsinga frá leikskóla eða heilsugæslu en af gögnum málsins verður ekki séð að það hafi verið gert.

 

Þegar ákvörðun var tekin um að loka málinu verður ekki séð að legið hafi fyrir hvernig barninu vegnaði almennt, hver líðan þess var eða hvort haldbærar ástæður væru fyrir því að ætla með tilliti til aðstæðna barnsins að það væri í hættu sem bregðast þyrfti við. Að minnsta kosti kemur ekki fram í gögnum málsins að þessi mikilvægu atriði hefðu verið könnuð af hálfu Barna­verndar C áður en málinu var lokað. Að þessu leyti var gagnaöflun í málinu ómark­viss og ófullnægjandi. Af þessu leiddi jafnframt að ekki var unnt að taka afstöðu til þess með viðhlítandi hætti hvort nauðsynlegt hefði verið að afla frekari upplýsinga eða grípa til tiltekinna úrræða til verndar barninu í samræmi við hagsmuni þess og þarfir svo sem mælt er fyrir um í barna­verndarlögum.

 

Með vísan til þessa verður að telja að ekki hafi verið forsendur fyrir því að loka málinu eins og gert var áður en aflað hafði verið viðhlítandi upplýsinga um líðan barnsins, aðbúnað þess og hagi. Ákvörðunin var því ólögmæt sem ber að fella úr gildi eins og stefnandi hefur krafist skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 80/2011. Breytir engu í þessu sambandi þótt ákveðið hafi verið á fundi Barnaverndar C 20. ágúst 2012 að hefja könnun málsins á ný á grundvelli tilkynningar frá kæranda 10. sama mánaðar. Telja verður að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kæruna. Líta verður þannig á að réttaráhrif þess að fella ákvörðunina úr gildi séu þau að ákvörðun um að loka málinu verði aðeins tekin þegar það er tímabært á grundvelli viðhlítandi upplýsinga um líðan barnsins, aðbúnað þess og hagi. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þessa felld úr gildi.


 

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Barnaverndar C frá 13. mars 2012 um að hætta könnun á aðstæðum dóttur kæranda, A, er felld úr gildi.

 

                          

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

            Guðfinna Eydal                                                                    Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta