Nr. 131/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 131/2019
Miðvikudaginn 24. júlí 2019
A
gegn
Barnaverndarnefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.
Með bréfi 31. mars 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá X 2019 um að henni væri óheimilt að fara með son sinn, D, úr landi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
D er X ára drengur sem lýtur forsjá móður sinnar sem er kærandi málsins. Drengurinn á [...] bróður, E, og hafa mál þeirra verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum. Forsjárhæfnismat hefur farið fram á forsjárhæfni kæranda og er niðurstaða þess að forsjárhæfni hennar sé mjög skert. Hinn 14. janúar 2019 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í allt að X mánuði en áður hafði hann verið neyðarvistaður utan heimilis frá X 2019. Úrskurðinn kærði kærandi til héraðsdóms sem hafnaði því að fella úr gildi úrskurð barnaverndarnefndar og féllst einnig á þá kröfu barnaverndarnefndar að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í X mánuði frá X 2019. Kærandi skaut málinu þá til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms.
Starfsmaður barnaverndar fór með drenginn í áður skipulagða umgengni á heimili kæranda X 2019. Kærandi var ekki heima og í ljós kom að hún hafði farið í burtu [...] með E. Þegar starfsmanni barnaverndar tókst að ná í kæranda sagðist hún ekki koma fyrr en eftir X vikur. Hún reyndist ekki fáanleg til að upplýsa um dvalarstað sinn. Vegna þeirrar stöðu sem uppi var í málinu var úrskurðað um vistun E utan heimilis í X mánuði og farbann. Við skráningu farbannsins sama dag hjá lögreglu- og landamærayfirvöldum fengust þær upplýsingar að kærandi hefði farið með E til F X 2019. Eftir þetta hafi starfsmenn barnaverndar verið í sms sambandi við kæranda en hún hafi hafnað því að koma aftur með E til landsins. Hún virki óstöðug og hafi meðal annars vísað til þess að [...] að ná drengnum frá Íslandi. Skilaboð hennar hafi gefið starfsmönnum barnaverndar tilefni til að hafa áhyggjur af því að kærandi kynni að grípa til aðgerða til að ná drengnum úr landi.
Í hinum kærða úrskurði sé vísað til 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) þar sem komi fram að hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, geti nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði meðal annars ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi, sbr. d-lið 1. mgr. 26. gr. Í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefji hverju sinni og skuli endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Þau ákvæði sem lagagreinin vísi til í 24. og 25. gr. laganna séu úrræði með samþykki foreldra, innan og utan heimilis. Barnaverndarnefnd hafi talið uppfyllt skilyrði fyrir því að úrskurða um vistun drengsins utan heimilis í [...] mánuði á grundvelli 27. gr. bvl. Þá hafi nefndin einnig talið uppfyllt skilyrði til vistunar drengsins utan heimilis í X ár og gert kröfu um það fyrir héraðsdómi, sbr. 28. gr. sömu laga.
Í hinum kærða úrskurði kemur einnig fram að drengurinn sé nú vistaður hjá vistforeldrum í [...]. Þá liggi fyrir að kærandi hafi farið óvænt úr landi með E X síðastliðinn í kjölfar þess að starfsmenn barnaverndar hafi kynnt kæranda niðurstöðu forsjárhæfnismats og þá niðurstöðu að krefjast úrskurðar dómstóla um vistun drengjanna utan heimilis í X ár. Það hafi kærandi gert án samráðs við starfsmenn barnaverndar sem ekki hafi komist að því að kærandi væri erlendis fyrr en um X vikum síðar. Kærandi hafi lýst því yfir í skilaboðum til starfsmanna að hún hygðist ekki koma aftur til Íslands. Lögmaður kæranda hafi á hinn bóginn lýst því yfir fyrir dómi að ef úrskurðað yrði henni í hag gerði hún ráð fyrir að koma til Íslands, sækja drenginn og fara með hann úr landi. Í skilaboðum til starfsmanna barnaverndar hafi kærandi fullvissað þá um að hún muni ná drengnum úr höndum þeirra og fá hann til baka. Mat starfsmanna barnaverndar sé að kærandi sé óstöðug. Hún hafi sögu um að grípa til aðgerða þegar barnaverndarafskipti séu orðin alvarleg, þ.e. að fara úr landi með E. Barnaverndarnefnd telji ekki útilokað að kærandi freisti þess, sjálf eða með aðstoð þriðja aðila, að setja sig í samband við drenginn þar sem hann er í vistun og fara með hann úr landi. Meðal annars af þeim ástæðum ákvað barnaverndarnefnd, með vísan til d-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. að óheimilt sé að fara með drenginn úr landi frá úrskurðardegi til X 2019.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar sé bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Óheimilt er að fara með drenginn D, úr landi frá X 2019 til X 2019.“
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess aðallega að úrskurður Barnaverndarnefndar B um að óheimilt sé að fara með drenginn D, úr landi frá X 2019 til X 2019, verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Kærandi kveðst hafa farið með E til F X 2019. Á þeim tíma hafði enginn úrskurður né áætlun verið gerð af hálfu barnaverndar og barnavernd haft lítil sem engin afskipti af E nema þegar kæranda hafi verið kynnt niðurstaða forsjárhæfnismats X síðastliðinn þar sem henni hafi verið tjáð að það lægi fyrir að barnavernd myndi einnig vista E utan heimilis þar sem niðurstaða forsjárhæfnismatsins hefði verið svo slæm. Á þessum tíma hafði D verið vistaður utan heimilis frá X 2019.
Kærandi mótmæli málavaxtalýsingu barnaverndar að nokkru leyti. Hún kveðst, þrátt fyrir að hún hafi ekki alltaf haft skilning á afskiptum barnaverndarnefndar, hafa samþykkt að [...] drengurinn D, yrði vistaður utan heimilis í X vikur [...], þó hún hafi ekki talið vistunina nauðsynlega. Þá hafi kærandi móttekið og samþykkt alla þá aðstoð sem henni og D hafi boðist frá barnavernd og lagt sig alla fram við að sýna samvinnu og breyta háttsemi sinni til samræmis við þær kröfur sem barnavernd hafi gert.
Kærandi hafi aldrei ætlað að láta hjá líða að fylgja fyrirmælum barnaverndar, enda megi sjá það af samskiptum kæranda við barnavernd, fram til þess tíma er henni hafi verið tjáð hve slæm niðurstaða forsjárhæfnismatsins væri X 2019, að taka ætti E af henni líka. Kærandi hafi orðið mjög óttaslegin og hafi hvorki skilið upp né niður í neinu er varðaði það að nú væri farið að ræða um að taka E af heimilinu. Um það hafði aldrei áður verið rætt við kæranda. Kærandi hafi sagt að þetta mál snérist ekki um E, heldur um D og barnavernd hefði engan rétt til að taka E af henni.
Þá hafi barnavernd ekki rætt við kæranda um vandkvæði er snéru að E allt frá því að barnavernd hóf að hafa afskipti af eldri drengnum, D, í X. Allar samræður og áætlanir sem hafi verið gerðar við kæranda frá X hafi varðað D og ekki hafi verið minnst á að slík vandkvæði og vanræksla væri á uppeldi og umönnun E að það þyrfti að vista hann utan heimilis.
Í ljósi þess að þessum upplýsingum hafi verið varpað fram við kæranda fyrirvaralaust hafi hún orðið verulega óttaslegin en það hafi orðið til þess að starfsmenn barnaverndar hafi ekki náð frekari sambandi við hana en hún hafi brotnað niður og farið að gráta. Lögmaður kæranda hafi reynt að ná sambandi við kæranda sem hafi verið stjörf, grátandi og hreinlega í losti. Lögmaðurinn hafi lagt það til við starfsmenn barnaverndar að þeir yfirgæfu heimilið og að lögmaður myndi gera tilraun til að útskýra málið betur fyrir kæranda. Eftir það hafi lögmaður reynt að útskýra fyrir kæranda hver niðurstaða forsjárhæfnismatsins hafi verið og að barnavernd væri að hugleiða að vista báða drengina utan heimilis í X mánuði. Kærandi hafi ekki skilið þetta, hún hafi talið að D kæmi aftur á heimilið X 2019 þegar X mánaða vistun hans utan heimilis lyki. Lögmaður hafi komið kæranda í skilning um að í kjölfar niðurstöðu forsjárhæfnismatsins hefði barnavernd talið að grípa þyrfti til róttækra aðgerða vegna stöðu drengjanna. Er lögmaður hafði tryggt að kærandi skildi hver staðan væri og að E, sem hafi verið á heimilinu, væri öruggur, hafi lögmaður yfirgefið heimilið. Lögmaður hafi upplýst barnavernd um að ró væri yfir heimilinu og að kærandi væri í jafnvægi.
Lögmaður kæranda hafi þýtt forsjárhæfnismatið yfir á [...] og sent það næsta dag til unnusta kæranda sem lesi og tali [...] en hann sé búsettur í G. Lögmaðurinn hafi verið í tíðum samskiptum við kæranda þessa daga. Kærandi hafi tjáð lögmanni að hún væri komin til [...] X 2019 til að fara til læknis og að hún myndi koma aftur heim eftir tvær vikur. Eftir að barnaverndarnefnd hafi úrskurðað þann X 2019 um farbann og neyðarvistun E utan heimilis í X mánuði hafi komið í ljós að kærandi hafði farið úr landi með E X 2019, nánar tiltekið til F.
Eftir að lögmaður kæranda hafði fengið þessar upplýsingar hafi hann sett sig í samband við kæranda og unnusta hennar til að fá staðfestingu á því að þau væru stödd erlendis. Lögmaðurinn hafi hvatt kæranda til að koma til landsins aftur með barnið. Kærandi hafi lýst því yfir að hún væri verulega hrædd við barnavernd sérstaklega eftir að nefndin hafi lýst því yfir að á grundvelli niðurstöðu forsjárhæfnismatsins væri ætlunin að úrskurða um að báðir drengirnir yrðu vistaðir utan heimilis í X mánuði. Kærandi hafi tapað öllu trausti sem hún hafi borið til barnaverndar og hafi ekki getað hugsað sér að E yrði einnig tekinn af henni. Kærandi hafi sagt að hún væri tilneydd til að yfirgefa landið með E svo hann yrði ekki tekin af henni líka.
Fulltrúi frá barnavernd B hafi sótt E til F eftir að hafa fengið aðstoð lögreglu við að hafa upp á kæranda og drengnum. Hafi drengurinn verið tekinn af henni X 2019 og henni tjáð X að fulltrúi félagsmálayfirvalda í B færi með drenginn til Íslands [...]. Drengurinn sé nú vistaður á sama heimili og D. Eftir þetta hafi kærandi ákveðið að koma aftur til Íslands X 2019.
Kærandi telji að aðgerðir barnaverndar séu of íþyngjandi miðað við aðstæður og að það hafi ekki verið reynd vægari úrræði til hlítar áður en úrskurðað hafi verið um vistun drengsins utan heimilis, sbr. 23., 24., 25. gr., sbr. og 27. gr. bvl. Frekari stuðningsúrræði hefði átt að veita kæranda með því að fá tilsjónarkonu inn á heimilið til þess að leiðbeina henni með uppeldið.
Kærandi bendir einnig á að við gerð forsjárhæfnismats hafi sálfræðingur rætt við H stuðningsaðila frá I en H hafi verið stuðningsaðili frá X. Í forsjárhæfnismatinu komi eftirfarandi fram:
„Fyrir X síðan sendi H bréf ásamt annarri í I til barnaverndar að A væri með allt aðra sýn [...]. Hún var ekki [...]. I vildi að hún fengi stuðning til að [...]. Það kom ekkert út úr því og var ekki einu sinni svarað af barnavernd. H var orðin pirruð í X því hún vissi að þetta myndi gerast og D var [...] ... D og E voru í byrjun með erfiðleika, [...] og gengu á lagið. Þá fór A að halda þeim heima innilokuðum meira og minna. Það var hennar lausn.“
Af þessum ummælum H sé ljóst að Barnavernd B hefði átt að hlutast til um að aðstoða fjölskylduna í samræmi við skyldur sínar miklu mun fyrr, sbr. meðal annars 23.–25. gr. bvl. Ef brugðist hefði verið við fyrr, hefði verið hægt að veita fjölskyldunni allri betri stuðning og aðstoð við að aðlagast.
Ennfremur beri að líta til þess að kærandi komi frá allt öðrum menningarheim og þar séu reglur um barnavernd ekki til staðar.
Kærandi mótmæli því að hún hafi fengið umtalsverða uppeldisráðgjöf, bæði í gegnum félagsþjónustu og barnavernd. Gögn málsins sýni fram á að engin áætlun hafi verið gerð varðandi drenginn eða önnur stuðningsúrræði boðin, hvorki drengnum né móður.
Allt ofangreint skýri af hverju kærandi hafi kosið að fara með E úr landi af ótta við barnavernd. Henni hafi fundist hún hafa verið svikin og að barnavernd og félagsráðgjafinn, sem hafi aðstoðað hana allt frá því hún hafi komið til J, hafi brugðist trausti hennar verulega, þar sem hún hafi fram til þess tíma lagt sig fram við að vinna með barnavernd og félagsráðgjafanum og fara eftir þeirra fyrirmælum og ráðum. Af þeim sökum sem og öðrum sem reifaðar hafa verið hér að ofan hafi kærandi talið að sér væri nauðugur einn sá kostur að fara með yngri drenginn úr landi og koma svo aftur til landsins og ná í D eftir að dómari hefði úrskurðað um hans mál af ótta við að barnavernd tæki einnig af henni E.
Kærandi hafi farið til F með E til að dvelja hjá [...] þar sem henni hafi fundist eins og öll spjót hafi beinst að henni og hún hafi verið örvæntingafull. Það hafði engin áætlun né heldur úrskurður verið kveðin upp eða beiðni send til héraðsdóms af hálfu barnaverndar um vistun drengsins utan heimilis er hún hafi farið úr landi X 2019. Kærandi hafi því verið í góðri trú um að hún hafi verið forsjáraðili drengsins og hafi því haft fullt forræði á því að ferðast með hann til [...] í F.
Kærandi hafi komið aftur til Íslands við fyrsta mögulega tækifæri eftir að E hafi verið tekinn af henni í F og fluttur til Íslands. Það hafi hún gert vegna þess að hún beri hagsmuni drengjanna beggja fyrir brjósti og sé það einmitt ástæðan fyrir því að hún hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi árið X þó hún hefði gilt dvalarleyfi á K. Hún hafi viljað geta boðið drengjunum sínum upp á betra líf og menntun. Kærandi sé nú komin til landsins til að vinna með barnavernd og hafi í hyggju að halda því áfram og að yfirgefa ekki landið aftur með drengina gegn vilja barnaverndar.
Kærandi vísi til þess að barnavernd sé bundin af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. bvl. Í því felist að barnaverndaryfirvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Brot á meðalhófsreglu við töku ákvörðunar leiði til þess að ákvörðun sé ógildanleg.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl. skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eftir 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn.
Við meðferð barnaverndarmála beri að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérreglum bvl. um málsmeðferð. Ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, meðalhófsreglan, sé lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga. Hún sé einnig skráð í 7. mgr. 4. gr. bvl. þar sem segi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í þessari grundvallarreglu felist meðal annars að stjórnvaldi beri að velja það úrræði sem sé vægast, geti fleiri úrræði, sem völ sé á, þjónað því markmiði sem að sé stefnt.
Samkvæmt því eigi barnaverndarnefnd að velja vægasta úrræði sem völ sé á hverju sinni og telja megi að gagnast megi og aldrei ganga lengra í beitingu þess úrræðis en nauðsynlegt sé. Í 1. mgr. 4. gr. bvl. segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn.
Að öllu framansögðu virtu telji kærandi, að fella beri úrskurð barnaverndar B um að kæranda sé óheimilt að fara með barnið úr landi frá X til X 2019, úr gildi.
Í d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. sé kveðið á um úrræði án samþykkis foreldra. Hafi úrræði samkvæmt 24.-25. gr. bvl. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, geti nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði kveðið á um að ekki megi fara með barnið úr landi.
Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndar B frá X 2019 verði felldur úr gildi þar sem skilyrði fyrir því að leggja á bann við að fara með drenginn úr landi séu ekki til staðar. Kærandi hafi ekki farið með E úr landi með ólögmætum hætti og hafði tekið sérstaklega fram að hún myndi koma og ná í D þegar og ef dómari myndi úrskurða að hann ætti ekki að vera vistaður utan heimilis.
Kærandi hafi aldrei farið gegn lögum eða úrskurðum barnaverndar B varðandi drengina og ætli sér ekki að fara gegn þeim í framtíðinni. Þess vegna sé enginn rökstuddur grunur sem hægt sé að byggja úrskurð barnaverndar á um að kærandi muni fara með drengina úr landi án lagaheimildar, þ.e. án þess að hún sé búin að fá umsjón drengjanna aftur.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Barnaverndarnefnd B krefst þess að hafnað verði kröfu kæranda að úrskurður barnaverndarnefndarinnar frá X 2019, þess efnis að óheimilt sé að fara með D úr landi til X 2019, verði ógiltur. Þá er þess krafist að hafnað verði kröfu kæranda um að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð barnaverndarnefndar verði einblínt á andsvör við kröfu móður um ógildingu úrskurðar barnaverndarnefndar um farbann drengsins D, enda sá hluti einn til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Um málsatvik almennt sé vísað til málsatvikalýsingar í úrskurði barnaverndarnefndar um vistun drengsins utan heimilis frá X 2019 og lýsingar í hinum kærða úrskurði frá X 2019.
Hvað varði stöðuna eftir þann tíma sé upplýst, að þann X 2019, hafi verið komið á sambandi milli barnaverndarnefndar og F barnaverndaryfirvalda. Fyrir milligöngu þeirra síðarnefndu hafi E, sem kærandi hafði farið með úr landi, verið vistaður utan heimilis í F þann X og fluttur til Íslands X gegn vilja kæranda sem hafi komið til landsins í kjölfarið. Eftir það hafi E verið vistaður utan heimilis hennar, nánar tiltekið í L, með D, og hafi vistunin gengið ágætlega. D hafi upplýst dómara þann X um afstöðu sína til vistunar utan heimilis og að vilji hans stæði ekki til að búa á heimili móður sinnar, að minnsta kosti ekki X árin eða fram til X ára aldurs, sbr. dóm Héraðsdóms M. Sami vilji hafi áður birst í viðtölum hans við talsmann. Í kæru móður hafi komið fram að hún trúi því ekki.
Í úrskurði barnaverndarnefndar frá X 2019 sé farið yfir almenn lagaákvæði um réttindi barna, svo sem 1. og 2. gr. bvl. og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl. gildi sú meginregla að í starfsemi barnaverndaryfirvalda skuli hagsmunir barnsins, sem í hlut á, ávallt hafðir í fyrirrúmi og beri þeim í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana, sem ætla megi að barninu séu fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013.
Í 1. mgr. 26. gr. bvl. komi fram að hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, geti hún gegn vilja foreldra með úrskurði meðal annars ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi, sbr. d-lið 1. mgr. 26. gr. Í 2. mgr. komi fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefji hverju sinni og skuli endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Þau ákvæði sem lagagreinin vísi til í 24. og 25. gr. laganna séu úrræði með samþykki foreldra, innan og utan heimilis.
Eins og rakið hafi verið í úrskurði barnaverndarnefndar, hafi barnaverndarnefnd talið uppfyllt skilyrði til þess að úrskurða um vistun drengsins utan heimilis í X mánuði á grundvelli 27. gr. bvl. Þá hafi nefndin einnig talið uppfyllt skilyrði til vistunar drengsins utan heimilis í X ár á grundvelli 28. gr. sömu laga og á það hafi Héraðsdómur M fallist þann X 2019.
D sé í dag vistaður hjá fósturforeldrum í L, ásamt E. Þá liggi fyrir að kærandi hafi farið óvænt úr landi með E, þann X síðastliðinn, í kjölfar þess að starfsmenn barnaverndar og lögmaður kæranda höfðu kynnt henni niðurstöðu forsjárhæfnismat og þá ákvörðun barnaverndarnefndar að krefjast úrskurðar dómstóls um vistun drengjanna utan heimilis í X ár. Hafi hún gert það án samráðs við starfsmenn barnaverndar sem höfðu ekki komist að því að hún væri erlendis fyrr en um það bil Xvikum síðar. Þá hafi kærandi og lögmaður hennar ítrekað vísað til þess að kærandi sjái ekki framtíð sína fyrir sér á Íslandi, auk þess sem hún hafi ekki verið fáanleg til að koma sjálf til Íslands með E þegar eftir því hafði verið leitað. Hafi hún vísað til þess, meðal annars í kæru, að hafa verið nauðugur einn sá kostur að fara úr landi, starfsmenn barnaverndar hafi brugðist trausti hennar, svikið hana og svo framvegis. Hún trúi því ekki að vilji drengsins standi til þess að búa ekki hjá henni. Í ljósi sögu kæranda að fara með E úr landi byggi barnaverndarnefnd á því að fullt tilefni sé til þess að úrskurður um farbann D verði ekki felld úr gildi, enda lagaskilyrði d-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga uppfyllt.
Í úrskurði barnaverndarnefndar sé reifað það mat starfsmanna barnaverndar að kærandi sé óstöðug jafnvel þótt ekki sé vitað til þess að hún glími við andleg veikindi. Kærandi hafi nú sögu um að grípa til aðgerða þegar barnaverndarafskipti eru orðin alvarleg, nánar tiltekið að fara úr landi með E. Barnaverndarnefnd telji ekki útilokað að kærandi freisti þess, sjálf eða með aðstoð þriðja aðila, að setja sig í samband við drenginn þar sem hann sé í vistun og fara með hann úr landi, óháð því að vistunin byggi á úrskurði héraðsdóms.
Kærandi hafi meðal annars byggt á því að hún ætli sér ekki að koma og sækja drenginn nema hún hafi fengið umsjá hans með lögmætum hætti. Enginn rökstuddur grunur sé um að hún fari úr landi. Því sé hafnað með vísan til framangreinds.
Vægari úrræði en farbann séu ófullnægjandi til að tryggja að ekki verði farið með drenginn úr landi og þess vegna sé hafnað að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunarinnar. Þegar úrskurðurinn var kveðinn upp hafði kærandi þegar farið úr landi með E og fyrir liggi að nú dvelji hún á Íslandi. Við mat á því hvort ógilda skuli úrskurð um farbann í dag sé vísað til þess að kærandi hafi nú sögu um að hafa farið með E úr landi án þess að ræða við lögmann sinn eða barnaverndarnefnd og beinlínis sagt ósatt um að hún væri hér á landi. Jafnvel þótt ekki hafi verið í gildi úrskurður um farbann þegar kærandi hafi farið með E hafi henni verið ljóst að forsjárhæfnismat hefði komið afar illa út og að barnaverndarnefnd hefði falið lögmanni sínum að krefjast úrskurðar dómara um vistun hans utan heimilis í X mánuði. Sú leynd sem hafi hvílt yfir brottför hennar, og tregða til að upplýsa um samastað, bendi til þess að kærandi hafi gert sér grein fyrir að brottför hennar frá landinu hafi að minnsta kosti ekki verið í samráði við starfsmenn barnaverndar eða eigin lögmann, ef ekki í beinni andstöðu.
Mikil vinna hafi verið unnin með kæranda áður en úrskurðað hafi verið um vistun og farbann. Um það hafi sagt í niðurstöðukafla héraðsdóms:
„Á hinn bóginn liggur fyrir að næstu misserin virðist nær allt Félagsmálasvið B hafa komið að málefnum sóknaraðila og þá þannig að henni og sonum hennar var veittur margvíslegur stuðningur, og hafi þá ekki síst verið um að ræða úrræði sem beindust að því að styrkja sóknaraðila í foreldrahlutverkinu.“
Síðan sé vísað til þess í niðurstöðu dómsins að kærandi hafi fengið:
„víðtækan stuðning hjá félagsmálayfirvöldum. Einnig verður af framlögðum gögnum ráðið að á vegum skólayfirvalda hafi verið hugað að komu nefnds drengs í grunnskóla J. Hann hafi þannig fengið sérkennslu, en að auki hafi verið hugað að félagslegri stöðu hans.“
Þá komi fram:
„Samkvæmt gögnum liggur fyrir að eftir að nefndri neyðarvistun [X] lauk var mjög aukið við eftirlit með heimili og aðstæðum drengsins D á vegum varnaraðila. Liggja þannig fyrir í málinu fjöldi dagaála, en einnig greinargerðir fjölskylduráðgjafa og félagsráðgjafa auk greinargerða starfsmanna varnaraðila, og áætlana, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga.“
Barnaverndarnefnd hafni því alfarið að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað við meðferð þess, sbr. tilvísun til 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga, svo sem haldið sé fram í kæru. Í málinu liggi fyrir viðamikil gögn um drenginn, E, aðstæður þeirra og aðbúnað á heimili kæranda. Þar að auki hafi legið til grundvallar nýlegt mat og gögn sérfróðra starfsmanna skólastofnunar drengsins, greinargerðir sérfróðra starfsmanna barnaverndar, sem meðal annars höfðu haft samstarf við aðra sérfræðinga sem fjallað höfðu um málefni fjölskyldu drengins. Á öllum stigum hafi kæranda verið veittur andmælaréttur sem hún hafi nýtt sér með aðstoð lögmanns síns. Um þetta hafi verið fjallað í dómi Héraðsdóms M. D hafi verið gefinn kostur að tjá sig með liðsinni talsmanns, bæði í X og X. Þá hafi dómari sjálfur kynnt sér aðstöðu drengsins. Að lokum liggi fyrir, og séu óumdeildar, allar upplýsingar um ferðir kæranda til F með E.
D sé í dag vistaður utan heimilis og kærandi hafi því ekki umsjá hans og sé í raun óheimilt að fara með úr landi. Farbann sé þó það eina sem geti tryggt það hjá lögreglu og landamærayfirvöldum að ekki verði farið með drenginn úr landi, til dæmis í umgengni eða jafnvel án vitundar fósturforeldra eða barnaverndarnefndar. Um varúðarráðstöfun sé að ræða sem ekki sé óeðlilega íþyngjandi í garð kæranda, enda mun víðtækari ráðstöfun í gangi með vistun drengsins utan heimilis.
Í greinargerð barnaverndarnefndar til héraðsdóms, séu reifaðar upplýsingar um stöðu drengsins og þær miklu áhyggjur sem barnaverndarnefnd hafi af honum, sem og N sálfræðingur sem hafi unnið forsjárhæfnismat á kæranda. Niðurstöður forsjárhæfnismatsins hafi verið reifaðar í úrskurði barnaverndarnefndar. Þar komi meðal annars fram að málið sé alvarlegt og lýsi lengri tíma vanda. Vanræksla kæranda á drengjum hennar taki til flestra þátta í þeirra daglega lífi. Kærandi hafi ekki styrkt drengina, ekki sinnt skólanámi og einangrað þá markvisst. Mikill stuðningur hafi verið reyndur til að bæta hæfni kæranda án þess að það hafi gengið eftir. Óverulegar breytingar hafi orðið, ef einhverjar. Málið sé alvarlegra en hægt sé að skýra allt út frá menningarmun. Frammistaða kæranda á verklegum hluta greindarprófs hafi verið mjög slök og matsmaður hafi áhyggjur af greindarstöðu hennar almennt, skilningi hennar á þörfum drengjanna og getu til að taka leiðbeiningum og læra nýjar aðferðir við uppeldi þeirra. Tengslaleysi kæranda almennt sé mjög alvarlegt. Auk þess hafi hún takmarkað innsæi í þarfir drengjanna, eigin getu og takmarkanir. Hún hafi ekki næga hæfni til að fara með forsjá drengjanna og árétti matsmaður sérstaklega að vanræksla hennar sé alvarleg og vanskilningur á þörfum drengjanna alvarlegur.
Matsmaður hafi tekið fram að til staðar sé tengsla- og ástleysi hjá kæranda og drengurinn virðist afskiptur og ekki fá hlýju, athygli eða tengsl. Veikleikar kæranda séu almennt innsæisleysi og skilningsleysi í þarfir drengjanna, skert tengslahæfni, vangeta til að styrkja þá félagslega og námslega og vangeta til að nýta ráðgjöf og stuðning. Kærandi hafi ekki næga hæfni til að sinna foreldrahlutverkinu og ekki sé talið að hún geti veitt drengjunum fullnægjandi uppeldisskilyrði til framtíðar. Verði ekki gripið inn í aðstæður drengjanna núna verði afleiðingarnar ófyrirsjáanlegar varðandi þeirra velferð til framtíðar. Velferð beggja drengjanna sé alls ekki borgið á heimili móður. Litlar líkur séu á að kærandi muni bæta forsjárhæfni sína og matsmaður telji að ef drengirnir verði áfram á heimili hennar muni það ógna þeirra velferð til framtíðar. Matsmaður hafi ekki lagt til stuðningsúrræði þar sem hann telji það ekki þjóna hagsmunum drengjanna að vera lengur á heimili kæranda.
Í ljósi alls framangreinds byggi barnaverndarnefnd á því að hagsmunir drengsins séu ótvírætt þeir að honum verði tryggt öryggi og stöðugleiki í þeim aðstæðum sem hann búi nú við og liður í því sé að tryggja að ekki verði mögulegt að fara með hann úr landi. Sú meginregla gildi í starfsemi barnaverndaryfirvalda að hagsmunir barnsins, sem í hlut á, skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beri þeim í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana, sem ætla megi að séu barninu fyrir bestu. Með d-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga hafi barnaverndarnefnd verið veitt heimild til að banna að farið verði með barn úr landi að uppfylltum þeim skilyrðum sem að framan greini. Barnaverndarnefnd byggi á að drengurinn geti verið í hættu á því að vera numinn brott og að hagsmunir hans hafi ekki verið tryggðir með öðrum hætti en úrskurði um að ekki megi fara með hann úr landi. Vilji drengsins standi ekki til dvalar með kæranda. Engar forsendur séu því til ógildingar úrskurðar barnaverndarnefndar um farbann drengsins til X. Þá sé með engu rökstutt af hálfu kæranda af hverju skuli marka því skemmri tíma, enda ljóst að núgildandi úrskurður um vistun utan heimilis gildi til X.
IV. Niðurstaða
D er fæddur árið X. Hann lýtur forsjá móður sinnar sem er kærandi málsins. Drengurinn verður vistaður hjá vistforeldrum til X samkvæmt úrskurði Héraðsdóms M X 2019 og úrskurði Landsréttar X 2019.
Með hinum kærða úrskurði frá X 2019 var úrskurðað að óheimilt væri að fara með drenginn D úr landi frá X 2019 til X 2019.
Í málinu krefst kærandi þess aðallega að úrskurður Barnaverndarnefndar B, frá X 2019, verði felldur úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það liggi fyrir að kærandi hafi farið óvænt úr landi með E, þann X, í kjölfar þess að starfsmenn barnaverndar hafi kynnt kæranda niðurstöðu forsjárhæfnismats og þá niðurstöðu að krefjast úrskurðar dómstóla um vistun drengjanna utan heimilis í X ár. Það hafi kærandi gert án samráðs við starfsmenn barnaverndar sem ekki hafi komist að því að kærandi væri erlendis fyrr en um X vikum síðar. Kærandi hafi lýst því yfir í skilaboðum til starfsmanna að hún hygðist ekki koma aftur til Íslands. Lögmaður kæranda hafi á hinn bóginn lýst því yfir fyrir dómi að ef úrskurður yrði henni í hag gerði hún ráð fyrir að koma til Íslands, sækja drenginn og fara með hann úr landi. Í skilaboðum til starfsmanna barnaverndar hafi kærandi fullvissað þá um að hún muni ná drengnum úr höndum þeirra og fá hann til baka. Mat starfsmanna barnaverndar sé að kærandi sé óstöðug. Hún hafi sögu um að grípa til aðgerða þegar barnaverndarafskipti séu orðin alvarleg, þ.e. að fara úr landi með E. Barnaverndarnefnd telji ekki útilokað að kærandi freisti þess, sjálf eða með aðstoð þriðja aðila, að setja sig í samband við drenginn þar sem hann er í vistun og fara með hann úr landi. Meðal annars af þeim ástæðum hafi barnaverndarnefnd ákveðið, með vísan til d-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. að óheimilt sé að fara með drenginn úr landi frá úrskurðardegi til X 2019.
Í 1. mgr. 26. gr. bvl. eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði ákveðið að ekki megi fara úr landi með barnið. Í 2. mgr. 26. gr. kemur fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur hverji sinni og endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.
Kærandi álítur að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að aðgerðir barnaverndar séu of íþyngjandi miðað við aðstæður og það hafi ekki verið reynd vægari úrræði til hlítar áður en úrskurðað hafi verið um vistun drengsins utan heimilis. Frekari stuðningsúrræði hefði átt að veita kæranda með því að fá tilsjónarkonu inn á heimili kæranda til þess að leiðbeina kæranda með uppeldið.
Úrskurður Barnaverndanefndar B um vistun drengsins D utan heimilis í X mánuði á grundvelli 27. gr. bvl. var kveðinn upp X 2019. Þá taldi nefndin skilyrði 28. gr. bvl., til vistunar drengsins utan heimilis í X ár, einnig uppfyllt. Það var álit Héraðsdóms M, að við undirbúning ákvörðunar og úrskurðar Barnaverndarnefndar B um vistun drengsins utan heimilis, hafi verið farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá taldi dómurinn að skilyrði væru til, samkvæmt b-lið 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, að fallast á kröfu barnaverndarnefndar um að vista D utan heimilis kæranda, í X mánuði frá X 2019. Með úrskurði Landsréttar, dags. X 2019, var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna.
Að mati úrskurðarnefndar gengur sú ráðstöfun Barnaverndarnefndar B, að úrskurða að kæranda sé óheimilt að fara með drenginn D úr landi frá X 2019 til X 2019 á grundvelli d-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl., skemur en vistun drengsins utan heimilis samkvæmt b-lið, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga. Drengurinn er vistaður utan heimilis til X og verður ekki séð að farbann sé íþyngjandi ráðstöfun í garð kæranda. Því verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl.
Við úrlausn á því hvort uppfyllt hafi verið lagaskilyrði fyrir því að úrskurða að ekki mætti fara með drenginn úr landi samkvæmt d-lið 26. gr. bvl. ber að líta til þess að gert er ráð fyrir að unnt sé að beita þessu úrræði eftir að barnaverndarmál er hafið ef barnaverndarnefnd telur að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Þetta kemur fram í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til bvl. Þar segir enn fremur að unnt sé að beita ákvæðinu meðan á könnun máls standi, meðan unnið er að gerð áætlunar samkvæmt 23. gr. eða eftir atvikum eftir að ákvarðanir hafi verið teknar um beitingu úrræða. Eins og að framan er rakið hafði barnaverndarnefndin úrskurðað um vistun drengsins utan heimilis í X mánuði frá X 2019 og jafnframt tekið ákvörðun um að krefjast X mánaða vistunar fyrir dómi og hafði kæranda verið tilkynnt um það þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Barnaverndarnefndin mat það svo að drengurinn gæti verið í hættu eða að hagsmunum hans yrði ekki borgið með öðrum hætti en að beita því úrræði að ekki mætti fara með hann úr landi eins og gert var með hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess sem fyrir lá í málinu þegar úrskurðurinn var kveðinn telur úrskurðarnefndin rétt að fallast á framangreint mat barnaverndarnefndarinnar. Ekki þykja efni til að marka banninu skemmri tíma eins og kærandi krefst. Samkvæmt öllu þessu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá X 2019, að óheimilt sé að fara með drenginn D, úr landi frá X 2019 til X 2019, er staðfestur.
Kári Gunndórsson
Guðfinna Eydal Sigríður Ingvarsdóttir