Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 52/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 52/2017

Föstudaginn 9. júní 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 6. febrúar 2017 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. janúar 2017 vegna umgengni við syni hans, C, D, og E.

I. Málsatvik og málsmeðferð

C, D og E eru X, X og X ára og lúta forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi er faðir drengjanna. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi hingað til lands frá F um miðjan X 2015. Móðir drengjanna mun hafa látist í F fyrr á því ári eftir skammvinn veikindi. Faðir kæranda er F en móðir hans íslensk en kærandi mun að mestu leyti hafa alist upp í F.

Samkvæmt gögnum málsins barst Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynning frá leikskóla D þann X 2016. Í tilkynninguni kom fram að rúmum tveimur vikum fyrr hafi drengurinn komið í leikskólann með djúpt sár á [...], en umbúðir hefðu verið á sárinu. Aðspurður hafi drengurinn greint frá því að kærandi hefði skorið sig með hnífi. Í samtali við starfsmenn barnaverndar 9. júní 2016 hafi drengurinn sagt að auk þess skammaði kærandi sig mikið og meiddi og þegar kærandi yrði reiður drægi hann oft upp hníf og hótaði að meiða drenginn. Þá slægi kærandi drenginn á bossann þegar hann væri óþekkur, um það bil einu sinni í viku, og hræddi sig með skrímslum. Elsti drengurinn, C, hefði haft svipaða sögu að segja í samtali við starfsmenn barnaverndar 15. júní 2016.

Kærandi hafi komið til viðtals við starfsmenn barnaverndar 13. júní og viðurkennt að hafa rassskellt C og D í eitt til tvö skipti eftir að þeir komu til Íslands. Þá hafi kærandi upplýst að hann ógnaði drengjunum með hnífi til að aga þá þegar þeir létu illa í eldhúsinu á meðan hann væri að elda og einnig að hann notaði skrímsli og djöfla til að hræða drengina til hlýðni en það virkaði vel.

Samkvæmt bakvaktarskýrslu barnaverndar 20. júní 2016 var lýst áhyggjum af því að kærandi vanrækti drengina. Á fundi barnaverndar þann dag var lagt til að meðferðarúrræðið G kæmi inn á heimili kæranda. Hinn 30. júní var þess óskað við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að meint ofbeldi kæranda á hendur drengjunum væri rannsakað.

Niðurstaða starfsmanna G í lok júlí 2016 var sú að kærandi hefði lítið frumkvæði að samskiptum við drengina og væri sinnuleysi hans gagnvart þeim áberandi. Þá réði kærandi ekki við að aga drengina.

Barnavernd barst ný tilkynning 15. september 2016 og að þessu sinni frá skóla C. Var lýst miklum áhyggjum af líðan hans og aðstæðum.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar 21. september 2016 kom fram að tryggja þyrfti öryggi og aðstæður drengjanna og það næðist ekki með öðrum hætti en vistun þeirra utan heimilis. Mál drengjanna var tekið fyrir á fundi barnaverndar 27. september. Þar var meðal annars lagt til að kærandi og drengirnir færu í greiningar- og leiðbeiningarvistun á Vistheimili barna með samþykki kæranda, gerð yrði meðferðaráætlun um samvinnu við kæranda samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) þar sem kveðið yrði á um að hann undirgengist forsjárhæfnismat o.fl. Í tillögunni segir jafnframt að samþykki kærandi ekki greiningar- og leiðbeiningarvistunina sé lagt til að barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð í málinu um vistun drengjanna utan heimilis í allt að tvo mánuði samkvæmt 27. gr. bvl. Á fundi barnaverndar 27. september greindi lögmaður kæranda frá því að hann væri samþykkur tillögunum. Kærandi skrifaði þó hvorki undir meðferðaráætlun né samþykkti vistun drengjanna á vistheimilinu. Í framhaldinu sagði lögmaður kæranda sig frá málinu.

Enn bárust tilkynningar til barnaverndar 6. og 10. október 2016. Þar var lýst miklum áhyggjum af drengjunum í umsjá kæranda vegna ófullnægjandi heimilisaðstæðna, umgangs á öllum tímum sólarhrings, óláta og mögulegrar kannabisneyslu.

Samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur X 2016 voru drengirnir vistaðir utan heimilis í tvo mánuði og dvöldu fyrst í stað á Vistheimili barna en fóru í tímabundið fóstur um miðjan X sama ár. E og C voru vistaðir saman á fósturheimili en D einn. Jafnframt var borgarlögmanni falið að gera kröfu fyrir dómi um að vistun drengjanna utan heimilis stæði í sex mánuði.

Með úrskurði X 2016 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð barnaverndarnefndar um vistun drengjanna utan heimilis. Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurð héraðsdóms með dómi X 2016.

Talsmaður átti samtal við tvo eldri drengina á Vistheimili barna X 2016. Hvorugur kvaðst vilja fara heim til sín og þeir greindu frá ofbeldi sem þeir hefðu orðið fyrir af hálfu kæranda. Lokaorðin í skýrslu talsmanns voru eftirfarandi: „Það er ekki oft sem börn segi að þau vilji ekki fara heim í foreldrahús og þá sjaldnar að þau geti tjáð sig um slíkt. Greinilegt er að þeim líður afar vel á Vistheimilinu.“

Drengirnir hafi átt umgengni við kæranda X, X. og X 2016. Umgengnin hafi verið undir eftirliti og farið fram á Vistheimili barna. Samkvæmt dagálum eftirlitsmanna hafi umgengni gengið vel og drengirnir hafi ekki átt erfitt með að kveðja kæranda í lok umgengni. Kærandi hafi ekki nýtt umgengni sem fara hafi átt fram 10. nóvember 2016.

Fyrirhugað hafi verið að drengirnir ættu umgengni við kæranda 12. desember 2016. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 9. desember kom fram að drengirnir hefðu lýst andstöðu sinni við umgengni. D hefði sagt fósturforeldrum frá því að kærandi hefði meitt bræðurna á heimili þeirra, bæði hér á landi og í F. Þá hafi fósturforeldrar C og E greint frá því að C virtist hræddur við að hitta kæranda og hafi beðið fósturforeldra að vera með sér. Í ljósi afstöðu drengjanna var ákveðið að umgengni ætti sér ekki stað og að nauðsynlegt væri að talsmaður aflaði afstöðu drengjanna til umgengni við kæranda. Talsmaður var sá sami og fyrr en í greinargerð hans 13. desember 2016 kemur fram að talsmaður hafi rætt við C og D símleiðis. Þeir hafi báðir talað um fósturmæður sínar sem „mömmu“. C hefði fyrst sagt talsmanni að hann vildi hitta kæranda en hafi svo skipt um skoðun og sagt aðspurður að hann vildi tala við kæranda í síma. D hafi hrópað upp yfir sig að hann vildi ekki hitta kæranda heldur vera hjá mömmu.

Málið var tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 10. janúar 2017. Þar kom fram að fósturforeldrar hefðu lýst erfiðri hegðun C og D. Báðir hefðu tekið skapofsaköst sem erfitt væri að ráða við. Miðað við þá stöðu sem uppi væri í lífi drengjanna og erfiðleika með þá á fósturheimilum var lagt til að farið yrði að óskum drengjanna og þeir þyrftu ekki að hitta kæranda næstu tvo mánuði. Þessu mótmælti kærandi.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í tímabundnu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. (bvl.). Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. janúar 2017 var ákveðið að kærandi hefði ekki umgengni við drengina í janúar og febrúar 2017. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að E, D og C, hafi ekki umgengni við föður sinn A, í janúar og febrúar 2017. Föður er heimilt að hringja í C hálfsmánaðarlega samkvæmt nánara samkomulagi við fósturforeldra. Umgengni skal endurskoðuð í lok febrúar 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hans við syni sína verði einu sinni í viku í allt að fimm klukkustundir í senn. Til vara krefst kærandi þess að umgengnin verði á tveggja vikna fresti í allt að fimm klukkustundir í senn. Til þrautavara er þess krafist að umgengni kæranda við syni sína verði eins rúm og mögulegt er samkvæmt mati úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi hafi komið með syni sína þrjá til Íslands X 2015 en skömmu áður lést móðir drengjanna. Feðgarnir hafi fyrst búið á heimili móður kæranda hér á landi á meðan kærandi hafi beðið eftir félagslegu leiguhúsnæði. Fyrst um sinn hafi fjölskyldunni gengið illa að fóta sig á Íslandi. Drengirnir hafi ekki fengið leikskólapláss, kærandi hafi lítinn fjárstuðning fengið frá félagsþjónustunni og ekki hafi verið unnt að útvega þeim húsnæði sem hafi hentað.

Vorið 2016 hafi barnaverndaryfirvöldum borist tilkynning frá leikskóla D um að drengurinn hafi sagt frá því að skurður á [...] væri vegna þess að kærandi hefði skorið hann. Kærandi hafi skýrt frá því að drengurinn hefði [...] fyrir slysni með því að[...] . Kærandi hafi verið spurður um uppeldisaðferðir sínar og hafi komið í ljós að hann hefði rassskellt drengina á meðan þeir bjuggu í F, enda hafi hann sjálfur alist upp við rassskellingar, bæði heima og í skóla. Honum hafi þá verið gerð grein fyrir því að slíkar uppeldisaðferðir tíðkuðust ekki á Íslandi og væru brot gegn barnaverndarlögum. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um þetta og hafi látið af þessum uppeldisaðferðum.

Í lok júní 2016 hafi kærandi undirritað meðferðaráætlun með þeim skilyrðum að meðferðarúrræðið G kæmi inn á heimilið. Það hafi ekki gengið vel og samstarf kæranda og starfsmanna G hafi ekki verið gott þar sem ágreiningur hafi verið um aðferðir til að bæta uppeldi drengjanna. Hafi kærandi viljað leggja áherslu á að drengirnir fengju greiningu en starfsmenn G hafi heldur viljað kenna kæranda nýjar uppeldisaðferðir. Í niðurstöðu starfsmanna G sé greint frá því að kærandi sinni drengjunum lítið, augnsamband skorti, sinnuleysi sé áberandi og kærandi ráði ekki við að aga drengina. Einnig sé tekið fram að leikföng og hluti til örvunar skorti á heimilið. Starfsmenn G hafi á hinn bóginn tekið fram að kærandi hafi ekki sýnt ofbeldishegðun eða reiði í þau skipti sem starfsmennirnir hafi verið á heimilinu.

Kærandi sé ósammála mati starfsmanna barnaverndar og G um vangetu sína í uppeldishlutverkinu. Kærandi kveður vandamál fjölskyldunnar einkum lúta að því að ásættanlegt húsnæði hafi ekki fengist, fjárhagserfiðleikum og vandamálum tengdum hegðun drengjanna. Megi að hluta til skýra hegðunarvanda drengjanna af þeim aðstæðum sem þeir búi við, nýkomnir til Íslands eftir að hafa misst móður sína.

Þann X 2016 hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðað um að drengirnir skyldu vistaðir utan heimilis kæranda í tvo mánuði. Barnaverndarnefndin hafi einnig falið borgarlögmanni að gera kröfu fyrir héraðsdómi um vistun til X 2017. Á þetta hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fallist með úrskurði X 2016. Hæstiréttur Íslands hafi staðfest úrskurðinn með dómi X 2016.

Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir eins rúmri umgengni og mögulegt væri en samkomulag hafi ekki náðst. Hafi málið verið borið undir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 17. janúar 2017 sem úrskurðað hafi að kærandi hefði enga umgengni við drengina. Nú hafi drengirnir ekki hitt kæranda síðan í X 2016. Við þetta geti kærandi ekki unað.

Kærandi byggi á því að barn eigi skýlausan rétt til umgengni við kynforeldra og aðra nákomna á meðan barnið sé í fóstri, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. en kærandi telur ekki hafa verið sýnt fram á að það eigi við í málinu.

Kærandi bendi á að sú umgengni sem átt hafi sér stað í X 2016, þ.e. áður en drengirnir fóru í fóstur, hafi gengið vel. Samkvæmt því sem fram komi í greinargerð starfsmanna barnaverndar hafi drengirnir virst sáttir við að hitta kæranda og vel hafi farið á með þeim. Einn drengjanna hafi rætt við kæranda í síma í tvígang eftir að hann fór í fóstur. Í símtalinu hafi drengurinn lýst því hvað hann sakni kæranda og hvort þeir gætu ekki hist fljótlega.

Kærandi gerir athugasemdir við það hvernig óskað hafi verið eftir afstöðu drengjanna til umgengni. Einungis hafi verið haft samband við þá í gegnum síma og hafi athygli drengjanna virst á umhverfinu í kring um þá. Þeir hafi lítinn áhuga haft á því að „hanga“ í símanum að ræða við manneskju sem þeir hafi ekki kunnað deili á. Kærandi telur að sálfræðingur eða annar fagaðili hefði átt að heimsækja drengina á fósturheimili, dvelja með þeim um stund til að vinna traust þeirra og ræða við þá um málefnið til að skoðun þeirra kæmi fram.

Kærandi byggir enn fremur á því að drengjunum sé engin hætta búin í umgengni við hann. Til þessa hafi umgengni ekki raskað ró drengjanna á neinn hátt og því sé umgengni ekki ógn við öryggi eða stöðugleika drengjanna.

Kærandi telur ekkert því til fyrirstöðu að feðgarnir njóti umgengni með reglulegu millibili, enda veruleg hætta á að þau tengsl sem drengirnir hafi myndað við föður sinn verði minni ef umgengni sé ekki regluleg. Sérstaklega skuli á það bent að drengirnir hafi nýlega misst móður sína og séu þar af leiðandi í enn frekari þörf fyrir að umgangast kæranda til að halda tengslum við uppruna sinn.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 1. mars 2017 er vísað til þess að í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála haldi kærandi því fram að vandamál fjölskyldunnar lúti einkum að því að ásættanleg búseta hafi ekki fengist, fjárhagserfiðleikum og vandamálum í hegðun drengjanna. Í þessu sambandi bendi barnaverndarnefndin á að bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafi fallist á kröfur barnaverndarnefndarinnar um vistun drengjanna utan heimilis. Í niðurstöðu héraðsdóms segi að gætt hafi verið nægilega að tæmingu vægari úrræða áður en úrskurði um töku drengjanna af heimili kæranda hafi verið hrint í framkvæmd. Einnig komi þar fram að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi gætt meðalhófs í ákvörðunum sínum og gerðum, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. Einnig segir að málið hafi verið nægilega upplýst við uppkvaðningu úrskurðar um vistun drengjanna utan heimilis X 2016 og þegar ákveðið hafi verið að krefjast framlengingar á vistun utan heimilis til X 2017, sbr. 1. og 2. mgr. 41. gr. bvl. Loks hafi það verið niðurstaða dómsins að mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt, byggt á ítarlegum fyrirliggjandi gögnum og að kæranda hafi á öllum stigum málsins verið gefinn kostur á að kynna sér gögnin með aðstoð túlks.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur einnig fram að drengirnir hafi ekki hitt kæranda frá því í X 2016. Kæran sé byggð á því að barn eigi skýlausan rétt til umgengni við kynforeldra samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. og sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Einnig byggi kærandi á að kynforeldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barns samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. en kærandi telji slíkt ekki eiga við í málinu. Hvað þessi rök kæranda varði bendi barnaverndarnefndin á að drengirnir hafi lýst því yfir við fjölmarga aðila sem komið hafi að málinu að þeir hafi þurft að þola ofbeldi af hálfu kæranda þegar þeir hafi verið í hans umsjá. Ofbeldið sé nú til rannsóknar hjá lögreglu en taka beri orð drengjanna hvað þetta varði alvarlega. Jafnframt telji barnaverndarnefndin að ekki sé hægt að horfa fram hjá afstöðu drengjanna til umgengni en þeir hafi lýst því yfir að þeir vilji ekki hitta kæranda og sýnt ótta þegar umgengni hafi verið rædd við þá. Mikilvægt sé að hlustað sé á ákall drengjanna um hjálp og þeim sé ekki komið í aðstæður sem þeir treysti sér ekki í.

Kærandi geri athugasemdir við það verklag sem talsmaður hafi viðhaft þegar hann aflaði afstöðu drengjanna til umgengni, en það hafi verið gert símleiðis. Til hafi staðið að drengirnir ættu umgengni við kæranda um miðjan desember 2016. Fósturforeldrar, starfsmenn barnaverndar og kærandi hafi gengið út frá því að umgengni yrði undir eftirliti í Reykjavík 12. desember en fósturforeldrar hafi rætt umgengni við drengina. D hafi greint fósturmóður frá því að hann óttaðist að kærandi myndi ræna sér og hann vildi ekki eiga umgengni við hann. Fósturforeldrar hafi einnig lýst hræðslu hjá C. Starfsmenn barnaverndar hafi metið það svo að talsmaður yrði að ræða við drengina og kanna afstöðu þeirra til umgengni við kæranda. Hafi talsmaður hringt í drengina á fósturheimili sem bæði séu á landsbyggðinni. Umræddur talsmaður hafi hitt drengina áður á Vistheimili barna og átt samtöl við þá þar. Það hafi verið mat starfsmanna barnaverndar, í ljósi þeirrar afstöðu sem fram hefði komið hjá drengjunum bæði gagnvart fósturforeldrum og talsmanni, að vilji þeirra væri skýr, þeir óttuðust kæranda og vildu ekki að umgengni færi fram.

Barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Drengirnir hafi lýst ofbeldi af hálfu kæranda til margra ára. Frásögn drengjanna hafi þótt trúverðug og hafi samhljómur verið í því sem þeir hafi sagt starfsmönnum barnaverndar, starfsfólki á Vistheimili barna, talsmanni og fósturforeldrum. Í fyrstu skýrslu sinni, sem tekin hafi verið skömmu eftir vistun drengjanna utan heimilis, hafi talsmaður drengjanna sagt að það væri ekki oft sem börn segðu að þau vildu ekki fara heim í foreldrahús og þá sjaldnar að þau gætu tjáð sig um slíkt. Samkvæmt þessu séu drengirnir sérstaklega skýrir í afstöðu sinni. Þeir hafi lýst ótta í tengslum við umgengni við kæranda og nú sé verið að rannsaka meint ofbeldi kæranda í garð drengjanna. Því verði að telja að umgengni drengjanna við kæranda sé ótvírætt andstæð hagsmunum þeirra og þörfum.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Sjónarmið fósturforeldra

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði samband við þáverandi fósturforeldra drengjanna 4. janúar 2017. Hjá þeim kom fram að eldri drengirnir hefðu verið afar erfiðir og sýnt mjög krefjandi og neikvæða hegðun. Fósturforeldrar C greindu frá því að hann hefði augljóslega þurft að þola hluti sem ekki væri hægt að ímynda sér. Að sögn fósturforeldra D hefur hegðun drengsins farið versnandi eftir að farið var að tala um umgengni kæranda við drenginn.

Í tölvupósti fósturforeldra D til barnaverndar 6. desember 2016 segir að D hafi greint frá því að vera hræddur við að hitta kæranda og hræddur um að hann muni ræna sér.

Í tölvupósti fósturforeldra C 7. desember 2016 er vísað til þess að drengurinn sé ekki hrifinn af því að hitta kæranda og að það sé alls ekki tilhlökkunarefni hjá honum. Hann hafi óskað eftir því að fósturforeldrar væru með honum í umgengni þar sem hann virtist hræddur við að hitta kæranda.

V. Sjónarmið C

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur talsmanns. Sú fyrri er frá X 2016 og var tekin er drengurinn dvaldi á Vistheimili barna. Sú síðari var tekin X 2016 en þá var drengurinn kominn á fósturheimili.

Talsmaður hitti drenginn á Vistheimili barna í X 2016. Í skýrslu talsmannsins kemur fram að drengurinn hafi verið spurður að því hvernig honum liði á vistheimilinu. Drengurinn segi að þar sé gott að vera og þarna vilji hann vera. Síðan bæti hann við að hann vilji ekki fara heim, vilji aldrei fara heim. Þegar talsmaður spyr hvers vegna, svarar drengurinn því að kærandi lemji hann og D líka.

Samkvæmt síðari talsmannsskýrslu fór samtalið við drenginn fram símleiðis. Aðspurður um hvernig drengnum liði hefði hann sagt að nú væri hann ekki á vistheimilinu heldur hjá mömmu. Talsmaður sagðist vita að hann væri hjá H og J á K og spurði hvernig honum liði þar. Drengurinn sagði að þar væri gaman, hann mætti fara í afmæli til L og segðist líka hafa farið í annað afmæli. Drengurinn segði talsmanni frá heimilishundunum, einnig að það væru [...] á K [...]. Honum hafi verið mikið í mun að láta talsmann vita að honum liði vel. Aðspurður um hvort hann vildi hitta kæranda segði hann fyrst jú, jú, allt í lagi, en hafi svo staldrað örlítið við og sagt að hann vildi ekki hitta pabba. Talsmaður spurði þá hvort hann vildi heyra í kæranda í síma kvað drengurinn já við því.

VI. Sjónarmið D

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur talsmanns. Sú fyrri er frá X 2016 og var tekin er drengurinn dvaldi á Vistheimili barna. Sú síðari var tekin X2016 en þá var drengurinn kominn á fósturheimili.

Talsmaður hitti drenginn á Vistheimili barna í X 2016. Aðspurður hvernig honum líði segir drengurinn að það sé gott og skemmtilegt þarna. Síðan bæti hann við að hann vilji vera þarna en vilji ekki fara heim.

Samkvæmt síðari talsmannsskýrslu fór samtalið við drenginn fram símleiðis. Drengurinn sagði talsmanni að hann væri hjá mömmu og væri að leika við krakkana. Talsmaður spurði hvenær hann vildi hitta kæranda en drengurinn hafi hrópað upp yfir sig nei, nei, nei, ekki hitta pabba, ég vil vera hjá mömmu. Talsmaður spurði drenginn því næst hvort hann vildi tala við kæranda í síma en því hafi drengurinn neitað.

VII. Sjónarmið E

Sökum ungs aldurs E var honum ekki skipaður talsmaður. E er aðeins X ára og því erfitt að fá fram afstöðu hans til að hitta kæranda. Afstöðu hans verður því að meta út frá því sem unnt er að ráða um hana af gögnum málsins.

VIII. Niðurstaða

C, D og E eru fæddir X, X og X. Barnaverndaryfirvöld munu hafa haft afskipti af málefnum þeirra frá því í X 2016 í kjölfar tilkynningar um ofbeldi kæranda í garð D.

Drengirnir hafa verið vistaðir utan heimilis frá X 2016. Fyrst dvöldu þeir á Vistheimili barna en fóru í tímabundið fóstur X 2016. Hinu tímabundna fóstri var ætlað að standa út X 2017. Kærandi var sviptur forsjá drengjanna með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2017.

Í málinu voru gerðar fjórar meðferðaráætlanir á grundvelli 23. gr. bvl. í því skyni að aðstoða kæranda í uppeldishlutverkinu og gæta hagsmuna drengjanna. Kærandi undirritaði fyrstu áætlunina 27. júní 2016 en ekki áætlanir 2. og 27. september 2016. Fjórða áætlunin var gerð einhliða af barnavernd 26. október 2016 þar sem kærandi var ekki til samstarfs. Í þessum áætlunum var meðal annars gert ráð fyrir að meðferðarúrræðið G kæmi inn á heimili kæranda, viðtölum eftir þörfum, óboðuðu eftirliti með heimili kæranda, umsókn um stuðningsfjölskyldur fyrir drengina, að yngsti drengurinn fengi greiningu, eldri drengirnir fengju kennslu- og greiningarvistun og kærandi undirgengist forsjárhæfnismat. Fæst þeirra úrræða sem lagt var upp með komu til framkvæmda vegna andstöðu kæranda.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur X 2016 var ákveðið að vista drengina utan heimilis í tvo mánuði. Var þess jafnframt krafist fyrir dómi að vistun utan heimilis stæði til X 2017. Var úrskurður barnaverndarnefndar staðfestur fyrir héraðsdómi og fallist á kröfu um vistun drengjanna til X 2017 með úrskurði X 2016. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur af Hæstarétti X sama ár. Á meðan drengirnir voru á Vistheimili barna átti kærandi við þá umgengni í þrjú skipti undir eftirliti. Engin umgengni hefur átt sér stað frá því að drengirnir fóru á fósturheimili en kærandi hefur einu sinni talað við elsta drenginn í síma.

Með hinum kærða úrskurði frá 20. janúar 2017 var ákveðið að kærandi hefði ekki umgengni við drengina í janúar og febrúar 2017. Hinn kærði úrskurður er byggður á því að frá því að drengirnir voru vistaðir utan heimilis hefðu þeir ítrekað greint frá því að þeir vildu ekki hitta kæranda. Elsti drengurinn hafi samþykkt að heyra í kæranda í síma og hafi þeir rætt saman 23. desember 2016. Í upplýsingum frá fósturforeldrum hafi komið fram að C og D hafi ítrekað greint frá ofbeldi og vanrækslu á heimili kæranda. Þeir hafi sýnt mikinn hegðunarvanda á fósturheimilinu og virst í þörf fyrir mikla aðstoð vegna vanlíðanar. Barnaverndin taldi það ekki þjóna hagsmunum eldri drengjanna við núverandi aðstæður að eiga umgengni við kæranda. E væri enn það ungur að erfitt væri að fá afstöðu hans til umgengni. Gera mætti þó ráð fyrir að hagsmunir hans væru þeir sömu og eldri drengjanna. Mikilvægt væri að drengirnir nytu öryggis og stöðugleika eftir áfallasama frumbernsku. Taldi barnaverndarnefndin það því þjóna hagsmunum drengjanna best að umgengni kæranda við þá yrði engin í janúar og febrúar 2017 en yrði endurskoðuð að þeim tíma liðnum.

Við úrlausn málsins ber að líta til forsjárhæfnismats sálfræðings á kæranda. Samkvæmt skýrslu sálfræðingsins var kærandi alls ekki talinn hæfur til þess að fara með forsjá drengjanna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2017 var kærandi sviptur forsjá drengjanna.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hans við syni sína verði einu sinni í viku í allt að fimm klukkustundir í senn. Til vara krefst kærandi þess að umgengnin verði á tveggja vikna fresti í allt að fimm klukkustundir í senn. Til þrautavara er þess krafist að umgengni kæranda við syni sína verði eins rúm og mögulegt er samkvæmt mati úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengniréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldi skuli ekki njóta umgengnisréttar, sbr. sama lagaákvæði.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 4. gr. bvl. skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengirnir eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum drengjanna.

Kæranda hefur staðið til boða margvísleg aðstoð til að bæta foreldrahæfni sína og líðan drengjanna en hann hefur hvorki þegið aðstoð né verið til samstarfs. Synir kæranda hafa mikla þörf fyrir aðstoð og eftir atvikum greiningu. Við meðferð málsins leituðu starfsmenn barnaverndar upplýsinga um líðan drengjanna hjá skólum þeirra, með viðtölum við þá í barnahúsi og viðtölum talsmanns. Einnig var eftirlit haft með umgengni á Vistheimili barna. Eldri drengirnir lýsa miklu ofbeldi kæranda í garð þeirra. Samkvæmt gögnum málsins er samræmi og samhljómur í frásögn þeirra þar að lútandi. Þá hafa þeir skýrlega lýst því yfir að þeir vilji ekki hitta kæranda. Sá þriðji er of ungur til að láta uppi afstöðu sína til þess.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er nauðsynlegt að taka ákvörðun í málinu út frá trúverðugum frásögnum drengjanna og þeirri skýru afstöðu sem þeir hafa lýst. Að auki er litið til þess að kærandi hefur ekki með neinu móti verið til samstarfs um að bæta uppeldisfærni sína eða veita drengjunum viðunandi aðbúnað. Að þessum atvikum virtum svo og öðrum atvikum málsins verður að telja að umgengni við kæranda við drengina í janúar og febrúar 2017 hafi verið bersýnilega andstæð hag þeirra og þörfum. Verður með hliðsjón af því að telja að sú ákvörðun barnaverndarnefndar að heimila kæranda ekki umgengni við drengina í janúar og febrúar 2017 hafi verið í samræmi við 4. mgr. 74. gr. bvl. Með vísan til þess ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Kærandi gerir athugasemd við að talsmaður hafi ekki heimsótt drengina er hann ræddi við þá X 2016. Hann telur að talsmaður hefði átt að heimsækja drengina á fósturheimili, dvelja með þeim um stund til að vinna traust þeirra og ræða við þá um málefnið til að skoðun þeirra kæmi fram. Úrskurðarnefndin bendir á að í málinu liggur fyrir að talsmaður hafði þegar rætt við drengina tveimur mánuðum fyrr og þá greindu tveir eldri drengirnir mjög skýrt frá því að þeir vildu ekki fara heim. Í símtali við talsmann X 2016 kom sama afstaða drengjanna fram auk þess sem hvorugur vildi hitta kæranda. Þessu til viðbótar lágu fyrir í málinu gögn er bentu eindregið til þess að kærandi hefði beitt drengina andlegu og líkamlegu ofbeldi um langa hríð. Eins og málið er vaxið telur úrskurðarnefndin því að nægilegt hafi verið að kanna afstöðu drengjanna símleiðis.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. janúar 2017 varðandi umgengni A við syni hans, C, D og E, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta