Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 414/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 414/2017

Þriðjudaginn 20. febrúar 2018

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 6. nóvember 2017 kærði C hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. október 2017 vegna umgengni kæranda við son sinn, D.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er fæddur árið X og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi, móðir drengsins, var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X2015. Faðir drengsins afsalaði sér forsjá hans X 2015. Fyrstu X æviár sín ólst drengurinn upp hjá kæranda og stjúpföður, en þau eiga saman X börn, fædd X, X og X. Faðir drengsins á að auki X börn, fædd Xog X.

Drengurinn hefur ekki verið í samskiptum við kynföður sinn sem á sögu um vímuefnaneyslu. Drengurinn hefur verið vistaður utan heimilis móður hjá frænku sinni, E, og eiginmanni hennar, F, frá X 2013. Hann er nú í varanlegu fóstri hjá þeim.

Drengurinn er með miklar sérþarfir og fjölþættar greiningar. Samkvæmt niðurstöðum greininga sem gerðar voru á honum á BUGL í X 2014 glímir hann við blandaðar raskanir hegðunar og geðbrigða, truflun á virkni og athygli, röskun á félagsvirkni í bernsku, málskilningsröskun, sértæka þroskaröskun á hreyfisamhæfingu og vandamálum tengdum félagslegu umhverfi. Samkvæmt upplýsingum frá BUGL greindist drengurinn með tengslaröskun í X 2017 sem felur í sér að hann þarf á umfangsmiklum stuðningi að halda, bæði í skóla og heima. Hann glímir við gríðarlegan hegðunarvanda, tilfinningavanda og sýnir ofbeldisfulla hegðun. Mikilvægt er talið að umhverfi drengsins sé sem öruggast og að hann búi við stuðning, aðlögun og skilning. Drengnum gekk vel að aðlagast nýjum aðstæðum eftir að hann flutti á fósturheimilið og virðist hann mjög tengdur fósturforeldrum sínum.

Drengurinn hefur átt erfitt uppdráttar í skóla. Hann var um tíma í G og síðan í H þar sem hann var í sérúrræði, einn með kennara. Í byrjun X hóf hann nám í I sem er úrræði á vegum J. Þar hefur gengið vel hjá drengnum en um er að ræða úrræði fyrir börn með mikinn hegðunarvanda. Drengurinn er í skólanum ásamt einum öðrum nemanda og fer í frístund eftir hádegi sem einnig er á vegum J.

Drengurinn hafði reglulega umgengni við kæranda þegar hann var vistaður utan heimilis í tímabundnu fóstri á grundvelli barnaverndarlaga. Umgengni gekk misvel og skapaði tilfinningalegt álag á hann. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði 3. mars 2015 um umgengni kæranda fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn en þá var drengurinn kominn í varanlegt fóstur. Kærandi kærði úrskurðinn til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Í úrskurði kærunefndarinnar 19. ágúst 2015 var kærunni vísað frá sem of seint fram kominni.

Umgengni átti sér tvisvar stað í kjölfar úrskurðar barnaverndarnefndarinnar 3. mars 2015, þ.e. í mars og júní 2015. Eftirlitsaðili var viðstaddur og gekk umgengni vel eftir því sem fram kemur í gögnum málsins. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum drengsins og skóla glímdi drengurinn aftur á móti við mikla vanlíðan í tengslum við umgengnina. Beitti hann starfsmenn skólans ofbeldi svo að á þeim sást og notaði ljótt orðbragð í þeirra garð. Fósturmóðir drengsins hafði einnig orðið fyrir ofbeldi af hálfu drengsins í tengslum við umgengni. Andleg líðan drengsins hafði að sögn þessara aðila verið afar slæm og hafði hann meðal annars hótað sjálfsvígi. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum gekk vel með drenginn þegar líða tók á júlí og fram í ágúst 2015. Seinni hluta ágústmánaðar 2015 hafi farið að bera á ójafnvægi hjá drengnum heima fyrir. Hann hafi farið að ræða um það við fósturforeldra að hann ætti að hitta móður sína og systkini í september 2015. Viku fyrir skólabyrjun braust mótþrói aftur út í miklu ofbeldi hjá drengnum. Fósturfaðir þurfti í eitt skipti að koma heim úr vinnu þar sem fósturmóðir réð ekki við drenginn en hann beitti hana svo miklu ofbeldi að á henni sá. Í lok ágúst 2015 óskuðu fósturforeldrar eftir því að umgengni yrði felld niður í eitt ár á meðan unnið væri með drenginn, í þeirri von að hann myndi ná jafnvægi, hægt yrði að greina hann og veita honum viðeigandi úrræði.

Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. september 2015. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna 18. september 2015 þar sem fram kom að starfsmenn töldu umgengni drengsins við kæranda valda honum mikilli vanlíðan og setja allt líf hans úr skorðum, bæði fyrir og eftir umgengni. Því hafi ekki tekist að ná því markmiði sem stefnt hafi verið að með vistun drengsins í varanlegt fóstur, þ.e. að líf hans yrði fyrir sem minnstri röskun og að honum yrði skapaður stöðugleiki. Það var mat starfsmanna að umgengni drengsins við kæranda væri andstæð hagsmunum hans að svo stöddu. Var lagt til að drengurinn hefði ekki umgengni við kæranda í eitt ár. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var málið tekið til úrskurðar sama dag á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Var úrskurðað um að engin umgengni yrði við kæranda í eitt ár. Úrskurðurinn var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti hann 4. apríl 2016, sbr. mál nr. 30/2015. Var þess freistað á tímabili úrskurðarins að drengurinn fengi að hitta systkini sín en kærandi féllst ekki á það.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. október 2016. Í greinargerð starfsmanna 8. september 2016, sem lögð var fyrir fundinn, kom meðal annars fram að líðan og hegðun drengsins hefði tekið jákvæðum breytingum á meðan engin umgengni fór fram. Á tímabilinu hefði tekist að gera greiningu sem verið væri að vinna úr. Starfsmenn töldu umgengni tvisvar á ári hæfilega en markmiðið með umgengninni væri að drengurinn þekkti uppruna sinn. Mikilvægast væri að viðhalda þeim stöðugleika sem tekist hefði að koma á í lífi drengsins og stuðla áfram að því að honum liði vel. Starfsmenn töldu að meiri umgengni gæti orðið til að raska ró hans og valda bakslagi í líðan hans og hegðun. Fósturforeldrar töldu að markmiðinu með engri umgengni hefði verið náð, þ.e. að ná ró og stöðugleika í lífi drengsins og voru hlynntir umgengni tvisvar á ári. Drengnum var skipaður talsmaður og lýsti hann vilja sínum til að hitta kæranda, stjúpföður og systkini. Ekki náðist samkomulag um umgengni og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl. Úrskurður var kveðinn upp 19. október 2016 þess efnis að drengurinn hefði umgengni við kæranda tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Umgengni yrði fyrst í X 2016 og næst þar á eftir þegar [...], en það var samkvæmt vilja drengsins. Umgengni fór fram í X 2016 og X 2017 samkvæmt úrskurðinum frá 19. október 2016.

Undanfarna mánuði hafa mjög miklir erfiðleikar verið með drenginn. Gríðarlegt álag hefur verið á fósturforeldrum vegna hegðunar hans en einnig hafa miklir erfiðleikar verið í skóla og á frístundaheimili. Fram kemur í gögnum málsins að umgengni við kæranda hafi komið miklu róti á drenginn og hegðun hans versnað mikið í kjölfarið. Hann hafi meðal annars sýnt fósturforeldrum ofbeldishegðun. Barnavernd hafi sett mikinn stuðning í málið til að styðja bæði drenginn og fósturforeldra. Samkvæmt upplýsingum frá BUGL er áberandi hversu umgengni við kæranda hefur haft mikil og neikvæð áhrif á þroskaframfarir drengsins. Eftir umgengni við kæranda hefur einnig verið áberandi hvernig sá ávinningur sem náðst hefur með drenginn hefur horfið. Það hefur því reynt mikið á fósturforeldra að lesa í og bregðast við þörfum drengsins hverju sinni en fósturforeldrarnir hafa fengið handleiðslu á BUGL.

Þann X 2017 var drengurinn færður á J vegna mikillar ofbeldishegðunar og vanlíðanar. Geðlæknir drengsins jók lyfjaskammt hans og ráðlagði fósturforeldrum að vera í sambandi við bráðateymi BUGL ef líðan hans færi versnandi. Ráðgert var að drengurinn yrði á J til X 2017 en að staða hans yrði þá metin á ný.

Málið var lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 10. október 2017. Í greinargerð starfsmanna, sem lögð var fyrir fund nefndarinnar, kemur fram það mat að nauðsynlegt sé að bregðast við og láta á það reyna að hafa enga umgengni við kæranda í þeirri von að það geti orðið til þess að bæta líðan og hegðun drengsins. Umgengni hafi alltaf valdið því að hegðun hans og líðan hafi versnað en yfirleitt hafi hvoru tveggja lagast á nokkrum vikum eftir umgengni. Það hafi þó ekki gerst núna. Starfsmenn barnaverndar telji að umgengni sé andstæð hag drengsins og þörfum að svo stöddu þó að erfitt sé að fara gegn vilja hans, en hann vilji hitta kæranda. Reynt hafi verið að ná samkomulagi við kæranda um að drengurinn fengi að hitta systkini sín en það hafi ekki tekist.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni við kæranda var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 12. október 2017.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að D, hafi ekki umgengni við móður sína, A, í eitt ár“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hún hafi umgengni við son sinn einu sinni í mánuði. Umgengni verði án eftirlits en ekki séu þó gerðar athugasemdir við að umgengni fari fram undir eftirliti til að byrja með, þar til reynsla kemst á umgengnina.

Með úrskurði 29. september 2015 hafi verið ákveðið að drengurinn hefði ekki umgengni við kæranda í eitt ár en óskað hafi verið eftir því að drengurinn fengi að hafa umgengni við systkini sín. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af úrskurðarnefnd velferðarmála 4. apríl 2016. Hinn 19. október 2016 hafi svo verið úrskurðað um að drengurinn hefði umgengni við kæranda tvisvar á ári, í X og X ár hvert í 2 klukkustundir í senn, auk þess sem hann fengi að senda jóla- og afmæliskort. Umgengni hafi átt að fara fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum stað sem ákveðinn væri fyrir fram í samráði við alla aðila.

Kærandi vísar til þess að drengurinn glími við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda, hann hafi ýmsar greiningar, meðal annars vegna ADHD. Telji fósturforeldrar drengsins að framangreind umgengni við kæranda hafi mjög neikvæð áhrif á þroskaframfarir hans og líðan. Hafi fósturforeldrar því óskað eftir því að ekki yrði umgengni á milli drengsins og kæranda en fósturforeldrar séu hlynnt því að drengurinn fái umgengni við systkini sín. Með hinum kærða úrskurði 12. október 2017 hafi verið ákveðið að kærandi hefði ekki umgengni við son sinn í eitt ár.

Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem drengnum sé fyrir bestu. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl.

Það blasi við að um mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða fyrir kæranda og son hennar. Ákvörðunin feli í sér verulegt inngrip í réttindi þeirra beggja, auk þess sem hún hafi mjög viðhlutamikil áhrif á líf drengsins. Kærandi telji að hinn kærði úrskurður gangi gegn hagsmunum drengsins en það sé honum fyrir bestu að hafa reglulega umgengi við móður sína og fjölskyldu án eftirlits barnaverndaryfirvalda.

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 64. gr. a. bvl. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt mikið vægi við úrlausn barnaverndarmáls.

Það sé skýr og eindreginn vilji drengsins að hafa samskipti við kæranda, stjúpföður sinn og systkini. Vilja drengsins megi sjá víða í gögnum málsins svo sem í hinum kærða úrskurði. Einnig komi fram í gögnum málsins að drengurinn spyrji um það að fyrra bragði hvenær hann fái að hitta kæranda, stjúpföður og systkini. Þá óski drengurinn eftir því að fá að hitta systkini sín ef hann fái ekki að hitta kæranda. Það sé ljóst að hinn kærði úrskurður gangi þvert á vilja drengsins og telji kærandi að nauðsynlegt sé að veita vilja drengsins meira vægi við úrlausn málsins.

Kærandi vilji vekja athygli á því rofi sem óhjákvæmilega verði á tengslum kæranda og drengsins fái hinn kærði úrskurður að standa óhaggaður. Kærandi telji að slíkt tengslarof kunni að verða drengnum skaðlegra til lengri tíma litið en þau óþægindi sem umgengni kunni að hafa valdið honum eða fósturforeldrum hans til skamms tíma, hafi þau einhver verið. Vegna tengslamyndunar drengsins við fjölskyldu sína sé nauðsynlegt að hafa umgengni eins oft og hægt sé. Kærandi telji það sérstaklega mikilvægt í máli drengsins að tengsl hans við móðurfjölskyldu séu höfð að leiðarljósi þar sem drengurinn hafi ekkert samband við föður sinn.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Kærandi telji að í máli drengsins sé þetta sérstaklega mikilvægt þar sem hann glími við mikinn hegðunar- og tilfiningavanda og hafi verið greindur með ýmsar raskanir. Að mati kæranda sé hinn kærði úrskurður til þess fallinn að valda miklum óstöðugleika í lífi drengsins. Kærandi telji það óviðunandi þar sem drengurinn hafi þurft að þola mikinn óstöðugleika undanfarin ár í tengslum við breytingar á umgengni.

Í ljósi þeirra fjölmörgu greininga sem drengurinn sé með kunni að vera erfitt fyrir hann fyrst um sinn að laga sig að nýjum eða breyttum aðstæðum. Vegna þessa sé sérstaklega mikilvægt að festa og stöðugleiki ríki um umgengni og að umgengni verði reglulegur hluti af lífi hans. Þrátt fyrir það hafi umgengni verið stopul og um hana hafi ríkt óvissa fyrir drenginn. Eigi vanlíðan drengsins rót að rekja til umgengni kæranda við hann telji kærandi það eingöngu vegna þess óstöðugleika og óvissu sem ríkt hafi um umgengni. Því telji kærandi mikilvægt að leitast verði við að koma á sem fyrst stöðugleika varðandi umgengni og því muni hinn kærði úrskurður koma sér illa fyrir drenginn.

Kærandi vilji vekja athygli á því að mikilvægt sé að taka mið af þeim röskunum sem drengurinn glími við þegar umgengni sé ákveðin þar sem raskanirnar leiði til þess að drengurinn þoli illa óvissu og óstöðugleika. Telji kærandi í fyrsta lagi að nauðsynlegt sé að framfylgja ákveðinni skipan um umgengni um langt skeið svo að hann fái tækifæri til þess að laga sig að þeirri skipan. Þá kæmi sér mun betur fyrir drenginn að umgengni færi fram án eftirlits til þess að hann gæti vanist umgengninni. Einnig telji kærandi nauðsynlegt að umgengnin verði tíðari til þess að skapa meiri stöðugleika og festu varðandi umgengni svo að umgengnin verði reglubundinn þáttur í lífi hans.

Í máli þessu verði einnig að líta til meðalhófsreglu, en Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sé bundin af meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. bvl. Í því felist að barnaverndaryfirvöld skulu aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skuli ekki beita íþyngjandi úrræðum lengur en nauðsynlegt sé.

Kærandi telji að það geti ekki með nokkru móti samræmst meðalhófsreglunni að meina drengnum umgengni við sig í heilt ár en ekki sé nauðsynlegt að beita svo íþyngjandi úrræði. Kærandi álíti að meðalhófsreglan leggi þær skyldur á barnaverndaryfirvöld að reyna að finna aðrar leiðir til þess að tryggja vellíðan og framfarir drengsins samhliða því að hann hafi umgengni við fjölskylduna sína. Kærandi telji að það hefði samræmst mun betur meðalhófsreglunni ef reynt hefði verið að skapa meiri stöðugleika í lífi drengsins með aukinni umgengni ásamt því að vinna með drengnum og undirbúa næstu umgengni með aðstoð sérfræðinga. Að mati kæranda samræmist það mun betur meðalhófssjónarmiðum að kanna hvort það fyrirkomulag, sem hún leggi til, komi sér betur fyrir drenginn. Það sé barnaverndaryfirvöldum í lófa lagið að heimila umgengni með þeim hætti áður en svo íþyngjandi ákvörðun sé tekin. Barnavendarnefnd hefði alla möguleika til að fylgjast náið með nýju fyrirkomulagi umgengni og breyta henni ef reynslan sýndi að hún hentaði drengnum illa.

Eins og rakið hafi verið sé það grundvallarregla í barnarétti að hafa hag barns í fyrirrúmi við úrlausn hvers máls. Til þess að hægt sé að komast að því hvað henti barni best hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi í málinu gerst brotleg við rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi mótmæli fullyrðingum í hinum kærða úrskurði og sér í lagi þeim sem byggi eingöngu á fullyrðingum fósturforeldra. Í hinum kærða úrskurði komi fram að fósturforeldrar drengsins telji það þjóna hagsmunum hans að hafa ekki umgengni við kæranda. Frumkvæðið að tillögu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið frá fósturforeldrum drengsins sem kærandi telji að séu ekki hlutlausir gagnvart sér. Hafi fósturforeldrarnir eðlilega tengst drengnum tilfinningaböndum og ekki sé hægt að ætlast til að þeir geti gætt hlutleysis gagnvart kæranda í lýsingum sínum á atvikum. Kærandi vilji sérstaklega vekja athygli á því að fullyrðingar fósturforeldra um að umgengni við sig hafi verið orsök óróleika og vanlíðanar drengsins, séu ósannaðar. Eina gagn málsins sem styðji þann málatilbúnað sé bréf frá K og L á göngudeild BUGL X 2017 en bréfið feli eingöngu í sér að sérfræðingarnir skrifa niður frásögn fósturforeldra.

Kærandi hafni því að umgengni við sig hafi verið orsök vanlíðanar drengsins, enda hafi umgengni í öllum tilfellum gengið vel líkt og sjá megi í dagálsnótum eftirlitsaðila X 2016 og X 2017 en drengurinn hafi haft skýran viljan til þess að fara í umgengni. Ef byggja eigi á því að umgengni drengsins við kæranda valdi honum vanlíðan og leiði til afturfara hafi barnaverndaryfirvöldum borið að kanna með sjálfstæðum hætti hver orsök vanlíðunar drengsins geti verið og leggja fram gögn því til stuðnings. Barnaverndaryfirvöld hefðu í ljósi rannsóknarreglunnar átt að kanna betur hvort breytingar á hegðun drengsins gætu átt aðrar skýringar en þær sem fósturforeldrar drengsins vísi til. Ástæðulaust sé að banna umgengni við kæranda ef breytt hegðun og líðan drengsins eigi sér aðra skýringu. Þá telji kærandi rannsóknarregluna einnig leggja þá skyldu á barnaverndaryfirvöld að kannað sé hvort önnur og vægari úrræði séu betur til þess fallin að tryggja bætta líða drengsins.

Að mati kæranda skorti á að barnaverndaryfirvöld hafi rannsakað hvaða áhrif það muni hafa á drenginn að hafa ekki neina umgengni við sig í eitt ár. Kærandi kalli því eftir að rannsakað sé hvaða áhrif hinn íþyngjandi úrskurður barnaverndaryfirvalda hafi á drenginn. Það sé nauðsynlegt til þess að hægt sé að meta hvort þetta íþyngjandi úrræði sé til þess fallið að bæta hag hans og einnig til þess að meta hvort önnur úrræði séu vænlegri.

Þá telji kærandi það ámælisvert af starfsmönnum barnaverndar að útvega drengnum ekki talsmann vegna málsins. Telji kærandi þá vanrækslu einnig fela í sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi krefst þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum sínum og drengsins en hún telji engin lagaskilyrði fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hún sé efnislega röng og andstæð hagsmunum drengsins. Kærandi telji nauðsynlegt að rökstyðja betur niðurstöðu barnaverndaryfirvalda. Kærandi árétti að það sé nauðsynlegt að unnið sé að meiri stöðugleika og rútínu í sambandi við umgengni. Umgengni undanfarið hafi verið stopul og ákvörðun barnaverndaryfirvalda um að banna umgengni í eitt ár sé til þess fallin að valda miklum óstöðugleika í lífi drengsins. Markmið kæranda sé að fá þá umgengni sem líklegri sé til þess að viðhalda tengslum drengsins við sig og virði vilja hans. Með vísan til þess sem rakið hafi verið sé málið ekki nógu vel unnið til að hægt sé að taka svo viðhlutamikla ákvörðun um líf drengsins. Blasi samkvæmt því við að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. nóvember 2017 er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

D sé vistaður í varanlegu fóstri og ekki annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis til 18 ára aldurs. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri, jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi áður úrskurðað í málinu, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 4. apríl 2016 í máli nr. 30/2015. Í því tilviki hafi kærandi kært úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. september 2015 um að hún skyldi ekki njóta umgengni við drenginn. Kærandi hafi þá sett fram sömu sjónarmið og nú til stuðnings kröfu sinni um umgengni, þar á meðal að vilji drengsins hafi ekki verið virtur, honum hafi ekki verið skipaður talsmaður og eingöngu byggt á frásögn fósturforeldra við mat á hagsmunum hans. Úrskurðarnefndin hafi staðfest niðurstöðu barnaverndarnefndar. Við töku ákvörðunar nú hafi verið höfð hliðsjón af þeim röksemdum sem fram hafi komið í niðurstöðukafla fyrrgreinds úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála.

Gögn málsins sýni að líðan drengsins hafi farið batnandi þegar engin umgengni hafi verið við kæranda. Þegar umgengni hafi aftur verið komið á síðastliðinn vetur, hafi það haft slæmar afleiðingar fyrir andlega líðan drengsins. Nú sé ástand hans með svipuðum hætti og þegar úrskurður barnaverndarnefndarinnar 29. september 2015 hafi verið kveðinn upp. Drengurinn sé í miklu ójafnvægi og sé með fjölþættar greiningar. Samkvæmt upplýsingum frá BUGL X 2017 hafi drengurinn verið greindur með tengslaröskun sem feli í sér að hann þurfi á umfangsmiklum stuðningi að halda, bæði í skóla og heima. Drengurinn glími við gríðarlegan hegðunarvanda, tilfinningavanda og sýni ofbeldisfulla hegðun. Líkt og þegar fyrri úrskurður um enga umgengni kæranda hafi verið kveðinn upp, verði að gera ráð fyrir því að drengurinn hafi sjálfur mjög takmarkaðar forsendur til þess að tjá sig um umgengnina. Við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi því ekki verið talið réttmætt að fá drenginn til að tjá sig sérstaklega að þessu leyti, þ.m.t. með milligöngu talsmanns, skv. 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl., sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna staðhæfinga í kæru málsins um að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn, sem staðfesti að umgengni sé slæm fyrir hagsmuni drengsins, sé bent á að í fyrirliggjandi greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndarinnar 28. september 2017, sé greint frá fundi á BUGL X 2017. Fundinn hafi setið sérfræðingar frá BUGL, fósturforeldrar og starfsmaður barnaverndarnefndarinnar. Komið hafi fram hjá starfsfólki BUGL að ljóst væri að umgengni drengsins við kæranda þjónaði ekki hagsmunum hans þar sem mynstur hefði komið fram um að líðan hans færi augljóslega versnandi í kringum umgengni. Tölvupóstur hafi borist frá málstjóra drengsins á BUGL 14. febrúar 2017 þar sem boðað hafi verið til fundar vegna alvarlegrar stöðu drengsins, en hvorki skóli né frístundaheimili hafi getað haldið utan um hann. Rætt hafi verið um að kvíðinn væri að byggjast upp vegna komandi umgengni í mars en að líðan drengsins hefði farið versnandi eftir að umgengnin hafi verið staðfest. Í tilkynningu frá H þann X 2017 hafi komið fram að starfsmenn þar tengi versnandi hegðun drengsins við umgengni við kæranda. Vanlíðan hans og óöryggi vaxi þá jafnt og þétt en sama reynsla væri frá síðastliðinni umgengni í október 2016. Í greinargerð starfsmanns sé ítarlega rakið hvernig vanlíðan drengsins og hegðun hafi farið versnandi síðastliðið ár en drengurinn sé nú kominn í sérskólaúrræði utan hverfisskóla. Í bréfi BUGL 14. september 2017 sé greint frá þeirri meðferð og stuðningi sem drengurinn og fósturforeldrar hafi fengið vegna alvarlegs vanda hans á tímabilinu. Þar sé ítrekað mat starfsfólks BUGL um þörf á endurskoðun á umgengni drengsins við kæranda.

Á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 10. október 2017 hafi komið fram það mat nefndarinnar að á grundvelli fyrirliggjandi gagna og forsögu málsins þjónaði það ekki hagsmunum drengsins og markmiðum varanlegs fósturs að drengurinn hefði umgengni við kæranda, sbr. 74. gr. bvl. Brýnt væri að koma drengnum til aðstoðar. Samkvæmt vottorði BUGL 14. september 2017 þætti ljóst að umgengni við kæranda yki enn vanlíðan hans og ylli honum andlegu álagi, þrátt fyrir vilja hans til að umgangast hana. Ekkert hafi verið lagt fram í málinu sem hnekki því mati sem fram komi í vottorðinu. Telji barnaverndarnefndin nauðsynlegt að skapa honum þær aðstæður svo að unnt sé að sjúkdómsgreina hann frekar í því skyni að viðeigandi úrræði og meðferð geti hafist án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda hafi á líðan hans svo sem gögn málsins sýni. Telji nefndin ekki hjá því komist að takmarka umgengni drengsins við kæranda að svo stöddu, enda sé það í samræmi við mat sérfræðinga á Barna- og unglingageðdeild, starfsmanna barnaverndarnefndarinnar og fósturforeldra drengsins. Sé með þeim hætti stefnt að því markmiði að tryggja hagsmuni drengsins en það sé í samræmi við sjónarmið 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl. Það sé mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að umgengni drengsins við kæranda sé andstæð hagsmunum hans og þörfum, sbr. 4. mgr. 74. gr. bvl.

Á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 10. október 2017 hafi nefndin falið starfsmönnum sínum að gera áfram tilraunir til þess að ná samkomulagi við kæranda um að drengurinn geti átt umgengni við systkini sín. Hafi drengurinn lýst yfir vilja til þess og telji nefndin það geti verið honum til hagsbóta að hafa umgengni við þau, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til kröfu kæranda og barst svar þeirra með tölvupósti 18. janúar 2018. Þar kemur fram að á þeim tíma, sem drengurinn hafi verið hjá þeim í fóstri, hafi það verið augljóst að umgengni hafi haft gríðarlega mikil áhrif á hegðun hans og líðan. Margt hafi verið reynt til þess að umgengnin hefði sem minnst áhrif á líf hans og setti það sem minnst úr skorðum en það hafi lítinn árangur borið.

Hlé hafi verið gert á umgengni drengsins við kæranda 2015 til 2016 með það að leiðarljósi að hann myndi ná stöðugleika svo að hægt væri að greina hann og veita honum þau úrræði sem hann þarfnaðist. Það hafi náðst með mikilli vinnu og hafi ávinningurinn verið mun meiri en fósturforeldrar hafi búist við þar sem drengurinn hafi farið að blómstra í skóla og einkalífi. Á þeim tíma hafi hann fengið greiningu um tengslaröskun hjá BUGL.

Á árinu 2016 hafi fósturforeldrar talið að drengurinn væri kominn á þann stað að geta átt umgengni við kæranda á ný, enda hafi þau talið afar mikilvægt fyrir hann að viðhalda þeim tengslum sem hann eigi við hana og systkini sín. Fljótt hafi þó komið í ljós að umgengni hafi farið afar illa í hann og gert það að verkum að hann hafi orðið óhæfur til þátttöku í daglegu lífi. Hann hafi hrapað í þroska, þolað illa kröfur hins daglega lífs og færst í sérkennsluúrræði í skrifstofuhúsnæði bæjarins þar sem hann hafi ekki verið metinn hæfur til að vera í skólanum. Hann hafi meðal annars beitt fósturforeldra og starfsmenn skóla gríðarlega miklu líkamlegu ofbeldi, félagsleg staða hans hafi hrunið og í X 2017 hafi þurft að vista hann neyðarvistun á BUGL en aðstoð lögreglu hafi þurft til að færa hann þangað, [...].

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi börn rétt á að þekkja uppruna sinn og umgangast upprunafjölskyldu sína. Í 3. gr. sáttmálans sé talað um að ávallt skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang í öllum ráðstöfunum sem félagsmálastofnanir taki og snerti börn. Í 6. gr. komi fram að aðildarríki skuli eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast. Þetta sé aðalatriðið. Drengurinn þurfi aðstæður í lífi sínu sem geri honum kleift að þroskast í því ástandi sem hafi einkennt líf hans. Mánuðina í kringum umgengni hafi þroski hans hrapað mikið og meiri hluta tímans hafi hann verið með þroska á við X ára barn. Á þeim tíma vinni hann ekki upp þroskann sem jafnaldrar hans séu að ná og því tapi hann dýrmætum tíma. Afleiðingar þess fyrir framtíð hans séu ófyrirséðar.

Út frá ofangreindum atriðum eru fósturforeldrar sammála ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að drengurinn eigi ekki umgengni við kæranda.

V. Afstaða D

Drengnum var ekki skipaður talsmaður. Fram kemur í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að gera verði ráð fyrir að drengurinn hafi mjög takmarkaðar forsendur til þess að tjá sig um umgengni við kæranda. Við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi því ekki verið talið réttmætt að fá drenginn til að tjá sig sérstaklega að þessu leyti, þ.m.t. með milligöngu talsmanns, skv. 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl., sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Afstaða hans hafi á hinn bóginn komið fram í samtali við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur nýlega en hann hafi lýst yfir vilja til að eiga umgengni við kæranda.

Unnið sé að því að ná samkomulagi við kæranda um að drengurinn geti umgengist systkini sín en það sé talið honum til hagsbóta. Drengurinn hafi einnig lýst yfir vilja til þess.

VI. Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur X og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum eins og fram hefur komið. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. október 2017 var ákveðið að drengurinn hefði ekki umgengni við kæranda í eitt ár.

Málið á sér langa forsögu en kærandi var svipt forsjá drengsins með dómi 2014.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar.

Kærandi, sem er móðir drengsins, krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hún hafi umgengni við drenginn einu sinni í mánuði. Hún telur að engin lagaskilyrði séu fyrir úrskurðinum, hann sé efnislega rangur, andstæður hagsmunum drengsins og að málið hafi ekki verið rannsakað í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi verið sannað að umgengni við sig hafi verið orsök vanlíðanar drengsins. Þá telur kærandi að hinn kærði úrskurður gangi þvert á skýran vilja drengsins. Einnig er það mat kæranda að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við meginreglu barnaverndarlaga um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi að rof á umgengni hennar við drenginn geti orðið honum skaðlegt til lengri tíma litið. Hinn kærði úrskurður brjóti gegn því grundvallarmarkmiði í barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í lífi barns, en úrskurðurinn sé til þess fallinn að valda miklum óstöðugleika í lífi drengsins.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði taldi barnaverndarnefndin að umgengni við kæranda yki enn á vanlíðan drengsins og væri andstæð hag hans og þörfum. Það var því mat barnaverndarnefndarinnar að það þjónaði hagsmunum drengsins best að hafa ekki umgengni við kæranda í eitt ár á meðan leitast yrði við að skapa honum þær aðstæður svo að unnt væri að sjúkdómsgreina hann frekar þannig að viðeigandi meðferð og úrræði gætu hafist án þeirrar truflunar sem umgengni við kærnda hefði á líðan hans.

Í bréfi BUGL til Barnaverndar Reykjavíkur 14. september 2017 kemur fram að í viðtölum fósturmóður á BUGL hafi verið rætt um hversu mikil áhrif umgengni drengsins við kæranda hefði á hann. Í því sambandi hafi komið fram að samskipti við talsmann hafi skapað honum álag. Starfsmenn BUGL mæli eindregið með því að endurskoðað verði hvernig umgengni drengsins við kæranda sé háttað. Sömuleiðis er mælt með því að endurskoðað verði hvort það þjóni hagsmunum hans að hafa talsmann.

Í tölvupósti fósturforeldra drengsins til úrskurðarnefndarinnar 18. janúar 2018 kemur fram að á árinu 2016 hafi fósturforeldrar talið að drengurinn gæti farið að hafa umgengni við kæranda á ný, enda hafi þau talið mikilvægt fyrir hann að viðhalda tengslum við hana og systkini sín. Fljótt hafi þó komið í ljós að umgengni hafi farið afar illa í drenginn. Hann hafi hrapað í þroska, þolað illa kröfur hins daglega lífs og færst í sérkennsluúrræði [...] þar sem hann hafi ekki verið metinn hæfur til að vera í skólanum. Hann hafi meðal annars beitt fósturforeldra og starfsmenn skóla gríðarlega miklu líkamlegu ofbeldi, félagsleg staða hans hafi hrunið og í X 2017 hafi þurft að vista hann neyðarvistun á BUGL en aðstoð lögreglu hafi þurft til að færa hann þangað.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann. Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana samkvæmt 25., 27. eða 28. gr. bvl. og áður en sett er fram krafa um sviptingu forsjár samkvæmt 29. bvl. nema barn njóti aðstoðar lögmanns. Almenna reglan er því sú að barnaverndarnefnd metur hvort þörf er á skipun talmanns barni til halds og trausts á meðan meðferð máls stendur og til að tala máli barnsins. Hin kærða ákvörðun varðar umgengni samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl. og var skipun talsmanns því háð mati barnaverndarnefndar. Afstaða barnaverndarnefndar er sú að frekari samtöl um umgengni við drenginn væru til þess fallin að auka á vanlíðan hans. Niðurstaða barnaverndarnefndar var því sú að drengnum yrði ekki skipaður talsmaður.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla á þeirri meginreglu barnaverndarstarfs að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir því að barnaverndaryfirvöld leiti eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls. Samkvæmt gögnum málsins hefur ekki verið kannað sérstaklega með afstöðu drengsins til þeirrar ráðstöfunar sem gripið var til með hinum kærða úrskurði og var honum ekki skipaður talsmaður í því skyni að afla afstöðu hans. Fram kemur þó í fundargerð frá meðferðarfundi barnaverndarnefndar 20. september 2017 að drengurinn vilji hitta kæranda og systkini sín.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi.

Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða dreng sem er í miklu ójafnvægi. Hann glímir við fjölþættar greiningar og eru uppi miklar áhyggjur um geðræna og andfélagslega hegðun hans. Ekki hefur tekist að greina að öllu leyti í hverju vandi hans liggur. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera ráð fyrir að drengurinn hafi mjög takmarkaðar forsendur til að tjá sig um hagsmuni sína eða raunverulegan vilja varðandi umgengnina. Að auki hefur komið fram hjá fósturforeldrum að samskipti við talsmann valdi drengnum álagi. Með tilliti til þessa fellst úrskurðarnefndin á að við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi verið réttmætt að drengurinn væri ekki fenginn til að tjá sig sérstaklega að þessu leyti, þar með talið með milligöngu talsmanns, samkvæmt 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl., sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinum kærða úrskurði er byggt á því að umgengni við kæranda auki vanlíðan drengsins, valdi honum andlegu álagi og setji líf hans úr skorðum, bæði fyrir og eftir umgengni. Í fyrrnefndu bréfi BUGL 14. september 2017 kemur fram að drengurinn sé greindur með tengslaröskun, en auk þess sé hann með veigamikil einkenni á einhverfurófi þótt ekki hafi tekist að ljúka þeirri greiningu. Einnig hafi hann verið greindur með ADHD, málskilningsröskun, röskun á félagsfærni í bernsku og blandaðar raskanir hegðunar og geðbrigða. Hann sé með sértæka námserfiðleika og þurfi mikinn stuðning í námi og samskiptum. Drengurinn glími við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda sem tengist skorti á myndun frumtengsla og vanrækslu í æsku. Hann hafi í gegnum tíðina sýnt ofbeldishegðun gagnvart foreldrum, starfsfólki skóla og öðrum börnum. Erfiðlega hafi gengið að ljúka greiningarvinnu vegna hegðunarvanda drengsins. Þá segir í bréfinu að umönnun og uppeldi drengsins sé mjög vandasamt vegna tengslaröskunar hans. Eins og gerist hjá börnum með tengslaröskun geti hegðun hans tekið á sig ýmsar myndir allt frá því að vera eins og hjá ungbarni og upp í aldurssamsvarandi hegðun og þroska. Sérstaklega hafi verið áberandi hvað umgengni við kæranda hafi haft mikil og neikvæð áhrif á þroskaframfarir drengsins. Eftir umgengni við hana hafi verið áberandi hvernig sá ávinningur, sem náðst hafi í vinnu með drengnum, hafi horfið. Í viðtölum fósturmóður á BUGL hafi verið rætt um hversu mikil áhrif umgengni drengsins við kæranda hafi á hann. Í því sambandi hafi komið fram að samskipti við talsmann hafi valdið honum álagi.

Í málinu liggur fyrir tilkynning 17. febrúar 2017 frá H til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þar kemur fram að skólinn tengi erfiða og ógnandi hegðun dregnsins við þá umgengni sem hann hafi haft við kæranda og fyrirhugaða umgengni við kæranda í mars 2017. Hann hafi beitt starfsfólk og aðra nemendur ofbeldi og eyðilagt hluti og kennslugögn. Starfsfólk skólans hafi reynt að stoppa drenginn af í þessum aðstæðum en það hafi reynst erfitt. Þrjá til fjóra starfsmenn þurfi til að halda honum niðri þegar svona standi á. Drengurinn hafi skaðað sig til dæmis með því að bíta sig og skalla höfðinu í gólfið. Drengurinn hafi lítið sem ekkert lært frá því X 2016 og sé hann óskólahæfur.

Í bakvaktarskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur 19. apríl 2017 segir að fósturmóðir hafi óskað eftir aðstoð vegna þess að hún hafi ekki ráðið við drenginn. Hann hefði ítrekað ráðist á hana með spörkum í andlitið, bíti, klóri og hárreyti. Tveir starfsmenn barnaverndar hafi farið á heimilið. Þegar þangað var komið hafi drengurinn algerlega misst stjórn á sér þannig að halda þurfti honum niðri. Óskað hafi verið bráðavistunar fyrir hann á BUGL sem hafi verið samþykkt til næsta morguns. Ekki hafi verið hægt að koma drengnum í bíl án aðstoðar lögreglu og hafi því verið kallað eftir lögregluaðstoð. Handjárna hefði þurfti drenginn til að koma honum í lögreglubíl. Einnig hafi komið fram í skýrslunni að fósturmóðir hefði verið með mikla áverka á höndum, bæði gamla og nýja.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála styðja framangreind gögn málsins niðurstöðu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þess efnis að umgengni við kæranda valdi drengnum andlegu álagi og aukinni vanlíðan. Af forsögu málsins og þeim gögnum sem liggja fyrir er drengurinn í óvenjulega miklum og alvarlegum vandræðum. Hann er nánast illa staddur á öllum sviðum eins og gögn málsins bera með sér, en auk þess er hann með ADHD, alvarlega tengslaröskun og er sennilega á einhverfurófi. Drengurinn hefur átt í erfiðleikum hvar sem hann hefur verið og sýnt af sér ofbeldishegðun. Úrskurðarnefndin telur að drengurinn sé í verulegri hættu í framtíðinni en sú erfiða hegðun sem hann hefur sýnt á árinu 2017 bendir eindregið til þess að svo sé. Enn fremur verður að telja að málið hafi verið rannsakað á þann hátt að nú liggi ótvírætt fyrir að drengurinn þurfi stöðuga og mjög mikla hjálp í framtíðinni. Til að koma til móts við þarfir hans ber að reyna að búa honum eins öruggt umhverfi og hægt er áður en hann kemst á unglingsár. Í þeim tilgangi að draga eins og frekast er unnt úr því álagi sem veikindi og erfiðleikar drengsins hafa valdið fósturforeldrum ber að takmarka umgengni drengsins við kæranda eins og gert var með hinum kærða úrskurði. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru það veigamikil rök í málinu að fósturforeldrar eru andstæð umgengni þar sem þau telja hana valda drengnum mikilli vanlíðan og afturför. Ber í þessu sambandi að líta jafnframt til þess sem ótvírætt kemur fram í gögnum málsins að umgengni drengsins við kæranda valdi honum aukinni vanlíðan og íþyngi honum enn frekar í þeirri erfiðu stöðu sem drengurinn er í og þarf að glíma við næstu árin. Að þessu virtu standa engin rök til þess að telja að slík takmörkun á umgengni sé andstæð hagsmunum drengsins eða að hinn kærði úrskurður sé til þess fallinn að valda óstöðugleika í lífi hans eða að málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt, eins og kærandi heldur fram.

Tengslaraskað barn þarf mikinn stöðugleika, skýran ramma og þolir ekki miklar breytingar. Barnið þarf að geta treyst fólki en vandinn við tengslaröskun felst að miklu leyti í því að barnið á erfitt með að treysta öðrum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki komin nægileg reynsla á hvort fóstrið getur verið endurhæfing fyrir drenginn. Það þarf lengri tíma til að átta sig á því hvort hann nær fóstfestu og til þess þarf hann frið frá þeim truflunum sem umgengni við kæranda hefur á hann í fóstrinu. Markmiðið með fóstrinu er að skapa stöðugleika fyrir drenginn og að líf hans verði fyrir sem minnstri röskun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur því markmiði ekki verið náð, þrátt fyrir mjög umfangsmikinn stuðning og læknisþjónustu við drenginn.

Markmiðið með því að kærandi hafi ekki umgengni við drenginn í eitt ár er að tryggja hagsmuni drengsins en úrskurðanefndin telur með hliðsjón af öllu framangreindu að umgengni við kæranda sé andstæð hag og þörfum drengsins. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framangreindu að ekki hafi verið hjá því komist að kærandi hefði enga umgengni við drenginn í eitt ár frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 12. september 2017 að telja.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. október 2017 um umgengni A við son hennar, D, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta