Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 572/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 572/2021

Miðvikudaginn 26. janúar 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 1. nóvember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D, og son sinn, E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi afsalaði sér forsjá þeirra með dómsátt þann 5. febrúar 2018. Faðir hefur aldrei farið með forsjá barnanna. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 12. október 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 23. september 2021. Starfsmenn lögðu til að umgengni skyldi vera þrisvar sinnum á ári. Kærandi var ekki samþykk tillögum starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D og E, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram á Akureyri í ágúst, febrúar og maí og í B í nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 30. nóvember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.  

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að umgengni barnanna við kæranda verði ákveðin í samræmi við kröfur hennar fyrir barnaverndarnefndinni þann 11. maí 2021.

Í bréfi kæranda, dags. 11. maí 2021, er gerð krafa um eftirfarandi umgengni:

Regluleg umgengi: Börnin dvelji á heimili móður aðra hverja helgi, frá því að skóladegi lýkur á föstudegi og þar til þau mæta í skóla á mánudegi. Móðir sæki þau í skólann á föstudögum og komi þeim þangað á mánudagsmorgni.

Jóla- og áramótaumgengni: Börnin dvelji hjá móður frá hádegi á aðfangadag fram til hádegis þann 27. desember annað hvert ár, í fyrsta sinn 2021. Börnin dvelji hjá móður frá hádegi á gamlársdag til hádegis á nýársdag annaðhvert ár, í fyrsta sinn 2022.

Páskaumgengni: Börnin dvelji hjá móður aðra hverja páska frá hádegi á skírdag fram til hádegis á páskadag, í fyrsta sinn 2022. Börnin dvelji hjá móður aðra hverja páska frá hádegi á páskadag fram til kl 18 annan dag páska, í fyrsta sinn 2023.

Sumarumgengni: Börnin dvelji hjá móður einn mánuð í sumarfríi ár hvert, annað hvert ár frá 15. júní til 15. júlí, í fyrsta sinn 2021 og hitt árið á móti frá 15. júlí til 15. ágúst, í fyrsta sinn árið 2022.“

Í kæru kemur fram að í úrskurði barnaverndarnefndarinnar sé kveðið á um að sameina eigi fjórðu umgengina við eina af þeim samvistum sem börnin eiga við aðra ættingja. Í því ljósi sé því mótmælt að réttur barnanna verði skertur með því að veita kæranda umgengni samhliða öðrum ættingjum í stað þess að hafa umgengni barnanna við kæranda sér. Augljóslega njóti börnin ekki samveru við móður á sama hátt þegar aðrir ættingjar séu viðstaddir og ef þau væru ein með henni. Að auki væri með þessu fyrirkomulagi verið að skerða rétt þessara barna til umgengni við stórfjölskylduna þar sem upplifun þeirra af umgengni við aðra ættingja verður ekki sú sama ef þau eru upptekin af samskiptum við móður sína. Það fyrirkomulag sem barnaverndarnefnd hafi ákveðið feli í sér brot gegn umgengnisrétti barnanna, móðurinnar og annarra ættingja sem umgengnin myndi hafa áhrif á.

Það teljist undarlegt að líta á umgengni við stórfjölskylduna og rétt barnanna til að njóta samveru, ástar og umhyggju ættingja sinna sem einhverskonar kvöð sem „raskar ró og stöðugleika“ barnanna, enda færir barnaverndarnefnd ekki nein rök fyrir því hvernig það yrði minni röskun fyrir börnin að eiga samskipti við móður sína og ættingja saman. Þvert á móti myndi það torvelda innileg samskipti fyrir þau að hitta marga í einu.

Bent sé á að réttur barna í fóstri til að halda sambandi við fjölskyldu sína er túlkaður rúmt, sbr. umfjöllun Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna:

„The Committee urges that references to ‘family’ and ‘school’ not be understood as narrowly defined. The references to ‘family’ (or to ‘parents’) must be understood within the local context and may mean not only the ‘nuclear’ family, but also the extended family or even broader communal definitions including grandparents, siblings, other relatives, guardians or care providers, neighbours, […]“[1]

Þá hafi ekkert komið fram um að það sé á nokkurn hátt íþyngjandi fyrir börnin að umgangast ættingja sína, þvert á móti elska flest börn að hitta ömmu og afa og frænkur og frænda og slík samvera ætti að vera sem oftast og sem mest. Það sé líkt og afstaða barnaverndarnefndar sé sú að það að elska þessi börn of mikið, og að of margir skulu elska þau og vilja eyða gæðastundum með þeim – að það sé eitthvað slæmt sem valdi álagi og streitu og það þurfi að vernda börnin gegn þessu. Á þetta við engin rök að styðjast heldur verður fremur að telja að það að leyfa þessum börnum ekki að eiga eðlilegt og heilbrigt samband við stórfjölskylduna, sem ein umgengni á ári getur aldrei talist til, sé brot gegn mannréttindum þessara fósturbarna á þeim eina grunni að þau séu svona óheppin að hafa verið sett í varanlegt fóstur.

Slík rök styðjist hvorki við lög, mannréttindi né neinar haldbærar rannsóknir. Það sé aftur á móti almenn þekking að það að eyða tíma með stórfjölskyldu og elskandi ættingjum, tala nú ekki um með foreldrum, eykur vellíðan, velferð, hamingju og heilbrigði allra barna. Þá sé það líka almenn þekking að þegar þetta vantar inn í líf barna verði þau einmitt berskjaldaðri fyrir vanlíðan, kvíða, brotinni sjálfsmynd og alls kyns hegðunarerfiðleikum til framtíðar.

Ekki verði séð að umgengni fjórum sinnum á ári samræmist alþjóðlegum barnarétti.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða systkinin E [X] ára og D [X] ára. Börnin lúti forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi hafi afsalað sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Faðir barnanna hafi aldrei farið með forsjá þeirra. Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið í máli barnanna frá því í byrjun árs 2013. Börnin hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á F frá mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og síðan í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafi aðlagast vel á fósturheimilinu í F og eigi börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína.

Barnaverndarnefnd B hefur fjórum sinnum úrskurðað í málefnum barnanna vegna umgengni við kæranda.

- Þann 2. maí 2018 var úrskurðað um umgengni tvisvar á ári undir eftirliti

- Þann 24. september 2019 var úrskurðað um að umgengni yrði aukin úr tveimur klukkustundum í þrjár klukkustundir tvisvar á ári.

- Þann 1. júní 2021 var málið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B eftir að lögmaður kæranda sendi bréf, dags. 11. maí 2021 til Barnaverndar B þar sem kærandi óskaði eftir aukinni umgengni. Óskað var eftir að umgengni barnanna við kæranda yrði á þann veg að börnin myndu dvelja á heimili hennar aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags. Einnig hafi verið óskað eftir jóla- og áramótaumgengni og páskaumgengni ásamt því að börnin myndu dvelja hjá kæranda í mánuð á hverju sumri. Þann 10. júní 2021 var úrskurðað um að kærandi skyldi eiga umgengni við börnin þrisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarnefnd velferðarmála felldi þennan úrskurð úr gildi.

- Þann 12. október 2021 var umgengni móður aukin með hinum kærða úrskurði í fjögur skipti, þrjár klukkustundir í senn.

Úrskurður barnaverndarnefndar frá 10. júní 2021 var felldur úr gildi, líkt og fyrr sagði, eftir að móðir kærði úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála og úrskurðarnefnd vísaði málinu til barnaverndarnefndar til nýrrar meðferðar þann 13. september 2021. Fram kom í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar að það væri mat úrskurðarnefndar að við ákvörðun um umgengni móður við börnin yrði að líta til þess hvað þjóni hagsmunum barnanna best og að markmiðið væri ekki að styrkja tengsl barnanna við móður heldur einungis að viðhalda tengslum. Úrskurðarnefnd taldi að aukning á umgengni um eitt skipti á ári, úr þremur í fjögur skipti, væri ekki til þess fallin að valda togstreitu í fóstrinu.

Eftir að úrskurðarnefndin felldi úrskurð barnaverndarnefndar úr gildi hafði starfsmaður Barnaverndar B samband við lögmann kæranda þann 21. september 2021 í gegnum tölvupóst. Þar var vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar og hvort kærandi myndi fallast á að eiga umgengni við börnin fjórum sinnum á ári, þ.e. að bætt yrði við einni umgengni eins og mælst var til í úrskurði úrskurðarnefndar. Lögmaður kæranda svaraði starfsmanni samdægurs og vísaði til þess að kærandi féllist á að bæta við einni umgengni en krefðist þess að úrskurðað yrði í málinu um umgengni í þessi fjögur skipti á ári..

Báðum börnunum hafi verið skipaður talsmaður til þess að afla afstöðu þeirra vegna beiðni um aukna umgengni við kæranda. Í talsmannskýrslu, dags. 10. mars 2021, hafi komið fram að báðum börnunum þótti fyrirkomulagið um umgengni vera gott en gaman væri að hitta móður sína oftar og nefndu þau bæði „kannski fjórum sinnum á ári“. Bæði greindu þau frá því að þau vildu hafa óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri „í húsinu í H með fólkinu sem er að passa allt“. Talsmaður spurði börnin hvort þau myndu vilja vera ein með móður sinni og svöruðu þau “þetta er bara mjög gott svona eins og það er“. Börnin greindu því talsmanni frá því að þau vildu hitta móður sína fjórum sinnum á ári.

Samkvæmt 74. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samning um umgengni eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Haft hafi verið samband við fósturforeldra vegna kröfu móður um aukna umgengni og vildu fósturforeldar reyna að mæta óskum barnanna og fjölga umgengni í þrjú skipti á ári. Töldu fósturforeldrar þrjú skipti á ári vera hæfilegt fyrir börnin í ljósi þess að börnin eiga einnig töluverða umgengni við aðra nákomna ættingja árlega.

Börnin hafa nú búið á fósturheimilinu síðan í byrjun árs 2017 og hafa myndað sterk og innihaldsrík tengsl við fósturforeldra sína. Kom það fram hjá fósturforeldrum að börnin upplifi sig sem hluta af samfélaginu á F og séu þau hluti af stórfjölskyldu fósturforeldra. Börnin búi í dag við mikinn stöðugleika, séu í góðu jafnvægi og hafi tekið miklu framförum frá því að fósturvistun hófst. Fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið börnum erfið. D hafi glímt við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti. Þá glímdu bæði börnin við mikla innri streitu vegna vanrækslu og áfalla sem birtist í hegðun þeirra, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og vanda við að mynda og viðhalda tengslum eftir að hafa verið tekin úr streituvaldandi aðstæðum og óöryggi. Bæði börnin hafi á einlægan hátt unnið mikið með áföll sín og tilfinningar og verið opinská um þau við fósturforeldra sína og sálfræðinga. Fyrstu tvö árin á fósturheimilinu höfðu bæði börnin mikla þörf fyrir öryggi, stöðugleika og traust til að ná jafnvægi og minnka innri streitu og að aðlagast nýju heimili og umhverfi.

Það jafnvægi sem ríki í lífi barnanna í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum og þeim fagaðilum sem börnin hafa notið aðstoðar frá, en börnin séu bæði í mánaðarlegum sálfræðiviðtölum. Fósturforeldrar haldi vel utan um þeirra mál og ekki sé langt síðan jafnvægi komst á í lífi barnanna. Af þeim sökum og út frá gögnum málsins sé það því mat starfsmanna barnaverndar að mikilvægt sé að fara varlega í allar breytingar á þeirra högum.

Börnin eigi bæði ríkulega umgengni við upprunafjölskyldu sína. Börnin hitta foreldra sína samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar B. Þá hitta þau einnig móðurömmu, föðurömmu og mann hennar ásamt tveimur börnum þeirra og tvær langömmur og mennina þeirra, allt samkvæmt samkomulagi sem starfsmaður barnaverndar hefur aðkomu að. Þessi umgengni fari ýmist fram í H eða á G en í flest skipti á G með tilheyrandi ferðalögum fyrir börnin og fósturforeldra. Systkinin hitta alls 11 ættingja í umgengni níu sinnum á ári.

Í kæru til úrskurðarnefndar sé þess krafist að úrskurður barnaverndarnefndar, uppkveðinn 12. október 2021, verði felldur úr gildi og umgengni ákveðin í samræmi við kröfur móður fyrir nefndinni, samanber bréf hennar, dags. 11. maí 2021. Kærandi vísar einnig til þess að í úrskurði barnaverndarnefndar sé vísað til þess að fjórða umgengnin, sem bætt hafi verið við frá síðasta úrskurði, eigi að vera sameinuð við eina af þeim samvistum sem börnin eiga við aðra ættingja og sé því sérstaklega mótmælt.

Að mati Barnaverndarnefndar B voru kröfur móður um aukna umgengni, sem hún lagði fram í bréfi þann 11. maí 2021, hvorki í samræmi við markmið varanlegs fósturs né til þess fallnar að búa börnunum öryggi og stöðugleika í lífi þeirra. Nefndin taldi að svo umfangsmikil breyting gæti raskað þeirri ró sem skapast hefur í lífi barnanna.

Börnin búa í dag við öryggi og stöðugleika í lífi sínu og það ríkir ró og jafnvægi í fóstrinu. Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eiga börn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru þeim nákomin. Í 74. gr. laganna er kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við börn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnanna og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þeirra í fóstur.

Það er mat Barnaverndarnefndar B að ekki sé of mikið lagt á börnin með því að umgengni þeirra við móður sé í fjögur skipti á ári og að það muni ekki raska þeirra ró og stöðugleika. Fram hefur komið í samtali við börnin að þau sjálf vilja auka umgengni við móður í fjögur skipti á ári og töldu það vera mátulegt. Þannig er tekið tillit til vilja barnanna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Fram hefur komið að börnin eigi töluverða umgengni við ættingja úr upprunafjölskyldu sinni og fer sú umgengni fram ýmist á G eða í H. Umgengni barnanna fylgir álag á börnin og fósturforeldra en í mörg skipti eigi umgengni sér stað í H og því fari töluverð vinna og tími í hverja umgengni. Barnaverndarnefnd B mælti því með, ef unnt væri, að ein umgengni móður af fjórum skiptum færi fram á sama tíma og skipulögð umgengni við aðra ættingja. Með þessu var horft til þess að létta álagi af fósturforeldrum og minnka rask hjá börnunum. Í úrskurði nefndarinnar kemur hins vegar skýrt fram að móðir eigi  umgengni í fjögur skipti og því sé ekki um skyldu að ræða heldur einungis beint til aðila að skipuleggja umgengni með þessum hætti ef unnt er, fyrst og fremst með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Í úrskurði barnaverndarnefndar er kveðið á um að umgengni skuli vera fjórum sinnum á ári, þar af þrisvar á G og einu sinni í H ár hvert. Eftir að nefndin úrskurðaði í málinu 12. október síðastlinn fengu starfsmenn Barnaverndar B upplýsingar þess efnis að móðir væri komin í fangelsi þar sem hún situr af sér dóm, uppkveðnum í máli nr. X fyrir Héraðsdómi B þann X 2021. Þar var móðir dæmd til að sæta fangelsi í X ár og X mánuði og í forsendum héraðsdóms sé tiltekið að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að móðir hafi rofið skilyrði reynslulausnar sem henni hafði nýlega verið veitt á eftirstöðvum fangelsisrefsingar fyrir sömu brot en með dómnum var hún sakfelld fyrir brot á umferðarlögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Brotin voru framin á tímabilinu ágúst 2020 til í janúar 2021.

Í málatilbúnaði móður hefur verið á því byggt að hún hafi verið edrú meira og minna síðan 2017 ef frá sé talin sprunga sem stóð yfir í nokkra mánuði á árinu 2019. Af fyrrgreindum dómi Héraðsdóms B sé ljóst að þetta er ekki rétt. Þá skal tiltekið að Barnavernd B fékk engar upplýsingar, hvorki frá lögmanni kæranda né kæranda, um að kærandi sætti afplánun þegar að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp í október síðastliðnum. Ljóst er að umgengni móður við börnin mun reyna töluvert meira á börnin og fósturforeldra og raunar sé óljóst hvernig umgengni verði háttað á meðan móðir afplánar dóminn.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barna

Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 10. mars 2021. Í skýrslu talsmanns kemur fram að börnunum líði vel að hitta kæranda og einnig eftir að hafa hitt hana. Börnin töluðu um að fyrirkomulag umgengni væri gott, að heimsóknir væru þrisvar á ári og þegar þau hittust væru þau að spjalla saman, færu stundum í göngutúr og einu sinni hafi þau farið á bókasafnið. Börnin greindu bæði frá því að það væri gaman að hitta kæranda oftar og aðspurð um hve oft nefndu þau bæði kannski fjórum sinnum á ári. Bæði greindu þau frá því að vilja óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri í húsinu í H með fólkinu sem er að passa allt. Aðspurð hvort þau myndu vilja vera ein með kæranda sögðu þau að fyrirkomulagið væri gott eins og það væri. Þegar börnin voru spurð um frekari afstöðu þeirra gagnvart umgengni höfðu þau ekki frá fleiru að segja.

V.  Sjónarmið fósturforeldra

Með tölvupósti 5. janúar 2022 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu fósturforeldra til kröfu kæranda um aukna umgengni. Afstaða þeirra barst með bréfi lögmanns þeirra, dags. 16. janúar 2022. Fram kemur í bréfinu að börnin séu í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum og með vísan til vel þekktra sjónarmiða að baki 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé markmið þess fósturs ekki sameining þeirra við upprunafjölskyldu sína, heldur áframhaldandi vera þeirra hjá fósturforeldrum til fullorðinsára. Börnin eiga því rétt til stöðugleika í sínum aðstæðum og möguleika á að aðlagast fósturfjölskyldunni sem sinni eigin. Umgengni fósturbarna við upprunafjölskyldu sína sé í þeim tilgangi að viðhalda tengslum sem þegar séu til staðar og einnig svo að börnin geti þekkt uppruna sinn.

Börnin njóta umgengni við fjölda aðila úr upprunafjölskyldu sinni, auk kynmóður, en systkinin hitta nú alls 11 ættingja í umgengni níu sinnum á ári. Þá móttaka þau bréf og gjafir frá móður og raunar fleiri fjölskyldumeðlimum þess á milli, til dæmis um afmæli, páska og jól.

Að mati fósturforeldra sé um talsvert mikla umgengni að ræða og myndi aukning hennar síst verða til þess fallin að stuðla að markmiðum fóstursins. Fósturforeldrar mótmæli sjónarmiðum móður um að umgengni sé of lítil og að hana þurfi að auka.

Fósturforeldrar benda á að móðir barnanna hafi byggt málatilbúnað sinn fyrir barnaverndarnefnd gegn betri vitund á röngum forsendum, enda hafi hún lýst aðstæðum sínum sem afar góðum, en í engu hafi þess verið getið að þá var yfirvofandi dómsmeðferð vegna ákæru á hendur henni um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og fleira. Þá sé í öllum málatilbúnaði móður nú fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála litið fram hjá þeirri staðreynd að hún var sakfelld og afplánar nú dóm sinn og hefur því afar takmarkaðar aðstæður til að sinna umgengni við börn sín.

Að lokum er enn á ný ítrekuð afstaða fósturforeldra um að þau eru samþykk niðurstöðu fyrri úrskurðar Barnaverndarnefndar B, uppkveðnum hinn 10. júní síðastliðinn, sem var heimvísað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 304/2021. Er ítarlega farið yfir þau sjónarmið í kæru en í hnotskurn var þar um að ræða aukningu á umgengni um eitt skipti frá tveimur skiptum, en fósturforeldrar geta ekki stutt aukningu umfram það. Þá telja fósturforeldrar hæfilegan tíma til umgengninnar vera 2 klst í senn. Fósturforeldrar telja að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti frekari aukningu.

Fósturforeldrar benda á að þau hafi kært umræddan úrskurð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndar velferðarmála og gert kröfu um endurskoðun á inntaki umgengni barnanna við kæranda. Er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, tvisvar á ári á G og einu sinni á ári í H.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Með hinum kærða úrskurði frá 12. október 2021 var ákveðið að umgengni barnanna við kæranda yrði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Umgengnin verði undir eftirliti og fari fram á G og í H. Skilyrði umgengni er að kærandi sé edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi ein farið með forsjá barnanna fram til 6. febrúar 2018 þegar hún afsalaði sér forsjánni með dómsátt. Kynfaðir barnanna hafi aldrei farið með forsjá þeirra. Börnin séu vistuð í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Fram kemur að börnin eigi umgengni við aðra ættingja úr upprunafjölskyldu sinni og eigi samanlagt umgengni níu sinnum á ári við aðila úr upprunafjölskyldu sinni. Þá kemur fram að kærandi hafi síðast verið í neyslu fíkniefna árið 2019 og lokið vímuefnameðferð á haustmánuðum 2020.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og henni verði veitt umgengni við börnin sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags, á heimili sínu. Þá fer kærandi fram á það að börnin verði hjá henni í mánuð yfir sumartímann, auk jóla- og páskaumgengni sem einnig fari fram á heimili hennar. Einnig krefst kærandi þess að afstaða barnanna til reglulegrar umgengni verði könnuð eftir að aðlögun með nánar tilgreindum hætti hefur farið fram.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengni.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að börnin færu aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnanna í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þeirra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber fyrst og fremst að líta til þess við ákvörðun um umgengni barnanna við kæranda hvað þjónar hagsmunum þeirra best. Í því sambandi ber að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í samkvæmt gögnum málsins og þess að það er ekki markmiðið með umgengni við kæranda að styrkja tengsl þeirra við hana heldur einungis að viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi. Úrskurðarnefndin tekur undir mat starfsmanna barnaverndar að mikilvægt sé að viðhalda  þeim stöðugleika sem náðst hefur hjá börnunum á fósturheimilinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af gögnum málsins, þar á meðal með hliðsjón af viðhorfi og aldri barnanna auk afstöðu fósturforeldra, að það sé börnunum fyrir bestu að umgengni við kæranda verði fjórum sinnum á ári í samræmi við hinn kærða úrskurð.

Vegna athugasemda kæranda um að mælt sé með því að ein umgengni móður af fjórum skiptum fari fram á sama tíma og umgengni sem aðrir ættingjar eiga, er til þess að líta að hér er einungis um tilmæli að ræða sem beint er til málsaðila að hafa í huga við skipulagningu á umgengni og þá með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni barnanna við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 varðandi umgengni D, og E, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 



[1] IMPLEMENTATION HANDBOOK FOR THE CONVENTION ON THE RIGHTS OF THE CHILD. https://www.unicef.org/lac/media/22071/file/implementation%20Handbook%20for%20the%20CRC.pdf


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta