Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 116/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 116/2017

Föstudaginn 23. júní 2017

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 14. mars 2017 kærði C hdl., f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 15. febrúar 2017 vegna umgengni kærenda við dóttur þeirra, E. Gerð er krafa um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og kveðið á um aukna umgengni.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan E er fædd X og lýtur forsjá kærenda. Kærendur eiga einnig X eldri börn fædd X, X og X. Við fæðingu elsta barnsins gerðu kærendur samkomulag um að það færi í varanlegt fóstur. Þau voru svipt forsjá barnanna sem fædd eru X og X með dómi Héraðsdóms Reykjaness X 2011. Í dóminum er vísað til þess að barnaverndaryfirvöld hafi haft málefni barnanna til meðferðar allt frá því er kærandi A gekk með X. Barnaverndaryfirvöld hafi haft áhyggjur af getu kærenda til að sinna ungbarni og ala upp þannig að öryggi og hagsmunum barnsins væri gætt. Þeim hafi staðið til boða mjög víðtæk aðstoð en meira og minna verið óráðþæg og ósamvinnuþýð. Þau skorti innsýn í getuleysi sitt til að sinna uppeldi barna og ekki verði séð að þau muni í framtíðinni þiggja nauðsynlega aðstoð sem nauðsynleg sé til að geta alið önn fyrir börnum sínum. Héraðsdómurinn var staðfestur í Hæstarétti X 2012.

Kærendur eru bæði öryrkjar. Kærandi A starfar við [...]. Kærandi B starfar ekki utan heimilis.

Samkvæmt gögnum málsins komu málefni stúlkunnar fyrst til afskipta barnaverndaryfirvalda er kærandi A var þunguð þar sem miklar áhyggjur voru af getu kærenda til að annast barnið. Málinu var lokað í maí 2015 þar sem kærendur fengu mikinn stuðning frá þjónustumiðstöð. Á tímabilinu 4. maí til 2. október 2016 bárust alls 16 tilkynningar til barnaverndar vegna stúlkunnar. Tilkynnendur höfðu áhyggjur af neyslu kærenda og getu þeirra til að annast hana. Stúlkan var bráðavistuð á Vistheimili barna X maí með samþykki kærenda sem undirgengust í kjölfarið sex vikna greiningar- og kennsluvistun á vistheimilinu.

Mál stúlkunnar var lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. júlí 2016. Í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga taldi barnaverndarnefndin ekki forsendur til þess að krefjast lengri vistunar utan heimilis. Nauðsynlegt væri að láta reyna á vilja kærenda til samvinnu til þriggja mánaða að því er varðaði þann stuðning og kennslu sem þau voru talin í þörf fyrir. Var þar um að ræða ráðgjöf á heimili, stuðningsúrræðið F og stuðning frá þjónustumiðstöð. Einnig skyldi óboðað eftirlit haft með heimilinu og forsjárhæfnismat gert á síðari hluta tímabilsins. Samvinna yrði við þjónustumiðstöð og heilsugæslu.

Stúlkan fór því aftur í umsjá kærenda X ágúst 2016. Stuðningsúrræðið F fór í tvö tímabil inn á heimili kærenda, í fyrra sinnið í byrjun ágúst 2016. Þeim stuðningi lauk vegna skorts á samstarfi kæranda A. Að beiðni kærenda kom F aftur inn á heimilið X september 2016 og var þar til X okt. Þá komu starfsmenn Þjónustumiðstöðvar G einnig inn á heimili kærenda og leiðbeindu við umönnun stúlkunnar og skipulag heimilisins. Að sögn starfsmanna þjónustumiðstöðvarinnar tóku kærendur vel á móti þeim. Er líða fór á tímabilið hafi kærandi A rætt um þreytu vegna afskipta barnaverndar og fjölda stuðningsaðila á heimilinu.

Á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. október 2016 var ákveðið að krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að kærendur yrðu svipt forsjá stúlkunnar þar sem veikleikar þeirra í foreldrahlutverkinu væru það miklir að þau væru ekki fær um að bera ábyrgð á barni. Með úrskurði 14. október 2016 var ákveðið að vista stúlkuna utan heimilis í tvo mánuði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. bvl. Eftir uppkvaðningu þess úrskurðar var ákveðið að óska samstarfs við kærendur um að færa stúlkuna á Vistheimili barna. X október 2016 fóru kærendur með stúlkuna út á land. Eftir að þau komu aftur til Reykjavíkur reyndist erfitt að fá þau til að afhenda stúlkuna í samræmi við úrskurð nefndarinnar og því hafi þurft að óska eftir aðstoð lögreglu X október til að framfylgja honum.

Alls hafa verið gerð fjögur forsjárhæfnismöt á kærendum; árin 2004, 2010, 2011 og 2016.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2016 var ákveðið að umgengni kærenda við stúlkuna yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Eftirlit barnaverndar yrði við upphaf og lok umgengni. Fósturmóðir og tveir eftirlitsaðilar yrðu viðstödd alla umgengni. Umgengni skyldi vera með þessum hætti í tvö skipti til reynslu og að því loknu skyldi málið lagt fyrir barnaverndarnefndina að nýju. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að umgengnin hafi gengið ágætlega.

1Málið var lagt fyrir barnaverndarnefndina að nýju 22. nóvember 2016 til ákvörðunar um umgengni í tímabundnu fóstri á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Kærendur höfðu þá gert kröfu um aukna umgengni. Umgengni kærenda við stúlkuna var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 15. febrúar 2017 ákveðin einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að E, hafi umgengni við foreldra sína B og A, einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur sinni eftirliti við upphaf og lok umgengni. Þá verði fósturmóðir viðstödd alla umgengni. Einnig verði tveir eftirlitsaðilar frá Velferðarsviði viðstaddir umgengni ef foreldrar óska eftir því. Umgengni verði með þessum [hætti] á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“

II. Sjónarmið kærenda og kröfur

Kærendur krefjast þess að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. febrúar 2017 verði felldur úr gildi. Þess er einnig krafist að umgengni kærenda við stúlkuna verði vikulega í sex klukkustundir í senn þar til niðurstaða dómstóla í forsjársviptingarmáli á hendur þeim fáist. Umgengnin fari fram á heimili kærenda og verði án eftirlits starfsmanna barnaverndar eða fósturmóður. Kærendur krefjast þess sömuleiðis að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum þeirra og barnsins.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að samkvæmt hinum kærða úrskurði sé umgengni kærenda við stúlkuna í lágmarki. Kærendur telja að niðurstaða hins kærða úrskurðar miði við að barnavernd fái samþykktar kröfur sínar í forsjársviptingarmáli sem nú sé rekið fyrir dómstólum þar sem svo lítil umgengni rjúfi tengsl foreldra og barns. Erfitt sé fyrir kærendur að halda tengslum við stúlkuna með umgengni sem standi aðeins í tvo tíma í mánuði, sérstaklega í ljósi hins þrúgandi andrúmslofts sem sé vegna mikils eftirlits með umgengninni. Þrátt fyrir að barnaverndarnefnd stefni að því að kærendur verði sviptir forsjá með dómi sé það gegn meðalhófsreglu bvl. að skerða umgengni með þeim hætti sem gert sé í hinum kærða úrskurði. Grundvöllur fyrir svo mikilli skerðingu á umgengni sé sá að forsjársvipting hafi þegar farið fram en með hinum kærða úrskurði afli barnavernd sér yfirburðastöðu í yfirstandandi dómsmáli með því að skerða enn frekar tengsl kærenda og stúlkunnar. Í héraðsdómsmálinu sé búið að dómkveðja matsmenn og hætta sé á að matsmenn merki skert tengsl á milli kærenda og stúlkunnar en það sé bein afleiðing þeirrar ákvörðunar sem tekin hafi verið með hinum kærða úrskurði og fyrri úrskurðum í málinu.

Hinn kærði úrskurður taki að miklu leyti mið af niðurstöðum forsjárhæfnismats. Litið sé fram hjá því að fyrstu 18 mánuðina í lífi stúlkunnar hafi engin teljandi vandkvæði verið á uppeldi hennar. Hafi kærendum gengið vel með aðstoð starfsmanna Þjónustumiðstöðvar G. Í hinum kærða úrskurði sé ekki tekið mið af því að forsjárhæfni kærenda til að sjá um stúlkuna til skemmri tíma sé ekki skert. Áhyggjur af forsjárhæfni þeirra séu að mestu leyti af því að þau eru seinfær og muni því ekki koma til með að geta sinnt flóknari þörfum barns. Gögn málsins bendi ekki til þess að stúlkunni stafi hætta af því að umgengni verði miklum mun rýmri en hinn kærði úrskurður kveði á um. Í ljósi þess hvernig uppeldi og umgengni við stúlkuna hafi gengið fyrstu 18 mánuðina í lífi hennar virðist kærendur meira en hæf til þess að fá þá umgengni sem þau fari fram á.

Kærendur vísa einnig til þess að 11. október 2016 hafi málið verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Þann X. október hafi barnaverndarnefndin kveðið upp úrskurð um að forsjársviptingarbeiðni yrði lögð fyrir dómstóla. Það hafi ekki verið fyrr en X október að stúlkan var tekin af heimili kærenda. Áhyggjur af stúlkunni hafi ekki verið meiri en svo. Kærendur mótmæla frásögn barnaverndar um að þau hafi farið með stúlkuna út á land þegar forsjársvipting átti að fara fram og síðan neitað að afhenda stúlkuna þegar heim var komið. Kærendur hafi farið með stúlkuna út á landi yfir helgi en Barnavernd Reykjavíkur hafi hvorki gefið lögmanni kærenda né öðrum stuðningsaðilum upplýsingar um það hvenær stefnt væri að því að taka stúlkuna. Þess var heldur ekki óskað að kærendur kæmu strax með stúlkuna til Reykjavíkur með barnið. Einungis hafi verið haft samband við kærendur sjálf sem séu seinfær og þurfi að fá skýran ramma um allt sem lífi þeirra tengist. Þess hafi loks verið krafist 5 dögum eftir úrskurðinn að stúlkan yrði afhent barnaverndaryfirvöldum. Að mati kærenda sýni þetta sinnuleysi að ekki hafi verið þörf á að ganga jafn langt og raun bar vitni í máli kærenda.

Gerð hafi verið mörg sálfræðileg möt á kærendum en í hinum kærða úrskurði sé vísað til síðasta matsins frá X 2016. Barnavernd leggi mikla áherslu á niðurstöður matsins en það telja kærendur ótækt. Kærendur hafi verið neydd til þess að undirgangast matið, enda hafi það verið eini möguleiki þeirra til að fá dóttur sína aftur á heimilið. Á þeim tíma er kærendur voru metin hafi mikið álag verið á þeim og niðurstaða því ekki marktæk. Innlit á heimilið hafi verið þrisvar til fjórum sinnum á dag auk óboðaðs eftirlits. Það hafi því getað verið um að ræða innlit fimm sinnum á dag með fjögurra til átta klukkustunda viðveru hverju sinni. Þar að auki hafi kærendur sinnt matsvinnu með matsmanni. Ljóst sé að kærendur, sem séu fólk með skerðingar, hafi átt erfitt með að takast á við þetta aukaálag. Þau hafi brugðist illa við og hegðað sér með öðrum hætti heldur en þau hefðu gert ef líf þeirra hefði verið í eðlilegum skorðum.

Barnavernd beri að fylgja öllum reglum sem Barnaverndarstofa hafi sett um rekstur barnaverndarmála, sbr. 3. mgr. 7. gr. bvl. Barnaverndarstofa hafi gefið út verklagsreglur um meðferð barnaverndarmála þegar seinfærir foreldrar eigi í hlut. Verklagsreglur þessar snúi meðal annars að því að varlegar skuli farið að seinfærum foreldrum en öðrum, þeim sé veitt betri aðstoð og meiri réttindi. Í fylgiskjali III með verklagsreglunum sé fjallað um óskir seinfærra foreldra en þeir þurfi meiri tíma og fleiri tækifæri til að skilja af hverju hlutir eigi sér stað og ákvarðanir séu teknar. Í hinum kærða úrskurði virtist litið fram hjá þessu. Þá bendi gögn málsins ekki til þess að stúlkan hafi verið í beinni hættu á heimili kærenda. Hún hafi þroskast með eðlilegum hætti og þær áhyggjur sem séu til staðar snúi fyrst og fremst að hæfni kærenda til framtíðar.

Kærendum þyki stjórnvöld hafa brugðist í allri málsmeðferðinni. Þar megi nefna brot á meðalhófsreglunni sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. bvl. Með vísan til þess sem fram sé komið er það mat kærenda að barnaverndaryfirvöld hafi ítrekað gerst brotleg gegn þessari meginreglu. Skammur tími hafi liðið frá því að áhyggjur komu upp af aðstæðum stúlkunnar auk þess sem þær áhyggjur séu að mestu leyti smávægilegar sé litið til efnis þeirra. Sé það mat kærenda að alvarlegasta brotið hafi verið að meðhöndla mál kærenda ekki í samræmi við reglur Barnaverndarstofu um málefni seinfærra foreldra. Barnaverndaryfirvöldum hafi borið að beita vægari úrræðum með nægilega markvissum hætti svo sem stuðningsfjölskyldu, vistun utan heimilis, lengri markvissum stuðningi, persónulegum ráðgjafa, sálfræðiaðstoð, virkniúrræðum o.fl. Brot barnaverndaryfirvalda á meðalhófsreglunni haldi áfram með þeirri ákvörðun að skerða umgengni verulega.

Þá telja kærendur að málsmeðferð barnaverndaryfirvalda hafi beinlínis brotið gegn jafnræðisreglum barnaverndar- og stjórnsýslulaga. Hafi mál þeirra ekki verið meðhöndlað með sama hætti og mál annarra sem séu í sambærilegri stöðu vegna þess að þau séu seinfær og þau fái lítinn tíma með dóttur sinni vegna skerðinga sinna. Fjöldi dæma séu um að umgengni sé ákveðin meiri við þessar aðstæður en raunin sé í tilviki kærenda.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 3. apríl 2017 er vísað til þess að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Markmiðið sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur. Í því ljósi sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og sé það mat barnaverndarnefndarinnar að umgengni með þeim hætti sem kærendur óski eftir geti raskað ró hennar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu, sbr. athugasemdir með 74. gr. bvl. Að mati nefndarinnar sé hæfilegt að umgengni kærenda við stúlkuna sé einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn.

Stúlkan hafi aðlagast vel á fósturheimilinu, fundið þar öryggi, þroskast vel og tekið miklum framförum í hreyfingum, styrk og málþroska samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslu og leikskóla. Í upplýsingum frá leikskóla komi einnig fram að líðan hennar sé góð, hún sé í góðu jafnvægi og taki framförum.

Kærendur hafi haldið því fram að meðferð málsins fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki tekið mið af fötlun þeirra. Því sé barnaverndarnefnd ekki sammála þar sem við vinnslu málsins hafi þvert á móti verið tekið sérstakt tillit til sérþarfa kærenda, án þess þó að missa sjónar af hagsmunum barnsins sem ávallt skulu hafðir í fyrirrúmi í barnaverndarstarfi, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Málefni stúlkunnar sé ekki einsdæmi en til margra ára hafi starfsfólk barnaverndar farið með málefni barna seinfærra foreldra. Barnaverndin hafi á að skipa sérfræðingum með mikla starfsreynnslu, menntun og þekkingu á vinnslu mála seinfærra foreldra.

Samkvæmt 4. mgr. 24. gr. ákvæðis Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli aðildarríki tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema lögbær yfirvöld ákveði að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur sé það barninu fyrir bestu. Þá segi einnig að aldrei skuli taka barn frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja. Með hliðsjón af framangreindu sé rétt að benda á að við vinnslu málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur hafi verið veittur víðtækur stuðningur á heimili kærenda. Þá hafi kærendur undirgengist forsjárhæfnismat á þeim tíma. Niðurstöður forsjárhæfnismatsins X 2016 hafi verið sú að forsjárhæfni kærenda væri verulega ábótavant og að samhljómur væri með þessu mati og þremur fyrri forsjárhæfnismötum sem gerð hafi verið á kærendum vegna eldri barna þeirra. Meðal annars hafi sagt í matinu að veikleikar kærenda í foreldrahlutverkinu gæfu tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af velferð, þroska, og öryggi stúlkunnar í umsjá þeirra.

Með ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. október 2016 hafi orðið sú breyting á vinnslu málsins að ekki sé stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá kærenda en að hún alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum þar sem X eldri systur hennar séu. Í því ljósi sé lögð áhersla á að stúlkan upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró stúlkunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu.

Umgengni samkvæmt 74. gr. bvl. þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum hennar. Þar beri meðal annars að taka tillit til þeirra markmiða sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Fari hagsmunir stúlkunnar ekki saman við hagsmuni kærenda verði hagsmunir kærenda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. mgr. bvl. Sé það mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að umgengni stúlkunnar við kærendur hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði nefndarinnar frá 15. febrúar 2017.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 15. júní 2017 kemur fram að stúlkan fái martraðir eftir umgengni og kalli „ekki taka mig“. Þá eigi hún erfitt með að kveðja fósturforeldra þegar hún fari í leikskóla dagana á eftir umgengni. Því sé það mat fósturforeldra að umgengni einu sinni í mánuði sé of mikil.

Fósturforeldrar taka fram að stúlkunni líði vel með systrum sínum.

V. Afstaða E

Í ljósi ungs aldurs stúlkunnar var henni hvorki skipaður talsmaður né sjónarmiða hennar aflað.

VI. Niðurstaða

E er X ára. Hún var í síðast umsjá foreldra sinna X október 2016, en hefur frá þeim degi dvalið utan heimilis. Fyrstu dagana var hún á Vistheimili barna en hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá X október 2016.

Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af málefnum stúlkunnar frá því að kærandi A var þunguð. Áður hafa kærendur afsalað sér forsjá barns síns sem fætt er X og verið með dómi svipt forsjá barna sinna sem fædd eru X og X.

Frá því að stúlkan fór í fóstur hefur umgengni kærenda við hana verið einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir undir eftirliti.

Kærendur fara fram á að hinn kærði úrskurður frá 15. febrúar 2017 verði felldur úr gildi og að umgengni kærenda við stúlkuna verði vikulega í sex klukkustundir í senn þar til niðurstaða dómstóla í forsjársviptingarmáli á hendur kærendum fáist. Umgengnin fari fram á heimili kærenda og verði án eftirlits starfsmanna barnaverndar eða fósturmóður. Kærendur krefjast þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum þeirra og barnsins.

Kröfur sínar styðja kærendur þeim rökum að hin litla umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði rjúfi tengsl þeirra við stúlkuna. Barnaverndarnefnd afli sér yfirburðastöðu í yfirstandandi forsjársviptingarmáli með svo mikilli skerðingu á umgengni. Það er einnig mat kærenda að litið hafi verið fram hjá því að fyrstu 18 mánuðina í lífi stúlkunnar hafi engin teljandi vandkvæði verið á uppeldi hennar og að forsjárhæfni kærenda til skemmri tíma sé ekki skert. Enn fremur álíta kærendur að í málinu hafi verið litið fram hjá verklagsreglum Barnaverndarstofu um meðferð barnaverndarmála þegar seinfærir foreldrar eiga í hlut. Loks telja kærendur að meðalhófsregla og jafnræðisregla hafi verið brotin við úrlausn málsins hjá barnaverndarnefnd.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr málinu með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best. Umgengni kærenda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi stúlkunnar í fóstrinu. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum stúlkunnar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Fram kemur í hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að samkvæmt upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar 13. janúar 2017 sé líðan hennar góð og hún sé í jafnvægi hjá fósturfjölskyldunni. Öll samskipti við fósturforeldra séu góð og mikill skilningur sé á milli leikskóla og fósturforeldra varðandi þarfir stúlkunnar. Einnig segir að samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslu 22. desember 2016 hafi málþroski aukist mikið. Hún hafi verið sein í hreyfiþroska en tekið miklum framförum í hreyfingu og styrk. Heilbrigðisstarfsfólk hafi haft áhyggjur af uppeldisaðstæðum stúlkunnar út frá vexti og þroska og samskipti við foreldra hefðu valdið áhyggjum.

Í hinum kærða úrskurði er einnig vísað til þess að ekki séu rök til þess að fallast á kröfu kærenda um jafn mikla umgengni og þau hafi óskað eftir en þar sem ekki sé lengur stefnt að því að stúlkan fari í umsjá kærenda sé það ekki talið þjóna hagsmunum hennar. Mikilvægt sé að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu og í ljósi þess hafi verið lagt til að umgengni væri mánaðarlega í tvær klukkustundir undir eftirliti.

Fósturforeldrar lýsa afstöðu sinni til umgengni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 15. júní 2017. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber að hafa í huga að upplýsingar frá fósturforeldrum bera með sér að umgengni við kærendur raski ró stúlkunnar og valdi henni óöryggi.

Alls hafa verið gerð fjögur forsjárhæfnismöt á kærendum, þ.e. árin 2004, 2010, 2011 og 2016. Auk þess hafa matsmenn verið dómkvaddir til að meta forsjárhæfni kærenda í fimmta sinn vegna forsjársviptingarmáls sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Forsjárhæfnismatið 2004 var gert í tilefni af því að kærendur áttu von á sínu fyrsta barni. Kærandi B var á þessum tíma X ára og kærandi A var X ára. Í matinu kom fram að kærandi B væri greindarskertur, ósjálfstæður og virtist háður kæranda A. Hann hafi tilhneigingu til að fylgja ráðum og boðum annarra fremur en að taka sjálfur ákvarðanir um eigið líf. Um kæranda A segir að sjálfsmynd hennar sé neikvæð og að hún eigi erfitt með að mynda traust og varanleg tengsl. Hún eigi erfitt með að treysta öðrum og sé sjálf hvikul í tengslum. Við mat á stöðu hennar verði þó að hafa ungan aldur hennar í huga. Kærandi A sé ráðandi í sambandinu. Geðrænn óstöðugleiki hennar, neikvæð sjálfsmynd og erfiðleikar við að mynda heilbrigð og varanleg tengsl feli í sér þá hættu að hún geti ekki látið þarfir ungabarns hafa forgang fram yfir eigin þarfir. Þessir persónuþættir og sú afstaða sem hún hafi lýst í viðtölum við matsmann bendi til þess að hún geti verið ófús til að þiggja stuðning og lúta leiðsögn um umönnun barns og hafi tilhneigingu til að taka aðeins við því sem henni henti í það skiptið en hafna annarri aðstoð sem óþarfa afskiptasemi. Kærandi B sé ekki líklegur til að hafa mikið frumkvæði í umönnun barns og ekki fær um að axla neins konar heildarábyrgð í því sambandi. Hann sé þó líklegri en kærandi A til að sætta sig við utanaðkomandi aðstoð og muni geta sinnt afmörkuðum umönnunarþáttum fái hann til þess leiðbeiningar og stuðning. Hann muni þó þurfa stöðugan stuðning að þessu leyti þar sem líklegt sé að hann eigi erfitt með að átta sig á þeim breytingum sem verði hjá barni með auknum þroska þess. Niðurstöður matsins voru þær að forsjárhæfni kærenda væri verulega ábótavant. Þeim myndi reynast erfitt að annast barnið og þar yrði eftirlit og reglubundinn stuðningur barnaverndar- eða félagsmálayfirvalda að vera til staðar. Úrslitaatriði væri líklega hvort kærendur felldu sig við slíka aðild annarra að lífi sínu og barnsins. Á það myndi mjög reyna.

Annað forsjárhæfnismatið var gert 2010 vegna X dætra kærenda [...]. Á þessum tíma bjuggu kærendur á H og nutu mikillar aðstoðar ættingja. Í matinu er vísað til þess að kærendur búi bæði við nokkra andlega skerðingu. Matsmaður tekur undir niðurstöður í matinu frá 2004 og telur nauðsynlegt að endurskoða með reglulegu millibili þau úrræði sem kærendur njóti og nýti sér. Vegna takmarkana kærenda sé fyrirséð að dæturnar muni alltaf þurfa mikla utanaðkomandi örvun. Einnig leggur matsmaður til að reynt verði að fá kærendur til að þiggja liðveislu. Alger samvinna þeirra við félagsmálayfirvöld væri lykilforsenda þess að þau héldu forsjá dætranna. Kæmi til þess að þau flyttu búferlum eða hættu samvinnu við félagsmálayfirvöld yrði að endurskoða allar forsendur. Matsmaður lagði til að foreldrahæfni kærenda yrði endurskoðuð reglulega eftir því sem dæturnar þroskuðust þar sem raunveruleg hætta væri á því að þær tækju þegar á barnsaldri fram úr kærendum í þroska. Undir þeim kringumstæðum væri líklegt að kærendum reyndist erfitt að fullnægja andlegum þörfum dætranna.

Þriðja forsjárhæfnismatið er frá 2011. Var það gert þar sem forsendur töldust breyttar og forsjárhæfni kærenda brostin. Grundvallarafstaða kærenda gagnvart afskiptum af fjölskyldu sinni hefði ekki breyst og þau vildu ekki sætta sig við afskipti af börnum sínum. Þau hefðu ekki innsýn í ástand sitt eða færni og viðurkenndu ekki vanmátt sinn og þörf fyrir aðstoð. Kærendur hefðu ekki sýnt vilja til samvinnu í verki og teldist fullreynt að samvinna við þau næðist ekki. Til að tryggja öryggi barna þeirra inni á heimilinu væri nauðsynlegt að hafa eftirlit allan sólarhringinn en slíka þjónustu sé hvorki hægt að veita né teldist hún líkleg til árangurs af fenginni reynslu. Kærendur hefðu endurtekið sýnt alvarlegt dómgreindarleysi og virt öll tilmæli og leiðbeiningar að vettugi.

Í fjórða forsjárhæfnismatinu sem er frá 2016 er vísað til þess að matsmaður sjái engar vísbendingar um að breytingar hafi orðið á andlegri getu eða frammistöðu kærenda sem gefi tilefni til að endurtaka þær prófanir sem þegar hafi verið gerðar. Samskipti kærenda við þá sem komið hafi að málum þeirra að undanförnu og klínískt mat matsmanns styðji á allan hátt fyrir niðurstöður. Kærandi B sé með skertan þroska, óvirkur, ósjálfstæður, úrræðalaus og leiðitamur. Hann eigi engin áhugamál, þekki ekkert fólk á sjálfstæðan hátt og fari ekki eigin ferða. Hann hafi ekki undir höndum peninga, bankakort eða húslykil að heimili sínu. Hann sé háður skoðunum og athöfnum kæranda A sem ráði á allan hátt ferðinni í sambandi þeirra. Föðurhlutverk hans einkennist af því sem hún segi og leyfi honum að gera. Hann sé ekki líklegur til að sýna mikið frumkvæði í umönnun barnsins og ekki fær um að axla neins konar heildarábyrgð. Hann eigi erfitt með að átta sig á þeim breytingum sem verði hjá barninu með auknum þroska þess og muni þurfa stöðugan stuðning. Hann sé þó líklegri en kærandi A til að sætta sig við utanaðkomandi aðstoð og geta sinnt afmörkuðum uppeldisþáttum með leiðbeiningum og stuðningi. Matsmaður taki undir það sem fram komi í forsjárhæfnismati frá 2014 um að kærandi A hafi lága greind, geðrænan óstöðugleika og áberandi aðlögunarvanda. Af þeim sökum, svo og vegna neikvæðrar sjálfsmyndar og erfiðleika við að mynda heilbrigð og varanleg tengsl, sé hætta á því að hún geti ekki látið þarfir barns hafa forgang umfram eigin þarfir þegar það sé nauðsynlegt. Þessir persónuleikaþættir sem og afstaða hennar bendi til þess að hún geti verið ófús til að þiggja stuðning og lúta leiðsögn við umönnun barns. Matsmaður telur ofangreint úr matinu frá 2004 hafa komið skýrt fram undanfarna mánuði. Sömu þættir hafi einnig orðið þess valdandi að kærendur hafi misst forsjá yfir X börnum sínum árið 2011. Þá vísar matsmaður til þess að í forsjárhæfnismati frá 2011 bendi útkoma persónuleikaprófa til röskunar á andlegri starfsemi, ranghugmynda og aðsóknarkenndar samfara mikilli spennu, kvíða, þunglyndi, reiðivandamálum og áberandi aðlögunarvanda. Persónuleikaþættir af þessu tagi geri einstaklingum erfitt fyrir að takast á við verkefni daglegs lífs og móta framkomu þeirra við annað fólk. Ef kæranda A líki ekki við það sem gerist, sýni hún tilfinningar sínar á hömlulausan hátt. Í niðurstöðum fyrri matsgerða varðandi hegðun hennar og sögu megi sjá samsvörun við einkenni persónuleikaraskana. Einstaklingar með persónuleikaraksanir sjái yfirleitt ekkert athugavert við eigin hegðun og hafi tilhneigingu til að kenna öðrum um. Þeir sýni gjarnan sjálfmiðun og sjálfumgleði, hafi lítið innsæi í eigin sálarlíf, eigi í erfiðleikum með að setja sig í spor annarra og taka tillit til þeirra. Þegar persónuleikaraskanir séu fyrir hendi hafi þær tilhneigingu til að vera varanlegar en erfitt sé að breyta þeim, meðferð þurfi að vera langvarandi og óvíst sé um árangur. Miklir erfiðleikar felist í því að viðkomandi einstaklingur sjái yfirleitt ekki þörf fyrir meðferð. Einkenni af þessu tagi séu hluti af persónugerð A og ekki líkleg til að breytast.

Tengsl kærenda við stúlkuna, eins og þau birtast í dag, einkennist af persónuleikaeinkennum þeirra. Kærandi B tengist stúlkunni á sinn óvirka hátt. Hann virðist fyrst og fremst tilbúinn að hafa stúlkuna í fanginu og sinna henni þegar hún vill og það sé kæranda A þóknanlegt. Tengsl kæranda A við stúlkuna einkennist af því að kærandinn þurfi að ráða ferðinni á sinn sjálfmiðaða hátt og gefi sig að stúlkunni þegar kæranda sjálfri henti. Hún segist í orði vera alltaf til staðar fyrir dóttur sína og telji stúlkuna vita það. En í verki hafi hún harla lítið sinnt stúlkunni á meðan hún hafi verið á Vistheimili barna. Það gefi til kynna að eigin hagsmunir kærandans ráði för en ekki þarfir barnsins. Tengsl kæranda A við stúlkuna einkennist einnig af stjórnsemi kærandans og ráðríki. Það sé ekki farsælt til lengdar því að það bjóði barninu ekki upp á eðlilegt svigrúm til sjálfstæðis miðað við aldur og þroska og muni því hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd barnsins, sjálfstraust þess og aðra persónuþætti.

Matsmaður telur styrkleika kæranda B í foreldrahlutverkinu einkum þá að hann geti að vissu marki sinnt grunnþörfum stúlkunnar með leiðsögn. Um sé að ræða þarfir svo sem að hugga hana, skipta á henni, gefa henni að borða og svæfa hana en þetta hafi hann sýnt á vistheimilinu. Veikleikar hans séu þeir að þekking hans á stúlkunni og framkoma við hana nái ekki að fylgja eftir þeirri hröðu þróun sem sé eðlileg í þroska barns. Einnig felist veikleikar í óvirkni hans, ósjálfstæði og óöryggi. Þegar hegðun og afstaða kæranda A sé neikvæð verði hann auðveldlega fyrir truflun af því. Hann sé óöruggur þegar kærandi A sé hvergi nærri þannig að fjarvera hennar sé honum erfið en nærvera hennar geti einnig verið honum erfið, allt eftir því hvernig liggi á kæranda A. Styrkleikar kæranda A í móðurhlutverkinu felist einkum í fjörugum og líflegum þáttum í persónugerð hennar. Veikleikarnir séu vegna fyrrnefndra neikvæðra þátta í persónugerð hennar. Hún sé sjálfmiðuð, taki illa tilsögn og sé lítið til samvinnu. Það hafi sést vel þegar súlkan hafi verið á vistheimilinu og kærandi A hvorki mætt né sinnt stúlkunni eins og ætlast hafi verið til. Árangur hafi því verið harla lítill. Sannfæring kæranda A á að þekking á foreldrahlutverkinu verði til innra með konum þegar barn fæðist og jafnvel fyrr standist ekki skoðun en hljóti að standa alvarlega í vegi fyrir því að unnt sé að veita henni ráðgjöf. Kærendur eigi bæði í miklum erfiðleikum með að hafa innsýn í þroska og þarfir stúlkunnar. Seinfærir foreldrar sem af einhverjum ástæðum nái ekki að taka leiðbeiningum og ráðgjöf séu alltaf á eftir barninu hvað varði viðeigandi örvun, hegðunarmótun og öll viðbrögð. Sem dæmi mætti nefna að þegar stúlkan hafi komið á vistheimilið hafi hún aðeins drukkið úr pela og virtist aðallega hafa verið svæfð í fangi. Hvoru tveggja henti mun yngra barni. Báðir foreldrar eigi erfitt með að setja þarfir stúlkunnar markvisst fram yfir eigin þarfir eins og fjöldamörg dæmi sanni. Lítil viðvera og dræm þátttaka þeirra í umönnun stúlkunnar á Vistheimili barna sýni þetta betur en flest annað. Kærendur hafi ekki getað þegið eða nýtt sér þann stuðning sem reynt hafi verið að bjóða þeim með alls sex vikna dvöl á vistheimilinu en þetta sé umfangsmikið stuðningsúrræði. Ekki hafi heldur orðið árangur af ráðgjöf og þjálfun F sem komið hafi í kjölfarið. Kærandi B vilji aðstoða en hann setji sig ekki upp á móti vilja kæranda A og því sé ekki hægt að fá hann til að nýta sér aðstoð þegar kærandi A sé því andsnúin. Því sé erfitt að sjá hvernig hægt sé að koma til kærenda viðeigandi stuðningi á þann hátt að það nýtist þeim. Að áliti matsmanns eru tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af velferð, þroska og öryggi stúlkunnar í umsjá kærenda nema til komi samvinna þeirra um mikla og stöðuga ráðgjöf og aðstoð sem bæti upp veikleika þeirra. Undir slíkum kringumstæðum gætu komið viðunandi tímabil en ólíklegt sé að þau endist lengi. Matsmaður telur forsjárhæfni kærenda verulega ábótavant og er sammála fyrri forsjárhæfnismötum sem gerð hafa verið. Ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að ætla að forsjárhæfni þeirra hafi breyst til betri vegar.

Í málinu liggja fyrir fjölmargar skýrslur er lýsa þeim stuðningi sem kærendur fengu frá maí 2016, hvernig þau brugðust við ráðgjöf og hvernig samskipti við þau voru. Skýrslur þessar eru flestar á sömu lund; kærendur tóku leiðbeiningum og ráðgjöf illa og samskipti við þau voru erfið.

Í barnaverndartilkynningu frá Þjónustumiðstöð G til Barnaverndar Reykjavíkur 27. maí 2016, er stúlkan var X mánaða gömul, segir að kærendur hafi óskað eftir og fengið stuðning frá þjónustumiðstöð á meðgöngu og frá fæðingu stúlkunnar. Um hafi verið að ræða stuðning þrisvar til fjórum sinnum í viku auk ráðgjafar frá ráðgjafa. Þau hafi til þessa verið til samvinnu við ráðgjafa en síðastliðnar tvær vikur hafi verið erfiðara að veita stuðning. Starfsmaður, sem hafi farið á heimilið sama dag og bréfið var ritað ásamt réttindagæslumanni fatlaðra, hafi lýst áhyggjum yfir því að barnið hefði ekki fengið að borða þann dag og verið svangt. Líðan kæranda B hafi verið svo slæm að hann hafi ekki verið fær um að hugsa um barnið og kærandi A hafi ekki verið viðstödd. Heimilið hafi ekki litið vel út. Kærandi B hafi óskað eftir meiri stuðningi og kærendum ítrekað verið boðinn meiri stuðningur. Ekki hafi verið unnt að verða við því þar sem kærandi A hafi afþakkað frekari stuðning og kærandi B treysti sér ekki til að ganga gegn vilja hennar í því efni. Kærandi A sé í miklu ójafnvægi og töluverðar áhyggjur uppi af því að hún eigi erfitt með að sinna uppeldishlutverki sínu. Kærandi B lýsi mikilli andlegri og líkamlegri vanlíðan og kveðst meira og minna einn með barnið. Kærandi B hafi jafnframt greint frá því að hann hafi ekki aðgang að peningum til að kaupa mat eða aðrar nauðsynjar þar sem kærandi A fari með fjármál heimilisins.

Í greinargerðum frá Vistheimili barna X júlí og X ágúst 2016 segir að þegar kærendur hafi komið með stúlkuna á vistheimilið X maí hafi hún verið bæði þreytt og svöng. Fyrstu dagana hafi kærendur lítið komið en kærandi B þó meira en kærandi A. Auðveldlega hafi gengið að koma stúlkunni í rútínu varðandi svefn og mat en kærendur hafi mótmælt því daglega vegna þess að um hafi verið að ræða aðra rútínu en heima hjá þeim. Á þeim tíma sem stúlkan hafi verið á vistheimilinu hafi hún sýnt sífellda framför. Fyrsti dagur greiningar- og kennsluvistunar hafi verið X júní. Haldnir hafi verið vikulegir fundir með kærendum, ráðgjafa frá barnavernd, starfsmanni þjónustumiðstöðvar sem séð hafi um kærendur heima, réttindagæslumanni fatlaðra og ráðgjöfum frá vistheimilinu. Sett hafi verið markmið með greiningar- og kennsluvistun. Eitt þeirra hafi verið að kærendur sætu til borðs með stúlkunni þegar hún borðaði. Kærandi B hafi sest með henni til borðs og gefið henni að borða. Kærandi A hafi neitað að setjast með stúlkunni til borðs og gefið ýmsar ástæður fyrir því. Einnig hafi það markmið verið sett að kærendur lengdu viðveru sína á vistheimilinu. Það hafi ekki gengið eftir. Í upphafi hafi verið samið um að kærendur væru hjá stúlkunni alla daga frá kl. 16:30 og fram yfir háttatíma hennar. Viðvera þeirra hafi þó verið slitrótt og á köflum stutt; 15 til 30 mínútur og oft á viðkvæmum tímum dags í kringum háttatíma stúlkunnar. Kærandi A hafi oft skotist frá á umgengnistíma í búð, apótek eða sjoppu. Kærandi B hafi að mestu séð um að svæfa stúlkuna og sagt að það hafi hann alltaf gert heima. Þá hafi verið stefnt að því að kærendur léku við stúlkuna á gólfi og töluðu meira við hana. Þrátt fyrir leiðbeiningar hafi kærandi B mikið haldið á stúlkunni og hvorki talað mikið við hana né leikið þótt þetta hafi farið örlítið batnandi. Kærandi A hafi verið duglegri við að leika við stúlkuna. Í greinargerðinni kemur einnig fram að kærendur hafi verið erfiðir í samvinnu og tekið illa leiðbeiningum. Þau hafi mótmælt flestu sem ráðgjafar hafi lagt til varðandi umönnun stúlkunnar. Að mati starfsmanna vistheimilisins hafi kærendur ekki forgangsraðað verkefnum sínum. Sem dæmi hafi þau oft verið í alls kyns erindagjörðum, svo sem í búðum, á umgengnistímum. Reynt hafi verið að leggja áherslu á að þarfir stúlkunnar þyrftu að vera í fyrsta sæti hjá þeim en það sé mat ráðgjafa að kærendur hafi ekki sýnt að svo væri. Vegna þess hve kærendur hafi verið ósamvinnufús hafi greiningar- og kennsluvistun gengið hægt fyrir sig. Kærandi B hafi að hluta til sýnt áhuga og vilja til að standa sig sem umönnunaraðili stúlkunnar en litlar framfarir hafi verið í samskiptum við kæranda A.

Fyrir liggur skýrsla frá ráðgjöfum F vegna tímabilsins X til X ágúst 2016. Kemur þar fram að á tímablinu hafi ráðgjafi ákveðið daglega heimsóknartíma í samráði við kærendur á milli klukkan 8:00 og 9:00 og 18:00 og 20:00. Samskiptin á heimilinu hefðu verið þannig að kærandi A sinnti stúlkunni í gegnum kæranda B. Samskipti kærenda hefðu ekki verið á jafnréttisgrundvelli. Kærandi B hefði ekkert sagt eða gert nema hann héldi að kærandi A væri sátt við það. Hann hafi lítið sem ekkert frumkvæði haft í samskiptum við stúlkuna og hafi verið áhugalaus um hana. Í skýrslunni er vísað til þess að kærandi A hafi verið mjög ósamvinnuþýð og hvorki tekið leiðsögn né ráðgjöf. Sama hvaða hugmyndir ráðgjafi hafi komið með, ávallt hafi kærandi A verið ósammála.

Í málinu hafa verið lagðar fram upplýsingar um þá þjónustu sem Þjónustumiðstöð G veitti kærendum eftir að F lauk stuðningi sínum um miðjan ágúst 2016. Um hafi verið að ræða tvær vaktir á dag alla daga vikunnar frá klukkan 9:00 til 10:00 og 18:00 til 20:00. Eftir 29. ágúst 2016 hafi skipulagi verið breytt þannig að starfsmaður mætti kl. 8:00 til að aðstoða við að koma stúlkunni í leikskólann og síðan hafi stuðningur verið á milli kl. 18:00 og 20:00.

Í seinni geinargerð F vegna tímabilsins X september til X október 2016 kemur fram að kærandi B hafi ekki sagt mikið við stúlkuna annað en nafnið hennar. Kærandi A hafi haft samskipti við stúlkuna á eigin forsendum frekar en forsendum barnsins og kæranda A hafi skort innsýn í aðstæður. Fjölskyldan sæti ekki saman til borðs á matmálstímum. Lítil regla hafi verið á því hvenær stúlkan borðaði kvöldmat en hún hafi fengið mat sinn í stofunni. Kærandi B hafi oftast aðstoðað stúlkuna við að borða, baðað hana, háttað, klætt og haft hana til fyrir leikskóla. Kærandi A hafi ekki greint á milli hvenær væri æskilegt að örva og grípa inn í og hvenær ekki. Úthald kæranda A til að vera heima og til staðar fyrir barnið hafi farið dvínandi eftir því sem liðið hafi á heimsóknir ráðgjafa F. Kærendur hefðu átt í erfiðleikum með að tileinka sér og fara eftir leiðbeiningum ráðgjafa er viðkomu uppeldi og umönnun stúlkunnar.

Í 1. mgr. 4. gr. bvl. er gerð grein fyrir markmiði barnaverndarstarfs. Þar skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Fari hagsmunir foreldra og barns ekki saman skulu hagsmunir barns ganga framar.

Eins og ítarlega hefur verið rakið er samræmi með þeim fjórum forsjárhæfnismötum sem kærendur hafa undirgengist á 12 ára tímabili og öðrum gögnum málsins. Forsjárhæfni þeirra er og hefur verið mjög skert en þau hafa ekki getað annast börn sín svo viðunandi sé. Á það einnig við um stúlkuna er mál þetta varðar en hún er fjórða barn kærenda.

Kærendur hafa ekki með viðunandi hætti verið til samstarfs við barnaverndaryfirvöld, hvorki í máli þessu né fyrri barnaverndarmálum. Ekki er mögulegt annað en að samstarfsvilji hafi áhrif á málsmeðferð barnaverndarmáls, enda byggja úrræði til stuðnings foreldrum á því að foreldrarnir eigi, geti og vilji hafa góð samskipti og samstarf við barnaverndaryfirvöld. Þetta á einnig við um seinfæra foreldra þó að framfarir geti eðli málsins samkvæmt verið hægari hjá þeim hópi foreldra. Tilgangurinn með stuðningi við foreldra í barnaverndarstarfi þarf að vera raunhæfur og miðast ætíð við að tryggja börnum viðhlítandi uppeldisaðstæður og nauðsynlega örvun. Slíkt verður ekki án samstarfs.

Þegar ljóst var að stuðningsúrræði skiluðu ekki árangri og með hliðsjón af skertri forsjárhæfni kærenda tók Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákvörðun um að krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að kærendur yrðu svipt forsjá stúlkunnar. Var stúlkan í framhaldinu vistuð hjá fósturforeldrum þar sem fyrir eru X eldri systur hennar.

Við þá ákvörðun sem tekin var með hinum kærða úrskurði hvað varðar umgengni kærenda við stúlkuna voru hagsmunir stúlkunnar hafðir að leiðarljósi. Þegar nauðsynlegt er að vista svo ungt barn utan heimilis, án þess að vitað sé hvað framtíðin ber í skauti sér, verður að tryggja að vistunin raski sem minnst ró og öryggi barnsins. Mikil umgengni við kynforeldra á óvissutímabili veldur hættu á að barnið upplifi kvíða og spennu. Á þessum aldri ræður barn illa við breytingar, skilur ekki aðstæður og getur ekki tjáð sig um eigin hag. Við þær aðstæður þegar ekki er komin nægjanleg festa varðandi framtíðina þarf barnið umfram allt stöðugleika og gott utanumhald. Með þetta í huga er það álit úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kærendur eigi að vera í lágmarki. Sú umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði verður að teljast hæfileg miðað við framangreindar forsendur. Af því leiðir að hafna ber því sem kærendur halda fram að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl.

Kærendur telja að jafnræðisreglu barnaverndar- og stjórnsýslulaga hafi ekki verið framfylgt í málinu. Kærendur álíta að fjöldi dæma séu um að umgengni sé ákveðin meiri við þessar aðstæður en raunin sé í tilviki þeirra. Kærendur hafa hvorki vísað til ákveðinna tilvika í þessu sambandi né hafa þau gert grein fyrir því hvaða sjónarmið kunna að vera að baki þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar renna gögn málsins ekki neinum stoðum undir að jafnræðisregla hafi verið brotin í máli kærenda, enda liggur fyrir að hagsmunir stúlkunnar vega þyngra en hagsmunir kærenda þegar hagsmunirnir fara ekki saman og verður að telja ótvírætt að hin kærða úrlausn sé byggð á því.

Með vísan til þess er að framan greinir svo og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kærenda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.


Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. febrúar 2017 varðandi umgengni A og B við dóttur þeirra, E, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta