Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 196/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

 

Mál nr. 196/2018

Mánudaginn 24. september 2018

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. júní 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 2. maí 2018 þar sem kveðið er á um að kærandi hafi umgengni við X börn sín tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með úrskurði 2. maí 2018 ákvað Barnaverndarnefnd Reykjavíkur að kærandi hefði umgengni við X börn sín, X og X ára, tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti starfsmanns í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Það skilyrði var sett fyrir umgegni að kærandi væri edrú og í jafnvægi.

Í úrskurðinum kemur fram að bæði kærandi, sem er móðir barnanna, og faðir þeirra, hafi átt við vímuefnavanda að stríða allt frá [...]. Kærandi [...]. Hún hafi farið ein með forsjá barnanna en þau hafi verið vistuð ítrekað utan heimilis á árunum X og X. Fyrst hafi þau verið vistuð í tímabundnu fóstri en kærandi hafi afsalað sér forsjá þeirra með dómsátt X undir rekstri forsjársviptingarmáls á hendur henni. Börnin séu nú í varanlegu fóstri.

Fram kemur í hinum kærða úrskurði að framangreint forsjársviptingarmál hafi verið rekið fyrir héraðsdómi á tímabilinu X til X. Á þeim tíma hafi kærandi haft mánaðarlegan umgengnisrétt við börnin. Hún hafi ekki nýtt sér umgengnisrétt í X og X en [...] og síðan hafi umgengni átt sér stað mánaðarlega eftir það undir eftirliti. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að umgengni hafi gengið vel.

Í úrskurðinum segir einnig að í upphafi fósturs hafi börnin haft reglulega umgengni við kynforeldra. Á þeim tíma hafi aðlögun barnanna að fósturheimili ekki gengið nógu vel en eftir að umgengni hafi verið minnkuð og börnunum sagt að þau yrðu áfram hjá fósturforeldrum, hafi farið að ganga betur og einnig hafi líðan barnanna breyst mjög til batnaðar.

Á grundvelli forsögu málsins og fyrirliggjandi gagna hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur talið að það þjónaði hagsmunum barnanna best að umgengni við kæranda yrði takmörkuð. Börnin væru á [...] og hafi átt áfallasama frumbernsku sem einkennst hefði af tíðum vistunum utan heimilis vegna vímuefnavanda foreldra og heimilisofbeldis sem þau hafi orðið vitni að. Börnunum líði vel á fósturheimilinu og vel sé annast um þau. Þau séu að læra að lifa í nýjum veruleika en búseta þeirra hjá fósturforeldrum sé ætlað að standa til frambúðar. Þau séu byrjuð að treysta fósturforeldrum og mikilvægt sé að vel takist til með tengslamyndun á milli fósturforeldra og barna.

Það hafi verið niðurstaða barnaverndarnefndar að leysa bæri úr málinu í samræmi við 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) um að tekið skuli mið af því hvað þjónaði hagsmunum barnanna best. Í greinargerð með frumvarpi til bvl. segi meðal annars um umgengnisrétt að gæta verði að því að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til barn verði lögráða verði almennt að gera ráð fyrir að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá barns. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð all verulega. Að mati barnaverndarnefndarinnar hafi hagsmunir barnanna krafist þess að þau fái notið stöðugleika og öryggis og fengju frið til að mynda traust geðtengsl við fósturforeldra. Taldi barnaverndarnefndin að umgengni við kæranda tvisvar á ári væri hæfileg til að tryggja að börnin þekktu kæranda.

Þann 2. júní 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi fór fram á að hinum kærða úrskurði yrði breytt þannig að umgengni kæranda við börnin yrði aukin verulega. Þá kom fram í kæru að hinn kærði úrskurður hefði hvorki komist til vitundar lögmanns né kæranda fyrr en 7. maí 2018. Var þess krafist að úrskurðarnefndin tæki málið til meðferðar.

Í athugasemdum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sem bárust úrskurðarnefndinni 13. júní 2018, segir að í úrskurðarorðum komi fram að úrskurðinum megi skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að aðilum verði kunnugt um úrskurðinn, sbr. 8. mgr. 74. gr. bvl. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geti aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eigi við um hinn kærða úrskurð. Í kæru sé því haldið fram að úrskurðurinn hafi ekki borist til vitundar lögmanns og kæranda fyrr en 7. maí 2018. Þessu mótmæli Barnaverndarnefnd Reykjavíkur með vísan til tölvupósts 2. maí 2018 þar sem lögmanni kæranda hafi verið sendur úrskurðurinn. Samkvæmt þessu hafi kærufrestur byrjað að líða 2. maí 2018 og honum hafi lokið 30. maí 2018. Í kæru sé ekki að finna neinar skýringar á því hvers vegna lögmaðurinn haldi því fram að úrskurðurinn hafi ekki borist sér fyrr en 7. maí 2018. Þegar úrskurðarnefnd barst kæra hafi því verið komið fram yfir kærufrest í málinu en þegar kæra berist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í athugasemdum lögmanns kæranda sem bárust úrskurðarnefndinni 18. júlí 2018 er vísað til 8. mgr. 74. gr. bvl. Segir þar að rétt sé að úrskurði megi skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurð. Frestur sé ekki tilgreindur frá því að úrskurður sé sendur heldur þegar hann berist til vitundar. Í þeim tölvupóstum er barnaverndarnefnd vísi til að hafi verið sendir 5. maí 2018 sé jafnframt beðið staðfestingar á móttöku póstanna. Engin staðfesting hafi verið send barnaverndarnefnd. Hvergi sé tilgreint í lögum að frestur skuli byrja að líða við það eitt að starfsmaður sendi aðila tölvupóst. Lögmaðurinn kveðst ekki hafa móttekið tölvupóstinn fyrr en 7. maí 2018 en hann hafi að miklu leyti verið frá vinnu á þessum tíma. Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að fá málið tekið til efnismeðferðar og það eigi ekki að vera keppikefli yfirvalda að fá kærunni vísað frá á grundvelli óljósrar dagsetningar á móttöku niðurstöðu. Barnaverndarnefnd eigi möguleika á að tryggja sönnun fyrir móttöku á hinum kærða úrskurði. Það hefði mátt gera með rafrænum hætti, sendingu ábyrgðarbréfs eða með því að ganga á eftir skriflegri staðfestingu. Ekkert af þessu hafi verið gert. Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin geri barnaverndarnefnd að svara kærunni efnislega.

 

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur var sendur í tölvupósti til lögmanns kæranda 2. maí 2018. Kæran barst úrskurðarnefndinni 2. júní 2018. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða 2. maí 2018 og honum lauk 30. maí 2018. Þegar úrskurðarnefndinni barst kæran voru því liðnir tveir dagar fram yfir kærufrest.

Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. ssl., þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur lögmaður kæranda gefið þær skýringar að hann hafi ekki móttekið fyrrnefndan tölvupóst fyrr en 7. maí 2018 en hann hafi að miklu leyti verið frá vinnu á þessum tíma. Að mati lögmannsins beri að miða frest við að úrskurður sé kominn til vitundar kæranda. Loks er það álit hans að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði getað tryggt sér sönnun fyrir móttöku hans á hinum kærða úrskurði en það telur hann að hefði mátt gera með rafrænum hætti, sendingu ábyrgðarbréfs eða með því að ganga á eftir skriflegri staðfestingu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga ofangreind sjónarmið lögmannsins sér ekki stoð í bvl. Í hinum kærða úrskurði segir: „Úrskurði þessum má skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.“ Þetta verður að skilja í samhengi við 51. gr. bvl. þar sem fram kemur að skjóta megi úrskurði til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurðinn. Er þannig ekki gert að skilyrði að aðili hafi kynnt sér efni úrskurðar. Á þetta sér einnig stoð í ssl. þar sem segir í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl.

Í samræmi við þetta verður að telja að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn í skilningi bvl. 2. maí 2018 er lögmanni hennar var sendur úrskurðurinn með tölvupósti á uppgefið netfang lögmannsins. Samkvæmt þessu getur dráttur lögmanns á að opna tölvupóst sinn ekki eitt og sér komið í veg fyrir að kærufrestur byrji að líða eða að afsakanlegt verði talið við þessar aðstæður að kæran hafi ekki borist fyrr.

Kærandi kveðst hafa mikla hagsmuni af því að fá málið tekið til efnismeðferðar. Við úrlausn málsins verður ekki hjá því komist að líta til þess hverjir eru hagsmunir barnanna en í barnaverndarstarfi gildir sú meginregla að ef hagsmunir barns og foreldris fara ekki saman skuli hagsmunir foreldris víkja. Einnig verður að líta til þess að fósturforeldrarnir eru aðilar að kærumálinu, sbr. 2. mgr. 74. gr. a bvl. Barnanna og fósturforeldranna vegna er brýnt að ekki verði óþarfa tafir á því að ákvarða hvernig haga skuli umgengni. Óvissa er til þess fallin að skapa óróleika og truflun á fóstrinu, en því lengur sem óvissan varir því meiri verður truflunin. Þetta skiptir verulegu máli þegar leyst er úr því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar við þær aðstæður sem hér eru fyrir hendi. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir ofangreint til þess að ekki verður talið að hér sé uppfyllt það skilyrði lagaákvæðisins að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, þrátt fyrir að hún hafi ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti.

Samkvæmt því, sem rakið er hér að framan, hafa engar nægilegar haldbærar skýringar komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. ssl. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A á úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 2. maí 2018, þar sem ákveðið var að umgengni hennar við börn sín yrði tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti starfsmanns í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

Lára Sverrisdóttir

 

                                              

Björn Jóhannesson                                                                Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta