Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 509/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 509/2021

Föstudaginn 19. nóvember 2021

A

gegn

Fjölskyldunefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Fjölskyldunefndar B frá 17. ágúst 2021, um að synja kæranda um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli er varðar son kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með hinum kærða úrskurði hafnaði Fjölskyldunefnd B að afhenda kæranda gögn vegna barnaverndarmáls sonar hans.

Í hinum kærða úrskurði kemur meðal annars fram að þau gögn sem kærandi leitast við að fá afhent innihaldi afar viðkvæmar upplýsingar um barnsmóður kæranda en snúa ekki að syni þeirra. Að mati fjölskyldunefndarinnar séu umbeðnar upplýsingar þess eðlis að óheimilt sé að afhenda þær kæranda.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Beiðni A um afhendingu ganga er hafnað“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. október 2021, var óskað eftir greinargerð Fjölskyldusviðs B ásamt gögnum málsins. Greinargerð fjölskyldusviðs barst nefndinni þann 17. Október 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. Október 2021, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 22. Október 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. Október 2021, voru þær sendar Fjölskyldunefnd B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá öll gögn sem [Fjölskyldunefnd B] aflaði í barnaverndarmáli sonar hans. Kærandi kveðst eiga rétt á þeim sem forsjáraðili barnsins. Kærandi vísar til þess að hafa fengið þær upplýsingar hjá Barnavernd C og Barnaverndarstofu að hann eigi rétt á gögnunum. Barnaverndarmál komi alltaf forsjáraðila við og rökstuðningur fjölskyldunefndar standist ekki skoðun. Kærandi bendir á að fjölskyldunefndin sé pólitísk og foreldrar barnsmóður hans séu þjóðþekkt fólk sem sé vel liðið á B.

Kærandi kveðst hafa áhyggjur af því að barnsmóðir hans sé ekki hæf móðir og hann eigi rétt á því að fá að vita það. Þetta sé barnið hans og tryggja þurfi að það sé á öruggum stað. Kærandi bendir á að barnsmóðir hans fegri fortíð sína en [Fjölskyldunefnd B] sé með gögn sem segi annað. Kærandi kveðst eiga í forræðisdeilu við barnsmóður sína og þar sé fortíð hans aðalmálið. Þessi gögn verði því að fá að koma í ljós því að sonur hans eigi rétt á því að ekkert sé falið þegar ákvörðun verði tekin um framtíð hans og öll gögn verði að liggja fyrir.

Kærandi kveður ástæðu könnunar máls hafa verið tilkynning spítala um vanrækslu drengsins af hálfu barnsmóður og fíknivanda hennar. Þessi gögn segi sannleikann og því þurfi þau að liggja fyrir þegar kemur að dómsmáli. Kærandi bendir á að sýslumaður hafi fengið öll þessi gögn frá [Fjölskyldunefnd B] við vinnu sína varðandi umgengni, en þegar barnsmóður hafi átt að skrifa undir samning um umgengni hafi hún neitað og höfðað forsjármál. Nú kveðst kærandi þurfa að treysta á að dómstóll taki rétta ákvörðun og því þurfi hann að fá þessi gögn.

III.  Sjónarmið Fjölskyldunefndar B

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að þær upplýsingar sem kærandi leitast við að fá afhentar innihalda að mati Fjölskyldusviðs B afar viðkvæmar persónulegar upplýsingar um barnsmóður kæranda en snúa ekki að syni þeirra. Upplýsinganna hafi verið aflað frá fagaðilum undir könnun barnaverndarmálsins og ná þær nokkuð langt aftur í tímann. Fjölskyldunefnd B sé þeirrar skoðunar að umbeðnar upplýsingar um barnsmóður kæranda séu þess eðlis að nefndinni sé beinlínis óheimilt að afhenda gögnin.

Með vísan til eðlis upplýsinganna telur Fjölskyldunefnd B að skilyrði 2. mgr. 45. gr. bvl. sé uppfyllt í þessum máli. Nánar tiltekið telur Fjölskyldunefnd B gögnin geta „skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra“.

Í þessu sambandi bendir Fjölskyldunefnd B einnig á það að tilgangur 1. mgr. 45. gr. bvl. um skyldu til afhendingar gagna sé sá að aðgangur málsaðila að málsgögnum sé nauðsynlegur svo að viðkomandi aðili geti nýtt sér andmælarétt sinn í viðkomandi máli. Í því máli sem sé til umfjöllunar sé aðstaðan hins vegar sú að það mál þar sem upplýsinganna var aflað sé þegar lokið og það án frekari aðgerða. Verður því ekki séð að kæranda séu gögnin nauðsynleg, enda barnaverndarmálinu lokið án aðgerða. Í því sambandi sé tekið fram að umrætt barnaverndarmál varðar ekki það stjórnsýslumál sem foreldrar barnsins standa nú í fyrir sýslumanni.

Í öllu falli bendir Fjölskyldunefnd B á að samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé heimilt þegar sérstaklega stendur á að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum. Fjölskyldunefnd B sé þeirrar skoðunar í þessu máli að kærandi hafi ekki ríkari hagsmuni af því að fá umbeðin gögn um barnsmóður sína en barnsmóðir hans af því að viðkvæmar persónulegar upplýsingar verði ekki afhentar kæranda.

Í greinargerð Fjölskyldunefndar B kemur fram að aðdragandi málsins sé nokkur en með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 1/2021, sem varðaði aðgang kæranda að sömu gögnum og hér um ræðir, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að Fjölskyldunefnd B hafi „ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um þá kröfu kæranda sem til úrlausnar er í málinu eins og áskilið er í skýru ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl. Samkvæmt þessu var hin kærða ákvörðun ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera áskilnað um.“ Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar Fjölskyldunefndar B.

Í framhaldinu hafi málið verið tekið aftur til meðferðar og með rökstuddum úrskurði Fjölskyldunefndar B, dags. 17. ágúst 2021, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu, með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í úrskurðinum, að beiðni kæranda um afhendingu gagna væri hafnað.

Um rökstuðning fyrir ákvörðun Fjölskyldunefndar B um að hafna því að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum er aðallega vísað til þeirra röksemda sem fram koma í áðurnefndum úrskurði nefndarinnar, dags. 17. ágúst 2021, sem og til greinargerðar fjölskyldunefndar til úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 1/2021, dags. 28. apríl 2021.

IV.  Niðurstaða

Með hinum kærða úrskurði Fjölskyldunefndar B frá 17. ágúst 2021 takmarkaði nefndin aðgang kæranda að gögnum sem aflað var í barnaverndarmáli er varðaði son hans á grundvelli heimildar í 2. mgr. 45. gr. bvl. Kærandi krefst þess í máli þessu að fá afhent öll gögn sem aflað hafi verið í barnaverndarmálinu.

Í 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að barnaverndarlögum segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Eins og að framan greinir ber að túlka þær takmarkanir sem fram koma í 2. mgr. 45. gr. bvl. í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er byggt á því að stjórnvald meti sérstaklega í hverju tilviki þau andstæðu sjónarmið um sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á þeim grundvelli að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga eða gögn í heild sinni séu almennt til þess fallin að valda tjóni. Sérstakt mat verður ávallt að fara fram á aðstæðum öllum í því máli sem til úrlausnar er og meta verður sérstaklega sérhvert skjal sem aðgangur aðila er takmarkaður að og eftir atvikum efnisatriði hvers skjals fyrir sig. Samkvæmt framansögðu verður að telja að Fjölskyldunefnd B hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort þau gögn sem hér um ræðir, hafi að öllu leyti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Verður því ekki fallist á að Fjölskyldunefnd B hafi verið heimilt að takmarka aðgang kæranda að öllum skjölum og öðrum gögnum er varða son hans í fyrrnefndu barnaverndarmáli þar sem sérstakt mat þarf að fara fram um sérhvert skjal með hliðsjón af framangreindu.

Með vísan til framangreinds er úrskurður Fjölskyldunefndar B um að takmarka aðgang kæranda að gögnum er varða son hans felldur úr gildi. Málinu er því vísað aftur til Fjölskyldunefndar B til nýrrar meðferðar.

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Fjölskyldunefndar B frá 17. ágúst 2021 varðandi aðgang A, að skjölum og öðrum gögnum, sem varða mál sonar hans fyrir Fjölskyldunefnd B, er felldur úr gildi. Málinu er vísað aftur til Fjölskyldunefndar B til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta