Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 302/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 302/2018

Föstudaginn 9. nóvember 2018

 

 

 

A

 

gegn

 

Barnavernd B

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi dags. 24. ágúst 2018 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B frá 27. júlí 2018 um fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að um hafi verið að ræða mál vegna sonar kæranda. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B 10. apríl 2018 en á þeim fundi hafi kærandi óskað eftir því að D lögmaður, sem gætt hafi hagsmuna föður drengsins á fundinum, yrði jafnframt lögmaður sinn. Mál drengsins hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi barnaverndar X 2018 en þá hafi lögmaðurinn óskað eftir frestun málsins þar sem báðir foreldrar væru erlendis. Í bókun barnaverndarnefndar þann dag komi fram að máli drengsins yrði frestað til X 2018 en jafnframt bókað að um frekari frestun yrði ekki að ræða. Í símtali við starfsmann hafi kærandi upplýst að nýr lögmaður hefði tekið við máli sínu. Umboð C lögmanns barst barnavernd X 2018.

Tímaskýrsla C lögmanns vegna vinnu við mál kæranda hafi borist barnavernd 23. júlí 2018. Samkvæmt tímaskýrslunni hafi lögmaðurinn meðal annars krafist greiðslu vegna ferðalaga á milli E og F, kostnaðar vegna flugs á milli F og B og til baka aftur svo og vegna gistingar í B.

Með ákvörðun Barnaverndar B 27. júlí 2018 hafi beiðni lögmannsins fyrir hönd kæranda verið synjað að hluta en í ákvörðuninni segir:

,,Með bréfi er hér með tilkynnt að litið er svo á að með erindi lögmannsstofunnar sé verið að óska eftir styrk til greiðslu lögmannskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, vegna lögmannsaðstoðar við A. Að lokinni athugun á umfangi málsins og gagna þess, sbr. og bókun meðferðarfundar þann 2. júlí 2018, hefur verið ákveðið að veita A styrk til greiðslu lögmannskostnaður sem nemur 7,33 klst. á tímagjaldi X kr. auk virðisaukaskatts, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er heimild í reglum um fjárstyrk til lögmannsaðstoðar, sem settar voru á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, til að veita styrk vegna kostnaðar við flug milli F og B, þann tíma sem flugferðir standa, ferða til og frá flugvelli og gistingar í B.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Barnavernd B verði gert að greiða ferðakostnað og ferðatíma samkvæmt fyrirliggjandi tímaskráningareyðublaði lögmanns.

Fram kemur að lögmaður kæranda sé búsettur í G en hann sé þar með starfsstöð sína. Vegna málsins hafi lögmaðurinn þurft að ferðast til B til að fara með kæranda á fund barnaverndarnefndar. Nokkur kostnaður hafi hlotist af þessu ferðalagi, þ.e.a.s. útlagður kostnaður vegna flugfargjalds, akstur á milli G og flugvallar á F og gistikostnaður í B, auk tíma sem hafi farið í þessi ferðalög. Svo heppilega hafi viljað til að lögmaðurinn hafi jafnframt átt annað svipað erindi til B og hafi lagt upp með að færa helming ferðakostnaðar á hvort mál. Hafi hann átt í samskiptum við starfsmenn barnaverndar, sent þeim tímaskráningu í tölvupósti og hafi verið sagt að senda reikning. Það hafi hann gert en reikningurinn hafi komið til baka með bréfi lögfræðings barnaverndar með  þeirri skýringu að þeim liðum sem snúi að ferðakostnaði og tíma vegna ferðalaga sé hafnað. Umræddur reikningur sé vegna 50% kostnaðar við ferðalagið þar sem lögmaðurinn hafi átt tvö erindi til B.

Þegar kærandi hafi verið boðuð til fundarins hafi verið skorað á hana að fá sér lögfræðing og taka hann með á fundinn. Henni hafi jafnframt verið kynnt að B myndi greiða kostnað vegna þess. Enginn fyrirvari hafi verið gerður um búsetu lögmannsins, sem hafi komið að málinu X. Hafi hann þá átt nokkur símtöl við starfsmann barnaverndar, fengið þaðan gögn o.fl. Hafi verið rætt um að lögmaðurinn kæmi á fund og skýrt hafi komið fram í þeim samtölum að starfsstöð lögmannsins og búseta væri utan B. Starfsmaðurinn hafi engan fyrirvara gert við það.

Fundurinn hafi verið haldinn X 2018 en til hans hafi verið boðað með stuttum fyrirvara þannig að knappur tími hafi verið til að fara yfir málið. Fyrir hafi legið að barnavernd hafi ekki verið tilbúin til að fresta málinu. Lögmaðurinn hafi því ekki átt þess kost að láta fleiri verkefni standa undir ferðinni eða haga því þannig til að hann næði morgunflugi frá F til að spara gistingu í B.

Í þeim tilvikum sem lögmannskostnaður sé greiddur af ríki eða opinberum aðilum hafi jafnframt verið greiddur ferðakostnaður. Ella myndu reglur um að kostnaður sé greiddur fyrir viðkomandi missa marks. Það séu mikilsverð mannréttindi að borgari, sem að sé sótt með þeim hætti sem hér hafi verið gert og þurfi að gæta hagsmuna sinna fyrir yfirvöldum, fái að njóta liðsinnis lögmanns að eigin vali. Starf lögmanns sé trúnaðarstarf sem byggi á trausti og góðum persónulegum samskiptum lögmanns og skjólstæðings. Viðkomandi eigi að fá að velja þann lögmann sem hann treysti og þekki best, óháð því hvar mál sé tekið fyrir. Hagsmunir skjólstæðings verði ekki öllu meiri en hér, þar sem til umfjöllunar hafi verið tillaga barnaverndar um að barnaverndarnefnd myndi úrskurða um að barn kæranda yrði vistað utan heimilis og síðan höfðað mál til að krefjast lengri vistunar utan heimilis.

III. Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B frá 19. september 2018 kemur fram að veittur hafi verið styrkur vegna 7,33 klukkustunda vinnu sem hafi sundurliðast svo:

  1. 5,13 klukkustundir vegna símtala og funda með kæranda auk kynningar á gögnum málsins fyrir fund Barnaverndarnefndar B X 2018. Í tímaskýrslu lögmanns hafi verið óskað eftir styrk vegna 5,13 klukkustunda vinnu samkvæmt þessum lið. Var fallist á kröfu lögmanns.
  2. 1,15 klukkustundir vegna fundar Barnaverndarnefndar B X 2018. Í tímaskýrslu lögmanns hafi verið óskað eftir styrk vegna 1,15 klukkustunda vinnu samkvæmt þessum lið. Var fallist á kröfu lögmanns.
  3. 0,5 klukkustundir vegna samskipta við starfsmann Barnaverndar B. Í tímaskýrslu lögmanns hafi verið óskað eftir styrk vegna 0,5 klukkustunda vinnu samkvæmt þessum lið. Var fallist á kröfu lögmanns.
  4. 0,55 klukkustundir vegna kynningar lögmanns á ákvörðun Barnaverndarnefndar B og samtal við barnavernd um umgengni. Í tímaskýrslu lögmanns hafi verið óskað eftir styrk vegna 0,55 klukkustunda vinnu samkvæmt þessum lið. Var fallist á kröfu lögmanns.

Ekki hafi verið veittur styrkur vegna neðangreindra kostnaðarþátta á þeim forsendum að það samrýmdist ekki reglum um veitingu styrks til greiðslu lögmannskostnaðar:

  1. 0,40 klukkustundir vegna ferðakostnaðar lögmanns frá heimili hans á E að F X 2018 og frá F að heimili lögmanns X 2018.
  2. 0,90 klukkustundir vegna flugferða á milli F og B dagana X og X 2018.
  3. Flugfargjald lögmanns á milli F og B, alls X krónur.
  4. Kostnaður vegna gistingar í B X krónur.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála komi meðal annars fram að boðað hafi verið til fundar Barnaverndar B með litlum fyrirvara og knappur tími hafi gefist til að fara yfir málið. Af þessu tilefni sé tekið fram að í bókun Barnaverndar B X 2018 hafi komið fram að málinu yrði frestað til X 2018 og að ekki yrði um frekari frestun að ræða. Samkvæmt reglum um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum Barnaverndar B segi í 31. gr. að aðilar máls skuli að jafnaði hafa fengið greinargerð starfsmanns í hendur eigi síðar en þremur dögum fyrir fund barnaverndarnefndar. Lögmaðurinn hafi fengið gögnin í sínar hendur X 2018 í fullu samræmi við þessar reglur.

Skylda til styrkveitingar samkvæmt 47. gr. bvl. sé bundin við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd áður en nefndin kveði upp úrskurð og einnig í tengslum við málsmeðferð fyrir kærunefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setji. Rétt sé að benda á að um sé að ræða skyldu til styrkveitingar en hvergi í lögum sé kveðið á um að barnaverndarnefndum sé skylt að greiða reikninga lögmanna án athugasemda enda um styrk að ræða. Í frumvarpi því er orðið hafi að bvl. sé gert ráð fyrir því að barnaverndarnefnd setji reglur um styrkveitingar. Barnaverndarnefnd B hafi samþykkt slíkar reglur 14. október 2014.

Í 2. mgr. 47. gr. bvl. komi fram að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. og í tengslum við rekstur máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setji. Í reglum Barnaverndarnefndar B komi hvergi fram að greiddur sé ferðakostnaður lögmanna. Í 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks segi að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt bvl.

Barnavernd B krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Telji úrskurðarnefndin sér ekki fært að staðfesta hina kærðu ákvörðun sé óskað leiðbeininga frá nefndinni um hvernig haga skuli styrkveitingum í sambærilegum málum.

IV. Niðurstaða

Kærandi gerir kröfu um að BarnaverndB verði gert að fallast á veitingu styrks vegna aðstoðar lögmanns hvað varðar ferðakostnað þ.e. flugfargjalds og kostnað vegna gistingar svo og vegna tíma sem ferðalögin tóku samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu lögmanns.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð skv. 1. mgr. og í tengslum við rekstur máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir reglum sem nefndin setur. Í reglunum skal taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð.

Barnaverndarnefnd Bsetti reglur þann 14. október 2014 um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 47. gr. bvl. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að fjárstuðningur sé veittur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar þ.e. vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fundi nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt bvl. Eftir atvikum sé jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Einnig er tekið fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns.

Barnavernd B samþykkti greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar samtals 7.33 klst., vegna símtala og funda með kæranda, auk kynningar á gögnum málsins fyrir fund nefndarinnar þann X 2018 svo og vegna fundar barnaverndarnefndarinnar sama dag. Einnig var samþykktur styrkur vegna samskipta við starfsmann barnaverndarnefndarinnar og vegna kynningar lögmannsins á ákvörðun barnaverndarnefndarinnar og samtals vegna umgengni.

Barnavernd B hafnaði hins vegar greiðslu styrks vegna útlagðs kostnaðar lögmanns vegna ferðakostnaðar þ.e. kostnaðar vegna ferðatíma, flugfarseðla og vegna gistingar í B. Um var að ræða tíma sem það tók lögmanninn að fara frá heimili hans að F, þann X 2018 og frá  sama flugvelli, að heimili lögmannsins, þann X 2018, svo og vegna kaupa á flugfarseðlum og vegna gistingar í B. Barnaverndarnefnd taldi það ekki samrýmast reglum um veitingu styrks til greiðslu lögmannskostnaðar, að veita styrk vegna ferðakostnaðar, þar sem hvergi komi fram í reglum barnaverndarnefndarinnar að ferðakostnaður lögmanna sé greiddur.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. skal í reglum sem settar eru af Barnaverndarnefnd B taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins og er það gert sbr. 2. mgr. 5. gr. reglnanna. Þar kemur fram að beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli vera skrifleg og undirrituð og að með beiðninni skuli fylgja tímaskýrsla lögmanns. Síðan segir: „Fjárhæð styrkjar skal metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin.“

Barnavernd B féllst á að veita styrk vegna hluta kostnaðar sem féll til vegna starfa lögmanns fyrir kæranda. Barnaverndarnefndin féllst samkvæmt því á að aðstæður væru þannig að skilyrði til veitingu styrks vegna lögmannsaðstoðar á grundvelli efnahags kæranda/eðlis og umfangs málsins væru fyrir hendi.

Barnaverndarnefnd B er veitt heimild til að setja reglur sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl., þar sem kveðið er nánar á um atriði sem horft er til við veitingu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Í 1. gr. fyrrnefndra reglna barnaverndarnefndar er kveðið á um í hvaða tilvikum fjárstykur sé veittur, sem er m.a. vegna mætingar á fund nefndarinnar. Engar undantekningar eða takmarkanir eru gerðar í reglunum hvað varðar greiðslu styrks vegna kostnaðar sem til fellur vegna ferðalaga eða ferðatíma lögmanna sem óhjákvæmilega hefur í sumum tilvikum töluverðan kostnað í för með sér vegna mætingar á fundi. Kæranda var synjað um greiðslu lögmannskostnaðar vegna framangeinds kostnaðar á þeim forsendum að ekkert kæmi fram í reglum barnaverndarnefndar að ferðakostnaður lögmanna væri greiddur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ferðalög lögmannsins hafi komið til vegna mætingar á fund í B vegna máls kæranda sbr. 1. gr. reglna Barnaverndarnefndar B.  Ákvörðun Barnaverndar B um að synja kæranda um greiðslu styrks vegna ferðakostnaðar lögmanns er felld úr gildi. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að heimvísa málinu til frekari skoðunar á kostnaði sem féll til vegna ferðalaga lögmanns kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B um að synja kæranda um greiðslu styrks vegna ferðakostnaðar lögmannns er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til frekari skoðunar á kostnaði sem féll til vegna ferðalaga lögmanns kæranda.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta