Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 6/2012

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, 27. júní 2012, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við syni hennar, B og C, nr. 6/2012, og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

Með bréfi, dags. 14. mars 2012, skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurðum barnaverndarnefndar E frá 22. febrúar 2011 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðirnir varða umgengni kæranda við syni sína, B og C.

Umgengni kæranda við B var ákveðin af barnaverndarnefnd E þrisvar sinnum á ári. Samkvæmt úrskurðinum skal ein umgengni eiga sér stað sem næst síðustu helgi marsmánaðar, önnur sem næst síðustu helgi ágústmánaðar og sú þriðja sem næst annarri helgi desembermánaðar, á mánudegi kl. 16–19, á fósturheimili barnsins nema samkomulag sé um aðra staðsetningu. Gert er ráð fyrir að umgengni B verði samtímis umgengni bróður hans við kæranda.

Umgengni kæranda við C var einnig ákveðin þrisvar sinnum árlega. Kærandi krefst þess að hinir kærðu úrskurðir verði felldir úr gildi og að kærunefndin úrskurði um rýmri umgengni móður við drengina.

Barnaverndarnefnd E krefst þess að hinir kærðu úrskurðir verði staðfestir.

Fósturforeldrar drengjanna gera ekki athugasemd við úrskurði barnaverndarnefndar E sem í gildi eru. Við meðferð kærunefndar barnaverndarmála vænta fósturforeldrar þess að litið verði til fordæma annars staðar af landinu þar sem hliðstæðar aðstæður kunni að vera uppi og að nefndin horfi til þess hverjir hagsmunir barnanna séu, í ljósi ungs aldurs þeirra og jafnframt til eðlis þeirra ráðstafana sem gerðar hafa verið, þar sem um langtímafóstur sé að ræða.

II. Helstu málavextir.

B er fæddur Y og er því rúmlega X ára. C er fæddur Z og er því X mánaða. Móðir þeirra er kærandi þessa máls, A. Faðir B er F en óljóst er hver faðir C er. Kærandi hefur átt við lyfja- og fíkniefnavanda að stríða sem og geðræna erfiðleika eins og ítarlega er rakið í gögnum málsins. Báðir drengirnir eru nú í fóstri á vegum nefndarinnar á sama fósturheimili. Kærandi var svipt forsjá B með dómi Héraðsdóms G 26. desember 2011, en dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og bíður þar flutnings. C lýtur enn forsjár móður sinnar og byggist ráðstöfun hans í fóstur á b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem staðfest var af Héraðsdómi G þann 2. desember 2011. Barnaverndarnefnd E hefur sett fram kröfu um sviptingu forsjár kæranda yfir C fyrir Héraðsdómi G.

Mál B hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd E frá því skömmu áður en hann fæddist, en það var fyrst lagt fyrir barnaverndarnefnd 18. mars 2009. B hefur verið í fóstri hjá hjónunum H og J frá 15. apríl 2011. Með úrskurði barnaverndarnefndar E 25. maí 2011 var kæranda ákveðin umgengni við B fyrsta sunnudag í mánuði í tvo tíma í senn.

Í kjölfar þess að kynforeldrar B voru með dómi 26. desember 2011, svipt forsjá hans leit barnaverndarnefnd Esvo á að tímabili reynslufósturs væri lokið og efni væru til þess að semja við fósturforeldra um fóstur barnsins þar til það yrði lögráða og endurskoða þyrfti fyrirkomulag umgengni kynforeldra vegna varanlegs fóstursamnings. Þann 11. janúar 2012 fól barnaverndarnefnd E starfsmönnum sínum að semja greinargerð með rökstuddum tillögum um nýtt fyrirkomulag um umgengni kæranda, F og föðurömmu B, við B.

Kæranda var kynnt greinargerð barnaverndarnefndar E 27. janúar 2012, þar sem lagt var til að umgengni yrði ekki oftar en þrisvar sinnum á ári, í tvo tíma í senn, kl. 16–18, á fósturheimili barnsins. Þá var lagt til að B fengi ekki aðrar gjafir en afmælis- og jólagjafir frá móður sinni og ekki yrði um símtöl að ræða vegna aldurs B.

Lögregla hafði afskipti af kæranda 29. janúar og 29. febrúar 2012 vegna vörslu og meðferðar fíkniefna.

Kærandi féllst ekki á þessa tillögu barnaverndarnefndarinnar og gerði kröfu um að umgengnin yrði ekki minni en verið hefði og til vara að hún yrði skert minna en lagt er til í greinargerð barnaverndarnefndarinnar. Ekki náðist samkomulag milli aðila. Sökum þess kvað barnaverndarnefnd E upp úrskurð, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, 22. febrúar sl., en inntak þeirrar umgengni er rakið hér að framan.

C var 14. október 2011, þá tveggja daga gamall, tekinn úr umsjá móður sinnar með neyðarráðstöfun skv. 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Barnaverndarnefnd E kvað upp úrskurð 17. október 2011 skv. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um ráðstöfun barnsins í fóstur. Jafnframt var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að móðir barnsins yrði svipt forsjá þess, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

Litla drengnum var ráðstafað í fóstur á vegum nefndarinnar en ekki reyndist unnt að ganga frá skriflegum samningi um umgengni móðurinnar við barnið þegar til ráðstöfunar var gripið, en því komið til leiðar að hún hitti barnið um leið og hún hefði umgengni við B, sem er í fóstri hjá sömu fósturforeldrum. Fyrir uppkvaðningu úrskurðar barnaverndarnefndar E 22. febrúar hafði umgengni átt sér stað þrisvar sinnum, 6. nóvember 2011, 4. desember 2011 og 10. janúar 2012.

Á fundi með kæranda þann 6. janúar 2012 voru bornar undir hana hugmyndir um að umgengni við litla drenginn yrði sem næst þrisvar sinnum árlega. Hún féllst ekki á þær og óskaði eftir formlegum tillögum frá nefndinni. Í greinargerð K uppeldisráðgjafa, dags. 26. janúar 2012, kom fram tillaga um umgengni þrisvar á ári, tvo tíma í senn. Kærandi krafðist þess að umgengni yrði ekki minni en verið hefði og til vara að hún yrði skert minna en nefndin leggur til.

Ekki náðist samkomulag milli aðila og sökum þess kvað barnaverndnefnd E upp úrskurð, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, 22. febrúar 2012 þess efnis að umgengni A við C yrði þrisvar sinnum á ári, þrjá tíma í senn, kl. 16–19.

III. Sjónarmið kæranda.

Kærandi byggir kröfu sína um rýmri umgengni á því að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að umgengni þeirra við móður sína sé skert með jafn afgerandi hætti og gert er í úrskurðum barnaverndarnefndar. Þannig liggur fyrir að umgengni kæranda við B hafi gengið vel og ekkert komið upp sem réttlætt geti að skerða umgengnina með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni. Það sama gildi um C en kærandi hafi einungis getað notið umgengni við barnið í örfá skipti síðan það fæddist þar sem það hafi verið tekið úr hennar umsjá strax eftir fæðingu þess.

Þá er að mati kæranda með öllu ótímabært af hálfu barnaverndarnefndar að kveða upp úrskurði sína nú þegar ekkert liggi fyrir um hver afdrif mála barnanna verða. Eins og fram hafi komið hafi máli B verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og mál C hafi ekki verið flutt í héraðsdómi.

Kærandi bendir á að mikilvægt sé að barnaverndaryfirvöld gæti meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem varða rétt þeirra aðila sem eigi mál sín undir afgreiðslum nefndarinnar. Kærandi telji það víðs fjarri að barnaverndarnefnd hafi í úrskurðum sínum virt meðalhófsregluna enda að hennar mati of langt gengið í því að ná fram þeim markmiðum sem stefnt virðist að. Þannig bendir kærandi á að fyrir uppkvaðningu úrskurðanna hafi umgengni verið miðuð við tólf skipti á ári og að sú umgengni, svo langt sem hún nái, hafi aukinheldur gengið vel. Því séu að hennar mati engar forsendur fyrir því núna að skerða umgengnina með jafn afgerandi hætti og gert sé.

Þeim málsástæðum og forsendum að öðru leyti sem barnaverndarnefnd leggur upp með í úrskurðum sínum sé mótmælt.

Þá vísar kærandi í þau sjónarmið sem komið hafi fram í greinargerð hennar sem lögð hafi verið fram á fundi barnaverndarnefndar 8. febrúar 2012. Í þeirri greinargerð segi að ekkert liggi fyrir eða hafi komið fram um það í málinu að umgengni hennar við drengina sé til þess fallinn að stofna hagsmunum þeirra í hættu. Fósturforeldrar hafi ekkert undan umgengni móður við börnin að kvarta og taki það jafnvel fram að samskipti þeirra við móður séu á eins jákvæðum nótum og frekast sé kostur í þeim aðstæðum sem uppi séu.

Þá gerir kærandi athugasemdir við það að hagsmunir hennar séu ekki metnir sjálfstætt líkt og hún eigi þó óskoraðan rétt á, heldur hafi málið í heild sinni verið lagt þannig upp að réttur kæranda hangi saman við rétt föður B. Þetta hafi orðið til þess að þau atriði sem byggt hafi verið á hafi verið metin kæranda í óhag, óháð því hvort þau megi rekja til hennar eða F. Kærandi heldur því fram að börnin séu yfirleitt glöð og ánægð eftir umgengni með sér og móðurfjölskyldu þeirra og hún eigi ekki að þurfa að sæta því að umgengni hennar við börnin sé skert meira en nauðsynlegt sé, vegna þess eins að umgengnin hafi gengið illa hjá föður og föðurömmu B. Kærandi kveður að ekki sé unnt að skerða rétt hennar til umgengni að nauðsynjalausu, gengið sé nærri rétti hennar til þess að umgangast börn sín, auk þess sem gengið sé mjög nærri rétti barnanna til þess að umgangast og þekkja kynforeldra sína.

IV. Sjónarmið barnaverndarnefndar E


Barnaverndarnefnd E bendir á að kærandi hafi um árabil glímt við margvíslegan vanda sem hafi gert henni ókleift að annast fjögur börn sín. Hafi tvö elstu börn hennar verið í fóstri hjá foreldrum hennar frá 21. desember 2009. Viðleitni nefndarinnar til stuðnings samkvæmt barnaverndarlögum, sem hafi byrjað strax er hún gekk með B, hafi ekki borið þann árangur að tryggja viðunandi aðbúnað hans hjá móður sinni. Hafi nefndinni borist ítrekaðar upplýsingar um óviðunandi aðstæður barnsins, svo sem vegna heimilisofbeldis og vímuefnaneyslu móður þess. Í lok árs 2009 hafi móðirin leitað sér meðferðar við geðrænum vanda sínum og vímuefnafíkn.

Áform um meðferð hafi ekki gengið eftir og vandi móðurinnar haldist í svipuðu horfi næstu misseri. Því ferli hafi lokið með því að B hafi, með úrskurði barnaverndarnefndar E 5. apríl 2011, verið tekinn úr umsjá hennar og ráðstafað í fóstur. Í álitsgerð L sálfræðings, dags. 14. mars 2011, kemur fram um forsjárhæfni hennar að „persónuleikaraskanir, slök greind og lyndisraskanir ásamt endurtekinni notkun geðvirkra efna skerði forsjárhæfni A verulega. Helsta eðli persónuleikaraskana af því tagi sem hér um ræði séu óstöðugleiki og ábyrgðarleysi. Sagan sýni að skilningur A á því hvað sé meðferð sem og mikilvægi samfellu í meðferð sé lítill. Hún sé ekki fær um að axla ábyrgð á uppeldi sonar síns B, eins og sakir standi og fyrirliggjandi upplýsingar gefi lítið tilefni til bjartsýni.“

Um það leyti sem B hafi farið í fóstur hafi hafist könnun samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002, í máli ófædds C kæranda. Hafi á meðgöngunni verið uppi verulegar áhyggjur af heilsufari og aðstæðum móðurinnar og afleiðingum þess fyrir þroska og heilsu fósturs. Þrátt fyrir þessa áhættu hafi móðirin ekki sinnt nauðsynlegu eftirliti mæðraverndar. Hafi það verið niðurstaða barnaverndarnefndar, byggð á viðamiklum og áreiðanlegum gögnum um verulega skerta forsjárhæfni konunnar, að hagsmunum hins nýfædda barns væri best borgið með því að það ælist upp við öruggar aðstæður hjá fósturforeldrum fremur en hjá móður sinni. Barnið hafi verið nýfætt þegar það hafi verið tekið úr umsjá móður sinnar.

Barnaverndarnefnd E bendir á að á þeim tíma sem liðinn sé frá því að C hafi farið í fóstur hafi félagsleg staða hennar og heilsufar síst færst til betri vegar. Hún hafi um nokkurra mánaða skeið verið heimilislaus, sé öryrki en stundi enga virka endurhæfingu.

Barnaverndarnefnd E bendir á að skv. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skuli taka mið að því sem þjóni hagsmunum barnsins best. Við mat á hagsmunum barnsins skuli horft til þeirra markmiða sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Í máli þessu sé um að ræða barn sem hafi verið nýfætt þegar það var tekið úr umsjá móður sinnar, þar sem móðirin hafi að mati nefndarinnar verið ófær um að búa því viðunandi uppeldisaðstæður. Úrskurður nefndarinnar í því efni hafi verið staðfestur af héraðsdómi. Barnið hafi frá þriðja degi verið í umsjá fósturforeldra og aðeins hitt móður sína í örfá skipti. Markmið þessarar ráðstöfunar sé að barnið aðlagist fósturfjölskyldu sinni og verði í umsjá hennar þar til það hefur náð lögræðisaldri.

Í máli B hafi verið ákveðið formlega að ganga frá varanlegu fóstri eftir að kærandi hafi verið svipt forsjá barnsins með dómi Héraðsdóms G 26. nóvember 2011. Nefndin bendir á að í 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga sé kveðið á um rétt fósturbarns og foreldra til umgengni sem samræmist hagsmunum barnsins og þörfum. Þá segi í 5. mgr. 25. gr. reglugerðar um fóstur, nr. 804/2004, að við ákvörðun umgengni kynforeldra og nákominna við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná markmiði sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

Þegar fyrst hafi verið úrskurðað af hálfu barnaverndarnefndar E um umgengni í máli B í maí 2011 hafi ákvarðanir verið teknar í ljósi þess að lítil reynsla hafi verið komin á fóstrið og nokkur óvissa hafi verið um framhald málsins. Nú hafi línur hins vegar skýrst, góð reynsla sé komin á fóstrið og vissa fyrir því að þessi ráðstöfun tryggi best hag barnsins til frambúðar. Við ákvörðun umgengninnar hafi bæði verið virt sjónarmið um að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni, svo og að það haldi tengslum við blóðskyld ættmenni sín að því marki að það þekki uppruna sinn. Jafnframt sé virtur réttur foreldra og annarra sem kröfu geri um umgengni til að fylgjast með lífi og þroska barnsins. Tíðari og umfangsmeiri umgengni sé hins vegar ekki í samræmi við þann veruleika að barnið muni vaxa upp sem hluti af nýrri fjölskyldu.

Í hinum kærðu úrskurðum hefur barnaverndarnefnd E metið það svo að það þjóni best hagsmunum barnanna að umgengni við móðurina sé fremur takmörkuð. Lítur nefndin þá til þess að börnin hafi ekki tengsl við móður sína sem hafi þýðingu fyrir tilfinninga- og persónuþroska þeirra nú, enda hafi slík tengsl myndast við fósturforeldrana. Jafnframt horfi nefndin til þess að hæfni móðurinnar til samskipta og umönnunar sé verulega skert, eins og fram komi í gögnum málsins. Nefndin styðjist við þau sjónarmið að þess skuli gætt að umgengni sé í samræmi við markmið með fóstri. Þegar staðfest sé að foreldrar barns hafi ekki getað búið því viðunandi uppeldisaðstæður, kunni hagsmunir barnsins að krefjast þess að umgengni sé takmörkuð.

V. Sjónarmið fósturforeldra.


Fósturforeldrar drengjanna gera ekki athugasemd við úrskurð barnaverndarnefndar E sem í gildi er. Við meðferð kærunefndar barnaverndarmála vænta fósturforeldrar þess að litið verði til fordæma annars staðar af landinu þar sem hliðstæðar aðstæður kunna að vera uppi og að nefndin horfi til þess hverjir hagsmunir barnanna séu í ljósi ungs aldurs þeirra. Þá verði horft til þess að fósturráðstöfun sé ætlað að vara til langs tíma.

VI. Niðurstaða.


Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. 74. gr. sömu laga nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

Mál þetta lýtur að kröfu móður um umgengni við mjög ung börn sín, annars vegar B og hins vegar C, sem tekinn var úr umsjá móður sinnar aðeins tveggja daga gamall. Af því sem fram er komið í gögnum málsins er forsjárhæfni móður mjög skert og hún var svipt forsjá eldri drengsins með dómi Héraðsdóms G 26. desember 2011. Þá liggur fyrir að barnaverndarnefnd E hefur í kjölfar dómsins hlutast til um að ráðstafa drengnum í varanlegt fóstur, en hann hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá 15. apríl 2011. Yngri drengurinn hefur verið í umsjá sömu fósturforeldra frá því að hann var aðeins nokkurra daga gamall, en barnaverndarnefnd E hefur nú sett fram kröfu um að kærandi verði svipt forsjá hans. Ljóst er að drengjunum er ætlað að vera í fóstri til frambúðar hjá fósturforeldrum.

Eins og að framan er rakið hefur eldri drengurinn, B, ekki verið í umsjá kynmóður sinnar síðan í desember 2009 og yngri drengurinn hefur ekki verið í umsjá kynmóður sinnar. Af gögnum málsins má ráða að fóstur þeirra beggja gengur vel. Jafnvel þótt fallast megi á að umgengni móður við drengina hafi oft verið án vandkvæða, verður fyrst og fremst að huga að velferð beggja drengjanna þegar til framtíðar er litið, en fyrir liggur sú afstaða barnaverndarnefndar E að þeir verði í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Horfa verður til þess hvort það þjóni hagsmunum þeirra að hafa rúma umgengni við kæranda, þegar fyrir liggur dómur um sviptingu forsjár kæranda yfir eldri drengnum og þess að krafa hefur verið sett fram um sviptingu forsjár yngri drengsins. Ákvörðun um umgengni er ávallt háð mati á því hvað þjóni hagsmunum barns best, miðað við þær aðstæður sem barni eru búnar hverju sinni og þegar til framtíðar er litið. Þegar framangreint er virt og litið til ungs aldurs drengjanna og þess hversu lengi fóstur þeirra á að vara, og einnig litið til þess að kærandi hefur ekki getað búið drengjunum viðunandi uppeldisaðstæður, skertrar forsjárhæfni hennar, geðrænna örðugleika og vímuefnavanda, sem og erfiðleika hennar við að taka á vímuefnavanda sínum og axla ábyrgð, verður ekki talið að rýmri umgengni hennar við drengina þjóni hagsmunum þeirra.

Hinir kærðu úrskurðir varðandi umgengni kæranda við B og C eru því staðfestir, með vísan til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Úrskurðarorð

Hinir kærðu úrskurðir barnaverndarnefndar E frá 22. febrúar 2012 um umgengni B og C við kynmóður sína, A, eru staðfestir.

Ingveldur Einarsdóttir,

formaður

Guðfinna Eydal Jón R. Kristinsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta