Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál 369/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2022

Föstudaginn 28. október 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 18. júlí 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 28. júní 2022 vegna umgengni hans við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul og lýtur forsjá kæranda. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Barnaverndarnefnd B tók við umsjá stúlkunnar þann 29. maí 2019 á grundvelli 5. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stúlkan var fyrst um sinn vistuð á Mánabergi en fór á fósturheimili þann 3. október 2019 þar sem hún dvelur nú.

Mál stúlkunnar vegna umgengni við kæranda var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 28. júní 2022. Málið var tekið til úrskurðar og úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, eigi umgengni við föður sinn, A á sex vikna fresti í tvær klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram í húsnæði á E og B samkvæmt samkomulagi aðila. Fósturforeldrum er frjálst að vera viðstaddir umgengni óski þeir þess.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júlí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júlí 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 18. ágúst 2022 og var hún send lögmanni kæranda samdægurs til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir lögmanns bárust með bréfi, dags. 31. ágúst 2022 og voru þær sendar barnaverndarnefnd með bréfi samdægurs. Viðbótargreinargerð barnaverndarnefndar barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 9. september 2022 og var hún send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 12. september 2022. Viðbótarathugasemdir lögmanns kæranda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 13. september 2022, og voru þær sendar barnaverndarnefnd með bréfi, dags. 14. september 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að úrskurðað verði um aukna umgengni. Kærandi gerir kröfu um að umgengni verði tíðari en á sex vikna fresti, að umgengni verði í lengri tíma í senn en tvær klukkustundir, að umgengni fari ætíð fram á höfuðborgarsvæðinu á þeim stöðum sem faðir kýs í hvert sinn og að umgengni verði án eftirlits og þeir einir megi vera viðstaddir sem kærandi heimili í hvert sinn.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir eins mikilli umgengni og hægt sé á tímabili málsins fyrir dómstólum, helst að stúlkan gisti hjá honum því að hann telji að þá muni stúlkan rifja upp stundir þeirra saman og vilja búa hjá honum. Kærandi vilji eins mikla umgengni og hægt sé og í lengri tíma í hvert skipti, til dæmi aðra hvora helgi. Forsjársviptingarmál á hendur kæranda sé í gangi fyrir dómstólum þar sem dómari hafi óskað eftir að gert yrði forsjárhæfnismat og því mikilvægt að halda umgengni á þeim tíma svo að tengsl föður og stúlkunnar verði ekki skert á meðan dómsmál sé í farvegi. Kærandi hafi ávallt verið góður við stúlkuna en hann hafi glímt við áföll og afleiðingar þeirra. Að hafa umgengni á E sé afar óhentugt fyrir kæranda vegna atvinnu hans í B og ferðalaga þar á milli. Allur dagurinn fari í það að ferðast á milli fyrir aðeins tveggja klukkustunda umgengni. Þá vilji kærandi ekki að umgengni verði undir eftirliti eða ávallt að fósturforeldrum viðstöddum heldur að feðginunum verði frjálst að vera tvö saman til að byggja upp tengsl þeirra. Þá eigi stúlkan tvo litla bræður sem búi fyrir sunnan og hún þurfi að fá að hitta þá og leika við þá til að viðhalda sambandi þeirra en þessu mikilvæga atriði sé ekki sinnt með núverandi fyrirkomulagi.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að samhliða kæru til nefndarinnar hafi verið lögð fram greinargerð kæranda í héraðsdómsmálinu nr. E-2134/2022, dags. 27. maí 2022. Líkt og greinir í kærunni sé vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka sem rakin eru í umræddri greinargerð en ljóst sé að flest þau sjónarmið sem rakin séu í greinargerðinni í tengslum við sviptingu forsjár eigi við um umgengni kæranda við dóttur sína. Úrskurður Barnaverndarnefndar B um mjög skerta umgengi sé enda einungis til kominn í ljósi þess að barnaverndarnefndin hafi að ósekju ákveðið að höfða mál gegn kæranda og fara fram á forsjársviptingu hans yfir dóttur sinni samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. bvl. Kærandi telji fullljóst að afar illa hafi verið staðið að þessum málarekstri og fyrirsjáanlegt sé að illa rökstuddum kröfum stefnanda, B vegna Barnaverndarnefndar B, verði hafnað í málinu. Rétt sé að leggja áherslu á eftirfarandi atriði sem rakin séu í greinargerð kæranda í héraðsdómsmálinu í tengslum við kærumál þetta:

  1. Kröfugerð barnaverndarnefndar byggi m.a. á þeim röngu forsendum að vafi ríki um dvalarleyfisrétt kæranda hér á landi. Kröfugerð nefndarinnar byggi jafnframt á tengslamati sem nefndin lét framkvæma á tengslum kæranda og dóttur hans en hluti forsendna niðurstöðu tengslamats var sá að vafi ríki um dvalarleyfisrétt kæranda. Hið rétta sé þó að kærandi hefur gilt dvalarleyfi hér á landi og þegar umrætt dvalarleyfi rennur út hefur hann bersýnilega rétt til dvalarleyfis á grundvelli tengsla við börn sín þrjú og barnsmóður sem öll hafa dvalarleyfi hér á landi. Það geti því ekki talist forsvaranleg forsenda að byggja á því gangvart kæranda að einhver óvissa ríki um þetta atriði.
  2. Barnaverndarnefnd hafi ráðist í forsjársviptingarmál án þess að framkvæma fyrst forsjárhæfnismat sem sé verulega óvenjulegt. Það má enda telja ljóst að engar forsendur séu til þess að komast án slíks mat að því að a- eða d-liðir 1. mgr. 29. gr. bvl. geti átt við í málinu. Lögð sé áhersla á að kæranda hefur aldrei gefist tækifæri á því að hafa dóttur sína í sinni umsjá heldur hefur hún verið vistuð hjá fósturfjölskyldu allan tímann sem hann hefur verið hér á landi og barist fyrir því að fá notið við hana samvista. Hafa barnaverndaryfirvöld því enga reynslu af kæranda sem forsjáraðila til að miða við þegar horft er til mats á 1. mgr. 29. gr. bvl. Þó að dóttir hans sómi sér vel hjá fósturfjölskyldu og að ákveðnir erfiðleikar kunni að hluta til að einkenna samskipti kæranda og dóttur hans þegar þau eiga umgengni undir eftirliti er ekki þar með sagt að því verði haldið fram að umönnun, uppeldi og samskipti séu alvarlega ábótavant í skilningi a-liðar 1. mgr. 29. gr. bvl. Kærandi telur barnaverndarnefnd ekki hafa neinar forsendur til að halda slíku fram og augljóst að tengslamat framkvæmt af félagsfræðingi er ekki fullnægjandi í því sambandi. Þá hefur ekkert komið fram sem gefur til kynna að d-liður 1. mgr. 29. gr. bvl. geti átt við og engan vegin verið sýnt fram á að kærandi sé augljóslega vanhæfur til að fara með forsjá enda ekkert af þeim atriðum sem nefnd eru í umræddu lagaákvæði uppfyllt svo líklegt geti talist að barninu yrði valdið alvarlegur skaði.

Úrskurður barnaverndarnefndar verður einungis metinn með hliðsjón af þeim málarekstri sem barnaverndarnefndin stendur nú fyrir gegn kæranda fyrir héraðsdómi. Sé horft til ofangreindra sjónarmiða og greinargerðar kæranda fyrir héraðsdómi í heild sinni telur kærandi ljóst að sá málarekstur sé ekki byggður á fullnægjandi grundvelli og raunar megi telja að jafnt barnaverndarlög sem og stjórnsýslulög hafi verið þverbrotin af hálfu Barnaverndarnefndar B. Þar af leiðandi sé hinn afar íþyngjandi úrskurður um takmarkaða umgengi jafnframt byggður á ófullnægjandi og ólögmætum grundvelli.

Kærandi fái ekki séð að neinn fótur sé fyrir þeirri ákvörðun barnaverndaryfirvalda að ekki sé stefnt að því að dóttir kæranda fari aftur í hans umsjá. Kærandi vilji gera allt sem í hans valdi standi til að styrkja tengsl sín og dóttur sinnar og telur hann hinn kærða úrskurð vera til þess fallinn að grafa enn frekar undan sambandi þeirra feðgina. Kærandi skilur að dóttir hans eigi gott samband við fósturfjölskyldu sína og með því að fara fram á aukna umgengni við hana telur hann sig á engan hátt vera að valda óstöðugleika í lífi barnsins. Á endanum er það samt hans von að búa megi dóttur hans undir það að koma aftur í hans umsjá. Í öllu falli telur hann það ekki getað þjónað hagsmunum dóttur sinnar að umgengni verði takmörkuð svo verulega sem hinn kærði úrskurður gerir ráð fyrir.

Kærandi vísar til 2. málsliðar 1. mgr. 2. gr. bvl. þar sem fram komi að markmið laganna sé að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Kærandi telur þá ákvörðun að draga svo verulega úr umgengni sinni við dóttur sína og setja henni aukinheldur svo verulegar skorður þvert á móti til þess fallnar að brjóta niður möguleika hans á að sinna uppeldishlutverki sínu.

Kærandi vísar til meginreglna barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. bvl. Að mati kæranda hafi Barnaverndarnefnd B hvorki leitast við að eiga góða samvinnu við kæranda né telji kærandi sig njóta jafnræðis eða samræmis við aðra. Ítrekar kærandi í þessu sambandi að honum hafi aldrei gefist tækifæri á umgengni í einrúmi með dóttur sinni en ljóst megi telja að aðilar sem staðfest sé að eigi við mun alvarlegri vanda að stríða og hafi gerst uppvísir að því að skapa börnum sínum mun verri aðstæður en kærandi hefur skapað dóttur sinni, hafi notið ríkari réttinda en kærandi. Telji hann því málsmeðferð Barnaverndarnefndar B brjóta gegn 4. og 6. mgr. 4. gr. bvl. Þá telji kærandi augljóst að meðalhófsregla 7. mgr. 4. gr. bvl. sé ekki uppfyllt en samkvæmt ákvæðinu skulu barnaverndaryfirvöld gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða, þau skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í því sambandi taki kærandi fram að það sé afar íþyngjandi ráðstöfun að takmarka umgengnina svo mjög sem Barnaverndarnefnd B telji ástæðu til. Þá bendi kærandi á að tillögur starfsmanna Barnaverndar B hafi verið á þá leið að umgengni væri einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn en barnaverndarnefnd hafi samt ákveðiðað takmarka umgengni enn frekar. Byggir sú ákvörðun einungis á tilvísun til vilja dóttur kæranda. Er mikið gert úr því að dóttir hans hafi sagst vilja umgengi þrisvar sinnum á ári. Kærandi bendir þó á að dóttir hans hafi sannarlega lýst yfir vilja sínum til umgengni við kæranda. Tillögur Barnaverndar B hafi einnig byggt á heildrænu mati starfsmanna barnaverndar á aðstæðum dóttur kæranda og fái kærandi ekki séð að þau rök sem Barnaverndarnefnd B færir fram fyrir enn takmarkaðri umgengni nægi til svo íþyngjandi ákvörðunar. Telur kærandi það liggja í augum uppi að ákvörðunin sé ekki vægasta ráðstöfun sem unnt hafi verið að beita í málinu.

Samantekið er það mat kæranda að hinn kærði úrskurður byggi að miklu leyti á þeirri forsendu að ákvörðun hafi þegar verið tekin um að svipta kæranda forsjá dóttur sinnar. Telur kærandi nægilega komið fram í greinargerð þessari og fylgigögnum að verulegur vafi sé áað sú ráðstöfun sé forsvaranleg og verður að horfa til ákvarðanatöku í tengslum við umgengni í því ljósi.

Að lokum ítrekar kærandi að honum hefur aldrei gefist færi á umgengni með dóttur sinni í einrúmi. Hann telur engin gögn komin fram í málinu sem gefa til kynna að ekki megi láta reyna á slíka ráðstöfun en stöðugt eftirlit veldur því að kærandi og dóttir hans fá ekki notið umgengninnar til hins fyllsta. Þá liggi í augum uppi að feðginunum sé gert ómögulegt að byggja upp tengsl ef þau fá einungis að hittast í tvo tíma í senn.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að í bréfi barnaverndarnefndarinnar sé vísað til þess að lögmaður kæranda vísi í tvö mál, þ.e. annars vegar forsjársviptingarmál sem nú sé rekið fyrir dómstólum vegna dóttur kæranda og hins vegar hins kærða úrskurðar Barnaverndarnefndar B um skerta umgengni kæranda við dóttur sína. Ljóst sé að þessi tvö mál séu nátengd og grunnforsenda úrskurðar um svo skerta umgengni sé sú ákvörðun barnaverndaryfirvalda að höfða forsjársviptingarmál á hendur kæranda. Verður úrskurðurinn um umgengnina því ekki metinn í einrúmi og því nauðsynlegt að horfa til forsjársviptingarmálsins, sérstaklega í ljósi þess hversu illa hefur verið staðið að þeirri málshöfðun.

Þá sé í viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B vísað til fullyrðingar lögmanns í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar um að barnaverndar- og stjórnsýslulög hafi verið þverbrotin. Telur Barnavernd B að óljóst sé í hvaða samhengi sú tilvísun byggi á og fullyrði barnavernd að sú staðhæfing sé röng og ekkert slíkt liggi fyrir í gögnum málsins. Kærandi tekur fram að tilvísun til brota Barnaverndar B og Barnaverndarnefndar B á stjórnsýslu- og barnaverndarlögum sé svo sannarlega ekki úr lausu lofti gripin og voru ítarleg rök færð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu í greinargerð kæranda, dags. 31. ágúst 2022, auk þess sem greinargerð kæranda í héraðsdómsmálinu var lögð fram samhliða kæru til enn frekari stuðnings. Í stuttu máli sé óhætt að fullyrða að sú málsmeðferð barnaverndaryfirvalda að leggja af stað í forsjársviptingarmál á grundvelli kolrangra forsendna um meinta óvissu um dvalarleyfisrétt kæranda hér á landi sé skýrt brot á rannsóknarreglunni sem lögfest er bæði í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 41. gr. bvl. Þá má einnig fullyrða að sú ákvörðun að fara af stað með forsjársviptingarmál, án þess að hafa fyrst látið framkvæmda forsjárhæfnimat á kæranda, hafi falið í sér brot, bæði á áðurnefndri rannsóknarreglu sem og á meðalhófsreglum 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. bvl., auk þess sem skilyrði 1. mgr. 29. gr. bvl. til forsjársviptingar séu bersýnilega ekki uppfyllt. Er því ítrekað það sem áður hafi komið fram að ýmislegt í gögnum málsins bendi til brota Barnaverndarnefndar B.

Í bréfi Barnaverndar B komi fram að stuðningur við föður hafi verið fullreyndur. Þessi fullyrðing sé hreinlega röng, enda sé ljóst að barnavernd hafi lítið gert til að stuðla að því að kærandi geti boðið dóttur sinni upp á fullnægjandi aðstæður til að sinna umgengni við hana. Vísast einkum til þess að barnavernd hefur notað það gegn kæranda að húsnæðið, sem hann neyddist til að búa í hér á landi á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd var enn til meðferðar, var ekki fullnægjandi fyrir kæranda til að taka á móti dóttur sinni í umgengni. Var barnavernd í lófa lagið að aðstoða kæranda við að verða sér úti um húsnæði þar sem þau feðgin gætu verið saman og bent er á að samkvæmt b- og e-liðum 1. mgr. 24. gr. bvl. hefði verið hægt að stuðla að slíku úrræði, eftir atvikum í samráði við Útlendingastofnun sem þá bar ábyrgð á húsnæðisúrræði hans. Þess í stað ákvað Barnaverndarnefnd B að fara af stað í mest íþyngjandi úrræði, sem unnt er að beita samkvæmt barnaverndarlögum með málshöfðun á grundvelli 1. mgr. 29. gr. bvl., og á sama tíma með enn takmarkaðri umgengni en verið hafði á meðan málið var rekið fyrir dómstólum. Það fer því fjarri að stuðningur við föður hafi verið fullreyndur og sé í þessu fólgið annað skýlaust brot gegn meðalhófsreglum stjórnsýslulögum og bvl.

Staða dóttur kæranda sé einungis eins góð og hún sé núna fyrir tilstilli þeirra fórna sem kærandi hafi fært. Kærandi flúði hingað til lands með dóttur sinni og maka árið 2019 í leit að betra lífi. Kæranda þykir miður að aðstæður dóttur hans hafi ekki verið betri þegar hún var í umsjá stjúpmóður sinnar, að kæranda fjarstöddum, en eftir að kærandi sneri aftur hingað til lands í annað sinn frá Ítalíu hafi hann verið allur af vilja gerður til að styrkja samband sitt við dóttur sína. Í bréfi barnaverndar kemur fram að barnið hafi búið við óstöðugleika og vanrækslu í umsjá föður en kærandi ítrekar að staða hans sé öll önnur og betri en áður og öll óvissa sem áður ríkti um rétt hans til dvalar hér á landi sé úr sögunni. Kærandi sé móttækilegur fyrir hvers kyns aðstoð og leiðbeiningum barnaverndar í tengslum við umgengni hans við dóttur sína en biður um að sinni sérstöku stöðu sé sýndur skilningur, að tekið sé mark á hans sjónarmiðum í tengslum við umgengni og að því verði hafnað að takmarka umgengni hans við dóttur sína með svo víðtækum hætti og hinn kærði úrskurður hljóðar upp á.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar kemur fram að um sé að ræða tíu ára gamla stúlku, D sem lýtur forsjá föður síns, A. Móðir stúlkunnar er F. Að sögn kæranda gaf móðir stúlkuna frá sér til föður þegar stúlkan var þriggja ára gömul. Stúlkan fæddist í flóttamannabúðum á Ítalíu X og kom til Íslands í desember 2018, þá í fylgd kærustu föður, G, sem sé umsækjandi um alþjóðlega vernd, en G sagðist þá vera móðir stúlkunnar. Mál stúlkunnar hófst hjá Barnavernd B þann 1. mars 2019 eftir að barnavernd barst tilkynning frá þjónustumiðstöð en þá hafði við læknisskoðun á göngudeild sóttvarna komið upp áhyggjur af andlegri og tilfinningalegri líðan stúlkunnar ásamt því að lítil sem engin tengsl virtust vera á milli stúlkunnar og G sem þá var talin móðir stúlkunnar. Þann 29. maí 2019 barst barnavernd önnur tilkynning frá frístundaheimili stúlkunnar en þá hafði stúlkan greint frá því að G væri ekki móðir sín og að hún beitti sig ofbeldi alla daga. Starfsmenn barnaverndar ræddu við stúlkuna þar sem hún staðfesti innihald tilkynningarinnar. Í kjölfarið var rætt við G sem viðurkenndi að lokum að hún væri ekki móðir stúlkunnar. Starfsmenn barnaverndar mátu aðstæður stúlkunnar óviðunandi þar sem hún var fylgdarlaus hér á landi og tók Barnaverndarnefnd B við forsjá stúlkunnar samkvæmt 5.  mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þann 29. maí 2019. Stúlkan var fyrst vistuð á H en fór síðan á fósturheimili þann 3. október 2019 þar sem hún dvelur í dag.

Eftir að stúlkan fór í vistun gekk erfiðlega að ná í föður stúlkunnar til að fá fram frekari upplýsingar. Kærandi kom til landsins í desember 2020 og var þá rannsakað hjá lögreglu hvort að hann væri raunverulegur faðir stúlkunnar en stúlkan hefur ávallt haldið því fram að hann sé ekki faðir sinn. Að lokum var faðernið staðfest með DNA prófi.

Starfsmenn Barnaverndar B hafa unnið að því að efla og treysta tengsl stúlkunnar við föður en telja ekki lengur raunhæft að stefna að því að stúlkan flytji aftur til föður. Mál föður hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar þann 15. mars 2022 og fól nefndin borgarlögmanni að höfða forsjársviptingarmál á hendur föður með úrskurði sínum þann 22. mars 2022 en ekki sé komin endanleg niðurstaða í því máli. Starfsmenn öfluðu afstöðu stúlkunnar til umgengni við föður og liggur fyrir talsmannskýrsla, dags. 3. janúar 2022. Þar kemur fram að stúlkan vilji umgengni við föður en vilji ekki gista hjá honum eða hitta hann á heimili föður, aðeins á E eða í B, og í húsnæði barnaverndar undir eftirliti. Stúlkan sagðist vilja hitta föður sinn alls þrisvar sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn. Þá lýsti stúlkan yfir vanlíðan í umgengni og sagðist aldrei hlakka til eða vera spennt yfir að hitta föður sinn, sagðist vera slöpp eftir umgengni og vildi komast heim til fósturfjölskyldu sinnar. Stúlkan lítur á fósturfjölskyldu sína sem fjölskyldu sína og hefur komið fram að þar vilji hún búa þar til hún verði fullorðin.

Á meðferðarfundi starfsmanna þann 30. mars 2022 hafi verið fjallað um beiðni föður um umgengni við stúlkuna en þá hafði faðir óskað eftir eins mikilli umgengni og hægt væri. Starfsmenn lögðu þá til að faðir ætti umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti og í húsnæði á vegum barnaverndar. Umgengni skyldi vera með þessu móti á meðan forsjársviptingarmál á hendur föður væri rekið fyrir dómstólum. Faðir féllst ekki á tillögur starfsmanna og því hafi málið verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 21. júní 2022. Á fundi nefndarinnar vísaði lögmaður föður til þess að nú væri rekið forsjársviptingarmál fyrir dómstólum gegn föður og að dómari í því máli hafi farið fram á að gert yrði forsjárhæfnismat og því væri mikilvægt að umgengni yrði viðhaldið á þessum tíma vegna tengsla föður við stúlkuna. Í bókun nefndarinnar kemur fram að nefndin leggur áherslu á það að afstaða stúlkunnar liggi skýrt fyrir en stúlkan hefur sagt að hún vilji hitta föður sinn þrisvar sinnum á ári, undir eftirliti starfsmanna. Nefndin taldi sig því knúna til að líta til afstöðu stúlkunnar við ákvörðunartöku í málinu. Nefndin samþykkti því ekki tillögur starfsmanna eins og þær voru lagðar fyrir nefndina en starfsmenn lögðu til að umgengni yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Nefndin úrskurðaði þann 28. júní 2022 að faðir ætti umgengni við stúlkuna á sex vikna fresti í tvær klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál á hendur föður væri rekið fyrir dómstólum. Þá skyldi umgengni vera undir eftirliti og fara fram á E eða í B samkvæmt samkomulagi aðila og að fósturforeldrum væri frjálst að vera viðstaddir umgengni, óskuðu þeir þess.

Í kæru lögmanns föður til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 18. júlí 2022, sé gerð krafa um að úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 28. júní 2022 vegna umgengni föður við dóttur, verði hrundið og að umgengni verði aukin þannig að hún sé tíðari en á sex vikna fresti og vari lengur en í tvær klukkustundir í senn. Þá sé þess krafist að umgengni fari ætíð fram á höfuðborgarsvæðinu á þeim stöðum sem faðir kjósi og að umgengni verði án eftirlits og þeir einir megi vera viðstaddir umgengni sem faðir heimili í hvert sinn.

Lögmaður vísar til þess að kærandi hafi óskað eftir eins mikilli umgengni og hægt sé á tímabili málsins fyrir dómstólum og vilji helst að stúlkan gisti hjá sér svo að þau geti rifjað upp stundir sínar og komi stúlkan þá til með að vilja búa hjá föður. Lögmaður vísar í að dómari í forsjársviptingarmáli á hendur kæranda hafi farið fram á að gert yrði forsjárhæfnismat og telur því mikilvægt að tengsl föður við stúlkuna séu ekki skert á meðan dómsmál sé í farvegi. Vísað sé til að faðir hafi ávallt verið góður við stúlkuna og að umgengni á E sé óhentugt fyrir föður vegna ferðalaga hans á milli staða. Þá vilji faðir hvorki hafa eftirlitsaðila né fósturforeldra viðstadda umgengni heldur að þeim feðginum verði frjálst að vera tvö saman til að byggja upp tengsl sín.

Eins og fram hefur komið sé rekið forsjársviptingarmál á hendur kæranda fyrir dómstólum og því sé ekki stefnt að því að stúlkan fari í umsjá föður og stuðningsúrræði talin fullreynd. Stúlkan hafi nú verið í umsjá fósturforeldra sinna frá því í september 2019 en þar áður hafi stúlkan verið vistuð á H frá 29. maí 2019 eftir að í ljós hafi komið að hún var fylgdarlaus á Íslandi og í óviðunandi aðstæðum að mati starfsmanna Barnaverndar B. Stúlkan hafði þá greint frá því að kærasta föður hafði beitt sig ofbeldi daglega, til dæmis með því að slá hana í andlit, bak og hendur eða fætur með priki. Stúlkan hafi þá verið með sjáanlega áverka og hafi kærasta föður viðurkennt ofbeldið gagnvart starfsmönnum barnaverndar og vísað þá til uppeldisaðferða í heimalandi sínu.

Frá því að kærandi kom til landsins í desember 2020 hafa starfsmenn barnaverndar unnið að því að reyna að efla og styrkja tengsl á milli hans og stúlkunnar en það sé mat starfsmanna að ekki sé lengur raunhæft að stefna að því að stúlkan flyti til kæranda og fari í hans umsjá þar sem ekki hafi náðst að efla tengsl þeirra. Þegar starfsmenn unnu að því að byggja upp tengsl á milli kæranda og stúlkunnar hafi verið gerðar þrjár áætlanir um meðferð máls með það að markmiði að byggja upp tengsl og veita föður stuðning til að tengjast dóttur sinni. Umgengni hefur heilt yfir ekki gengið vel að mati starfsmanna og stúlkunni hefur ekki liðið vel í umgengni, að eigin sögn. Kæranda hafi verið tíðrætt í umgengni að hún væri dóttir sín en hefur ekki átt frumkvæði að samskiptum eða spjalli við stúlkuna. Kærandi hafi ekki gripið þau tækifæri sem hann hafi fengið til að skapa umræðugrundvöll eða kynnast stúlkunni heldur beini hann orðum sínum að túlkum eða starfsmönnum og hefur verið upptekinn af rétti sínum og sé tíðrætt um að blóðtengsl þeirra skipti öllu máli. Gert hafi verið tengslamat, dags. 9. desember 2021, og hafi það verið mat tengslasérfræðings að kærandi væri með alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og sé í þörf fyrir mikla sálfræðiaðstoð til að vinna úr sínum áföllum. Á meðan hafi kærandi litla getu til að annast aðra en sjálfan sig, auk annarra þátta.

Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um umgengni í fóstri. Segir þar í 1. mgr. að barn eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Þá segir meðal annars í 2. mgr. að kynforeldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara.

Afstaða stúlkunnar til umgengni við föður liggur fyrir í málinu í alls þremur talsmannskýrslum, dagsettar 9. mars 2021, 14. september 2021 og 3. janúar 2022. Samkvæmt talsmannskýrslum hefur stúlkan verið örugg í fasi og ófeimin gagnvart talsmanni. Stúlkan hefur ávallt sagt að hún vilji eiga umgengni við föður en alltaf sagt þrisvar á ári, í tvær klukkustundir í senn. Stúlkan hefur að eigin sögn lýst yfir vanlíðan fyrir og eftir umgengni og að hún vilji ekki gista hjá föður. Þá hefur stúlkan sagt að umgengni eigi að fara fram í húsnæði barnaverndar og undir eftirliti. Stúlkan hefur lýst því að henni líði vel á fósturheimilinu og lítur á fósturfjölskylduna sem sína eigin fjölskyldu. Í umgengni hefur stúlkan leitað í öryggi hjá fósturmóður sinni ásamt því að hún óskað eftir að umgengni verði slitið, sjá bókun meðferðarfundar, dags. 5. janúar 2022.

Barnaverndarnefnd B telur að ekki sé lengur raunhæft að stefna að því að stúlkan fari aftur í umsjá kæranda og telur nefndin að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga séu fullreynd gagnvart honum. Þá hafi stúlkan búið við mikinn óstöðugleika og víðtæka og alvarlega vanrækslu í umsjá kæranda en á því fósturheimili sem hún dvelur á í dag fái hún þann stöðugleika, öryggi og stuðning sem hún er í brýnni þörf fyrir. Áður en stúlkan fór í umsjá Barnaverndarnefndar B þann 29. maí 2019 var daglegri umönnun hennar og uppeldi alvarlega ábótavant og telja starfsmenn barnaverndar að heilsu hennar og þroska væri hætta búin, færi hún aftur í umsjá kæranda.

Barnaverndarnefnd B tók tillit til þess í úrskurði sínum þann 28. júní 2022 að dómari í forsjársviptingarmáli á hendur kæranda hafi óskað eftir að gert yrði forsjárhæfnismat í málinu og að ekki yrði skorið á tengsl föður og stúlkunnar. Nefndin telur þó hins vegar að ekki sé hægt að horfa fram hjá skýrri afstöðu stúlkunnar, bæði til framtíðardvalarstaðar síns sem og umgengni hennar við föður en í 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að í störfum sínum skuli barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Er meðal annars vísað til þessa í 1. tölulið 12. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Stúlkan hefur ítrekað lýst yfir vanlíðan sinni vegna umgengni við föður ásamt því að vilja aðeins hitta hann þrisvar sinnum á ári.

Barnaverndarnefndin telur mikilvægt að viðhalda þeim stöðugleika sem stúlkan býr við. Hagsmunir barna skulu ávallt vera í fyrirrúmi og beita skal þeim ráðstöfunum sem barni er fyrir bestu, með tilliti til og hagsmuna þeirra.

Í viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að lögmaður kæranda vísi til þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B um mjög skerta umgengni sé einungis tilkominn í ljósi þess að barnaverndarnefnd hafi að ósekju ákveðið að höfða mál gegn kæranda og fara fram á forsjársviptingu hans yfir dóttur sinni. Lögmaður telji að illa hafi staðið að þeim málarekstri og telji að kröfum sóknaraðila verði hafnað í málinu.

Þá leggur lögmaður kæranda áherslu á ýmis atriði vegna kröfugerðar stefnanda sem byggir að mati lögmanns á röngum forsendum og vísar í dvalarleyfisrétt kæranda. Þá vísar lögmaður í að ráðist hafi verið í forsjársviptingarmál, án þess að framkvæma forsjárhæfnismat ásamt því að leggja áherslu á að kæranda hafi aldrei gefist tækifæri á að hafa dóttur sína í sinni umsjá. Þá telur lögmaður ekki hægt að sýna fram á það að kærandi sé vanhæfur til að fara með forsjá þar sem engin reynsla sé af kæranda með dóttur sína í sinni umsjá.

Ljóst þyki að um sé að ræða tvö mál sem lögmaður vísar í. Annars vegar er vísað í forsjársviptingarmál sem borgarlögmaður, fyrir hönd Barnaverndarnefndar B, rekur gegn föður fyrir Héraðsdómi B og annars vegar úrskurð Barnaverndarnefndar B vegna umgengni föður við dóttir sína þann 28. júní 2022. Það sé mat starfsmanna Barnaverndar B og barnaverndarnefndar að stuðningur við föður í uppeldishlutverki hans sé fullreyndur. Fram hafi komið í gögnum málsins að stúlkan hafi farið í umsjá Barnaverndar B þegar í ljós hafi komið að hún væri forsjárlaus hér á landi og í óviðunandi aðstæðum. Faðir stúlkunnar hafði þá skilið stúlkuna eftir í aðstæðum þar sem hún hafi verið beitt ofbeldi daglega af hálfu barnsmóðir föður.

Lögmaður vísar einnig til þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði eingöngu metinn með hliðsjón af þeim málarekstri sem nefndin stendur nú í gegn kæranda og telur barnaverndarlög sem og stjórnsýslulög hafa verið þverbrotin af hálfu Barnaverndarnefndar B.

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar B snýr að umgengni kæranda við dóttur sína á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Barnavernd telur óljóst í hvaða samhengi lögmaður kæranda vísar til að barnaverndarlög og stjórnsýslulög hafi verið þverbrotin við málsmeðferð og telur nefndin þá staðhæfingu einfaldlega ranga, enda liggur ekkert slíkt fyrir í gögnum málsins.

Þá vísar lögmaður til þess að kærandi vilji gera allt sem hann getur til að styrkja tengsl við dóttur sína og telur hinn kærða úrskurð vera til þess fallinn að grafa enn frekar undan sambandi þeirra feðgina. Kærandi telur það ekki getað þjónað hagsmunum dóttur sinnar að umgengni verði takmörkuð svo verulega sem hinn kærði úrskurður gerir ráð fyrir. Vísar lögmaður til 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga þar sem fram kemur að markmið laganna sé að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu.

Þá telur kærandi að meðalhófsregla 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sé ekki uppfyllt en samkvæmt henni skulu barnaverndaryfirvöld gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá nefnir kærandi að það sé afar íþyngjandi ráðstöfun að takmarka umgengni eins og barnaverndarnefnd telur ástæðu til. Þá vísar kærandi til vilja dóttur sinnar til þess að eiga við sig umgengni. Telur kærandi því liggja í augum uppi að ákvörðunin sé ekki vægasta ráðstöfunin sem unnt sé að beita í málinu. Að lokum ítrekar kærandi að honum hafi aldrei gefist færi á umgengni við dóttur sína í einrúmi og telji engin gögn hafa komið fram í málinu sem gefi til kynna að ekki megi láta reyna á slíka ráðstöfun.

Í niðurstöðu úrskurðar Barnaverndarnefndar B þann 28. júní sl. er ákvörðun nefndarinnar ágætlega rökstudd. Tillögur starfsmanna voru þær að faðir ætti umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði á meðan forsjársviptingarmál á hendur föður væri rekið fyrir dómstólum. Faðir hafði þá átt umgengni fyrir úrskurð nefndarinnar samkvæmt samkomulagi við starfsmenn en fjallað var um umgengni föður við stúlkuna á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar þann 30. mars 2022 eftir að farið var fram á forsjársviptingu og lögðu starfsmenn þá til eitt skipti í mánuði.

Við gerð hins kærða úrskurðar gat nefndin ekki horft fram hjá því að afstaða stúlkunnar til umgengni við föður var skýr. Umgengni föður við stúlkuna hefur gengið illa að mati starfsmanna og hafa starfsmenn þurft að veita föður mikla aðstoð í umgengni til að reyna að tengjast stúlkunni. Þá hefur verið mikill vanlíðan hjá stúlkunni eftir umgengni við föður og ekki hægt að líta fram hjá því að stúlkan hefur sagt við talsmann að hún vilji aðeins eiga umgengni við föður sinn þrisvar á ári og þá undir eftirliti og í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B þann 22. mars sl. kemur fram að nefndin telji að öll gögn málsins og forsaga þess styðji það mat starfsmanna Barnaverndar B að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga séu fullreynd gagnvart föður og ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta í uppeldisumhverfi stúlkunnar hjá föður, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Vísar nefndin í þá meginreglu samkvæmt 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga að í starfsemi barnaverndaryfirvalda skuli hagsmunir barnsins, sem í hlut á, ávallt hafðir í fyrirrúmi og beri í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana sem ætla má að barninu sé fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 3. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem hefur lagagildi á Íslandi, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013.

Eins og áður hafi komið fram og liggur fyrir í gögnum málsins þá var úrskurður barnaverndarnefndar B þann 28. júní 2022 kveðin upp með hagsmuni stúlkunnar í huga. Stúlkan hafi ítrekað komið fram með skýra afstöðu til umgengni við föður. Þá hafi stúlkan búið við mikinn óstöðugleika og bjó við víðtæka og alvarlega vanrækslu í umsjá föður en býr nú á fósturheimili og fær þann stöðugleika, öryggi og stuðning sem stúlkan sé í að mati barnaverndarnefndar í brýnni þörf fyrir. Nefndin telji að stuðningur við föður hafi verið fullreyndur og vægari úrræði reynd til úrbóta án viðunandi árangurs. Daglegri umönnun og uppeldi stúlkunnar var alvarlega ábótavant áður en stúlkan fór í umsjá barnaverndarnefndar B og telur nefndin því fullvíst að heilsu stúlkunnar og þroska hennar sé hætta búin fari hún aftur í umsjá föður.

Með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi og með vísan til gagna málsins og úrskurða nefndarinnar sé ítrekuð fyrri krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála.

IV.  Sjónarmið stúlkunnar

Í skýrslu talmanns stúlkunnar, dags. 3. janúar 2022, kemur fram í samantekt að stúlkan vilji hitta föður sinn og bræður í umgengni. Stúlkan væri afdráttarlaus um að hún vildi ekki gista hjá föður í umgengni og vildi ekki flytja til hans. Þá virtist hún ekki hafa mikinn áhuga á samtölum eða taldi þau ekki möguleg. Að mati talsmanns átti stúlkan ekki gott með að átta sig á hugtökum tengdum tíma, eins og hve oft eða lengi hún vildi hitta föður sinn. Þá var það mat talsmanns að af svörum stúlkunnar að dæma, liði henni ekki alltaf vel í umgengni.

V.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul og lýtur forsjá kæranda. Stúlkan hefur verið í umsjá Barnaverndarnefndar B frá 19. maí 2019 og fóstri frá 3. október 2019. Kærandi er faðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 28. júní 2022 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna á sex vikna fresti í tvær klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál væri til meðferðar dómstóla. Umgengni færi fram á E eða í B samkvæmt samkomulagi aðila og fósturforeldrum væri frjálst að vera viðstaddir umgengni, óskuðu þeir þess.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði aukin. Þá gerir kærandi kröfu um að umgengni fari ávallt fram í B á þeim stöðum sem hann kýs, án eftirlits, og að þeir einir megi vera viðstaddir sem kærandi heimilar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Samkvæmt gögnum málsins er nú rekið forsjársviptingarmál fyrir dómstólum og því er stefnt að því að stúlkan verði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Hinn kærði úrskurður varðar það tímabil sem stúlkan er í tímabundnu fóstri. Fram kemur í skýrslu talmanns stúlkunnar að hún geti ekki komið með skýra hugmynd um umgengni við föður sinn en hún vilji eiga umgengni við hann og bræður sína. Þegar litið er heildstætt á málið er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki skuli hrófla við mati barnaverndarnefndar á tíðni og tilhögun umgengni á gildistíma hins kærða úrskurðar. Er í því sambandi litið til afstöðu stúlkunnar til umgengni og að umgengni hefur ekki gengið vel, auk þess sem stúlkunni virðist líða vel hjá fósturforeldrum sínum. Þá telur úrskurðarnefndin mikilvægt að friður og ró skapist í lífi stúlkunnar eftir erfiða lífreynslu og langvarandi rótleysi.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að fallast verði á sjónarmið Barnaverndarnefndar B og horfa verði til þess að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar. Er þá litið til þeirrar stöðu sem stúlkan er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að umgengni kæranda við dóttur sína hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 28. júní 2022 um umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta