Mál nr. 496/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 496/2024
Miðvikudaginn 11. desember 2024
A
gegn
B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, móttekinni 8. október 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs D frá 17. september 2024 vegna umgengni hans við E og F.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan, E er X ára gömul og drengurinn F er X ára gamall. Kærandi er faðir barnanna.
Börnin lúta forsjá B en foreldrar þeirra afsöluðu sér forsjá þeirra. Börnin hafa verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá 2018. Móðir barnanna er látinn.
Lögmaður kæranda óskaði eftir umgengni hans við börnin þann 7. júní 2024 og var beiðni hans tekin fyrir á meðferðarfundi B þann 19. júní 2024. Samkomulagi náðist ekki um umgengni og var málinu vísað til umdæmisráðs til úrskurðar.
Umdæmisráð D tók málið fyrir 17. september 2024. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„A, skal enga umgengni hafa við [E] og F“
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 8. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. október 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Viðbótargreinargerð kæranda barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 24. október 2024 og var hún send barnaverndarþjónustunni til kynningar 29. október 2024. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi, dags. 29. október 2024 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. október 2024, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að úrskurður umdæmisráðs D frá 17. september 2024, er varðar umgengni við börn hans tvö, verði felldur úr gildi og kröfur hans um umgengni og símasamskipti verði teknar til greina. Kærandi gerir aðallega kröfu um að börnin verði saman í umgengni og að hún verði þrisvar sinnum á ári. Fari umgengnin fram á tímabilinu 10.-20. viðkomandi mánaðar, nánar tiltekið í janúar, apríl og september.
Til vara gerir kærandi þá kröfu að hann fái sér umgengni við hvort barnið fyrir sig, nánar tiltekið umgengni við dóttur sína, þrisvar á ári, 10.-20. dag viðkomandi mánaðar, í janúar, maí og september, en við son sinn umgengni þrisvar á ári, í apríl á bilinu 10.-20. þess mánaðar og síðan í ágúst og desember.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um umgengni þrisvar á ári á öðrum tíma við hvort barn fyrir sig, ásamt því að fá að hringja símtal í hvort þeirra fyrir sig viku fyrir afmælin þeirra.
Kærandi […]
Börnin hafi verið í fóstri frá árinu X og haft lítil samskipti við kæranda og föðurfjölskyldu sína frá þeim tíma. Hafi dóttir kæranda tjáð sig um að vilja ekki hitta föður sinn, en kærandi telji þar mögulega um að kenna neikvæðri innrætingu fósturforeldra sem virðast hafa líkað illa við hann frá upphafi og lítið viljað af kæranda vita. Telur kærandi það ekki komið frá stúlkunni sjálfri að vilja skera á öll tengsl við hann og fjölskyldu sína, enda áttu þau feðgin í góðum tengslum fyrir árið X og búið að staðfesta með dómi Landsréttar […] Stúlkan hafi aðeins verið X ára þegar hún var tekin af heimili kæranda, sem sagt afar ung og áhrifagjörn og þannig auðvelt að móta viðhorf hennar gegn kæranda sem hafi haft þær afleiðingar að hún kveðst ekki vilja hitta kæranda framar. Þrátt fyrir það tjáði stúlkan sig um það við talsmann árið 2020 að hún vildi allavega bíða með að hitta föður sinn þar til hann […] og mögulega vilja hitta hann án eftirlits þegar hún væri orðin fullorðin. Bendi þetta eindregið til þess að stúlkan sé á báðum áttum og í það minnsta einhver áhugi fyrir hendi til að hitta föður sinn. Má velta því upp hvort stúlkan sé í hollustuklemmu gagnvart fósturforeldrum sínum og þori jafnvel ekki að tjá sinn eigin vilja af ótta við viðbrögð þeirra. Kærandi hafi miklar áhyggjur af neikvæðum afleiðingum til frambúðar fyrir stúlkuna að umgangast ekki hann og föðurfjölskyldu, muni það óhjákvæmilega hafa áhrif á lífsgæði hennar fram á fullorðinsár að skera á öll tengsl.
Drengurinn hafi aftur á móti sýnt áhuga á að umgangast kæranda, sbr. m.a. talsmannaskýrslu, dags. 22. apríl 2024. Hefur umgengni þeirra feðga ávallt gengið vel samkvæmt skýrslum G frá 29. janúar 2022 og 25. mars 2023. Drengurinn hafi faðmað föður sinn, beðið sérstaklega um að fá að sitja í fangi hans og láta taka mynd af sér með föður sínum. Kærandi telji afar mikilvægt að viðhalda tengslum hans við son sinn, einkum með tilliti til skýrs vilja drengsins sjálfs. Geti það valdið drengnum ómældum og óafturkræfum skaða ef skorið verði á öll tengsl þeirra feðga líkt og barnavernd og umdæmisráð D virðast vilja gera með því að hafna allri umgengni kæranda við bæði börnin. Kærandi hafi […] og tengsl þeirra ávallt verið náin, jákvæð og góð. Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við skýrslu H sálfræðings sem sé ódagsett og virðist vera lögð fram að frumkvæði fósturforeldra drengsins. Þar hafi þessi H komist að þeirri niðurstöðu að það sé andstætt hagsmunum drengsins að hitta föður sinn á meðan drengurinn sé í meðferð hjá H. Þessi H þekki ekki kæranda, hafi aldrei hitt hann eða kynnt sér málefni fjölskyldunnar að öðru leyti en því sem hann heyrir þá frá fósturforeldrum og drengnum. H hafi ákveðið upp á sitt einsdæmi að umgengni drengsins við föður muni hafa neikvæð áhrif á drenginn þar sem hann glímir við ýmis vandamál, svo sem kvíða. Kærandi bendi á að drengurinn hefi nú verið í fóstri síðastliðin sex ár og því ekki föður eða hans uppeldi um að kenna að drengurinn glími við vandamál í dag. Kærandi telur ekki ólíklegt að drengurinn glími við þessi fjöl þættu vandamál einmitt vegna þess að hann hafi verið rifinn af foreldrum sínum og hafi lítið fengið að hitta föður sinn síðustu ár þrátt fyrir skýran vilja hans.
Kærandi telji að með umræddum úrskurði sé vegið með grófum hætti að gagnkvæmum rétti hans og barna hans til umgengni, verið sé að fara gegn skýrum vilja drengsins og rjúfa á tengsl föður við börn hans með óafturkræfum slæmum afleiðingum. Kærandi sjái sig því knúinn til þess að kæra úrskurð umdæmisráðs D til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Kærandi byggir á því að barnavernd og umdæmisráð hafi virt að vettugi allar helstu meginreglur barnaverndarlaga sem fylgja ber við málsmeðferð allra barnaverndarmála. Vísar kærandi þar einkum til reglna er varða meðalhóf, rannsókn máls, að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi, taka tillit til vilja barna sem og gagnkvæms réttar foreldra og barna til umgengni.
Í 1. mgr. 4 gr. laga nr. 80/2002 sé kveðið á um þá meginreglu að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu. Þá skal skv. 2. mgr. ákvæðisins veita barni rétt til að tjá vilja sinn í samræmi við aldur og þroska og taka jafnframt réttmætt tillit til skoðana barns, sbr. 2. mgr. 46. gr. laganna. Í 7. mgr. 4. gr. sé síðan áskilið að beita skuli vægustu úrræðum sem völ er á hverju sinni og ekki skuli beita íþyngjandi úrræðum nema að lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með vægara móti (meðalhófsreglan). Í 74. gr. laganna sé síðan skýrlega kveðið á um gagnkvæman rétt barns í fóstri og kynforeldris til umgengni og sé áskilið í 2. mgr. að umgengni þurfi að vera bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins eigi að takmarka eða loka alveg á umgengni. Þá skuli ákvarða umgengni í samræmi við hagsmuni og þarfir fósturbarna skv. 3. mgr. 74. gr. laganna. Túlka beri þetta ákvæði með hliðsjón af 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en þar segi í 3. mgr. að virða beri rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri til að halda persónulegum tengslum eða beinu sambandi við foreldri með reglubundnum hætti, nema það sé talið andstætt hagsmunum barnsins. Þannig sé tíðni umgengni ávallt háð mati á hagsmunum viðkomandi barns.
Kærandi byggi á því að almennt sé hagsmunum barna best borgið hjá foreldrum sínum og þá sé samveruréttur fjölskyldunnar verndaður af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verði að horfa til þeirra ákvæða við mat á meðalhófi og hagsmunum barnanna þegar komi að íþyngjandi afskiptum barnaverndar af málefnum fjölskyldunnar. Telur kærandi gengið með grófum hætti á rétt sinn og barna sinna til gagnkvæmrar umgengni og grundvallarréttar barna til að þekkja uppruna sinn og alast upp innan fjölskyldu sinnar, í samræmi við meginreglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, einkum 3., 7., 8. og 9. gr. hans. Ekkert sé fram komið í máli þessu sem sýni fram á að það sé andstætt hagsmunum barnanna að njóta umgengni við föður sinn, sem hafi verið aðal umönnunaraðili frá fæðingu þeirra og allt þar til börnin hafi verið tekin úr hans umsjá. Kærandi hafi ávallt hugsað vel um börnin, tengsl þeirra jákvæð og góð og saknar hann beggja barna afar mikið og elskar þau heitt. Kærandi hafi aldrei […], en þetta hafi dómur Landsréttar staðfest í máli nr. X, þar sem kærandi hafi verið sýknaður […].
Þannig liggi ekkert fyrir í máli þessu um að börnin hafi orðið fyrir ofbeldi, vanrækslu eða öðru í umsjá kæranda, en það notað gegn kæranda að hann hafi afsalað sér forsjá barnanna árið 2018. Það gerði hann aðeins vegna þeirra slæmu aðstæðna sem hann hafi verið í á þeim tíma, þ.e. í […]. Þrátt fyrir að kærandi hafi síðar verið sýknaður þá hefur barnavernd ekki viljað veita honum umgengni við dóttur sína og afar takmarkaða umgengni við son hans, jafnvel þótt sú umgengni hafi gengið vel í þau skipti sem hún hafi farið fram. Nú séu liðin um sex ár síðan börnin hafi verið tekin úr umsjá kæranda á afar viðkvæmum aldri í þeirra lífi. Nú þegar sé búið að valda miklum og óafturkræfum skaða fyrir börnin með því að skera svona á öll tengsl við kæranda og föðurfjölskylduna. Börnin, einkum stúlkan, virðast vera í einhvers konar hollustuklemmu gagnvart fósturforeldrum sínum og jafnvel búið að innræta neikvæð viðhorf í þau gegn föður sínum sem hafi orðið þess valdandi að stúlkan kveðst ekki vilja hitta hann. Kærandi telji þau viðhorf ekki frá henni sjálfri komið, að þetta sé ekki hennar raunverulegi og upplýsti vilji að skera á öll tengsl við föður sinn.
Kærandi telji það stríða gegn hagsmunum barnanna að vera í svo takmarkaðri umgengni við hann. Af nýlegum gögnum málsins, s.s. talsmannaskýrslu drengsins, megi ráða að það sé eindreginn vilji drengsins að hitta föður sinn. Drengurinn hafi einnig tjáð sig um það að hann skilji ekki alveg og viti ekki hvers vegna systir hans vilji ekki koma með í umgengni. Í skýrslum talsmanns komi skýrlega fram að drengnum líði vel með kæranda, vilji hitta hann og bað hann um að sitja í fangi kæranda og láta taka mynd af þeim saman í síðustu umgengni. Drengurinn sé X ára gamall og beri því að virða skýran og eindreginn vilja hans til umgengni við föður sinn, en hugmyndir drengsins [um] umgengni ríma við kröfur kæranda. Hvað varðar stúlkuna sérstaklega telur kærandi að vel væri hægt að vinna með samskipti þeirra með aðstoð fagaðila og byrja umgengni smátt og smátt með aðstoð og eftirliti. Einkum í ljósi þess að kærandi hafi dregið í efa að það sé raunverulegur vilji stúlkunnar að hitta ekki föður sinn og föðurfjölskyldu.
Barnaverndaryfirvöld hafi í málum barnanna litið algjörlega framhjá skýrum vilja drengsins og ekki kannað nægilega á hvaða forsendum meintur vilji stúlkunnar til að hitta ekki kæranda byggist á. Meðalhófsreglan hafi verið virt að vettugi sem þó ber að fylgja í hvívetna við alla málsmeðferð barnaverndarmála, sbr. 7. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002. Kærandi telji ekkert meðalhóf fólgið í því að takmarka umgengni með þessum hætti og væri hægt að koma til móts við kröfur hans og vilja drengsins með einhverju móti í samræmi við meðalhófsreglu. Markmiðið eigi að vera að viðhalda tengslum sem fyrir séu, þar sem búið sé að svipta kæranda forsjá, en það sé alls ekki gert með því að hafa enga umgengni. Telur kærandi þetta ekki til þess fallið að viðhalda tengslum sínum við börnin og sé þvert á móti verið að stuðla með þessu að algjöru tengslarofí milli þeirra til frambúðar. Bæði börnin líði fyrir það hvernig hafi verið staðið að allri vinnslu málsins og upplifi kærandi að barnavernd og fósturforeldrar hafi unnið gegn föður og hagsmunum barnanna með slíkri takmörkun á umgengni.
Kærandi byggi á því að engin óháð gögn hafi verið lögð fram í málinu sem styðja að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnanna að umgangast kæranda. Stúlkan hafi ekki fengið aðstoð við að vinna úr sínum áföllum og börnin ekki upplýst um sannleikann um að kærandi hafi verið sýknaður með dómi Landsréttar um […]. Þá hafi endanlegar kröfur kæranda um umgengni ekki verið bornar undir börnin ef litið sé til gagna málsins og séu þau vinnubrögð barnaverndar gjörsamlega óboðleg og í andstöðu við ákvæði barnaverndarlaga.
Kærandi telji meint æðisköst drengsins eftir umgengni við föður stórlega ýktar og bendir á að eðlilega reynist drengnum erfitt að hitta föður sinn svona sjaldan. Við það myndist mikil tilfinningaleg spenna, drengurinn viti ekki hvernig hann eigi að haga sér eða höndla tilfinningar sínar, svo sem söknuð og spenning við að hitta föður sinn. Er ekkert sem bendir til þess að hegðun drengsins eftir umgengni stafi af því að honum líði illa að hitta kæranda, enda hafi drengurinn tjáð skýran vilja sinn um að vilja hitta föður sinn. Mun líklegra sé því að drengurinn sýni af sér slíka hegðun vegna óvissu með fyrirkomulag umgengni og hve langt líði á milli skipta sem hann hittir kæranda. Barnavernd hafi ekkert lagt fram í málinu sem staðfesti að það sé andstætt hagsmunum barnanna að vera í umgengni við kæranda.
Þrátt fyrir allt framangreint hafi umdæmisráð C komist að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi ekki fá neina umgengni við börn sín, þ.e. staðfesti tillögur barnaverndar. Ekkert hafi verið reynt að koma til móts við kæranda og börn hans, þótt skýr vilji drengsins standi til þess að umgangast föður sinn. Telur kærandi það með öllu óskiljanlega niðurstöðu og telur hann umdæmisráð hafa virt að vettugi mikilvægar meginreglur barnaverndarlaga, s.s. meðalhóf, skýran vilja drengsins og að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi.
Vara- og þrautavarakröfur kæranda séu studdar sömu röksemdum og lagaákvæðum og rakin hafi verið hér að ofan að breyttu breytanda.
Með vísan til alls framangreinds geri kærandi þá kröfu að úrskurður umdæmisráðs C, dags. 17. september 2024, er varðar umgengni kæranda við börn sín tvö, verði felldur úr gildi og kröfur hans teknar til greina að öllu leyti. Til vara geri kærandi þá kröfu að hann fái sér umgengni við hvort barn fyrir sig, við dóttur sína þrisvar á ári, 10.-20. dag viðkomandi mánaðar, í janúar, maí og september en við son sinn umgengni þrisvar á ári, í apríl á bilinu 10.- 20. þess mánaðar og síðan í ágúst og desember. Til þrautavara geri kærandi kröfu um umgengni þrisvar á ári á öðrum tíma við hvort barn fyrir sig, ásamt því að fá að hringja símtal í hvort þeirra fyrir sig viku fyrir afmælin þeirra.
III. Sjónarmið B
Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar kemur fram að börnin séu í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Með varanlegu fóstri sé átt við að barn dvelji hjá fósturforeldrum þar til forsjárskyldur falla niður, þ.e. til 18 ára aldurs en þá verði barn lögráða skv. ákvæðum lögræðislaga. Barni sé komið í varanlegt fóstur þegar ekki sé fyrirsjáanlegt að hægt verði að bæta aðstæður barnsins á annan hátt. Markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Börnin lúti forsjá B en kynforeldrar hafi afsalað sér forsjá barnanna til barnaverndarþjónustunnar.
[…] hafi verið sakfelld í héraðsdómi fyrir […]. Kærandi hafi verið einnig sakfelldur fyrir […]. Í Landsrétti hafi kærandi verið sýknaður af […]. Kærandi hefur mjög takmarkað innsæi í eigin hegðun og tilfinningar og vantar töluvert upp á getuna til sjálfskoðunar. Hann varpi ábyrgðinni á eigin hegðun og tilfinningum á aðra og taki sjálfur litla ábyrgð á eigin stöðu.
Börnin hafi alist upp við vanrækslu og ofbeldi á heimili sínu hjá kynforeldrum. Börnin hafi einnig upplifað áföll í tengslum við að […]. Það hafi verið erfitt fyrir þau í gegnum tíðina að þurfa að svara spurningum frá öðrum börnum varðandi kynforeldra og ástæðuna fyrir því að […]. Þetta hafi haft áhrif á sjálfsmynd þeirra, sérstaklega hjá E, en hún hafi lýst því að hún óttist að vera dæmd fyrir tengsl sín við kynforeldra.
Þau hafi farið í meðferðarviðtöl í Barnahúsi vegna ofbeldis sem þau bjuggu við en Barnahús sérhæfir sig í slíkri meðferð. Drengurinn hafi nýlega byrjað í áfallameðferð hjá sálfræðing og hafi meðferðaraðili óskað eftir að það verði ekki umgengni við kæranda á meðan hann sé í áfallameðferð.
Það hafi gengið vel hjá börnunum að aðlagast nýjum aðstæðum hjá fósturforeldrum og líta á þau sem foreldra sína. Börnin hafi verið hjá fósturforeldrum frá því í X og hafa tengst stórfjölskyldu fósturforeldra á þeim tíma ásamt því að vera í reglulegum samskiptum við einhverja frá upprunafjölskyldu sinni.
Kærandi leitaði til lögmanns vegna umgengni við börn í varanlegur fóstri. Lögmaður sendi óskir föður sem voru aðallega að börnin verði saman í umgengni og að umgengnin verið þrisvar á ári. Þá hafi þess verið krafist að umgengni færi fram á tímabilinu 10-20 dags viðkomandi mánaðar, krafist hafi verið að umgengnin yrði í janúar, apríl og september. Til vara hafi þess verið krafist að sér umgengni verði með hvort barn þrisvar á ári með nánar tilgreindum hætti. Til þrautavara hafi kærandi krafist þess að hann fengi umgengni við börnin þrisvar á ári á öðrum tíma, en að hann fengi að hringja í þau viku fyrir afmæli þeirra.
Stúlkan hafi frá upphafi fósturvistunar ekki viljað nein samskipti við kæranda og hafi verið mjög skýr í afstöðu sinni. Hún hafi fengið bréf og gjafir frá honum, en neitað að taka þátt í frekari samskiptum. Fjölskylda kæranda hafi í gegnum tíðina verið að reyna að koma á samskiptum milli hans og barnanna. Það hafi verið mjög erfitt fyrir stúlkuna sem hafi orðið til þess að hún vill ekki vera í neinum samskiptum við foreldra kæranda. Í gegnum árin hafi stúlkunni verið skipaður talsmaður til að kanna afstöðu hennar til umgengni við kæranda og hún hafi alltaf verið skýr um að vilja enga umgengni. Það hafi verið mjög kvíðavaldandi fyrir stúlkuna þegar kærandi hafi verið að […]. Stúlkan hafi óttast að hitta kæranda óvænt og að hann myndi reyna að tala við sig. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. 23. apríl 2024 komi fram að hún vilji aldrei hitta kæranda aftur og að hann væri ekki pabbi hennar, hún hafi skipt um nafn og sé nú kennd við fósturföður.
Drengurinn hafi verið opnari fyrir umgengni við kæranda en hafi verið skýr um að vilja vera í öruggum aðstæðum, langt á milli skipta og í takmarkaðan tíma. Drengurinn hafi í tvígang farið í umgengni undir eftirliti við kæranda. Fyrsta umgengni hafi verið 29. janúar 2022. Drengurinn hafi verið ánægður að sjá kæranda og hafi umgengni gengið mjög vel. Þann 1. febrúar 2022 barst bréf frá skóla þar sem kom fram að drengurinn hafi átt erfiða viku fram að umgengni við kæranda en hann hafi átt mjög gott tímabil og verið í góðu jafnvægi fram að því. Eftir umgengni hafi drengurinn tekið tryllingskast og talaði um að það væru 999 vondar minningar í höfðinu á honum. Drengurinn sagði að það hafi eitthvað gerst í fyrradag (umgengni við kynföður) sem hefði látið vondu ógeðslegu minningarnar koma aftur. Drengurinn sagði að hann ætlaði heim og drepa sig og stinga sig í hausinn. Næsta umgengni við kæranda við drenginn hafi verið þann 25. mars 2023 og gekk hún einnig vel. Barnavernd barst bréf frá fósturforeldrum þann 04. apríl 2023 þar sem kom fram að eftirmálar umgengni hafi verið ofsafengin. Drengurinn hafi verið í miklu ójafnvægi og sýndi mikil viðbrögð við áreiti, var tættur, þurfti mikla huggun og nánd og átti erfitt með ná sér niður.
Fósturforeldrar hafa verið opnir fyrir að ræða kynforeldra við börnin og reynt að rifja upp jákvæðar minningar úr fortíð þeirra. Fósturforeldrar séu í samskiptum við aðra fjölskyldumeðlimi frá upprunafjölskyldu til að tryggja að börnin þekki uppruna sinn. Fósturforeldrarnir telja að umgengni við kæranda á þessum tímapunkti sé ekki börnunum til hagsbóta. Stúlkan hafi verið mjög skýr um að vilja enga umgengni og eftirmálar umgengninnar séu það alvarlegir fyrir drenginn að það sé óljóst hvort umgengni við kæranda geti nokkurn tímann talist vera honum til hagsbóta.
Barnaverndarþjónustan skipaði stúlkunni talsmann til að kanna afstöðu hennar til umgengni við kæranda. Afstaða hennar hafi verið mjög skýr í skýrslu talsmanns dags. 22. apríl 2024 um að vilja ekki vera í samskiptum við kæranda. Barnaverndarþjónusta telji ekki hagsmuni stúlkunnar að fara gegn vilja hennar. Hún sé í varanlegri fósturvistun og hafi ekki viljað vera í samskiptum við kæranda frá því að hann hafi verið […]. Barnaverndarþjónustan hafi bókað á meðferðarfundi þann 19. júní 2024 að ekki skyldi vera umgengni milli stúlkunnar og kæranda. Barnaverndarþjónustan hafi skipað drengnum talsmann til að kanna afstöðu hans til umgengni við kæranda. Samkvæmt skýrslu talsmanns dags. 22. apríl 2024 lýsti drengurinn áhuga að vera í umgengni við kæranda. Fram kom að hann vildi að það líði langur tími á milli skipta, eða einu sinni á ári. Krafa kæranda sé ekki í samræmi við vilja drengsins varðandi umfang umgengni við drenginn. Barnaverndarþjónusta ákvarðaði á meðferðarfundi þann 19. júní 2024 að umgengni við drenginn verði einu sinni á ári undir eftirliti. Barnaverndarþjónusta ætlaði að kanna afstöðu drengsins til símtals viku fyrir afmæli drengsins, sem er X, í aðdraganda afmælis drengsins. Barnaverndarþjónusta telur ekki hagsmuni drengsins að fara gegn vilja hans. Líkt og komi í skýrslu talsmanns þá hafi tímabil eftir umgengni við kynföður reynst honum erfitt og mun barnaverndarþjónusta vísa drengnum til meðferðaraðila til að hjálpa honum að vinna úr flóknum tilfinningum tengdum umgengni og varanlegri fósturvistun.
Þann 4. júlí 2024 barst barnaverndarþjónustu greinargerð frá H sálfræðingi drengsins þar sem lagt sé til að það verði engin umgengni við kynföður þar til drengurinn hafi lokið yfirstandandi áfallameðferð.
Samkvæmt 70. og 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 svo og 25. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 á barn rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir á meðan það sé í fóstri. Á sama hátt eiga kynforeldrar rétt á umgengni við barnið nema umgengnin sé bersýnilega talin andstæð hagsmunum barnsins og ekki samrýmast þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Við ákvörðun um fyrirkomulag og tíðni umgengni þurfi að taka mið af markmiðum fóstursins. Markmið með varanlegu fóstri er að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Við ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við kynforeldra sína eða aðra þurfi að meta í hverju einstöku tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengnin hafi á það. Hafa ber í huga að almennt sé börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra. Barnið þurfi að hafa tilfinningalegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra sem tengjast því og að tengjast og öðlast öryggi í fósturfjölskyldunni.
Barnavernd telji mikilvægt að allar ákvarðanir sem koma að umgengni við börnin séu teknar út frá hagsmunum barnanna. Þrátt fyrir að umgengnin við drenginn hafi gengið vel, hafa eftirmálar umgengninnar verið mjög erfiðir fyrir hann. Drengurinn hafi sýnt kvíða, áfallastreitu og reiði, og hafi ítrekað þurft aðstoð við að vinna úr erfiðum minningum frá æsku sinni, sem rifjast upp eftir umgengni. Stúlkan hafi ekki viljað vera í samskiptum við kæranda frá því að hann var […]. Barnaverndarþjónusta metur umgengni eða önnur samskipti milli kæranda og barnanna ekki samrýmast markmiðum varanlegs fósturs á þessum tímapunkti. B lagði til að umgengni kæranda við börnin yrðu engin. Ef samskipti við kæranda séu talin börnunum til hagsbóta eða jafnvel sem hluti af meðferðarlegri úrvinnslu verði umgengni endurskoðuð.
IV. Afstaða drengsins
Drengnum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hann 6. febrúar 2023. Í skýrslu talsmanns kemur fram að drengurinn myndi kannski vilja hitta kæranda í byrjun árs og svo aftur í lok árs. Að mati talsmanns hafi drengurinn verið að reyna lýsa því að hann vildi að það myndi líða ár á milli. Drengurinn sagði að hann væri smá skrítinn eftir umgengni við kæranda. Aðspurður lýsti drengurinn því að hann yrði reiður eftir umgengni og það væri vont og að honum vildi ekki líða þannig.
V. Afstaða stúlkunnar
Stúlkunni var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hana 23. apríl 2024. Í skýrslu talsmanns kemur fram skýr afstaða hennar til umgengni við kæranda. Fram kemur að stúlkan vilji ekki hitta kæranda.
VI. Afstaða fósturforeldra
Með tölvupósti til fósturforeldra, dags. 18. nóvember 2024, var óskað eftir afstöðu þeirra til krafna kæranda um umgengni. Í svari kæranda, dags. 25. nóvember 2024, kemur fram að þau hafni alfarið þeim yfirlýsingum kæranda […] enda hafi hún staðfastlega lýst hinu gagnstæða. Stúlkan sé skýr um að vilja ekki umgengni við kæranda. Fósturforeldrar séu afar hlynnt áliti H hjá I og sé það einnig þeirra mat að umgengni, ef einhver sé, verði í lágmarki vegna þeirra áhrifa sem hún hafi á drenginn og allra síst núna þar sem loks sé hafin áfallameðferð, þar sem árangur hennar fari aftur á byrjunarreit ef samskipti/umgengni verði á næstu mánuðum. Drengurinn sé nú að ná góðum árangri og hafi verið afar lengi að ná lendingu eftir síðustu umgengni. Taugar verið vægast sagt þandar í langan tíma á eftir umgengni og megi drengurinn ekki við frekara raski að svo stöddu.
Fósturforeldrar vísa til fyrri umsagnar sinnar um umgengni barnanna við kæranda sem fjallað sé vel um í skýrslu barnaverndarþjónustunnar frá 19. júní 2024.
VII. Niðurstaða
Stúlkan, E er X ára gömul og drengurinn F er X ára gamall. Þau eru í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Kærandi er faðir barnanna.
Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að börnin hefðu enga umgengni við kæranda.
Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kemur fram að samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu telji umdæmisráð að það sé börnunum ekki til hagsbóta að vera í umgengni við föður. Við það mat hafi vegið þungt að stúlkan hafi verið mjög skýr í afstöðu sinni að vilja ekki neina umgengni við föður. Afstaða drengsins sé í þá átt að hann vilji að umgengni sé verulega takmörkuð. Þá hafi fyrri umgengni hans við föður greinilega haft neikvæð áhrif á líðan drengsins auk þess sem sálfræðingur hans hafi lagt til að engin umgengni fari fram milli drengsins og föður meðan unnið sé með líðan hans.
Kærandi, sem er faðir barnanna, krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að fallist verði á að hann hafi umgengni við börnin.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengninnar.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem séu barni fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til núverandi stöðu barnanna. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um hvort umgengni þeirra við kæranda þjóni best hagsmunum þeirra, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til núverandi stöðu þeirra. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera þeim til hagsbóta svo og við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu sem best hentar þörfum þeirra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarþjónusta sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. er það meginregla að þegar ákvarðanir eru teknar í máli barns skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
Í málinu liggur fyrir afstaða barnanna til umgengni við kæranda. Afstaða stúlkunnar er skýr og vill hún ekki eiga umgengni við kæranda. Afstaða drengsins sé að eiga takmarkaða umgengni við kæranda. Þá liggur afstaða fósturforeldra fyrir og eru þau alfarið andvíg umgengni stúlkunnar við kæranda og telja að umgengni drengsins við kæranda sé honum ekki til hagsbóta að svo stöddu.
Samkvæmt gögnum málsins er það mat starfsmanna B að það sé ekki börnunum til hagsbóta að eiga umgengni við kæranda. Umdæmisráð C tekur undir mat barnaverndarþjónustunnar um að engin umgengni falli vel að þeim hagsmunum barnanna sem um ræðir í málinu.
Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til hagsmuna barnanna að hafa umgengni við kæranda. Í þeim tilfellum sem umgengni er talin bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum baranna og ósamrýmaleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur, skal ekki vera umgengni.
Úrskurðarnefndin telur það ekki vera til hagsbóta fyrir stúlkuna og bersýnilega andstætt hennar hagsmunum og þörfum að hún eigi umgengni kæranda. Afstaða hennar til umgengni við kæranda er skýr og ber að taka réttmætt tillit til hennar skoðana hennar í samræmi við aldur hennar og þroska, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl.
Hvað varðar umgengni kæranda við drenginn telur úrskurðarnefndin einnig að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum hans að eiga umgengni við kæranda að svo stöddu. Vísar úrskurðarnefndin þessu til stuðnings m.a. til greinargerðar H, sálfræðings, þar sem fram kemur að drengurinn sé með áfallastreitueinkenni sem rekja megi til þeirra atvika sem hann upplifði þegar hann var í umsjá blóðforeldra sinna. Það sé mat H að beðið verði með umgengni drengsins við kæranda þar til meðferð hjá sálfræðingi verði lokið þar sem talið sé að umgengni muni hafa alvarleg neikvæð áhrif á drenginn, auka alvarleika áfallaeinkenna og þar með hafa slæm áhrif á meðferðarvinnuna og lengt bataferlið að óþörfu. Úrskurðarnefndin telur að niðurstaða þeirra meðferðar muni hafa afgerandi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar verða fyrir drenginn í framtíðinni varðandi umgengni við kæranda.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður umdæmisráðs C frá 17. september 2024 varðandi umgengni E og F, við A, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson