Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 45/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 45/2018

Þriðjudaginn 20. mars 2018

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. febrúar 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 11. desember 2017 þar sem kveðið er á um að kærandi hafi enga umgengni við dóttur sína, C. Taka á umgengnismálið aftur fyrir að ári liðnu samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með úrskurði 11. desember 2017 ákvað Barnaverndarnefnd B að kærandi hefði ekki umgengni við X ára gamla dóttur sína, C. Málið yrði tekið aftur upp að ári liðnu. Í úrskurðinum kemur fram að stúlkan sé í varanlegu fóstri. Mál hennar hafi verið til vinnslu hjá barnavernd frá árinu X og hún hafi verið í umsjá núverandi fósturforeldra frá því í X.

Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms [...]í X 2013 og staðfesti Hæstiréttur þann dóm X 2013 X. Í upphafi fósturs var umgengni kæranda við stúlkuna aðra hvora helgi frá kl. 19:00 á föstudegi til kl. 16:00 á sunnudegi. Árið 2014 var umgengni minnkuð niður í einn laugardag í mánuði. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi ekki alltaf virt úrskurði barnaverndarnefndar um umgengni, til dæmis hafi hún sótt stúlkuna úr skóla nánast daglega. Í lok X 2017 neitaði stúlkan að eiga umgengni við kæranda og hefur ekki verið nein umgengni frá þeim tíma. Haustið 2017 hafi kærandi reynt að nálgast stúlkuna á ýmsum stöðum í bænum og áreitt fósturfjölskylduna. Lögreglan hafi haft afskipti af kæranda vegna þessara mála.

Í úrskurðinum segir einnig að samkvæmt skýrslu talsmanns stúlkunnar vilji hún loka á alla umgengni við kæranda en að það verði endurskoðað að ári liðnu. Vilji stúlkunnar standi til þess að hún fái tíma til að ná áttum og einnig að kærandi fái tíma til að vinna í sínum málum. Stúlkunni finnist of mikið af óvissuþáttum í kringum kæranda að svo stöddu. Hún hafi ekki hitt kæranda síðan X 2017X og finnist að minnkuð samskipti við kæranda hafi bæði haft jákvæð áhrif á hana sjálfa og öll samskipti hennar við aðra.

Það hafi verið niðurstaða barnaverndarnefndar að leysa bæri úr málinu í samræmi við 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) um að tekið skuli mið af því hvað þjónaði hagsmunum barnsins best. Ekki væri talið þjóna hagsmunum stúlkunnar að umgengni færi fram að svo stöddu og gefa þyrfti stúlkunni svigrúm til að vinna með eigin líðan.

Þann 12. febrúar 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi fer fram á að kæran sé tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún hafi borist að liðnum kærufresti. Að sögn kæranda hafi hún ekki fengið þau gögn málsins sem séu í vörslum barnaverndaryfirvalda. Þessi gögn sýni að landslög, stjórnarskrá og alþjóðasáttmálar, sem Ísland sé aðili að, séu hunsuð. Hún sé búin að fá nóg af því að opinberir starfsmenn sýni valdníðslu og hunsi lög. Kærandi hafi krafist þess fyrir barnaverndarnefndinni að fá meiri tíma til þess að sýna fram á þessa svívirðilegu vanvirðingu en því hafi ekki verið svarað.

Samkvæmt gögnum málsins var úrskurður Barnaverndarnefndar B afhentur kæranda 15. desember 2017. Í úrskurðinum kemur skýrlega fram að honum sé hægt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurðinn. Í tilviki kæranda rann kærufrestur út 12. janúar 2018.

Eins og fyrr segir barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins 12. febrúar 2018 eða mánuði eftir að kærufrestur rann út. Með bréfi 20. febrúar 2018 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hefði ekki borist innan kærufrests. Svar barst frá kæranda 6. mars 2018. Þar kemur fram að kærandi telji að taka eigi málið til meðferðar.

Kærandi vísar í fyrsta lagi til 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram komi að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Kærandi telji að henni verði ekki kennt um þann drátt sem orðið hafi á að kæra málið. Kærandi hafi tafarlaust leitað til E lögmanns vegna þess að hún hugðist kæra úrskurðinn. Málið hafi tafist þar sem kæranda hafi ekki tekist að ná í lögmanninn, meðal annars vegna anna hans og utanlandsferða. Kærandi telji sig ekki eiga að líða fyrir þann drátt sem orðið hafi á málinu á meðan hún hafi reynt að hafa samband við lögmann sinn, enda verði henni ekki um það kennt. Kærandi hafi reynt allt sem í hennar valdi hafi staðið til þess að koma kæru á framfæri við fyrsta tækifæri. Þegar hún hafi ekki náð sambandi við E lögmann hafi kærandi ákveðið að kæra úrskurðinn sjálf og fundið sér í framhaldi nýjan lögmann til þess að gæta hagsmuna sinna.

Kærandi hafi talið að kærufrestur væri átta vikur en ekki fjórar vikur. Þá hafi kærandi ekki áttað sig á þýðingu kærufrests. Hafi hún því verið í afsakanlegri villu um lengd og réttaráhrif kærufrestsins. Þá telji kærandi að þrátt fyrir að hafa kært málið eftir að kærufrestur hafi verið liðinn hafi ekki verið um óhóflegan drátt að ræða. Einungis um mánuður hafi verið liðinn frá því að hinn lögboðni frestur rann út þegar kærandi kærði úrskurðinn.

Kærandi leggi fram vottorð geðlæknis síns sem staðfesti að afsakanlegt teljist að hún hafi kært of seint. Hún hafi glímt við erfið veikindi, þar á meðal endurteknar sýkingar sem hafi valdið því að hún hafi ekki haft burði til að sinna persónulegum málum og verið óvinnufær á því tímabili sem úrskurðurinn hafi verið kæranlegur.

Í öðru lagi vísi kærandi til 2. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram komi að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Við mat æðra stjórnvalds á því hvort „veigamiklar ástæður“ í skilningi ákvæðisins leiði til þess að kæra verði tekin til meðferðar þó að hún berist að liðnum kærufresti, verði í samræmi við orðalag ákvæðisins að líta til þess hversu mikla hagsmuni kærandi hafi af úrlausn málsins. Í máli þessu sé um að ræða úrskurð sem feli í sér verulega íþyngjandi ákvörðun til langs tíma, eða eins árs, um takmörkun á grundvallarréttindum kæranda. Kærandi telji að það leiði af eðli þeirra hagsmuna sem séu í húfi að brýnt sé að úrskurðarnefndin taki málið til skoðunar. Hinn kærði úrskurður feli í sér að kærandi hafi enga umgengni við dóttur sína í eitt ár og það geti valdið bæði kæranda og dóttur hennar verulegum skaða.

Kærandi minni á þau almennu rök sem búi að baki því að setja í lög ákveðna kærufresti á ákvörðunum stjórnvalda. Í athugasemdum við 27. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum komi fram að slíkir frestir séu settir til þess að skapa festu í stjórnsýsluframkvæmd og til þess að koma í veg fyrir að verið sé að kæra gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa. Á hinn bóginn gildi einnig sú grundvallarregla að á stjórnsýslunni hvíli skylda til þess að afgreiða mál í samræmi við lög þannig að borgararnir fái notið þess efnislega réttar sem þeim sé tryggður í lögum. Vernd og mikilvægi þessara réttinda fyrir borgarana geti verið mismunandi og þar geti til dæmis skipt máli hvort og hvaða afstaða sé tekin til þeirra í stjórnarskrá. Kærandi vísi í þessu sambandi til þess að umgengnisréttur hennar við dóttur sína teljist til grundvallarmannréttinda sem varin séu víða í lögum, stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum, þar með talið Mannréttindasáttmála Evrópu.

Það sé meginregla barnalaga og laga um vernd barna og ungmenna að foreldri eigi rétt til umgengni við börn sín og að sá réttur sé óháður því hvort foreldri fari með forsjá barns eða hvar barn dveljist. Þessi réttur njóti verndar alþjóðlegra mannréttindasáttmála en umgengnisréttur foreldris sé varinn af 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994. Einnig sé umgengnisréttur varinn af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem mæli fyrir um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þessi réttur sé einnig tryggður í barnasáttmálanum sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 18/1992 en í 3. mgr. 9. gr. sáttmálans sé mælt fyrir um að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri með reglubundnum hætti. Loks séu þessi réttindi lögfest í 2. mgr. 74. gr. bvl. en þar komi fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri.

Kærandi vísi til athugasemda við 28. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum. Þar komi fram að líta þurfi til þess hvort aðilar að máli séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni þegar meta skuli hvort taka eigi mál til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn. Í þeim tilvikum sé rétt að taka einungis mál til kærumeðferðar í algjörum undantekningartilvikum en ef aðili er aðeins einn, verði mál frekar tekið til meðferðar. Þegar rætt sé um aðila í þessu sambandi sé ekki vísað til stjórnvalds sem tekið hafi hina kæru ákvörðun.

Í máli þessu séu aðilar þess annars vegar barnaverndaryfirvöld og hins vegar kærandi og dóttir hennar. Kærandi telji að sameiginlegir hagsmunir sínir og dóttur sinnar séu þess eðlis að brýnt sé að úr málinu verði leyst þar sem þær hafi báðar lögvarinn rétt til umgengni. Kærandi telji þá afstöðu dóttur sinnar, sem lögð hafi verið til grundvallar í hinum kærða úrskurði, ekki endurspegla raunverulegan vilja dótturinnar. Skýrsla talsmanns hafi ekki verið unnin með fullnægjandi hætti og því ekki hægt að leggja hana til grundvallar á vilja dóttur kæranda. Aðild að málinu leiði einnig til þess að taka eigi málið til umfjöllunar þrátt fyrir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Umboðsmaður Alþingis hafi í áliti sínu 5. júní 2009, í máli nr. 5471/2008, talið að í ljósi þeirra ríku réttaröryggissjónarmiða sem búi að baki lagaákvæðum sem tryggja eigi aðila stjórnsýslumáls rétt til að leita endurskoðunar á stjórnvaldsákvörðun, væri ljóst að við slíkt mat ætti að líta til þess hvort verulegir form- eða efnisannmarkar væru á málsmeðferð hins lægra setta stjórnvalds.

Kærandi telji að ýmislegt hafi verið athugavert við málsmeðferð barnaverndaryfirvalda og það renni enn styrkari stoðum undir að taka eigi kæru hennar til umfjöllunar. Kærandi telji að leyst hafi verið úr málinu á röngum forsendum og að efnisannmarkar séu á meðferð málsins fyrir hinu lægra stjórnvaldi. Það leiði til þess að taka beri kæru hennar til umfjöllunar þrátt fyrir að hún hafi borist að liðnum kærufresti.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B var afhentur kæranda 15. desember 2017. Kæran barst úrskurðarnefndinni 12. febrúar 2018. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða 15. desember 2017 og honum lauk 12. janúar 2018. Þegar úrskurðarnefndinni barst kæran voru liðnar ríflega fjórar vikur fram yfir kærufrest.

Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur kærandi gefið þær skýringar að hún hafi ekki náð sambandi við lögmann sinn, glímt við erfið veikindi, að hún hafi ekki áttað sig á þýðingu kærufrests eða réttaráhrifum hans og að hún telji drátt á framlagningu kæru ekki hafa verið óhóflegan.

Kærandi hefur lagt fram vottorð geðlæknis sem hún telur staðfesta að afsakanlegt teljist að hún hafi kært of seint. Í vottorðinu segir að kærandi „glímdi við erfið veikindi m.a. endurteknar sýkingar, sem gerðu að verkum að hún hafði ekki burði til að sinna sínum málum og var óvinnufær frá 15.12.2017 til 15.1.2018.“ Að mati úrskurðarnefndarinnar staðfestir umrætt vottorð ekki að kærandi hafi verið ófær um að virða kærufrestinn vegna þeirra veikinda sem hún hafi átt við að stríða, enda ekki viðurhlutamikið að leggja fram kæru með afar einföldum hætti svo sem tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ofangreindar skýringar kæranda haldlausar. Í úrskurði Barnaverndarnefndar B var sérstaklega vísað til 51. gr. bvl. þar sem fram kemur að skjóta megi úrskurði til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurðinn. Samkvæmt þessu getur kærandi hvorki haldið því fram að hún sé í villu um kærufrest. Þá getur dráttur á að ná til ákveðins lögmanns ekki eitt og sér komið í veg fyrir að kærandi leggi fram kæru í stjórnsýslumáli.

Þá telur kærandi að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar og vísar í því sambandi til 2. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Röksemdir kæranda varða tiltekin efnisatriði málsins og aðild en hún telur meðal annars að leyst hafi verið úr því á röngum forsendum. Þannig hafi mæðgurnar báðar lögvarðan rétt til umgengni en kærandi telji þá afstöðu dóttir sinnar, sem lögð hafi verið til grundvallar í hinum kærða úrskurði, ekki endurspegla raunverulegan vilja dótturinnar.

Við úrlausn málsins verður ekki hjá því komist að líta til þess hverjir eru hagsmunir stúlkunnar en í barnaverndarstarfi gildir sú meginregla að ef hagsmunir barns og foreldris fara ekki saman skuli hagsmunir foreldris víkja. Samkvæmt gögnum málsins er vilji stúlkunnar skýr og hann ber að virða. Einnig verður að líta til þess að fósturforeldrarnir eru aðilar að kærumálinu, sbr. 2. mgr. 74. gr. a bvl. Stúlkunnar og fósturforeldranna vegna er brýnt að ekki verði óþarfa tafir á því að ákvarða hvernig haga skuli umgengni. Óvissa er til þess fallin að skapa óróleika og truflun á fóstrinu, en því lengur sem óvissan varir því meiri verður truflunin. Þetta skiptir verulegu máli þegar leyst er úr því hvort veigamikilar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar við þær aðstæður sem hér eru fyrir hendi. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir ofangreint til þess að ekki verður talið að hér sé uppfyllt það skilyrði lagaákvæðisins að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún barst ekki fyrr en að liðnum kærufresti.

Þá verður ekki séð af hinum kærða úrskurði eða öðrum gögnum málsins að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum af hálfu barnaverndarnefndarinnar eða starfsmanna hennar.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan hafa engar haldbærar skýringar komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A á úrskurði Barnaverndarnefndar B 11. desember 2017 þar sem ákveðið var að umgengni hennar við dóttur sína, C, yrði engin en málið yrði aftur tekið upp að ári liðnu, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta