Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 304/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 304/2021

Mánudaginn 13. september 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 21. júní 2021, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. júní 2021 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D, og son sinn, E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi afsalaði sér forsjá þeirra með dómsátt þann 5. febrúar 2018. Faðir hefur aldrei farið með forsjá barnanna. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 1. júní 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 27. maí 2021. Starfsmenn lögðu til að umgengni skyldi vera þrisvar sinnum á ári. Kærandi var ekki samþykk tillögum starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 10. júní 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D og E, hafi umgengni við móður sína, A, þrisvar sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram á F í janúar og september og í Bí maí ár hvert. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila.

Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 23. júní 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 16. júlí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni veitt umgengni við börn sín í samræmi við kröfur hennar fyrir nefndinni. Kröfur hennar séu þær að henni verði veitt umgengni við börnin sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags, á heimili sínu. Þá fer kærandi fram á það að börnin verði hjá henni í mánuð yfir sumartímann, auk jóla- og páskaumgengni sem einnig fari fram á heimili hennar. Enn fremur krefst kærandi þess að afstaða barnanna til reglulegrar umgengni verði könnuð eftir að aðlögun með nánar tilgreindum hætti hafi farið fram.

Fram kemur í kæru að málið hafi verið tekið fyrir vegna kröfu kæranda um eðlilega umgengni við börn sín sem séu í fóstri en kærandi hafi verið þvinguð til að afsala sér forsjá þeirra með dómsátt þann 5. febrúar 2018. Umgengniskröfunni hafi fylgt ítarleg greinargerð þar sem skýrðar séu forsendur kæranda fyrir kröfunni og vísað til íslenskra laga, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé enga umfjöllun að finna um rök kæranda fyrir kröfunni heldur sé látið við það sitja að nefna þau, án þess að þeim sé í nokkru svarað. Kærandi gerir eftirfarandi athugasemdir við úrskurð barnaverndarnefndar. Ekkert sé fjallað um þá staðreynd að grundvallarforsendan fyrir dómsátt þeirri, sem gerð hafi verið hinn 5. febrúar 2018, sé brostin en það hafi verið skilyrði kæranda fyrir dómsáttinni að hún hefði ríkulega umgengni við bæði börnin. Þá sé ekkert fjallað um það í hinum kærða úrskurði hvernig litið sé á „ríkulega umgengni“ í samfélaginu, stjórnsýslunni og fyrir dómstólum. Ekkert sé fjallað um ástæður og afleiðingar þess að börnin hafi eftir allan þann tíma svo veik tengsl við fósturforeldrana að þau tengsl þoli ekki eðlilega umgengni þeirra við móður sína og fjölskyldu hennar. Þá sé ekki heldur fjallað um þau rök kæranda að sú forsenda Barnaverndarnefndar B að umgengni barna í fóstri við foreldra sína þjóni aðeins því markmiði að barnið þekki uppruna sinn, standist ekki alþjóðlega mannréttindalöggjöf. Í greinargerð kæranda til barnaverndarnefndar séu reifuð lagarök fyrir því að framkvæmd íslenskra barnaverndaryfirvalda sé að þessu leyti lögleysa en Barnaverndarnefnd B skauti fram hjá þeirri umfjöllun og fullyrði að umgengni í þrjú skipti á ári standist skýrar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, án þess að slíkt geti með nokkru móti staðist. Þá sé hvergi í úrskurðinum vikið að umfjöllun í greinargerð kæranda um túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem ítarlega sé reifuð í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, meðal annars í þeim dómum sem vísað sé til í greinargerð kæranda. Enn fremur líti barnaverndarnefnd fram hjá ábendingum kæranda um að börnin hafi ekki raunhæfar forsendur til að taka afstöðu til ríkrar umgengni á meðan hún sé nánast engin. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sé nauðsynlegt að skoða á hverju vilji barnsins byggist og verði meðal annars að kanna vilja barnsins við hlutlausar aðstæður, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Ignaccolo-Zenide gegn Rúmeníu. Þá vilji kærandi benda á að enda þótt börnin hafi lýst vilja sínum til að auka umgengni í fjögur skipti árlega, telji barnaverndarnefnd að með því að hafa umgengni þrisvar á ári sé „vilja barnanna mætt“. Að mati kæranda sé svo vitaskuld ekki heldur sé vilja fósturforeldranna mætt að fullu. Yfirlýstur vilji barnanna byggist hvorki á reynslu af ríkulegri umgengni né verði séð að þeim hafi verið kynntur sá möguleiki að hafa ríkulegri umgengni við foreldri. Vilji kæranda sé virtur að vettugi. 

Kærandi vísar til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar en tilgangur reglunnar sé sá að afla nægilegra upplýsinga til þess að hægt sé að taka sem besta ákvörðun í máli. Sú regla þjóni ekki tilgangi sínum ef stjórnvöld vísi aðeins til raka aðila fyrir kröfum sínum, án þess skoða þau af alvöru og án þess að taka nokkra afstöðu til þeirra. Verði ekki séð að nefndin hafi skoðað rök kæranda í málinu, kynnt sér löggjöfina, dómaframkvæmdina eða þau meginsjónarmið sem liggji að baki rétti barna og foreldra til að halda tengslum og umgangast reglulega, hafi þau verið aðskilin.

Ljóst sé að samkvæmt alþjóðalögum eigi börn í fóstri sama rétt til umgengni við foreldra sína og svokölluð “skilnaðarbörn”. Oftar en ekki dvelji börn fráskilinna foreldra hjá forsjárlausu foreldri aðra hvora helgi, auk þess að njóta aukinnar umgengni um hátíðir og í sumarfríi. Meginregluna um tengsla- og umgengnisrétt barna sem hafi verið skilin frá foreldrum sínum sé að finna í 3. mgr. 9. gr. barnasáttmálans sem hljóði svo:

„Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“

Þá hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gefið það út að “það sem barni er fyrir bestu” hafi sömu merkingu hvort heldur sem börn hafi verið skilin frá foreldrum sínum vegna sambúðarslita eða fyrir milligöngu ríkisins. Þá gildi allar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um öll börn, án aðgreiningar, og 9. gr. sáttmálans gildi jöfnum höndum um börn í fóstri sem og önnur börn, óháð þeim ástæðum sem liggi að baki aðskilnaðinum á milli foreldris og barns. Enda væri það ótækt að mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra eða foreldra. 

Lögin séu skýr, það séu einfaldlega mannréttindi barna kæranda að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við kæranda með reglubundnum hætti. Spurningin sé ekki hvort þau eigi að njóta þess réttar heldur hvernig skuli standa að því að koma á löglegu ástandi. Í úrskurði barnaverndarnefndar sé fallist á að 9. gr. Barnasáttmálans eigi við um börn í varanlegu fóstri. Á því sé hins vegar byggt að túlkun nefndarinnar um að umgengni þrisvar á ári teljist fullnægja skilyrðum 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, standist ekki.

Í fyrsta lagi standist það ekki túlkun samkvæmt orðanna hljóðan, það er “Persónuleg tengsl, beint samband með reglubundnum hætti”. Á því sé byggt að þrjú skipti á ári fyrir ung börn þar sem tíminn líði hægt, geti ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan.

Í öðru lagi fari yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með umgengni, það er að viðhalda hvorki tengslum né styrkja þau, heldur aðeins að börn “þekki uppruna sinn”, gegn yfirlýstu markmiði ákvæðis 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem sé einmitt það að barn viðhaldi persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt. Slíkum persónulegum tengslum og beinu sambandi verði ekki viðhaldið nema samskipti séu regluleg, sbr. orðalagið ,,með reglubundnum hætti”.

Þessu til stuðnings nefnir kærandi álit umboðsmanns barna, dags. 25. mars 2014, þar sem fram komi hvaða reglur Barnasáttmálans, Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár gilda um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt og að sömu reglur gildi um öll börn sem hafi verið aðskilin frá foreldri, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í áliti umboðsmanns barna sé vísað til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttamálans, 71. gr. stjórnarskrárinnar, auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkun á þeim sé eftirfarandi:

,,Af fyrrnefndum ákvæðum er ljóst að umgengni barns við foreldri verður að vera regluleg, þannig að barn nái annaðhvort að viðhalda þeim tengslum sem til staðar eru eða tengsl nái að myndast. Ennfremur þarf að sjálfsögðu að tryggja öllum börnum sama rétt, án mismununar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 65. gr. Stjórnarskrárinnar… óheimilt er að mismuna börnum eftir stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra… Réttur barns er sá sami óháð því hvort að barn búi hjá öðru foreldri eða fósturforeldrum.”

Túlkun umboðsmanns barna sé í samræmi við túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu og barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á ákvæðum Barnasáttmálans. Túlkun Barnaverndarnefndar B eigi sér hins vegar hvorki stoð í lögskýringargögnum né í orðanna hljóðan ákvæðisins. Réttur fósturbarna til umgengni við foreldri sitt sé ekki minni en réttur skilnaðarbarna, sá réttur sé hinn sami. Það þýði þó ekki sjálfkrafa að umgengni eigi að vera svona eða hinsegin, heldur þurfi ávallt að meta hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 4. gr. nr. 80/2002 barnaverndarlaga., 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, auk 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga og athugasemdir í greinargerð sem skýri ákvæðið sé í fullu samræmi við framangreindar skýringar umboðsmanns barna. Það sé hins vegar túlkun barnaverndaryfirvalda og úrskurðarnefndarinnar á ákvæði 74. gr. sem gangi í berhögg við umrædd ákvæði Barnasáttmálans, Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár. Bent sé á að í athugasemdum með 74. gr. barnaverndarlaga segi að ákvæðið byggi á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland hafi fullgilt. Þar segi enn fremur ,,ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins”. Ekkert slíkt sé fyrir hendi í því máli sem nú sæti kæru. Þvert á móti sé kærandi edrú og í langtímabata, umgengni hafi ávallt gengið mjög vel og börnin notið þess að fara í umgengni og vilji meiri umgengni. Kærandi telji ljóst að ef sá möguleiki hefði verið nefndur við börnin að hafa enn meiri umgengni, hefðu þau viljað það. Þá hafi alltaf legið ljóst fyrir að afsal forsjár hafi verið gert með því skilyrði að umgengni yrði ríkuleg og á þeim forsendum að kærandi hygðist ávallt höfða mál til að fá forsjána til baka. Þau sjónarmið hljóti að koma til skoðunar þegar umgengni sé ákvörðuð.

Kærandi tekur fram að óheimilt sé að hafa vélræna nálgun þar sem alltaf sama umgengnin sé ákvörðuð fyrir fósturbörn á þeim eina grunni að markmið fóstursins sé að aðlagast fósturfjölskyldu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu komi miklu fleiri sjónarmið til skoðunar og allt önnur þegar lagt sé mat á hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni. Kærandi vísar í „General Comment no. 14“ frá barnaréttarnefnd Sameinuðu Þjóðanna sem lögskýringargögn sem Mannréttindadómstóll Evrópu leggi til grundvallar þegar hann dæmi í málum sem varði rétt barna á grundvelli 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi bendir á að ekkert raunverulegt mat á því hvað teljist vera börnunum fyrir bestu þegar komi að umgengnisrétti þeirra, hafi farið fram í þessu máli. Að mati kæranda virðist vera byggt á einhvers konar venju um að umgengni í fóstri eigi að vera tvö til þrjú skipti á ári, óháð öllu öðru. Byggi sú venja ekki á neinum lagarökum heldur fari þvert á móti gegn lögum, mannréttindum og stjórnarskrá. Þá gangi yfirlýst markmið Barnaverndarnefndar B með slíkri umgengni enn fremur gegn markmiði þeirra mannréttindasáttmála sem um umgengnina gildi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða systkinin E á X ári og D X ára. Börnin lúti forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi hafi afsalað sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Faðir barnanna hafi aldrei farið með forsjá barnanna. Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið í máli barnanna frá því í byrjun árs 2013. Börnin hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á G frá mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafi aðlagast vel á fósturheimilinu í G og eigi börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína.

Tvisvar hafi verið úrskurðað í málefni barnanna vegna umgengni við kæranda. Þann 2. maí 2018 hafi verið úrskurðað um umgengni tvisvar á ári undir eftirliti og þann 24. september 2019 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað að umgengni yrði aukin úr tveimur klukkustundum í þrjár klukkustundir, tvisvar á ári.

Í bréfi lögmanns kæranda, dags. 11. maí 2021, hafi verið óskað eftir því að umgengni kæranda við börnin yrði breytt á þann veg að börnin myndu dvelja á heimili kæranda aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags. Einnig hafi verið óskað eftir jóla- og áramótaumgengni og páskaumgengni. Kærandi hafi einnig óskað eftir að börnin myndu dvelja hjá henni í mánuð á hverju sumri.

Báðum börnunum hafi verið skipaður talsmaður til þess að afla afstöðu þeirra vegna beiðni um aukna umgengni við kæranda. Í talsmannskýrslu, dags. 10. mars 2021, hafi komið fram að báðum börnunum hafi þótt fyrirkomulagið vegna umgengni gott en gaman væri að hitta kæranda oftar og nefndu þau bæði „kannski fjórum sinnum á ári“. Þau hafi bæði greint frá því að þau hafi viljað hafa óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri „í húsinu í B með fólkinu sem er að passa allt“. Talsmaður hafi spurt börnin hvort að þau myndu vilja vera ein með kæranda og hafi þau svarað “þetta er bara mjög gott svona eins og það er“.

Aflað hafi verið afstöðu fósturforeldra til kröfu kæranda um aukna umgengni og hafi fósturforeldrar greint frá því að börnin hafi viljað hitta kæranda oftar, eða fjórum sinnum á ári, og að umgengnin færi þá áfram fram undir eftirliti. Fósturforeldrar hafi óskað eftir því að umgengnin yrði aukin um eitt skipti á ári.

Börnin hafi nú búið á fósturheimilinu þar sem þau séu í dag frá byrjun árs 2017 og hafi börnin myndað sterk og innihaldsrík tengsl við fósturforeldra sína. Það komi fram hjá fósturforeldrum að börnin upplifi sig sem hluta af samfélaginu á G og séu hluti af stórfjölskyldu fósturforeldra. Í dag búi börnin við mikinn stöðugleika, séu í góðu jafnvægi og hafi tekið miklum framförum. Fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið þeim erfið. D hafi glímt við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti. Þá hafi bæði börnin glímt við mikla innri streitu vegna vanrækslu og áfalla sem hafi birtst í hegðun þeirra, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og vanda til að mynda og viðhalda tengslum eftir að hafa verið tekin úr streituvaldandi aðstæðum og óöryggi. Bæði börnin hafi á einlægan hátt unnið mikið með áföll sín og tilfinningar og verið opinská um þau við fósturforeldra sína og sálfræðinga. Fyrstu tvö árin á fósturheimilinu hafi bæði börnin haft mikla þörf fyrir öryggi, stöðugleika og traust til að ná jafnvægi og minnka innri streitu og aðlagast nýju heimili og umhverfi.

Það jafnvægi sem ríki í lífi barnanna í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum og þeim fagaðilum sem börnin hafi notið aðstoðar frá en börnin séu bæði í mánaðarlegum sálfræðiviðtölum. Fósturforeldrar haldi vel utan um þeirra mál og ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á í líf barnanna. Það sé því mat starfsmanna barnaverndar, út frá gögnum málsins, að ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á í lífi barnanna og af þeim sökum sé mikilvægt að fara varlega í allar breytingar á þeirra högum.

Starfsmenn barnaverndar taki undir mat fósturforeldranna um að auka umgengni um eitt skipti á ári en þannig sé vilja barnanna mætt og komið til móts við beiðni kæranda um aukna umgengni en samkvæmt 74. gr. a. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli taka tillit til afstöðu fósturforeldra þegar umgengni sé ákvörðuð í varanlegu fóstri.

Að mati Barnaverndarnefndar B séu kröfur kæranda um aukna umgengni ekki í samræmi við markmið varanlegs fósturs og sú umgengni sem kærandi fari fram á sé ekki til þess fallin að búa börnunum öryggi og stöðugleika í lífi þeirra, heldur þvert á móti sé hætta á að svo umfangsmikil umgengni geti raskað þeirri ró sem hafi skapast í lífi barnanna.

Það sé ekki stefnt að því að börnin fari aftur í umsjá kæranda, heldur stefnt að því að þau alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Umgengni þurfi því að ákvarðast í samræmi við hagsmuni og þarfir barnanna, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í athugasemdum við 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, komi fram að umgengni í varanlegu fóstri kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega:

Markmið fósturs er þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki og sterk rök þurfa að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.“

Markmið fóstursins sé í þeim tilfellum að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Fram hafi komið að kærandi hafi tekið sig á en að mati starfsmanna barnaverndar skipti það ekki öllu máli í þessu samhengi heldur verði að horfa til þess að það mæti hagsmunum barnanna sem séu nú í varanlegu fóstri.

Í barnaverndarstarfi gildi sú meginregla að ef hagsmunir barns og foreldris fari ekki saman skuli hagsmunir foreldris víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með úrskurði nefndarinnar þann 10. júní 2021 sé fyrst og fremst horft til hagsmuna barnanna. Eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fjallað um í málum sínum séu það lögvarin réttindi barna að þau búi við stöðugleika, frið og ró í varanlegu fóstri, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldrum sínum áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 201/2020 þar sem fjallað sé um umgengni kynforeldris við barn sem vistað sé í varanlegu fóstri, hafi verið tekið fram í niðurstöðu að með umgengni kynforeldris við barnið sé ekki verið að reyna að styrkja tengsl á milli kynforeldris og barns heldur að viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi geri Barnaverndarnefnd B kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barna

Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 10. mars 2021. Í skýrslu talsmanns kemur fram að börnunum líði vel að hitta kæranda og einnig eftir að hafa hitt hana. Börnin töluðu um að fyrirkomulag umgengni væri gott, að heimsóknir væru þrisvar á ári og þegar þau hittust væru þau að spjalla saman, færu stundum í göngutúr og einu sinni hafi þau farið á bókasafnið. Börnin greindu bæði frá því að það væri gaman að hitta kæranda oftar og aðspurð um hve oft nefndu þau bæði kannski fjórum sinnum á ári. Bæði greindu þau frá því að vilja óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri í húsinu í B með fólkinu sem er að passa allt. Aðspurð hvort þau myndu vilja vera ein með kæranda sögðu þau að fyrirkomulagið væri gott eins og það væri. Þegar börnin voru spurð um frekari afstöðu þeirra gagnvart umgengni höfðu þau ekki frá fleiru að segja.

 

 

V.  Sjónarmið fósturforeldra

Fram kemur í gögnum málsins að það væri vilji fósturforeldra að börnin myndu hitta móður sína oftar, eða fjórum sinnum á ári, og að umgengni færi fram undir eftirliti.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul stúlka og drengurinn E er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B en kærandi afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Faðir barnanna hefur aldrei farið með forsjá barnanna. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Með hinum kærða úrskurði frá 10. júní 2021 var ákveðið að umgengni barnanna við kæranda yrði þrisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Umgengnin verði undir eftirliti og fari fram á Akureyri í janúar og september og í B í maí ár hvert. Skilyrði umgengni er að kærandi sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að afskipti á grundvelli barnaverndarlaga hafi verið í máli barnanna frá því í byrjun árs 2013. Kærandi hafi farið ein með forsjá barnanna fram til 6. febrúar 2018 þegar hún afsalaði sér forsjánni með dómsátt. Börnin hafa verið í fóstri hjá fósturforeldrum frá því í lok mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og svo í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafa aðlagast vel á fósturheimilinu og eiga börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína. Barnaverndarnefnd hefur tvívegis úrskurðað um umgengni móður við börnin í varanlegu fóstri, fyrst þann 2. maí 2018 og síðar þann 24. september 2019. Móðir var í neyslu vímuefna árið 2019 og lauk vímuefnameðferð á haustmánuðum 2020. Hún er nú búsett í búsetuúrræðinu H áfangaheimili fyrir konur.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og henni verði veitt umgengni við börnin sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags, á heimili sínu. Þá fer kærandi fram á það að börnin verði hjá henni í mánuð yfir sumartímann, auk jóla- og páskaumgengni sem einnig fari fram á heimili hennar. Enn fremur krefst kærandi þess að afstaða barnanna til reglulegrar umgengni verði könnuð eftir að aðlögun með nánar tilgreindum hætti hefur farið fram.

Kærandi telur að Barnaverndarnefnd B hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Í málinu liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða barnanna áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þá liggur fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, afstaða kæranda og afstaða fósturforeldra. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að barnaverndarnefnd hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að börnin færu aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnanna í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þeirrra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber fyrst og fremst að líta til þess við ákvörðun um umgengni barnanna við kæranda hvað þjónar hagsmunum þeirra best. Í því sambandi ber að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í samkvæmt gögnum málsins og þess að það er ekki markmiðið að styrkja tengsl þeirra við kæranda heldur einungis að viðhalda tengslum. Að mati starfsmanna barnaverndar sé ekki langt síðan jafnvægi hafi komist á í lífi barnanna og af þeim sökum sé mikilvægt að fara varlega í allar breytingar á þeirra högum. Í málinu liggur hins vegar fyrir að börnin eru í góðu jafnvægi í fóstrinu. Þá búa börnin að sterkum tengslum við fósturforeldra og ró og friður ríkir í fóstrinu. Einnig hafa fósturforeldrar og börnin lagt til að umgengni verði aukin um eitt skipti á ári. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að slík aukning sé ekki til þess fallin að valda togsteitu í fóstrinu, miðað við núverandi aðstæður. Með vísan til framangreinds er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og vísað til nýrrar afgreiðslu barnaverndarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar Barnaverndarnefndar B að nýju.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. júní 2021 varðandi umgengni D, og E, við A, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta