Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 538/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 538/2024

Miðvikudaginn 11. desember 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 24. október 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs K frá 26. september 2024 vegna umgengni hennar við D og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og stúlkan E er X ára. Stúlkurnar eru í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum en forsjá þeirra er hjá B.

Árið 2023 var gert samkomulag við kæranda um umgengni við stúlkurnar sem gilda átti til 31. desember 2023. Samkvæmt samkomulaginu átt umgengni að vera annan hvern mánuð í eina klukkustund í senn. Umgengni gekk ekki eftir samkvæmt samkomulaginu og hittu stúlkurnar kæranda sjaldnar en gert hafði verið ráð fyrir. Í lok árs 2023 var rætt við stúlkurnar um fyrirkomulag umgengi. Báðar stúlkurnar lýstu því yfir að þær vildu minnka umgengni við kæranda. Málið var lagt fyrir umdæmisráð þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni. Fyrir umdæmisráði krafðist kærandi að umgengni væri eitt skipti annan hvern mánuð undir eftirliti hlutlauss aðila og á stað sem barnaverndarþjónusta ákveður. Til vara krafðist kærandi þess að umgengni væri þriðja hvern mánuð og myndsímtöl verði mánaðarlega. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

 

„Umdæmisráð ákveður að stúlkurnar D, og E, skuli eiga umgengni við kynmóður sína, A, í eitt skipti á ári, eina klukkustund í senn. Umgengni skal fara fram undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustu.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 29. október 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi 12. nóvember 2024, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. nóvember 2024, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umgengni ákveðin ein klukkustund í senn, annan hvern mánuð, undir eftirliti barnaverndarþjónustunnar og stað sem barnaverndarþjónustan ákveður. Til viðbótar er þess krafist að kærandi fái myndsímtal við börnin annan hvern mánuð. Til vara er þess krafist að umgengni verði þriðja hvern mánuð, og myndsímtal við kæranda einu sinni í mánuði.

Í kæru kemur fram að dætur kæranda séu í varanlegu fóstri á vegum B og voru áður vistaðar tímabundið utan heimilis á vegum B og F.

Í mars 2023 hafi verið gert samkomulag milli B og kæranda um umgengni við dætur hennar, en í því samkomulagi fólst að kærandi fékk umgengni við börnin í eina klukkustund í senn, annan hvern mánuð. Þá átti kærandi einnig að fá myndsímtal við dætur sínar í sömu mánuðum og umgengni átti að fara fram. Gildistími samkomulagsins var frá mars og til ársloka 2023, og hafi ekki verið samið um umgengni síðan þá.

Mál stúlknanna hafi verið tekið fyrir á tilkynninga- og meðferðarfundi þann 25. júní [2024] þar sem lagt hafi verið til að leggja greinargerð fyrir umdæmisráð, þar sem að ekki hafði náðst samkomulag um umgengni.

Barnaverndarþjónusta og lögmaður kæranda lögðu í kjölfarið fram greinargerðir fyrir umdæmisráði. Þann 26. september [2024] hafi verið kveðinn upp úrskurður þar sem fallist hafi verið á allar kröfur barnaverndarþjónustu, þ.e. að stúlkurnar skyldu eiga umgengni við kæranda sína í eitt skipti á ári, eina klukkustund í senn og undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustu. Byggði sú niðurstaða einna helst á því að „...ljóst væri að móðir þyrfti á stuðningi og ráðgjöf að halda varðandi hvernig haga beri samskiptum við dætur sínar í framtíðinni" svo vitnað sé beint í forsendur umdæmisráðs.

Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) sé kveðið á um gagnkvæman rétt foreldra og barna sem ráðstafað hafi verið í fóstur til umgengni meðan ráðstöfunin varir. Undantekning frá þeirri meginreglu sé þegar umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur, sbr. 2. mgr. 74. gr. laganna. Við mat á þessu þurfi stjórnvald að færa fram sterk rök til þess að skerða umgengni verulega, eða hafna umgengni með öllu.

Við meðferð málsins hjá umdæmisráði hafi ekki verið lögð fram nokkur gögn, hvort sem það væri frá sálfræðingum, læknum eða öðrum sérfræðingum sem sýndu fram á það með óyggjandi hætti að umgengni við kæranda væri svo bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnanna að nauðsyn þætti að skerða gagnkvæman rétt móður og barna um umgengni í fóstri. Bresti þá þegar lagaskilyrði til að skerða umgengni svo verulega eins og úrskurður umdæmisráðs kveður á.

Í hinum kærða úrskurði sé ekki um sterk rök að tefla, öllu heldur sé fallist á kröfur barnaverndar að skerða umgengni verulega, með vísan til þess hvernig umgengni hafi gengið að undanförnum úrskurði og vilja og sjónarmiða stúlknanna.

Samkvæmt 38. gr. bvl. gildi ákvæði stjórnsýslulaga um meðferð barnaverndarmála, að undantöldum frávikum sem í lögum þeim eru. Um meginreglur í barnaverndarstarfi sé kveðið á um í 4. gr. laganna, en í 7. mgr. þeirrar greinar sé kveðið á um að einungis skuli beitt vægustu úrræðum sem tæk séu til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að, og skal aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. einnig 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 40. gr. bvl., að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.

Meðalhófsregla

Sem fyrr greinir sé það meginregla í barnaverndarstarfi að meðalhófs skuli gætt, n.t.t. að miðað sé við að ávallt skuli beita vægustu ráðstöfunum sem kostur sé á, og einungis skuli gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfnunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. einnig 12. gr. stjórnsýslulaga. Vaknar því upp sú spurning hvort vægara úrræði væri tækt.

Í forsendum hins kærða úrskurðar segir að: „...ljóst væri að móðir þyrfti á stuðningi og ráðgjöf að halda varðandi hvernig haga beri samskiptum við dætur sínar í framtíðinni".

Samkvæmt framangreindu megi leiða líkur að það hafi verið ákvörðunarástæða umdæmisráðs að móðir þyrfti ráðgjöf og stuðning fagaðila til þess að haga samskiptum við dætur sínar með öðrum og heilbrigðari hætti í framtíðinni. Aukinheldur megi álykta svo af þeim ummælum umdæmisráðs að ef kærandi hefði sótt sér aðstoð fagaðila og bætt ráð sitt hefði ekki verið nauðsyn til þess að grípa til svo íþyngjandi aðgerða eins og raun bar vitni.

Ljóst sé að úrskurður umdæmisráðs K sé verulega íþyngjandi ráðstöfun í garð kæranda er kveði umræddur úrskurður um umgengni móður við börn sín í eina klukkustund á ári, og sé í andstöðu við rétt foreldra um umgengni við börn sín í fóstri, sbr.1. mgr. 74. gr. bvl., sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Kærandi hafi lýst því yfir við lögmann sinn að hún hafi fullan vilja og þrótt til að leita aðstoðar sálfræðings eða annars sérfræðings til þess að bæta sitt far svo að henni sé kleift að rækja umgengni við börn sín að meiru en eina klukkustund á ári. Í ljósi þess verði það að vekja furðu að umdæmisráð grípi til svo íþyngjandi úrræðis áður en kæranda hafi gefist kostur á að bæta ráð sitt, enda hafi hún fullan vilja til þess.

Leiðbeiningaregla

Í fræðiskrifum hafi verið talið að markmið leiðbeiningarskyldu barnaverndar- og stjórnsýslulaga og umfang leiðbeiningarskyldunnar sé að gera málsaðila kleift að gæta réttar síns og að málsaðili glati ekki rétti sínum vegna mistaka. Þá hafi því verið haldið fram að því mikilvægara sem málið sé fyrir aðila málsins - þeim mun betur verði að vanda framkvæmd á leiðbeiningarskyldunni og huga að einstaklingsbundnum þörfum aðila. Fátt sé mikilvægara fyrir móður en að rækja samband sitt við börn sín, og endurspeglast það í settum lögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, 3. mgr. 9. gr. laga nr.19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. einnig 1. mgr. 74. gr. bvl. Ber því barnavernd skylda að gæta þess að móður sé leiðbeint um að hún kunni að tapa svo dýrmætum rétti sem umgengni við börn hennar sé, á grundvelli hegðunar sinnar, og að leiðbeina henni um að bæta ráð sitt áður en gripið sé til svo íþyngjandi aðgerða eins og að svipta henni nær alla umgengni.

Með það hugfast sé vakin athygli á því að kærandi fékk aldrei leiðbeiningar eða tilkynningu frá barnaverndarþjónustu um hvað mætti betur fara í hennar fari, sem og að hún ætti að leita sér stuðnings eða ráðgjafar varðandi hvernig haga beri samskiptum við dætur sínar í framtíðinni, eins og segi í niðurstöðu umdæmisráðs.

Hefði leiðbeiningarskyldu barnaverndar verið sinnt, eins og þeim sé lögbundið að gera, sbr. 40. gr. bvl. og 7. gr. stjórnsýslulaga, megi leiða líkur að niðurstaða umdæmisráðs hefði verið önnur-og jafnvel að umgengni hefði í öndverðu gengið betur en raun bara vitni. Þess í stað, og í trássi við meðalhófsreglu og leiðbeiningareglu stjórnsýsluréttar og barnaverndarstarfs, hafi verið gripið til verulega íþyngjandi aðgerða, þegar ljóst sé að vægari úrræði stóðu til boða.

Rannsóknarregla

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. segir að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og ekki síst áður en tekin sé verulega íþyngjandi aðgerð.

Hin kærða ákvörðun byggi að nokkru leyti af seinustu umgengni sem kærandi fékk við börnin sín, þ.e. í mars á þessu ári eða fyrir sjö mánuðum, og skýrslu eftirlitsaðila og frásögn túlks sem voru viðstaddir umgengina. Segir sem fyrr greinir að af þeim að dæma sé að mati umdæmisráðsins „...ljóst væri að móðir þyrfti á stuðningi og ráðgjöf að halda varðandi hvernig haga beri samskiptum við dætur sínar i framtíðinni".

Er þá til þess að líta hvort að umdæmisráð hafi sinnt lögbundinni skyldu sinni að rannsaka málið áður en ákvörðun hafi verið tekin í því, n.t.t. hvort að kærandi hafi frá seinustu umgengni leitað sér aðstoðar eða ráðgjafar sérfræðinga í þeim tilgangi að bæta samskipti við börn hennar. Af þeim gögnum sem liggja fyrir verður ekki séð að svo hafi verið gert.

Að endingu ítrekar kærandi gerðar kröfur og vísar með heildstæðum hætti til fyrri greinargerðar sinnar [til umdæmisráðs], einna helst til þess að svo ung börn eins og stúlkurnar séu, hafi ekki aldur né þroska til að móta sér slík viðhorf og skoðanir gagnvart móður sinni, þ.e. að taka svo afdrifaríka ákvörðun að slíta nær öllum samskiptum við móður sína og umgangast hana einungis eina klukkustund á ári hverju.

Að öllu ofangreindu virtu sé ljóst að annmarkir séu á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem varða mikilvæga hagsmuni kæranda. Sé þess krafist að úrskurður umdæmisráðs verði felldur úr gildi og umgengni ákveðin ein klukkustund í senn, annan hvern mánuð, undir eftirliti starfsmannabarnaverndarþjónustu og á stað sem barnavernd ákveði. Til viðbótar sé þess krafist að kærandi fái myndsímtöl við börnin annan hvern mánuð.

III.  Sjónarmið B

B gerir þær kröfur að kröfum kæranda verði hafnað og hinn kærði úrskurður umdæmisráðs K frá 26. september 2024 verði staðfestur.

Hinn kærði úrskurður varðar málefni kæranda og tveggja barna hennar, D og E (hér eftir stúlkumar). Með úrskurði umdæmisráðs K dags. 26. september 2024 hafi verið ákveðið að stúlkumar skyldu eiga umgengni við kæranda í eitt skipti á ári, eina klukkustund í senn auk þess sem ákveðið hafi verið að umgengni færi fram undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustu.

Mál stúlknanna hafa verið til vinnslu hjá barnaverndarþjónusta frá árinu 2019 og áður hjá F vegna vanrækslu, líkamlegs og andlegs ofbeldi af hálfu kæranda. Stúlkumar séu í varanlegu fóstri og fer barnaverndarþjónusta með forsjá þeirra.

Þann 10. mars 2023 gerðu kærandi og barnaverndarþjónusta samkomulag um umgengni kæranda við stúlkumar, í samræmi við 3. mgr. 74. gr. bvl. Samkvæmt samkomulaginu skyldi umgengni fara fram undir eftirliti starfsmanna barnaverndarþjónusta eða þeirra aðila sem barnaverndarþjónusta ákveður og á þeim stað sem barnaverndarþjónusta ákveður. Auk þess fengi kærandi myndsímtal við stúlkumar í sömu mánuðum og framangreind umgengni færi fram. Þá fengju fósturforeldrar stúlknanna, annað eða bæði, að vera viðstödd umgengni ef stúlkumar óskuðu þess. Samkomulagið hafi verið gert með þeim fyrirvara að stúlkurnar yrðu ekki þvingaðar til umgengni auk þess sem kærandi hafi verið áminnt um að vera í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við stúlkumar í umgengni. Gildistími samkomulagsins var frá 10. mars 2023 til 31. desember 2023.

Umgengni samkvæmt framangreindu samkomulagi gekk ekki að fullu eftir og hittu stúlkumar kæranda í færri skipti en samkomulag sagði til um, m.a. vegna afstöðu stúlknanna til umgengni við kæranda en þær hafa ekki viljað hitta hana jafn oft og lagt var upp með. Einnig hafi kærandi verið mikið erlendis og breytti settum tímum og erfiðlega gekk að finna nýja tíma fyrir umgengni. Þá fengust stúlkurnar ekki til þess að hringja myndsímtöl í kæranda á tímabili samkomulags.

Síðasta umgengni hafi verið í mars árið 2024 en í kjölfar hennar neituðu stúlkumar að hitta kæranda oftar en einu sinni á ári, en í þeirri umgengni reyndi kærandi ítrekað að þröngva upp á stúlkumar gjafir, m.a. […] og fleira. Þá bauð kærandi stúlkunum greiðslu peninga fyrir hverja umgengni.

Málefni stúlknanna hafi verið tekin fyrir á tilkynninga- og meðferðarfundi barnaverndarþjónusta þann 9. apríl 2024. Á fundinum hafi verið farið yfir framangreint samkomulag um umgengni fyrir árið 2023 og fram kom að erfitt væri að endurnýja samkomulag þar sem stúlkumar væru andvígar því að hitta kæranda. Barnaverndarþjónusta skipaði stúlkunum talsmann til þess að fá fram þeirra afstöðu til umgengni við kæranda, á grundvelli 3. mgr. 46. gr. bvl., enda taldi barnaverndarþjónusta ekki mögulegt að endurnýja samkomulag fyrr en afstaða þeirra lægi fyrir.

Starfsmaður barnaverndarþjónusta hitti stúlkumar í ráðhúsi B þann 12. mars 2024 til þess að ræða við þær um umgengni við kæranda þar sem kærandi hafði óskað eftir því að hitta þær oftar en samkomulag sagði til um. Þá tjáði önnur stúlkan starfsmanni barnaverndarþjónusta að henni væri „bara alveg sama, hún væri til í að hitta mömmu sína en alls ekki oft.“ Hin stúlkan hafi verið ákveðin í svörum og sagðist bara vilja hitta kæranda einu sinni á ári og það væri í lagi ef „mamma væri ekki með eitthvað vesen."

Málefni stúlknanna hafi verið tekin aftur fyrir á tilkynninga- og meðferðarfundi barnaverndarþjónusta þann 25. júní 2024. Á þeim tíma lá fyrir skýrsla skipaðs talsmanns stúlknanna.

Í skýrslu skipaðs talsmanns um stúlkuna D, sem sé X ára, kemur fram að stúlkan sagðist vilja hitta kæranda en ekki oft. Hún vildi alls ekki gista hjá kæranda heldur einungis hitta hana í stuttan tíma. Aðspurð sagðist stúlkan bara vilja hitta kæranda einu sinni á ári og alls ekki oftar. Hún vilji þá hitta kæranda í eina klukkustund í einu og hafa systur sína og fósturmóður með. Þá upplýsti stúlkan talsmann um að kærandi haft boðið henni og systur hennar 10 þúsund krónur í hvert skipti sem þær heimsæktu hana vikulega.

Í skýrslu skipaðs talsmanns um stúlkuna E, sem sé X ára, kom fram að stúlkan væri tilbúin að hitta kæranda einstöku sinnum, ekki oft og alls ekki yfir nótt. Sagðist stúlkan vita að ef hún yrði yfir nótt hjá kæranda myndi hún reyna að bulla í sér og heilaþvo sig. Stúlkan hafi verið skýr í vilja sínum um að vilja hitta móður sinna einu sinni á ári og þá í ráðhúsinu eins og hefur verið og vildi hafa túlk og félagsráðgjafa með sér. Stúlkan vildi gjarnan hafa fósturmóður með í umgengni en sagðist ekki vilja gera fósturmóður það þar sem kærandi væri gjarnan vond og leiðinleg við fósturmóður og það þætti stúlkunni ekki gott. Stúlkan lýsti því að kærandi myndi þá kvarta undan því að fósturmóðir væri viðstödd umgengni og væri sífellt spyrjandi hvers vegna fósturmóðir þyrfti að vera viðstödd þegar hún hitti dætur sínar. Stúlkan sagðist vera stressuð fyrir umgengni við kæranda. Hún viti að eitthvað muni gerast og að umgengni verði sennilega óþægileg og kannski skrýtin. Stúlkan talaði einnig um að hún hafi vitað að það yrði „eitthvað drama“ þegar þær stúlkur hittu kæranda eftir […]. Stúlkan sagði að henni liði hvorki vel né illa á meðan á umgengni stendur. Henni finnist gott að sjá kæranda og vilji sjá hana og vita hvernig hún hafi það. Stúlkan segir kæranda þó bulla mikið í þeim systrum og að hún segi hluti sem stúlkan veit að séu ekki réttir. Sem dæmi hafi kærandi sagt stúlkunum að hún ætti fimm börn í viðbót sem stúlkan veit að sé ekki rétt. Þá sagðist stúlkan að henni líði skringilega eftir umgengni og henni finnist skrýtið að sjá kæranda. Stúlkan segist verða pínu kvíðin eftir að hafa hitt kæranda og þá sérstaklega þegar hún hafi verið að bulla í þeim og reyna að gefa þeim drasl sem þær vilji alls ekki eiga. Stúlkunni finnst umgengni við kæranda ekki hafa gengið vel undanfarið. Kærandi virði ekki mörk stúlknanna og þær hafi oft þurft harkalega að stoppa kæranda í einhverju sem hún er að troða upp á þér eða hún sé að draga þær til sín. Eins hafi þær systur þurft að biðja kæranda að hætta að taka myndir af þeim þar sem þeim finnst það óþægilegt. Kærandi sendi svo myndimar til ættingja og setji upp leikrit þannig að það lítið út fyrir að það gangi mjög vel hjá þeim sem stúlkan kann ekki vel við. Þá sagði stúlkan að kærandi væri […]. Stúlkurnar hafi báðar verið skýrar í afstöðu sinni til umgengni við kæranda. Nánar vísast um afstöðu stúlknanna til skýrslna talsmanns sem séu lagðar fram með greinargerð.

Að fengnum skýrslum talsmanns hafi verið samþykkt á tilkynningar- og meðferðarfundi barnaverndar að gerð yrði greinargerð og lögð fyrir umdæmisráð þar sem ekki næðist samkomulag um umgengni. Greinargerðir barnaverndarþjónusta hafi verið lagðar fyrir umdæmisráð þann 2. júlí 2024, ásamt fylgiskjölum. Einnig hafi verið lögð fram greinargerð af hálfu kæranda þann 24. september 2024. Umdæmisráð kvað í framhaldinu upp hinn kærða úrskurð, þann 26. september 2024.

Barnaverndarþjónusta tekur undir forsendur hins kærða úrskurðar og gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Barnaverndarþjónusta byggir á því að lögum og reglum hafi verið fylgt í hvívetna í málsmeðferð barnaverndarþjónusta og umhverfisráðs, sérstaklega ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002, athugasemda við frumvarp það sem varð að barnaverndarlögum, ólögfestra meginreglna, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. [19/2013] og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sérstaklega sé vísað til 1. mgr. 4. gr. bvl. um að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Því sé mótmælt sem fram komi í kæru um að lagaskilyrði bresti fyrir niðurstöðu umdæmisráðs um ákvörðun umgengni. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við foreldra eða aðra þá sem séu því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum barnsins. Þá sé það einnig réttur þeirra sem teljast nákomnir barni að eiga umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið, sbr. 3. ml. 2. mgr. 74. gr. sömu laga.

Barnaverndarþjónusta byggir á því að við ákvörðun varðandi umgengni nákomins aðila við barn eigi fyrst og fremst að líta til þess hvort tilhögunin sé til hagsbóta fyrir barnið, auk þess sem litið sé til þeirra sjónarmiða sem tilgreind séu í 74. gr. bvl., athugasemda við frumvarp það sem varð að barnaverndarlögum og meginreglna laganna um að ávallt skuli haga hagsmuni barnsins að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Jafnframt skuli horft til vilja stúlknanna í þessu efni og tekið réttmætt tillit til afstöðu þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Stúlkumar séu X og X ára gamlar og afstaða þeirra til umgengni við kæranda sé skýr. Stúlkumar virðast samkvæmt gögnum málsins ekki hafa ánægju af umgengni við kæranda enda virðist kærandi ekki nýta þann tíma sem hún hafi fengið með stúlkunum á uppbyggilegan hátt eða gert samverustundir þeirra ánægjulegar. Kærandi sé krefjandi í samskiptum og sýnir ítrekað af sér óviðeigandi hegðun gagnvart stúlkunum, sem sé eingöngu til þess fallin að valda stúlkunum vanlíðan, þrátt fyrir ítrekaðar leiðbeiningar þess efnis að hún þurfi að bæta samskipti sín við þær.

Afstaða stúlknanna sé skýr, eindregin og vel rökstudd. Að mati barnaverndarþjónusta sé afstaða stúlknanna í fullu samræmi við það sem sé þeim fyrir bestu. Það sé hlutverk barnaverndarþjónusta að tryggja stöðugleika í þeirra lífi. Í ljósi þeirra streituvaldandi aðstæðna sem umgengni við kæranda skapar í lífi þeirra beri að taka fullt tillit til vilja þeirra við ákvörðun um umgengni.

Þá byggir barnaverndarþjónusta á því að við mat á það hversu umfangsmikil umgengni skuli vera sé horft til þess hvernig umgengni hafi gengið fram til þessa. Það sé skýrt af gögnum málsins að umgengni samkvæmt eldra samkomulagi gekk ekki vel. Í fyrsta lagi hafi gengið illa að samræma tímasetningar umgengni við kæranda, en hún hafi afboðað sig ítrekað í umgengni og gekk iðulega illa að finna nýjan tíma til þess að koma umgengni á, einkum vegna samskipta við kæranda. Þá hafi kærandi oft verið óviðeigandi og ollið stúlkunum mikilli vanlíðan á þeim tíma sem umgengni hafi farið fram. Eins og fram hafi komið reyndi kærandi m.a. að bjóða stúlkunum peningagreiðslur gegn því að hitta kæranda eða fá starfsmenn barnaverndarþjónusta til þess að skrifa undir samkomulag um umgengni, reyndi að gefa stúlkunum gjafir […], auk þess sem hún virti ekki mörk þeirra í samskiptum og þurfti oft að stoppa hana af þegar hún gekk of langt gagnvart stúlkunum með því að draga þær til sín. Stúlkumar hafa lýst vanlíðan og kvíða þegar líður að umgengni, á meðan á umgengni stendur og í nokkum tíma eftir umgengni. Að mati barnaverndarþjónusta sé alveg skýrt að umgengni hafi ekki gengið vel fram að þessu og beri að líta til þess við ákvörðun um áframhaldandi umgengni stúlknanna við kæranda.

Í kæru sé sérstaklega vísað til þess að ekki liggi fyrir vottorð sálfræðinga, lækna eða annarra sérfræðinga sem sýni fram á það með óyggjandi hætti að umgengni við kæranda sé svo bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum stúlknanna að nauðsyn þyki til að skerða umgengni. Því sé mótmælt af hálfu barnaverndarþjónusta að slíkt eigi að leiða til þess að úrskurður umdæmisráðs verði felldur úr gildi. Af gögnum málsins megi sjá með skýrum hætti bæði hvernig kærandi hafi hagað sér í návist stúlknanna og hvaða áhrif það hefur haft á stúlkumar.

Því sé einnig mótmælt sem fram kemur í kæru að meðalhófs hafi ekki verið gætt við ákvörðunar um umgengni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Barnaverndarþjónusta taki undir niðurstöður hins kærða úrskurðar varðandi það að við mat á því hversu mikil umgengni eigi að vera beri að líta til þess hvernig umgengni hefur gengið, auk þess að horfa til vilja og sjónarmiða stúlknanna í þeim efnum. Það sé ljóst samkvæmt gögnum málsins að regluleg umgengni samkvæmt eldra samkomulagi gekk ekki vel og hafði ekki góð áhrif á stúlkumar. Sú umgengni sem hafi verið ákvörðuð sé í samræmi við forsendur hins eldra samkomulags, þ.e. að stúlkumar verði ekki þvingaðar til umgengni við kæranda. Það sé því mat barnaverndarþjónusta að sú umgengni sem kærandi gerir kröfu um sé fullreynd og því fullt tilefni til að takmarka umgengni kæranda við stúlkurnar í samræmi við niðurstöður hins kærða úrskurðar, enda sé það stúlkunum fyrir bestu og til þess fallið að draga úr álagi á þær. Þá byggir barnaverndarþjónusta á því að það sé skýr og eindreginn vilji stúlknanna að minnka umgengni við kæranda niður í eitt skipti á ári. Stúlkumar hafi verið afdráttarlausar í afstöðu sinni, bæði gagnvart félagsráðgjafa og skipuðum talsmanni sínum. Telur barnaverndarþjónusta því meðalhófs hafa verið fyllilega gætt við mat á umgengni.

Þá sé því mótmælt sem fram komi í kæru um að barnaverndarþjónusta hafi ekki gætt leiðbeiningaskyldu sinni við vinnslu máls kæranda og stúlknanna. Málefni kæranda og stúlknanna hafa verið til vinnslu hjá barnavernd allt frá árinu 2019 og áður hjá F vegna vanrækslu, líkamlegs og andlegs ofbeldi af hálfu kæranda. Gögn málsins beri skýrt með sér að kæranda hafi ítrekað í gegnum árin verið leiðbeint um hegðun sína gagnvart stúlkunum. Um það vísar barnaverndarþjónusta m.a. til samkomulags sem gert hafi verið um umgengni, þar sem fram kom að kærandi sé áminnt um að vera í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við stúlkumar í umgengni.

Að endingu er því mótmælt að barnaverndarþjónusta hafi brotið gegn rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og fram hafi komið hafi kærandi ítrekað verið leiðbeint um hegðun sína gagnvart stúlkunum. Kærandi hafi ekki óskað eftir eða nýtt sér aðstoð á vegum barnaverndarþjónusta, auk þess sem kærandi hafi ekki upplýst um að hún hafi leitað sér nokkurrar aðstoðar annarsstaðar frá. Það sé mat barnaverndarþjónusta að mál kæranda hafi sannanlega verið að fullu rannsakað áður en ákvörðun hafi verið tekin um að leggja greinargerð fyrir umdæmisráð vegna umgengni.

Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að lögum og reglum var fylgt í hvívetna í málsmeðferð barnaverndarþjónusta og umdæmisráðs og stúlknanna. Því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Barnaverndarþjónusta vísar til, barnaverndarlaga nr. 80/2002, athugasemda við frumvarp það sem varð að barnaverndarlögum, ólögfestra meginreglna, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var hér á landi með 1. nr. 18/1992 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV. Afstaða fósturforeldra

Með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við stúlkurnar. Afstaða þeirra barst með tölvupósti þann 5. desember 2024. Í bréfi fósturforeldra kemur fram að þau séu þeirrar skoðunar að stúlkurnar eigi alfarið að ráða því sjálfar hvort eða hversu oft þær vilji hitta kæranda. Reynsla fósturforeldra af umgengni sé ekki góð og margoft hafi komið fram í málinu að stúlkunum líði ekki vel fyrir, á meðan og eftir að umgengni hefur átt sér stað. Það hafi reynst E erfiðara en D en F beri sterkari tengsl við móður sína en D. Fósturmóður kveðst hafa verið viðstödd umgengni að ósk D og hún hafa ekki viljað fara í umgengni nema að fósturmóðir komi með. Fósturmóðir kveðst ekki hafa haft neina unun af því að sitja þessa umgengni og hún hafi fundið til með stúlkunum þegar kærandi hafi verið að neyða þær til að gera eitthvað eða annað óviðeigandi. Stúlkurnar séu hræddar við kæranda og myndu aldrei samþykkja það að hitta hana öðruvísi en undir eftirliti barnaverndar og efast fósturmóður um að D fáist til þess að mæta öðruvísi en að hún komi með. Afstaða fósturforeldra sé því sú að stúlkurnar hitti kæranda einu sinni á ári uppi í ráðhúsi, undir eftirliti barnaverndar, með túlk og að fósturmóðir fái að vera viðstödd ef að þær óska eftir því.

V. Afstaða stúlknanna

Í gögnum málsins liggja fyrir skýrslur talsmanns stúlknanna, dags. 10. maí 2024 og 17. maí 2024. Aðspurð sagðist D vilja hitta mömmu sína stundum en ekki oft. Hún sagðist alls ekki vilja gista hjá henni heldur einungis hitta hana í stuttan tíma. Þá sagðist hún vilja hitta hafa einu sinni á ári og alls ekki oftar. Stúlkan óskar eftir að umgengni verði ein klukkustund og hún fái að hafa systur sína og fósturmóður með í umgengni. Aðspurð sagðist E alveg tilbúin að hitta mömmu sína einstöku sinnum. Ekki oft og alls ekki í næturgistingu. Hún sagðist vilja hitta mömmu sína einu sinni á ári og þá í ráðhúsinu eins og verið hefur, með túlk, félagsráðgjafa og fósturmóður.

VI.  Niðurstaða

Stúlkurnar D og E eru X og X ára gamlar. Þær lúta forsjár B.

Með hinum kærða úrskurði umdæmisráðs K frá 26. september 2024 var ákveðið að umgengni stúlknanna við kæranda yrði einu sinni á ári, í eina klukkustund í senn, í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustu.

Kærandi telur að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kæru ákvörðunar. Hún telur að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga nr. 80/2002 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Hið sama gildir um málsmeðferð barnaverndarmála fyrir umdæmisráði, sbr. 1. mgr. 49. gr. bvl. Kærandi vísar til þess að það hafi ekki verið rannsakað hvort kærandi hafi frá síðustu umgengni leitað sér aðstoðar eða ráðgjafar í þeim tilgangi að bæta samskipti sín við börn hennar. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarþjónusta beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Í málinu liggja meðal annars fyrir talsmannsskýrslur auk dagála, bókana og greinargerðir starfsmanna barnaverndarþjónustu til umdæmisráðs. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að umdæmisráð hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður því að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í þessu fellst m.a. að í þeim tilvikum þar sem stjórnvaldi má vera ljóst að aðili hefur misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, ber stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita honum leiðbeiningar. Kærandi bendir á að hún hafi ekki fengið leiðbeiningar um hvað mætti betur fara í hennar fari og að hún ætti að leita sér stuðnings og ráðgjafar um hvernig henni bæri að haga samskiptum við dætur sínar í framtíðinni. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur fengið leiðbeiningar um að vera í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við stúlkurnar, sbr. samkomulag um umgengi kæranda við stúlkurnar frá 10. mars 2023. Úrskurðarnefndin telur því að kærandi hafi fengið viðeignandi leiðbeiningar við meðferð málsins, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Kærandi vísar til þess að umgengni móður við barn sitt einu sinni á ári sé verulega íþyngjandi og í andstöðu við rétt foreldra til umgengni við börn sín í fóstri, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umgengni ákveðin ein klukkustund í senn, annan hvern mánuð, undir eftirliti barnaverndarþjónustunnar og stað sem barnaverndarþjónustan ákveður. Til viðbótar er þess krafist að kærandi fái myndsímtal við börnin annan hvern mánuð. Til vara er þess krafist að umgengni verði þriðja hvern mánuð, og myndsímtal við kæranda einu sinni í mánuði.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkurnar eru í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dætur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber í fyrsta lagi að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkurnar hafi af umgengni við kæranda. Í skýrslum talsmanna stúlknanna, sem lagðar voru fyrir úrskurðarfund umdæmisráðs, kemur fram að stúlkurnar séu skýrar með sína afstöðu um að hitta kæranda einu sinni á ári. Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af aldri stúlknanna að þær hafi þroska til að meta hvernig umgengni þjóni best hagsmunum þeirra og beri að taka tillit til þess. Í öðru lagi telur nefndin að líta verði til þess hvernig umgengni hefur gengið fyrir sig frá því að samkomulag var gert 10. mars 2023. Af gögnum málsins verður ráðið að erfiðlega hafi gengið að fá stúlkurnar til að mæta í umgengni við kæranda. Auk þess ber er einnig til þess að líta að umgengni kæranda við stúlkurnar frá því að samkomulag 10. mars 2023 hefur valdið stúlkunum vanlíðan og því ekki gengið sem skyldi. Í þriðja lagi verður einnig að horfa til þess að fósturforeldrar stúlknanna taka undir að umgengni skuli vera í samræmi við óskir stúlknanna.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er það mat nefndarinnar að það þjóni best hagsmunum stúlknanna að umgengni þeirra við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem þær eru í samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og sérstaklega afstöðu þeirra til umgengni við kæranda sem vegur þungt í þessu máli að mati nefndarinnar.

Með hliðsjón af atvikum máls og afstöðu stúlkunnar til umgengni verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að gætt hafi verið meðalhófs.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráð K.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs K frá 26. september 2024 varðandi umgengni A, við D og E, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta