Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 19/2012

Miðvikudaginn 16. janúar 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 19/2012, A gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni hans við dóttur sína, C, og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R :

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Í bréfi Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl. til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 4. október 2012, var kærð, fyrir hönd A, sú ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 18. september 2012 að umgengni hans við dóttur sína, C, skuli vera fjórum sinnum á ári, í mars, júní, september og desember, í þrjár klukkustundir í senn, í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða á öðrum stað sem ákveðinn er fyrirfram og í samráði við alla aðila. Kveðið var á um að eftirlit yrði við upphaf og lok umgengni. Þá voru símhringingar heimilaðar einu sinni í mánuði. Sett voru þau skilyrði fyrir umgengni að kærandi væri án vímuefna og undirgengist vímuefnapróf ef þurfa þætti.

 

Kynmóðir C afsalaði sér forsjá stúlkunnar í maí 2008. Eftir það var hún í fóstri hjá móðurömmu og stjúpafa í D en fósturrof varð í júlí 2010 vegna erfiðra samskipta fósturforeldra við móður stúlkunnar. Fór stúlkan þá á fósturheimili í E til F og G í september 2010. Umgengni við foreldra hófst í nóvember 2010.

 

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengnin verði á sex vikna fresti frá föstudagseftirmiðdegi til sunnudagseftirmiðdags.

 

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

Fósturforeldrar stúlkunnar, F og G, leggjast gegn frekari umgengni. Þau óska eftir að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með tveimur breytingum. Eftirlit verði með umgengninni allan tímann en ekki aðeins við upphaf og lok umgengninnar líkt og verið hafi fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Þá óska þau þess að kærandi undirgangist alltaf vímuefnapróf fyrir umgengni en ekki einungis þegar þurfa þyki.

 

 

II.

Málavextir

 

C er ellefu ára gömul stúlka. Foreldrar hennar eru H og A. Stúlkan ólst upp hjá báðum foreldrum sínum fyrsta árið og síðan hjá móður sinni þar til hún fór í tímabundið fóstur í júní 2007. Móðir stúlkunnar afsalaði sér forsjá hennar 28. maí 2008 og var þá gengið frá varanlegu fóstri hjá móðurömmu hennar og stjúpafa. Í júlí 2010 varð fósturrof og fór stúlkan á vistheimili barna að I. Í framhaldinu flutti C til núverandi fósturforeldra í september 2010.

 

Þann 25. janúar 2011 samþykkti barnaverndarnefnd B varanlegt fóstur C hjá núverandi fósturforeldrum. Umgengni stúlkunnar við kynforeldra var í kjölfarið ákvörðuð ein helgi í mánuði við kæranda, en sjaldnar við móður. Frá febrúar 2011 var umgengnin á sex vikna fresti frá föstudegi til sunnudags, við kæranda, móður og móðurafa. Telpan hitti einnig föðurforeldra þegar umgengni var við kæranda. Fósturforeldrar töldu að þessi umgengni væri of mikil og kæmi niður á tengslamyndun stúlkunnar við þá. Starfsmenn Barnaverndar B töldu kæranda ekki hæfan til að hafa umgengni með þeim hætti sem verið hafði og þótti enn fremur ljóst að móðir stúlkunnar hefði verið í vímuefnaneyslu og ekki leitað sér meðferðar og væri húsnæðislaus. Þegar lengri tími leið á milli umgengni eða átta vikur fannst fósturforeldrum það skapa meira jafnvægi hjá C og henni liði betur. Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 1. nóvember 2011 og lá fyrir fundinum tillaga starfsmanna þess efnis að umgengni stúlkunnar við foreldra yrði fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir við hvort foreldri, undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar. Móðir stúlkunnar og fósturforeldrar voru á fundinum en ekki kærandi. Ekki náðist samkomulag um umgengnina og var því kveðinn upp úrskurður í samræmi við framangreindar tillögur starfsmanna Barnaverndar B. Kærandi skrifaði undir samning um umgengni 1. desember 2011 í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndar. Umgengni kæranda við stúlkuna var samkvæmt samningnum 3. desember 2011, 16. mars 2012 og 11. júní 2012 og gekk að flestu leyti vel eins og rakið er í gögnum málsins.

 

Málið var á ný tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 16. júní 2012. Fyrir lá tillaga um að umgengni yrði með óbreyttum hætti, þ.e. fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar B og í húsnæði á vegum nefndarinnar. Kærandi mætti á fundinn og fósturforeldrar. Kærandi óskaði eftir umgengni í eina helgi á tveggja mánaða fresti og að umgengni færi fram hjá föðurfjölskyldu hans í J. Fósturforeldrar voru sáttir við tillögu starfsmanna.

 

Af hálfu barnaverndarnefndar B var ákveðið að afla upplýsinga um stöðu beggja foreldra C. Í upplýsingum þessum kemur fram að kærandi hafi komið í meðferð á meðferðarheimilinu K 1. febrúar 2012, en verið vísað úr meðferð 13. febrúar 2012 vegna brota á húsreglum. Í bréfi frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 24. júlí 2012, kom fram að á tímabilinu 1. september 2008 til 27. júní 2012 höfðu verið afskipti af málefnum kæranda þrisvar sinnum. Í apríl 2011 hafði hann verið kærður fyrir fíkniefnabrot, en þá var hann var með u.þ.b. 20 grömm af amfetamíni sem hann ætlaði til sölu og innan við gramm af marijúana er hann kvað til eigin neyslu. Árið 2012 voru tvær birtingar skráðar á hann, sú fyrri frá því í febrúar og tókst hún ekki. Hin síðari var í apríl 2012 og var honum þá birt ákæra og fyrirkall fyrir L vegna fíkniefnamáls.

 

Frá því að C fór til fósturforeldra sinna hefur verið símatími við kynforeldra, móðurforeldra, móðurafa, föðurforeldra og föðursystur, einu sinni í mánuði, síðasta miðvikudag í mánuði, frá kl. 18.00 til 20.00.

 

Auk umgengni við kynforeldra sína hefur C haft einhverja umgengni við aðra nákomna. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur hún hitt móðurömmu sína og stjúpafa, móðurafa sinn, föðurforeldra og föðursystur.

 

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 18. september 2012. Fyrir lá tillaga starfsmanna Barnaverndar B þess efnis að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í allt að þrjár klukkustundir undir eftirliti starfsmanna nefndarinnar. Fósturforeldrar voru sammála þessari tillögu. Kærandi lagði til að umgengni yrði frá föstudagseftirmiðdegi til sunnudagseftirmiðdags á sex vikna fresti á heimili kæranda. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp á þessum fundi barnaverndarnefndar B

 

 

III.

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi telur hinn kærða úrskurð óréttmætan og að umgengnin sé allt of lítil. Úrskurðurinn fari í bága við markmið barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem lögfest eru í 1. mgr. 4. gr. um að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu, sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. laganna. Kærandi telur einnig að úrskurðurinn brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem lögfest er í 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðurinn sé í algjöru ósamræmi við aðstæður kæranda og að ekki verði séð að nauðsynlegt sé að umgengni fari fram undir eftirliti. Þá sé úrskurðurinn ekki til þess fallinn að styrkja stúlkuna skv. 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga. Fyrir liggi að hún hafi ítrekað óskað eftir aukinni umgengni við kæranda. Gögn málsins bendi á engan hátt til þess að stúlkunni stafi hætta af umgengni við kæranda.

 

Af hálfu kæranda er vísað á 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga og bent á að ekki verði með neinu móti séð að umgengni stúlkunnar við kæranda sé bersýnilega andstæð hagsmunum hennar og þörfum. Þvert á móti megi færa fyrir því rök að regluleg umgengni á sex vikna fresti sé stúlkunni til góða enda til þess fallin að styrkja samband hennar við föður sinn og sjálfsmynd hennar um leið.

 

Móðir stúlkunnar hafi glímt við mikinn og alvarlegan vímuefnavanda. Kærandi telji að barnaverndarnefnd samsami hann um of móður stúlkunnar og setji sömu takmarkanir á umgengni stúlkunnar við hann og við móður hennar. Fram kemur að kærandi hafi viðurkennt vorið 2011 að hafa fallið á edrúmennsku sinni í neyslu kannabisefna, en hann hafi aldrei verið undir áhrifum þegar stúlkan hafi verið í umgengni hjá honum. Hann neyti hvorki annarra vímuefna né áfengis. Kærandi kveðst búa í snyrtilegri leiguíbúð í B.

 

 

IV.

C

 

Í greinargerð fósturforeldra C, dags. 18. desember 2012, kemur meðal annars fram að stúlkan sé yndisleg, hress og fjörug. Henni líði mjög vel, hún sé umkringd fólki sem þyki vænt um hana, hugsi um hana, veiti henni öryggi, flest allt það sem þurfi til að eiga gott og öruggt líf. Hún sé þó alveg meðvituð um að hún búi hjá fósturforeldrum sínum, en ekki blóðfjölskyldu. Sú staðreynd valdi henni oft hugarangri og slíku lífi fylgi ákveðið flækjustig, sem stundum geti verið svolítið erfitt að fóta sig í, skilja, aðlagast og sætta sig við. Fósturforeldrum hafi verið tjáð af fagfólki að þetta sé eðlilegur þankagangur hjá fósturbörnum. Viljinn til að búa hjá blóðforeldrum virðist vera gríðarlega sterkur, sama hvað á undan hafi gengið og hafi C þennan sterka vilja. Stúlkan eigi fjölmarga vini og vinkonur og hún sé í íþróttum. Þá hafi skólagangan einungis verið uppávið og sé stúlkan frábær námsmaður og fyrirmynd annarra í skólastarfinu.

 

C hefur verið í viðtölum hjá M sálfræðingi. Í bréfi sálfræðingsins, dags. 24. maí 2012, kemur fram að hún hafi hitt stúlkuna sjö sinnum veturinn 2011 til 2012. Að mati sálfræðingsins hafi stúlkan tekið góðum framförum í aðlögun, hún virki öruggari og rólegri í umhverfi sínu. Tengsl við fósturforeldra virðist einnig öruggari og tali hún með opnari hætti um framtíð sína hjá þeim. Hún virðist tengjast móður fósturmóður sérstaklega vel, kallar hana ömmu sína og sækir mikið til hennar. Félagslega láti hún vel af sér, hún eigi góðar vinkonur og sé í skipulögðu íþróttastarfi. Þá komi fram að C virðist hafa minni áhyggjur af foreldrum sínum en áður og þegar hún finni fyrir söknuði eigi hún auðveldara með að sækja stuðning til fósturforeldra en áður. Í síðasta viðtali sem sálfræðingur hafi átt við C hafi verið rætt við hana um hvort hún hefði einhverjar athugasemdir við núverandi fyrirkomulag umgengni. Hún hafi sagst vera sátt við umgengnina en finnist aðstæðurnar stundum erfiðar. Fram hafi komið hjá C að hún vildi geta gert eitthvað með þeim í stað þess að sitja og spjalla.

 

Í skýrslu N, talsmanns C, dags. 7. júní 2012, kemur fram að stúlkunni líði betur í E en síðast þegar talsmaðurinn hafi talað við hana, þar sem hún sé farin að þekkja fósturforeldra sína betur og treystir þeim. Fram kemur að hún æfi fótbolta, handbolta og frjálsar, kunni vel við sig í skólanum og eigi margar vinkonur sem hún eyði tímanum með. C vilji halda umgengni við foreldra sína. Hún sagði það „ekki gott“ að hitta foreldrana aðeins fjórum sinnum á ári og vilji hitta þau oftar. Hún vilji geta gert eitthvað skemmtilegt með þeim í umgengninni og helst vilji hún fá að gista eina til tvær nætur hjá foreldrum sínum til skiptis á tveggja mánaða fresti. Aðra vilji hún jafnframt hitta og hafi nefnt þar helsta O föðursystur sína í J, ömmu og afa í J og síðan P afa. Fram kemur að C líði vel í umgengninni hjá foreldrum og segi það hafa gengið vel.

 

 

V.

Sjónarmið fósturforeldra

 

Fósturforeldrar C, G og F, óska eftir breytingum á úrskurði barnaverndarnefndar B um umgengni C við kæranda. Þau óska eftir því að umgengni verði undir eftirliti allan umgengnistímann eins og var áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Breyting varðandi eftirlitið hafi verið gerð í andstöðu við vilja fósturforeldranna og starfsmanna Barnaverndar B. Þá óska þau eftir því að kærandi undirgangist ekki einungis vímuefnapróf þegar þurfa þyki heldur geri hann það alltaf fyrir umgengni.

 

Fram kemur að C sé yndisleg, hress og fjörug stúlka. Hún eigi marga vini og gangi vel í skóla. Hún sé þó meðvituð um að vera í fóstri og valdi sú staðreynd henni oft hugarangri. Fósturforeldrar benda á að stundum geri fullorðnir hlutina flóknari fyrir börnum en þeir þurfi að vera. Það sé hægt að eiga frábært líf á fósturheimili, enda sé það markmiðið með varanlegu fóstri að barn geti alist upp við kjöraðstæður. Fóstrið snúist um barnið, hvorki fósturfjölskyldu né blóðfjölskyldu, þetta finnist fósturforeldrunum ekki alltaf hafa verið öllum ljóst. Velferð barnsins sé ofar öllu, önnur sjónarmið eigi ekki að ráða för.

 

Fósturforeldrar benda á að C sé ánægð með að heyra í skyldfólki sínu einu sinni í mánuði í gegnum síma. Það skipti hana miklu máli að allir hringi, en það geri ekki allir. Umgengni við foreldra fjórum sinnum á ári hafi gengið vel í flestum tilvikum, en þó með nokkrum undantekningum. Fyrir hafi komið að foreldrar hafi ekki nýtt umgengnina og hafi það valdið stúlkunni gríðarlegum áhyggjum. Foreldrar hafa stundum afboðað komu í umgengni, ekki mætt í umgengni, þrátt fyrir boðaða komu eða mætt of seint og jafnvel mætt í blálokin á umgengninni. Blóðfjölskyldu C hafi einnig verið tryggð umgengni, þó með misjöfnum hætti sé í ljósi fyrri aðstæðna og tengsla. Enginn þeirra (foreldrar, föðurforeldrar, föðursystir, móðurforeldrar og móðursystir) hafi fullnýtt þá umgengni sem í boði hafi verið.

 

Fósturforeldrar gera nokkrar athugasemdir við greinargerð kæranda, svo sem varðandi vanrækslu og/eða vímuefnaneyslu kæranda, það hvort eftirlit með umgengninni sé nauðsynlegt, áhrif umgengninnar á samband C við föður sinn og það hvort hann hafi reynt að koma inn ranghugmyndum hjá stúlkunni.

 

Fósturforeldrar telja aukna umgengni ekki vera til góðs. Meginmarkmiðið með varanlegu fóstri sé að barnið nái að tengjast fósturfjölskyldu sinni og aðlagast þeim aðstæðum sem það búi við. Fósturforeldrarnir hafi fundið mikinn mun á C eftir að umgengninni hafi verið breytt í október 2011. Hafi stúlkan verið í mun betra jafnvægi og meiri ró yfir henni. Fósturforeldrarnir telji frekari umgengni algjörlega ósamrýmanlega þeim markmiðum sem stefnt sé að með fósturvistuninni, sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til sama ákvæðis telji þau að frekari umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum C. Þá skilji þau ekki kröfu kæranda um aukna umgengni. Hann hafi hafnað umgengni við dóttur sína 20. september 2012. Þau hafi ekki fengið að vita ástæður þess. Það komi því spánskt fyrir sjónir að óska eftir aukningu þegar það sem í boði sé, sé ekki nýtt.

 

Fósturforeldrar benda á að stöðug og viðvarandi óvissa um umgengnismál C og hvað sé framundan grafi undan möguleikum hennar að vaxa og dafna og fá næði til að eiga góða æsku og festa rætur í E. C eigi fjölskyldu í E og líka á fastalandinu, það gleymist ekki og verði haldið í heiðri.

 

 

VI.

Sjónarmið barnaverndarnefndar B

 

Af hálfu barnaverndarnefndar B kemur fram að ekki hafi verið talin rök fyrir því að fallast á kröfur kæranda um að umgengni yrði yfir helgi á sex vikna fresti. Telpan væri vistuð í varanlegu fóstri og sé markmiðið með varanlegu fóstri að hún aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn væri að ræða. Það hafi verið mat nefndarinnar að mikilvægt væri að skapa C áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum hún búi við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Sú breyting sem orðið hafi á umgengni í nóvember 2011 hafi hjálpað telpunni til að styrkja betur tengsl við fósturforeldra og fjölskyldu þeirra og finna til öryggis.

 

Úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið kynntur kæranda símleiðis 19. september 2012. Stefnt hafði verð að því að hafa umgengni 20. september 2012. Hafi þótt tilefni til að kærandi undirgengist vímuefnapróf fyrir fyrirhugaða umgengni og hafi hann samþykkt það á fundi nefndarinnar 18. september 2012. Þegar til kom hafi kærandi hins vegar ekki viljað mæta í fyrirhugaða umgengni og sagt að hann ætlaði hann ekki að láta þvinga sig í vímuefnapróf. Ekki hafi því orðið af umgengni 20. september 2012.

 

 

VII.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu föður um rýmri umgengni en hinn kærði úrskurður kveður á um. Dóttir kæranda er í varanlegu fóstri sem gengur mjög vel, en markmið varanlegs fósturs er að barn aðlagist fósturfjölskyldu sem best og fari að líta á fósturfjölskyldu sína sem sína eigin fjölskyldu, sem barnið getur treyst og leitað til. Markmið umgengni við kynforeldra og aðra þá sem barni eru nákomnir er að barn þekki uppruna sinn.

 

Við ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við kynforeldra ber ætíð að líta til hagsmuna barnsins og þess hvort sú umgengni sem ákveðin er geti komið í veg fyrir að markmið varanlegs fósturs náist.

 

Telpan sem mál þetta lýtur að er 11 ára gömul og hefur fóstrið gengið framar vonum. Samkvæmt gögnum málsins hefur hún náð að aðlagast vel hjá fósturfjölskyldu sinni, hún hefur eignast vini og er farin að geta treyst fósturforeldrum sínum betur og leitar meira til þeirra en hún gerði áður. Virðist þar hafa orðið á breyting til batnaðar eftir að umgengni var breytt í nóvember 2011. Af gögnum sálfræðinga þeirra sem telpan hefur farið í viðtöl til, má ráða að eftir að lengdist milli heimsókna til kynforeldra haustið 2011, hafi telpan aðlagast betur, hún sé öruggari og rólegri, en henni finnist mikilvægt að hitta kynforeldra sína. Hún kennir sér að einhverju leyti um stöðuna og finnur til með kynforeldrum sínum.

 

Faðir telpunnar, kærandi í þessu máli, hefur krafist mun rýmri umgengni en verið hefur, þegar litið er til þess að telpan er í varanlegu fóstri. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að hann hefur átt við vímuefnavanda að stríða og komist í kast við lögin vegna þess. Hann fór í meðferð á K í byrjun ársins 2012 vegna vímuefnavanda, en var vísað úr meðferð vegna brota á húsreglum. Hann átti að mæta í umgengni 20. september 2012, en mætti ekki þar sem hann kvaðst ekki vilja gangast undir vímuefnapróf.

 

Fósturforeldrar hafa gert þá kröfu að kærandi gangist ávallt undir vímuefnapróf fyrir umgengni. Í hinum kærða úrskurði er kveðið svo á um að kærandi gangist undir vímuefnapróf fyrir umgengni telji starfsmenn Barnaverndar þörf á því. Verður að treysta starfsmönnum Barnaverndar til þess að meta hverju sinni hvort þörf sé á að kærandi undirgangist slíkt próf til þess að tryggja hagsmuni barnsins af því að umgengni fari vel fram. Er því ekki fallist á framangreinda kröfu fósturforeldra heldur einungis þegar starfsmenn Barnaverndar telja þörf á því. Þá er að mati kærunefndar ekki þörf á að umgengni verði undir eftirliti nema við upphaf og lok hennar.

 

Þegar allt framangreint er virt, er það mat kærunefndar barnaverndarmála að sú umgengni sem ákveðin hefur verið með hinum kærða úrskurði samrýmist hagsmunum telpunnar best, sbr. og 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þá er mikilvægt að umgengni verði fundinn staður utan húsnæðis barnaverndarnefndar B, enda er gert ráð fyrir því í úrskurði barnaverndarnefndar að slíkt sé mögulegt og er það í samræmi við óskir telpunnar. Ef vel er á haldið af hálfu kæranda, getur hann nýtt þá umgengni til góðra samvista við telpuna.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Úrskurður barnaverndarnefndar B, frá 18. september 2012, varðandi umgengni A við dóttur sína, C, er staðfestur.

 

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta