Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 239/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 239/2018

Miðvikudaginn 24. október 2018.

 

 

A

gegn

B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 4. júlí 2018 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð B frá X 2018 vegna umgengni kæranda við son sinn, D. Er þess krafist að regluleg umgengni verði aðra hvora helgi auk rýmri umgengni í skólafríum, um jól, páska og yfir sumartímann.

B fer með störf barnaverndar­nefndar í sveitarfélögunum.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er fæddur árið X og lýtur B. Móðir drengsins, sem á einnig X eldri börn, fór áður ein með forsjá hans en var svipt forsjánni með dómi Héraðsdóms E X 2016. Drengurinn fór í tímabundið fóstur X 2014 en hann hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá þeim tíma. Hann hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim síðan í X 2016.

Í upphafi fósturvistunar náðist samkomulag um umgengni tvær helgar í mánuði auk símatíma einu sinni í viku. Eftir að drengurinn var vistaður í varanlegt fóstur varð ágreiningur um umgengnina. Með úrskurði X 2016 ákvað B, að drengurinn hefði umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári í þrjá tíma í senn undir eftirliti. Að auki væri kæranda heimilt að hringja í drenginn á símatíma. Þessi úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi hann úr gildi X (mál X) og vísaði málinu aftur til B þar sem [...].

Málið var aftur tekið fyrir á fundi B X 2018 og þar kom fram að nefndin horfi til þess að drengurinn vilji halda óbreyttri búsetu og vilji einnig að umgengni við kæranda sé óbreytt eða með svipuðum hætti og verið hafi. Í ljósi þess þótti ekki ástæða til að fá sérstakt mat sérfræðings á umgengni.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við drenginn var með úrskurði B X 2018 ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar eftir því sem þurfa þætti. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„B úrskurðar að umgengni móður við barn skuli fara fram fjórum sinnum á ári í þrjá tíma í senn. Umgengni skal fara fram á laugardegi eftir miðjan mánuð í X, X, X og X þó þannig að það hitti ekki á hátíðarhelgi. Umgengni skal fara fram undir eftirliti fulltrúa barnaverndar eftir því sem barnavernd telur þörf á hverju sinni. Skipuleggja þarf umgengni í samráði við fósturforeldra og kynforeldri með tveggja vikna fyrirvara. Nánari útfærsla skal gerð í samráði við fósturforeldra. Fyrsta umgengni fari fram í X 2018. Önnur samskipti t.d. myndsímtöl eða tölvupóstar geta farið fram einu sinni í mánuði að frumkvæði barns undir leiðsögn fósturforeldra.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að regluleg umgengni verði ákveðin aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags. Rýmri umgengni verði í skólafríum, um jól og páska og yfir sumartímann.

Þetta sé sérstaklega nauðsynlegt til að efla tengsl drengsins við kæranda, systkini, aðra ættingja og vini en drengurinn hafi alist upp á heimili kæranda til X ára aldurs. Umgengni fyrsta árið í fóstri hafi verið mjög regluleg og samskipti mikil.

Drengurinn sé yngstur Xsystkina sem öll búi á, eða í námunda við heimili kæranda. Móðuramma og fleiri ættingjar búi einnig í nágrenninu. Þetta sé fjölskylda drengsins og allar líkur verði að telja á því að þangað leiti drengurinn þegar hann verði lögráða eftir X ár. Mikilvægt sé því í ljósi aðstæðna að rækta fjölskyldutengsl og haga umgengni með það í huga að hann upplifi sig ekki útundan í þeim hópi.

Í ljósi 10. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 41. gr. bvl. telji kærandi að fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefði verið rétt að óska eftir áliti F sálfræðings til að fá fram afstöðu drengsins til efnis og framkvæmdar þeirrar umgengni sem ákveðin hafi verið auk þess að meta hvort regluleg umgengni við kæranda sé drengnum í hag. F hafi áður komið að málinu og því sé hún með góða innsýn í aðstæður og vel að sér um málefni kæranda og drengsins.

Loks minni kærandi á að engin óregla sé á heimili hennar og hún eigi ekki við geðrænan vanda að etja. Forsjársvipting héraðsdóms hafi byggst á því að daglegri umsjá og utanumhaldi væri ábótavant vegna þeirra takmarkana sem drengurinn glími við.

 

III.  Afstaða B

B vísar til niðurstaðna úr athugun frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í X 2018.

Þar komi fram að drengurinn sé með [...] en það hafi áhrif á hegðun hans, nám og félagsfærni. Mikilvægt sé að hann búi áfram við stöðugleika í félagsumhverfi sem hafi jákvæð áhrif á þroska hans og hegðun. Einnig komi þar fram að drengurinn þurfi stuðning við flestar daglegar athafnir. Hann eigi erfitt með allar breytingar, sýni lítil svipbrigði og takmarkaðar tilfinningar. Hegðun hans geti verið áráttukennd og ýmislegt í þroskastöðu gefi til kynna [...]. Gerð hafi verið athugun á einkennum [...]. Niðurstöðurnar sýni að einkenni fari yfir greiningarmörk [...] samkvæmt þessu matstæki. Við athugunina hafi drengurinn gefið [...]. WISC próf hafi verið lagt fyrir hann síðastliðið vor. Heildartala greindar hafi mælist X eða [...]. Aðlögunarfærni hans væri á sama hátt [...]. Hegðunarmatskvarðar gefi eins og áður til kynna [...] einkenni. Hann sé í lyfjameðferð vegna [...]. Í upplýsingum frá skóla komi fram að drengurinn sé með einstaklingsmiðað nám, hann sé áhugasamur í tímum, taki þátt í umræðum og hafi tekið miklum framförum í lestri. Drengurinn hafi greinst með [...]. Hann sé í eftirfylgd hjá bæklunarlækni vegna þessa.

Við ákvörðun um fyrirkomulag og tíðni umgengni þurfi að taka mið af markmiðum fóstursins. Markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fjölskyldu. Við ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við kynforeldra þurfi að meta þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengni hafi á barnið. Hafa beri í huga að almennt sé börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra. Barnið þurfi að hafa tilfinningalegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra sem tengist því en jafnframt að geta tengst og öðlast öryggi hjá fósturfjölskyldu. Barnaverndaryfirvöld þurfi að hjálpa drengnum að festa rætur á fósturheimilinu á sama tíma og hann eigi kynforeldra sína að og fortíð með þeim.

Í ljósi alvarlegrar stöðu drengsins þurfi að huga að búsetuúrræði, stuðningi og starfsvettvangi á fullorðinsárum með góðum fyrirvara. Það liggi fyrir að drengurinn þurfi á öflugum stuðningi að halda lagt fram yfir sjálfræðisaldur. Fósturforeldrar og barnaverndaryfirvöld vinni að því að drengnum verði tryggð sú þjónusta sem hann þurfi á að halda eftir 18 ára aldur.

Það sé mat barnaverndar að umgengni drengsins við kæranda umfram það sem úrskurður kveði á um gagnist drengnum ekki og verði frekar til þess fallin að auka á óstöðugleika í lífi hans.

 

IV. Afstaða D

Að ósk B var G lögmaður fenginn til að gæta hagsmuna drengsins og leita eftir afstöðu hans til búsetu og samskipta við kæranda samkvæmt ákvæðum bvl.

Í greinargerð lögmannsins X 2018 kemur fram að lögmaðurinn hafi átt fund með drengnum X 2018. Farið hafi verið yfir hlutverk lögmannsins við að gæta hagsmuna drengsins í málinu. Drengurinn eigi við [...] að stríða sem taka hafi þurft tillit til þegar hann var spurður spurninga um afstöðu sína til búsetu og umgengni við kæranda.

Eftir fund með drengnum hafi verið ljóst að hann óskaði eftir óbreyttri búsetu og að umgengni væri einnig óbreytt eða með þeim hætti sem verið hafi. Drengurinn kveðist ekki hafa átt í miklum samskiptum við kæranda. Ljóst sé að drengnum líði mjög vel í núverandi aðstæðum og virðist hvorki hafa þörf fyrir breytingar að því er varði búsetu né samskipti við kæranda.

Með vísan til þessa hafi það verið niðurstaða af fundi lögmanns með drengnum að hann haldi óbreyttri búsetu og að umgengni við kæranda verði óbreytt eða svipuð og verið hafi hingað til.

 

V.  Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 23. ágúst 2018 kemur fram að þegar drengurinn hafi fyrst komið til þeirra í tímabundið fóstur hafi hann farið í umgengni til kæranda tvær helgar í mánuði. Síðar á fósturtíma hafi bæst við umgengni við föður drengsins. Á þessu fyrirkomulagi hafi síðar orðið breytingar þar sem í ljós hafi komið að vegna aðstæðna hafi það ekki verið að þjóna hagsmunum drengsins.

Dvöl yfir nótt hafi haft mikil áhrif á líðan og hegðun drengsins. Hann hafi kvartað undan þreytu en í umgengni hafi hann fengið að vaka lengi. Til að mynda hafi hann oft sést virkur á samfélagsmiðlum til klukkan X og hafi þá sofið lengi fram eftir næsta dag.

Samkvæmt H barnalækni sé mikilvægt að drengurinn taki morgunlyf ekki seinna en um kl. 11 um helgar en drengurinn sé meðal annars að taka þrjú lyf vegna [...]. Fósturforeldrar vakni snemma og fari með drenginn [...] en hann leggi sig síðan aftur. Þetta geri þau til að drengurinn [...]. Þessu hafi ekki verið viðhaldið í umgengni, hvorki hjá móður né föður og því hafi hann [...] þar. Þegar hann hafi komið aftur á fósturheimili hafi hann sýnilega verið mjög þreyttur, þrútinn til augna og fölur. Er hann hafi verið spurður að því hvort honum liði ekki vel hafi hann sagst vera þreyttur. Hann hafi átt erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum vegna þess hve seint hann hafi vaknað að deginum og að eigin sögn hafi hann tekið lyfin seint en hann hafi sjálfur séð um lyfjaskömmtun í umgengni. Drengurinn þoli mjög illa uppbrot á daglegu skipulagi. Fósturforeldrar hafi farið með hann í sumarbústað, ferðalög innanlands og til útlanda sem hafi reynst honum erfitt.

Í upphafi fósturvistunar hafi kærandi getað hringt í drenginn einu sinni í viku en því hafi síðan verið breytt í einu sinni hálfsmánaðarlega. Kærandi hafi þó ekki nýtt sér símatíma fyrr en síðastliðið haust.

Síðastliðið vor hafi drengurinn farið í endurmat á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Niðurstöður hafi meðal annars verið [...]. Mikil vinna hafi verið lögð í að koma ró, öryggi og skipulagi á líf drengsins með tilliti til fötlunar hans og þarfa. Hann hafi [...] og sé nú á [...] í [skóla]. Hann þurfi að hafa skýrt og sjónrænt skipulag í daglegum athöfnum.

Fósturforeldrar hafi komið jafnvægi á skipulag í tengslum við [...]. Læknir telji ekki æskilegt að uppbrot verði á því skipulagi. Því leggi fósturforeldrar til að umgengni verði ekki yfir nótt heldur dagspart og þá undir eftirliti svo að hagsmunir og velferð drengsins sé í forgrunni og umgengni verði á hans forsendum. Þau leggi til umgengni tvisvar sinnum á ári.

 

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er rúmlega X ára og lýtur forsjá B. Hann hefur verið í fóstri frá X 2014, þar af í varanlegu fóstri frá því í X 2016, er kærandi var svipt forsjá hans með dómi.

Með hinum kærða úrskurði frá X 2018 var umgengni drengsins við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndar eftir því sem þurfa þætti. Önnur samskipti, t.d. myndsímtöl eða tölvupóstar, mega fara fram einu sinni í mánuði að frumkvæði drengsins undir leiðsögn fósturforeldra.

Í málinu krefst kærandi þess að regluleg umgengni verði ákveðin aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags. Rýmri umgengni verði í skólafríum, um jól og páska og yfir sumartímann.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best með tilliti til þeirrar stöðu sem barnið er í. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja honum stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í bréfi til úrskurðarnefndarinnar 23. ágúst 2018. Þau greina frá því að dvöl yfir nótt hafi haft mikil áhrif á líðan og hegðun drengsins. Hann hafi kvartað undan þreytu en í umgengni hafi hann fengið að vaka lengi og hafi þá sofið lengi fram eftir næsta dag. Samkvæmt barnalækni sé mikilvægt að drengurinn taki morgunlyf ekki seinna en um kl. 11 um helgar en drengurinn sé meðal annars að taka þrjú lyf vegna [...]. Fósturforeldrar vakni snemma og fari með drenginn [...] en hann leggi sig síðan aftur. Þetta geri þau til að drengurinn [...]. Þessu hafi ekki verið viðhaldið í umgengni, hvorki hjá móður né föður, og því hafi drengurinn [...]. Þegar hann hafi komið aftur á fósturheimilið hafi hann sýnilega verið mjög þreyttur, þrútinn til augna og fölur. Er hann hafi verið spurður að því hvort honum liði ekki vel hafi hann sagst vera þreyttur. Hann hafi átt erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum vegna þess hve seint hann hafi vaknað að deginum og að eigin sögn hafi hann tekið lyfin seint en hann hafi sjálfur séð um lyfjaskömmtun í umgengni. Drengurinn þoli mjög illa uppbrot á daglegu skipulagi. Mikil vinna hafi verið lögð í að koma ró, öryggi og skipulagi á líf drengsins með tilliti til fötlunar hans og þarfa. Fósturforeldrar leggi til að umgengni verði ekki yfir nótt heldur dagspart, tvisvar sinnum á ári og þá undir eftirliti svo að hagsmunir og velferð drengsins séu í forgrunni og umgengni á hans forsendum.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til sálfræðilegrar matsgerðar X 2016 sem gerð var á kæranda í tilefni af forsjársviptingarmálinu. Þar kemur meðal annars fram að drengurinn sé með [...]. Hann þurfi á miklu aðhaldi og stuðningi að halda bæði varðandi nám og athafnir daglegs lífs. Til að sinna daglegri umönnun drengsins þurfi innsæi í takmarkanir hans, færni í hegðunarmótandi aðferðum, reglufestu og úthald. Einnig er í hinum kærða úrskurði vísað til vilja drengsins til að halda óbreyttri búsetu og hann vilji einnig að umgengni við kæranda sé óbreytt eða með svipuðum hætti og verið hafi.

Kærandi telur að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað. Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 41. gr. bvl. telji kærandi að fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefði verið rétt að óska eftir aðstoð F sálfræðings til að fá fram afstöðu drengsins til efnis og framkvæmdar þeirrar umgengni sem ákveðin hafi verið auk þess að meta hvort regluleg umgengni við kæranda væri drengnum í hag. F hafi áður komið að málinu og væri því með góða innsýn í aðstæður og vel að sér um málefni kæranda og drengsins.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu. Skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndar-yfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Er þetta til dæmis gert með þeim hætti að talsmaður aflar afstöðu barns en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess.

Í þessu máli var lögmaður fenginn til að koma fram sem talsmaður drengsins. Samkvæmt greinargerð lögmannsins ræddi hann við drenginn og fékk fram afstöðu hans að því leyti sem það var unnt [...]. Verður það að teljast fullnægjandi samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði hjá B var umgengni við kæranda tvisvar sinnum á tímabilinu X 2016 til X 2018, þ.e. á eins og hálfs árs tímabili. Í bæði skiptin var umgengni undir eftirliti. Að sögn B fór fyrri umgengnin fram X í þrjár klukkustundir en seinni umgengnin X, sömuleiðis í þrjár klukkustundir.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er mikilvægt að drengurinn finni að hann tilheyri fósturfjölskyldunni en af gögnum málsins má ráða að það sé honum mjög mikilvægt. Mestu máli skipti fyrir þroska hans og heilbrigði til lengri tíma að hann njóti stöðugra og öruggra tengsla við fósturforeldra.

Úrskurðarnefndin telur að mál drengsins sé í góðum farvegi eins og fram kemur í skýrslu talsmanns. Drengurinn hefur ekki þörf fyrir breytingar á núverandi högum og umgengni og þá virðist núverandi fyrirkomulag þjóna hagsmunum hans.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin. Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð B.


 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Úrskurður B frá X 2018 varðandi umgengni A við son sinn, D, er staðfestur.

 

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta