Mál nr. 181/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 181/2016
Föstudaginn 7. október 2016
A og B
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.
Með bréfi 15. maí 2016 kærði C hdl., f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016 vegna umgengni við drenginn, D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn D er fæddur X og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Drengurinn er vistaður í varanlegu fóstri og hefur dvalið á fósturheimilinu frá því að hann var X gamall. Móðir drengsins, E, var svipt forsjá hans með dómi héraðsdóms 26. maí 2015. Drengurinn er ófeðraður. Kærendur eru langafi og langamma drengsins í móðurætt. Móðir drengsins bjó um tíma á heimili kærenda, meðal annars þegar hún gekk með drenginn. Drengurinn á eldri bróður sem einnig er í fóstri og eiga kærendur umgengnisrétt við hann.
Með beiðni 16. desember 2015 og 17. febrúar 2016 óskuðu kærendur eftir umgengni við drenginn. Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. apríl 2016.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir á fundi 20. apríl 2016 og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður auk þess sem bent var á kæruheimild:
„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að D, hafi ekki umgengni við B og A, langömmu og –afa í móðurætt, enda teljast þau ekki nákomin drengnum í skilningi barnaverndarlaga.“
II. Sjónarmið kærenda
Í kæru vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016 er þess krafist að viðkennt verði að kærendur séu nákomnir drengnum og að þau fái umgengni við hann. Kærendur vísa til 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 41. gr. laga nr. 80/2011, varðandi kæruheimild.
Fram kemur að drengurinn hafi verið tekinn af móður sinni strax á fæðingardeildinni og kærendur hafi ekki fengið að hitta hann áður en hann var tekinn í umsjón barnaverndaryfirvalda. Drengurinn hafi umgengnisrétt við bróður sinn en ekki við ættingja úr móðurætt sinni, hvorki við ömmu, afa né aðra ættingja. Þá hafi drengurinn ekki umgengni við móður né föður. Samband kærenda við móður drengsins hafi í gegnum tíðina verið gott.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. barnaverndarlaga eigi barn sem er vistað utan heimilis rétt á að umgangast foreldra sína eða aðra sem eru því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum þess.
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga eigi þeir sem telji sig nákomna barninu sama rétt á umgengni við barn í fóstri og foreldrar, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Telja verði að það sé þessu barni til hagsbóta að læra að þekkja og tengjast ættingjum sínum og barnið geri það best með því að fá að njóta umgengni við kærendur. Þá samrýmist það hagsmunum barnsins að fá að kynnast langömmu og –afa sínum. Hafa ber í huga að kærendur séu orðin öldruð og óvíst sé hvort þau verði til staðar þegar drengurinn verður orðinn eldri. Kærendur kveðast hafa reynst móður drengsins mjög vel og því væri það mikil synd fengi hann ekki að kynnast þeim.
Kærendur benda á að í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga komi fram um 2. mgr. 74. gr. að vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin.
Kærendur vísa til umfjöllunar á heimasíðu umboðsmanns barna um 47. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í athugasemdum við ákvæðið segi: „Þegar litið er til þess hverjir teljist til náinna vandamanna mundi einkum horft til afa og ömmu barns“. Þar sem löggjafarvaldið hafi ekki séð ástæðu til þess að skilgreina sérstaklega nákomna þegar barnaverndarlögin voru samin, þá verði að ætla að löggjafinn hafi fyrst og fremst átt við þá sem væru almennt taldir nákomnir barninu og foreldrum þess. Ljóst sé að kærendur séu ekki aðeins blóðtengd móður barnsins heldur séu þau einnig vel tengd henni. Löggjafinn hafi tekið fram í umfjöllun um 74. gr. bvl. að með nákomnum sé ekki átt við skyldmenni, aðrir gætu fallið undir skilgreininguna sem nákomnir, svo sem nánir vinir fjölskyldu. Með þessu verði að ætla að löggjafinn hafi ætlað sér að skilgreiningin á nákomnum væri túlkuð frekar rúmt, en ekki þröngt eins og gert sé í þessu tilviki.
Kærendur benda einnig á að þáttaskil hafi orðið í barnavernd víðsvegar um heiminn með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Barnasáttmálinn hafi verið löggiltur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Barnasáttmálanum hafi verið ætlað að tryggja börnum nauðsynlega vernd og umönnun, sbr. 19. gr. sáttmálans. Meðal annars vísa kærendur til 8. gr. 1. mgr. sáttmálans þar sem fram komi að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barnsins til að viðhalda því sem auðkenni það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum, eins og viðurkennt sé með lögum, án ólögmætra afskipta. Barnasáttmálinn leggi með því þær skyldur á aðildarríki að þau skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda fjölskyldutengslum við fjölskyldu sína, þar á meðal við stórfjölskyldu sína. Það sé ekki hægt að virða rétt barns í fóstri til að viðhalda tengslum við stórfjölskyldu sína með því að neita öllum meðlimum fjölskyldunnar um alla umgengni við barnið eins og gert sé í þessu tilfelli. Ef virða eigi Barnasáttmálann eins og lög geri ráð fyrir, beri að heimila alla umgengni drengsins við stórfjölskyldu sína. Óumdeilt sé að kærendur teljist til stórfjölskyldu drengsins.
Í Barnasáttmálanum séu fjölskyldur í hávegum hafðar en enga skilgreiningu sé að finna á hugtakinu fjölskylda. Áhersla sé lögð á að börn alist upp innan fjölskyldu eða viðhaldi fjölskyldutenglsum ef aðstæður krefjist þess að börn séu aðskilin frá foreldrum sínum. Ráðstafanir, er varða börn, skulu ávallt taka mið af því sem barninu sé fyrir bestu. Aðildarríkjum Barnasáttmálans sé ætlað að veita fjölskyldum þá vernd og stuðning sem þær þurfa til að sinna þeirri ábyrgð sem á þeim hvíli vegna uppeldis og aðbúnaðar. Þá telji fræðimenn að almennt sé það börnum til góðs að þekkja stórfjölskyldu sína og þá ekki síst ömmu sína og afa.
Kærendur óska eftir því að fá umgengni við drenginn en hann njóti í dag engrar umgengni við nákomna úr móðurætt sinni. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sé það skylda aðildarríkja að stuðla að því að barn fái að viðhalda fjölskyldutengslum sínum. Slíkt verði ekki gert nema barnið fái notið umgengni við fjölskylduna. Í dag njóti drengurinn engrar umgengni við fjölskyldu sína en bróðir hans fái hins vegar umgengni við fjölskyldu sína. Fræðimenn telji nú að það sé almennt börnum fyrir bestu að njóta umgengni við fjölskyldu sína, jafnvel þó svo að engin tengsl hafi verið milli barnsins og fjölskyldunnar þegar það fór í fóstur. Það sé talið barninu fyrir bestu að læra um sögu sína, uppruna sinn og í leiðinni að læra það að þekkja sjálft sig og ættmenni sín. Ljóst sé að það sé hagur drengsins og til hagsbóta fyrir hann að njóta umgengni við kærendur, enda sé það eina leið barnsins til að tengjast fjölskyldu sinni.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að mati flestra fræðimanna stuðlar umgengni og samband fósturbarna við kynforeldra að góðum árangri í fóstri. Að sjálfsögðu þurfi að gæta jafnvægis á milli stöðugleika á uppvaxtarárum og gildis órofinna tengsla við upprunafjölskyldu. Rannsóknir sýni að börn í fóstri séu sorgmædd og reið yfir því að hafa ekki fengið að tengjast upprunafjölskyldum sínum. Þá sýni rannsóknir að börn í fóstri sem hafi tengsl við upprunafjölskyldur sínar líði mun betur og standi sterkar en þau börn í fóstri sem hafi ekki fengið að rækta slík sambönd. Umræddur drengur hafi enga umgengni við ættingja úr upprunafjölskyldu, það eitt og sér fari gegn rannsóknum fræðimanna.
Kærendur gagnrýna túlkun barnaverndarnefndar þess efnis að enginn teljist nákominn barni nema viðkomandi hafi haft mikla umgengni og samveru við barnið áður en barnið var tekið í fóstur. Sé horft til orðalags 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. bvl. sé ekki annað að sjá en að sá aðili, hvort sem hann er blóðtengdur því eða ekki, sem telji sig vera nákominn barninu eigi rétt til umgengni við barnið, enda sé það til hagsbóta fyrir barnið. Þarna sé um að ræða huglægt mat aðilans sjálfs á því hvort hann telji sig vera nákomin barninu eður ei. Það sé huglægt mat kærenda að þau séu nákomin drengnum. Þar með eigi þau rétt á umgengni ef það telst til hagsbóta fyrir drenginn. Að mati kærenda sýni rannsóknir fram á að það sé til hagsbóta fyrir börn í fóstri að eiga umgengni við upprunafjölskyldu sína.
IV. Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur
Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykavíkur 30. maí 2016 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Við úrlausn málsins hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur borið að meta hvort kærendur teldust nákominn drengnum í skilningi 2. mgr. 74. gr. bvl.
Barn tengist ekki öðrum einstaklingum tilfinningaböndum vegna líffræðilegra erfða eingöngu heldur gegnum stöðug tengsl í frumbernsku. Málið varði rúmlega X ára gamlan dreng sem barnaverndarnefnd hafi vistað á Vistheimili barna eftir að hann hafði dvalið á Landspítala í X eftir fæðingu. Hann hafi aldrei verið í umsjá foreldra sinna eða annarra fjölskyldumeðlima. Af vistheimilinu hafi drengurinn farið til fósturforeldra þar sem hann verði til 18 ára aldurs. Móðir drengsins, sem fór ein með forsjá hans, hafi verið svipt forsjá hans. Af þessum sökum hafi drengurinn hvorki haft tækifæri til að kynnast né tengjast kærendum. Niðurstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi verið sú að kærendur gætu ekki talist nákomin drengnum í þeim skilningi að tengslamyndun hefði ekki farið fram á milli þeirra og drengsins og eigi umgengni því ekki að fara fram. Drengurinn hafi í þessu tilfelli ekki sjálfstæða þörf fyrir tengsl við kærendur þar sem hann tilheyri nú annarri fjölskyldu. Hins vegar eigi barnið að sjálfsögðu rétt til að fá að vita um uppruna sinn þegar það hafi aldur og þroska til.
V. Sjónarmið fósturforeldra
Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til kröfu kærenda og barst hún með bréfi 25. ágúst 2016. Í bréfi fósturforeldra kemur fram að þau leggist gegn kröfum kærenda að öllu leyti út frá hagsmunum drengsins. Áður hafi verið úrskurðað um umgengni við móðurömmu drengsins sem sé dóttir kærenda. Niðurstaða kærunefndar barnaverndarmála hafi þá verið sú að móðuramman teldist ekki hafa verið nákomin drengnum í skilningi 2. mgr. 74. gr. bvl. og að það þjónaði ekki hagsmunum drengsins að stuðla að umgengni eða þvinga hana fram. Fósturforeldrar telja hið sama eiga við kröfu kærenda um umgengni.
Fósturforeldrar telja að með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur, utan líffræðilegrar fjölskyldu og strax við upphaf ævi sinnar, hafi markmiðið verið að búa honum nýja fjölskyldu til frambúðar. Horfa verði í það sem þjóni hagsmunum drengsins best. Aðalþarfir hans í dag séu þær að vera elskaður, finna til öryggis og stöðugleika, vera saddur, vel sofinn og fá örvun og hreyfingu ásamt því að halda áfram að tengjast sem best einu foreldrunum sem hann þekki og fjölskyldunni sem hann sé búinn að eignast.
Fósturforeldrar kveðast ekki vita ástæður þess að kærendur vilji umgengni við drenginn sem þau hafi aldrei hitt. Þau telji að umgengni þeirra við drenginn komi einungis til greina ef sérfræðingar í málefnum barna og fjölskyldna hafi lagt mat á þeirra aðstæður og barnavernd sé samþykk niðurstöðunni. Fósturforeldrum sé vel kunnugt um réttindi barns til að þekkja uppruna sinn og þau muni styðja við og tryggja þann rétt drengsins svo fremi sem það stuðli að stöðugleika í uppvexti, öryggi og hafi sem minnsta röskun á líf hans. Hafa beri í huga að umgengni þurfi að þjóna hagsmunum barns en ekki vera á forsendum fullorðinna og þjóna þeirra hagsmunum. Eins og staðan sé í dag telja fósturforeldrar ekki forsendur fyrir því að samþykkja umgengni við einstaklinga, enda óljóst að hún þjóni hagsmunum og þörfum drengsins og gæti jafnvel verið ósamrýmanleg markmiðum fósturráðstöfunar.
Staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ekki hinn kærða úrskurð varðandi neitun á beiðni kærenda um umgengni við drenginn og af þeim ástæðum sem hafa verið raktar og heimili umgengni, fara fósturforeldrar vinsamlegast fram á að umgengni verði takmörkuð og mjög hóflegur tímarammi verði settur á hverja umgengni og að hún fari fram undir eftirliti barnaverndar hverju sinni.
VI. Niðurstaða
Í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að barn eigi rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt. Samkvæmt þessu er réttur barnsins til umgengni við kærendur takmarkaður af þeim skilyrðum sem þarna koma fram.
Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt því orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að barnaverndarnefnd beri að meta hvort aðili teljist nákominn barni í skilningi lagaákvæðisins. Jafnframt er tekið fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Við úrlausn málsins ber að meta hvort kærendur teljist nákomnir barninu í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Um er að ræða dreng á X ári sem barnaverndarnefnd vistaði á Vistheimili barna þegar hann hafði dvalið á Landspítala í X eftir fæðinguna. Hann hefur aldrei verið í umsjá foreldra sinna eða annarra fjölskyldumeðlima. Af vistheimilinu fór drengurinn til fósturforeldra, en eins og fram hefur komið var móðir drengsins svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2014. Af þessum sökum hefur drengurinn hvorki haft tækifæri til að kynnast né tengjast kærendum í máli þessu. Kærendur geta því ekki talist nákomin barninu þar sem tengslamyndun hefur ekki farið fram á milli kærenda og barnsins.
Þá ber jafnframt við úrlausn málsins að líta til þess hvort það sé barninu til hagsbóta að hafa umgengni við kærendur.
Í gögnum málsins kemur fram að barnið hefur verið hjá fósturforeldrunum frá X en það var þá X-gamalt. Fram hefur komið að barnið muni verða áfram hjá þeim þar til það verður 18 ára. Fósturforeldrarnir hafa því tekið að sér það vandasama verkefni að ala barnið upp, búa því sem bestan hag og sjá til þess að þörfum þess verði sinnt á þann hátt sem þjónar hagsmunum þess.
Mikilvægt er fyrir barnið að öryggi þess verði tryggt þar sem grundvallarþörfum þess verði sinnt. Barnið þarf að finna fyrir grunnöryggi en einn mikilvægasti þáttur þess er heilbrigð tengslamyndun. Slík tengslamyndun þarf að fara fram í friði og ró þar sem minnstir streituvaldar eða álagsþættir verði til staðar. Fósturforeldrarnir hafa lagst gegn því að kærendur hafi umgengni við drenginn þar sem þau telja hana ekki þjóna hagsmunum hans.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að barnið hafi ekki sjálfstæða þörf fyrir tengsl við kærendur þar sem það tilheyrir nú annarri fjölskyldu. Barnið á að sjálfsögðu rétt á að fá að vita um uppruna sinn þegar það hefur aldur og þroska til. Framtíðin mun síðan skera úr um það hvort um umgengni verður þá að ræða eða ekki.
Þá telur úrskurðarnefndin það ekki vera til hagsbóta fyrir barnið að þvinga fram umgengni. Nefndin telur að ef umgengni er komið á gegn vilja fósturforeldra geti það truflað fóstrið verulega og skapað óþarfa togstreitu með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir barnið. Það getur aldrei þjónað hagsmunum barns að aðalumönnunaraðilar og ættingjar séu ósáttir. Fyrstu árin í lífi barnsins eru mjög mikilvæg með tilliti til þess að barnið finni öryggi og fái svigrúm til þess að mynda varanleg tengsl við umönnunaraðila til frambúðar. Tengslamyndun barnsins verður best tryggð með því að hún fari fram ótrufluð sem er til þess fallið að stuðla að öryggi og velferð barnsins. Því er ekki rétt að taka þá áhættu sem felst í því að raska stöðugleika og öryggi drengsins í lífi hans nú.
Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umgengni barnsins við kærendur við núverandi aðstæður þjóni ekki hagsmunum barnsins og þörfum. Samkvæmt því og með vísan til 4. mgr., sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl., ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. apríl 2016 varðandi umgengni A og B við D, er staðfestur.
Kári Gunndórsson
Guðfinna Eydal
Sigríður Ingvarsdóttir