Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 431/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 431/2019

Mánudaginn 20. janúar 2020

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. október 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar Kópavogs, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 24. september 2019, um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar um aðstæður C, dóttur kæranda. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd B barst tilkynning undir nafnleynd þann X. Efni tilkynningar var að barnið C, sem er X ára gömul, væri óhrein og að faðir hennar ætti við áfengisvanda að stríða og misnotaði lyf. Barnavernd Kópavogs hóf könnun málsins samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Foreldrar stúlkunnar voru boðuð í viðtöl X. Í viðtalinu afhentu foreldrar bréf frá leikskóla stúlkunnar, dags. X, og ódagsett bréf frá vinnuveitanda föður. Í kjölfar viðtalsins fór starfsmaður Barnaverndar B í heimsókn á heimili móður stúlkunnar. Starfsmaður Barnaverndar B óskaði eftir því að faðir stúlkunnar færi vímuefnapróf. Faðir samþykkti það og mældist neikvæður fyrir öllum efnum. Beiðni um upplýsingar samkvæmt 44. gr. bvl. var send leikskóla stúlkunnar með bréfi, dags.X Svar barst með bréfi, dags. X.

Í greinargerð Barnaverndar B samkvæmt 1. mgr. 23. gr. bvl., dags. X, kemur fram að könnun hafi verið framkvæmd og tilkynningarefnið hafi ekki verið staðfest. Foreldrar hafi báðir neitað því að tilkynningarefni væri rétt. Í upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar hafi komið fram að umhirða og aðbúnaður stúlkunnar væri til fyrirmyndar. Stúlkan komi ávallt vel hirt og snyrtileg til fara í leikskólann. Við könnun hafi einnig verið farið á heimili stúlkunnar sem hafi verið snyrtilegt. Faðir hafi mælst neikvæður fyrir öllum efnum. Faðir hafi lagt fram meðmæli vinnuveitanda síns þar sem fram komi að vegna starfs hans athugi fyrirtækið reglulega hvort starfsmenn séu undir áhrifum vímuefna. Fram hafi komið að enginn grunur væri um að faðir stúlkunnar notaði vímuefni. Í ljósi þessara könnunar og upplýsinga hafi málinu verið lokað.

Með beiðni kæranda til Barnaverndar B var þess óskað að nafnleynd tikynningarinnar yrði aflétt. Beiðni var hafnað með ákvörðun, dags. 24. september 2019. Í ákvörðun Barnaverndar B frá kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnavernd B ber að virða ósk tilkynnenda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því sbr. 19. gr. barnaverndarlaga. Tilgangur nafnleyndar tilkynnenda er að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Jafnframt vísar löggjafinn til þess sjónarmiðs að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hag barna þó full þörf væri á afskiptum hennar.

Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé þér mikilvægt að vita hver tilkynnandi er verður ekki talið að fyrir hendi séu aðstæður til þess að aflétta megi nafnleynd, sérstaklega með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir barnaverndarstarf almennt.      

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að nafnleynd verði aflétt af þeirri tilkynningu sem Barnavernd B barst þann X vegna dóttur hennar.

Kærandi kveðst ekki eiga til orð sem lýst geti því hvernig henni hafi liðið síðan hún hafi fyrst heyrt af málinu. Hún hafi daglega fengið grátköst, martraðir og kvíðaköst. Það sem valdi kæranda vanlíðan séu vangaveltur um hvort hún sjái þennan einstakling daglega, hvort þetta sé einhver sem henni þyki vænt um, hvort þetta sé einhver sem hati hana og barnið hennar og hvort þetta sé einhver sem umgangist börnin hennar.

Kærandi tekur fram að þessar ásakanir séu byggðar á fölskum grunni og vonandi hafi þau sýnt fram á það. Kærandi kveðst mikill stuðningsmaður nafnleyndar en ekki í þessu tilviki þar sem ekkert sé til í þeim ásökunum sem bornar hafi verið fram. Kærandi telur að það sé ósanngjarnt að það séu engar afleiðingar fyrir þessa einstaklinga sem séu að „leika“ sér með kerfið. Til sé fólk sem hafi hugsanlega gaman af því að gera öðrum illt eins og í þessu tilfelli. Það sé hræðileg tilhugsun að þessi einstaklingur komist upp með þessa fölsku tilkynningu og að þessi einstaklingur sé hugsanlega ánægður með vanlíðan kæranda. Kærandi tekur fram að hugsanlega þurfi hún að fá aðstoð sérfræðinga þar sem hún telji að fjölskyldu sinni sé ógnað. Kærandi tekur fram að það skipti hana öllu máli að fá að vita hver hafi tilkynnt, sérstaklega svo að hún geti verndað fjölskyldu sína frá þessum einstaklingi. Þá telur kærandi að hún verði fyrir minni persónulegum skaða en ella verði nafnleynd aflétt. 

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B X er vísað til þeirra svara sem kæranda voru veitt í bréfi, dags. X. Þar sé vísað til þeirrar mikilvægu meginreglu að virða eigi nafnleynd tilkynnanda. Að öðrum sökum geti skapast sú hætta að almenningur veigri sér við því að tilkynna um bágar aðstæður barna. Hagsmunir barnaverndarstarfs í heild sinni eigi að vega þyngra en hagsmunir einstakra málsaðila af því að fá nafnleynd tilkynnanda aflétt.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Barnaverndar B um að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst nefndinni X.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. Reglurnar tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á þeim að hefja ekki könnun máls nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl. Könnun í máli því, sem hér er til meðferðar hjá Barnavernd B, hófst í kjölfar tilkynningar er barst X um aðbúnað dóttur kæranda og áfengisvanda og misnotkun föður stúlkunnar á lyfjum. Aflað var upplýsinga um aðbúnað stúlkunnar og viðtal tekið við kæranda og föður. Einnig tók faðir stúlkunnar fíkniefnapróf sem reyndist neikvætt. Niðurstaða könnunar staðfesti ekki tilkynningarefnið og gaf ekki annað til kynna en að aðstæður stúlkunnar væru góðar.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og  þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 24. september 2019 um að synja kröfu kæranda, A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningu vegna dóttur hennar, C er staðfest.

 

 

Kári Gunndórsson

 

      Guðfinna Eydal                                                                   Björn Jóhannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta