Mál nr. 21/2012
Miðvikudaginn 16. janúar 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 21/2012, A, gegn barnaverndarnefnd B, vegna umgengni hennar við dóttur hennar, C. Kveðinn var upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
I.
Málatilbúnaður og kröfugerð
Í bréfi Gunnars Inga Jóhannssonar hdl. til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 16. október 2012, var kærður, fyrir hönd A, úrskurður barnaverndarnefndar B frá 18. september 2012 þess efnis að umgengni kæranda við dóttur sína, C, skuli vera annan hvern fimmtudag í allt að þrjá tíma undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar B. Umgengnin skuli fara fram í húsnæði á vegum nefndarinnar. Skilyrði fyrir umgengni voru sett þau að kærandi væri án vímuefna. Úrskurðurinn gildir þar til forsjársviptingarmál er leitt til lykta fyrir D.
Stúlkan hefur verið í fóstri frá 28. mars 2011. Hún var áður vistuð á E frá 3. febrúar 2011 eftir að móðir hennar lýsti því yfir að hún treysti sér ekki til þess að annast stúlkuna. Að kröfu barnaverndarnefndar B er nú rekið forsjársviptingarmál fyrir D gegn kæranda. Stúlkan er ófeðruð en F, sem kærandi hefur verið í sambandi við með hléum síðan á meðgöngunni, hefur að hluta til gengið henni í föðurstað. Kærandi er barnshafandi og á von á barni í febrúar 2013.
Kærandi krefst þess að umgengni hennar við dóttur sína verði aðra hverja helgi frá kl. 12.00 á laugardegi til kl. 18.00 á sunnudegi.
Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fósturforeldrar C telja að miklar breytingar á umgengni stúlkunnar við kæranda nú séu til þess fallnar að raska því góða jafnvægi sem einkenna líf stúlkunnar í dag.
II.
Málavextir
C og er því tæpra sex ára gömul. Barnavernd B hefur haft afskipti af málefnum kæranda frá því að hún gekk með telpuna, vegna vímuefnavanda kæranda. Gerð var meðferðaráætlun og stutt við kæranda á meðgöngunni og eftir hana. Kærandi flutti til G í upphafi árs 2009 og kom aftur til landsins í ágúst 2010. Miklar áhyggjur voru af uppeldisskilyrðum telpunnar í G og barnaverndaryfirvöld þar töldu að hagsmunum hennar væri best borgið með vistun utan heimilis, en kærandi flutti með stúlkuna til Íslands áður en til þess kom.
Kærandi hefur lengi átt við vímuefnavanda að etja og glímt við geðræn vandamál. Hún hefur notið ýmiss konar aðstoðar, svo sem farið í vímuefnameðferðir, sótt AA fundi, nýtt sér göngudeild SÁÁ og notið stuðnings geðlækna og starfsmanna barnaverndaryfirvalda. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi virðist ekki hafa innsýn í vanda sinn og ekki gera sér grein fyrir þeim áhyggjum sem starfsmenn Barnaverndar B hafi haft um langt skeið. Hún telji hlutina ýmist á misskilningi byggða eða þá að hún geri lítið úr neyslu sinni og hegðun sinni þegar hún hefur verið í neyslu.
C var vistuð á E frá 3. febrúar 2011 eftir að kærandi lýsti því yfir að hún treysti sér ekki að annast telpuna og fór fram á það við starfsmenn að telpan fengi nýja móður. Kærandi greindi á sama tíma frá ofbeldi af sinni hálfu gagnvart telpunni. Þann 14. febrúar 2011 var stúlkan kyrrsett á E skv. 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, eftir að kærandi neitaði að samþykkja áframhaldandi vistun. Í framhaldinu náðist samkomulag við kæranda um vistun telpunnar utan heimilis í sex mánuði. Barnaverndarnefnd B úrskurðaði 6. september 2011 um tveggja mánaða vistun stúlkunnar utan heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þann 30. desember 2011 féllst D á kröfu barnaverndarnefndar um vistun stúlkunnar utan heimilis til 1. maí 2012. Á fundi barnaverndarnefndar B 17. apríl 2012 var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og er það mál nú rekið fyrir D. Kærandi samþykkti ekki vistun stúlkunnar utan heimilis þar til niðurstaða fengist í forsjársviptingarmálinu og var stúlkan því vistuð áfram á fósturheimilinu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.
H sálfræðingur gerði forsjárhæfnimat á kæranda og er það dagsett 27. júlí 2011. Þar kemur meðal annars fram það mat sálfræðingsins að forsjárhæfni kæranda teljist verulega skert, hún þurfi lengri tíma til að koma undir sig fótunum og ná lengra tímabili sem allsgáð. Þá telji hann kæranda þurfa að ná meiri stöðugleika og aðlögun að samfélaginu. Hún hafi þörf fyrir þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu þar sem meðal annars yrði lagt mat á þörf fyrir lyfjameðferð, auk þess sem nauðsynlegt væri að láta reyna á sálfræðimeðferð þar sem unnið væri að því að efla almenna tilfinningastjórn, meðal annars gagnvart reiði og kvíða með það að markmiði að auka mótlætisþol og tilhneigingu kæranda til að leita í fíkniefni og beita ofbeldi þegar hún er undir álagi. Auk þess þyrfti að huga að iðjuþjálfun með einstaklingamiðaða starfsendurhæfingu í huga.
Kærandi bað I geðlækni að veita umsögn um hæfni hennar til þess að annast C. Í umsögn geðlæknisins, dags. 28. ágúst 2012, kemur fram að erfiðleikasaga kæranda nái til frumbernsku. Mjög margir hafi komið að því að hjálpa henni á lífsleiðinni. Hafi það verið gert í leikskóla, í skólum, á geðdeildum og uppeldisstofnunum unglinga. Þegar áfengi og önnur vímuefni hafi farið að lita líf hennar hafi tekið við þær meðferðarstofnanir sem hjálpi fólki í slíkum vanda. Vorið 2011 hafi kærandi farið, að undirlagi Barnaverndar, í meðferð á J og í sálfræðilegt mat. Tilgangurinn hafi verið sá að auka hæfni hennar til að sinna móðurhlutverkinu og að afla upplýsinga sem yrðu undirstaða áframhaldandi aðstoðar Barnaverndar við móður og dóttur. Síðan hafi komið gott tímabil í lífi kæranda. Hún sé í föstu húsnæði, stundi vinnu reglulega, engin merki séu um vímuefnaneyslu og hús sé virkur þátttakandi í K. Aðgerð Barnaverndar frá vorinu 2011 hafi borið fullkominn árangur. Líf kæranda sé nú í góðum farvegi og hafi þann stöðugleika sem þurfi til þess að hún fari með forsjá dóttur sinnar. Barnavernd þurfi þó áfram að fylgjast með því að allt gangi vel og geta komið fljótt til hjálpar þegar eitthvað fari úrskeiðis.
Kærandi hefur snúið aftur út á vinnumarkaðinn og starfar í bakaríi. Hún kveðst ekki vera í neyslu og viðurkenndi síðast kannabisneyslu í marsmánuði 2012.
C hefur verið í fóstri frá 28. mars 2011. Hún er á leikskólanum L og samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum virðist stúlkunni líða þar mjög vel. Hafi skapofsaköstum farið fækkandi en starfsmönnum leikskólans hafi virst hún vera í nokkru ójafnvægi eftir heimsóknir til kæranda sem lýsi sér í pirringi við önnur börn og starfsfólk en þó hafi ekki borið mikið á þessu.
Mál kæranda var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 14. júní 2011 vegna óska kæranda um umgengni við C. Í kjölfar fundarins náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni. Fram kemur í gögnum málsins að umgengni hafi í kjölfarið gengið misvel fyrir sig eins og ítarlega er rakið í gögnum málsins.
Kærandi skrifaði undir umgengnissamning 8. september 2011, en þá lá fyrir krafa kæranda um umgengni aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags. Til vara vildi hún að telpan kæmi í gistingu í eina nótt. Starfsmenn töldu ekki tímabært að umgengni yrði með gistingu og varð að samkomulagi að umgengni yrði 10. og 24. september kl. 10‒18 á heimili kæranda og ef vel gengi yrði umgengni aukin og að stúlkan gisti hjá kæranda. Þessi umgengni yrði til reynslu og endurskoðuð eftir 30. nóvember 2011. Skilyrði fyrir umgengni var að kærandi væri allsgáð og undirgengist vímuefnapróf í upphafi umgengni. Einnig var skilyrði að óboðað eftirlit yrði með umgengni auk eftirlits við upphaf og lok umgengni. Eins og rakið er í gögnum málsins gekk umgengni vel samkvæmt þessum samningi framan af en síðan fór að halla undan fæti.
Kærandi óskaði rýmri umgengni og þar sem ekki náðist samkomulag þar að lútandi kvað barnaverndarnefnd B upp úrskurð 7. febrúar 2012 um umgengnina í febrúarmánuði og ákvað jafnframt að málið skyldi leggjast fyrir nefndina að nýju 6. mars 2012. Umgengnin í febrúar gekk vel. Á fundi sínum 6. mars 2012 ákvað barnaverndarnefnd hvernig umgengni yrði háttað í mars og apríl. Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að krefjast forsjársviptingar kæranda fyrir dómi 17. apríl 2012 fór umgengnin fram samkvæmt samningum við kæranda. Ekki varð af umgengninni í maíbyrjun sem ákveðin hafði verið þar sem kærandi reyndist hafa reykt kannabis þremur dögum fyrr. Sumarið 2012 var umgengni kæranda við stúlkuna sex sinnum. Þann 19. ágúst 2012 átti að vera umgengni en kærandi komst ekki vegna vinnu og féll umgengni því niður. Var henni boðið að mæta í umgengni 30. ágúst 2012 en vegna anna eftirlitsstarfsmanns Barnaverndar B var ekki unnt að standa við það. Umgengnin átti því næst að vera 6. september 2012 en kærandi mætti ekki og lét ekki vita af forföllum. Hún hafði samband við starfsmann 7. september 2012 og kvaðst hafa gleymt umgengninni vegna anna. Þann 18. september 2012 var málið tekið til úrskurðar hjá barnaverndarnefnd B.
III.
Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst rýmri umgengni við dóttur sína og telur að ákvörðun barnaverndarnefndar B, um að hafa umgengni svo takmarkaða, sé byggð á ómálefnalegum grundvelli og að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Jafnframt byggir hún á því að ákvörðun barnaverndarnefndar hafi ekki verið tekin með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi. Kærandi bendir á að barnaverndarnefnd taki undir það álit að stúlkan sýni miklar framfarir og virðist líða vel og telji að að hluta til megi rekja það til þess hvernig umgengninni sé háttað og hversu vel umgengnin hafi gengið. Barnaverndarnefnd hafi með þeim hætti tekið undir að umgengni hafi góð áhrif á stúlkuna, en rökstuðning skorti fyrir því að aukin umgengni hafi slæm áhrif. Þvert á móti megi það vera ljóst að aukin umgengni stuðli að bættu og heilbrigðara sambandi móður og barns.
Kærandi bendir á að það liggi fyrir að hún hafi glímt við vímuefnavanda frá unglingsárum. Staða hennar í dag sé hins vegar gjörbreytt og ekki sé tekið nægjanlegt tillit til þess í úrskurðinum. Hún uppfylli nú öll skilyrði sem sett hafi verið í september 2011 fyrir umgengni aðra hverja helgi. Ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að ákveða umgengni með sambærilegum hætti og þá hafi verið gert.
Kærandi vekur athygli á því að barnaverndarnefnd víki ekki einu orði að fyrirliggjandi mati geðlæknis frá 28. ágúst 2012, þar sem fram komi að líf kæranda sé í góðum farvegi og að hún hafi nú þann stöðugleika sem þurfi til þess að fara með forsjá dóttur sinnar, heldur sé eingöngu vísað til gamalla sálfræðiskýrslna, þar sem matið sé kæranda í óhag, ákvörðun sinni til stuðnings. Þær skýrslur endurspegli á engan hátt stöðu málsins í dag.
IV.
Sjónarmið fósturforeldra
Fósturforeldrar C eru M og N. Í bréfi sínu, dags. 9. janúar 2013, kemur fram að þau telji að ekki sé vert að gera stórar breytingar á umgengni kæranda við stúlkuna þar sem stutt sé í að dómur falli í máli þessu. Það hafi verið ákveðin regla á umgengninni undanfarna mánuði og þau telji að miklar breytingar þar á séu til þess fallnar að raska því góða jafnvægi sem stúlkan sé í. Auk þess finnist þeim vart taka því að gera slíkar breytingar þegar sjái fyrir endann á dómsmálinu en þegar dómur hafi fallið verði óhjákvæmilega mikil breyting á högum stúlkunnar. Það finnist þeim meira en nóg fyrir hana.
V.
Sjónarmið barnaverndarnefndar B
Af hálfu barnaverndarnefndar B kemur fram að aðlögun stúlkunnar á fósturheimilinu gangi mjög vel og líði henni þar vel og hafi hún tengst fósturforeldrunum sterkum böndum. Hafi hún með því náð ákveðnum stöðugleika sem hún hafi ekki haft áður í sínu lífi. Í skýrslu leikmeðferðarfræðings, dags. 8. maí 2012, komi fram að stúlkan glími við innri togstreitu og sé tilfinningalega að reyna að halda utan um sig sjálf. Hugmyndir hennar varðandi hlutverk móður og barns hafi víxlast, þ.e. barnið eigi að sjá um móðurina en því ekki að vera öfugt farið.
Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum L, sem borist hafi 16. mars 2012, virðist stúlkunni líða mjög vel á leikskólanum. Skapofsaköstum hafi farið fækkandi en starfsmönnum hafi virst hún vera í nokkru ójafnvægi eftir heimsóknir til kæranda sem lýsi sér í pirringi við önnur börn og starfsfólk, en þó hafi ekki mikið borið á því. Miklar framfarir hafi orðið á líðan og hegðun stúlkunnar eftir að hún var vistuð í tímabundnu fóstri. Stöðugleiki hafi verið í lífi hennar og meðferð viðhaldið með góðum árangri hjá leikmeðferðarfræðingi. Stúlkan njóti sín vel í leikskólanum og finni öryggi í aðstæðum sínum hjá fósturforeldrum. Kærandi hafi óskað rýmri umgengni í ljósi þess hve umgengnin hafi gengið vel. Umgengni væri of lítil til að efla tengsl móður og barns. Á fundi sínum 18. september 2012 var það niðurstaða barnaverndarnefndar B að líðan C í dag megi að hluta til rekja til þess hvernig umgengni sé háttað og hversu vel hún hafi gengið. Stúlkan hafi öðlast stöðugleika og öryggi á fósturheimilinu og njóti góðra samskipta við móður sína. Hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að það þjóni ekki hagsmunum stúlkunnar að núverandi við umgengni yrði hróflað á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir D en þó sé rétt að hún verði aukin um klukkustund. Skilyrði fyrir umgengni er að kærandi sé án vímuefna.
VI.
Niðurstaða
Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. 74. gr. sömu laga nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til þess að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.
Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við dóttur sína en verið hefur. Kærandi hefur allt frá barnæsku glímt við margvíslegan sálrænan, félagslegan og geðrænan vanda en á unglingsárum hennar jók fíkniefnavandi á þá erfiðleika sem kærandi hefur átt við að stríða. Dóttir kæranda hefur verið í tímabundnu fóstri frá 28. mars 2011. Beðið er niðurstöðu í forsjársviptingarmáli sem rekið er fyrir D gegn kæranda.
Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni stúlkunnar við kæranda annan hvern fimmtudag í allt að þrjá tíma í senn undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar B. Kærandi krefst umgengni við stúlkuna aðra hverja helgi, frá kl. 12.00 á laugardegi til kl. 18.00 á sunnudegi.
Eins og rakið er í gögnum málsins, þar á meðal gögnum starfsmanna leikskólans L, þar sem telpan hefur verið í leikskóla, hefur orðið breyting til batnaðar á hegðun telpunnar eftir að hún var vistuð í tímabundið fóstur. Líf hennar einkennist af meiri stöðugleika en fyrr, en ljóst er af gögnum málsins að stúlkan hefur borið mörg einkenni vanlíðunar og vanrækslu og hefur það sett mark sitt á hana, hegðan hennar og samskipti við börn og fullorðna.
Þrátt fyrir að kærandi hafi sýnt bataeinkenni að undanförnu eins og fram kemur í skýrslu I geðlæknis, frá 28. ágúst 2012, þykir í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í málinu, þegar enn er óvíst um niðurstöðu forsjársviptingarmáls þess sem rekið er fyrir D, ekki rétt að breyta þeirri tilhögun umgengni sem ákveðin hefur verið með hinum kærða úrskurði.
Í ljósi alls framangreinds og þegar litið er til hagsmuna stúlkunnar af því að sem mest ró, stöðugleiki og jafnvægi ríki í lífi stúlkunnar þar til niðurstaða fæst um forsjá hennar, verður ekki talið að rýmri umgengni en sú umgengni sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði þjóni þörfum hennar og hagsmunum, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Því er hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar B frá 18. september 2012 staðfestur.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Úrskurður barnaverndarnefndar B, frá 18. september 2012, varðandi umgengni A við dóttur sína, C, er staðfestur.
Ingveldur Einarsdóttir, formaður
Guðfinna Eydal
Jón R. Kristinsson