Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 190/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 190/2023

Mánudaginn 25. september 2023

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 11. apríl 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs Barnaverndar B frá 23. mars 2023 vegna umgengni hans við D. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er X ára gamall drengur. Kærandi var sviptur forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019 sem var síðan staðfestur í Landsrétti þann 11. október 2019. Drengurinn er í varanlegu fóstri. Kærandi er faðir drengsins.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs B þann 23, mars 2023. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 30. janúar 2023, sem lögðu til umgengni, tvisvar á ári í 1,5 klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B. Kærandi var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Umdæmisráð B ákveður að C, hafi umgengni við föður sinn, A, tvisvar sinnum á ári í 1,5 klukkustundir í senn í húsnæði Barnaverndar B eða öðrum stað sem aðilar koma sér saman um. Eftirlitsaðili á vegnum Barnaverndar B verði viðstaddur umgengni og fósturmóðir, kjósi hún það. Umgengni skal vera í mars og nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni er að faðir sé edrú og í jafnvægi að mati starfsmanna Barnaverndar B.

Tillögu um að faðir fái myndir og upplýsingar af drengnum í tengslum við umgengni er vísað frá umdæmisráðinu.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. apríl 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 18.apríl 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni þann 2. maí 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. maí 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Viðbótagögn bárust frá lögmanni kæranda með bréfi 5. júní 2023. Ekki var aflað frekari gagna.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurði um umgengni verði hrundið og honum breytt á þann veg að kröfur hans um umgengni verði teknar til greina.

Vísað sé til greinargerðar kæranda, fylgigagna hennar og röksemda sem þar koma fram. Því til viðbótar og m.t.t. úrskurðar umdæmisráðs barnaverndar vilji kærandi koma eftirfarandi á framfæri.

Í fyrsta lagi komi hvergi fram í úrskurði umdæmisráðs að ákvörðun um umgengni hafi byggt á 3. mgr. 9. gr. barnasáttmálans SÞ, sem sé það lagaákvæði sem gildir gagngert um rétt drengsins til umgengni við föður sinn. Eingöngu sé vísað almennt í barnasáttmálann án nokkurra frekari skýringa þar á.

Í öðru lagi séu engin haldbær gögn, né rannsóknir sem styðja þær kenningar úrskurðarnefndarinnar, sem umdæmisráð byggir niðurstöðu sína á, um að eðlileg umgengni fósturbarns við blóðforeldri ,,trufli barnið“ eða feli í sér ,,rask á ró og stöðugleika þess í fóstri“.

Í skýrslu E megi þvert á móti sjá að drengurinn sé í ríkri þörf fyrir föðurímynd í lífi sínu, ríkri þörf fyrir að eiga rík og heilbrigð tengsl við blóðföður sinn og stórfjölskyldu. Þess megi geta að E sé doktor í sálfræði með ríka reynslu á þessu sviði, sjá hér úrdrátt úr skýrslu hennar um hagsmuni barnsins:

„... barnið hefur mikla hagsmuni af því að tengjast föður og fjölskyldu sína. Náin bönd taka tíma að þróast og þroskast en ef unnið er markvisst að uppbyggingu tengslanna með þeirri vitneskju sem empirískar rannsóknir í sálfræði hafa fært heiminum þá er mest líklegt að tengslin blómstri og barnið með þeim. Hér er um mikilvæga hagsmuni barnsins að ræða ekki eingöngu á þessum tíma heldur ævina á enda.“ (bls. 7).

Um þessa hagsmuni barnsins sé ekkert fjallað í úrskurði umdæmisráðs, heldur einskorðast umfjöllum ráðsins við þá rörsýn á hagsmuni drengsins að alast upp við ,,stöðugleika og ró í fóstri“. Ekkert sé fjallað um þá röskun á ró og stöðugleika barns sem felst í algjöru tengslarofi við föður sinn og alla föðurfjölskyldu, við rætur sínar og blóðfjölskyldu. Eða hvort það feli í sér röskun á stöðugleika að vera með öllu útilokaður frá því að mæta í jólaboð hjá frænku, njóta föðurímyndar og ríkra og náinna tengsla við föður sinn. Ljóst sé að drengurinn njóti mun fleiri og fjölbreyttari hagsmuna heldur en eingöngu þessara, og allt hagsmuna mat sem sé svo takmarkað sem þetta sé ófullnægjandi og í reynd beinlínis rangt.

Á því sé byggt að hagsmunamatið sem fór fram af hálfu umdæmisráðs Barnaverndar B feli þar með í sér brot gegn 8. gr. Mannréttindasáttmala Evrópu (MSE), 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, auk 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Vísast í þessu sambandi til dóms Manréttindadómstóls Evrópu (MDE) í málinu NT.S. og aðrir gegn Georgíu. Þar hafi verið talið að ófullnægjandi og einhliða mat á því hvað teldist vera börnunum fyrir bestu fæli í sér brot gegn 8. gr. MSE. Horfa þurfi til allra þeirra þátta sem geta haft möguleg áhrif á hagsmuni barns til framtíðar og vega og meta hvaða áhrif mismunandi ákvarðandi kynnu að hafa á hagsmuni barns og velja þann kost sem sé bestur. Skýrar leiðbeiningar um hvernig slíkt mat fari fram megi finna í almennum athugasemdum barnaréttarnefnd Sameinuðu Þjóðanna (general comment no. 14 best interests of the child). Þessar athugasemdir leggi MDE m.a. til grundvallar þegar hann skýrir 8. gr. MSE í málum sem varða réttindi barna (sjá t.d. dóm MDE í málinu NT.S. og aðrir gegn Georgíu). Athygli sé vakin á að þau sjónarmið, sem séu þau einu sem ráðið og úrskurðarnefndin horfir á þegar úrskurðað sé í málum um umgengni, þ.e. stöðugleiki og ró, séu ekki einu sinni að finna í umræddum leiðbeiningum. Rennur það enn styrkari stoðum undir röksemdir föður að þau sjónarmið hafi mun minna vægi en þeim sé veitt í framkvæmd og önnur og mikilvægari sjónarmið eigi fremur við og vegi mun þyngra. Þá fæst ekki séð að þessi sjónarmið Umdæmisráðs byggi ekki á neinum haldbærum gögnum eða rannsóknum, öðrum en ,,venjubundinni framkvæmd“ úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í þriðja lagi leggi umdæmisráð til grundvallar niðurstöðu sinni, skýrslu F félagsráðgjafa sem hafi verið hnekkt í greinargerð föður og með skýrslu E. Ítarleg gagnrýni og hrakning á ,,rannsóknaraðferðum“ Ragnheiðar koma fram í skýrslu E og greinargerð föður til Umdæmisráðs. Vísast til þess sem þar kemur fram og tekin stuttur kafli úr þeirri gagnrýni hér:

,,Skv. mati E, sem er með doktorsgráðu í sálfræði (í vísindalegri aðferðafræði, nánar tiltekið) og meistaragráðu í atferlisfræði og meðferð, eru þær aðferðir sem F notaði í mati sínu hvorki vísindalega viðurkenndar, og í reynd hafa verið vísindalega afsannaðar, né til þess fallnar að meta það sem meta átti (þ.e. gæði tengsla feðganna). Þá gerir hún mjög alvarlegar athugasemdir við aðferðafræðina, hæpnar, hlutdrægar og neikvæðar ályktanir F, gildru sem lögð var fyrir föður og síðan beitt gegn honum með neikvæðum hætti, sem og gildi þess yfirhöfuð að framkvæma tengslamat þegar ljóst er að búið var að slíta tengslin á milli föðurs og sonar fyrir mörgum árum síðan.“

Í fjórða lagi sé á því byggt að um brot ráðsins gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sé að ræða. Með því að byggja ákvörðun sína á ófullnægjandi lagagrundvelli og sleppa því að fjalla um þau ákvæði barnasáttmálans sem um sakarefnið gilda, hefur umdæmisráð farið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Í úrskurði sé eingöngu byggt á 74. gr. barnaverndarlaga og það ákvæði túlkað til samræmis við 4. tl. 3. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur. Síðan gangi túlkunin á því ákvæði í berhögg við ákvæði mannréttindasáttmálans og stjórnarskrár eins og þau séu túlkuð af MDE og sjálfu umdæmisráðinu þar sem ráðið telji sig bundið af þeirri túlkun sem úrskurðarnefndin hafi valið og úrskurðað samkvæmt í áratugi, án þess að nokkuð liggi því til grundvallar.

Þau sjónarmið byggi á meintri þörf fyrir „frið til að aðlagast fósturfjölskyldu og stöðugleika og ró“, en hunsi með öllu meginsjónarmið sem 8. gr. MSE byggir á, þ.e. um fjölskyldusameiningu, friðhelgi fjölskyldunnar og skýlausan rétt barns til umgengni við foreldri sitt, friðhelgi tengslanna sem séu á milli drengsins og föður hans og föðurfjölskyldu, o.fl. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að umgengin sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins, þvert á móti komi skýrt fram í skýrslu E að augljósir hagsmunir barnsins standi til að eiga föðurímynd og ríka umgengni við föður og föður fjölskyldu, sér í lagi þegar til framtíðar sé litið.

Þá sé yfirlýst markmið umdæmisráðs með umgengni í fóstri, þ.e. ekki að styrkja tengsl heldur að barn ,,þekki uppruna sinn“ andstætt lögum, mannréttindum og stjórnarskrá auk yfirlýsts markmiðs barnaverndarlaga og mannréttindasáttmála Evrópu auk Barnasáttmála SÞ. Vísað sé til eigin umfjöllunar ráðsins um dóma MDE hvað þetta atriði varðar auk skýrra ákvæða barnasáttmálans.

Ekki sé í úrskurði minnst á það lagaákvæði Barnasáttmálans, sem fjallar gagngert um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt sem það hefur verið aðskilið frá, sbr. 9. gr. Barnasáttmálans, sbr. 8. gr. MSE, sbr. General Comment nr. 14 (Barnaréttarnefnd SÞ), sem eigi stoð í 71. gr. Stjórnarskrár Íslands. Á því sé byggt að túlkun ráðsins á 74. gr. barnaverndarlaga sé andstæð 9. gr. Barnasáttmálans, 8. gr. MSE og 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 7. gr. og 8. gr. Barnasáttmálans. Af þessu leiðir óhjákvæmilega að úrskurður ráðsins byggir á ólögmætum sjónarmiðum, sem á sér hvorki stoð í lögum né mannréttindum.

Í 7. gr. í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé kveðið á um að barn hafi “eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.” Ákvæðið felur ekki í sér neina undantekningu varðandi fósturbörn. Ekkert í þessu máli styðji þá hugmynd að það sé “ekki unnt” að úrskurða drengnum ríkulega umgengni við föður sinn. Þá sé ljóst að vilji barnsins standi til þess að umgangast föður sinn meira. Ekki sé nóg að kanna vilja barnsins, heldur verður enn fremur að taka réttmætt tillit til vilja barnsins, sbr. 12. gr. barnasmáttmálans, sbr. 8. gr. MSE og 71. gr. stjórnarskrár. Ekkert slíkt tillit hafi verið tekið til vilja drengsins og því um brot gegn umræddum ákvæðum að ræða, auk 3. gr. barnasáttmálans, enda ekki hægt að leggja fullnægjandi mat á það hvað telst vera barni fyrir bestu nema taka réttmætt tillit til vilja barnsins við ákvarðanatöku, sbr. dómur MDE í málinu NT.S og aðrir gegn Georgíu (2016). Nánar sé fjallað um vilja barnsins í greinargerð föður til ráðsins og vísast enn og aftur til hennar.

Það séu mannréttindi drengsins að þekkja föður sinn og njóta umönnunar hans. Ástæðan fyrir því að réttur barna til að þekkja og umgangast foreldra sína sé bundinn í mannréttindasáttmála sé einmitt sú meginregla barnaréttar, sem m.a. 3. gr. barnasáttmálans kveður á um, að það sem barninu sé fyrir bestu skuli ávallt haft að leiðarljósi þegar teknar séu ákvarðanir sem varða mikilvæga hagsmuni þess. Þannig sé almennt talið barni fyrir bestu að vera í tengslum við foreldra sína og verður sá réttur ekki löglega skertur nema það sé augljóslega andstætt hagsmunum barnsins.

Reglan um tengsla- og umgengnisrétt barna sem hafa verið skilin frá foreldrum sínum sé útfærð í 3. mgr. 9. gr. barnasáttmálans sem hljóðar svo:

„Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“

Lögin séu skýr, það séu einfaldlega mannréttindi drengsins að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við föður sinn með reglubundnum hætti. Það gefi auga leið að tvær umgengnir á ári geta ekki fullnægt kröfum þessa skýra ákvæðis.

Framangreindar meginreglur barnasáttmálans endurspeglast einnig í túlkun MDE á 8. gr. MSE og þar með túlkun á 71. gr. stjórnarskrár, sbr. dóm MDE í máli NT.S og fleiri gegn Georgíu, febrúar 2016.

Fósturbörn eiga ekki neinn minni rétt til að umgangast foreldri sitt sem þau búa ekki hjá heldur en skilnaðarbörn. Ljóst sé að í framkvæmd sé þó verið að mismuna þessum börnum og skerða réttindi fósturbarna til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu svo um munar. Það myndi engum detta til hugar að ákveða skilnaðarbarni rétt til að hitta annað foreldrið einungis tvisvar á ári á þeim forsendum að meiri umgengni myndi ,,raska stöðugleika, friði og ró barnsins“, líkt og verið sé að gera við fósturbörn. Á því sé byggt að mismunun þessi brjóti í bága við jafnræðisreglu, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gefið það út að “það sem barni er fyrir bestu” hafi sömu merkingu hvort heldur börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum vegna sambúðarslita eða fyrir milligöngu ríkisins. Þá gilda allar reglur Barnasáttmála SÞ um öll börn, án aðgreiningar, og 9. gr. sáttmálans gildir jöfnum höndum um börn í fóstri sem og önnur börn, óháð þeim ástæðum sem liggja að baki aðskilnaðinum milli foreldri og barns. Enda væri það ótækt að mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra eða foreldra. 

Það sé óboðlegt að stjórnvöld skuli leyfa sér þau vinnubrögð, þegar úrskurðað sé um þessi mannréttindi barna, að sleppa því að fjalla um og taka tillit til þessara mannréttindaákvæða sem lagagildi hafa hér á landi. Þá sé það almenn regla að túlka beri lög til samræmis við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans og öll umfjöllun um 74. gr. bvl., felur óhjákvæmilega í sér skýringu og samanburð við ákvæði sem vernda friðhelgi fjölskyldunnar sem finna má bæði í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og barnasáttmála SÞ.

Þá sé byggt á því að sú afar takmarkaða umgengni sem úrskurður kveði á um brjóti í bága við mannréttindi drengsins og blóðföður hans, sbr. 8., 9. gr. barnasáttmálans, sbr. einnig 8. gr. MSE og 71. gr. stjórnarskrár.

Í fyrsta lagi standist það ekki túlkun samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. “Persónuleg tengsl, beint samband með reglubundnum hætti”. Á því sé byggt að tvö skipti á ári til samvista, fyrir barn og föður, getur ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins skv. orðanna hljóðan.

Í öðru lagi fari yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með umgengni, þ.e. um að viðhalda hvorki tengslum né styrkja þau, heldur aðeins að börn “þekki uppruna sinn”, gegn yfirlýstu markmiði ákvæðis 9. gr. barnasáttmála SÞ auk 8. gr. MSE, sbr. 71. gr. stjskr., sem sé einmitt það að barn viðhaldi persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt. Slíkum persónulegum tengslum og beinu sambandi verður ekki viðhaldið nema samskipti séu regluleg, sbr. orðalagið ,,með reglubundnum hætti”.

Þessu til stuðnings megi t.d. nefna álit umboðsmanns barna, dags. 25. mars 2014, þar sem fram komi hvaða reglur Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár gilda um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt og að sömu reglur gildi um öll börn sem hafi verið aðskilin frá foreldri sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Í áliti umboðsmanns barna sé vísað til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttamálans, 71. gr. stjórnarskrár. auk 8. gr. MSE og túlkun á þeim sé eftirfarandi:

,,Af fyrrnefndum ákvæðum er ljóst að umgengni barns við foreldri verður að vera regluleg, þannig að barn nái annaðhvort að viðhalda þeim tengslum sem til staðar eru eða tengsl nái að myndast. Ennfremur þarf að sjálfsögðu að tryggja öllum börnum sama rétt, án mismununar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 65. gr. Stjórnarskrárinnar… óheimilt er að mismuna börnum eftir stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra… Réttur barns er sá sami óháð því hvort að barn búi hjá öðru foreldri eða fósturforeldrum.”

Túlkun umboðsmanns barna sé í samræmi við túlkun MDE og Barnaréttarnefndar SÞ á ákvæðum Barnasáttmálans. Túlkun umdæmisráðs eða úrskurðarnefndar eigi sér hins vegar enga stoð í lögskýringargögnum né orðanna hljóðan ákvæðisins. Réttur fósturbarna til umgengni við foreldri sitt sé ekki minni en réttur skilnaðarbarna, sá réttur sé hinn sami. Það þýðir þó ekki sjálfkrafa að umgengni eigi að vera svona eða hins segin, heldur þurfi ávallt að meta hvað telst vera barni fyrir bestu hverju sinni, sbr. 3. gr. barnasáttmálans og 4. gr. bvl., 8. gr. MSE auk 71. gr. stjórnarskrár.

Ákvæði 74. gr. bvl. og athugasemdir í greinargerð sem skýrir ákvæðið sé í fullu samræmi við framangreindar skýringar umboðsmanns. Það sé hins vegar túlkun barnaverndaryfirvalda og úrskurðarnefndarinnar á ákvæði 74. gr. sem gengur í berhögg við umrædd ákvæði Barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrár. Bent sé á að í athugasemdum með 74. gr. bvl. segir að ákvæðið byggi á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt. Þar segir enn fremur ,,ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins”. Ekkert slíkt sé fyrir hendi í því máli sem nú sætir kæru.

Það sé ítrekað að skýrsla F um meint neikvæð áhrif umgengninnar á barnið byggir ekki á hennar eigin rannsókn heldur eingöngu á frásögn fósturmóður, sem hafi hagsmuna að gæta sem séu á öndverðum meiði við hagsmuni föður og barns að njóta samvista. Ekki þurfi annað en að horfa á sjónvarpsþáttinn fósturbörn, þættir þar sem fósturmóðir lýsir einskærri og eindreginni löngun sinni til að eignast þetta barn og eiga það sjálf, til að átta sig á að hennar hagsmunir skerast á við hagsmuni drengsins og að hún setji eigin hagsmuni framar hagsmunum og mannréttindum drengsins. Eigin rannsókn F á líðan barns í kjölfar umgengni leiddi hins vegar í ljós að drengnum leið vel, var ánægður með að hitta föður sinn og vildi gjarnan hitta hann aftur. Vísað sé í greinargerðar kæranda til umdæmisráðsins um þetta.

Óheimilt sé að hafa vélræna nálgun á ákvörðun um umgengni þar sem alltaf sama umgengnin sé ákvörðuð fyrir fósturbörn á þeim eina grunni að markmið fóstursins sé að aðlagast fósturfjölskyldu og þörf fyrir stöðugleika og ró. Barn hafi þörf og hagsmuni fyrir að tengjast og umgangast foreldri sitt, en á þá þörf sé ekkert horft. Barn hafi ríka þörf fyrir föðurímynd í sínu lífi og að tengjast og umgangast föðurfjölskyldu sína, en á þá þörf eða hagsmuni sé ekkert horft í úrskurði umdæmisráðs.

Af framangreindu sé ljóst að ekkert fullnægjandi mat á því hvað telst vera barninu fyrir bestu þegar kemur að umgengnisrétti þeirra hafi farið fram. Virðist vera byggt á einhvers konar fastmótaðri venju um að umgengni í fóstri eigi að vera tvö skipti á ári, óháð öllu öðru. Byggir sú venja ekki á neinum lagarökum heldur fer þvert á móti gegn lögum, mannréttindum og stjórnarskrá. Þau sjónarmið um að raska ekki ró og friði barnsins til að aðlagast fósturheimili, sem virðast ávallt ráða niðurstöðu nefndanna, finna sér hvergi stoð í lögum né dómaframkvæmd MDE í málum sem varða rétt barna og foreldra á grundvelli 8. gr. MSE.

Með því að sleppa því að skoða málið m.t.t. þeirra laga sem um sakarefnið gilda og horfa framhjá öllum öðrum hagsmunum barnsins en meintum stöðugleika og ró, verður ekki annað talið en að rannsókn málsins teljist alls ófullnægjandi og í ósamræmi við kröfur rannsóknarreglu stjórnsýslu og barnaréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga auk samsvarandi reglna bvl., sömuleiðis 3. gr. barnasáttmálans. Þannig hafi ekkert fullnægjandi mat farið fram á því hvað telst barninu vera fyrir bestu. Óhjákvæmilegt sé að í slíku mati sé m.a. lagt mat á áhrif aukinnar umgengni á velferð barnsins, raunverulega í stað ágiskana, og svo áhrif þessarar afar takmörkuðu umgengni á velferð barnsins og tengsl þess við föður. Einnig þurfi að horfa til þess hvaða áhrif það mun hafa á barnið til frambúðar að vera útilokað með öllu úr lífi föður síns og föðurfjölskyldu, alast upp án nokkurrar föðurímyndar, að fá ekki að þekkja föðurfjölskyldu sína né móðurfjölskyldu og hvaða þýðingu það mun hafa á hans líf og hagsmuni til frambúðar. Vega það og meta síðan við hagsmuni hans og líðan að fá að þekkja og umgangast föður sinn, eiga í reglulegum og beinum samskiptum við hann, njóta föðurímyndar og samverustunda með föður í föðurfjölskyldu, fá að mæta í jólaboð, fara til Vestmanneyja með föður og stóra bróðir og hitta föðursystur sína og börnin hennar og fá að tengjast þeim, geta leitað til föður þegar eitthvað bjátar á og ræða við hann t.d. þegar hann fer á kynþroskaskeið o.s.frv. Þessa ríku hagsmunir drengsins verði að horfa á þegar hagsmunamatið fer fram.

Síðan sé til viðbótar við allt þetta unnt að spyrja sig, hvort sé líklegra til að raska stöðugleika og ró þessa barns, algjört og varanlegt tengslaslit við föður og föður fjölskyldu og útilokun frá blóðföður og fjölskyldu um alla framtíð, eða uppbygglegt samstarf um að byggja upp heilbrigð tengsl við föður og föðurfjölskyldu, að drengurinn fái að vera hluti af fjölskyldu sinni, þekkja hana, tengjast henni og eyða gæðastundum með henni til framtíðar litið. Tengslarof og fjölskylduútilokun geti ekki talist fela í sér annað en falskan stöðugleika og til þess fallin að valda barni skaða um alla framtíð. Bent sé á umfjöllun um skilgreiningar á félagslegu ofbeldi í greinargerð kæranda til umdæmisráðs.

Augljóst sé að mun fleiri þættir koma til skoðunar við slíkt hagsmunamat en það sem lagt hafi verið grundvallar í hinum kærða úrskurði, líkt og skýrsla E bendir m.a. á, sbr. fyrri tilvísanir til lögskýringa og dómafordæma MDE. Með því að meta meinta hagsmuni drengsins með svo einhliða og takmörkuðum hætti sem gert var, þar sem m.a. var sleppt að taka réttmætt tillit til vilja barnsins eða leggja mat á áhrif mögulegra ákvarðana á drenginn til framtíðar litið, fór ráðið gegn ákvæði 3. gr. barnasáttmála SÞ auk samsvarandi ákvæða í bvl, sjá hér einnig dóm MDE í málum Penchevi gegn Búlgaíu og NT.S og aðrir gegn Georgíu.

,,In the view of the Court, the combination of flawed representation, and as a consequence the  failure to duly present and hear the views of the boys, undermined the procedural fairness of the decisionmaking process in the instant case. This was exacerbated by inadequate and one-sided  consideration of the boys´ best interests, in which their emotional state of mind was simply ignored. This leads the Court to conclude that there was a violation of the boys´ right to respect for their family and private life, as guaranteed by Article 8 of the Convention” (mgr. 84). (see case NTS and Others v. Georgia and CRC/C/GC/14, p. 11).

Þá feli það einnig brot gegn friðhelgi fjölskyldunnar, og sömuleiðis rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að leggja til grundvallar úrskurði skýrslu þar sem viðhöfð hafi verið röng, óvísindaleg og ófagleg vinnubrögð, líkt og gert hafi verið í skýrslu F og sýnt fram á í skýrslu E.

Þá sé ekki rökstutt hvernig það stenst kröfur meðalhófs að takmarka umgengni við tvö skipti á ári, undir eftirliti en á því sé byggt að verið sé að ganga mun lengra en þörf sé á. Einnig hvað varðar eftirlit og stjórnun í umgengni. Kærandi hafi verið edrú í mörg ár og ekkert sem liggur fyrir í þessu máli né sé það einu sinni rökstutt hvers vegna þörf sé talin á eftirliti og þar með stjórnun í umgengni. Alla þvingun og öll íþyngjandi úrræði stjórnvalda ber að rökstyðja. Það sé þvingun og íþyngjandi að vera með eftirlit og stjórnun í umgengni og slíkt þurfi að rökstyðja m.t.t. meðalhófsreglu. Það hafi ekki verið gert í úrskurði ráðsins.

Þá sé afar undarlegt að blanda fósturmóður inn í umgengnina þegar ljóst sé að það andar köldu milli kæranda og fósturmóður. Er nærvera hennar í umgengni með kæranda til þess fallin að skapa þvingað og óþægilegt andrúmsloft, ósætti og vanlíðan og skapa þannig enn meiri togstreitu í lífi drengsins. Byggt sé á því að þetta sé beinlínis skaðlegt hagsmunum drengsins.

Þá liggi ekkert fyrir í málinu um meinta vanlíðan drengsins í kjölfar umgengni, annað en orð fósturforeldris. Slíkt geti ekki talist nægileg sönnun til að það hafi þau áhrif á niðurstöðu málsins, sem gerði. Ljóst sé af rannsókn F sjálfrar, á líðan barnsins í kjölfar umgengni, að drengnum leið vel og lýsti því ítrekað yfir að vilja hitta föður aftur.

Þá sé á því byggt að framangreint leiði til þess að skyldu stjórnvaldsins til rökstuðnings hafi ekki verið framfylgt. Ráð sem rökstyður niðurstöðu án þess að fjalla um þau stjórnarskrárvörðu réttindi sem verið er að raska og viðeigandi ákvæði barnasáttmálans og stjórnarskrár, getur ekki talist uppfylla skyldur sínar til fullnægjandi rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá byggir kærandi á að úrskurður umdæmisráðsins feli í sér nauðung sem valdi föður alvarlegum sársauka og þjáningu, og feli þar með í sér pyndingar og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð og gangi þannig í berhögg við í 68. gr. stjórnarskrár auk samsvarandi ákvæða í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Ekkert í lögum kveður á um að umgengni eigi að vera svona takmörkuð og undir eftirliti. Þvert á móti kveður barnasáttmáli SÞ, mannréttindasáttmáli Evrópu og stjórnarskrá, auk dómafordæma MDE, á um að umgengni eigi að vera eins rík og unnt sé, að bera skuli fyllstu virðingu fyrir tengslum fósturbarna við blóðforeldra og fjölskyldur þeirra, og að yfirlýst markmið barnaverndar yfirvalda eigi ávallt að vera það að sameina fjölskyldur og byggja þær upp og styrkja tengslin. Um þetta hafi verið ítarlega fjallað í úrskurði umdæmisráðs með vísan til dómaframkvæmdar MDE en síðan ekkert farið eftir því þegar ákvörðun hafi verið tekin.

Með vísan til framangreinds sé þess krafist að kröfur kæranda verði teknar til greina. Óskað sé flýtimeðferðar vegna þess hve lengi mál þetta hefur dregist á langinn, á meðan líða árin og drengurinn elst upp án föðurs.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að um sé að ræða úrskurð um umgengni föður við son sinn sem sé í varanlegu fóstri á vegum Barnaverndar B. Varðandi forsögu málsins sé vísað í úrskurð umdæmisráðs þann 23. mars 2023 og greinargerð starfsmanna, dags. 30. janúar 2023.

Þann 8. mars 2022 felldi úrskurðarnefnd velferðarmála úr gildi úrskurð barnaverndarnefndar B sem kveðinn var upp þann 12. október 2021 vegna umgengni föður við drenginn. Barnaverndarnefnd hafði þá aukið umgengni úr tveimur skiptum á ári í fjögur skipti. Bæði faðir og fósturmóðir kærðu úrskurð nefndarinnar til úrskurðarnefndar.

Í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar þann 8. mars hafi verið vísað til þess að með umgengni föður við drenginn væri ekki verið að reyna að styrkja tengsl hans við kæranda heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Þá hafi það verið rakið að drengurinn hafði sýnt erfiða hegðun og verið ofbeldisfullur eftir umgengni við föður. Þá taldi úrskurðarnefnd að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti með tilliti til hagsmuna drengsins til aukinnar umgengni annars vegar og hagsmuna hans á því að búa við óbreytt fyrirkomulag hins vegar. Taldi úrskurðarnefnd því ekki nægileg rök færð fyrir því að auka umgengni úr tveimur skiptum í fjögur skipti á ári líkt og barnaverndarnefnd gerði með úrskurði sínum þann 12. október 2021.

Málið hafi aftur verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B þann 3. maí 2022. Þar hafi komið fram í bókun að í ljósi athugasemda frá úrskurðarnefnd velferðarmála um að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað í aðdraganda síðasta úrskurðar væri því beint til starfsmanna að láta framkvæma sjálfstætt mat á líðan drengsins í og eftir umgengni, tengslum hans við föður og hagsmunum drengsins af því að eiga reglulega umgengni við föður og hvort það væru hagsmunir drengsins að umgengni yrði aukin frá því sem áður var. Fram kom að mikilvægt væri að slíkt mat yrði framkvæmt af sérfræðingi með þekkingu á tengslamyndun barna og að tekið yrði tillit til þroskastöðu drengsins. Þá hafi verið óskað eftir því að matsmaður myndi skila inn sínum tillögum um hvernig æskilegast væri að haga umgengni drengsins við föður með tillit til þess að hann sé í varanlegu fóstri.

Í samræmi við bókun nefndarinnar hafi verið fengin matsmaður með sérfræðiþekkingu á tengslamyndun barna í samráð við lögmann föður og fósturmóður en allir aðilar samþykktu að sá matsmaður tæki að sér málið. Matsmaður skilaði inn skýrslu, dags. 28. nóvember 2022. Starfsmenn bókuðu málið á meðferðarfundi þann 28. nóvember 2022 eftir að skýrslan barst. Að mati starfsmanna gaf skýrslan greinargóða lýsingu á tengslasambandi drengsins og föður í umgengni. Matið fór fram í þremur umgengnum drengsins við föður, könnun á líðan drengsins fyrir og eftir umgengni í skóla og á fósturheimili, upplýsingum úr samskiptabók barns í skóla fyrir og eftir umgengni og upplýsingum frá fósturmóður um líðan barns fyrir og eftir umgengni. Í matinu hafi komið fram að ljóst þyki að umgengni drengsins við föður hafi haft víðtæk áhrif á barnið, bæði andlega og líkamlega. Barninu liði verr eftir því sem leið á umgengni. Hið sama hafi verið sýnilegt meðan á umgengni stóð og þegar tengslamat hafi verið framkvæmt. Það hafi verið mat matsaðila að aukin umgengni, umfram það sem starfsmenn lögðu til áður eða tvö skipti á ári, væri drengnum ekki til góðs. Drengurinn sé að glíma við verulega þroskahömlun og þarfnast stöðugs umhverfis sem skapi honum bestu skilyrði til náms og vellíðanar. Matsaðili lagði einnig til að umgengni yrði undir eftirliti, innandyra, að hámarki í tvær klukkustundir vegna úthalds drengsins í leik innandyra við föður.

Starfsmenn töldu að með yfirgripsmiklu tengslamati væri málið nú fullrannsakað og tóku undir mat matsaðila og lögðu til að umgengni yrði ekki oftar en tvisvar sinnum á ári og töldu umgengni umfram það drengnum og þroska hans hættulegt.

Starfsmenn bókuðu málið á meðferðarfundi þann 24. janúar 2023. Þar sé rakið það mat starfsmanna að það væru ekki hagsmunir drengsins að eiga svo mikla umgengni við föður eins og hann óskar eftir og vísað til þess að það séu hagsmunir drengsins að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldri áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun í lífi drengsins. Þá hafi verið vísað til þess að ekkert benti til þess að drengurinn væri í þörf fyrir breytingar enda ekki hans vilji. Enn væri verið að því að vinna að öryggi drengsins og vinna upp þann skaða sem umsjá hans hjá foreldrum olli honum. Þá hafi það komið fram að líðan drengsins versni á ný eftir umgengni, hann nærist illa, sofi illa, væri lítill í sér og væti rúmið á umgengnistímabili. Vísuðu starfsmenn til þeirra meginreglu sem fram kemur í 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barnsins ávallt hafðir í fyrirrúmi. Aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra verða þar að leiðandi að víkja ef þeir stangist á við hagsmuni barnsins, sbr. 1. tl. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í úrskurði umdæmisráðs Barnaverndar B sé m.a. vísað til 25. gr. reglugerðar nr. 80/2004 um fóstur og að ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með því markmiði sem stefnt sé að. Þá sé vísað til handbókar Barnaverndarstofu varðandi umgengni í fóstri að við ákvörðun um umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína eða aðra þarf að meta í hverju einstöku tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengni hefur á það. Umdæmisráð vísar svo til stöðu drengsins og þess stuðnings sem drengurinn sé í þörf fyrir.

Eins og fram hafi komið sé drengurinn í varanlegu fóstri og sé því ekki stefnt að öðru en að hann verði í umsjá fósturmóður til 18 ára aldurs. Reglur vegna umgengni við barn í fóstri sé að finna í 74. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 1. mgr. á barn rétt á umgengni við foreldri og aðra sem séu því nákomnir. Þá segir í 2. mgr. að foreldrar eigi sama rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun þess í fóstur.

Starfsmenn Barnaverndar B telja brýnt að drengurinn fái að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og telja ljóst að sú röskun sem umgengni drengsins við föður veldur honum geti haft afleiðingar á þroska hans og líðan til framtíðar. Er því talið að umgengni umfram úrskurð umdæmisráðs sé bersýnilega andstæður hagsmunum og þörfum drengsins.

Að öðru leyti sé vísað til úrskurðs umdæmisráðs Barnaverndar B þann 23. mars 2023 og þess rökstuðnings sem þar komi fram vegna umgengni föður við drenginn.

Með vísan til alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barns

Í gögnum málsins liggur fyrir tengslamat, dags. 28. nóvember 2022, sem framkvæmt var af F tengslamatsaðila. Fram kemur í matinu að drengurinn vilji hitta föður en ekki lengi.

V. Afstaða fósturforeldris

Með tölvupósti til lögmanns fósturmóður, dags. 9. maí 2023 var óskað afstöðu hennar til kröfu kæranda um umgengni. Í svari lögmanns hennar, dags. 15. júní 2023, kemur fram að fósturmóðir taki að öllu leyti undir forsendur úrskurðar umdæmisráðs um tíðni og inntak umgengni kæranda og drengsins. Úrskurðurinn sé ítarlega rökstuddur, málefnalegur og réttur. Þá sé í úrskurðinum gerð grein fyrir hagsmunum og aðstæðum drengsins sem um ræðir og þeir hagsmunir hans látnir ráða för við mat og ákvörðunartöku, umfram hagsmuni kæranda.

Fósturmóðir hafi ávallt verið þeirrar skoðunar að hún telji hæfilega umgengni drengsins við kæranda vera tvisvar sinnum á ári og hafi haldið þeirri skoðun fram í öllum þeim umgengnismálum sem kærandi hefur stofnað til. Fósturmóðir geri þ.a.l. þær kröfur að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Gagnvart úrskurðarnefnd vill fósturmóðir benda á að í kæru sé því m.a. haldið fram að sömu sjónarmið um umgengni við foreldri eigi að gilda hvort sem um ræði börn í fóstri eða skilnaðarbörn. Til rökstuðnings þess er m.a. vísað til ótilgreindra ummæla Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um að sjónarmiðið um það sem barninu er fyrir bestu hafi ávallt sömu merkingu hvort heldur sem börn hafi verið skilin frá foreldrum sínum vegna samvistarslita eða fyrir milligöngu ríkisins. Ekki sé vísað til heimilda um þá fullyrðingu, en lögmaður fósturmóður skilur málatilbúnaðinn þannig að um sé að ræða Almennar athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna (e. General comment No 14, best interest of the child) sem vísað sé til annars staðar í greinargerðinni.

Þessum sjónarmiðum sé sérstaklega mótmælt enda sé það rangt að Barnaréttarnefndin hafi haldið slíkum almennum sjónarmiðum á lofti um túlkun hugtaksins það sem barninu sé fyrir bestu. Er slíka almenna forsendu um hugtakið og túlkun þess hvergi að finna í neinum álitum sem nefndin hefur sent frá sér, né heldur í tilvitnuðum Almennum athugasemdum nr. 14.  

Þvert á móti segir í tilvitnuðum athugasemdum nr. 14 að við mat og ákvörðunartöku um það sem barninu sé fyrir bestu felist að meta þurfi og taka tillit til allra þeirra þátta (e. elements) sem nauðsynlegir séu til að taka ákvörðun í tilteknum aðstæðum fyrir tiltekið barn, eða hóp barna. Í framhaldinu sé með ítarlegum hætti lýst þeim sex þáttum (stafliðir a – g) sem um ræðir.

Í framangreindum sjónarmiðum frá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna felst því að ávallt skuli lagt ítarlegt einstaklingsbundið mat á aðstæður og hagi hvers barns. Að mati fósturmóður hafi það verið gert af hálfu umdæmisráðs og sérstaklega um það fjallað í forsendum hins kærða úrskurðar. Ítrekar fósturmóðir því kröfu sína um staðfestingu hans.

Varðandi sjónarmið um afhendingu á myndum af drengnum þá taki fósturmóðir undir þau sjónarmið sem fram koma í hinum kærða úrskurði.

Jafnframt sé bent á að hvergi í barnaverndarlögum sé gert ráð fyrir afhendingu á myndum sem hluta af tilhögun umgengni fósturbarna við upprunafjölskyldu sína. Í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé umgengni skilgreind sem samvera og önnur samskipti. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 80/2002 sé tiltekið að með umgengni sé átt við beinan umgengnisrétt, auk annarra samskipta, svo sem í gegnum síma, bréfaskipti og þess háttar, sbr. það sem fram kemur í 1. mgr. Taka ber fram að ákvæði þessu hefur ekki verið breytt frá upphaflegri lagasetningu árið 2002.

Af framangreindu beri því að draga þá ályktun að einhliða myndsendingar falli ekki undir hugtakið umgengni og hafi umdæmisráð eða úrskurðarnefnd velferðarmála því enga lagastoð fyrir úrskurði um slíkt. Er þess því krafist að staðfest verði niðurstaða umdæmisráðs um frávísun slíkrar tillögu.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi var sviptur forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019 sem var síðan staðfestur í Landsrétti þann 11. október 2019. Kærandi er faðir drengsins. Móðir drengsins er látin.

Með hinum kærða úrskurði frá 23. mars 2023 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda yrði tvisvar á ári í 1 ½ klukkustund í senn. Auk þess var ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti og færi fram í húsnæði Barnaverndar B. Skilyrði umgengni væri að kærandi væri edrú og í jafnvægi, að mati starfsmanna barnaverndar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málefni drengsins hafi verið til könnunar og meðferðar hjá Barnavernd B með hléum allt frá árinu 2015. Flestar tilkynningar í máli drengsins hafi borist á tímabilinu október 2017 til 13. júní 2018, en þá hafi drengurinn verið tekinn úr umsjá foreldra sinna í kjölfar neyðarráðstöfunar. Þann 4. júlí 2018 fór drengurinn í umsjá fósturmóður sinnar, fyrst í tímabundið fóstur og frá 13. maí 2019 í varanlegt fóstur. Stefnt sé að því að hann alist upp á núverandi heimili til 18 ára aldurs. Að mati Barnaverndar B séu það ekki hagsmunir drengsins að eiga meiri umgengni við kæranda en tvisvar á ári. Það séu fyrst og fremst hagsmunir drengsins að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldri áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Þá sé ekkert sem bendi til þess að hann hafi þörf fyrir breytingar enda sé það ekki vilji drengsins.

Kærandi, sem er kynfaðir drengsins, krefst þess að umgengni verði regluleg aðra hverja helgi, frá föstudegi eftir skóla til mánudagsmorguns. Þá krefst kærandi þess að drengurinn dvelji hjá honum í fríum og um stórhátíðir til jafns við fósturmóðir.

Kærandi gerir athugasemdir við rannsókn málsins og bendir sérstaklega á að tengslamatsskýrsla Ragnheiðar B. Guðmundsdóttur og sú rannsókn sem var til grundvallar henni hafi ekki verið í samræmi við viðurkenndar rannsóknaraðferðir.

Kærandi telur að fyrrgreind tengslamatsskýrsla og sú rannsókn sem hún grundvallast á, sé bæði röng og ófullnægjandi. Kærandi hefur lagt fram skýrslu E þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir við umrædda matsskýrslu.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í 2. mgr. 41. gr. bvl. segir að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og henni skuli hraðað svo sem kostur er.

Með tveimur úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála dags. 8. mars 2022 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að mál drengsins hefði þá ekki hefði verið rannsakað með fullnægjandi hætti með tilliti til hagsmuna hans til aukinnar umgengni við kæranda eða búa við óbreytt fyrirkomulag hvað það varðar. Í kjölfar þessa úrskurða ákvað Barnavernd B að afla tengslamatsskýrslu frá F félagsráðgjafa og fjölskyldufræðingi. Skilaði hún ítarlegri skýrslu vegna málsins sem m.a. grundvallaðist á viðtölum við barnið, fósturmóður og skóla. Þá voru lögð fyrir drenginn próf til að meta tengsl hans við föður. Ekki verður annað ráðið af niðurstöðum skýrslunnar en að takmörkuð tengsl séu til staðar milli drengsins og föður hans og kemur það heim og saman við þau litlu tengsl verið hafa á milli þeirra. Niðurstaða matsaðila var sú að aukin umgengni, umfram tvö skipti á ári, væri drengnum ekki til góðs. Hann væri að glíma við verulega þroskahömlun og þarfnaðist stöðugs umhverfis sem skapi honum bestu skilyrði til náms og vellíðunar.

Úrskurðarnefndin telur að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi í meðförum þess hjá Barnavernd B. Þrátt fyrir athugasemdir í greinargerð föður og fylgiskjali hennar telur úrskurðarnefndin að þau sjónarmið sem þar koma fram haggi ekki þeirri niðurstöðu sem fram kemur í fyrrnefndri tengslamatsskýrslu sem eins og áður sagði var aflað í kjölfar á áðurnefndum úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála í máli drengsins.

Kærandi hefur gert athugasemdir við rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar og vísar til þess að m.a. hafi ekki verið fjallað um nauðsyn eftirlits og réttindi kæranda skv. stjórnarskrá.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997 skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í fyrrgreindu lagaákvæði er ekki  fjallað um hversu ítarlegur rökstuðningu skuli vera en í  athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum segir að rökstuðningur skuli að meginstefnu til vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sé sem raunin varð á. Í athugasemdum við áðurnefnda 22. gr. kemur einnig fram að rétt sé að rökstyðja ítarlega ákvarðanir sem séu mjög íþyngjandi. Í þessu fellst þó ekki að skylt sé að taka sérhverja málsástæðu sem aðili máls færir fram til rökstuddrar úrlausnar, heldur skal einungis taka afstöðu til málsástæðna sem varða málið og geta haft þýðingu við útlausn þess. Að mati úrskurðarnefndarinnar er hinn kærði úrskurður vel rökstuddur þar sem vísað er til þeirra meginsjónarmiða sem voru ráðandi við matið. Uppfyllir hinn kærði úrskurður því kröfur stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvarðana stjórnvalda.

Fram kemur í kæru að ýmist rannsókn eða hagsmunamat hafi verið brot á 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 sem kveður á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 sem kveður einnig á um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 3. gr., 7. gr., 8. gr. og 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, auk dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Í hinum kærða úrskurði er fjallað um framangreind ákvæði laga, stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu og þá fjölþjóðlegu sáttmála sem gerðir hafa verið að því marki sem slíkt hefur þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Úrskurðarnefndin tekur undir þann rökstuðning sem fram kemur í hinum kærða úrskurði og bendir auk þess á að í athugasemdum við 74. gr. barnaverndarlaga, sem fjallar um gagnkvæman rétt foreldra og barna sem ráðstafað hefur verið í fóstur til umgengni á meðan sú ráðstöfun varir, kemur fram að reglan sé eðlileg og í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að drengurinn færi aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið er að tryggja honum uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum hans, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber því fyrst og fremst að líta til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best þegar tekin er ákvörðun um umgengni hans við kæranda. Í því fellst að horfa verður heildstætt á málið þegar tekin er ákvörðun um hvað þjónar hagsmunum hans best. Úrskurðarnefndin telur að horfa verði til þess að sonur kæranda er nú í varanlegu fóstri og þarf frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja til frambúðar umönnun hans, öryggi og þroskamöguleika. Þá er til þess að líta að með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna styrkja tengsl hans við kæranda heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Þá verður ekki horft fram hjá vilja barnsins og afstöðu fósturforeldris til umgengni við kæranda.

Gögn málsins staðfesta að drengurinn glímir við margvíslegan vanda en hann hefur verið greindur með athyglisbrest, ofvirkni, væga þroskahömlun og málþroskaröskun. Drengurinn er með tengslavanda vegna fyrri uppeldisaðstæðna og vanrækslu. Hann hefur fengið mikinn stuðning frá fósturmóður vegna greininga sinna en hann hefur þörf fyrir sérstakan stuðning, aga og utanumhald. Vel hefur gengið á fósturheimilinu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru það lögvarðir hagsmunir drengsins að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldri áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Samkvæmt gögnum málsins líður drengnum vel hjá fósturforeldri og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Af gögnum málsins verður ráðið að drengurinn sé mjög óöruggur og þoli því illa allar breytingar. Er það í samræmi við þær greiningar sem drengurinn hefur fengið og hve viðkvæm geðheilsa hans er. Úrskurðarnefndin tekur því undir þann rökstuðning og sjónarmið sem fram koma í hinum kærða úrskurði varðandi tilhögun og inntak umgengni drengsins við kæranda og telur það því þjóna þörfum drengsins best að sem minnst röskun verði á högum hans. Þó að líðan drengsins hafi skánað undanfarið eftir umgengni, verður að telja að með því að gera breytingu á umgengni yrði þar með tekin áhætta að raska þeim stöðugleika sem þarf að vera í lífi drengsins.

Með vísan til framangreinds og að fenginni þeirri niðurstöðu að mat umgengni hafi verið ákveðin á grundvelli þeirra sjónarmiða sem kveðið er á um í lögum telur úrskurðarnefndin að meðalhófsreglan hafi verið virt við úrlausn málsins.

Hvað varðar frávísun umdæmisráðs á kröfu kæranda um myndir og upplýsingar um drenginn telur úrskurðarnefnd velferðarmála að líta verði til úrskurðarvalds umdæmisráðs barnaverndar. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 13. gr. barnaverndarlaga tekur umdæmisráð ákvarðanir með úrskurði í málum er varða umgengni í fóstri og við vistun, sbr. 74. og 81. gr. laganna. Í 74. gr. laganna er kveðið á um að barn eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Þá er tekið fram að með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum kemur fram í athugasemdum við 74. gr. að með ákvæðinu sé átt við beinan umgengnisrétt, auk annarra samskipta, svo sem í gegnum síma, bréfaskipti og þess háttar. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að myndsendingar þar sem ekki er um að ræða bein samskipti barns við þann aðila sem það á umgengni við falli utan úrskurðarvalds umdæmisráðs.

Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur með vísan til alls þess sem að framan greinir að staðfesta beri hinn kærða úrskurð .

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs Barnaverndar B frá 23. mars 2023 varðandi umgengni  D, við A, er staðfestur.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta