Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 81/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 81/2019

Föstudaginn 28. júní 2019

 

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 22. febrúar 2019 kærði D lögmaður, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar C frá 25. janúar 2019 vegna umgengni við syni þeirra, E og F.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn E er X ára og drengurinn F er X ára. Kynforeldrar drengjanna, kærendur máls þessa, voru sviptir forsjá þeirra  með dómi héraðsdóms X ágúst 2018 og lúta þeir nú báðir forsjá Barnaverndarnefndar C.

E var fyrst í tímabundnu fóstri hjá hjónunum G og H á I frá X til X 2016. Hann fór aftur til kærenda í stuttan tíma en síðan í tímabundið fóstur til J árið 2017. Hann er þar nú í varanlegu fóstri.

F var fyrst í tímabundnu fóstri hjá sömu hjónum á I árið 2016. Hann fór aftur til kærenda í stuttan tíma en hefur verið vistaður í varanlegt fóstur á I frá 2018.

Í héraðsdómi eru málsatvik rakin. Báðir kærendur hafa átt við fíkniefnavanda að glíma. Afskipti barnaverndaryfirvalda af fjölskyldunni hófust árið 2013 en þá hafi borist barnaverndartilkynning um mikla ólykt úr íbúð fjölskyldunnar. Leitað hafi verið skýringa og starfsmenn barnaverndar hafi skoðað heimilið sem reyndist snyrtilegt. Kærendur kváðust hafa verið [...]. Þau sögðu að þetta myndi ekki endurtaka sig. Í kjölfarið var málinu lokað.

Ekki hafi orðið lát á barnaverndartilkynningum og hafi þær borist reglulega frá X til X 2013. Lutu þær að sóðaskap á heimili, fíkniefnaneyslu kærenda og vanhirðu E, en F var ekki fæddur á þessum tíma. Gerðar voru áætlanir um meðferð máls sem hafi meðal annars falið í sér að kærendur leituðu sér aðstoðar vegna fíkniefnavanda síns.

Í X 2013 hafi borist tilkynning um að íbúð kærenda væri „eins og hænsnakofi“, þar væri neytt fíkniefna og reykt í litlu herbergi sem barnið dveldi í hóstandi. Barnið hafi verið hresst og kátt, ekkert ofbeldi sýnilegt „en aðstæður skelfilegar“. Í tilkynningunni segi síðan að fjölskyldan sé á leið til K og hafi tilkynnandi haft af því áhyggjur að ekkert myndi breytast við flutninginn. Síðar í mánuðinum sé bókað um aðra tilkynningu um vanrækslu drengsins vegna vímuefnanotkunar á heimilinu. Í X 2013 hafi kærendur flutt með drenginn til K.

Fram kemur að í dómsmálinu liggi fyrir gögn um afskipti K yfirvalda af málefnum kærenda. Hafi þau hafist X 2015 er lögregla var send á heimili þeirra vegna heimilisófriðar. F fæddist í K í X.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að í málinu lá fyrir þýðing á skýrslu Miðstöðvar fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur frá X 2015. Niðurstaða skýrslunnar var „að á núverandi tímapunkti séu [foreldrar] ekki í stakk búin til að sjá um frumumönnun F þannig að tilfinningaleg og félagsleg velferð hans og þroski sé tryggður.“

Í dóminum kemur fram að aðstæður barnanna séu taldar mjög brotakenndar og mótist af miklum óstöðugleika. Skortur [foreldra] á getu til að skapa yfirsýn, höndla eigin erfiðleika og veita stöðuga og tilfinningalega samstillta umönnun geri það að verkum að þau munu ekki vera í stakk búin til að breyta lífsaðstæðum barnanna og þannig geti þau ekki verndað og varið drengina frá innbyrðis átökum sínum, misnotkunarvandamálum og öðrum umfangsmiklum persónulegum vandamálum. Framkoma drengjanna og viðbrögð séu eins og vænta megi hjá börnum sem búi í fjölskyldum þar sem eigi sér stað umfangsmikil átök, misnotkun og um sé að ræða óörugga og ógreinilega foreldra. Þá segir að báðir drengirnir séu taldir hafa þörf fyrir öflugan og faglegan stuðning – með vistun í fósturfjölskyldum, þannig að þeir mæti daglega traustum, fyrirsjáanlegum og umhyggjusömum fullorðnum sem hafi mikla þekkingu á einstaklingum sem hafi gengið í gegnum alvarleg áföll og börnum með þroskaferil sem vikið hefur mjög frá því sem eðlilegt megi teljast. Drengirnir séu því í augljósri hættu á að enn frekar muni skorta á velferð þeirra og eðlilegan þroskaferil vegna óheppilegra gjörða foreldranna og ónægrar umhyggju fyrir þeim.

Hinn X 2015 er bókað í málinu að kærandi B sé komin með lögheimili á L en kærandi A sé enn í K. Aðstæður hafi verið kannaðar. Þar sem drengirnir hafi ekki verið taldir í bráðri hættu var ekki talið nauðsynlegt að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. bvl. Bókað er að farið hafi verið yfir ítarleg gögn sem komið hafi frá barnaverndaryfirvöldum í K sem hafi lagt til að drengirnir yrðu vistaðir utan heimilis í eitt ár. Kærandi B hafi farið með þá til M áður en sú tillaga kom fyrir úrskurðarefnd. Bókað er að upplýsingar frá K og gögn frá fyrri vinnslu á L gefi til kynna að vandinn sé það djúpstæður að engar líkur geti talist á því að flutningur móður og barna til M verði til að leysa hann. Sú niðurstaða var bókuð að sótt verði um fóstur til Barnaverndarstofu og málið undirbúið fyrir barnaverndarnefnd með tillögu um úrskurð og fóstur ef samþykki kærenda fáist ekki. Jafnframt verði gerð áætlun með kæranda B til skamms tíma um stuðning og eftirlit á meðan beðið sé frekari ákvarðana.

Hinn X 2015 er bókað að orðið hafi „alvarleg uppákoma“ á heimilinu sem að öllum líkindum megi rekja til þess að kærendur hafi neytt lyfja eða fíkniefna. Drengirnir hafi því verið vistaðir utan heimilis til bráðabirgða á meðan staða þeirra var metin og ákvörðun tekin um framhaldið. Þessi áætlun gilti til X 2016.

Hinn X 2015 er bókað á fundi barnaverndarnefndar að X hafi áhyggjufullir ættingjar kallað lögreglu og bakvakt barnaverndar á heimilið þar sem ekki hafði tekist að ná sambandi við kærendur. Eldri drengurinn hafði þá verið [...] en sá yngri sofandi ásamt kærendum. Þar sem ástand kærenda hefði þótt óvíst hefði verið ákveðið að vista drengina til bráðabirgða hjá J. Kærendur hafi samþykkt þá tilhögun. Hinn X hafi verið talið óhætt að drengirnir færu aftur í umsjá kærenda.

Hinn X 2016 er bókað að ættingi hafi tilkynnt um vanrækslu drengjanna vegna lyfjanotkunar kærenda. Hafi þau verið í lyfjamóki hinn X. Farið hafi verið á heimilið X en engu sambandi verið náð við kærendur og tilsjónaraðila ekki verið hleypt inn. Þá hafi kærendur afboðað sig úr fíkniefnaprófi fyrr í mánuðinum. Sú niðurstaða hafi verið bókuð að ástæða væri til að hafa verulegar áhyggjur af aðstæðum bræðranna og getu kærenda til að mæta þörfum þeirra. Nú hafi í annað sinn á skömmum tíma vaknað sterkur grunur um neyslu kærenda. Ákveðið var að könnun málsins yrði haldið áfram og reynt að finna bræðrunum vist utan heimilis svo að tryggja mætti öryggi þeirra og viðunandi umsjá.

Hinn X 2016 var bókað um fund barnaverndarnefndar. Allt bendi til þess að brestir í aðbúnaði drengjanna séu sambærilegir og verið hafi í X þegar barnaverndaryfirvöld í K hafi talið að bræðurnir þyrftu að fara í fóstur. Því sé það mat starfsmanna barnaverndar að það sé drengjunum fyrir bestu að komast í umsjá hæfra fósturforeldra sem fyrst. Bókað hafi verið eftir kærendum að þau væru fús til að nýta allan mögulegan stuðning til að ná tökum á vanda sínum og hafi óskað eftir því að nú yrði gerð áætlun um víðtækan stuðning og áformum um fóstur drengjanna frestað þar til í ljós kæmi hvernig sá stuðningur myndi heppnast. Kærendur kváðust mundu samþykkja tilsjón á heimilið og óskuðu eftir að komast á uppeldisnámskeið. Í lok fundar var bókað að ákvörðun um vistun drengjanna utan heimilis sé frestað til næsta fundar barnaverndarnefndarinnar. Starfsmönnum hafi verið falið að gera nýja áætlun með kærendum þar sem skýrt verði kveðið á um þá meðferð sem kærendur fari í til að fá bót á vanda sínum og efla foreldrahæfni sína. Það sé að mati barnaverndarnefndarinnar grundvallaratriði til að tryggja að drengirnir alist ekki upp á heimili þar sem vímuefnaneysla eigi sér stað og því þurfi að leggja áherslu á virkt eftirlit með því að svo verði ekki. Málið skyldi tekið fyrir að nýju á fundi X 2016 og fyrr ef þurfa þætti.

Í bókun X 2016 um fund barnaverndarnefnarinnar segir að X 2016 hafi verið gripið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. bvl. og drengirnir fjarlægðir af heimilinu. Hafi þetta verið gert í samhengi við húsleit lögreglu á heimilinu þar sem lögregla hafi fundið töluvert magn fíkniefna. Hafi drengirnir verið vistaðir á ótilgreindum stað. Kærendur hafi mætt á fundinn ásamt lögmanni sínum. Hafi þeim verið tjáð að fyrir fundinn lægi tillaga um vistun drengjanna utan heimilis, sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. bvl., og að gerð yrði krafa fyrir dómi um að sú ráðstöfun héldist í allt að 12  mánuði. Hafi verið bókað eftir lögmanni kæranda að þau skildu að samningstaða þeirra væri slæm og væru reiðubúin til samstarfs við barnaverndarnefndina með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi. Þau væru reiðubúin að samþykkja tímabundnar aðgerðir þar sem drengirnir yrðu vistaðir á vegum barnaverndarnefndarinnar í allt að 12 mánuði.

Hinn X 2016 var bókað að drengirnir væru komnir í tímabundið fóstur með samþykki kærenda. Umgengni hafi farið fram einu sinni en framhaldið væri óráðið. Erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við kærendur til að fjalla um umgengni og nauðsynlegar ráðstafanir til að efla foreldrahæfni þeirra.

Hinn X 2016 kvað barnaverndarnefnd upp þann úrskurð að drengirnir skyldu vera um kyrrt á fósturheimilinu í allt að tvo mánuði. Segir jafnframt í úrskurðinum að barnaverndarnefnd muni gera þá kröfu fyrir dómi að ráðstöfunin standi í allt að eitt  ár sé þess þörf, sbr. 1. mgr. 28. gr. bvl.

Hinn X 2016 gerði barnaverndarnefnd þá kröfu fyrir dómi að vistun drengjanna yrði framlengd í allt að tólf mánuði, sbr. 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. bvl. Héraðsdómur féllst á kröfur barnaverndarnefndar þó þannig að tímabundin vistun utan heimilis myndi vara í allt að níu mánuði. Þessa niðurstöðu staðfesti Hæstiréttur með dómi X 2016, sbr. mál nr. X.

Barnaverndarnefnd hafi óskað eftir forsjárhæfnismati N sálfræðings X 2016. Í skýrslu matsmanns X kemur fram að matsmaður  hafi fylgst með umgengni á heimili þeirra og hafi þau sýnt yfirvegun og færni til að takast á við drengina. Eldri drengurinn hafi sótt mikið í kæranda A og hafi setið þétt upp við hann og tekið utan um hann. Einnig hafi drengurinn tekið utan um kæranda B. Þau hafi bæði verið fær um að sýna drengjunum hlýju og umburðarlyndi þegar fylgst hafi verið með í umgengni. Kærendur séu bæði hæf til að sýna drengjunum kærleika. Ást þeirra til drengjanna sé sýnileg, einlæg og einnig tjáð í orðum. Eldri drengurinn tengist foreldrum sínum sterkum böndum, sérstaklega kæranda A. Þegar drengurinn hafi verið X hafi ekki verið óregla á heimilinu. Kærandi A hafi verið [...] og kærandi B hafi sinnt drengnum vel að mati þeirra sem til hafi þekkt og myndað við hann geðtengsl. Kærendur hafi ekki eins sterk geðtengsl við yngri drenginn þar sem hann hafi farið ungur að heiman. Enginn efi leiki á því að þau elski báða drengina. Þau sýni þeim ást og hlýju og vilji verja tíma sínum með þeim.

Veikleikar kærenda í uppeldislegu tilliti séu af samsettum og langvarandi toga þar sem áfengis- og fíkniefnaneysla, geðraskanir og afbrotahegðun komi við sögu. Það hafi komið niður á foreldrahæfni þeirra og meðferðarheldni. Í sögu kærenda megi sjá merki um vanrækslu í umönnun drengjanna sem sýni veikleika í uppeldislegu tilliti. Barnaverndartilkynningar séu allt frá árinu 2013 og varði ófullnægjandi umsjón með barni og að barn sé sett í hættulegar aðstæður. Í skýrslu sinni fyrir dómi segði kærandi B að ekkert benti til þess að drengirnir hefðu orðið fyrir skaða vegna fíkniefnanotkunar hennar. Þeir væru við góða heilsu og hegðuðu sér vel. Hún teldi sig góða móður. Kærandi B hefði ekki frekar en kærandi A innsæi í þær afleiðingar sem lífsstíll þeirra hefði á drengina og sæi ekkert óeðlilegt við þær heimilisaðstæður sem drengjunum hefði verið boðið upp á.

Matsmaður kveður fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af velferð og þroska drengjanna í umsjá kærenda ef þau láti ekki af neyslu sinni. Börn, sem alist upp við neyslu foreldra sinna, þrói oft með sér sálfræðilegan vanda eins og lítið sjálfstraust, lélega sjálfsmynd, kvíða og depurð, líkamlega erfiðleika án læknisfræðilegra skýringa, slaka stjórnun á hegðun og tilfinningum. Einnig geti komið fram slök frammistaða í skóla. Félagsleg samskipti og hegðun geti einkennst af félags- og aðlögunarkvíða, ofvirkni, mótþróa, árásargirni, hegðunarvanda og aukinni hættu á neyslu.

Matsmaður telur kærendur skorta innsæi í eigin vanda. Þrátt fyrir að þau hafi verið búin að missa drengina hafi þau ekki séð ástæðu til að leita sér meðferðar fyrr en mörgum mánuðum síðar. Samkvæmt niðurstöðum persónuleikaprófs sé áhugi þeirra á meðferð minni en gerist og gangi hjá þeim sem séu í meðferð, en sjálf séu þau í eftirmeðferð um þessar mundir. Þau virðist sátt við sig eins og þau séu og sjái litla ástæðu til að breyta hegðun sinni. Báðir kærendur hafi farið í meðferð X 2016 en fallið á bindindinu.

Þá taki matsmaður fram að margar rannsóknir sýni að foreldrahæfni fólks sem sé í neyslu sé verulega skert. Þau séu oft með geðræn vandamál auk fíknivanda, séu oft fátæk með litla menntun og útsett fyrir áföllum. Kærendur hafi litla atvinnusögu og séu á framfæri sveitarfélagsins. Þau hafi á tímum sýnt vangetu í líkamlegri umönnun drengjanna, fatnaður hafi verið ófullnægjandi, óviðeigandi eða óhreinn, matur ófullnægjandi, skortur hafi verið á hreinlæti og læknisaðstoð og heimilið hafi oft verið ósnyrtilegt eins og lýsingar í gögnum beri með sér. Kærendur hafi getað haldið bindindi í einhvern tíma en fallið síðan oft í stuttan tíma sem sé nóg til þess að það skerði forsjárhæfni þeirra.

Eins og staðan sé núna sé hæfni kærenda til að fara með forsjá drengjanna verulega skert. Þau hafi ekki nýtt tímann sem drengirnir hafi verið í fóstri til að bæta stöðu sína og foreldrahæfni. Þau hafi ekki náð að halda sér edrú og vandi þeirra sé margþættur. Almennt megi segja að edrúmennska fólks festist ekki almennilega í sessi fyrr en að liðnum tveimur árum eftir að fólk hætti neyslu. Megi gera því skóna að vandamál kærenda séu það djúpstæð að þau hindri þau í að ná viðunandi árangri í foreldrahlutverkinu og gildi þá einu stuðningur fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og góður vilji þeirra sjálfra.

Í X 2016 veiktist fósturforeldri [...]. Barnaverndarnefnd ákvað þá, með hliðsjón af þeim jákvæðu upplýsingum sem komið hafi fram í matsgerð um styrkleika kæranda, að drengirnir fengju að fara aftur til þeirra. Horft var einnig til þess að vímuefnapróf kærenda höfðu verið neikvæð í X, X og X. Drengirnir hafi farið til kærenda X 2016. E hafi byrjað [...] og haldnir hafi verið reglulegir samráðsfundir þar með kærendum og barnavernd. F hafi [...].

Óboðað eftirlit með heimilinu byrjaði strax í X 2016 og X 2017 komu fram upplýsingar frá eftirlitsaðilum um að þeir teldu ekki allt með felldu á heimilinu. Sterk kannabislykt væri í íbúðinni og kærandi A skrítinn til augnanna. Í kjölfarið hafi kærendur verið boðuð til vímuefnaprófs og niðurstöður úr prófi kæranda A verið jákvæðar fyrir kannabis og amfetamíni en próf kæranda B hafi verið neikvætt. Eftir þetta hafi kærandi A haft samband við ráðgjafa hjá SÁÁ og hafi verið boðið að koma í meðferðarhóp í X vikur. Meðferðarstarfið hafi hafist X 2017 og átt að ljúka X 2017. Gerð hafi verið krafa um 100% mætingu. Mætingar kæranda A hafi reynst slakar. Kærendur hafi síðan óskað eftir því að mæta í stuðning á göngudeild SÁÁ. Þau hafi aðeins mætt þangað að litlu leyti.

Skýrslur hafi borist reglulega frá tilsjónarfólki sem farið hafi á heimili kærenda í óboðað eftirlit. Ekkert hafi verið mikið athugavert við heimilið til að byrja með. Fyrsta athugasemd hafi komið X 2017 þegar tilsjónaraðili hafi talið sig finna kannabislykt inni í íbúðinni en taldi þó ekkert að sjá á kærendum. Þetta hafi aftur gerst X og X 2017. Kærandi A hafi lýst því við tilsjónaraðila X 2017 að [...].

Í X 2017 hafi borist barnaverndartilkynning um að kærendur væru í vímuefnaneyslu og vanræktu drengina af þeim sökum. Einnig hafi komið fram að drengirnir dveldu að mestu hjá ömmu sinni.

Barnaverndartilkynning barst í X 2017 en þar kom fram að drengirnir, sérstaklega sá eldri, bæru merki um mikla vanlíðan og hræðslu. Starfsmenn hafi í kjölfarið farið í óboðaða vitjun á heimilið. Kærendur hafi verið heima. Kæranda A hafi verið tjáð að ástæða vitjunarinnar væri ítrekaðar tilkynningar um neyslu þeirra. Kærandi A hafi strax viðurkennt að þetta ætti við rök að styðjast og að þau hefðu bæði misst stjórn á neyslunni. Í viðtalinu hafi verið gerð krafa um að kærendur færu bæði í fíkniefnapróf og samþykkti kærandi A það fyrir sitt  leyti. Hann kvaðst einnig tilbúinn til að fara í afvötnun á Vog. Kærandi hafi greint frá því að drengirnir væru hjá ömmu sinni og hafi virst hissa á því að þeir hefðu [...]. Amma drengjanna hefði verið heimsótt strax í kjölfarið. Hún hafi staðfest að drengirnir hefðu verið í umsjá hennar undanfarnar vikur, enda kærendur í neyslu. Kvað hún E kvíðinn og lítinn í sér og ekki vilja vera hjá kærendum. Hún kvaðst geta haft drengina eitthvað áfram.

Eftir þetta samþykktu kærendur að F færi tímabundið í fóstur til sömu fósturfjölskyldu og áður og að E færi til J næstu X mánuði. Samkvæmt gögnum málsins héldu kærendur áfram fíkniefnaneyslu sinni. Hinn X 2017 bárust barnaverndarnefnd upplýsingar um að kærandi A [...]. Í kjölfarið hafi hann [...]. Barnaverndarnefnd hafi átt viðtal við kærendur X. Hafi þar komið fram að kærendur teldu sig fullfæra um að annast syni sína og hafi kærandi B óskað eftir að fá þá báða í sína umsjá. Þau hafi hafnað því að samþykkja vistun E hjá J til X. Kærendum hafi verið kynnt að lagt yrði til að báðir drengirnir færu í varanlegt fóstur en þau hafi algerlega hafnað því.

Eftir þetta hafi kærendur verið boðuð í fíkniefnapróf, fyrst X en X sinnum eftir það. Ekki hafi náðst samband við þau. Óboðað eftirlit á heimili hafi runnið út í sandinn, hafi síðast farið fram X en eftir það hafi tilsjónarfólki ekki verið hleypt inn.

Með úrskurði barnaverndarnefndar X 2017 var ákveðið að drengirnir skyldu dvelja áfram á fósturheimilum sínum í allt að X mánuði. Í kjölfarið tók barnaverndarnefnd ákvörðun um að höfða forsjársviptingarmál fyrir dómi.

Undir rekstri forsjársviptingarmálsins var O sálfræðingur dómkvödd til að gera forsjárhæfnismat. Matið hafi verið gert á tímabilinu X til X 2018. Í grundvallaratriðum hafi matið verið samhljóma því forsjárhæfnismati sem gert hafi verið fyrir barnaverndarnefnd. Í matinu kemur fram að út frá þörfum E sé mjög mikilvægt að hann verði áfram í nánum samskiptum við J sem hafi skipað stóran sess í hans lífi alla tíð. Undanfarið ár hafi hann sýnt mjög góðar framfarir í þroska og aðstæður hans beri með sér að hann upplifi öryggi á heimili J og í skólaumhverfinu. Ef breyting verði á aðstæðum hans með flutningi frá J sé ljóst að það sé ekki til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á líðan hans. Það eigi einnig við um aðstæður F en þegar hann hafi dvalið hjá kærendum hafi hann verið í miklum tengslum við J og [...]. Hann sé því nátengdur samskiptum við það fólk þegar hann umgangist kærendur og því hluti af hans stöðugleika að vera í reglulegum samskiptum við þau.

Dómkvaddur matsmaður kannaði tengsl drengjanna við kærendur með beinni athugun í umgengni, með upplýsingaöflun frá foreldrum, fósturforeldrum, starfsfólki leik- og grunnskóla og viðtali við E. Samskipti drengjanna við kærendur í umgengni hafi verið eðlileg og óþvinguð. Eldri drengurinn hafi sótt í nærveru við báða kærendur en yngri drengurinn hafi verið meira í leik en hafi gefið sig að kærendum þegar þau hafi sótt athygli hans. Báðir kærendur hafi greinilega lagt sig fram um að eiga ánægjuleg samskipti við drengina en samskiptin hafi ekki verið þeim fyllilega eðlileg, enda hefði þó nokkur tími liðið frá fyrri umgengni beggja drengjanna. E beri með sér að vera tengdur kærendum nánum böndum. Hann hafi myndað geðtengsl við þau bæði í æsku en þá hafi kærandi B að mestu séð um umönnun hans og kærandi A hafi átt regluleg samskipti við drenginn þótt hann væri [...]. Á þeim tíma er fjölskyldan bjó í K hafi komið fram áhyggjur af tengslamyndun hans við kærendur en í upplýsingum þaðan komi fram að E „virðist heldur ekki hafa væntingar um að tilfinningar hans og þarfir séu uppfylltar og samsamar sig þannig ekki með foreldrum eða notar þau sem „hið örugga skjól sitt“ í óþekktum aðstæðum“. Eftir að þau fluttu aftur til L hafi J komið aftur markvissar að umönnun hans og hjá henni hafi hann átt skjól þegar aðstæður kærenda hafi verið þannig að þau hafi átt erfitt með að koma til móts við þarfir hans. Þannig virðist E hafa upplifað betri stundir með kærendum vegna aðkomu J og styrkt þannig tengslin við kærendur. Þrátt fyrir að hafa dvalið um tíma á fósturheimilum hafi hann viðhaldið tengslum við kærendur en gögn málsins sýni að kærendur hafi lagt sig eftir því að eiga samskipti við hann þegar hann hafi komið í umgengni.

Í mati hins dómkvadda matsmanns kemur fram að F hafi ekki myndað jafn sterk geðtengsl við kærendur. Í gögnum frá K frá því að F var X vikna komi fram að hann „víkur sér undan augnsambandi og í síðustu skoðunum hefur hann í vaxandi mæli virkað eins og ekki náist tengsl við hann“. Þá sé greint frá því áliti að hann „sé undir svo miklu álagi að viðbrögð hans séu að víkja sér undan tengslum“. Þann tíma sem F hafi búið hjá kærendum hafi þau hvorugt verið í góðu jafnvægi en að sögn kæranda A hafi lífið þá verið erfitt og orka kærenda hafi farið of mikið í erfiðar aðstæður þeirra. Þann tíma sem F hafi búið hjá kærendum og þegar hann hafi komið í umgengni til þeirra hafi J haft mestu samskiptin við hann og tekið mesta ábyrgð á umönnun hans.

Hinn dómkvaddi matsmaður segir að samkvæmt upplýsingum frá kærendum, J og umsjónarkennara sé E klár og duglegur. Hann sé fljótur að tileinka sér nýja hluti og standi vel námslega. Hann sé nátengdur J. Hann hafi í gegnum tíðina getað reitt sig á hana og hafi sagt frá því í samtali við matsmann að hann ætti heima hjá J þar sem honum liði vel.

Að sögn kærenda, fósturmóður og leikskólakennara sé F glaðlyndur og skapgóður drengur. Hann sé félagslega sterkur og í góðu jafnvægi auk þess að vera duglegur, orkumikill og vilji sífellt hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar F hafi verið X mánaða hafi hann farið til fósturdvalar ásamt eldri bróður sínum. Þar hafi hann dvalið í X mánuði þar til hann hafi flutt aftur til foreldra sinna. Frá X 2017 hafi hann búið hjá sömu fósturforeldrum. Samhliða búsetu hjá kærendum hafi hann alla tíð verið í góðu sambandi við J sem borið hafi mesta ábyrgð á umönnun hans þegar hann hafi komið í heimsóknir til foreldra meðan á fyrri fósturdvöl hafi staðið. Þegar hann hafi búið á heimili kærenda hafi hún áfram komið mikið að umönnun hans. Í samtali við fósturmóður hafi verið greinilegt hversu mikla ást og væntumþykju hún og fjölskyldan beri til F. Þar sé hann fyrir löngu orðinn einn af fjölskyldunni og þau leggi mikla áherslu á að hann búi áfram á heimili þeirra þar sem honum líði vel. Það sé og mat leikskólakennara F að honum líði vel á fósturheimilinu og vel sjáist að fósturforeldrum hans þyki mjög vænt um hann. F hafi lýst því skýrt í samtali við matsmann að hann ætti heima hjá fósturfjölskyldunni.

Dómkvaddur matsmaður tekur fram að þegar geta kærenda til að koma til móts við og sinna þörfum drengjanna sé skoðuð út  frá persónuleikaprófum komi fram að þau telji sig bæði vera hlý, vinaleg og skilningsrík. Þau eigi á hinn bóginn bæði erfitt með að takast á við áföll, telji aðra ábyrga fyrir eigin vellíðan og vísbendingar komi fram um að þau geti átt erfitt með að tjá reiði með viðeigandi hætti. Þá séu þau hugsanlega blind á eigin hegðun og ónæm fyrir neikvæðum afleiðingum hennar á þau sjálf og aðra.

Matsmaður vísar til niðurstöðu fyrra forsjárhæfnismats sem gert var X 2016 en þar komi fram að hæfi kærenda til að fara með forsjá drengjanna sé verulega skert. Matsmaður bendir á að kærendur hafi ekki nýtt þann tíma sem drengirnir hafi verið í fóstri til að bæta stöðu sína og foreldrahæfni. Þau hafi ekki náð að halda sér edrú og vandi þeirra hafi verið talinn margþættur. Þegar matsmaður í fyrra ferli hafi rætt við kærendur höfðu þau verið edrú í nokkra mánuði og hafi verið staðráðin að halda bindindi fyrir drengina. Frá þeim tíma hafi aðstæður verið þannig að drengirnir hafi verið í umsjá kærenda frá miðjum X 2016 fram til X 2017. Á þeim tíma hafi barnavernd borist fjöldi tilkynninga vegna gruns um fíkniefnaneyslu kærenda frá X 2017. Þó að kærendum beri ekki saman um hve mikil neyslan hafi verið virðist hún hafa staðið fram í X þegar kærandi A hafi [...]. Frá þeim tíma greini báðir kærendur frá því að hafa snúið við blaðinu og hætt fíkniefnaneyslu. Þau hafi lagt áherslu á að vinna í andlegri og líkamlegri líðan með góðum árangri. Matsmaður kveðst leggja trúnað á þessar frásagnir kærenda. Á hinn bóginn sé ekki fram hjá því horft að kærendur hafi áður lagt upp með að taka á sínum málum en ekki náð að sýna úthald. Nú séu aðeins liðnir um sex mánuðir frá því að upplýsingar liggi fyrir um fíkniefnaneyslu kærenda. Það sé mjög stuttur tími miðað við sögu þeirra og ekki komin næg reynsla á batann. Þegar málið sé virt í heild sé óvissan of mikil til að réttlætt geti að ógna stöðugleika drengjanna í núverandi aðstæðum.

Niðurstaða dómsins X 2018 varð sú að svipta kærendur forsjá drengjanna, meðal annars með vísan til framangreindra matsgerða. Með bréfi Landsréttar X 2018 var beiðni kærenda um áfrýjunarleyfi hafnað.

Hinn kærði úrskurður varði umgengni kærenda við drengina í varanlegu fóstri. Í  úrskurðinum er vísað til þess að mál bræðranna hafi síðast verið til umfjöllunar á fundi Barnaverndarnefndar C X 2018 vegna umgengni þeirra við kærendur. Hafi þá verið felldur eftirfarandi úrskurður: „E hafi eins og verið hefur umgengni við móður sína einu sinni í viku tvo tíma í senn. Meginreglan verði sú að umgengni fari fram á heimili [...]. E fari í heimsókn til F bróður síns á fósturheimili hans í Ieinn sólarhring í mánuði í stað tveggja. F hafi eins og áður umgengni við móður sína einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn á heimili [...]. Skal sú umgengni að jafnaði vera í beinu framhaldi af heimsókn E til bróður síns í I. Beiðni föður um heimsóknir drengjanna [...] verður endurskoðuð þegar dómur í forsjársviptingarmáli liggur fyrir.“

Í úrskurðinum kemur fram að haft hafi verið samband við kærendur í X 2018 þegar niðurstaða í forsjársviptingarmáli hafi legið fyrir hjá héraðsdómi. Á teymisfundi starfsmanna hafi verið lagt til að dregið yrði verulega úr umgengni kæranda við F sökum takmarkaðra geðtengsla. Þá hafi þótt mikilvægt að umgengni kærenda við E yrði ríkulegri vegna tengsla þeirra við hann og þess að hann væri í fóstri hjá J. Kærendur hafi ekki komið með formlegar kröfur en hafi viljað að umgengni við E yrði sem ríkulegust og umgengni við F eins oft og hægt væri.

Ítrekað hafi verið rætt við aðila málsins og reynt að ná samkomulagi um umgengni sem talin væri þjóna hagsmunum drengjanna best. Tekið hafi verið mið af tilgangi og markmiði fósturráðstöfunar, sbr. ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), og fengið fram sjónarmið fósturforeldra, sbr. a. lið 74. gr. bvl. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um umgengni hafi verið úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Börnin E og F hafi umgengni við foreldra sína, B og A sem hér segir:

Umgengni E við foreldra sína verði óbreytt næstu X mánuði, þ.e. endurmetin að nýju í X 2020 og fyrr ef ástæða þykir til.

Umgengni F við foreldra sína verði tvisvar sinnum á ári, í tvo tíma í senn fyrstu vikuna í mars og september ár hvert að viðstöddum fósturforeldrum og að minnsta kosti fyrst um sinn í húsnæði barnaverndar.

Skilyrði fyrir umgengni er að foreldrar séu ekki undir áhrifum áfengis eða vímuvaldandi efna. Er vonast til að það náist að gera skriflegt samkomulag við foreldra um tilhögun umgengni sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga hvað varðar báða drengina.“

 

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt umgengni við drengina E og F sem hér segir: Umgengni við E verði vikulega, á sunnudögum, fimm klukkustundir í senn, nema fyrstu helgi í mánuði en þá verði hún frá kl. 12:00 á hádegi á laugardegi til kl. 15:00 síðdegis á sunnudegi. Umgengnin fari fram á heimili kærenda. Umgengni við F verði á tveggja mánaða fresti, þriðja föstudag mánaðar, þrjár klukkustundir í senn, og fari fram á heimili [...] kæranda A.

Kærendur kveðast una eftirfarandi skilyrðum: Að umgengni við E, önnur en næturheimsóknin, fari fram að viðstöddum fósturforeldrum drengsins. Að umgengni við F fari fram að viðstöddum fósturforeldrum drengsins. Að kærendur séu allsgáðir í umgengninni og undirgangist vímuefnapróf því til staðfestu.

Kærendur byggi kröfu sína um aukna umgengni við E á því að tengsl þeirra við hann séu djúpstæð, góð og þeim öllum mikilvæg. Það komi skýrt fram í öllum fyrirliggjandi gögnum svo sem sálfræðilegri matsgerð sem sé meðal gagna málsins hjá barnaverndarnefnd. 

E sé vistaður hjá J. Mikilvægt sé að stórfjölskyldan geti átt eðlileg samskipti án óeðlilega mikilla afskipta barnaverndar. Þar á meðal að kæranda A sé frjálst að heimsækja heimili J og hún heimili hans. Þetta hljóti að skipta drenginn máli.

Kærendur merki greinilega andúð í sinn garð í orðalagi hins kærða úrskurðar. Þar sé hlutum ekki lýst á hlutlægan hátt heldur allt litað neikvæðu viðhorfi gagnvart þeim. Komi þetta víða fram í texta úrskurðarins. Til dæmis segi að kærendur hafi „ekki lagt fram formlegar kröfur“ um umgengni en vildu hafa sem tíðasta og mesta umgengni. Kærendur vilji sem mesta og tíðasta umgengni, sá vilji sé einlægur og þó að þau hafi ekki séð ástæðu til að setja niður fasta kröfu um hvenær og hve oft, heldur þiggja bara það sem byðist, þá hafi það enga þýðingu. Á sama hátt sé sagt að sérfræðimötin sýni að E hafi „ákveðin tilfinningaleg tengsl við kynforeldra sína“, sem sé mjög villandi miðað við að mötin lýsi nánum og innilegum tengslum. Bendi kærendur á lýsingu N sálfræðings í matsgerð sem unnin hafi verið fyrir barnaverndarnefnd á bls. X þar sem segir: „Af samtölum við drenginn má draga þá ályktun að drengurinn sé greinilega mjög tengdur foreldrum sínum [...] og virðist vilja hafa þau nærri sér“. Líðan og aðstæður kærenda séu með besta móti undanfarið, ef frá sé talið að þau hafi ekki börnin sín, en allir sem að umgengni þeirra og E hafi komið lýsi því að umgengni hafi gengið mjög vel í alla staði. Þessu sé þó lýst þannig í hinum kærða úrskurði að umgengnin hafi gengið „áfallalaust fyrir sig hingað til og virðist ekki hafa truflandi áhrif á hans daglega líf.“

Þetta viðhorf virðist hafa haft áhrif á störf barnaverndar og niðurstöðu barnaverndarnefndar. Undarlegt sé að gera ekki meira með hversu vel hafi gengið að undanförnu. Að þessu leyti séu vinnubrögðin hvorki málefnaleg né fagleg.

Kærendur bendi á að í öllum gögnum sem yngri séu en eins árs komi fram að umgengni E við kærendur hafi að því er virðist eingöngu góð áhrif á drenginn. Til þess horfi barnaverndarnefndin ekki, heldur einungis til „forsögu foreldra" án þess að fara nokkrum orðum um hvað það sé sem í dag réttlæti svo miklar umgengnistálmanir. Án þess að gert sé lítið úr þessari forsögu þá séu það ekki nægjanleg rök fyrir niðurstöðunni nú. Úrskurðurinn sé meðal annars rökstuddur með því að upplýsingar liggi fyrir um að E tali ekki mikið um kærendur að eigin frumkvæði. Þær upplýsingar komi frá skólanum. Sérfræðingar sem kærendur hafi talað við segi að almennt forðist börn í fóstri frekar að tala um foreldra sína til að kalla ekki yfir sig athygli vegna aðstæðna sinna. Þessi staðreynd hafi því ekkert vægi sem réttlætt geti að dregið sé úr umgengni.

Í niðurstöðu barnaverndarnefndarinnar sé talað um „afgerandi forsjárhæfnismat“. Hér sé stórt tekið upp í sig. Niðurstaða forsjárhæfnismats sé sú að að neysluvandi kærenda sé það sem skerði hæfni þeirra og það edrútímabil, sem verið hafi í aðdraganda matsvinnunnar, væri ekki nógu langt til að verjandi væri að fela kærendum að fara áfram með forsjána. Matið verði því ekki túlkað öðru vísi en svo að séu kærendur ekki í neyslu, séu þau hæf og geti því ekki réttlætt skerðingu umgengni nema það sé byggt á rannsóknum á neyslu kærenda sem barnaverndarnefndin hafi ekki hirt um að gera.

Kærendur hafi nú verið edrú frá því í X 2017. Frá því að forsjársviptingarmálið hafi verið rekið hafi margt snúist til batnaðar hjá þeim. Kærandi B hafi tekið bílpróf, verið í inniliggjandi meðferð á P og síðar í eftirfylgni. Kærandi A hafi farið vikulega í tíma hjá SÁÁ ráðgjafa um X mánaða skeið og hafi haft trúnaðarmann úr AA samtökunum með mjög góðum árangri. Hann sé nú að hefja endurhæfingu undir handleiðslu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs þar sem fram fari regluleg sálfræðiviðtöl og viðtöl við ráðgjafa. Áætlað sé að koma honum í vinnuprófanir sem fyrst, en þann stuðning fengi hann ekki ef hann væri í neyslu.

Varðandi það hvar umgengni við E fari fram, standi ýmis rök til þess að fallast á að hún verði á heimili kærenda. Þau eigi nú gott heimili á Q [...]. Gott sé fyrir fósturforeldrið að fá stundum smá frí. Auk þess sé miklu meira gefandi, bæði fyrir kærendur og drenginn, að geta átt umgengni í sínum eigin aðstæðum og á eigin forsendum.

Umgengni við E hafi átt sér stað á heimili [...]. Þar búi að auki [...] en einnig sé þar talsvert gestkvæmt. Það hafi því verið mjög truflandi fyrir kærendur og drenginn að geta ekki haft meira næði og stjórn á aðstæðum en þar sé. Fósturmóðir E samþykki að hún verði viðstödd umgengni á heimili kærenda ef til þess komi, sbr. meðfylgjandi yfirlýsingu hennar þess efnis.

Varðandi aukna umgengni við F, sé auk framangreindra sjónarmiða, einnig vísað til þeirra mikilvægu mannréttinda að nánir ættingjar fái að þekkjast og umgangast. Komi þetta víða fram, meðal annars í 71. gr. stjórnarskrárinnar og í 2. mgr. 74. gr. bvl. Mikilvægt, sé miðað við það að umgengnin sé það þétt, að viðkomandi þekkist þegar þeir hittist næst. Með svo strjálli umgengni sem barnaverndarnefnd úrskurði um, sé hamlað gegn því að tengslin sem séu á milli F og kærenda geti haldist.

Af sömu ástæðu sé mikilvægt að umgengnin fari fram á skemmtilegri stað en í húsnæði barnaverndar. Lagt sé til húsnæði [...] í þessu skyni. F sé kraftmikill, félagslyndur og fjörugur drengur sem vilji helst af öllu eiga góða stund á leikvelli fremur en að vera bundinn inni í skrifstofuhúsnæði sem hann þekki ekkert til. Því væri betra að hafa umgengnina í fjölskylduvænni aðstæðum og helst þar sem mögulegt væri að komast á leikvöll.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C til úrskurðarnefndarinnar 15. mars 2019 er vísað til þess að kærendur hafi verið svipt forsjá drengjanna með dómi héraðsdóms X 2018. Í kjölfarið hafi drengjunum verið komið fyrir í varanlegu fóstri. Þegar um varanlegt fóstur sé að ræða sé barni komið í fóstur þar til það verði sjálfráða. Þær aðstæður hafi kallað á að drengirnir þyrftu að alast upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmið með fóstrinu sé að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri til að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra.

Eins og fram komi í fyrirliggjandi sálfræðilegri matsgerð X 2018 séu kærendur óraunsæir og í afneitun með stöðu sína en þau hafi bæði glímt við langvarandi erfiðleika. Þau sjái ekki ástæðu til að gera breytingar á hegðun sinni og sýni mikið innsæisleysi varðandi neyslu sína og afleiðingar hennar á líf þeirra og heilsu. Þá sé ekki hægt að horfa fram hjá því að mjög stuttur tími sé liðinn frá viðsnúningi þeirra að því er varði vímuefnaneyslu.

Eftir að dómur hafi fallið í forsjársviptingarmáli, eða X 2018, hafi kærendur komið til viðtals við starfsmenn barnaverndar. Þar hafi verið óskað eftir sjónarmiðum þeirra varðandi umgengni við drengina og þeim jafnframt verið kynntar tillögur barnaverndarstarfsmanna um að dregið yrði úr umgengni þeirra við F. Kærendur hafi ekki haft sérstakar kröfur fram að færa varðandi umgengni en hafi biðlað til starfsmanna um að hagsmunir drengjanna yrðu hafðir í fyrirrúmi þegar umgengni yrði ákveðin. Þau hafi sagt að þau gerðu sér grein fyrir því að umgengni við F yrði takmörkuð þar sem tengsl þeirra við hann væru lítil. Á hinn bóginn þætti þeim mikilvægt, og hafi lagt á það mikla áherslu, að umgengni við E yrði ríkuleg. Kærendum hafi verið gerð grein fyrir tillögum starfsmanna barnaverndar og ítrekað við þau mikilvægi þess að koma athugasemdum á framfæri ef þau væru ósátt við tillögurnar.

Rætt hafi verið við fósturmóður E og drenginn sjálfan. Drengurinn hafi verið í góðu jafnvægi og viðræðugóður. Fram hafi komið að hann vildi hitta kærendur hjá „[...]“ eins og áður.

Reynt hafi verið að ná samkomulagi um umgengni sem talin væri þjóna hagsmunum drengjanna best og tæki mið af tilgangi og markmiði fósturráðstöfunar samkvæmt 74. gr. bvl. Einnig hafi sjónarmið fósturforeldra verið fengið samkvæmt 74. gr. a. bvl.

Þær umgengniskröfur, sem kærendur leggi fram í kæru sinni, geti ekki talist raunhæfar á þessu stigi málsins. Lítil reynsla sé fram komin á stöðugleika þeirra og því of mikil óvissa sem felist í því að auka umgengni við drengina nú.

Hafa beri í huga að forsendur fyrir umgengni drengjanna við kærendur séu ólíkar. Lagt hafi verið til að umgengni við E, sem sé tengdari kærendum, væri óbreytt í X mánuði og metin að nýju í X 2020. Umgengni kærenda við F hafi á tímabilinu X 2017 til X 2018 verið að jafnaði einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn hjá [...]. Ekki sé tilefni til að ætla að það þjóni hagsmunum F að halda umgengni áfram með þeim hætti og því talið ásættanlegt að hann umgangist kærendur tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn og barnavernd tryggi með þeim hætti að hann þekki uppruna sinn.

Í málatilbúnaði sínum vísi kærendur til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 74. gr. bvl. Barnaverndarnefnd taki fram að réttur aðila til að njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu megi takmarka ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hér sé verið að gæta að réttindum drengjanna, en þeir eigi rétt á öryggi, vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Allar ákvarðanir varðandi börn í störfum barnaverndarnefndar séu byggðar á því sem börnunum sé fyrir bestu. Við matið á því hvort umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barna sé litið til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Í þessu máli sé það óumdeilt að fóstrinu sé ætlað að vara til 18 ára aldurs drengjanna. Aukin umgengni í þessu tilviki, sérstaklega að því er varði yngri drenginn, samrýmist því ekki þeim markmiðum sem stefnt sé að með varanlegu fóstri. Það liggi fyrir að endurskoða eigi umgengni við eldri drenginn í X 2020 og því ekki talin ástæða til að breyta þeirri umgengni.

Með vísan til þess er að framan greinir, gagna málsins og þá sérstaklega nýlegs forsjárhæfnismats, sem lagt hafi verið fyrir héraðsdóm í forsjársviptingarmálinu, skuli það áréttað að ekki sé efast um ást kærenda í garð drengjanna og því skiljanlegt að þau þrái meiri samveru við þá. Það sé á hinn bóginn ekki hægt að horfa fram hjá því að kærendur hafi áður lagt upp með að taka á sínum málum en ekki náð að sýna úthald.

Þegar um varanlegt fóstur sé að ræða sé barni komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Í slíkum tilvikum hafi aðstæður kallað á það að barn þurfi að alast upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmiðið með slíkri ráðstöfun sé að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri til að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra.

Eins og fram komi í sálfræðilegri matsgerð O X 2018 séu kærendur óraunhæfir og í afneitun með stöðu sína, en þau hafi bæði glímt við langvarandi erfiðleika. Þau sjái ekki ástæðu til þess að gera breytingar á hegðun sinni og sýni mikið innsæisleysi varðandi neyslu sína og afleiðingar hennar á líf þeirra og heilsu. Þá sé ekki hægt að horfa fram hjá því að mjög stuttur tími sé liðinn fá viðsnúningi þeirra hvað varði vímuefnaneyslu.

Samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar C X 2018 hafi umgengni við drengina verið ákveðin með eftirfarandi hætti, en á þeim tíma hafi forsjármál verið rekið fyrir dómstólum. E hafi notið umgengni við kæranda B einu sinni í viku í tvo tíma í senn. Meginreglan hafi verið sú að umgengni hafi farið fram á heimili [..]. E hafi farið í heimsókn til F á fósturheimili bróður síns á I einn sólarhring í mánuði.

F hafi notið umgengni við móður sína einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn á heimili [...]. Hafi sú umgengni að jafnaði verið í beinu framhaldi af heimsókn E til bróður síns á I.

Faðir drengjanna hafi [...] á þessum tíma og tekin hafi verið ákvörðun um að taka fyrir beiðni hans um [...] þegar dómur í forsjársviptingarmálinu lægi fyrir. Dómurinn lá fyrir X en þar hafi verið fallist á kröfur Barnaverndarnefndar C um að svipta foreldra forsjá beggja drengjanna. Fyrir hafi legið að fósturforeldrar beggja drengjanna hafi verið tilbúinir til að taka drengina í varanlegt fóstur og hafi haft öll tilskilin leyfi til þess frá Barnaverndarstofu.

Bókun hafi verið gerð á teymisfundi starfsmanna barnaverndarnefndarinnar X 2018 þar sem meðal annars hafi komið fram að taka þyrfti ákvörðun og leggja línur varðandi umgengni drengjanna við foreldra sína í kjölfar forsjársviptingar. Lagt hafi verið til að dregið yrði verulega úr umgengni kærenda við F vegna þeirra takmörkuðu tengsla sem væru á milli hans og kæranda. Í máli E hafi þótt mikilvægt að haga umgengni eins og hún þætti henta hag og þörfum drengsins. Þá hafi jafnframt verið ákveðið að fá fram sjónarmið kærenda með tilliti til umgengni og sömuleiðis að ræða sérstalega við E og fá fram upplifun hans og líðan í umgengni við kærendur.

Í kjölfarið hafi kærendur komið til viðtals við starfsmann barnaverndar X 2018 þar sem óskað hafi verið eftir þeirra sjónarmiðum varðandi umgengni við drengina. Jafnframt hafi þeim verið kynntar tillögur starfsmanna barnaverndar um að dregið yrði úr umgengni þeirra við F. Kærendur kváðust þá ekki hafa sérstakar kröfur fram að færa varðandi umgengni en hafi biðlað til starfsmanna um að hagsmunir drengjanna yrðu í fyrirrúmi þegar umgengni yrði ákveðin. Þau sögðust gera sér grein fyrir því að umgengni við F yrði takmörkuð þar sem tengsl þeirra við hann væru lítil. Á hinn bóginn þætti þeim mikilvægt og lögðu á það mikla áherslu að umgengni við E yrði ríkuleg.

Rætt hafi verið við fósturmóður E og drenginn sjálfan. Drengurinn hafi verið í góðu jafnvægi og viðræðugóður og fram hafi komið í máli hans að hann vildi hitta foreldra sína hjá „[...]“ eins og áður og einnig vildi hann hitta F bróður sinn þar. Þá hafi einnig verið rætt við fósturforeldra E og umgengni ákveðin í kjölfarið. Kærendum hafi verið gerð grein fyrir tillögum starfsmanns barnaverndar og ítrekað við þau mikilvægi þess að koma athugasemdum á framfæri við tillögurnar ef þau væru ósátt.

Þær umgengniskröfur, sem kærendur leggi fram í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála, geti ekki talist raunhæfar á þessu stigi. Eins og fram hafi komið sé lítil reynsla komin á stöðugleika kærenda og því of mikil óvissa að auka umgengni við drengina nú.

Hafa skuli í huga að forsendur fyrir umgengni bræðranna við kærendur séu ólíkar. Lagt hafi verið til að umgengni E, sem sé tengdari kærendum, yrði með óbreyttum hætti í X mánuði. Umgengnin yrði endurmetin að nýju í X 2020. Umgengni kærenda við F hafi frá X 2017 til X 2018 verið að jafnaði einu sinni í mánuði í um tvo tíma í senn og hafi farið fram hjá [...]. Ekki sé tilefni til að ætla að það þjóni hagsmunum drengsins að halda umgengni áfram með þeim hætti og því sé talið ásættanlegt að drengurinn umgangist kærendur tvisvar sinnum á ári í um tvo tíma í senn og barnavernd tryggi með þeim hætti að hann þekki uppruna sinn.

Lögmaður kærenda vísi kröfum sínum til stuðnings meðal annars til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 74. gr. bvl. Barnaverndarnefnd taki fram að réttur aðila til að njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu megi takmarka ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hér sé verið að gæta að réttindum drengjanna, en þeir eigi rétt á öryggi, vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Allar ákvarðanir er varði börn í störfum barnaverndar séu byggðar á því sem börnum sé fyrir bestu. Við mat á því hvort umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barna sé litið til þess hversu lengi fóstrinu sé ætlað að vara. Í máli þessu sé það óumdeilt að drengirnir verði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs svo að aukin umgengni í þessu tilviki, og þá sérstaklega hvað varði yngri drenginn, samrýmist ekki þeim markmiðum sem stefnt sé að með varanlegu fóstri.

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra E

Í tölvupósti fósturmóður til úrskurðarnefndarinnar 14. júní 2019 kemur fram að E þoli umgengni við kærendur ágætlega og komi afslappaður og glaður úr umgengni. Fyrir hann sé best að fyrirkomulagið sé með þeim hætti að hann upplifi ekki að hann sé „öðruvísi“ en aðrir krakkar, skólafélagar til dæmis, á þann hátt að hann megi ekki hitta kynforeldra. Að mati fósturmóður sé ekkert því til fyrirstöðu að E hitti kærendur oftar en einu sinni í viku, af og til þegar þannig standi á. Fósturmóðir hafi farið með drengnum í örfá skipti í heimsóknir á heimili kærenda, en þá hafi hún verið viðstödd allan tímann. E muni að hennar mati ekki bíða skaða af því að dvelja á heimili kærenda um stundarsakir án hennar. Hún myndi fljótlega taka eftir því væri ekki allt með felldu.

 

V.  Sjónarmið fósturforeldra F

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 20. júní 2019 kemur fram að það sé álit fósturforeldra að núverandi fyrirkomulag þjóni hagsmunum drengsins vel. Þau telji það ekki til bóta fyrir hann að breyta umgengni eða auka hana að svo stöddu.

 

VI. Sjónarmið E

Við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd C var rætt við drenginn . Samkvæmt gögnum málsins sagði hann að gaman væri í skólanum og hann ætti tvo vini. Hann kvaðst vita að hann myndi búa áfram hjá fósturforeldrum og sagðist ánægður með það. Honum fyndist gaman að hitta mömmu og pabba hjá [...]. Hann segði að þau gerðu margt saman, færu stundum út að leika, stundum í göngutúr eða léku inni. Nú ættu mamma og pabbi [...]. Það fyndist honum gaman en hann sagðist [...]. Hann vildi gjarnan hitta mömmu og pabba oftar og þá hjá [...].

 

VII. Sjónarmið F

Vegna ungs aldurs drengsins var honum ekki skipaður talsmaður. Hann er aðeins X ára og því erfitt að fá fram afstöðu hans til að hitta kærendur.

 

VIII.  Niðurstaða

Drengirnir E og F eru fæddir X og X. Þeir eru sitt hjá hvorum fósturforeldrununum. E hefur verið í fóstri hjá J frá X 2017. Hann er þar nú í varanlegu fóstri. F hefur verið í fóstri hjá hjónunum G og H á I frá X 2017 en hann er þar nú í varanlegu fóstri. Áður en drengirnir fóru í varanlegt fóstur voru þeir báðir í tímabundnu fóstri fráX til X 2016 hjá hjónunum á I.

Kærendur voru svipt forsjá drengjanna með dómi Héraðsdóms R X 2018 en áfrýjunarleyfi fékkst ekki samkvæmt bréfi Landsréttar X eins og áður er komið fram.

Með hinum kærða úrskurði frá 25. janúar 2019 var ákveðið að kærendur hefðu umgengni við F tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn. Umgengni við E yrði einu sinni í viku tvo tíma í senn eins og verið hafði.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að F hafi mestalla ævi sína verið í umsjá núverandi fósturforeldra. Samkvæmt fyrirliggjandi sálfræðimötum hafi hann sterk geðtengsl við fósturforeldra sína en takmörkuð eða nánast engin tengsl við kærendur. E hafi í lengri og skemmri tíma dvalið á fósturheimilum, bæði hjá J þar sem hann sé nú í varanlegu fóstri og hjá fósturforeldrum F. Hann hafi samkvæmt fyrirliggjandi sálfræðimötum ákveðin tilfinningaleg tengsl við kærendur. E hafi haldið áfram að hitta kærendur einu sinni í viku í tvo tíma í senn á heimili [...]. Það hafi gengið áfallalaust og virðist ekki hafa áhrif á hans daglega líf. Fyrir liggi upplýsingar um að hann tali yfirleitt ekki um kærendur að fyrra bragði, en ef hann er spurður vilji hann alveg hitta þau oftar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að E sé í fóstri hjá J. Þá beri að hafa í huga að fyrir liggi afgerandi forsjárhæfnismat á kærendum, auk forsögu þeirra sem tali sínu máli. Niðurstaðan hafi verið forsjársvipting og varanlegt fóstur beggja drengjanna. Ástæður forsjársviptingar gefi ekki tilefni til að tekin verði til greina krafa kærenda um að E fái að gista hjá þeim, dvelja á heimili þeirra í umgengni eða að kærendur keyri hann í og úr umgengni. Þá gefi upplýsingar ekki tilefni til að hafa umgengni kærenda við F ríkulegri vegna þess að hann þekki kærendur lítið og tengist þeim ekki heldur tengist hann fósturforeldrum tilfinningaböndum og treysti þeim. Þyki því eðlilegt að fósturforeldrar fylgi honum í umgengni og því eðlilegt að umgengni, að minnsta kosti fyrst um sinn, fari fram í húsnæði barnaverndar. Einnig til að unnt sé að fylgjast betur með því hvernig umgengni gangi með tilliti til hagsmuna og velferðar F.

Í hinum kærða úrskurði segir að það sé mat nefndarmanna barnaverndarnefndar að hvorki fósturráðstafanirnar, sem séu varanlegar, né ástæða forsjársviptingar gefi tilefni til að auka umgengni.

Í málinu hefur komið fram að drengirnir hafa umgengni sín á milli.

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt umgengni við drengina E og F sem hér segir: Umgengni við E verði vikulega, á sunnudögum, fimm klukkustundir í senn, nema fyrstu helgi í mánuði en þá verði hún frá kl. 12:00 á hádegi á laugardegi til kl. 15:00 síðdegis á sunnudegi. Umgengnin fari fram á heimili kærenda. Umgengni við F verði á tveggja mánaða fresti, þriðja föstudag mánaðar, þrjár klukkustundir í senn, og fari fram á heimili [...].

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengirnir eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kærendur á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kærenda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengjanna best með tilliti til stöðu þeirra, en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kærenda við drengina þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengjanna í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengjanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hver raunveruleg tengsl drengjanna eru við kærendur. Einnig ber að líta til þess hvaða hagsmuni hvor drengur um sig hafi af umgengni við kærendur.

Frumgeðtengsl, sem barn býr að alla ævi, myndast á fyrstu tveimur árum í lífi þess. Í málinu liggur fyrir að eldri drengurinn, E, hefur myndað geðtengsl við kærendur. Varðandi það hvar umgengni við E fari fram, telja kærendur ýmis rök fyrir því að umgengni verði á heimili þeirra. Hér telur úrskurðarnefndin að líta verði til forsögu málsins, þar á meðal fyrra lífernis kærenda, þegar ákveðið er hvar umgengni á að fara fram. Skiptir miklu að umgengnin fari þannig fram að hún sé í samræmi við hagsmuni E og þróist á þann hátt að drengurinn sé öruggur í umgengni. Verður þetta að mati úrskurðarnefndarinnar best tryggt með því að umgengni fari fram á þeim stað sem hún hefur farið fram hingað til, þ.e. hjá [...].

Yngri drengurinn, F, hefur lítil tengsl við kærendur. Hann er því fyrst og fremst tengdur fósturforeldrum sínum sem hafa annast hann og er sú fjölskylda sem hann þekkir. Markmiðið með umgengni kærenda við F er að stuðla að því að hann þekki uppruna sinn en ekki að reyna að búa til ný tengsl við kærendur. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldra þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar. Á þessum tíma í lífi hans eru það því ekki hagsmunir hans að taka áhættu með því að auka umgengni svo sem kærendur leggja til. Þá hafa fósturforeldrar lýst því yfir að þau telji ekki til bóta að breyta umgengni eða auka hana að svo stöddu.

Varðandi hagsmuni drengjanna skiptir máli fyrir þá að þeir búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldum á eigin forsendum og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengjunum líður báðum vel og ekkert bendir til að þeir hafi þörf fyrir breytingar nú.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengjanna best við núverandi aðstæður að umgengni þeirra við kærendur verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin. Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar C.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 25. janúar 2019 varðandi umgengni A og B við syni sína, E og F, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta