Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 688/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 688/2021

Miðvikudaginn 26. janúar 2022

A

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 29. september 2021, varðandi umgengni hans við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D er á X aldursári. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B 22. febrúar 2018. Faðir stúlkunnar, sem er kærandi þessa máls, hefur ekki farið með forsjá hennar. Stúlkan hefur verið í vistuð í varanlegu fóstri hjá fósturmóður sinni, sem einnig er móðuramma stúlkunnar, fyrst í tímabundnu fóstri en í varanlegu fóstri frá 18. október 2019.

Um miðjan júní 2020 lagði lögmaður kæranda fram kröfu um umgengni á milli föður og stúlkunnar með vísan til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) Í júlí 2020 mætti faðir í viðtal hjá barnavernd þar sem hann greindi frá því að hann vildi einnig fá forsjá yfir stúlkunni. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 30. júlí 2021 var fjallað um beiðni kæranda um umgengni og forsjá stúlkunnar. Niðurstaða starfsmanna var sú að það væri ekki í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að fela föður forsjá eða að stúlkan ætti umgengni við hann. Kærandi óskaði eftir því að málið yrði lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B til úrskurðar.

Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengni á fundi nefndarinnar þann 29. september 2021.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D njóti ekki umgengni við föður sinn, A.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með tölvupóst 21. desember 2021. Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi hafi mikinn vilja til að hitta og vera í samskiptum við dóttur sína. Kærandi bendir á að það væri í samræmi við markmið barnaverndarlaga og meginreglur barnaverndarstarfs, sbr. sérstaklega 7. mgr. 4. gr. bvl., en þar segi meðal annars að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum grípa til almennra úrræða áður en gripið sé til annarra úrræða. Einnig segi þar að ávallt skuli miða við að beita vægustu ráðstöfunum. Krafa kæranda sé einnig í samræmi við réttindi barns á forsjá foreldra sinna, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 2. mgr. 1. gr. sömu laga. Þá byggi krafa kæranda einnig á því að kynforeldri eigi rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl. Þá sé einnig byggt á rétti barns í fóstri til umgengni við foreldra sína, sbr. 1. mgr. 74. bvl., sbr. 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Auk þess sé vísað til 1. og 2. mgr. 46. gr. bvl. sem kveða á um rétt barns og rétt foreldris til umgengni við hvort annað.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 3. janúar 2022, var óskað eftir skýringum lögmanns á því hvers vegna kæra hafi borist að kærufresti liðnum með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skýringar lögmanns bárust með tölvupósti, dags. 10. janúar 2022. Í svari lögmanns kæranda kom fram að hvorki lögmaður kæranda né lögmannsstofa hans væru aðilar málsins heldar væri það kærandi, skjólstæðingur lögmannsstofunnar. Samkvæmt bestu vitund lögmanns hafi honum ekki verið kynntur hinn kærði úrskurður fyrr en löngu síðar, þ.e. eftir að hann gekk þann 29. september 2021. Þar af leiðandi verði að ganga út frá því að kæran frá 22. desember 2021 hafi borist innan fjögurra vikna frests sem 1. mgr. 51. gr. bvl. áskilur. Sönnunarbyrðin fyrir því að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn hljóti að vera nefndarinnar. Viðbótarrökstuðningur lögmanns barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti, dags. 24. janúar 2022.

Frekari gagna var ekki aflað vegna kærunnar.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B var sendur lögmanni kæranda með Signet transfer þann 29. september 2021. Kæran barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti 21. desember 2021. Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða 29. september og lauk honum 7. október 2021. Líkt og fram hefur komið var kæra send úrskurðarnefndinni með tölvupósti 21. desember 2021 og barst kæran því nefndinni eftir að kærufestur var liðinn. Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur lögmaður kæranda veitt þær skýringar að hvorki lögmaðurinn né lögmannsstofan séu aðilar málsins heldur sé það kærandi málsins, sem sé skjólstæðingur lögmannstofunnar. Kæranda hafi ekki verið kynntur úrskurðinn fyrr en löngu síðar. Þar af leiðandi verði að ganga út frá því að kæran hafi borist innan kærufrests. Bendir lögmaður á að sönnunarbyrði fyrir því að úrskurður hafi verið kynntur fyrir aðila máls sé úrskurðarnefndarinnar.

Í viðbótarrökstuðningi lögmanns sem barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti, dags. 24. janúar 2022 kemur fram að ekki sé hægt að fallast á að kærufrestur hafi byrjað að líða þegar lögmanni barst hinn kærði úrskurður. Í 1. mgr. 51. gr. bvl. sé kveðið á um að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé sömuleiðis kveðið á um að ákvörðun stjórnvalds skuli tilkynnt aðila máls. Það hafi því ekki sérstaka þýðingu þó að lögmanni kæranda hafi verið kynntur úrskurður Barnaverndarnefndar B meira en fjórum vikum áður en hann var kærður til úrskurðarnefndarinnar. Því beri að líta svo á að kæran hafi borist innan fjögurra vikna frests, sbr. 1. mgr. 51. gr. bvl. Þegar litið sé til þess hvort afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist innan kærufrests sé eðlilegt að líta til þess ástands sem ríkir og hefur gert síðan heimsfaraldur kórónuveiru skall á Íslandi. Lögmenn hafi ekki farið varhluta af því og það sé því ekki einungis afsakanlegt heldur mannlegt að hlutir fari örlítið á mis í slíkum aðstæðum, hvort sem um sé að ræða rétta birtingu úrskurðar eða annað. Auk framangreinds telur lögmaður að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar og vísar í því sambandi til þess að kærandi hafi sýnt mikinn vilja í verki til að snúa við blaðinu og koma lífi sínu í betra horf. Á margan hátt hafi það tekist en veigamikill þáttur í því ferli sé að endurvekja góð og heilbrigð tengsl við dóttur sína. Þá hafi kærandi í mörg ár reynt að fá forsjá og/eða aukna umgengni við dóttur sína. Kærandi þrái ekkert frekar en að ná tengslum að nýju við dóttur sína og bæta fyrir fyrri mistök. Vandfundið sé að finna eins veigamikla ástæðu til að fallast á meðferð kærunnar, sbr. 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt gögnum málsins mætti lögmaður kæranda, C, ásamt kæranda á fund barnaverndarnefndarinnar þann 21. september 2021 og gerði þar grein fyrir afstöðu kæranda áður en málið var tekið til úrskurðar. Hinn kærði úrskurður barst lögmanni kæranda 29. september 2021 og lagði lögmaður fram kæru í málinu 21. desember 2021. Samkvæmt framangreindu gætti lögmaður kæranda hagsmuna hans í málinu hjá barnaverndarnefnd og kom fram fyrir hans hönd við meðferð þess hjá nefndinni. Telja verður að hann hafi verið bær til þess að taka við birtingu úrskurðarins fyrir hönd kæranda með þeim réttaráhrifum sem það hafði í för með sér. Í samræmi við framanritað verður að telja að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn í skilningi bvl. þann 29. september 2021 er lögmanni hans var sendur úrskurðurinn með Signet transfer á uppgefið netfang lögmannsins.

Samkvæmt því, sem rakið er hér að framan, hafa engar nægilegar haldbærar skýringar komið fram á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B 29. september 2021 varðandi umgengni við D, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta