Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 353/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 353/2018

Föstudaginn 30. nóvember 2018

 

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 4. október 2018 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. september 2018 vegna umgengni kæranda við son sinn, D. Er þess krafist að umgengni kæranda við drenginn verði sex sinnum á ári, eins og hún tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er tæplega fimm ára og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi er kynmóðir drengsins.

Drengurinn er í varanlegu fóstri en hann hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá því að hann var mánaðar gamall. Fyrst var hann í tímabundnu fóstri en í varanlegu fóstri frá X 2014. Fram að því að drengurinn fór í fóstur dvaldi hann á E og F. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms B X 2014.

Drengurinn á reglulega umgengni við eldri bróður sinn, G, sem er í varanlegu fóstri hjá [...]. Drengurinn nýtur einnig umgengni við föður sinn.

Kærandi hafði ekki haft umgengni við drenginn fyrstu æviár hans þar sem hún var í neyslu vímuefna og sóttist ekki eftir umgengni. Kærandi hafði fyrst umgengni við drenginn í október 2016 og óskaði í kjölfarið eftir frekari umgengni. Ekki náðist samkomulag um tíðni umgengni og því var málið lagt fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sem úrskurðaði þann 23. maí 2017 að kærandi ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári í klukkustund í senn. Umgengni fór fram samkvæmt úrskurðinum í september 2017 og apríl 2018.

Kærandi óskaði eftir því á árinu 2018 að umgengni yrði aukin en ekki náðist samkomulag á milli Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, fósturforeldra og kæranda um aukna umgengni. Var málið því lagt fyrir fund barnaverndarnefndar X september 2018. Á fundinum kom fram að bæði starfsmenn barnaverndarnefndar og fósturforeldrar vildu óbreytta umgengni, þ.e. tvisvar á ári.

Fram kemur í málinu að þar sem ekki hafi náðst samkomulag um umgengni hafi verið úrskurðað um málið á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. september 2018 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að D, hafi umgengni við móður sína, A, tvisvar sinnum á ári í allt að eina klukkustund í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Skilyrði er að móðir sé í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Þá verði fósturforeldrar viðstaddir ef þau kjósa það.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umgengni hennar við son sinn, D, verði aukin. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að umgengnin verði í sex skipti á ári en til vara að umgengni verði aukin miðað við það sem nú er.

Kærandi vísar til þess að með dómi Héraðsdóms B X 2014 hafi hún verið svipt forsjá sonar síns, D, vegna vímuefnavanda. Í kjölfarið hafi verið gengið frá vistun drengsins í varanlegt fóstur til fósturforeldra sem hafi annast hann frá því að hann var ungbarn. Fyrstu æviár drengsins hafi kærandi ekki haft við hann umgengni vegna vímuefnaneyslu en fyrsta umgengni hennar við drenginn hafi verið í október 2016. Í kjölfarið hafi hún óskað eftir frekari umgengni. Ekki hafi náðst samkomulag um tíðni umgengninnar og hafi málið því verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Barnaverndarnefndin hafi úrskurðað í málinu 23. maí 2017 um að kærandi ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári. Í samræmi við úrskurðinn hafi umgengni farið fram í september 2017 og apríl 2018.

Umgengni hafi gengið afar vel og ekki raskað ró drengsins með nokkrum hætti. Aðstæður kæranda hafi batnað til muna frá því sem áður hafi verið. Af þeim sökum hafi kærandi óskað eftir endurskoðun á úrskurði barnaverndarnefndarinnar þannig að umgengni færi fram sex sinnum á ári. Ekki hafi náðst samkomulag um umgengnina og hafi málið því verið tekið til úrskurðar á fundi barnaverndarnefndarinnar samkvæmt 74. gr. bvl. Þar sem ekki hafi verið fallist á kröfur kæranda um aukna umgengni sé málið borið undir úrskurðarnefnd velferðarmála.

Þrátt fyrir að kærandi vilji umgangast son sinn með reglubundnum hætti allan ársins hring setji hún fram kröfu um sex skipti á ári. Hún telji það hæfilega viðbót við það sem verið hafi og því sé hægt að koma á án þess að hagsmunum eða ró drengsins sé raskað. Sú umgengni sem ákveðin hafi verið með úrskurðinum 13. september síðastliðinn hafi verið sú sama og áður en það telji kærandi allt of lítið.

Kröfu sinni til stuðnings vísi kærandi til þess að aðstæður hennar séu mun betri en áður. Kærandi hafi glímt við veikindi, sér í lagi vímuefnavanda, á fyrstu mánuðum og árum sonar síns. Nú hafi hún verið edrú í tæplega 12 mánuði og virðist loks hafa náð varanlegum tökum á þeim sjúkdómi sem hún hafi háð baráttu við síðustu ár. Undanfarin misseri hafi hún búið á H en stefni á að komast í eigið húsnæði á næstu mánuðum.

Kærandi bendi sérstaklega á að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að það samrýmist ekki hagsmunum drengsins að fá við sig aukna umgengni. Umgengni hafi gengið afar vel og sé ekkert því til fyrirstöðu að auka hana, sér í lagi þegar kærandi hafi sýnt fram á langvarandi stöðugleika og edrúmennsku. Kærandi hafi umgengni við eldri bróður D sex sinnum á ári og hafi sú umgengni einnig gengið vel. Kærandi vilji hitta D til samræmis við það og sé tilbúin til að vinna með fósturforeldrum til að umgengni henti þeim og valdi sem minnstri röskun á hagsmunum og ró drengjanna. Kæranda þyki vitaskuld miður að veikindi hennar hafi orðið til þess að umgengni við drengina hafi verið lítil síðustu ár og sé fús til að viðurkenna að engar forsendur hafi verið til þess áður að auka umgengni. Í dag sé staðan allt önnur og treysti hún sér fullkomlega til að sinna umgengni í allt að sex skipti á ári án þess að það valdi vandkvæðum. Komi fram minnstu vísbendingar um að D aðlagist ekki aukinni umgengni muni kærandi sjálf óska þess að umgengni verði aftur takmörkuð við tvö skipti á ári.

Kærandi byggi á því að barn eigi rétt til umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem gildi hér á landi og Ísland sé aðili að. Kærandi telji að undanþáguákvæði 2. mgr. 74. gr. bvl. eigi ekki við, enda ekkert sem bendi til þess að það gangi gegn hagsmunum sona hennar að auka umgengni um þau örfáu skipti sem farið sé fram á.

 

III.  Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 24. október 2018 er vísað til þess að í 74. gr. bvl. sé fjallað um umgengni í fóstri. Segi þar í 1. mgr. að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hve lengi fóstri sé ætlað að vara.

Þær tillögur starfsmanna, sem lagðar hafi verið fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur X september 2018 og nefndin hafi fallist á, byggi á þeirri grundvallarforsendu að stefnt sé að því að drengurinn alist upp á núverandi fósturheimili til 18 ára aldurs. Í varanlegu fóstri sé markmiðið að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn væri að ræða. Drengurinn hafi aðeins verið tæplega mánaðar gamall þegar hann hafi farið í umsjá fósturforeldra en hann sé að verða fimm ára. Kærandi hafi enga umgengni haft við drenginn frá því að hann var sólarhringsgamall og hafi ekki sóst eftir umgengni fyrr en drengurinn hafi verið tæplega þriggja ára.

Afar jákvætt sé að kærandi hafi náð að gera breytingar á lífi sínu og það sé mikilvægt fyrir drenginn að hún sé í ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti í sjálfu sér ekki að kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Markmið með umgengni kæranda við drenginn sé ekki að byggja upp tengsl þeirra á milli heldur fyrst og fremst að drengurinn þekki uppruna sinn. Það sé mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að því verði náð með umgengni tvisvar á ári.

Drengurinn hafi tengst forsturforeldrum mjög vel og bæði þroskast og dafnað eðlilega. Hann búi við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra og þekki þau sem einu foreldra sína, þó að honum sé kunnugt um að hann eigi aðra foreldra. Ekki séu áform um að vinna að því að drengurinn tilheyri fleiri fjölskyldum.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Sérstaklega þurfi að tryggja að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengni þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn eins og gert sé með hinum kærða úrskurði sé stefnt að því að hann fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda sé líkleg til að valda honum. Markmiðið með því sé að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika. Beri að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Með vísan til þess er að framan greini, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. þyki umgengni við kæranda hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Í ljósi þess, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV.  Afstaða D

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins frá 9. september 2018 en talsmaður hitti drenginn á fósturheimili 8. september 2018. Talsmanni var falið að afla afstöðu drengsins til umgengni við kæranda.

Drengurinn segist eiga tvær mömmur og tvo pabba. Hin mamma hans hafi fætt hann en hún hafi ekki getað hugsað um hann og því ættu fósturforeldrar hann núna. Alveg eins og systur hans sem ættu tvær mömmur og tvo pabba.

Drengurinn kvaðst hafa hitt kæranda fjórum sinnum. Talsmaður hafi sagt honum að það væru 365 dagar í árinu og ef hann hefði hitt kæranda fjórum sinnum, hvað vildi hann hitta hana oft aftur. Drengurinn hafi svarað því til að það kæmi bara í ljós. Talsmaður hafi endurtekið spurninguna með öðru sniði en drengurinn hefði svarað á sama veg. Talsmaður hafi þá spurt hvort hann vildi hitta kæranda oftar eða sjaldnar en áður og hafi hann þá svarað því til að þessu réði hann ekki sjálfur, það væru aðrir sem réðu því.

 

V.  Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 16. nóvember 2018 kemur fram að þau hafni öllum kröfum kæranda. Þau krefjist þess að úrskurðarnefndin staðfesti niðurstöðu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Fósturforeldrar bendi á að drengurinn eigi nú þegar umgengni við kæranda tvisvar sinnum á ári. Hann eigi einnig umgengni við bróður sinn nokkrum sinnum á ári en samtals séu þetta um það bil fimm til sjö skipti á ári. Þá sé umgengni við kynföður nýlega hafin, auk þess sem [...] hans hafi ítrekað óskað eftir umgengni en ekki fengið. Sjái ekki fyrir endann á umgengni við [...] en hún hafi fylgt kröfum sínum eftir á öllum stigum stjórnsýslunnar í nokkuð langan tíma.

Alls sé um að ræða frekar mikla umgengni við upprunafjölskyldu fyrir barn í varanlegu fóstri sem hafi staðið alla ævi barnsins. Að mati fósturforeldra geti það ekki verið drengnum til hagsbóta að bæta þar enn í.

Það sé mat og sannfæring fósturforeldra að sú umgengni sem þegar sé til staðar, og kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði, sé nægjanleg til að drengurinn fái notið þeirra réttinda að þekkja uppruna sinn. Sé vísað til ákvæða 65. gr. og 74. gr. bvl. og margúrskurðaðra og dæmdra sjónarmiða um að taka skuli mið af markmiðum fósturráðstöfunar þegar ákveðin sé umgengni við upprunafjölskyldu.

Fósturforeldrar séu andsnúnir sjónarmiðum um að aukin umgengni sé ákveðin á grundvelli þess að á einhvern hátt skuli gæta jafnræðis á milli drengsins og eldri bróður hans. Það telji fósturforeldrar ekki málefnalegt sjónarmið. Þeir bræður séu ekki, og geti aldrei talist, í jafnri stöðu gagnvart upprunafjölskyldu sinni þegar litið sé til þeirra kringumstæðna sem verið hafi þegar þeim hafi verið ráðstafað í fóstur svo og þegar litið sé til fósturfjölskyldna. Bróðir D hafi verið eldri þegar hann hafi farið í fóstur, hann hafi verið í tengslum við og í umsjón fjölskyldumeðlima og sé nú í fóstri hjá [...]. D hafi á hinn bóginn verið kornabarn þegar fóstur hans hafi hafist, hann hafi aldrei verið í umsjá neins úr upprunafjölskyldu og hann sé í fóstri hjá fólki sem sé ótengt þeirri fjölskyldu. Það blasi því við að allt önnur staða sé fyrir hendi hjá D en bróður hans og ekki hægt að líkja saman stöðu þeirra eða nota slíkan samanburð við ákvörðun á umgengni við hann.

 

 

 

 

VI. Niðurstaða

D er fæddur 2013. Hann hefur verið hjá sömu fósturforeldrum, fyrst í tímabundu fóstri frá því að hann var eins mánaðar gamall, en í varanlegu fóstri frá maí 2014.

Með hinum kærða úrskurði frá 13. september 2018 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn tvisvar sinnum á ári í allt að eina klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Það skilyrði var sett að kærandi væri í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Fósturforeldrar yrðu viðstaddir ef þau óskuðu þess. Í úrskurðinum er byggt á því að drengurinn hafi tengst fósturforeldrum mjög vel og dafnað og þroskast eðlilega. Hann hafi verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að hann var eins mánaðar gamall. Mat starfsmanna barnaverndar sé það að engin rök séu til þess að auka umgengni við kæranda. D búi við góðar aðstæður á fósturheimili þar sem hann upplifi öryggi og ró. Starfsmenn barnaverndar telji að ekki sé hægt að taka áhættu með því að raska ró drengsins og tekur Barnaverndarnefnd Reykjavíkur undir það.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að D eigi eldri bróður, G, sem einnig sé í varanlegu fóstri. D hafi reglulega umgengni við G og einnig við föður sinn. Engin umgengni hafi verið við kæranda frá því að D hafi farið í fóstur og þar til í október 2016. Umgengni hafi farið fram í september 2017 og í apríl 2018 samkvæmt fyrri úrskurði barnaverndarnefndarinnar. Umgengni hafi gengið vel.

Kærandi krefst þess að umgengni hennar við D verði aukin. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að umgengnin verði í sex skipti á ári en til vara að umgengni verði aukin miðað við það sem nú er.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja honum stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat starfsmanna barnaverndar að það þjóni hagsmunum drengsins best að umgengni við kæranda sé takmörkuð. Markmiðið með umgengni í varanlegu fóstri sé það að barn þekki uppruna sinn og óbreytt umgengni sé hæfileg til að ná því markmiði.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Eins og fram hefur komið átti kærandi engin samskipti við drenginn fyrr en í október 2016 er hann var tæplega þriggja ára gamall. Kærandi hefur aðeins hitt drenginn þrisvar sinnum og hefur hann því engin tengsl við kæranda. Drengurinn hefur þegar umgengni við bróður sinn og föður.

Frumgeðtengsl, sem barnið býr að alla ævi, myndast á fyrstu tveimur árum í lífi þess. Í þessu tilviki komst drengurinn í öruggt, stöðugt umhverfi við eins mánaðar aldur og hefur náð að tengjast fósturforeldrum vel. Drengurinn er því fyrst og fremst tengdur fósturforeldrum sínum sem hafa annast hann og er sú fjölskylda sem hann þekkir. Ekki verður séð að kærandi og drengurinn hafi sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli. Markmiðið með umgengni kæranda við drenginn er að stuðla að því að hann þekki uppruna sinn en ekki að reyna að skapa ný tengsl við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hefur tekið sig á. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins eru að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn hvorki getu né þroska til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað. Á þessum tíma í lífi drengsins eru það því ekki hagsmunir hans að tekin verði áhætta með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni, svo sem kærandi leggur til, en aukin umgengni myndi raska ró drengsins í fóstrinu. Þá hafa fósturforeldrar krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og telja að aukin umgengni við kæranda sé drengnum ekki til hagsbóta.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.


 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. september 2018 varðandi umgengni A við son hennar, D, er staðfestur.

 

 

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta