Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 188/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 188/2016

Fimmtudaginn 15. desember 2016

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 20. maí 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er fædd árið X og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi, sem er móðir stúlkunnar, var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X sem staðfestur var í Hæstarétti X. Faðir stúlkunnar er D.

Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af högum stúlkunnar frá fæðingu. Stúlkan var fyrst vistuð utan heimilis í tímabundnu fóstri frá X hjá afa sínum og ömmu í föðurætt, E og F. Hún hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá X. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við barnið var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. apríl 2016 ákveðin fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin. Aðallega er þess krafist að umgengnin verði einu sinni í viku í fimm klukkustundir í senn. Til vara er þess krafist að umgengnin verði aðra hvora viku í fimm klukkustundir í senn. Til þrautavara krefst kærandi þess að umgengnin verði eins rúm og mögulegt er eða allt að einu sinni í mánuði í þrjár til fjórar klukkustundir í senn.

Kærandi byggir á því að barn eigi rétt til umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Einnig byggir kærandi á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi telur að með engu móti hafi verið sýnt fram á að slíkt eigi við í málinu.

Umgengni kæranda við dóttur sína hafi alltaf gengið vel, eða allt frá því að barnið var vistað utan heimilis. Það sé barninu mikilvægt að hitta og tengjast móður sinni en einnig hafi barnið ánægju af því að hitta kæranda. Þeir starfsmenn barnaverndar sem hafi haft eftirlit með umgengninni geti vottað þetta. Af umsögn starfsmannanna hafi umgengni alltaf gengið vel, telpan verið glöð og hress og tekið kæranda vel. Telpan lýsi því jafnframt sjálf í skýrslu talsmanns X að hún hafi mjög gaman af því að hitta móður sína og myndi vilja hitta hana oftar. Sé ekki annað að sjá af skýrslu talsmannsins en að telpan upplifi kæranda og samverustundir þeirra með jákvæðum hætti. Ekkert bendi til þess að samveran valdi telpunni vanlíðan eða sé með nokkrum hætti andstæð hagsmunum hennar. Sé þetta í samræmi við lýsingu G sálfræðings sem hafi verið viðstaddur umgengni í X. Hann hafi lagt mat á tengsl mæðgnanna sem hann hafi sagt innileg og sterk, þrátt fyrir aðskilnað.

Kærandi byggir kröfur sína jafnframt á því að telpan hafi aldrei verið í hættu stödd í umgengni. Hún hafi ekki heldur komist í uppnám í umgengni eða í tengslum við umgengni við kæranda. Telur kærandi að hún hafi fullkomna getu og hæfni til að sinna dóttur sinni í umgengni og að innsæi hennar í þarfir telpunnar sé mun meira nú en áður hafi verið. Kærandi sé reglusöm og í fastri atvinnu, hún eigi ekki við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða, ekki geðræna erfiðleika og beri mikla ást til dóttur sinnar. Kærandi hafi markvisst unnið að því að styrkja sjálfa sig og foreldrahæfni sína síðustu misseri. Það hafi hún gert með því að sækja ýmis námskeið, fara í viðtöl og meðferðir. Hún hafi meðal annars sótt [...]. Einnig hafi hún farið í viðtöl hjá Geðhjálp og sæki sálfræðimeðferð hjá sálfræðingi. Í meðfylgjandi skýrslu sálfræðingsins hafi komið meðal annars fram að kærandi virtist hafa innsæi í þær aðstæður sem uppi séu og að hún hafi einlægan vilja til þess að hafa gott samstarf við Barnavernd Reykjavíkur svo og föðurfjölskyldu dóttur sinnar.

Ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi til þess að umgengni kæranda við telpuna raski öryggi eða stöðugleika hennar, hvað þá að telpan geti borið skaða af því að hitta móður sína reglulega nokkrar klukkustundir í senn.

Að því er varðar þrautavarakröfur kæranda telur hún ekkert því til fyrirstöðu að umgengnin sé allt að 12 sinnum á ári, eða einu sinni í mánuði. Í það minnsta að umgengnin verði aukin úr fjórum sinnum á ári í sex sinnum á ári. Einnig óski kærandi þess að umgengnin vari í þrjár til fjórar klukkustundir í hvert skipti í stað tveggja klukkustunda. Kærandi álíti tvær klukkustundir í senn of skamman tíma og kveðst finna fyrir því að mæðgurnar séu rétt farnar að njóta samvistanna þegar tíminn sé liðinn. Umgengni kæranda við telpuna hafi alltaf gengið vel og fyrir liggi skýr vilji telpunnar, sem sé á sjötta aldursári, til að hitta kæranda oftar.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 2. júní 2016 er vísað til þess að markmiðið með varanlegu fóstri sé að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn fjölskyldunnar væri að ræða. Tæki umgengni mið af þessu, sbr. 65. og 74. gr. bvl. og reglugerð um fóstur nr. 804/2004. Barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hve lengi fóstri sé ætlað að vara.

Telpan sé vistuð í varanlegu fóstri og markmiðið að svo verði til 18 ára aldurs hennar. Í því ljósi sé lögð áhersla á að barnið upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra raski í flestum tilvikum ró þeirra jafnvel þó að sátt ríki um umgengnina. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum telpunnar. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró hennar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja á fósturheimilinu.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni telpunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti frá fósturforeldrum telpunnar 3. október 2016 til úrskurðarnefndarinnar er vísað til sjónarmiða þeirra sem fram komu í greinargerð starfsmanns Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem lögð var fyrir fund 19. janúar 2016. Þar kemur meðal annars fram að ekki sé talið þjóna hagsmunum telpunnar að auka umgengni við móður. Best sé að umgengnin sé í lágmarki og alltaf undir eftirliti. Telpan þurfi fyrst og fremst ró og öryggi í núverandi aðstæðum. Þau telji umgengni við móðurina hafa haft í för með sér álag fyrir telpuna.

V. Niðurstaða

C er tæplega X ára gömul stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, E og F, frá X en þau eru amma hennar og afi í föðurætt. Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af högum stúlkunnar frá fæðingu. Stúlkan var í umsjá móður sinnar til X er hún var rúmlega X ára gömul.

Með dómi Hæstaréttar X var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá X um að kærandi skyldi svipt forsjá dóttur sinnar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram með afdráttarlausum hætti að kærandi var talin vanhæf til að fara með forsjá stúlkunnar. Kæranda var veittur ítarlegur stuðningur og hjálp af hálfu barnaverndarnefndar í þeim tilgangi að vinna bug á skaðlegum aðstæðum stúlkunnar í hennar umsjá. Í dóminum kemur fram að kærandi hefði takmarkað innsæi í þarfir barnsins og kæmi það í veg fyrir að samvinna næðist við hana um nauðsynlegar úrbætur svo að hún gæti veitt barninu viðunandi uppeldi. Eftir að stúlkan var vistuð hjá fósturforeldrum var hún talin hafa sýnt mikla framför og mæltu hagsmunir hennar því eindregið með því að högum hennar yrði ekki raskað.

Frá því að stúlkan fór í fóstur hefur regluleg umgengni verið við kæranda undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Í fyrstu var um vikulega umgengni að ræða samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. maí og 24. júní 2014. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar 16. september 2014 var umgengnin ákveðin mánaðarlega og var sá úrskurður staðfestur af kærunefnd barnaverndarmála með úrskurði 8. desember 2014. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. apríl 2016 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Kærandi óskar nú eftir aukinni umgengni, sbr. aðal-, vara- og þrautavarakröfur hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hennar við barnið verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Umgengni kæranda við barnið þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Við mat á þessu breytir í sjálfi sér ekki þótt kærandi hafi með ýmsu móti reynt að bæta forsjárhæfni sína.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni varðandi umgengni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 3. október 2016. Þau vísa til sömu sjónarmiða og fram hafi komið af hálfu barnaverndarnefndarinnar í málinu, þ.e. að það sé ekki talið þjóna hagsmunum stúlkunnar að auka umgengni við móður. Best sé að umgengnin sé í lágmarki og alltaf undir eftirliti. Telpan þurfi fyrst og fremst ró og öryggi í núverandi aðstæðum. Þau telji umgengni við móðurina hafa haft í för með sér álag fyrir telpuna.

Kærandi vísar til þess að stúlkan vilji hitta sig oftar. Úrskurðarnefnd álítur að X ára barn hafi hvorki nægan þroska til að mynda sér skoðun né hafa skýran vilja á því hvernig umgengni skuli best háttað við móður. Því þurfi yfirvöld að taka ákvörðun um hvað þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Með umgengni kæranda við barnið er ekki verið að reyna að styrkja tengsl mæðgnanna frekar heldur viðhalda og hlúa að þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að mat fullorðinna liggi til grundvallar því hvað verði talið barninu fyrir bestu varðandi umgengni við kæranda og hvernig lögbundnir hagsmunir þess verði best tryggðir.

Úrskurðarnefndin telur í ljósi ofangreindra atriða að takmarka beri umgengnina og tryggja að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Með því verði hagsmunir og þarfir barnsins best virtir.

Með vísan til þess er að framan greinir svo og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. apríl 2016 varðandi umgengni A við dóttur hennar, C, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta