Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 218/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 218/2019

Mánudaginn 30. september 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með bréfi 31. maí 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 13. maí 2019 vegna umgengni við börnin sín, D og E.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D og E eru [...], fædd árið X og eru því X ára gömul. Systkinin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynfaðir barnanna. Börnin hafa verið í umsjá núverandi fósturforeldra frá árinu X, fyrst í tímabundnu fóstri og síðan í varanlegu fóstri frá X.

Kærandi var sviptur forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms B í X og staðfesti Hæstiréttur Íslands þann dóm í X. Þann X úrskurðaði Barnaverndarnefnd B að umgengni barnanna við föður yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Kærunefnd barnaverndarmála staðfesti þann úrskurð X. Hefur umgengni verið óbreytt og í samræmi við úrskurð kærunefndarinnar en kærandi hefur ekki alltaf nýtt sér rétt sinn til umgengni og áttu börnin síðast umgengni við kæranda í X.

Börnin óskuðu eftir því að umgengni þeirra við kæranda yrði hætt. Þau lýstu þessari afstöðu sinni við fósturforeldra, starfsmenn Barnaverndar B og sálfræðing þeirra. Á fundi Barnaverndarnefndar B þann X 2019 var mál barnanna tekið fyrir þar sem ekki hafði náðst samkomulag um umgengni kæranda við börnin. Málið var tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og var úrskurður kveðinn upp í málinu þann 13. maí 2019.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það hafi verið mat barnaverndarnefndar að horfa yrði til skýrs vilja barnanna sem hafi lýst því yfir að þau vilji að umgengni þeirra við kæranda verði stöðvuð. Þá hafi sálfræðingur barnanna, sem komið hafi að málum þeirra til langs tíma, einnig lagt til að vilji barnanna verði virtur í þessum efnum. Að mati nefndarinnar sé hagsmunum barnanna best borgið með því að þvinga þau ekki í umgengni sem þau hafa sjálf óskað eftir að verði stöðvuð.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar sé bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, og E, hafi ekki umgengni við föður sinn A.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umgengnin verði í samræmi við úrskurð kærunefndar barnaverndarmála frá X, það er að umgengni verði tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn.

Kærandi vísar til þess að foreldrar [...] hafi verið sviptir forsjá þeirra með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. X. Í kjölfarið hafi kærandi krafist þess að fá tiltekna umgengni við börnin. Málið hafi fyrst farið fyrir Barnaverndarnefnd B. Úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengnina hafi verið kærður til kærunefndar barnaverndarmála. Frá uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar barnaverndarmála hafi umgengnisréttur kæranda við börnin verið tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Það hafi komið fyrir að kærandi hafi þurft að færa umgengnina til eða hún fallið niður vegna vinnu og [...]. Það hafi átt að bæta honum upp þá umgengni en kærandi hafi ekki náð tali af starfsmönnum Barnaverndar B til að fá uppgefið hvenær umgengni ætti að fara fram. Hann kveðst hafa ítrekað hringt til barnaverndar án árangurs. Þá bendi kærandi á að starfsmenn Barnaverndar B hafi aldrei haft samband við kæranda að fyrra bragði.

Kærandi vilji ekki trúa því að börnin vilji ekki hitta sig. Börnunum hafi liðið vel í umgengni hjá honum. [...] hafi oft verið viðstaddur umgengni og geti því vitnað um það að börnunum hafi liðið vel. Börnin séu vissulega að eldast en kærandi telji engu að síður að börnin njóti þess að eiga umgengni við hann. Þá telji kærandi að bæði fósturforeldrar og starfsmenn barnaverndar eigi að gera allt sem í þeirra valdi standi til að fá börnin til að fara í umgengni. Þau eigi að hvetja börnin til að njóta samveru við hann, enda sé umgengni ekki bersýnilega andstæð hagsmunum barnanna.

Í 4. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) komi skýrt fram að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Löggjafinn hafi talið ástæðu til að leggja áherslu á að barnaverndaryfirvöld myndu sýna foreldrum og börnum sem þau hefðu afskipti af nærgætni og virðingu, enda væri það líklegra til að stuðla að betri árangri.

Góð samvinna gangi vissulega í báðar áttir, en barnavernd beri lagaskyldu til að sýna góða samvinnu. Það geti varla talist til góðrar samvinnu af hálfu barnaverndar að starfsfólk barnaverndar skuli aldrei hafa samband við kæranda að fyrra bragði til að kanna hvort og hvenær hann hyggist njóta umgengni við börn sín. Þá hafi starfsmenn barnaverndar aldrei haft samband við kæranda eftir umgengni til að láta hann vita hvort börnin hefðu verið sátt eða ósátt með umgengnina. Kærandi hafi sjálfur þurft að sækja allar upplýsingar til starfsmanna barnaverndar. Þá sé ekki vitað til þess að barnavernd hafi nokkru sinni upplýst kæranda um líðan og hvað börnin hafi fyrir stafni frá því að kærandi hafði verið sviptur forsjá barnanna. Það virðist sem barnavernd hafi viljað hafa sem minnst samskipti við kæranda.

Á grundvelli ofangreinds þyki kæranda sem barnavernd hafi ekki sýnt honum góða samvinnu eða virðingu eins og þeim beri þó skylda til lögum samkvæmt.

Í 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga komi eftirfarandi fram:

http://www.althingi.is/lagas/hk.jpg [Foreldrar] 1) eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Barn sem er 15 ára og eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni.“

Í umfjöllun í greinargerð um 74. gr. komi vissulega fram eftirfarandi:

“Ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins.”

Í máli þessu liggi fyrir vottorð frá F sálfræðingi. Sálfræðingurinn hafi spurt börnin hvort þau hafi viljað fara í umgengni til föður síns og þau hafi svarað neitandi. Hún kveði son kæranda hafa sagt að kærandi hefði engan áhuga á þeim en dóttirin hafi einungis sagt að hana langaði ekki til að fara til hans. Það komi ekkert fram í þessu vottorði sem styðji að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnanna að fara í umgengni til föðurs. Það komi einungis fram að sálfræðingurinn telji rétt að fara að vilja barnanna.

Kærandi telji að ekki sé hægt að styðjast við þessa litlu könnun sálfræðingsins. Það hefði þurft að fá annan hlutlausan sálfræðing til þess að kanna betur vilja barnanna. Kanna hvort það sé eitthvað sem þau vilji að kærandi breyti í umgengni til að breyta afstöðu þeirra, hvað valdi afstöðu þeirra og loks hvort umgengnin sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnanna. Ekkert af þessu hafi komið fram í mati hennar og ljóst sé að á grundvelli fyrirliggjandi vottorðs sé í öllu falli ekki hægt að byggja á þegar taka eigi svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem raun beri vitni.

Ekkert sé komið fram í gögnum málsins sem sýni að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnanna að njóta umgengni við kæranda. Það sé því andstætt lögunum að úrskurða að hann skuli ekki fá að njóta umgengni við börn sín og beri því að úrskurða honum umgengni. Kærandi vilji börnunum sínum allt fyrir bestu. Hann vilji fá að njóta umgengni við börn sín og hann sé reiðubúinn til að gera allt sem í sínu valdi standi til að láta börnunum líða sem best í umgengni hjá sér.

Því miður hafi virst sem fósturforeldrar hafi frá upphafi haft horn í síðu föður. Verði því að taka mið að því þegar viðhorf þeirra til umgengninnar sé metin en þeir hafi lagt til að engin umgengni yrði.

Löggjafinn hafi mælt fyrir um að kanna skuli viðhorf fósturforeldra til umgengni og þeir skuli vera aðilar að málum sem snúi að umgengni. Þeir geti þannig óskað eftir breytingum á umgengnisúrskurðum og kært ákvarðanir um umgengni til æðra setts stjórnvalds til jafns við foreldra. Löggjafinn hafi hins vegar ekki mælst til þess að það ætti að taka meira tillit til viðhorfa fósturforeldra en foreldra. Ávallt skuli hafa hagsmuni barnsins í huga.

Hafa beri í huga meðalhófsregluna sem sé að finna í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mjög íþyngjandi ráðstöfun að börn kæranda séu vistuð utan heimilis. Þetta sé einnig mjög íþyngjandi fyrir börnin sjálf. Það sé ekki síður nauðsynlegt að gæta meðalhófs þegar tekin sé ákvörðun um hvernig umgengni skuli háttað.

Það sé ekkert sem styðji það að nauðsynlegt sé að neita kæranda um umgengni við börnin með öllu. Kærandi telji alveg ljóst að börnin hafa mikla hagsmuni af því að umgangast sig. Með því að umgangast hann fái þau þekkingu um uppruna sinn sem þau myndu annars ekki fá.  Kærandi telji að það sé alveg ljóst að ef öll umgengni verði stöðvuð þá muni það koma niður á börnunum síðar meir, enda hafa öll börn þörf á að þekkja foreldra sína.

Kærandi kveðst vilja börnunum sínum alls hins besta. Hann telji að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að njóta umgengni við sig. Það sé ekkert sem styðji það að það sé andstætt hagsmunum barnanna hvað þá að það sé bersýnilega andstætt hagmunum barnanna að njóta ekki umgengni við sig.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Ekki verði séð að umgengni gegn vilja barnanna þjóni hagsmunum þeirra.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að börnin hafa haft umgengni við kæranda tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn í samræmi við úrskurð kærunefndar barnaverndarmála. Kærandi hafi ekki alltaf nýtt sér rétt sinn til að umgangast börnin.

Á árinu X hafi farið að bera á kvíða hjá börnunum í tengslum við umgengni þeirra við föður. Börnin hafi greint fósturforeldrum, starfsmönnum Barnaverndar B og sálfræðingi frá þeirri afstöðu þeirra að vilja ekki hitta kæranda. [...] Þau hafi bæði óskað eftir því að umgengni þeirra við föður verði hætt og lýst vanlíðan í tengslum við umgengni. Faðir barnanna vilji að umgengni verði áfram í samræmi við eldri úrskurð barnaverndarnefndar.

Málið hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann X 2019. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna, dags. X 2019, þar sem lagt sé til að umgengni verði hætt. Í fyrirliggjandi skýrslu sálfræðings barnanna, dags. X 2019, komi fram að D hafi ítrekað lýst því yfir að hann vilji ekki umgengni við kæranda. Í viðtali við sálfræðing þann X 2019 hafi ýmsar útfærslur verið á fyrirkomulagi umgengni verið ræddar við drenginn. Börnin hafi bæði kveðið að þau vilji ekki fara í umgengni til kæranda. Kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar þann X 2019 ásamt lögmanni. Þar kom fram að kærandi trúi því ekki að börnin hafi hafnað að eiga umgengni við hann. Það væri andstætt hagsmunum barnanna að umgengni við föður yrði stöðvuð. Fósturforeldrar hafi mætt á fund nefndarinnar og hafi komið fram hjá þeim að virða bæri vilja barnanna. Börnin hafi kviðið því að eiga umgengni við kæranda og hafi hann einungis séð sér fært að eiga umgengni við börnin einu sinni á undanförnum tveimur árum.

Samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Ef sérstök atvik valdi því að mati nefndarinnar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hagsmunum þess og þörfum, geti nefndin úrskurðað um að foreldrar njóti ekki umgengnisréttar, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Í 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 komi fram að markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ráðstöfun barns í fóstur skuli barnaverndarnefnd ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og taka tillit til sjónarmiða og óska barns eftir því sem aldur þess og þroski gefi tilefni til. Stuðla beri að því að stöðugleiki verði í uppvexti og sem minnst röskun á lífi barnsins. Í 25. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að.

Í 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varði rétt til umgengni, umfang umgengnisréttar eða framkvæmd. Ef sérstök tilvik valdi því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess eða þörfum geti nefndin úrskurðað að foreldri njóti ekki umgengnisréttar.

D og E séu vistuð í varanlegu fóstri og ekki sé annað fyrirséð en að þau verði vistuð utan heimilis til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé umgengni yfirleitt takmörkuð. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega en að meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri, jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru eða vægara móti. Kærandi hafi verið sviptur forsjá og börnin verið vistuð í fóstri frá X ára aldri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls. Samkvæmt gögnum málsins hafa bæði börnin lýst því við sálfræðing, fósturforeldra sína og starfsmenn Barnaverndar B að þau vilja ekki umgengni við kæranda. Þegar hagsmunir foreldra og barna fara ekki saman ber að hafa hagsmuni barnanna ávallt í fyrirrúmi og verði því hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl.

Í niðurstöðukafla úrskurðar Barnaverndarnefndar B frá 13. maí 2019 komi eftirfarandi fram varðandi rökstuðning fyrir ákvörðun nefndarinnar um að börnin hafi ekki umgengni við kæranda:

„...horfa verður til skýrs vilja barnanna sem hafa lýst því yfir að þau vilja að umgengni þeirra við föður verði stöðvuð. Þá hefur sálfræðingur barnanna sem komið hefur að málum þeirra til langs tíma einnig lagt til að vilji barnanna verði virtur í þessum efnum. Nefndin telur að horfa verði til hagsmuna barnanna, þarfa þeirra og afstöðu við ákvarðanatöku um umgengni við föður. Að mati nefndarinnar er hagsmunum barnanna best borgið með því að þvinga þau ekki í umgengni sem þau hafa sjálf óskað eftir að verði stöðvuð.“

IV.  Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefndin leitaði eftir afstöðu fósturforeldra. Í svari þeirra, dags. 23. ágúst 2019, kemur fram að þau vænti þess að nefndin virði óskir barnanna og staðfesti úrskurð Barnaverndarnefndar B um að fella niður umgengni við kynföður.

Fósturforeldrar telji að ósk þeirra um að hætta umgengni við kæranda sé komin til eftir margra ára umhugsun og vangaveltur. Þá sé hún komin til án alls þrýstings frá fósturforeldrum. Jafnframt megi geta þess að í dag hafa börnin [...]. Fósturforeldrum sé það alveg ljóst að börnin hafa ekki haft ánægju eða gleði af umgengni við föður og hafa kviðið fyrir umgengni í gegnum árin með tilheyrandi vanlíðan þegar fari að líða að umgengni. Eins hafi hann ekki séð sér fært að hitta börnin nema einu sinni á síðastliðnum tveimur árum og eigi því sinn þátt í því að börnin hafa tekið þessa ákvörðun.

 

V.  Sjónarmið D og E

Í skýrslu F sálfræðings, dags. X 2019, kemur fram að hún hafi rætt við systkinin þann X 2019 og farið yfir ýmsa möguleika með umgengni. Aðspurð hafi bæði systkin verið á sama máli um að vilja ekki fara til kæranda í umgengni og verið föst fyrir hvað þetta varðar. Afstaða þeirra sé skýr hvað varðar umgengni við blóðföður og sé það jafnframt mat sálfræðings að börnin séu fullfær um að greina frá eigin afstöðu til umgengni. Miðað við aldur barnanna og þroskastöðu þyki henni eðlilegt að farið sé eftir þeirra vilja.

 

VI.  Niðurstaða

D og E eru[...], fædd árið X. Þau hafa verið í umsjá sömu fósturforeldra frá því að þau fóru í fóstur, fyrst í tímabundnu fóstri frá árinu X og síðan í varanlegu fóstri frá X.

Með hinum kærða úrskurði frá 13. maí 2019 var ákveðið að umgengni kæranda við börnin yrði hætt. Í úrskurðinum er byggt á því að horfa verði til skýrs vilja barnanna sem hafa lýst því yfir að þau vilji að umgengni þeirra við föður verði stöðvuð. Þá hafi sálfræðingur barnanna, sem komið hafði að málum þeirra til langs tíma, einnig lagt til að vilji barnanna verði virtur í þessum efnum. Nefndin telji að horfa verði til hagsmuna barnanna, þarfa þeirra og afstöðu við ákvarðanatöku um umgengni við föður. Að mati nefndarinnar sé hagsmunum barnanna best borgið með því að þvinga þau ekki í umgengni sem þau hafi sjálf óskað eftir að verði stöðvuð.

Kærandi krefst þess að umgengnin verði í samræmi við úrskurð kærunefndar barnaverndarmála, tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Þá gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar, en kærandi telur að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum getur barnaverndarnefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Við úrlausn máls verður að meta hvort umgengni barnanna við kæranda sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnanna og þörfum, sbr. 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Samkvæmt gögnum málsins hafa börnin lýst þeirri afstöðu sinni að vilja enga umgengni hafa við kæranda. Drengurinn segir að kærandi hafi engan áhuga á að umgangast þau systkin. Stúlkan hefur sagt að ekkert muni breyta afstöðu hennar til umgengninnar. Eru þau systkin á sama máli um að vilja ekki fara til kæranda í umgengni.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hafa börnin nægan þroska og vitsmunalega getu til að meta hvað er þeim fyrir bestu við núverandi aðstæður. Þá telur nefndin að vilji barnanna hafi verið skýr og ekki sé tilefni til að draga vilja þeirra í efa. Þá liggur fyrir að umgengni þeirra við kæranda hefur reynst þeim erfið og valdið þeim vanlíðan. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin að það væri bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum barnanna að þvinga þau til að hafa umgengni við kæranda. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að systkinunum líði vel í fóstrinu og þau njóti sín vel. Með vísan til þess sem og þess er að framan er rakið verður ekki séð að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn reglum um meðalhóf.

Úrskurðarnefndin telur að öllu þessu gættu nauðsynlegt að fella umgengni kæranda við börnin alfarið niður að svo komnu máli með vísan til 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl. Er hinn kærði úrskurður því staðfestur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2019 um umgengni D og E við A, er staðfestur.

 

 

 

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal                                                                     Björn Jóhannesson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta