Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 490/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 490/2023

Mánudaginn 11. desember 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 9. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 12. september 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, C er X ára gömul dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar frá lögreglu, dags. 30. september 2022, á grundvelli 18. gr. bvl.

Í tilkynningu lögreglu kemur fram að afskipti hafi verið höfð af stúlkunni vegna annarlegs ástands hennar á almannafæri.

Ákveðið var að hefja könnun máls 28. nóvember 2022. Að undangenginni könnun var mál stúlkunnar tekið fyrir hjá starfsmönnum barnaverndarþjónustu B 5. september 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á frekari afskiptum af hálfu þjónustunnar og því hafi málinu verið lokað. Hin kærða ákvörðun um lokun málsins er dags. 12. september 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. október 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 7. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er niðurstaða barnaverndarþjónustu B um að fella niður máls stúlkunnar án þess að hún hafi fengið þá aðstoð sem Barnahús mældi með að hún fengi. Fram kemur í kæru að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og við skýrslutöku í Barnahúsi hafi þeim verið lofað sálfræðiaðstoð hjá barnaverndarþjónustunni. Því hafi verið hafnað og málinu lokað án þess að stúlkunni hafi verið veitt sú aðstoð sem hún þarfnast.

III.  Sjónarmið barnaverndarþjónustu B

Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti þá ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 12. september 2023 að loka barnaverndarmálinu.

Í kæru komi fram að kærandi sé ósátt við lokun málsins þar sem hún taldi dóttur sína ekki hafa fengið nauðsynlega aðstoð.

Mál stúlkunnar hafi komið til vinnslu hjá barnaverndarþjónustu B með tilkynningu frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 30. september 2022, þar sem fram kom að stúlkan hafi verið í annarlegu ástandi á almannafæri í D. Samkvæmt tilkynningunni virtist stúlkan ekki hafa verið í sambandi við umhverfi sitt en sjálf kvaðst hún einungis hafa reykt þrjá smóka af kannabis.

Ákveðið hafi verið að hefja könnun á grundvelli 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og foreldrum tilkynnt um það með bréfi. Við könnun máls hafi komið fram í máli stúlkunnar að hún hafði greint frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Beiðni hafi því verið send á Barnahús. Í könnun hafi jafnframt komið fram að stúlkan hafi verið með sálfræðing í gegnum Heilsugæsluna og hitt sálfræðing hjá E.

Stúlkan hafi farið í rannsóknarviðtal og fengið fræðslu frá Barnahúsi. Í lokaskýrslu Barnahúss, dags. 16. júní 2023 hafi komið fram að mælt væri með að stúlkan fengi áframhaldandi stuðning í formi sjálfstyrkingar. Könnun málsins lauk með könnunargreinargerð á grundvelli 23. gr. barnaverndarlaga, dags. 17. ágúst 2023, þar sem mælt hafi verið með faglegri aðstoð fyrir stúlkuna til sjálfstyrkingar og fjölskyldumeðferð fyrir hana og foreldra til að vinna úr samskiptavanda þeirra á milli.

Málið hafi verið lagt fyrir úthlutunarfund þann 5. september 2023 þar sem ákveðið hafi verið að loka málinu hjá barnaverndarþjónustu B og að fjölskyldunni yrði leiðbeint með að leita til barna- og fjölskylduteymis ef þörf væri á. Í kjölfarið hafi verið haft samband við kæranda, hún upplýst um niðurstöður úthlutunarfundar og leiðbeint um hvernig hún gæti sótt um hjá barna- og fjölskylduteymi þar sem hægt væri að fá viðeigandi stuðning. Að lokum hafi kæranda verið sent bréf um lokun málsins hjá barnaverndarþjónustu.

Barnaverndarþjónusta skal sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þó skal gæta þess skv. 2. mgr. 41. gr. að könnun sé ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur og henni hraðað svo sem kostur er.

í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn, sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Við meðferð mála á grundvelli barnaverndarlaga skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta að þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða, enda skal ávallt beita vægustu ráðstöfunum sem völ er á, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

Eftir ítarlega könnun á málinu hafi það verið mat barnaverndarþjónustu B að staða stúlkunnar sé ekki með þeim hætti að aðkoma barnaverndarþjónustu á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé nauðsynleg. Viðeigandi stuðnings sé hægt að nálgast á öðrum og almennari vettvangi s.s. hjá barna- og fjölskylduteymi velferðarsviðs B, ef almenn úrræði sem í boði séu hjá heilsugæslu eða á einkamarkaði séu ekki talin duga eða koma til greina.

IV.  Niðurstaða

Stúlkan, C er X ára gömul dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynninga frá lögreglu sem barst barnaverndarþjónustunni í 30. september 2022. Efni tilkynningar var vanræksla og áfengis- og fíkniefnaneysla föður. Með hinni kærðu ákvörðun var ákveðið að loka barnaverndarmáli barnanna.

Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar frá lögreglu, dags. 30. september 2022, á grundvelli 18. gr. bvl. vegna annarlegs ástands hennar á almannafæri. 

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir þjónustunnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að þjónustan skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarþjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarþjónustunnar, skyldu til að láta barnaverndarþjónustum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndarþjónusta Kópavogs hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum barnanna og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Samkvæmt gögnum málsins hófst mál stúlkunnar í kjölfar tilkynningar lögreglu 30. september 2022. Í tilkynningu lögreglu kemur fram að stúlkan hafði reykt kannabis. Málinu var lokað í 12. september 2023 í kjölfar könnunar málsins á grundvelli 22. gr. bvl. Í áliti Barnahúss, dags. 16. júní 2023, kemur fram að stúkan hafi mætt í fimm fræðsluviðtöl frá 29. mars 2023 til 8. júní 2023. Skimað hafi verið fyrir áfallaeinkennum en þau hafi virst væg. Í lok meðferðar hafi stúlkan lýst líðan sinni sem ágætri, þau áfallaeinkenni sem höfðu verið til staðar væru að mest horfin, henni gengi mun betur og ekki væri þörf á frekari fræðsluviðtölum. Mælt væri með áframhaldandi stuðningi í formi sjálfstyrkingar.

Í 1. mgr. 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Þá segir í 7. mgr. 4. gr. að barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Úrskurðarnefnd velferðarmála er sammála því mati barnaverndarþjónustunnar að aðstæður og líðan stúlkunnar sé nú þannig að aðkoma barnaverndarþjónustunnar sé ekki nauðsynleg á grundvelli barnaverndarlaga. Almenn úrræði henni til stuðnings henti betur á núverandi stigi eins og bent hefur verið á af hálfu barnaverndarþjónustunnar. Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndarþjónustunnar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun barnaverndarþjónustu B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 12. september 2023, um að loka máli vegna, C, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta