Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 24/2012

Miðvikudaginn 27. febrúar 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 24/2012, A gegn barnaverndarnefnd B. Málið varðar tilkynningu til barnaverndarnefndar undir nafnleynd vegna dóttur kæranda, C. Upp var kveðinn svofelldur


 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi 27. nóvember 2012 kærði A, ákvörðun Barnaverndar B frá 31. október 2012 um að synja beiðni hennar þess efnis að aflétta nafnleynd tilkynnanda barnaverndarmáls samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þann 23. júlí 2012 barst tilkynning til Barnaverndar B varðandi aðstæður og aðbúnað dóttur kæranda, C.

 

Kærandi krefst þess að nafnleyndinni verði aflétt.

 

Af hálfu Barnaverndar B er krafist staðfestingar á synjun um að aflétta nafnleynd.

 

 

I

Málsmeðferð

 

Kæra kæranda barst kærunefnd barnaverndarmála 27. nóvember 2012. Kærunefndin sendi Barnavernd B kæruna með bréfi 28. nóvember 2012 og óskaði jafnframt eftir greinargerð af þessu tilefni. Greinargerð Barnaverndar B 6. desember 2012 barst kærunefndinni ásamt frekari gögnum 10. desember sama ár. Málið var lagt fram á fundi kærunefndar 12. desember s.á. og rætt á fundum nefndarinnar 13. og 27. febrúar 2013. Kæranda var send greinargerð Barnaverndar B og meðfylgjandi gögn með bréfi 11. desember 2012 og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri en þær komu ekki fram.

 

 

 

II

Helstu málavextir

 

Kærandi býr ásamt dóttur sinni, C, að D. Kærandi hefur alla tíð verið ein með stúlkuna. Hún á einnig uppkomna dóttur, E. Faðir C er F en býr á Íslandi og starfar við kennslu. Kærandi var trúlofuð honum en þau slitu sambandinu áður en hún vissi að hún væri barnshafandi. Hann hefur ekki haft neitt samband við C. Fram kemur að stúlkuna langi mikið að hitta hann og spyrji mikið um hann. Kærandi er öryrki og hefur ekki getað unnið síðan hún fæddi stúlkuna. Meðgangan gekk vel, en fæðingin var erfið og var hún metin 75% öryrki eftir hana. Hún var áður í námi í G. Kærandi leigir íbúð á D og hefur búið þar í sjö ár eða síðan stúlkan fæddist og fær húsaleigubætur frá þjónustumiðstöð H. Kærandi mótmælir því að stúlkunni líði ekki vel, hún sé glöð og skýr, ákveðin og stundum frek. Þær mæðgur séu mjög nánar. Kærandi kveðst aldrei hafa átt við áfengisvanda að stríða, hún fái sér rauðvín stöku sinnum en hún ráði fullkomlega við það.

 

Barnavernd B barst tilkynning undir nafnleynd með bréfi 27. nóvember 2012, ásamt frekari gögnum. Tilkynnt var um að áhyggjur væru af ástandi barnsins vegna vangetu móður til þess að sinna barninu almennilega. Barninu liði ekki nógu vel vegna drykkju móður og eldri systur barnsins. Eins væri stuðningur takmarkaður. Tilkynningin var undir nafnleynd.

 

Barnavernd ákvað að hefja könnun á grundvelli barnaverndarlaga og var móðir, sem fer ein með forsjá barnsins, boðuð til viðtals 10. september 2012. Í viðtalinu kom fram að móður var brugðið við tilkynninguna sem hún taldi að ætti ekki við rök að styðjast. Móðirin undirritaði samþykki fyrir könnun málsins. Könnun leiddi í ljós að ekki var talin ástæða fyrir afskiptum Barnaverndar B og var málinu lokað með bréfi 17. október 2012.

 

 

 

III

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi er ósátt við nafnleyndina í máli þessu og telur sig eiga rétt á að fá upplýst um nafn tilkynnanda. Hún kveðst vera saklaus þolandi mjög alvarlegrar ásökunar um vanrækslu á barni sínu. Þá sé ekki annað að sjá en að vinnulag Barnaverndar felist í að svara seint og stutt og segja sem minnst. Hún telji málsmeðferðina óréttláta og telji hana mjög niðurlægjandi.

 

Kærandi heldur því fram að tilkynnandinn sé að gera annað en að gæta hagsmuna tiltekins barns og um leið e.t.v. að misnota valdsvið opinberrar stofnunar. Sú rannsókn Barnaverndar B sem hófst í kjölfar tilkynningarinnar hafi ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós um ástand og hagi barnsins. Kærandi telur sig vita hver hafi tilkynnt og segir það hafa skapað erfiðleika í samskiptum í fjölskyldu hennar. Þá hafi mál þetta reynt mikið á heilsu kæranda og eldri dóttur hennar, vini og systkini. Það sé því brýnt að nafnleyndinni verði aflétt, bæði til að hægt sé að laga það sem lagað verði í samskiptum fjölskyldu hennar og stórfjölskyldunnar og kannski ekki síst til að C og eldri systir hennar eignist ömmu sína aftur og allt verði eins eðlilegt og afslappað í nærumhverfi stúlkunnar og mögulegt sé svo að hún megi dafna sem best.

 

Kærandi bendir á að það sé því miður ekki alltaf raunin að tilkynnt sé undir nafnleynd eingöngu til að gæta hagsmuna tiltekins barns. Ástæðurnar geti verið af ýmsum toga, svo sem forsjárdeildur og stjórnsemi, afbrýðisemi, geðveiki og jafnvel illgirni og óheiðarleiki. Nafnleynd sé að mati kæranda vont úrræði, hún grafi undan trausti, ali á heigulshætti og ýti undir óheiðarleika í samskiptum fólks. Hún skilji það sjónarmið að bjóða upp á nafnleynd til að auka virkni og efla barnaverndarstarf en það sé mjög vandmeðfarið. Kærandi telur að þegar könnun á högum barns í kjölfar tilkynningar leiði í ljós að ekkert sé að, falli nafnleyndin niður. Þannig mætti spara stofnuninni töluverða vinnu, tíma og fjármuni. Það mundi líka efla virkni og árangur stofnunarinnar og ekki síst spara foreldrum þá miklu raun að vera sakaðir um jafn alvarlegt brot og vanræksla á barni sé.

 

Kæru kæranda fylgdu stuðningsbréf frá vinum hennar og systkinum.

 

 

IV

Sjónarmið Barnaverndar B

 

Barnavernd B bendir á að skv. 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, beri hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu og þroska í alvarlega hættu, skylda til að tilkynna það barnaverndarnefnd. Tilkynnandi hafi óskað nafnleyndar á grundvelli 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga. Í tilvitnuðu lagaákvæði komi fram að ef tilkynnandi óski nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004, sé kveðið á um nafnleynd og segi þar að ef tilkynnandi skv. 16. gr. barnaverndarlaga óski nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ef barnaverndarnefnd fái rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni.

 

Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé móður C mikilvægt að fá að vita hver hafi tilkynnt til Barnaverndar B verði ekki talið, eins og áður hafi komi fram, að fyrir hendi séu þær „sérstöku ástæður“ sem áskildar séu til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga. Við það mat hafi meðal annars verið höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram komi í athugasemdum með 19. gr. frumvarps til barnaverndarlaga.

 

 

V

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Um tilkynningarskyldu þeirra sem sinna börnum vegna stöðu sinnar eða starfa er hins vegar fjallað í 17. og 18. gr. laganna.

 

Í 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið gildir sú meginregla að allir þeir sem beina tilkynningu til barnaverndarnefndar njóta nafnleyndar, ef eftir því er óskað, nema þeir sem sinna börnum vegna starfa sinna og taldir eru upp í 17. og 18. gr. laganna. Þetta á því við um allan almenning án þess að undanskildir séu þeir sem eru venslaðir eða tengdir barni. Í athugasemdum við 19. gr. í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga er því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar komi til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar komi til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt. Eins og fram kemur í athugasemdunum var síðarnefnda sjónarmiðið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt er að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæla gegn því að hún verði virt.

 

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja könnun máls og komast til botns í því hvort sá grunur er á rökum reistur. Við könnun þess máls sem hér er til úrlausnar varð það niðurstaða Barnaverndar B að ekki væri ástæða til afskipta nefndarinnar af því og var málinu lokað. Jafnvel þótt svo hafi hagað til í máli þessu, að ekki hafi þótt ástæða til afskipta Barnaverndar B af því, verður með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, um að virkni og árangri í barnaverndarstarfi geti verið stefnt í voða, verði nafnleynd tilkynnanda ekki virt, að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt. Með vísan til þess sem fram kemur í gögnum málsins verður að telja að rétt hafi verið að hinni kærðu ákvörðun staðið af hálfu Barnaverndar B og að engar sérstakar ástæður séu uppi í máli þessu sem mæla gegn því að nafnleynd tilkynnanda verði virt.

 

Hin kærða ákvörðun Barnaverndar B er því staðfest.

 


 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Barnaverndar B frá 31. október 2012 þess efnis að synja kröfu A um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dóttur hennar, C, er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður 

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta