Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 158/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 158/2021

Þriðjudaginn 20. júlí 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. mars 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2021 vegna umgengni hans við dóttur sína, D

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er tæplega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Stúlkan fæddist í E og flutti með foreldrum sínum til Íslands í apríl 2019. Afskipti barnaverndaryfirvalda hér á landi af málefnum stúlkunnar hófust 15. apríl 2019 þegar tilkynning barst um vanrækslu gagnvart stúlkunni og um vímuefnaneyslu foreldra. Þann 9. maí 2019 barst Barnaverndarnefnd B gögn frá barnaverndaryfirvöldum í E þar sem lýst var miklum áhyggjum af aðstæðum barnsins þar sem grunur var á að foreldrar væru í vímuefnaneyslu. Þann 16. júní 2019 barst Barnaverndarnefnd B tilkynning í gegnum Neyðarlínuna og var lögregla kölluð á heimili foreldra stúlkunnar í B þar sem mikil neysla átti sér stað. Í kjölfarið var stúlkan vistuð utan heimilis frá 19. júní 2019 til 8. júlí 2019 hjá móðursystur sinni á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), Eftir það hefur stúlkan verið í tímabundnu fóstri hjá F

Í janúar 2021 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 31. janúar 2021, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. bvl., auk þess sem krafist yrði fyrir dómi að foreldrar stúlkunnar skyldu svipt forsjá yfir stúlkunni, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Með dómi Héraðsdóms G 8. júlí 2021 voru foreldrar stúlkunnar svipt forsjá hennar. Í janúar 2021 óskaði kærandi eftir því að umgengni færi fram augliti til auglitis og á tíu daga fresti. Á meðferðarfundi 3. febrúar 2021 var lagt til að umgengni við kæranda yrði einu sinni á ári undir eftirliti, í janúar hvert ár, í klukkutíma í senn. Kærandi hafnaði þeirri tillögu og var málið því lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B 22. febrúar 2021 og kveðinn upp úrskurður um umgengni.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni D, við föður sinn, A, verði þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst. Umgengnin fer fram í gegnum myndsímtal og stendur yfir í allt að 15 mínútur í senn. Málið verður tekið aftur fyrir í lok september 2021.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. mars 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 13. apríl 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. apríl 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 23. apríl 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B til kynningar með bréfi, dags. 26. apríl 2021. Athugasemdir bárust frá Barnaverndarnefnd B með bréfi, dags. 10. maí 2021, og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni verði á tíu daga fresti, í 30 mínútur í senn, í gegnum fjarfundabúnað en á tveggja mánaða fresti í eigin persónu. Til vara krefst kærandi umgengni á tíu daga fresti í gegnum fjarfundabúnað en á sex mánaða fresti í eigin persónu. Í báðum tilvikum krefst kærandi þess að umgengni verði aukin eftir að afplánun hans lýkur svo að umgengni geti farið fram í eigin persónu að minnsta kosti einu sinni í mánuði eða að umgengni verði endurskoðuð með tilliti til nýrra aðstæðna. Kærandi sé reiðubúinn til að taka fíkniefnapróf sé þess krafist og geri ekki athugasemdir við boðað eða óboðað eftirlit.

Barnavernd B hafi opnað mál vegna stúlkunnar sumarið 2019 eftir tilkynningu á heimili kæranda. Eftir að barnsmóðir kæranda hafi yfirgefið heimilið með stúlkuna hafi eitthvað brostið í kæranda og hann fallið í kjölfarið. Hann hafði verið edrú í þrjú til fjögur ár og laus við fíkniefnaneyslu. Þegar barnavernd hafi komið á heimili kæranda hafi hann verið í slæmu ástandi og muni ekki afsaka sig á einn eða annan hátt, en aftur á móti hafi hann ekki haft vitneskju um að stúlkan væri á heimilinu. Í kjölfarið hafi stúlkan verið vistuð hjá móðursystur sinni og foreldrum tilkynnt að þörf væri á frekari vistun fyrir stúlkuna og að engin umgengni yrði. Þá hafi þeim ekki verið kynntur réttur til lögmannsaðstoðar. Gerð hafi verið meðferðaráætlun við barnavernd án þess að nokkur eftirfylgni né stuðningur hafi fylgt í kjölfarið. Í raun hafi kæranda aldrei verið boðin nein úrræði sem barnavernd hafi undir höndum til aðstoðar, en barnavernd búi yfir ótal aðferðum til að aðstoða fjölskyldur.

Þetta mál hafi verið unnið á þann hátt að svo virðist sem barnavernd hafi tekið ákvörðun um um leið og málið hafi verið opnað að um væri að ræða mál sem lyki með forsjársviptingu og því ekki tækt að reyna koma fjölskyldunni til aðstoðar á einn eða annan hátt. Til að mynda hafi kærandi verið edrú síðan í mars á síðasta ári eftir að hafa verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Um leið og hann hafi rankað við sér hafi hann tekið á öllu sínu til þess að ná edrúmennsku sinni aftur, neitað niðurtröppunarlyfjum, hringt í meðferðaraðila, sótt rafræna AA fundi og fundið sér alla þá aðstoð er honum hafi verið kleift að sækja sér. Þess megi geta að á þeim tíma sem sjálfsvinna hans hafi hafist hafi Covid-19 verið að byrja og fangelsið verið lokað, meðferðarúrræði sett á bið, sálfræðingum ekki kleift að heimsækja fanga og svo lengi mætti telja. Aftur á móti hafi kærandi sótt sér alla aðstoð sem hann mögulega hafi komist í sjálfur.

Strax í apríl 2020 hafi kærandi haft samband við Barnavernd B og óskað eftir samskiptum við stúlkuna. Beiðni hans hafi verið heimiluð og hann óskað í framhaldi eftir reglulegri umgengni í gegnum fjarskiptabúnað. Beiðni hans hafi verið tekin til skoðunar þar sem barnavernd hafi sett fyrir sig að Skype eða önnur tækni er föngum bjóðist væri ekki nægilega örugg, þrátt fyrir að öllum öðrum föngum sé heimilt að tala við börn sín í gegnum samskiptaforritið Skype. Kærandi hafi ítrekað beiðnina í maí 2020 en ekki fengið frekari svör. Aftur á móti hafi barnavernd mætt til hans á H til að fá undirritun kæranda vegna vistunarsamnings og meðferðaráætlunar þar sem farið hafi fram forsjárhæfnismat. Þá hafði stúlkan verið í vistun í styttri tíma en ár og ekki gerð ein tilraun af hálfu barnaverndar til að sjá hvort grundvöllur væri fyrir sameiningu fjölskyldunnar. Fyrirspurnum kæranda um umgengni hafi ekki verið svarað og skeytingarleysið verið algjört. Þegar móðir stúlkunnar hafi óskað eftir umgengni hafi því verið sinnt og kærandi fengið umgengnissamning í hendur. Umgengni þar sem skilyrði séu sett um notkun samskiptaforrits virðist ein flóknasta tækni er íslensk yfirvöld hafi komist í tengsl við þar sem umgengni við stúlkuna hafi ekki átt sér stað vegna tæknilegra örðugleika. Umgengni hafi átt sér stað við undirritun á vistunarsamningi og svo um jólin eftir að kærandi hafi neitað að skrifa undir vistunarsamning nema fá umgengni. Umgengnissamningurinn sem um ræði hafi kveðið á um umgengni á tíu daga fresti og frá undirritun hafi ein umgengni náð fram að ganga.

Þegar krafist hafi verið að fá umgengni í eigin persónu þar sem ekki hafi orðið úr umgengni samkvæmt samningi hafi barnavernd lagt til að umgengni yrði takmörkuð við einu sinni á ári í eina klukkustund í senn. Sú tillaga hafi komið fram í febrúar og umrædd umgengni hafi átt að eiga sér stað í janúar ár hvert. Rökstuðningurinn hafi verið á þá leið að þar sem barnavernd hafi hvort sem er ætlað í forsjársviptingarmál skipti tengsl barns og foreldra engu máli. Nægjanlegt væri að barn vissi um uppruna sinn sem tryggt væri með hittingi einu sinni á ári í klukkustund. Málið hafi svo farið fyrir barnavernd er hafi komist að þeirri ómannúðlegu niðurstöðu að umgengni færi fram þrisvar sinnum á ári, í 15 mínútur í senn, í gegnum fjarskiptabúnað.

Um stöðu kæranda í dag sé ljóst að hann sé edrú og hafi sinnt edrúmennsku sinni af miklum krafti. Þrátt fyrir að vera vistaður á H í refsivist sé öllum ljóst er þekkingu hafi á aðstöðu fanga að magn fíkniefna innan veggja fangelsisins sé gífurlegt ásamt þrýstingi af hálfu samfanga og því erfiðara fyrir fíkniefnaneytendur að halda edrúmennsku innan veggja fangelsisins en utan þess. Kærandi sé í góðu ástandi, þrátt fyrir ítrekuð áföll.

Þegar kæra sé skrifuð 29. mars 2021 hafi engin umgengni farið fram við kæranda. Þá hafi Barnavernd B ekki reynt að ná sambandi við kæranda til að tryggja umgengni samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar.

Barnaverndaryfirvöldum beri að hafa meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. í huga. Samkvæmt ákvæðinu skuli barnaverndaryfirvöld gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Miða skuli við að beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Því skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Vistun barns utan heimilis sé íþyngjandi ráðstöfun fyrir foreldra og barn. Því sé nauðsynlegt að vinnsla barnaverndaryfirvalda sé til samræmis við meðalhófsregluna. Það feli meðal annars í sér að gæta verði að því að umgengni verði ekki skert að óþörfu. Þó svo að barnavernd hafi nú tekið ákvörðun um að forsjársvipta kæranda sé það mál ekki útkljáð og alls ekkert víst hver niðurstaða dómstóla verði. Því sé þarft að sjá til þess að skerða umgengni ekki að óþörfu.

Meginreglan sé sú að foreldrar og barn eigi rétt til umgengni og takmarkanir á umgengisrétti barns í fóstri séu undantekning.

Kærandi vekji athygli á því að barn eigi rétt á umgengni við foreldra sína, sbr. 70. gr. bvl. Um umgengni barna við kynforeldra sé ítarlega fjallað í 74. gr. laganna. Barni sem ráðstafað hafi verið í fóstur og kynforeldrum þess sé tryggður gagnkvæmur réttur til umgengni á meðan ráðstöfun vari. Þessi regla sé talin eðlileg í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga er Ísland hafi fullgilt. Með greininni sé átt við samveru, það er beinan umgengnisrétt, auk annarra samskipta svo sem í gegnum síma, bréfaskipti og þess háttar. Barnavernd hafi virt þessi réttindi algjörlega að vettugi. Barnavernd hafi verið fullkomlega ljóst að kærandi hafi verið edrú, stöðugur og fullkomlega hæfur til að sinna umgengni við stúlkuna, enda ekki að finna nein einustu mótmæli frá barnavernd er það varði. Ákvæðið feli í sér meginreglu og beri barnavernd og barnaverndarnefnd skylda til að tryggja þessi réttindi.

Í 2. mgr. 74. gr. sé að finna undantekningu um að réttur kynforeldra til umgengni takmarkist við það að umgengnin sé bersýnilega talin andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur.

Skerðingin gangi gegn meðalhófsreglunni, meginreglunni um umgengni og skyldu barnaverndar til að aðstoða foreldra við að sinna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt 2. mgr. 12. gr. bvl. Unnið sé að tengslaslitum svo fljótt eftir vistun og án tillits til þess í hvaða stöðu foreldri sé. Ljóst sé að kærandi hafi verið vel til þess hæfur að vera í umgengni við stúlkuna og hefði barnaverndaryfirvöldum verið skylt að koma til móts við kæranda og aðstoða hann við að sinna forsjárskyldum sínum en ekki standa í vegi hans. Sú staðreynd að kærandi afpláni nú refsidóm sé ekki samasemmerki um að hann sé óhæfur til að sinna forsjárskyldum og hvað þá til þess að sinna umgengni við stúlkuna.

Barnaverndaryfirvöldum hafi ekki tekist að sýna fram á að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins eða í ósamræmi við markmið vistunar.

Veruleg takmörkun á umgengni teljist réttlætanleg í einstaka tilvikum ef barni er ráðstafað í fóstur sem sé ætlað að vara þar til barn verði lögráða. Sé það gert á þeim grundvelli að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá samkvæmt 29. gr. bvl. og geti í ljósi markmiðs að barn aðlagist fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess og því þurfi að takmarka umgengni við foreldra.

Við beitingu á takmörkun samkvæmt þessu ákvæði þurfi barnaverndaryfirvöld að tryggja að skilyrðum sé fullnægt. Þar sem takmörkun á umgengni hafi hafist í apríl 2020, innan við ári frá því að stúlkan hafi verið vistuð þegar kærandi hafi sýnt fram á edrúmennsku og sjálfsvinnu, verði ekki séð hvernig barnaverndaryfirvöld geti komist að þeirri niðurstöðu að umgengni vinni gegn hagsmunum barnsins né að tekin hafi verið ákvörðun svo snemma í ferlinu að stúlkan yrði vistuð til 18 ára aldurs. Það hafi ekki farið fram neitt hagsmunamat á því hvað sé barninu fyrir bestu varðandi umgengni. Ef vinnsla málsins hefði verið það vel úr garði gerð að einhver gögn í málinu hefðu legið fyrir á grundvelli annars en framburðar fósturforeldris væri barnaverndaryfirvöldum samt sem áður skylt að rökstyðja ákvörðun sína ítarlega og tryggja að hún byggi á skýrri lagaheimild sem barnaverndarnefnd hafi ekki gert.

Við það hagsmunamat, sem fari fram við ákvörðun um umgengni, sé heimilt að matið taki tillit til sjónarmiða foreldra og fósturforeldra samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl. Í máli þessu virðist sem eingöngu sé byggt á viðhorfi fósturforeldris um að hún sé mótfallin umgengni á meðan málið sé til meðferðar. Hér komi hvorki fram nein rök hvaða áhrif það hafi á stúlkuna né einhvers konar rökstuðningur. Fósturmóðir hafi hagsmuni af því að foreldrar verði forsjársviptir, enda hafi hún í hyggju að ættleiða stúlkuna. Hér verði því að teljast varhugavert að afstaða hennar sé lögð til grundvallar, án frekari upplýsinga um hvernig hún komist að þeirri niðurstöðu og hvort hún komist yfirhöfuð að þeirri niðurstöðu á grundvelli hagsmuna barnsins eða sinna eigin hagsmuna.

Í gögnum málsins liggi fyrir skýrsla talsmanns vegna stúlkunnar. Barnavernd hafi óskað eftir því að I sálfræðingur yrði talsmaður stúlkunnar. Talsmannsskýrslan virðist byggja að stórum hluta á framburði fósturmóður. Rétt sé að vekja athygli á hvert hlutverk talsmanns sé sem sé skilgreint í 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Samkvæmt hlutverki talsmanns beri honum að koma á framfæri sjónarmiðum barnsins. Talsmanni beri aftur á móti ekki að koma á framfæri sínum eigin persónulegu skoðunum um málið en til þess sé fenginn matsmaður sem beri að meta málið í heild. Því sé með ólíkindum hvernig talsmaður komist að þeirri niðurstöðu að X ára gamalt barn hafi komið því á framfæri að það telji sig betur statt hjá fósturmóður þar sem hún hafi þörf fyrir áframhaldandi jákvæða tengslamyndun, öryggi og stöðugleika sem hún fengi ekki frá kynforeldrum sínum. Talsmaður vísi ekki til neinna gagna í skýrslu sinni um hvernig hún hafi komist að þeirri niðurstöðu nema framburð fósturmóður. Það sé verulega varhugavert að matsmaður byggi svo matið á áframhaldandi fóstri á grundvelli þessarar skýrslu.

Í Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994, komi fram í 8. gr. sáttmálans að hver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis. Nokkuð mörg barnaverndarmál fari í gegnum Mannréttindadómstól Evrópu vegna brota á 8. gr., meðal annars mál frá 10. september 2019, í máli nr. 37283/13, þar sem dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að barnavernd í E hafi brotið gegn ákvæðinu þegar foreldrar hafi verið sviptir forsjá barna sinna og umgengnin í algjöru lágmarki. Barnaverndarnefnd hafi horft til barnaverndar í E við vinnslu mála hér á landi. Þá sé það svo að séu foreldrar forsjársviptir sé það opinber stefna barnaverndarnefndar að minnka öll tengsl barns við foreldra sína. Það sé gert með umgengni sem sé í algjöru lágmarki. Til að mynda í þessu máli þar sem kærandi hafi nú fengið að sjá stúlkuna í gegnum fjarskiptaforrit tvisvar sinnum árið 2020 og ekkert á þessu ári. Þá þegar hafi verið krafist úrbóta á umgengni sem hafi orðið til frekari takmörkunar. Svar barnaverndaryfirvalda sé að takmarka umgengnina enn frekar.

Líkt og fram hafi komið vanti upp á allan rökstuðning í máli þessu. Ljóst sé að kærandi hafi fallið sumarið 2019 og brotið af sér með þeim afleiðingum að hann afpláni nú refsivist. Á þessum forsendum hafi barnavernd komist að þeirri niðurstöðu að það beri að takmarka umgengni á ómannúðlegan hátt, þrisvar sinnum á ári, í 15 mínútur í senn. Samkvæmt 49. gr. bvl. skuli úrskurður barnaverndarnefndar vera skriflegur og rökstuddur. Þar skuli rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöður.

Eini rökstuðningurinn, samkvæmt gögnum málsins, sé sá að um sé að ræða yfirvofandi forsjársviptingarmál og því ekki þarft að viðhalda tengslum við foreldri heldur nægjanlegt að barnið þekki uppruna sinn. Samkvæmt tölvupósti til barnaverndarstarfsmanns hafi sérstaklega verið óskað eftir því að fá upplýsingar frá barnaverndaryfirvöldum um á hverju þeir hafi byggt þá niðurstöðu og meðal annars verið vísað til mála Mannréttindadómstóls Evrópu, en enginn rökstuðningur borist.

Réttur barns og foreldris til umgengni sé ríkur, hvort sem um sé að ræða vistun til skemmri eða lengri tíma. Yfirvöldum beri að sýna fram á að umgengni sé andstæð hagsmunum barnsins ef það eigi að takmarka umgengnina til mikilla muna eða koma í veg fyrir hana. Þær kröfur sem kærandi hafi sett fram séu í samræmi við það sem barnavernd hafi þegar samþykkt fyrir utan að fá að hitta einnig stúlkuna með löngu millibili. Þá sé kærandi tilbúinn til þess að mæta í vímuefnapróf fyrir hverja umgengni í persónu og í raun hvenær sem barnavernd óski eftir til að sýna fram á að stúlkan sé ekki í neinni hættu hjá honum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. apríl 2021, kemur fram að því sé alfarið hafnað að kæranda hafi verið kynntur réttur til lögmanns, enda hafi það fyrst verið í lok síðasta árs sem kærandi hafi haft samband við lögmann þar sem barnsmóðir hans hafi bent honum á þann rétt sinn. Telji barnaverndarnefnd sig geta sýnt fram á að hún hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu sinni, sé skorað á stjórnvaldið að sýna fram á það.

Varðandi áhættu- og öryggismat á þeim búnaði sem hafi átt að nota til myndsímtala beri að vísa til þess að sami búnaður sé notaður þegar aðilar, sem séu vistaðir á H eða H, noti til að hafa samskipti við dómstóla. Sá búnaður hafi aldrei verið talinn svo óöruggur að ekki væri tækt að nýta hann, svo sem þegar um viðkvæmari mál sé að ræða, til dæmis gæsluvarðhaldskröfur, ákærur, vitnaleiðslur, aðilaskýrslur og svo framvegis. Þá sé skorað á barnaverndarnefnd að sýna fram á umrætt áhættu- og öryggismat á búnaðinum sem Persónuvernd hafi framkvæmt. Kærandi telji einnig þarft að barnaverndarnefnd upplýsi dómstóla, Fangelsismálastofnun og jafnvel eigin nefnd að búnaðurinn þyki ekki nægjanlega öruggur til að ræða við barn. Það sé varla tækt að búnaðurinn sé notaður til að ræða viðkvæmari málefni, svo sem við nefndina sjálfa, sem lögmaður barnaverndarnefndar hafi jafnvel gert í samskiptum við barnaverndarnefnd. Telja verði að slíkar upplýsingar sem fram fari á slíkum fundi séu mun viðkvæmari en þegar faðir ræði við ungt barn sitt.

Varðandi beiðni kæranda um umgengni sé á því byggt líkt og um nýja beiðni hafi verið að ræða. Til þess að ný beiðni yrði lögð fram hafi barnaverndarnefnd raunverulega þurft að taka afstöðu til upphaflegu beiðninnar. Það hafi aldrei verið gert, heldur hafi barnaverndarnefnd látið sig það engu varða að svara kæranda. Barnaverndarnefnd hafi fengið kæranda til þess að skrifa undir nýjan vistunarsamning og haldið honum í von um að fá að hitta stúlkuna. Kærandi hafi þurft að ítreka upphaflegu beiðni sína. Barnaverndarnefnd B hafi brotið ítrekað gagnvart málshraðareglunni gagnvart kæranda. Vinnubrögð varðandi beiðni hans um umgengni séu í samræmi við framkomu barnaverndarnefndar gagnvart honum. Hann sé fangi og réttur hans og barnsins skipti ekki máli, enda hafi barnaverndarnefnd þegar verið búin að dæma hann út frá því einu saman.

Líkt og fram komi í greinargerð barnaverndarnefndar hafi umgengni loksins átt að fara fram í október 2020 og á tíu daga fresti. Það að fela sig ítrekað á bak við tæknilega örðugleika og ekki einu sinni reyna að sýna viðleitni til að finna annan tíma þegar umgengni gangi ekki, sé enn og aftur augljóst dæmi um hvernig barnaverndarnefnd hafi aldrei ætlað sér að koma á umgengni. Samkvæmt greinargerð hafi fyrsta umgengni átt að fara fram 29. október 2020. Þá hefði næsta umgengni átt að vera 8. nóvember, 28. nóvember, 8. desember, 18. desember, 28. desember, 7. janúar 2021 og svo 17. janúar, áður en málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi þann 25. janúar 2021. Samkvæmt greinargerð barnaverndar sé því lýst að ekki hafi tekist að hafa umgengni þann 29. október og þess í stað hafi umgengni farið fram 12. nóvember 2020 þegar umgengni hefði átt að fara fram fjórum dögum áður. Ekki verði séð hvernig umgengnin 12. nóvember 2020 hafi komið í stað umgengni þann 29. október líkt og barnaverndarnefnd vilji meina í greinargerð sinni. Þá hafi ekki verið reynt að hafa umgengni fyrr en 1. desember 2020 en umgengni í tvö skipti hefði átt að hafa farið fram á þeim tíma samkvæmt umgengnissamningi. Sú umgengni hafi ekki gengið eftir vegna tæknilegra örðugleika og ekki hafi verið reynt að hafa umgengni fyrr en 17. desember, eða 17 dögum seinna. Ástæðan fyrir því að umgengni hafi verið sett á þann 21. desember sé vegna þess að lögmaður hafi krafist þess, ella yrði ekki af undirritun varðandi vistun og þá tilviljunarkennt hvort umgengnin hefði gengið eftir. Það sé ekkert eðlilegt við vinnubrögð barnaverndar í þessu máli og barnavernd geti ekki falið sig á bak við tækniörðugleika eina saman.

Varðandi mat sálfræðingsins Í, dags. 18. janúar 2021, sé um að ræða almenna athugasemd varðandi foreldra í neyslu en ekki sérstaklega varðandi kæranda. Matsgerðin taki á engan hátt til þess hvort það yrði skaðlegt stúlkunni að njóta umgengni við foreldra sína og ef tengslamyndun stúlkunnar sé svo sterk við fósturmóður, ættu samskipti við blóðforeldra ekki að leiða til tengslarofs. Ef barnaverndarnefnd telji að rof yrði með því að leyfa kæranda að tala við stúlkuna sé ljóst að tengslamyndun stúlkunnar og fósturmóður sé ekki jafn sterk og barnaverndarnefnd vilji meina.

Þá hafi ekki komið fram í greinargerð hvers vegna barnavernarnefnd telji að umgengni stúlkunnar við kæranda sé henni skaðleg. Hvorki matsgerð né skýrsla talsmanns taki á slíku og því varhugavert ef barnaverndarnefnd reyni að mistúlka slík gögn. Ekkert í gögnum málsins sýni fram á að umgengni við kæranda, sem sé edrú, hafi slæm áhrif á stúlkuna. Ekkert nema vangaveltur barnaverndar sem og yfirlýsing fósturmóður. Þá séu hvorki upplýsingar í greinargerð né gögnum málsins um að barnaverndarnefnd hafi reynt að beita öðrum vægari úrræðum.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Barnaverndarnefnd B byggi á því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stúlkunnar hér á landi hafi hafist 15. apríl 2019 þegar tilkynning hafi borist um vanrækslu gagnvart stúlkunni og um vímuefnaneyslu foreldra. Þann 9. maí 2019 hafi Barnaverndarnefnd B borist gögn frá barnaverndaryfirvöldum í E þar sem lýst er miklum áhyggjum af aðstæðum stúlkunnar þar sem grunur hafi verið á að foreldrar væru í vímuefnaneyslu.

Þann 16. júní 2019 hafi Barnaverndarnefnd B borist tilkynning í gegnum Neyðarlínuna og lögregla verið kölluð á þáverandi heimili foreldra stúlkunnar í B. Í ljós hafi komið að neysla vímuefna hafði átt sér stað og stúlkan verið fjarlægð af heimilinu og vistuð hjá móðursystur sinni, fyrst í þrjá sólarhringa. Sú vistun hafi verið framlengd til 8. júlí 2019, en þá hafi stúlkan farið á fósturheimili. Eftir það hafi stúlkan verið vistuð í tímabundnu fóstri. Rétt sé að taka fram að það sé alrangt sem fram komi í kæru til nefndarinnar að foreldrum hafi ekki verið kynntur réttur til lögmannsaðstoðar þegar barnið hafi verið vistað utan heimilis. Hið rétta sé að báðum foreldrum hafi skilmerkilega verið gerð grein fyrir rétti sínum, þar með talið að njóta liðsinnis lögmanns í tengslum við umrædda ákvörðun.

Kærandi hafi lagst inn á sjúkrahúsið J í september 2019 í afeitrun og í kjölfarið hafi hann hafið eftirmeðferð sem hann hafi ekki klárað. Kærandi hafi fallið aftur í neyslu í lok september 2019. Kærandi hafi óskað eftir umgengni við dóttur sína í þessum sama mánuði en beiðni hans hafi verið hafnað með vísan til þess að kærandi hefði verið í neyslu vímuefna og að mikilvægt væri að hann væri án vímuefna í nokkurn tíma og jafnvægi komið á líf hans áður en umgengni færi fram.

Í viðtali við starfsmann Barnaverndarnefndar B þann 16. desember 2019 hafi foreldrar samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði. Í þessu sama viðtali hafi foreldrar samþykkt að umgengni færi ekki fram næstu þrjá mánuði. Kærandi hafi verið í fangelsi frá því í mars 2020 og afpláni nú þriggja ára fangelsisdóm. Í apríl 2020 hafi kærandi haft samband við starfsmann barnaverndarnefndar og óskað eftir umgengni og kvaðst ekki hafa verið í neyslu vímuefna eftir að hann hafi verið handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald í mars 2020. Í því ljósi hafi af hálfu barnaverndarnefndar verið samþykkt eitt myndsímtal kæranda við dóttur sína sem hafi farið fram í maí 2020.

Í viðtali við kæranda, sem hafi farið fram í fangelsinu í júní 2020, hafi kærandi óskað eftir umgengni, auk þess sem hann hafi samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði og að undirgangast forsjárhæfnismat. Í kjölfar beiðni kæranda hafi barnaverndarnefnd óskað eftir því að gert yrði áhættu- og öryggismat á þeim búnaði sem ætti að nota til myndsímtala. Niðurstaðan hafi orðið sú, eftir að hafa leitað til Persónuverndar, að ekki væri unnt að tryggja öryggi hvað myndsímtöl varði og því verið ákveðið að umgengni í myndsímtölum færi fram undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar.

Kærandi hafi óskað á ný eftir umgengni í september 2020. Á meðferðarfundi barnaverndarnefndar 30. september sama ár hafi verið lagt til að umgengni kæranda við stúlkuna færi fram einu sinni í október og einu sinni í nóvember í gegnum myndsímtal, í allt að 30 mínútur, undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Kærandi hafi samþykkt þessa tilhögun og fyrsta umgengni hafi átt að fara fram þann dag. Umgengni við kæranda hafi þess í stað farið fram 12. nóvember 2020. Næsta umgengni hafi átt að fara fram 1. desember 2020 en ekki hafi orðið af þeirri umgengni vegna tæknilegra örðugleika í fangelsinu og hið sama eigi við um umgengni 17. desember 2020. Í bæði þessi skipti hafi komið fram beiðni um að notast við Cisco Jabber samskiptaforrit frá Microsoft en ekki hafi tekist að tengja það, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Önnur tilraun hafi verið gerð 21. desember 2020 og þá hafi engir tæknilegir örðugleikar verið fyrir hendi og umgengni því náð fram að ganga.

Þann 28. október 2020 hafi Barnaverndarnefnd B óskað eftir því að I sálfræðingur tæki að sér að vera talsmaður stúlkunnar. Í skýrslu talsmanns, dags. 6. nóvember 2020, komi meðal annars fram að talsmaður mæli með því að stúlkan verði áfram í núverandi fóstri. Enn fremur komi fram að tengsl fósturmóður og stúlkunnar séu góð og fósturmóðir setji skýr mörk. Þann tíma sem stúlkan hafi verið hjá fósturmóður hafi hún byrjað að mynda öryggistengsl við hana.

Á fundi Barnaverndarnefndar B 18. nóvember 2020 hafi starfsmönnum barnaverndarnefndar verið falið að óska eftir því við foreldra að þau afsöluðu sér forsjá stúlkunnar. Með tölvupósti lögmanns föður frá 23. nóvember 2020 hafi því verið hafnað af hálfu kæranda að afsala forsjá til barnaverndarnefndar. Í desember 2020 hafi kærandi samþykkt áframhaldandi vistun til 31. janúar 2021 þar sem ekki hafi náðst að ljúka við forsjárhæfnismatið.

Meðal gagna málsins sé sálfræðileg matsgerð Í sálfræðings, dags. 18. janúar 2021. Í matsgerðinni komi meðal annars fram að foreldri í neyslu falli á öllum grunnþáttum í forsjárhæfni. Ljóst sé að stúlkan hafi myndað grunntengsl við aðra aðila en foreldra sína, sé á mjög góðum stað í þroska og virðist líða mjög vel í þeim aðstæðum sem hún sé í dag. Það sé hætta á því að ef rof yrði á þeim tengslum, sem stúlkan hafi myndað við fósturmóður sína, myndi það valda henni umtalsverðu tilfinningalegu álagi og gæti jafnvel leitt til afturhvarfs í þroska.

Í janúar 2021 hafi kærandi óskað eftir reglulegri umgengni við stúlkuna með það fyrir augum að rækta tengsl við dóttur sína. Af hálfu kæranda hafi verið sett fram sú krafa að umgengni færi fram augliti til auglitis á tíu daga fresti. Á meðferðarfundi 3. febrúar 2021 hafi verið lagt til að umgengni við kæranda yrði einu sinni á ári undir eftirliti í janúar hvers árs, í klukkutíma í senn. Kærandi hafi hafnað þeirri tillögu og málið því verið lagt fyrir fund barnaverndarnefndar 22. febrúar 2021.

Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis frá 16. júní 2019. Líkt og að framan sé rakið hafi kærandi fallið í neyslu eftir meðferð í lok september 2020. Kærandi hafi verið í neyslu allt þar til hann hafi hafið afplánun áðurnefnds refsidóms vorið 2020.

Fyrir liggi að fósturmóðir sé mótfallin frekari umgengni á meðan málið sé í núverandi ferli. Fósturmóðir telji að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum barnsins og það sé augljóslega ekki hagsmunir þess að vinna að tengslamyndun við foreldri sem sé ekki til staðar. Afstaða fósturmóður hafi því verið sú að umgengni ætti alls ekki að vera oftar en einu sinni á ári.

Stúlkunni hafi verið skipaður talsmaður í samræmi við 3. mgr. 46. gr. bvl. Því sé alfarið mótmælt sem haldið sé fram í kæru að umræddur talsmaður hafi farið út fyrir hlutverk sitt og því sé ekki hægt að taka mark á niðurstöðu talsmannsins. Hið rétta sé að skýrsla talsmannsins sé ítarleg og vönduð þar sem talsmaðurinn dragi ályktanir á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar sem sé byggð á fyrirliggjandi gögnum, heimsóknum á heimili fósturmóður og viðtali við fósturmóður. Skýrslan beri þess merki að um sé að ræða ungt barn og hafi talsmanni, eðli málsins samkvæmt, ekki verið unnt að fá fram sjónarmið stúlkunnar til samvista við foreldra og þess háttar. Tengsl barnsins við umönnunaraðila hafi hins vegar verið metin á klínískan hátt og gefi það mat til kynna að tengsl stúlkunnar við fósturmóður einkennist af trausti og ástríki. Talsmaður hafi metið það mikilvægt að þau tengsl yrðu ræktuð áfram. Þá komi fram að barnið hafi ekki getað treyst á umönnun foreldra sinna og því ekki myndað öryggistengsl við þau.

Barnaverndarnefnd B telji að aukin umgengni kæranda við dóttur sína geti beinlínis verið henni skaðleg. Stúlkan hafi lítil tengsl við kæranda og hafi verið vistuð utan heimilis bróðurpart lífs síns. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna og sitji nú í fangelsi sem hafi meðal annars leitt til þess að kærandi hafi ekki getað sinnt reglubundinni umgengni þann tíma sem barnið hafi verið í fóstri.

Barnaverndarnefnd B hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi G þar sem þess sé krafist að kærandi verði sviptur forsjá dóttur sinnar. Markmið varanlegs fósturs sé að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem hafi tekið að sér uppeldi barnsins. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega. Slík sjónarmið séu höfð til hliðsjónar við ákvörðun barnaverndarnefndar um hina takmörkuðu umgengni og á því byggt að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hennar í fóstur. Með því að ráðstafa stúlkunni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa henni nýja fjölskyldu til framtíðar og ekki séu áform um að stúlkan tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að barnið fái að mynda góð tengsl við fósturmóður sína í friði og ró.

Barnaverndarnefnd B telji, gagnstætt því sem haldið sé fram í kæru, að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið barninu fyrir bestu, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísast til forsendna hins kærða úrskurðar.

Barnaverndarnefnd B byggi á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á barnið og líf hennar. Þá sé umgengnin í samræmi við það markmið að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni. Rétt sé að taka fram að málið verði tekið fyrir í lok september 2021 þar sem umgengni verði endurskoðuð og verði þar vitaskuld horft til þess hvernig hafi gengið hjá kæranda. Að mati barnaverndarnefndar sé ekki um annað að ræða en að umgengni fari fram í gegnum myndsímtöl undir eftirliti á meðan kærandi afpláni dóm sinn, enda telji barnaverndarnefnd það bersýnilega andstætt hagsmunum stúlkunnar að umgangast kæranda augliti til auglitis í fangelsinu, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji Barnaverndarnefnd B að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda sem kærandi hafi glímt við um langt árabil sé það mat barnaverndarnefndar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við stúlkuna að svo stöddu.

Í athugasemdum barnaverndarnefndar, dags. 10. maí 2021, segir varðandi mótmæli kæranda um að honum hafi ekki verið kynntur réttur til lögmannsaðstoðar að kæranda hafi verið kynntur umræddur réttur áður en ákvörðun hafi verið tekin um að vista barnið utan heimilis. Gögn málsins beri með sér að kærandi hafi nýtt sér þennan rétt, enda hafi hann notið liðsinnis lögmanns í tengslum við umrædda ákvörðun.

Líkt og rakið hafi verið í greinargerð barnaverndarnefndar hafi verið farið fram á að gert yrði áhættu- og öryggismat á þeim búnaði sem ætti að nota til myndsímtala. Starfsmenn barnaverndarnefndar hafi fengið þau svör símleiðis frá Persónuvernd að ekki hafi verið gerð formleg áhættu- og öryggisúttekt á búnaði til myndsímtala, þar með talið varðandi upptökur af slíkum samtölum, og af þeim sökum hafi verið ákveðið að fyllsta öryggis væri gætt með því að umgengni færi fram undir eftirliti. Líkt og rakið sé í greinargerð barnaverndarnefndar hafi í fyrstu umgengni verið notast við samskiptaforritið Teams en að beiðni fangelsisins hafi í framhaldinu verið farið fram á að notast yrði við Cisco Jabber samskiptaforrit frá Microsoft. Tæknilegir örðugleikar, sem hafi verið við notkun þess forrits, hafi orðið til þess að færa þurfti umgengni til í fáein skipti.

Barnaverndarnefnd B mótmæli því að málshraðaregla hafi verið brotin í tengslum við umgengni. Í greinargerð barnaverndarnefndar sé rakið hvernig fyrirkomulag umgengni hafi verið á meðan kærandi afpláni fangelsisdóminn. Af því megi ráða að fylgt hafi verið samkomulagi um umgengni í gegnum myndsímtöl og hún hafi farið fram nema í þau fáeinu skipti sem tæknilegir örðugleikar í fangelsinu hafi komið upp, en þá hafi verið fundinn nýr tími fyrir umgengni við fyrsta hentugleika. Af gögnum málsins megi þannig ráða að vegna þessara tæknilegu örðugleika hafi umgengni ekki farið að öllu leyti fram á tíu daga fresti í nóvember 2020 fram til miðs janúar 2021, heldur hafi oftar en einu sinni þurft að færa umgengni til og finna nýja tíma. Að öðru leyti hafi umgengni farið fram samkvæmt því sem ákveðið hafi verið af hálfu barnaverndarnefndar. Barnaverndarnefnd B bendi á í þessu sambandi að umgengni í nóvember 2020 til miðs janúar 2021 sé ekki til umfjöllunar í þessu máli, enda lúti kæra að breytingu á úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2021.

Varðandi athugasemdir kæranda um skýrslu Í sálfræðings sé beinlínis rangt það sem haldið sé fram af hálfu kæranda að „um sé að ræða almenna athugasemd varðandi foreldra í neyslu en ekki sérstaklega er (sic.) varðandi kæranda“. Hið rétta sé að matsþoli í þessu mati sé kærandi en ekki hafi náðst í barnsmóður hans við vinnslu matsins. Matið taki því til kæranda sérstaklega og athugasemdir í skýrslunni varði hans persónulegu stöðu, þar með talin sú almenna athugasemd að foreldrar í neyslu falli á öllum grunnþáttum forsjárhæfni.

Af hálfu Barnaverndarnefndar B sé ítrekað að aukin umgengni kæranda við stúlkuna geti beinlínis verið stúlkunni skaðleg, enda hafi hún það lítil tengsl við kæranda og hafi verið vistuð utan heimilis bróðurpart lífs síns. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna og situr nú í fangelsi. Undir þessum kringumstæðum og í ljósi þess að nú sé rekið forsjársviptingarmál fyrir dómi, telji barnaverndarnefnd að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að umgengni verði takmörkuð verulega, líkt og gert sé í hinum kærða úrskurði.

IV. Afstaða barns

Í skýrslu talmanns kemur fram að talsmaðurinn hafi heimsótt fósturheimilið 2. nóvember 2020 þegar stúlkan var rúmlega X ára gömul. Að mati talsmanns sé staða stúlkunnar á fósturheimili til fyrirmyndar. Fram kemur í skýrslunni að þann tíma sem barnið hafi verið hjá fósturmóður hafi það myndað öryggistengsl við hana. Þá hafi umgengni barnsins við foreldra nánast engin verið og því sé fósturmóðir eina foreldrið sem barnið þekki.

Í skýrslu talsmanns er ekki tekin afstaða til umgengni við foreldra.

V. Sjónarmið fósturmóður

Samkvæmt gögnum málsins er fósturmóður mótfallin aukinni umgengni á meðan málið sé í forsjársviptingarferli. Fósturmóðir telji það augljóslega ekki vera hagsmuni barnsins að vinna í tengslamyndun við foreldra sem ekki séu til staðar. Hún telji að umgengni eigi ekki vera oftar en einu sinni á ári.

 


 

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er tæplega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 22. febrúar 2021 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst. Umgengni færi fram í gegnum myndsímtal og stæði yfir í allt að 15 mínútur í senn. Ákveðið var að málið yrði aftur tekið fyrir í lok september 2021.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni verði á tíu daga fresti, í 30 mínútur í senn, í gegnum fjarfundabúnað en á tveggja mánaða fresti í eigin persónu. Til þrautavara krefst kærandi umgengni á tíu daga fresti í gegnum fjarfundabúnað en á sex mánaða fresti í eigin persónu. Í báðum tilvikum er þess krafist að umgengni verði aukin eftir að afplánun hans ljúki svo að umgengni geti farið fram í eigin persónu að minnsta kosti einu sinni í mánuði, eða að umgengni verði endurskoðuð með tilliti til nýrra aðstæðna. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við ákvörðun um umgengni þurfi barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmið fósturráðstöfunar. Með vísan til fyrirliggjandi gagna telji barnaverndarnefnd að það séu lítil tengsl barns við kæranda þar sem stúlkan sé búin að vera vistuð utan heimilis í 20 mánuði. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna, sitji nú í fangelsi sem hafi leitt til þess að hann hafi ekki getað sinnt reglubundinni umgengni þann tíma sem stúlkan hafi verið í fóstri. Aftur á móti hafi stúlkan myndað góð tengsl við fósturmóður sína og líti á hana sem móður sína. Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn í fóstri rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess í hversu langan tíma fóstri sé ætlað að vara. Í janúar 2021 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 31. janúar 2021, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. bvl., auk þess sem krafist verði fyrir dómi að kærandi og móðir stúlkunnar verði svipt forsjá sinni yfir stúlkunni, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Barnaverndarnefnd B telji að það sé stúlkunni fyrir bestu að vera vistuð utan heimilis til 18 ára aldurs. Það sé mat Barnaverndarnefndar B, þegar allt framangreint sé virt, að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni kæranda við stúlkuna verði þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst. Að umgengni fari fram í gegnum myndsímtal í allt að 15 mínútur í senn. Málið verði tekið aftur fyrir í lok september 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Samkvæmt dómi Héraðsdóms G frá 8. júlí 2021 hafa foreldrar stúlkunnar verið svipt forsjá hennar og fer Barnaverndarnefnd B með forsjá hennar til 18 ára aldurs. Hinn kærði úrskurður varðar það tímabil sem stúlkan var í tímabundnu fóstri en hún fór í fóstur í júní 2019, þá rúmlega X mánaða gömul. Úrskurðarnefndin telur að umgengni í formi myndsímtala hafi verið eðlileg þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp en nú sé ekkert því til fyrirstöðu að umgengni geti farið fram með hefðbundnum hætti og þá undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Er í því sambandi meðal annars horft til núverandi aðstæðna kæranda og barns og stöðu heimsfaraldurs vegna COVID-19.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2021 varðandi umgengni D, við A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta