Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 602/2022

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 602/2022

Föstudaginn 28. apríl 2023

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 27. desember 2022, kærði C, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 7. desember 2022 vegna umgengni kæranda við syni hans D, og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengirnir D og E eru X og X ára gamlir. Kærandi er faðir drengjanna og fer einn með forsjá þeirra. Drengirnir eru vistaðir utan heimilis á núverandi fósturheimilum, E frá nóvember 2022 og D frá desember 2021.

Mál drengjanna vegna umgengni við kæranda á tímabili vistunar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 7. desember 2022. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar hvað varðarD er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umgengni drengsins við föður skal vera einu sinni í mánuði, undir eftirliti fósturforeldra á heimili þeirra. Umgengni verði að hámarki 3 klukkustundir í senn. Símtöl verði aðra hvora viku, að hámarki 30 mínútur, undir eftirliti fósturforeldra. Nánari tímasetningar verði í samráði við fósturforeldra. Umgengni verði endurskoðuð eftir 4 mánuði eða fyrr ef þurfa þykir“

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar hvað varðar E er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umgengni drengsins við föður skal vera einu sinni í mánuði, undir eftirliti fósturforeldra á heimili þeirra. Umgengni verði að hámarki 3 klukkustundir í senn. Símtöl verði aðra hvora viku, að hámarki 30 mínútur, undir eftirliti fósturforeldra. Nánari tímasetningar verði í samráði við fósturforeldra. Umgengni verði endurskoðuð eftir 4 mánuði eða fyrr ef þurfa þykir“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. desember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. janúar 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarnefndar barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2023, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með tölvupósti 19. febrúar 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um umgengni verði hrundið. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hans við drengina verði aukin og að hún verði ekki undir eftirliti.

Kærandi telur að það geti ekki talist best fyrir drengina að hafa svo litla umgengni við föður og sé þar einkum vísað til skýrslna talsmanna drengjanna um vilja þeirra til að vera hjá kæranda og með honum.

Kærandi búi í næsta húsi við eldri drenginn og því sé svo mikil takmörkun á umgengni óraunhæf. Þá vilji drengirnir umgangast hvor annan og kæranda og það mælir með því að kærandi hitti drengina saman.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður nefndarinnar frá 7. desember 2022 verði staðfestur.

Um málsatvik vísar nefndin til gagna málsins, sérstaklega hins kærða úrskurðar og einnig greinargerðar starfsmanna nefndarinnar, dags. 27. nóvember 2022. Eins og lýst sé í hinum kærða úrskurði hafi drengirnir báðir ítrekað dvalist utan heimilis foreldra sinna, bæði með samþykki þeirra en einnig án þeirra samþykkis og þá fyrir tilstuðlan barnaverndaryfirvalda. D hafi jafnan dvalist hjá frænku sinni á F en E á G. Mál drengjanna hafi þannig verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum til langs tíma.

Haustið 2021 hafi kærandi verið búsettur með drengina á H og bárust fjöldamargar tilkynningar til barnaverndarnefndarinnar vegna aðstæðna drengjanna þar. Málið hafi þá verið metið alvarlegt og talið nauðsynlegt að drengirnir færu af heimilinu sem þeir gerðu í nóvember 2021 (E) og desember 2021 (D). Hafa þeir verið vistaðir utan heimilis síðan, ýmist með samþykki kæranda eða ekki.

Í hinum kærða úrskurði sé jafnframt kveðið á um áframhaldandi vistun drengjanna utan heimilis og hafi lögmanni verið falið með ákvörðun nefndarinnar á sama tíma að gera kröfu fyrir héraðsdómi um forsjársviptingu kæranda. Forsjársviptingarmálið var þingfest í Héraðsdómi I þann 23. janúar 2023.

Vistun drengjanna hafi nú staðið yfir samfleytt í ríflega ár og ekki hafi tekist á þeim tíma að ná samkomulagi við kæranda um tilhögun umgengni. Hafa drög að samningi verið send honum, meðal annars þann 13. júlí 2022 en samkomulag ekki náðst sem fyrr segir.

Umgengni hafi engu að síður farið fram á vistunartímanum með aðkomu fósturforeldra og starfsmanna barnaverndarnefndarinnar hverju sinni. Umgengnin hafi hins vegar verið því marki brennd að vera óregluleg og óviss, helst í formi símtala og heimsókna kæranda á fósturheimili. Tímabil hafi komið þar sem umgengni hafi verið lítil sem engin. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir umgengni sem ekki hefur náðst samkomulag um, sér í lagi þar sem óvissa hafi ríkt um búsetu hans og hvar hann sjái fyrir sér að hafa drengina í umgengni yfir nótt. Að mati fósturforeldra beggja drengjanna hafi umgengnin verið erfið fyrir þá.

Þar sem ekki hefur náðst samkomulag um fyrirkomulag umgengni í vistuninni hafi ekki verið um annað að ræða en að taka málið til úrskurðar, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var úrskurður um umgengni kveðinn upp hinn 7. desember 2022. 

Með hliðsjón af öllu framansögðu og því sem fram komi í gögnum málsins hafi það verið mat barnaverndarnefndarinnar að sú ákvörðun að kærandi ætti umgengni við drengina einu sinni í mánuði undir eftirliti fósturforeldra, auk símtala hálfsmánaðarlega, samræmdist hagsmunum drengjanna miðað við stöðu málsins í dag.

Fósturforeldrar hafi leyft kæranda umgengni, þrátt fyrir að skriflegt samkomulag hafi ekki náðst þar um. Umgengni hafi aðallega verið í formi símtala og heimsókna foreldra á fósturheimili. Samskipti við kæranda hafi gengið ágætlega að sögn fósturforeldra en á köflum erfiðlega. Fósturforeldrar beggja drengjanna hafi lagt á það áherslu við starfsmenn barnaverndarnefndarinnar að mikilvægt sé fyrir báða drengina að skapa ró í kringum þá og draga úr áreiti.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir fósturbarna. Rétturinn til umgengni kynforeldra við fósturbörn byggist á fyrrgreindu ákvæði, sem ber að túlka með hliðsjón af 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálinn). Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. sáttmálans ber að virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við það með reglubundnum hætti, nema það sé talið andstætt hagsmunum þess. Þannig sé tíðni umgengnisréttarins ávallt háð mati á hagsmunum þeirra barna sem í hlut eiga. Fari hagsmunir þeirra sem sækjast eftir umgengni við fósturbörn ekki saman við hagsmuni barnanna sem um ræðir, verða hagsmunir annarra að víkja.

Að mati barnaverndarþjónustunnar séu drengirnir báðir í brýnni þörf fyrir stöðugleika í aðstæðum sínum. Báðir séu þeir í ágætu jafnvægi í dag í vistuninni en glíma þó við afleiðingar af vanrækslu, óstöðugleika og óvissu. Þá hafa fósturforeldrar beggja drengjanna lýst því að umgengni við kæranda hafi afleiðingar fyrir drengina, meðal annars þannig að ójafnvægi verði varðandi svefn og matarvenjur. Umönnun beggja drengjanna sé krefjandi fyrir fósturforeldra þó á ólíkan hátt sé, en ljóst þykir að lítið þurfi til að setja báða drengina úr jafnvægi sem geti skapað erfiðar aðstæður á fósturheimilunum. Á það sérstaklega við um yngri drenginn en þó einnig um þann eldri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur barnaverndarþjónustan þörf drengjanna fyrir umgengni við kæranda svipaða og ákvað því sama fyrirkomulag umgengni varðandi þá báða. Þá telur barnaverndarþjónustan, einnig með vísan til alls framangreinds, að hin úrskurðaða umgengni samræmist hagsmunum beggja drengjanna og sé þess því krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Sjónarmið drengjanna

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur talsmanna sem aflað var um afstöðu drengjanna til umgengni við kæranda.

Í skýrslu talsmanns D, dags. 20. nóvember 2022, kemur fram að drengnum líði vel hjá föður sínum og hann væri sáttur við að faðir hans væri nú búsettur á F. Drengurinn tók fram að hann væri sáttur við tilhögunina eins og hún er núna en tók jafnframt fram að hann vildi búa með föður sínum og bróður þegar skólaárinu væri lokið. Í skýrslu talmanns E, dags. 21. nóvember 2022, kemur fram að hann vilji helst vera hjá föður sínum en það væri ekki hægt. Drengurinn talaði um að það væri búið að eyðileggja það að hann fengi að vera hjá pabba sínum.

V.  Niðurstaða

Drengirnir D og E eru X og X ára gamlir. Kærandi er faðir drengjanna.

Með hinum kærða úrskurði frá 7. desember 2022 var ákveðið að umgengni drengjanna við kæranda skyldi vera einu sinni í mánuði, að hámarki þrjár klukkustundir, undir eftirliti og á heimili fósturforeldra. Þá var ákveðið að símtöl yrðu aðra hvora viku, 30 mínútur í senn að hámarki. 

Kærandi krefst þess aðallega að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um umgengni verði hrundið. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hans við drengina verði aukin og að hún verði ekki undir eftirliti.

Varðandi varakröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um aukna umgengni bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengirnir eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengjanna best með tilliti til stöðu þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins eru drengirnir í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum en lúta forsjá kæranda. Málefni drengjanna hafa verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda með hléum allt frá árinu 2011 í tilfelli eldri drengsins, D. Yngri drengurinn, E, hefur dvalist ítrekað utan heimilis foreldra sinna, bæði fyrir tilstuðlan barnaverndaryfirvalda og að frumkvæði foreldra sinna. Þá hafa vistanir utan heimilis bæði verið án og með samþykki foreldra. Fjöldi tilkynninga hafa borist yfirvöldum vegna aðstæðna þeirra á undanförnum árum. Árið 2021 var kærandi búsettur á H með drengina og barst þá fjöldi tilkynninga vegna málefna drengjanna. Í kjölfar þess og mats á aðstæðum drengjanna féllst kæranda á vistun þeirra utan heimilis en dró svo samþykki sitt til baka. Úrskurðað var um vistun drengjanna utan heimilis 17. maí 2022 og jafnframt óskað 12 mánaða framlengingar á vistun þeirra fyrir héraðsdómi. Héraðsdómur I úrskurðaði 19. júlí 2022 um vistun utan heimils í fjóra mánuði en ekki var fallist á kröfu um framlengingu. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að rétt væri að framkvæma mat á forsjárhæfi kæranda teldu starfsmenn drengina í hættu í umsjá kæranda. Skömmu áður en úrskurður um vistun féll úr gildi þann 17. september 2022 óskaði kærandi þess að drengirnir yrðu áfram vistaðir utan heimilis þar sem hann væri ekki stakk búinn til að taka við þeim aftur. Kærandi hafi þó ekki samþykkt þá meðferðaráætlun sem lögð hafi verið til og ekki hafi náðst samkomulag um umgengni kæranda við drengina. Kærandi gekkst undir forsjárhæfismat þann 31. október 2022 og var það mat matsmanns að þrátt fyrir góðan viljan kæranda glímdi hann við alvarlegan og langvinnan geðrænan kvilla. Innsæi kæranda í eigin vanda væri því verulega takmarkað og innsæi hans í þarfir drengjanna væri verulega skert sem og geta hans til að mæta tilfinningalegum þörfum þeirra. Taldi matsmaður því hvorki að velferð drengjanna né öryggi væri tryggt í umsjá kæranda og lagði hann til að þeir yrðu vistaðir utan heimilis til 18 ára aldurs.

Eins og vikið er að hér að framan ber, að mati úrskurðarnefndarinnar, við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni drengirnir hafa af umgengni við kæranda. Úrskurðarnefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir drengjanna að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu þangað til frekari ákvarðanir hafa verið teknar varðandi framtíð þeirra. Vilji drengjanna til samvista við föður virðist vera nokkuð skýr sem eðlilegt má teljast miðað við langvarandi tengsl þeirra við hann. Engu að síður álítur úrskurðarnefndin að í ljósi þess sem á undan er gengið og í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir um stöðu og hagi kæranda að hagur drengjanna sé best tryggður miðað við núverandi aðstæður með vistun utan heimilis og þeirri umgengni sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt framansögðu fellst úrskurðarnefndin á sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum drengjanna best að umgengni þeirra við kæranda fari fram á þann hátt sem ákveðið hefur verið. Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 7. desember 2022 varðandi umgengni A, við D, og E, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta