Mál nr. 499/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 499/2021
Mánudaginn 13. desember 2021
A
gegn
Barnaverndarnefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur
Með kæru, dags. 24. september 2021, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 14. september 2021 vegna umgengni hans við D, E, og F.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn D er X ára gamall og stúlkurnar E og F eru rúmlega X ára gamlar. Kærandi var sviptur forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms H þann 23. apríl 2021. Kærandi er kynfaðir barnanna.
Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 14. september 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 14. september 2021, sem lögðu til umgengni tvisvar á ári undir eftirliti. Kærandi var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Barnaverndarnefnd B ákveður að umgengni A viðbörnin þrjú D og F verði tvisvar á ári, tvær klukkustundir í senn undir eftirliti stafsmanna barnaverndar og í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Umgengnismánuðir verða apríl og október. Föður verður gert að mæti í vímuefnapróf þremur dögum áður en umgengni fer fram.“
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 28. september 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 3. nóvember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. nóvember 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. nóvember 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B til kynningar með bréfi, dags. 24. nóvember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði að umgengni kæranda við börn sín verði aukin þannig að hann fái að hitta börnin í gegnum fjarfundarbúnað vikulega og einu sinni í mánuði í húsnæði á vegum barnaverndar eða öðrum stað eftir nánara samkomulagi. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um aukna umgengni kæranda við börnin.
Kærandi telur að undanfarin ár hafi Barnavernd B ítrekað brotið á rétti hans til umgengni við börn sín og á rétti þeirra til umgengi við föður sinn. Kærandi hafi einungis fengið að sjá börn sín nokkrum sinnum undanfarin ár, þrátt fyrir að hafa ítrekað óskað eftir aukinni umgengni og það sérstaklega eftir að börnunum hafi verið komið í fóstur.
Eftir umgengni í september 2020 bókaði barnaverndarnefnd að umgengni kæranda við börnin yrði annan hvorn mánuð undir eftirliti starfsmanna barnaverndar, með túlki og að undangengnu fíkniefnaprófi þremur dögum fyrir áætlaða umgengni og sama dag og umgengni skyldi fara fram. Mikill misbrestur varð á því að barnavernd stæði við ákvörðun barnaverndarnefndar. Kærandi telur það ekki skipta máli að hann hafi verið í afplánun því að feður í afplánun fá að hitta börn sín í húsnæði á vegum barnaverndar en það sé líka auðvelt að koma á umgengni í gegnum fjarfundarbúnað, þótt hann sé í fangelsi.
Þannig hefði kærandi átt að hitta börnin sín sex sinnum á því ári sem liðið er frá bókun nefndarinnar, en reyndin er sú að umgengni hefur einungis verið í þrjú skipti.
Með dómi Héraðsdóms H hafi kærandi verið sviptur forsjá barna sinna að kröfu barnaverndarnefndar. Varð því ljóst að endurskoða þyrfti umgengnina. Beiðnum kæranda um umgengni hafi loks verið svarað með bókun meðferðarfundar barnaverndar 10. júní 2021 um að leitað yrði samkomulags við bæði móður og föður um að umgengni fari næst fram í ágúst eftir sumarfrí fósturforeldra, á höfuðborgarsvæðinu með móður en með fjarfundarbúnaði við föður. Það hafi verið mat meðferðarfundar að afla þyrfti frekari afstöðu barnanna sem og fósturforeldra áður en frekari bókun yrði gerð.
Þann 16. júní 2021 krafðist kærandi þess að ágreiningur um umgengnina yrði þegar í stað lagður fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar, sbr. 4. mgr. 81. Barnaverndarlaga, en það hafi ekki verið gert fyrr en 14. september 2021.
Kærandi viðurkenni fúslega að hann hafi ekki alltaf verið fyrirmyndarfaðir, en hann hafi einlægan vilja til að snúa við blaðinu. Kærandi hafi sýnt að hann hafi vilja til þess með því að fara ítrekað í meðferðir við vímuefnavanda sínum. Í afplánun þeirri sem lauk þann 11. september 2021 sótti kærandi AA-fundi, naut aðstoðar sálfræðings og félagsfræðings.
Kærandi dvelst nú í […]
Kærandi byggi kröfu sína um aukna umgengni við börnin á 70. og 74. gr. bvl. Kærandi vísar til þess að þar sé sérstaklega tekið fram að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem því séu nákomnir. Um sé að ræða sjálfstæðan rétt barns sem beri að virða, enda í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt.
Þá segir í 2. mgr. 74. gr. laganna að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt ákvæðinu verða bæði skilyrði að vera fyrir hendi svo að unnt sé að takmarka umgengni með öllu eða nær öllu eins og tillaga barnaverndar lýtur að.
Í úrskurði barnaverndarnefndar kemur ekki fram að ríkari umgengni barnanna við kæranda sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnanna. Í greinargerð með ákvæðinu segir þegar um kynforeldra sé að ræða:
„að þeir eigi rétt á umgengni við barn, nema umgengni sé bersýnilega talin andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins.“
Kærandi haldi því fram barnaverndarnefnd beri skylda til að sýna fram á að umgengnin sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnanna. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á þetta né að kærandi hafi slæm áhrif á börnin eða þeim stafi ógn af honum. Þvert á móti sé óumdeilt að umgengni kæranda við börnin hafi ávallt gengið vel, að vel hafi farið á með þeim og að börnunum þyki vænt um pabba sinn. Kærandi bendi jafnframt á að í skýrslum talsmanns barnanna frá 7. september 2021, komi glögglega fram að börnin vilji vera í mun meiri umgengni við föður sinn en nú sé.
Því sé mótmælt sem kemur fram í niðurstöðu úrskurðarins að umgengni í varanlegu fóstri sé í þeim tilgangi að barn þekki uppruna sinn en ekki í þeim tilgangi að viðhalda eða mynda ný tengsl. Þetta sé í andstöðu við það sem kemur fram í athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. í frumvarpi til barnaverndarlaga um að réttur til umgengni við barn sé mjög ríkur þegar um kynforeldra sé að ræða.
Það sé hins vegar ljóst að umgengni barnanna við föður/kynforeldri verði vart ákveðin minni en hafi verið úrskurðað um og megi í raun segja að umgengni kæranda við börnin sé svo lítil að ekki sé um raunverulega umgengni að ræða. Telur kærandi nær að ómögulegt sé að mynda tilfinningatengsl á tveimur tímum, tvisvar sinnum á ári, á milli hans og barnanna. Kærandi hafi verið umönnunaraðili barnanna fyrstu árin en hann haldi því fram að allt frá því að hann hóf afplánun X og skildi við barnsmóður sína, hafi barnavernd vísvitandi og með kerfisbundnum hætti takmarkað umgengni hans við börnin í þeim tilgangi að rjúfa þessi tengsl.
Kærandi byggi þannig kröfu sína um rýmri umgengni á því að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að umgengni þeirra við föður sé skert með jafn afgerandi hætti og gert sé í úrskurði barnaverndarnefndar. Þannig liggur fyrir og sé óumdeilt að umgengni kæranda við börnin hafi gengið vel og ekkert hafi komið upp sem réttlætt geti að skerða verði umgengnina með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni.
Við ákvörðun á inntaki umgengnisréttar barnanna við föður sinn ber að meta hagsmuni þeirra og þarfir og heldur kærandi því fram að börnin hafi augsýnilega hagsmuni af því að mynda tilfinningatengsl við kæranda.
Kærandi heldur því fram að ekkert liggi fyrir í málinu sem sýni eða sanni að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum barnanna að umgengni verði ákveðin rýmri en í hinum kærða úrskurði né að telja verði að rýmri umgengi sé ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með fóstri barnanna.
Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi og að gagnkvæmur réttur barns og kynforeldris verði virtur. Kærandi telur hæfilegt að hann fái að hitta börnin vikulega í gegnum fjarfundarbúnað og einu sinni í mánuði í húsnæði á vegum barnaverndar eða öðrum stað eftir nánara samkomulagi. Til vara krefst kærandi þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um rýmri umgengni.
Kærandi lýsir sig reiðubúinn til þess að fara í vímuefnapróf fyrir hverja umgengni og heitir fullri samvinnu við barnavernd og fósturforeldra.
Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi telji brýnt að horft sé til framtíðar en ekki í baksýnisspegilinn. Þannig sé mikilvægt að börn hans fái að umgangast og þekkja föður sinn en einnig sé það réttur þeirra samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kærandi vinni í því að bæta sig og sínar aðstæður og því sé ekkert því til fyrirstöðu að umgengni barnanna við föður sinn fari stigvaxandi. Það séu engar líkur til þess að börnin kynnist föður sínum að neinu ráði, hvað þá að þau nái að mynda tengsl við hann, á þeim afar takmarkaða tíma sem barnaverndarnefnd hafi úrskurðað um umgengni kæranda við börnin sín.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að nefndin hafni því að brotið hafi verið á rétti kæranda til umgengni við börn hans. Eins og rakið sé í greinargerð starfsmanna barnaverndar, sem lögð hafi verið fyrir fund nefndarinnar, hafi reynst erfitt að viðhalda reglulegri umgengni kæranda við börnin vegna óreglu hans og fjarvista vegna fangelsisdóma.
Kærandi hafi haft litla aðkomu að lífi barna sinna síðan hann hóf afplánun 25 mánaða fangelsisdóms á Í í X. Á þeim tíma hafi börnin verið vistuð utan heimilis vegna frásagnar drengsins af líkamlegum refsingum og harðræði af hendi kæranda. Foreldrar slitu hjónabandi sínu á meðan á afplánunni stóð.
Kærandi færðist á Í í afplánun í X þar sem hann fékk aðgang að interneti og var í einhverjum samskiptum við börnin í gegnum Skype, án samráðs við barnavernd sem taldi það geta haft slæm áhrif á börnin, sértaklega drenginn sem var hræddur við föður sinn. Á vormánuðum X tók móðir, í samráði við barnavernd, ákvörðun um að takmarka samskipti barnanna við kæranda.
Kærandi kom til viðtals þann X ásamt lögmanni sínum og félagsráðgjafa hjá Fangelsismálastofnun. Hann var fluttur á K og var að vinna við að mála. Greindi kærandi frá að hann vildi byggja upp samband sitt við börnin. Umgengni fór fram sama dag undir eftirliti.
Skipulögð hafi verið umgengni föður við börnin yfir jólahátíðina 2018. Í byrjun árs 2019 hafi áhyggna farið að gæta af líðan barnanna í leik- og grunnskóla sem þóttu tengjast aukinni umgengni við kæranda. Þessar áhyggjur voru ræddar við foreldra sem féllust á að umgengni barnanna við föður væri einn virkan dag í viku og aðra hvora helgi.
Í febrúar lagði móðir fram kæru á hendur kæranda vegna líkamlegs ofbeldis. Að hennar sögn hafði hann verið undir áhrifum vímuefna í umgengni og lagt hendur á hana. Fangelsisyfirvöldum hafi verið gert aðvart og mældist kærandi jákvæður fyrir neyslu vímuefna í prófi á K og fór þar af leiðandi aftur í afplánun í fangelsi.
Kærandi lauk afplánun í byrjun september X og hafði umgengni við börnin sem skipulögð hafði verið af barnavernd í september og október.
Börnin hafi verið vistuð utan heimilis 25. október 2019. Umgengni hafi verið skipulögð við kæranda þann 2. nóvember sem ekki varð af þar sem starfsmaður fann áfengislykt af kæranda. Umgengni sem fara átti fram í desember 2019 féll einnig niður þar sem kærandi mældist jákvæður fyrir neyslu amfetamíns og kannabis.
Kærandi fór í meðferð vegna vímuefnavanda á G og L í X. Skipulögð hafi verið símaumgengni við börnin á meðan hann dvaldi á L þann 20. mars. Umgengni hafi verið í húsnæði barnaverndar 29. maí og símaumgengni 28. júní og 11. júlí. Faðir hafi auðsýnilega verið undir áhrifum vímuefna í símaumgengni sem átti sér stað 30. ágúst 2020.
Málið hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 16. september 2020 og ákveðið að umgengni yrði annan hvorn mánuð, undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og með túlki. Umgengni yrði í húsnæði á vegum barnaverndar og í tvær klukkustundir í senn. Farið yrði fram á að faðir mætti í vímuefnapróf þremur dögum fyrir áætlaða umgengni og sama dag og umgengni færi fram. Mætti faðir ekki í vímuefnapróf félli umgengni niður.
Fyrsta umgengni eftir bókun nefndarinnar átti að fara fram 20. nóvember 2020 en vegna covid frestaðist hún um tvær vikur og stóð þá til að umgengni færi fram 4. desember 2020. Faðir hafi verið bókaður í vímuefnapróf þremur dögum fyrir umgengni líkt og úrskurður nefndarinnar kvað á um, eða þann 1. desember. Kærandi afboðaði sig í vímuefnapróf vegna veikinda og óskaði eftir að umgengni yrði frestað um viku. Ákveðið hafi verið að hafa umgengni þess í stað þann 15. desember í M. Umgengni gekk ágætlega fyrir sig.
Næsta umgengni við kæranda hafi verið áætluð í febrúar 2021. Ekki reyndist unnt að skipuleggja umgengni við kæranda í febrúarmánuði þar sem faðir fór að nýju í afplánun í byrjun X og gat því ekki sinnt umgengni við börnin. Kærandi fékk þess í stað umgengni í gegnum Teams í apríl 2021 sem starfsmaður barnaverndar var einnig viðstödd. Teams umgengni föður við börnin gekk vel.
Faðir var sviptur forsjá barna sinna með dómi héraðsdóms þann 23. apríl 2021.
Málið var lagt fyrir meðferðarfund til ákvarðanatöku um framtíðarumgengni í júní 2021 í ljósi niðurstöðu héraðsdóms. Gerð var eftirfarandi bókun:
„Leitað verður samkomulags við bæði móður og föður um að umgengni fari næst fram í ágúst eftir sumarfrí fósturforeldra, á höfuðborgarsvæðinu með móður en með fjarfundarbúnaði við föður. Í ágúst verður afstaða barnanna til umgengni fengin sem og fósturforeldra. Í framhaldi af því verður málið lagt aftur fyrir meðferðarfund til bókunar og í kjölfar þess fer málið fyrir Barnaverndarnefnd náist ekki samkomulag um fyrirkomulag umgengninnar.“
Næsta Teams umgengni hafi verið áætluð í ágústmánuði en ekki reyndist unnt að verða við því fyrir lok mánaðar. Þess í stað hafi verið skipulögð umgengni í gegnum Teams þann 6. september. Fresta varð þeirri umgengni vegna aðstæðna í fangelsinu. Umgengni hafi ekki farið fram eftir að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp þar sem covid smit kom upp á heimili barnanna og í skóla.
Aflað hafi verið afstöðu fósturforeldra hvað varðar umgengni foreldra við börnin. Í bréfi sem barst frá fósturforeldrum í júní 2021 kemur fram að afstaða fósturforeldra til umgengni föður við börnin sé sú að faðir hitti börnin einu sinni á ári undir eftirliti í M eða í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams. Fram kemur í bréfi fósturforeldra að kærandi virðist ekki hafa myndað mikil tengsl við börnin og þau tali aldrei um föður sinn. Virðast börnin eiga litlar minningar um föður sinn aðrar en í umgengni undir eftirliti.
Börnunum hafi verið skipaður talsmaður sem ræddi við börnin á fósturheimilinu í lok ágústmánaðar. Í skýrslu talsmanns kemur fram að drengurinn D hafi greint frá að það væri mjög langt síðan hann hitti föður sinn síðast og lýsti hann vilja til að hitta föður sinn. Sagðist honum finnast leiðinlegt að hafa ekki hitt föður lengi og að honum liði vel hjá föður. Nefndi D fyrst að hann vildi vera aðra hvora helgi hjá föður og aðra hvora helgi hjá móður. Þegar hann áttaði sig á að það þýddi að hann yrði þá engar helgar á fósturheimilinu treysti hann sér ekki til að svara því nákvæmlega hversu oft hann vildi hitta föður sinn en að hann vildi vera mest á fósturheimilinu en líka mikið hjá mömmu og pabba. Í talsmannsskýrslu E kemur fram að E hafi átt marga pabba og að kærandi sé einn af þeim. Greindi E frá því að það væri gaman að hitta pabba og að sér liði vel hjá honum. Gat E ekki tjáð afstöðu sína til þess hversu oft hún vildi hitta pabba sinn eða hvar hún vildi að umgengni færi fram. Í talsmannsskýrslu F kemur fram að F sagði að henni þætti gaman að hitta pabba og að hana langi til að vera hjá honum lengi og gista. Fram kemur í skýrslu talsmanns að erfitt hafi verið að fá fram afstöðu stúlkunnar.
Við ákvörðun sína horfði barnaverndarnefndin til þess markmiðs sem stefnt skal að í varanlegu fóstri sem sé að þau aðlagist fósturheimili sínu sem best og tengist fósturfjölskyldu sinni. Umgengni þarf að þjóna hagsmunum barnsins, sbr. 2. 3. og 4. mgr. 74.gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umgengni í varanlegu fóstri sé í þeim tilgangi að barn þekki uppruna sinn en ekki í þeim tilgangi að viðhalda eða mynda ný tengsl.
Faðir hafi verið mikið fjarverandi úr lífi barna sinna síðustu ár vegna vímuefnavanda og fangelsisvistunar. Börnin þekkja föður sinn en hann hefur ekki verið umönnunaraðili þeirra til marga ára. Í dómi héraðsdóms þar sem kærandi er sviptur forsjá barna sinna sé vitnað í dómkvaddan matsmann sem telur tengsl barnanna við kæranda ekki sterk og litast af óskhyggju um hvernig þau myndu vilja sjá samskipti sín við foreldri. Öll börnin hafa tekið miklum framförum eftir að þau fluttu til fósturforeldra. Nefndin telur mikilvægt að viðhalda þeim árangri og stöðugleika sem þau eru loksins að upplifa, eins og meðal annars er vísað til í forsendum héraðsdóms.
IV. Afstaða barna
Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 29. ágúst 2021. Í skýrslu talsmanns kemur fram að talsmaður hafi rætt við D og samandregin væri niðurstaða viðtalsins sú að drengurinn væri ánægður á fósturheiminu og væri sáttur við að vera þar áfram. Tengsl hans við fósturforeldra væru góð og honum liði vel. Hann vildi þó gjarnan vilja búa hjá mömmu sinni. Drengnum liði vel í skóla og eigi þar góða vini. Honum liði vel í umgengni við móður og vilji hitta hana mikið og helst á hennar heimili, annars í M eða í sundi. Drengurinn sagðist ekki vilja að sambýlismaður móður væri viðstaddur umgengni. Drengnum liði vel með og þætti vænt um N systur sína og langaði til að hitta hana. Þá vildi drengurinn hitta pabba sinn og liði vel hjá honum. Hann vildi hitta hann mikið á hans heimili.
Talsmaður ræddi við E og væri samandregin niðurstaða viðtalsins sú að stúlkan væri ánægð á fósturheimilinu. Tengsl hennar við fósturforeldra væru góð og henni liði vel. Henni liði vel í skólanum og ætti þar góða vini. Henni liði vel í umgengni við móður og vilji hitta hana á hverjum degi, en vilji alls ekki hitta sambýlismann hennar. Henni liði vel með og þætti vænt um systur sína Nog langaði til að hitta hana. Þá liði henni vel hjá pabba sínum og vildi hitta hann.
Talsmaður ræddi við Fsem sagði að henni liði vel á fósturheimilinu. Henni þætti gaman að hitta móður á fósturheimilinu og í sundi. Hún sagðist vilja hitta móður sína oft og gista hjá henni. Þá sagðist hún vilja búa hjá móður en hún vilji alls ekki hitta sambýlismann móður. Stúlkan sagði að sér þætti gaman að hitta pabba sinn og að hana langaði til að vera hjá honum lengi og gista. Auk þess sagði hún að sér þætti gaman að hitta N og langaði til að hitta hana oft. Þá þætti stúlkunni gaman í skólanum og að gaman væri að leika við krakkana.
V. Afstaða fósturforeldra
Afstöðu fósturforeldra til umgengni foreldra við börnin var aflað. Í svari þeirra, dags. 27. júní 2021, kemur meðal annars fram afstaða þeirra til umgengni við kæranda. Fram kemur að það sé þeirra skoðun að faðir hitti börnin einu sinni á ári í M eða í gegnum Teams undir eftirliti. Að þeirra mati virðist faðir ekki hafa myndað nein tengsl við börnin og tali þau nánast ekkert um hann og virðist ekki eiga minningar um hann aðrar en í umgengni undir eftirliti.
VI. Niðurstaða
Drengurinn, D, er X ára gamall og stúlkurnar, E og F, eru rúmlega X ára gamlar. Kærandi var sviptur forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms H þann 23. apríl 2021. Kærandi er kynfaðir barnanna.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við ákvörðun sína hafi barnaverndarnefndin horft til þess markmiðs sem stefna skuli að í varanlegu fóstri sem er að börnin aðlagist fósturheimili sínu sem best og tengist fósturfjölskyldu sinni. Umgengni þurfi að þjóna hagsmunum barnsins, sbr. 2., 3. og 4. mgr. 74. bvl. Umgengni í varanlegu fóstri sé í þeim tilgangi að barn þekki uppruna sinn en ekki í þeim tilgangni að viðhalda eða mynda ný tengsl. Kærandi hafi verið mikið fjarverandi úr lífi barna sinna síðustu ár vegna vímuefnavanda og fangelsisvistunar. Börnin þekkja kæranda en hann hefur ekki verið umönnunaraðili þeirra til margra ára.
Kærandi, sem er kynfaðir barnanna, krefst þess aðallega að eiga umgengni við börnin vikulega í gegnum fjarfundarbúnað og einu sinni í mánuði í húsnæði á vegum barnaverndar eða öðrum stað eftir nánara samkomulagi. Til vara krefst kærandi umgengni hans við börnin verði aukin.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best.
Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl., er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að börnin færu aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnanna í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þeirrra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Af forsögu málsins verður ráðið að kærandi hefur haft lítil tengsl við börnin á liðnum árum og ekki virðist vera djúp tengslamyndun þeirra á milli. Þrátt fyrir að kærandi hafi nýlega tekið sig á og leitað sér aðstoðar vegna fíknivanda er ekki komin langvarandi reynsla á þá meðferð. Þá telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir vilja barnanna til að eiga meiri umgengni við kæranda verði, með hliðsjón af aldri og þroska barnanna, að telja að þau séu ekki fyllilega fær um að meta hvort aukin umgengi sé til þess fallin að þjóna hagsmunum þeirra best. Sú reynsla sem fengist hefur af umgengni kæranda við börnin gefur ekki tilefni til þess að ástæða sé til að auka umgengni miðað við núverandi aðstæður. Auk þess telur úrskurðarnefndin að líta verði til afstöðu fósturforeldra við mat á því hvað sé börnunum fyrir bestu.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber því fyrst og fremst að líta til þess við ákvörðun um umgengni barnanna við kæranda hvað þjónar hagsmunum þeirra best. Í því sambandi ber að líta til þeirrar stöðu sem þau eru í samkvæmt gögnum málsins og þess að það er ekki markmiðið að styrkja tengsl þeirra við kæranda heldur einungis að viðhalda tengslum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að miðað við núverandi aðstæður þjóni það best þörfum barnanna að umgengni verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður B Reykjavíkur frá 14. september 2021 varðandi umgengni D, E og F, við A, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson