Mál nr. 563/2023--Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 563/2023
Fimmtudaginn 18. apríl 2024
A
gegn
B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.
Með kæru, dags. 22. nóvember 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun ar Reykjavíkur, dags. 26. október 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn, D, er X ára gamall. Kærandi og móðir drengsins fara saman með forsjá en lögheimili hans er hjá móður. Mál drengsins hefur verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda allt frá árinu 2018. Tvær tilkynningar bárust vegna drengsins í desember 2022, annars vegar frá leikskóla og hins vegar frá E.
Að undangenginni könnun var mál drengsins tekið fyrir hjá starfsmönnum B þann 25. október 2023 og var niðurstaðan sú að þar sem engin tilkynning hefði borist í máli drengsins frá desember 2022 svo og vegna skorts á samvinnu við móður, skyldi málinu lokað enda ekki talið tilefni til þvingunaraðgerða á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Tilkynnt var um lokun málsins með bréfi til foreldra, dags. 26. október 2023.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. nóvember 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. desember 2023, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi, dags. 4. janúar 2024. Með bréfi, dags. 9. janúar 2024 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að foreldrar fari sameiginlega með forsjá drengsins. Drengurinn sé með lögheimili hjá móður, en mál barnsins hafi verið til meðferðar hjá B m.a. vegna aðstæðna heima hjá móður. Kærandi sé ósammála hinni kærðu ákvörðun og telur að ekki hafi forsvaranlega verið staðið að niðurfellingu málsins. Kærandi telur að aðstæður á heimili móður séu sannarlega ekki nægilega góðar og hafi hann töluverðar áhyggjur af stöðu drengsins í umsjá móður.
Röksemdir barnaverndar fyrir niðurfellingu málsins séu m.a. þær skv. bréfi sem barnavernd sendi kæranda vegna málsins að engin tilkynning hafi borist í málinu frá desember 2022 og vegna skorts á samvinnu við móður hafi verið lagt til að málinu yrði lokað hjá barnavernd. Þrátt fyrir þetta komi einnig fram í bréfinu að starfsmenn barnaverndar meti það svo að tilefni sé til að hafa áhyggjur af aðstæðum drengsins. Kærandi telji að ekkert hafi batnað hvað varðar heimilisaðstæður móður frá því að barnaverndarmálið hafi verið opnað og að niðurstaða barnaverndar stangist í raun á við forsendur þeirrar ákvörðunar. Telur kærandi með hagsmuni barnsins fyrir brjósti sé nauðsynlegt að kæra málið til úrskurðarnefndar velferðarmála.
III. Sjónarmið B
Í greinargerð B kemur fram að um sé að ræða málefni X ára gamals drengs, sem lýtur forsjá beggja foreldra sinna. Drengurinn sé með lögheimili hjá móður en sé í viku og viku umgengni við föður. Faðir hafi sótt um lögheimilisbreytingu drengsins og sé málið til vinnslu hjá sýslumanni.
Málefni drengsins hafi fyrst komið inn á borð B í mars 2022 með tilkynningu frá lögreglu um ágreining á milli foreldra. Hafði móðir haft samband með þær upplýsingar að faðir hafi ekki farið með drenginn á leikskóla en faðir kvaðst vera með Covid og ekki komast með drenginn. Önnur tilkynning barst síðan frá lögreglu þann 26. apríl 2022 vegna ágreinings á milli foreldra eftir að faðir hafði sótt hjól drengsins í leikskólann en faðir kvaðst hafa gert það að beiðni móður. Málið fór ekki í könnun þar sem ekki hafi þótt tilefni til afskipta af málinu á grundvelli barnaverndarlaga. Foreldrum hafi verið vísað á þjónustumiðstöð þyrftu þeir á stuðningi eða ráðgjöf að halda. Tvær tilkynningar hafi síðan borist í málinu í desember 2022. Fyrri tilkynningin barst frá leikskóla sem lýsti áhyggjum sínum af drengnum í umsjá móður, sem hefði ekki sótt drenginn á leikskólann á umsömdum tíma og ekki svarað síma. Seinni tilkynningin barst frá E þar sem áhyggjum var líst af velferð drengsins í umsjá móður vegna heimilisaðstæðna sem væru óviðunandi. Mikil rakalykt væri á heimili móður, slæmt loft í íbúðinni og rakapöddur á veggjum. Þá væri heimilið baðherbergislaust og yfirfullt af nýtanlegum og ónýtanlegum hlutum. Sótt hafí verið um aðkomu viðbragðsteymis sem hafi farið á heimilið en móðir í kjölfarið hafnað aðstoð. Heimilið hafi verið sagt óviðunandi fyrir drenginn.
Báðir foreldrar hafi mætt í viðtal hjá barnavernd þann 9. júní 2023 og samþykkt könnun í málinu. Kærandi sagði efni tilkynninganna vera rétt og að ástandið á heimili móður væri þannig að drengurinn hefði aðeins pláss í rúmi móður til að borða og leika sér. Kærandi kvaðst þegar hafa farið í umgengnismál og hafi verið úrskurðað um umgengni viku og viku á hvoru heimili fyrir sig og önnur hver jól. Það hafi þó ekki alltaf gengið eftir því móðir haldi drengnum frá honum af og til. Kærandi kvaðst vera að sækja um að fá lögheimili drengsins til sín enda hafi hann áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá móður. Fram kom hjá kæranda að málið hafi verið inni á borði barnaverndaryfirvalda í F þegar fjölskyldan bjó þar m.a. vegna ofbeldis af hálfu móður en kærandi kvaðst hafa þurft að leita á bráðamóttöku af þeim sökum. Málinu hafi hins vegar verið lokað hjá barnavernd í F [og] vísað til þess að um umgengnis- og forsjárdeilumál væri að ræða. Í viðtali við móður hafi hún lýst erfiðum samskiptum við kæranda. Sagði hún að þeim hafi staðið til boða parameðferð þegar málið hafi verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum í F en kærandi hafi hafnað því. Varðandi ástandið á heimilinu sagðist móðir hafa tekið til sín dót frá móður sinni þegar hún lést. Hún væri þegar búin að taka svolítið til á heimilinu. Þá kvaðst móðir vera í málaferlum vegna tjóns á íbúðinni hennar vegna leka úr annarri íbúð. Leitað hafi verið eftir upplýsingum frá barnaverndaryfirvöldum í F. Fram kom að málið hafi verið þar í könnun og vinnslu á tímabilinu 2018 til 2022 m.a. vegna tilkynningar um að kærandi beitti drenginn ofbeldi. Hafi móðir sagt tilkynninguna ekki eiga við rök að styðjast. Þá hafi verið tilkynnt um að kærandi byggi við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu barnsmóður sinnar. Auk þess bárust tilkynningar frá lögreglu um, deilur á milli foreldra. Frá júní 2023 reyndu starfsmenn B ítrekað að ná sambandi við móður í þeim tilgangi að fá að koma í vitjun á heimilið og taka út aðstæður. Ýmist svaraði móðir ekki símanum, hafði ekki tíma til að ræða við starfsmenn eða hún hafnað því alfarið að starfsmenn kæmu á heimilið.
Samkvæmt upplýsingum frá E í júní 2023 hafi móðir afþakkað alla þjónustu og samvinnu í málinu og því engin samvinna verið í málinu frá áramótum 2022/2023. Ástandið á heimili móður væri metið óviðunandi fyrir drenginn af uppeldis og heilsufarsástæðum. Hegðunarráðgjafi hafi komið að málinu í júní 2022 en erfitt hafi verið að finna tíma fyrir teymisfundi með móður. Miklar áhyggjur væru af líðan, velferð og uppeldisaðstæðum drengsins. Í símtali við föður í september 2023 hafi komið fram að ekki gengi nógu vel með drenginn í skólanum vegna hegðunarvanda hans. Hvað samskipti við móður varðaði þá léki hún þann leik við alla að svara ekki síma. Þá hafi ekki náðst sátt í málinu hjá sýslumanni um að hann taki við lögheimili drengsins og forsjá. Búið væri að stefna málinu fyrir dóm.
Samkvæmt upplýsingum frá skóla drengsins þann 5. október 2023 væri drengurinn sagður eirðarlaus og ætti erfitt með einbeitingu. Hann væri hvatvís og ætti erfitt með að fylgja fyrirmælum, truflaði kennslu, færi úr stofunni og feldi sig. Þá sækti drengurinn í neikvæða athygli. Talið væri að óróleiki drengsins gæti verið vísbending um vanlíðan hans. Ekki væri gerð athugasemd við umhirðu drengsins eða aðbúnað en hann væri stundum sokkalaus. Mætingar væru í lagi og námsleg staða góð. Foreldrar hafi verið sagðir sinna heimanámi drengsins. Samskipti við foreldra væru góð og þau áhugasöm um stöðu drengsins. Móðir hefði þó sterkar skoðanir á skólastarfinu, hvort sem væri í sambandi við frímínútur, matsal eða skólalóð. Fyndist henni margt ábótavant þegar kæmi að íslensku skólakerfi. Skóli lýsti áhyggjum sínum af félagslegri stöðu drengsins vegna hegðunar hans og neikvæðra samskipta sem væri dagleg áskorun. Ljóst væri að drengurinn þyrfti sérstakan stuðning og athygli innan skólans. Haft var samband frá kennsluráðgjafa E þann 16. október 2023 með þær upplýsingar að allt væri í hers höndum í skólanum. Drengurinn færi ekki eftir nokkrum fyrirmælum og gengi eftir gluggakistum í kennslustund. Þá gengi samvinna við móður ekki vel.
Mál drengsins hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 25. október 2023 og hafi það verið mat starfsmanna og niðurstaða fundarins að tilefni væri til að hafa áhyggjur af aðstæðum drengsins miðað við hegðun og líðan drengsins og í ljósi tilkynninga um aðstæður drengsins á heimili móður. Í ljósi þess að engin tilkynning hefði borist í málinu síðan í desember 2022 og vegna skorts á samvinnu við móður hafi verið lagt til að málinu yrði lokað hjá B enda ekki talið tilefni til að fara í þvingunaraðgerðir í málinu á grundvelli barnaverndarlaga. Foreldrum hafi í kjölfarið verið sent bréf um lokun málsins með bréfum, dags. 26. október 2023.
Í framhaldinu hafi verið samskipti við föður vegna lokunar máls.
Þann 21. nóvember 2023 hafi borist ný tilkynning frá skóla drengsins í málinu. Á úthlutunarfundi þann 27. nóvember 2023 hafi verið ákveðið að málið fari að nýju í könnun. Málið sé á bið í úthlutun til ráðgjafa.
Í 1. mgr. 2. gr. bvl. sé sett fram það meginmarkmið barnaverndarstarfs að tryggja að börnum sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þá segir þar jafnframt að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Samkvæmt þeim meginreglum barnaverndarstarfs sem settar séu fram í 4. gr. bvl. skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og hafa ávallt hagsmuni barna í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda sbr. og ákvæði 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sbr. lög nr. 19/2013. Í 4. mgr. 4. gr. bvl. komi fram að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra. Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir samvinnu milli að barnaverndar-yfirvalda og foreldra að hún þjóni fyrst og fremst hagsmunum barnsins. Í 7. mgr. sama ákvæðis kemur fram að úrræði barnaverndaryfirvalda skulu ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því skuli aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Samkvæmt 22. gr. bvl. sé það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði skv. ákvæðum barnaverndarlaga, allt í samræmi við hagsmuni og hag barns. Í 1. mgr. 41. gr. sömu laga kemur fram að barnverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þannig er reynt að tryggja að ákvarðanir séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ber að hafa í huga að öll afskipti á grundvelli barnaverndarlaga af málefnum fjölskyldu fela í sér íhlutun og því sé lögð áhersla á að sýna þeim er málið varðar fyllstu nærgætni og að könnun sé ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur sbr. 2. mgr. fyrrnefndrar 41. gr. laganna en hafa ber í huga að barnaverndarmál séu undantekningalítið viðkvæm mál sem fjalla um mikilvæga hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra.
Eins og fyrr greinir hafi það verið niðurstaða starfsmanna B á meðferðarfundi þann 25. október 2023, í kjölfar könnunar málsins, að loka málinu. Byggði sú niðurstaða á m.a. á því að vegna skorts á samvinnu við móður hafi ekki tekist að gera fullnægjandi könnun í málinu og móðir hafi hafnað öllum stuðningi frá Miðstöð. Tilefni væri til að hafa áhyggjur af aðstæðum drengsins á heimili móður en í ljósi þess að engin tilkynning hafi borist í málinu frá desember 2022 og vegna skorts á samvinnu við móður hafi verið lögð til lokun þar sem ekki væri tilefni til að fara í þvingunaraðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga.
Með hliðsjón af framangreindu og allra gagna málsins sé gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
VI. Niðurstaða
Drengurinn, D, er sonur kæranda. Kærandi og móðir drengsins fara saman með forsjá hans en lögheimili hans er hjá móður.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Samkvæmt gögnum málsins hefur mál drengsins verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum allt frá árinu 2018. Undir lok árs 2022 bárust tilkynningar vegna aðstæðna drengsins í umsjá móður. Í niðurstöðu starfsmanna um könnun máls, dags. 25. október 2023, kemur fram að foreldrar hafi mætt í viðtal hjá starfsmönnum barnaverndar og samþykkt könnun máls. Þar greindi kærandi frá því að efni tilkynninga væri rétt og móðir lýsti erfiðum samskiptum við kæranda. Fram kemur að starfsmenn hafi frá því í júní 2023 ítrekað reynt að ná sambandi við móður í þeim tilgangi að leggja mat á aðstæður drengsins á heimili móður. Móðir hafi ekki svarað síma, hafi ekki haft tíma til að ræða við starfsmenn eða hafnað því að starfsmenn kæmu á heimili hennar. Þá hafi móður afþakkað alla þjónustu frá E og því engin samvinna verið við móður í málinu frá áramótum 2022/2023. Einnig hafi ástandið á heimili móður væri metið óviðunandi fyrir drenginn af uppeldis- og heilsufarsástæðum. Fram kemur í greinargerð starfsmanna að miklar áhyggjur væru af líðan, velferð og uppeldisaðstæðum drengsins. Þá kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá skóla væru áhyggjur af stöðu drengsins og væri hann í þörf fyrir sérstakan stuðning og athygli innan skólans. Tímabili könnunar lauk í september 2023 en vegna skorts á samvinnu móður hafi ekki tekist að gera fullnægjandi könnun í málinu. Starfsmenn meta svo að tilefni sé til að hafa áhyggjur af aðstæðum drengsins miðað við hegðun hans, líðan og þeirra tilkynninga sem borist hafa í málinu frá desember 2022. Þar sem tilkynningar hafi ekki borist frá desember 2022 og skorts á samvinnu við móður hafi verið lagt til að málinu yrði lokað enda ekki tilefni til þvingunaraðgerða í málinu á grundvelli barnaverndarlaga. Í greinargerð barnaverndar til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að þann 21. nóvember 2023 hafi borist ný tilkynning í máli drengsins frá skóla og á úthlutunarfundi 27. nóvember 2023 hafi verið ákveðið að málið færi að nýju í könnun.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl. Ákvörðun B byggist á því að ekki hafi tekist að gera fullnægjandi könnun í málinu vegna skorts á samvinnu við móður og engar nýjar tilkynningar hafi borist frá desember 2022. Þá væri ekki ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir í máli drengsins.
Í 1. mgr. 22. gr. bvl. segir að markmið könnunar máls sé að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf á úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns.
Samkvæmt gögnum málsins eru til staðar áhyggjur af líðan og aðstæðum drengsins. Auk þess liggur fyrir að drengurinn þarf ýmsan stuðning. Ljóst er að móðir býr við erfiðar aðstæður og líður greinilega ekki vel og þarfnast þess vegna aðstoðar velferðarþjónustu. Þrátt fyrir að móðir hafi ekki verið til samvinnu á síðari stigum og afþakkað alla þjónustu fyrir drenginn telur nefndin mikilvægt að unnið verði áfram í máli drengsins.
Úrskurðarnefndin bendir á að hafi úrræði 24. gr. og 25. gr. barnaverndarlaga, þar sem forsenda er samþykki foreldra, ekki borið árangur, sé í 26. gr. laganna úrræði sem hægt er að beita án samþykkis foreldra. Úrskurðarnefndin telur að fullt tilefni sé til að beita þeim úrræðum sé móðir ekki til samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins enda verður lögmæltu markmiði könnunar máls ekki náð með öðru og vægara móti.
Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun B og er málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá þjónustunni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun B, dags. 25. október 2023, um að loka máli vegna drengsins D, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson