Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 562/2020-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 562/2020

Miðvikudaginn 28. apríl 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, móttekinni 2. nóvember 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 13. október 2020 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 16. júní 2020. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.

Mál stúlkunnar hefur verið til meðferðar hjá Barnavernd B frá því að hún var í móðurkviði. Stúlkan hefur ekki verið í umsjá kæranda frá því í X 2019 þegar beitt var neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) Stúlkan hefur verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum sínum frá 25. júní 2019.

Fjallað var um umgengni kæranda við stúlkuna í varanlegu fóstri á meðferðarfundi þann 7. júlí 2020. Kærandi óskaði eftir reglulegri umgengni á þriggja vikna fresti, án eftirlits, í tvo til þrjá tíma í senn. Í bókun meðferðarfundar var lagt til að umgengni yrði þrisvar sinnum á ári, í mars, ágúst og desember, nálægt afmæli stúlkunnar. Umgengni stæði yfir í tvær klukkustundir í senn og yrði undir eftirliti tveggja starfsmanna Barnaverndar B. Auk þessa var sett skilyrði um að móðir væri edrú og í jafnvægi þegar umgengni færi fram.

Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 6. október 2020. Tillögur starfsmanna voru í samræmi við bókun meðferðarfundar frá 7. júlí 2020. Þar sem ekki náðist samkomulag um tíðni og fyrirkomulag umgengninnar var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, þrisvar sinnum á ári, í mars, ágúst og desember, í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti tveggja starfsmanna Barnaverndar B og fósturforeldrar verði viðstaddir umgengni. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða í húsnæði sem aðilar fallast á að sé viðunandi og stuðli að gæðastundum.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 23. nóvember 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2021, voru þær sendar Barnaverndarnefnd B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að umgengni verði á þriggja vikna fresti, að lágmarki í tvær til þrjár klukkustundir í senn og án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði ákveðin meiri en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði og að aukalega verði komið á umgengni í gegnum Skype eða sambærilega myndsímtalatækni á milli þess sem hefðbundin umgengni fari fram. Til þrautavara krefst kærandi þess, fari svo að umgengni fari einungis fram þrisvar á ári, að aukalega verði komið á umgengni í gegnum Skype eða sambærilega myndsímtalatækni á milli þess sem hefðbundin umgengni fari fram.

Kærandi glími við geðrænan sjúkdóm. Þrátt fyrir að geðræn vandamál kæranda hafi leitt til sjálfræðissviptingar hafi kærandi nú dvalið heima hjá sér síðan 24. mars 2020. Kærandi hafi verið send heim af E þar sem hún hafi verið talin vera í nægilega góðu jafnvægi til þess og hún væri hvorki hættuleg sjálfri sér né öðrum. Kærandi hafi einungis farið á spítalann í lyfjagjöf en hafi að öðru leyti hvorki þurft á endurhæfingu né annars konar þjónustu að halda frá spítalanum. Kærandi hafi ekki fundið fyrir einkennum sjúkdómsins síðan hún hafi fengið að fara heim. Bati hennar hafi því verið til fyrirmyndar og ekkert sem bendi til þess að kærandi muni ekki halda bata sínum við með áframhaldandi lyfjameðferð.

Kærandi viðurkenni að hafa um stutt skeið síðastliðið sumar fallið í neyslu vímuefna. Kærandi hafi glímt við fíknisjúkdóm og hafi orðið fyrir því þunga áfalli við það að vera svipt forsjá dóttur sinnar með dómi. Ósanngjarnt væri að takmarka umgengni á grundvelli þessarar takmörkuðu neyslu kæranda. Kærandi hafi sjálf tekið ákvörðun um að taka á málum sínum. Hún hafi verið edrú undanfarna mánuði og leitast af sjálfdáðum eftir því að komast í meðferð á G. Kærandi hafi því sannarlega sýnt vilja sinn til þess að halda edrúmennsku í verki og sé staðráðin í að halda sig áfram frá neyslu vímuefna.

Forsjársvipting kæranda og önnur afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum kæranda hafi einvörðungu verið byggð á geðrænum vanda og vímuefnavanda kæranda. Nú horfi til betri vegar varðandi hvoru tveggja og eins og staðan sé í dag hafi hvorugt haft áhrif á daglegt líf kæranda.

Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnsins og ósamrýmanlegt markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun barns í fóstur. Jafnvel þó að stefna starfsmanna Barnaverndar B sé ekki sú að barnið fari aftur í forsjá móður sé ekki þar með sagt að rétt sé að takmarka umgengni svo gríðarlega. Enda gefi ekkert fyrirliggjandi til kynna að umgengni barnsins við kæranda hafi haft neikvæð áhrif á hegðan, líðan eða þroska barnsins. Þvert á móti hafi umgengni yfirleitt gengið mjög vel og tengsl á milli kæranda og barns séu jákvæð og sterk. Kærandi sýni barninu áhuga og ást og geri sér vel grein fyrir þörfum barnsins með tilliti til aldurs þess og þroska. Það skjóti því skökku við að ætla nú að byrja að takmarka umgengni barnsins við kæranda enn frekar. Slík ákvörðun virðist byggja á því að setja áætlað markmið með vistun barns í fóstur framar raunverulegum hagsmunum barnsins. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. bvl. skuli barnaverndaryfirvöld ávallt miða við að vægustu ráðstöfunum sé beitt til þess að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Í ljósi framangreinds fái kærandi ekki séð að úrskurður Barnaverndarnefndar B byggi raunverulega á þessari mikilvægu meðalhófsreglu barnaverndarréttar.

Kærandi fagni því að stúlkan lifi við stöðugleika hjá fósturfjölskyldu sinni en telji ákvörðun Barnaverndarnefndar B ranglega byggja á því að umgengni stúlkunnar við kæranda leiði til minni stöðugleika. Stöðugleiki þurfi ekki að grundvallast á lítilli umgengi. Það geti stuðlað að stöðugleika að viðhalda mikilli umgengni með stöðugum hætti. Staða kæranda í dag sé sú að hún sé vel til þess fallin að veita stúlkunni þann stuðning og þá ást sem krefst. Rök standi því fremur til þess að samþykkja meiri umgengni og stuðla þannig að stöðugleika í lífi barnsins og vernda um leið rétt kæranda til umgengni við stúlkuna.

Með vísan til núverandi góðrar stöðu kæranda, góðs sambands kæranda og stúlkunnar og skorts á gögnum sem bendi til þess að stúlkan hafi hagsmuni af því að eiga litla umgengni við kæranda, sé full ástæða til þess að fallast á aðalkröfu kæranda. Það verði ekki ofmetið hversu mikilvægt það sé fyrir stúlkuna að eiga gott ástríkt samband við raunverulega móður sína. Það sé hagur stúlkunnar að eiga áfram í ríkulegum tengslum við móður sína og því beri frekar að styrkja samband móður og stúlkunnar en að stía þeim í sundur. Móðir hafi endurtekið sýnt fram á hæfni sína undir eftirliti og eigi hún og stúlkan því nú rétt á því að fá tækifæri til þess að rækta samband sitt áfram með reglulegum hætti án óþarfa eftirlits.

Í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2020, kemur fram að umgengni við stúlkuna hafi farið fram þann sama dag og gengið mjög vel. Auk þess hafi verið framkvæmt vímuefnapróf á kæranda sem hafi reynst neikvætt. Þetta styðji málatilbúnað kæranda og ítreki kærandi því fyrri röksemdir sínar.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Kynforeldrar eigi með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengi sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Lagagreinin kveði á um rétt kynforeldra til umgengni við börn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldri og aðra nákomna samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.

Það sé meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni sé fyrir bestu. Með hliðsjón af tilvitnuðum lagagreinum verði að horfa til hagsmuna stúlkunnar við ákvarðanatöku um umgengni í varanlegu fóstri. Stúlkan sé í umsjá fósturfeðra sinna og beri að líta til þess að fósturvistun hennar í þeirra umsjá sé ætlað að vara til 18 ára aldurs stúlkunnar. Í málinu sé því ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá kæranda. Umgengnin þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun stúlkunnar í varanlegt fóstur.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri. Fósturfeður hennar hafi tekið að sér það vandasama hlutverk að annast stúlkuna til sjálfræðisaldurs hennar og komi þeir til með að vera hennar framtíðaruppalendur. Stúlkan hafi farið í umsjá fósturfeðra sinna þegar hún hafi verið eins og hálfs árs gömul og hafi því verið í umsjá þeirra stóran hluta ævi sinnar og þekki þá sem sína aðaluppalendur. Kærandi hafi nýlega greint frá því að hafa verið í neyslu vímuefna í sumar og að hún sé í þörf fyrir aðstoð vegna vímuefnavanda. Þá sé kærandi sjálfræðissvipt þar til í apríl 2021. Stúlkan hafi ríka hagsmuni af því að stöðugleiki ríki í lífi hennar og aðstæðum. Barnaverndarnefnd fagni því sem fram komi í kæru lögmanns kæranda að bati hennar sé á góðri leið og að kærandi sinni þeirri lyfjagjöf sem hún sé í þörf fyrir vegna sjúkdóms síns. Þá sé það jafnframt afar jákvætt varðandi framtíðarumgengni mæðgnanna að kærandi hafi í hyggju að viðhalda bata sínum með áframhaldandi lyfjagjöf. Það sé mikilvægt að kærandi sé í góðu jafnvægi og geti sinnt þeirri umgengni við stúlkuna sem sé hæfileg með hliðsjón af því að stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri.

Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með því að kærandi eigi umgengni við stúlkuna þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn í varanlegu fóstri sé tengslum mæðgnanna viðhaldið og þess gætt að stúlkan þekki uppruna sinn.

Með vísan til þess sem að framan greini, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74.gr. bvl. þyki umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

 

IV.  Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við stúlkuna. Í greinargerð fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að umgengni þrisvar sinnum á ári eins og Barnaverndarnefnd B hafi kveðið á um sé viðunandi. Líkt og fram hafi komið á fundi Barnaverndarnefndar B 6. október 2020 hafi það ætíð verið vilji og stefna fósturforeldra að halda jákvæðu sambandi á milli stúlkunnar og kæranda. Umgengni við kæranda hafi oftast gengið vel. Þeir hafi reynt í nokkurn tíma að skipuleggja umgengni utan F en vegna atviks sem hafi átt sér stað í umgengni í nóvember 2019 telji þeir ekki forsvaranlegt að halda því til streitu.

Frá því að stúlkan hafi komið til þeirra í fóstur hafi þeir gert sitt besta með því að senda upplýsingar um líðan, heilsu og daglegt líf hennar til kæranda ásamt myndum af stúlkunni. Þeir muni halda því áfram eins og aðstæður leyfi hverju sinni. Á heimili þeirra séu þau mjög opin og ræði um kæranda ásamt því að myndir af þeim mæðgum séu aðgengilegar stúlkunni. Einnig eigi þeir í góðu sambandi við móðurömmu stúlkunnar ásamt því að stúlkan og eldri systir hennar hittist að minnsta kosti á þriggja vikna fresti. Þeir séu þannig að gera sitt besta til að viðhalda tengslum stúlkunnar við uppruna sinn.

Þeir séu tilbúnir til að bæta við myndsímtölum þeirra á milli, en hafa beri í huga að stúlkan sé þriggja ára og þolinmæði hennar fyrir myndsímtölum sé takmörkuð. Þeirra tillaga sé að slík samtöl gætu þá farið fram tvisvar til þrisvar sinnum á ári í gegnum Skype. Erfitt sé að ákvarða tímamörk fyrir slík símtöl en þeir óski eftir því að samtölin verði ekki lengri en 15 mínútur í senn til prufu og verði skipulögð í gegnum Barnavernd B. Þeir vilji með því koma til móts við kæranda og gefa þeim þennan möguleika á að „hittast“ á milli umgengni þeirra.

V. Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi, sem er kynmóðir stúlkunnar, var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 16. júní 2020.

Með hinum kærða úrskurði frá 13. október 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna þrisvar sinnum á ári, í mars, ágúst og desember, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti tveggja starfsmanna Barnaverndar B og fósturforeldrar verði viðstaddir umgengni. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða í húsnæði sem aðilar fallist á að sé viðunandi og stuðli að gæðastundum.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði á þriggja vikna fresti, að lágmarki í tvær til þrjár klukkustundir í senn og án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði ákveðin meiri en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði og að aukalega verði komið á umgengni í gegnum Skype eða aðra myndsímtalatækni. Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að fari svo að umgengnin fari einungis fram þrisvar á ári að aukalega verði komið á umgengni í gegnum Skype eða sambærilega myndsímtalatækni. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat Barnaverndarnefndar B að mikilvægt sé að horfa til þess að stúlkan dvelji nú á framtíðarheimili sínu. Þar sé hugsað vel um hana og gangi vel. Stúlkan hafi verið um X og X árs gömul þegar hún hafi komið á núverandi fósturheimili og hafi aðlagast þar vel. Stúlkan hafi átt ríkulega umgengni við kæranda í tímabundnu fóstri og umgengni gengið alla jafna vel. Þó hafi það komið fyrir að umgengni hafi verið frestað sökum andlegra veikinda kæranda, auk þess sem kærandi hafi eitt sin ráðist á starfsmann í umgengni. Kærandi sé nú sjálfræðissvipt en dvelji heima hjá sér. Að sögn kæranda hafi hún verið í neyslu vímuefna síðastliðið sumar en sé nú edrú og óski eftir stuðningi við að komast í meðferð á G. Að mati Barnaverndarnefndar B sé umgengni þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn nægileg með hliðsjón af markmiði með varanlegri fósturvistun og gögnum málsins.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 29. september 2020, kemur fram að stúlkan sé í varanlegu fóstri og ekki sé stefnt að því að hún fari aftur í umsjá kæranda. Hún hafi aðlagast mjög vel á fósturheimilinu og búi þar við stöðugleika og góðar aðstæður. Starfsmenn telji að það séu fyrst og fremst hagsmunir stúlkunnar að viðhalda þeim stöðugleika. Starfsmenn Barnaverndar B telji því að ekki séu forsendur fyrir umgengni með þeim hætti sem kærandi óski eftir.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins lá það fyrir við afgreiðslu þess hjá Barnaverndarnefnd B að kærandi óskaði eftir aukinni umgengni við stúlkuna og var meðal annars sérstaklega farið fram á að aukalega yrði komið á umgengni á milli kæranda og stúlkunnar í formi myndsímtala. Með hinum kærða úrskurði var ekki fallist á aukna umgengni kæranda en hins vegar verður ekki séð að barnaverndarnefnd hafi tekið efnislega afstöðu til þess hvort tilefni væri til að koma á sambandi á milli kæranda og stúlkunnar í formi myndsímtala til viðbótar við þá hefðbundu umgengni sem ákveðin var, en krafa þess efnis kom fram af hálfu kæranda við meðferð málsins fyrir nefndinni. Því verður ekki séð að barnaverndarnefnd hafi í hinum kærða úrskurði fjallað um eða tekið afstöðu til krafna kæranda að öllu leyti

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður samkvæmt framansögðu að telja að verulegir ágallar hafi verið á málsmeðferð barnaverndarnefndar þar sem ekki var leyst úr kröfum kæranda í heild sinni. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá öðru komist en að fella hina kærða ákvörðun úr gildi og vísa málinu til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 13. október 2020 varðandi umgengni D, við A, er felldur úr gildi og er lagt er fyrir barnaverndarnefnd að taka málið til úrskurðar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta