Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 162/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 162/2019

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 24. apríl 2019 kærði C lögmaður, f.h. A og D, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá X 2019  vegna umgengni A við son sinn E og X 2019 vegna umgengni D  við son sinn, E. Á meðan málið var til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni lést kærandi D og tekur úrlausn malsins ekki til hennar.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn E, er X ára. [...]

[…] Málefni drengsins hafa verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu X. Á þeim tíma hafa yfirvöldum borist fjölmargar tilkynningar um vímuefnaneyslu foreldra en auk þess hafa komið fram vísbendingar um vanrækslu drengsins í umsjá þeirra.

Með úrskurði Héraðsdóms B X 2018 var fallist á vistun drengsins utan heimilis til X 2018. Landsréttur staðfesti úrskurðinn með úrskurði X 2018. Málið var síðan lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B X 2018. Fyrir fundinn lá greinargerð starfsmanna barnaverndar þar sem fram kom það mat starfsmanna að meðferðaráætlanir með foreldrum hefðu ekki gengið eftir og stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) væru fullreynd. Því yrðu leiðir drengsins og foreldra að skilja. Úrskurðað var um vistun utan heimilis til X mánaða, auk þess sem ákveðið var að fela borgarlögmanni að gera kröfu um það fyrir héraðsdómi að foreldrar yrðu svipt forsjá drengsins. Þau voru svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B X 2019. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Í héraðsdómi eru málsatvik rakin. Kemur þar fram að kærandi sé öryrki og hafi samkvæmt málsgögnum átt langa sögu um fíknivanda sem hann afneiti ekki en kveðist þó hafa verið verr staddur en nú. Hann eigi nokkrar meðferðir að baki og [...], þar á meðal [...].

Í dómi héraðsdóms kemur fram að við eftirlit á heimili foreldra í X hafi þau bæði verið undir áhrifum vímuefna og aðstæður á heimilinu hafi verið taldar óviðunandi þar sem fíkniefni hafi verið á borðum og drengurinn talinn geta komist í þau. Þá hafi lögregla komið á heimilið aðfaranótt X vegna gruns um að [...]. Kærandi hafi verið áberandi ölvaður. Drengurinn hafi vaknað og sé ástandi hans lýst svo að hann hafi einungis verið klæddur í [...]. Hann hafi verið óhreinn í framan og á höndum, mjög grannholda og nánast ótalandi. Af hálfu barnaverndar hafi verið tekin ákvörðun um að drengurinn yrði neyðarvistaður utan heimilis á grundvelli 31. gr. bvl. Í kjölfarið var drengurinn vistaður í tímabundnu fóstri þar sem hann dvelji enn.

Í héraðsdómi segir að á fyrri stigum málsins hafi verið gerðar meðferðaráætlanir fyrir foreldra drengsins en ekkert bendi til þess að vel hafi gengið að framfylgja þeim. Í héraðsdómi segir að ekki verði annað ályktað af gögnum málsins en að meginskýring þess hafi verið óábyrg hegðun foreldranna og alvarlegir misbrestir á því að þau tækjust á við foreldrahlutverk sitt með ábyrgum og viðunandi hætti. Óregla þeirra beggja, ósætti þeirra á milli og almenn vanhirða um drenginn hafi leitt málið í núverandi farveg. Heildstætt mat á fyrirliggjandi upplýsingum í málinu beri vott um að barnaverndaryfirvöld hafi haft réttmæta ástæðu til þess að telja að uppeldisaðstæður á heimilinu væru óviðunandi. Stafi hinar bágu heimilisaðstæður af veikleikum og agaleysi foreldranna en þau hafi ekki borið gæfu til að færa sér víðtæk stuðningsúrræði í nyt.

Í héraðsdómi kemur fram að þegar drengurinn hafi verið tekinn úr umsjá foreldra hafi tannheilsa hans verið mjög bágborin. X tennur hafi verið skemmdar í honum, auk þess sem hann hafi haft [...] sem hafi valdið honum sársauka.

Í héraðsdómi segir enn fremur að leikskólastjóri leikskólans F, þar sem drengurinn sé á leikskóla, hafi gefið skýrslu fyrir dómi. Hafi þar komið fram að á meðan drengurinn hafi verið í umsjá foreldra hafi hann mætt óreglulega í leikskólann. Hann sé með þroskafrávik og því skipti öryggi og umhyggja miklu fyrir hann. Var það mat leikskólastjórans að drengnum hafi farið fram í umsjá fósturmóður, hann sé mun rólegri og yfirvegaðri og líti auk þess betur út. Foreldra hafi skort innsæi í vanda drengsins. Í málinu liggi einnig fyrir bréf leikskólastjórans frá X 2018 þar sem fram komi að samskipti drengsins við önnur börn hafi lagast. Hegðun hans og orðaforði sé sömuleiðis betri en áður. Starfsfólk leikskólans tali um að drengurinn sýni ofbeldisfulla hegðun og stjórnleysi eftir að hafa hitt foreldra sína.

G sálfræðingur hafi gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi. Hann hafi metið forsjárhæfni kæranda en matsgerðin sé dagsett X 2018. Í skýrslunni komi fram að kærandi glími við ýmsa erfiðleika svo sem neysluvanda, [...] og innsæisleysi. Það væri mat G að kæranda skorti hæfni til að sinna forsjárskyldum.

Í héraðsdómi kemur fram að samkvæmt gögnum málsins hafi drengurinn sótt tíma hjá [...]. Í skýrslu [...] X 2018 komi fram að drengurinn hafi komið fyrir sjónir sem barn sem ekki hafi náð að þroskast eðlilega. Frá byrjun hafi hann sýnt hegðun sem gefið hafi til kynna að hann sé öruggur gagnvart fósturmóður. Hann hafi sýnt leik sem gefið hafi til kynna ákveðna úrvinnslu og til þess að hann næði að vinna áfram á þann hátt væri afar nauðsynlegt að áframhaldandi stöðugleiki væri ríkjandi og að hann fengi að vera áfram öruggur heima hjá fósturmóður. Einnig komi fram að endurskoða þyrfti umgengni við foreldra þar sem drengurinn sýndi nokkra vanlíðan eftir umgengni.

Í héraðsdómi segir einnig að undir rekstri málsins hjá barnaverndaryfirvöldum hafi drengurinn notið aðstoðar talsmanns til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í samræmi við ákvæði 46. gr. bvl. Í skýrslu talsmanns segi að ekki hafi verið unnt að ná til drengsins til að fá fram afstöðu hans.

Meðal gagna málsins fyrir dómi hafi verið bréf frá forvarnadeild H X 2019. Þar komi fram að lögregla hafi X sinnum haft afskipti af málefnum kæranda frá X 2018 fram að ritunartíma bréfsins.

Í héraðsdómi kemur fram að ráða megi af gögnum málsins og aðilaskýrslum að drengurinn nærist nú betur en á meðan hann var í umsjá foreldra. Hann sé mun rólegri en áður, hafi breyst í útliti, fengið kinnar og eðlilegan húðlit. Hann sé hættur að [...] og hafi tekið framförum í tali. Dómurinn taldi foreldra hafa sýnt vanrækslu við umönnun drengsins þannig að þroska hans, öryggi og velferð hafi verið hætta búin í umsjá þeirra. Þessi niðurstaða ætti jafnt við um foreldra hvort um sig eða þau saman. Kærandi hafi lýst því yfir fyrir dómi að hann teldi sig ekki færan um að sinna forsjárskyldum eins og sakir stæðu. Í ljósi erfiðra aðstæðna, veikinda, hegðunar- og þroskafrávika, sem drengurinn hafi búið við á fyrri stigum, þyki brýnt að honum sé tryggt það öryggi og sú umönnun sem hann þurfi á að halda og eigi rétt til lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. bvl. Önnur og vægari úrræði bvl. hafi verið reynd allt frá árinu X án árangurs á meðan drengurinn hafi verið í umsjá foreldra. Dómurinn hafi fallist á að uppfyllt væru skilyrði a- og d-liða 29. gr. bvl. um að svipta foreldrana forsjá drengsins.

Fram kemur í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar X 2019 að drengurinn hafi átt reglulega umgengni við foreldra eftir að vistun hans utan heimilis hófst, en að jafnaði hafi hann hitt þau X í mánuði. Að mati eftirlitsaðila hafi umgengni og kveðjustundir í kjölfarið gengið vel fyrir sig. Fósturmóðir og leikskóli hafi merkt erfiða hegðun og líðan hjá drengnum í kjölfar umgengni. Af upplýsingum, sem borist hafi barnavernd á vistunartíma drengsins, megi sjá að starfsfólk leikskóla tali um að drengurinn hafi orðið mjög órólegur, hann hafi born[…] í kjölfar umgengni við foreldra. Komi þetta meðal annars fram í gögnum frá leikskóla, dags. X 2018 og X 2018. Fósturmóðir hafi lýst hegðun drengsins á þann hátt að hann ætti erfitt með svefn, væri órólegur og ólíkur sjálfum sér. Þegar X hafi verið eftir af X mánaða vistun drengsins hafi foreldrar óskað eftir X umgengni við drenginn það sem eftir væri af vistunartímanum. Starfsmenn hafi lagt til að umgengni yrði óbreytt þar til X mánaða vistun drengsins væri lokið. Ekki hafi náðst samkomulag um fyrirkomulag umgengni og hafi málið því verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann X 2018 sem kveðið hafi upp úrskurð sinn þann sama dag þess efnis að drengurinn hefði umgengni við kærendur X í X 2018.

Í framangreindri greinargerð barnaverndar kemur fram að foreldrar hafi farið fram á að umgengni þeirra við drenginn yrði með óbreyttum hætti á meðan forsjársviptingarmálið yrði rekið fyrir Héraðsdómi B, það er X í mánuði. Starfsmenn Barnaverndar B hafi lagt til að umgengni yrði X í mánuði við hvort foreldri í tvær klukkustundir í senn. Þar sem samkomulag um umgengni hafi ekki náðst hafi málið verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B X 2019 og var úrskurður kveðinn upp X 2019 þess efnis að drengurinn hefði umgengni við foreldra sína X í mánuði í tvær klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir Héraðsdómi B.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B frá X 2019, sem legið hafi fyrir fund Barnaverndarnefndar B X 2019, sé að finna lýsingar á hegðun drengsins í kjölfar umgengni hans við foreldra. Fram komi að drengurinn hafi verið ólíkur sjálfum sér, bæði í umsjá fósturmóður og á leikskóla. Hann hafi […], verið ör og pirraður og hafi starfsmenn leikskóla metið það svo að drengurinn væri að eiga við innri reiði og pirring sem hann réði ekki við, sbr. bréf leikskóla X 2018. Upplýsingar frá fósturmóður beri með sér að drengurinn hafi átt erfitt með svefn, hann hafi grátið upp úr svefni, sýnt vanlíðan, verið pirraður og órólegur. Meðal þeirra gagna sem vísað hafi verið til í greinargerð starfsmanns hafi verið skýrsla […] drengsins frá X 2018. Þar komi fram að drengurinn hefði sýnt ákveðna vanlíðan í meðferðinni í þau skipti sem hann hafi komið til […] fljótlega eftir umgengni við foreldra. Í skýrslu […] sé mælt með því að umgengni verði endurskoðuð með tilliti til þess að drengurinn þurfi öryggi og stöðugleika. […] hafi bent á að þegar drengurinn hitti kærendur væri hann endurtekið að upplifa afleiðingar áfalla þannig að mjög erfitt væri að skapa stöðugleika og öryggi sem hann væri í þörf fyrir til að framfarir héldu áfram hjá drengnum varðandi myndun öruggra tengsla og við úrvinnslu áfalla. Auk þessa segi […]: "Samkvæmt rannsóknum þurfa börn á forsjáraðilum /foreldrum sínum að halda en þegar sá sem barnið reiðir sig á sem öryggi beitir líkamlegu eða andlegu ofbeldi veldur hann/hún ógn og óbærilegum sársauka hjá barninu. Í stað þess að forsjáraðili/foreldri sé örugg uppspretta elsku veldur hann/hún ógn og sársauka. Jafnvel þó svo að ofbeldið sé ekki stöðugt að gerast, veldur það engu að síður djúpstæðu áfalli og ruglingi hjá barninu því það hefur orðið trúnaðarbrestur."

Þar sem ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni hafi verið úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. bvl. Hafi hinn kærði úrskurður verið kveðinn upp X 2019 og varði sá úrskurður umgengni kynföður, þ.e. kæranda í máli þessu.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að E, hafi umgengni við föður sinn, A, X í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. [...] Skilyrði fyrir umgengni er að foreldri sé edrú og í jafnvægi þegar umgengni á að fara fram.

Umgengni verði með þessum hætti á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir Héraðsdómi B.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að ákvörðun á umgengni kæranda við drenginn verði X í mánuði, í tvær klukkustundir í senn.

Málið varði umgengni kæranda við X ára gamlan son sinn sem sé í tímabundnu fóstri á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir dómstólum. Drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis frá X 2018 og haft reglulega umgengni við báða foreldra sína á þeim tíma, [...] Sú umgengni hafi gengið vel. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B X 2018 hafi verið ákveðið að drengurinn skyldi áfram vistaður utan heimilis og að fela ætti [..…] að annast fyrirsvar og gera kröfu um það fyrir Héraðsdómi B að foreldrar drengsins yrðu svipt forsjá hans. Í hinum kærða úrskurði hafi verið tekin ákvörðun um umgengni kæranda við drenginn á meðan forsjármálið væri rekið fyrir dómi.

Við úrlausn málsins verði, eins og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem sé barninu fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi telji hagsmuni sína og hagsmuni drengsins fara saman. Sameiginlegir hagsmunir þeirra lúti að því að best sé að umgengni fari fram með reglulegum hætti og að umgengni gangi vel fyrir sig. Kærandi telji það vera best fyrir sameiginlega hagsmuni sína og drengsins að umgengni verði X í mánuði, í tvo tíma í senn, þar til niðurstaða í forsjársviptingarmáli liggi fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Kærandi telji sérstaklega mikilvægt vegna erfiðleika drengsins að stuðla að sem mestum stöðugleika í lífi hans.

Krafa kæranda lúti að því að umgengni verði tíðari en ákveðið hafi verið með hinum kærða úrskurði, þ.e. X í mánuði í stað X. Til þess að stuðla að stöðugleika í lífi drengsins telji kærandi mikilvægt að umgengni verði höfð tíðari en ella þar til úrlausn dómstóla um skipan forsjár drengsins til frambúðar liggi fyrir. Umgengni hafi hingað til gengið vel og tengsl kæranda við drenginn séu sterk. Kærandi telji jafnframt að breytt hegðun drengsins, sem lýst sé í hinum kærða úrskurði í kjölfar umgengni, sé fremur merki um að aðskilnaður við foreldra sé drengnum erfiður og valdi raski á tilfinningalegu lífi hans. Því telji hann betra fyrir drenginn og til þess fallið að stuðla að stöðugleika og bættri líðan hans að hafa meiri umgengni við sig.

Í hinum kærða úrskurði sé vísað til þess að ekki sé stefnt af því að drengurinn fari aftur í umsjá kæranda. Kærandi telji ómálefnalegt að leggja það til grundvallar ákvörðun um umgengni nú þar sem alls óvíst sé hver niðurstaða í forsjársviptingarmálinu kunni að verða. Telji kærandi því óásættanlegt að við ákvörðun um umgengni sé gengið út frá því að drengurinn muni ekki fara á ný í umsjá hans, enda liggi það ekki fyrir. Kærandi telji mun heppilegra til að stuðla að stöðugleika í lífi drengsins til lengri tíma að hafa tíðari umgengni við sig þar til niðurstaða liggi fyrir í forsjársviptingarmáli til þess að halda í tengsl sín við drenginn og til þess að umgengi sé reglubundinn þáttur í lífi hans. Slíkur háttur á umgengni sé til þess fallinn að draga úr því að það kunni að valda óstöðugleika í lífi drengsins að vera settur aftur varanlega í umsjá kæranda fari dómsmálið svo að kröfu um forsjársviptingu verði hafnað.

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. a bvl. Réttur barns til þess að hafa áhrif í öllum málum er sig varða, svokallaður samráðsréttur, sé einnig lögfestur í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmála.

Í hinum kærða úrskurði komi fram að drengnum hafi ekki verið skipaður talsmaður vegna ungs aldurs, en drengurinn sé nú á sínu X aldursári. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að leitast við að reyna að leiða vilja drengsins í ljós með einum eða öðrum hætti áður en ákvörðun væri tekin um umgengni. Svokallaður samráðsréttur sé réttur allra barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif í öllum málum sem þau varði. Þótt áhrif vilja barns á úrslit máls séu aukin eftir því sem barnið sé eldra, eigi ung börn eftir sem áður einnig rétt á að láta vilja sinn í ljós. Meginreglan sé sú að lögskylt sé að leita eftir afstöðu barns þegar mál séu rekin fyrir stjórnvöldum sem varði hagsmuni barnsins. Aðeins í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá meginreglunni, ef slíkt samráð geti haft skaðleg áhrif á hagsmuni barnsins eða það sé þýðingarlaust fyrir úrslit máls.

Vegna þessa hafi barnaverndaryfirvöldum í það minnsta borið að leitast við að leiða í ljós vilja drengsins með aðstoð viðeigandi sérfræðinga. Kærandi telji ekki unnt að útiloka fyrir fram að barn á X aldursári hafi skoðun á því hve mikla umgengni það hafi við foreldra sína, eða að sú skoðun kunni að hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. Að mati kæranda séu engin rök fyrir því að víkja frá meginreglunni um að kanna vilja drengsins í málinu. Telji kærandi því að annmarki þessi á málsmeðferð Barnaverndarnefndar B sé þess eðlis að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærandi telji að vilji barnsins standi til þess að eiga meiri umgengni við sig, auk þess sem hann telji tengsl sín við drenginn sterk. Að mati kæranda hafi þessum atriðum ekki verið veitt nægilegt vægi við ákvörðun um umgengni. Teli hann að það tengslarof sem kunni að hljótast af of lítilli umgengni geti verið skaðlegt fyrir drenginn til lengri tíma.

Eins og að framan sé rakið, sé það grundvallarregla í barnarétti að hafa hag barns í fyrirrúmi við úrlausn hvers máls. Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best að gera hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi í málinu gerst brotleg við rannsóknarreglu í 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telji að rannsaka hefði átt vilja drengsins áður en ákvörðun var tekin í málinu. Kærandi telji jafnframt að rannsaka hefði þurft betur hvort vanlíðan drengsins kynni að eiga sér aðrar skýringar en umgengni við sig. Að mati kæranda sé ekki útilokað að hegðun drengsins sé vegna þess að hann fái of litla umgengni við sig. Í það minnsta telji kærandi að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að rannsaka þetta betur áður en lagt var til grundvallar að vanlíðan drengsins leiddi til þess að betra væri að drengurinn hefði minni umgengni við sig. Barnaverndaryfirvöldum hafi að mati kæranda borið að kanna hvaða áhrif sú umgengni, sem hann hafi lagt til, kynni að hafa á hagsmuni og líðan drengsins.

Loks telji kærandi að tillaga barnaverndar brjóti í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af ákvæðunum leiði að tillagan verði að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi.

Kærandi telji að það myndi samræmast betur meðalhófssjónarmiðum að heimila til reynslu þá umgengni sem hann leggi til á meðan fylgst sé með hvaða áhrif umgengnin hafi á hagsmuni drengsins. Enn fremur telji kærandi að ótímabært sé að takmarka umgengni svo verulega þegar forsjársviptingarmál sé rekið fyrir Landsrétti. Í kjölfarið fari drengurinn annað hvort á ný til kæranda eða þá að tekin verði ákvörðun um umgengni á ný. Sjónarmið um skerta umgengni vegna þess að fóstrinu sé ætlað að vara til 18 ára aldurs eigi ekki við, enda liggi ekki enn fyrir hvort drengurinn fari í varanlegt fóstur. Telji kærandi því eðlilegt að umgengni sé ekki takmörkuð svo verulega með tilheyrandi raski á lífi drengsins áður en endanleg niðurstaða í forsjársviptingarmálinu liggi fyrir. Brýnt sé að viðhalda tengslum drengsins við kæranda með tíðari umgengni ef hann fari aftur í umsjá kæranda til að koma í veg fyrir rask og óstöðugleika í lífi hans.

Þá bendi kærandi á að umgengni hafi áður farið fram með þeim hætti sem hann leggi til og hafi í alla staði gengið vel fyrir sig. Kærandi mótmæli staðhæfingum um slæm áhrif umgengninnar á drenginn. Hann telji að drengurinn hafi sýnt breytta hegðun eða líðan í kjölfar umgengni vegna þess að aðskilnaður við sig sé drengnum erfiður. Hann sýni breytta hegðun vegna þess að hann fái ekki að umgangast kæranda nógu mikið.

Kærandi veki athygli á því að áður en til vistunar utan heimilis hafi komið hafi þau vandamál, sem fósturforeldrar og leikskóli lýsi sem afleiðingu af umgengni, meðal annars vandamál tengd svefni og [...], þegar verið til staðar hjá drengnum. Því sé umgengni ekki orsök þessara vandamála. Líklegra sé að þau andlegu vandamál sem drengurinn glími við séu orsök þessara atriða en hann hafi í gegnum tíðina sýnt einkenni [...] ásamt hegðunarvanda og mælst seinn í þroska.

Þá mótmæli kærandi því sem barnaverndarnefnd vísi til varðandi það sem fram komi í umsögn [...] um að drengurinn sé sífellt að upplifa afleiðingar áfalla þegar hann hitti kæranda og því þurfi að minnka umgengni. Í umsögn [...] sé fjallað um afleiðingar þess þegar sá sem barn reiði sig á beiti það líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Þá valdi foreldrið ógn og sársauka hjá barni sem valdi svo áfram ruglingi og áfalli hjá barninu þótt ofbeldið sé ekki enn í gangi. Kærandi hafni því að hafa beitt drenginn andlegu eða líkamlegu ofbeldi eða að hann hafi upplifað sambærilegt áfall í sinni umsjá.

Kærandi telji að í málinu verði að hafa sameiginlega hagsmuni sína og drengsins að leiðarljósi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar X 2019 er vísað til þess að samkvæmt 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli taka mið af því hvað þjóni hagmunum barnsins best.

Hér sé um að ræða dreng sem tekinn hafi verið úr umsjá foreldra sinna á grundvelli neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í kjölfar þeirrar ráðstöfunar hafi hann verið vistaður utan heimilis í X mánuði samkvæmt úrskurði Héraðsdóms B sem Landsréttur staðfesti síðar. Drengurinn hafi sýnt erfiða hegðun í leikskóla, hjá [...] og fósturmóður í kjölfar umgengni við foreldra. Þegar hagsmunir foreldra og barna fari ekki saman beri ávallt að hafa hagsmuni barnanna í fyrirrúmi og verði því hagsmunir foreldra að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Í niðurstöðu úrskurðar Barnaverndarnefndar B frá X 2019 segi að hagsmunum drengsins sé best borgið með því að reynt verði að skapa sem mest jafnvægi í lífi hans og stuðla að því að hann upplifi öryggi og traust í lífi sínu. Telji barnaverndarnefndin að til að svo megi verða, geti umgengni drengsins við foreldra ekki verið tíðari en X í mánuði á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir dómstólum.

Í greinargerð lögmanns foreldra frá X 2019 komi fram að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að leitast við að leiða í ljós vilja drengsins með aðstoð viðeigandi sérfræðinga. Þá segi jafnframt að foreldrar telji engin rök fyrir því að víkja frá meginreglunni um að kanna vilja barnsins í málinu. Af þessu tilefni sé tekið fram að drengnum hafi verið skipaður talsmaður, menntaður þroskaþjálfi, í tengslum við tillögu starfsmanna barnaverndar um að svipta foreldra forsjá drengsins. Samkvæmt skýrslu talsmanns hafi talsmaður meðal annars verið beðinn um að fá fram afstöðu drengsins til umgengni við foreldra. Í niðurstöðu skýrslunnar frá X 2018 komi fram að drengurinn hafi að mati talsmanns hvorki þroska né færni til að svara þeim spurningum sem talsmanni hafi verið ætlað að fá svör við. Að mati talsmanns hafi drengurinn ekki getað tjáð tilfinningar sínar eða líðan í orðum eða með óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. Seinkaður málþroski og skilningur drengsins, tilviljanakennd notkun hans með myndir og takmörkuð kunnátta í tákni með tali hafi komið í veg fyrir að hægt væri að afla svara drengsins.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi er fyrir hönd BarnaverndarnefndarB gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV.  Sjónarmið fósturmóður E

Í tölvupósti fósturmóður til úrskurðarnefndarinnar 9. ágúst 2019 kemur fram að það sé afstaða hennar að drengurinn hafi ekki gott af umgengni við kæranda. Drengurinn eigi oftast erfitt dagana á eftir umgengni. Hann sofi illa og fósturmóðir megi aldrei vera of langt undan. Hann eigi líka erfitt með sig í leikskólanum, verði [...]. Það taki alltaf smá tíma að koma drengnum aftur á rólegan stað þar sem hann sofi vel og sé hress eftir umgengni.

 

V. Sjónarmið A

Vegna ungs aldurs drengsins var honum ekki skipaður talsmaður við meðferð þessa máls. Fram er komið að honum var skipaður talsmaður í tengslum við forsjársviptingarmál sem rekið er fyrir dómstólum. Að mati talsmanns hafði drengurinn hvorki þroska né færni til að svara þeim spurningum sem talsmanni var ætlað að fá svör við. Óskað var meðal annars eftir því að leitað væri eftir afstöðu drengsins til umgengni við foreldra.

 

VI.  Niðurstaða

Drengurinn E er fæddur X. Hann er í tímabundnu fóstri hjá I þar sem hann hefur verið frá X.

Foreldrar drengsins, [...], voru svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms B X 2019. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Með hinum kærða úrskurði frá X 2019 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn X í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að málefni drengsins hafi verið til könnunar og meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu X. Hann hafi verið vistaður utan heimilis frá X, fyrst á vistheimili til X, er hann hafi farið í tímabundið fóstur. Fyrir liggi sálfræðileg athugun á drengnum þar sem fram komi að þroski hans samsvari ekki aldri. Vitsmunaþroski, málþroski og málskilningur séu töluvert lakari en hjá jafnöldrum. Samkvæmt matinu sýni drengurinn einnig einkenni sem bendi til [..].

Í hinum kærða úrskurði segir að drengurinn hafi átt reglulega umgengni við foreldra sína frá því að hann var vistaður utan heimilis. Hafi umgengni heilt yfir gengið vel fyrir sig og kveðjustundir að lokinni umgengni einnig. Drengurinn hafi síðast átt umgengni við foreldra X 2019. Hann hafi að mati fósturmóður og samkvæmt upplýsingum frá leikskóla sýnt breytta hegðun í kjölfar umgengni. Í umsjá fósturmóður hafi vanlíðan drengsins komið fram á þann hátt að hann hafi átt erfitt með svefn, grátið upp úr svefni, verið pirraður og órólegur. Á leikskóla hafi breytt hegðun komið fram með þeim hætti að drengurinn hafi [...]. Þá hafi hann [...]. Þá virðist sem umgengni á þessu ári hafi reynt sérlega mikið á drenginn.

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að umgengni hans við drenginn verði ákveðin X í mánuði, í tvær klukkustundir í senn.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best. Mikilvægt er að stuðla að því að hann upplifi sem mest öryggi. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi hans á meðan fóstrið varir og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Fósturmóðir hefur lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 9. ágúst 2019. Þar kemur fram sú afstaða hennar að drengurinn hafi ekki gott af umgengni við kæranda. Drengurinn eigi oftast erfitt dagana á eftir umgengni. Hann sofi illa og fósturmóðir megi aldrei vera of langt undan. Hann eigi líka erfitt með sig í leikskólanum, [...]. Það taki alltaf smá tíma að koma drengnum aftur á rólegan stað þar sem hann sofi vel og sé hress eftir umgengni.

Kærandi telji að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að leitast við að reyna að leiða vilja drengsins í ljós með einum eða öðrum hætti áður en ákvörðun var tekin um umgengni. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn, sem nú er X ára, hvorki aldur né þroska til að geta myndað sér skoðun á umgengni við kæranda.  Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns barnsins frá X 2018. Samkvæmt skýrslunni var það mat talsmanns að drengurinn hefði hvorki þroska né færni til að svara spurningum talsmanns varðandi umgengni. Úrskurðarnefndin telur að fyrir hafi legið fullnægjandi upplýsingar í málinu varðandi afstöðu barnsins þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærandi telur að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun var tekin í því og að barnaverndaryfirvöld hafi við meðferð málsins gerst brotleg við rannsóknarreglu 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 10 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Í þessu felst að stjórnvaldi ber að afla þeirra upplýsinga og gagna í máli sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Af þessu leiðir að barnaverndarnefnd er óheimilt að ganga lengra í gagnaöflun í hverju máli en nauðsynlegt er. Við ákvörðun í málinu þarf að meta stöðu drengsins út frá líðan hans og aðstæðum og taka ákvörðun miðað við hagsmuni hans, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt gögnum málsins voru barnaverndaryfirvöld í miklu sambandi við leikskóla drengsins og fósturmóður við meðferð málsins. Reglulega var fundað með fósturmóður og starfsmönnum leikskóla svo sem fundargerðir X, X og X 2018 bera vott um. Í málinu liggur einnig fyrir bréf frá leikskóla X 2018 þar sem barnavernd voru veittar ítarlegar upplýsingar um líðan og stöðu drengsins á leikskóla. Drengurinn var einnig til meðferðar hjá [...] á tímabilinu X til X2018 og voru barnaverndaryfirvöld upplýst um framgang meðferðarinnar. Í bréfi [...] til barnaverndarnefndar X 2018 kemur fram að drengnum hafi verið vísað til meðferðar vegna vanlíðanar í tengslum við umgengni. Jafnframt er líðan drengsins, þroskafrávikum og aðstæðum hans lýst í bréfinu. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að Barnaverndarnefnd B hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins en í því felst að það er mat úrskurðarnefndarinnar að barnavernd hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt.

Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. með því að takmarka umgengni hans á þann hátt sem gert var með hinum kærða úrskurði, en samkvæmt reglunni eigi að beita vægustu úrræðum sem möguleg eru til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt

Í hinum kærða úrskurði segir að við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Í máli drengsins sé ljóst að ekki sé stefnt að því að hann fari aftur í umsjá kæranda og sé forsjársviptingarmál nú rekið fyrir dómstólum. Þá hafi drengurinn sýnt erfiða hegðun og vanlíðan í kjölfar umgengni við kynforeldra, hann hafi átt erfitt með svefn auk þess sem hann hafi [...]. Það sé mat barnaverndarnefndar að hagsmunum drengsins sé best borgið með því að reynt verði að skapa sem mest jafnvægi í lífi hans og stuðla að því að hann upplifi öryggi og traust í lífi sínu. Telji barnaverndarnefndin að til að svo megi verða geti umgengni við kæranda ekki verið tíðari en X í mánuði á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir dómstólum. Úrskurðarnefndin telur með vísan til þessa að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt við úrlausn málsins hjá Barnaverndarnefnd B.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og lýst er hér að framan.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin. Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá X 2019 varðandi umgengni A við son sinn, E, er staðfestur.

 

Lára Sverrisdóttir

        Hrafndís Tekla Pétursdóttir                                      Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta