Mál 379/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 379/2022
Föstudaginn 28. október 2022
A og B
gegn
Barnaverndarnefnd C
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur
Með kæru, dags. 22. júlí 2022, kærði D, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 12. júlí 2022 vegna umgengni E, við dóttur hans F.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan F er X ára gömul og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Móðir stúlkunnar var að kröfu Barnaverndarnefndar B svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B þann 25. nóvember 2020 sem Landsréttur staðfesti með dómi þann 30. apríl 2021. Faðir stúlkunnar var sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B þann 15. september 2021 sem Landsréttur staðfesti með dómi 4. febrúar 2022. Faðir áfrýjaði niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar Íslands en var synjað um áfrýjunarleyfi þann 29. mars 2022.
Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 12. júlí 2022. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 16. maí 2022. Úrskurður var kveðinn upp í málinu 12. júlí 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Barnaverndarnefnd B ákveður að E, hafi umgengni við F, einu sinni í mánuði í 1,5 klukkustundir í senn í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða öðrum þeim stað sem aðilar koma sér saman um. Eftirlitsaðili á vegum Barnaverndar B verði viðstaddur umgengni og fósturforeldrar, annar eða báðir kjósi þeir það.“
Lögmaður kærenda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. júlí 2022. Úrskurðarnefndin óskaði eftir umboði lögmanns þann 27. júlí 2022 sem barst nefndinni 18. ágúst 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 19. ágúst 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 5. september 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2022, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Með tölvupósti, dags. 8. september 2022, til lögmanns föður var óskað eftir afstöðu föður til kærunnar. Athugasemdir lögmanns kærenda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 12. september 2022, og voru þær sendar barnaverndarnefndinni til kynningar með bréfi, dags. 13. september 2022. Afstaða föður til kærunnar barst með bréfi lögmanns föður, dags. 16. september 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera kröfu um að úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 12. júlí 2022, verði breytt þannig að umgengniskröfu föður verði hafnað og umgengni ákveðin þrisvar á ári í 90 mínútur í senn, en að ákvæði um að umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti verði staðfest. Um kæruheimild fósturforeldra vísast til 2. mgr. 74. gr. a. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 51. gr. s.l.
Hvað varðar málavexti eins og þeir horfa við kærendum, þá vísast til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna Barnaverndar B. Einnig sé vísað til málavaxtalýsinga í fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála í málinu. Taka kærendur undir þá lýsingu sem fram koma í þessum málsskjölum og telja að málavextir séu að mestu óumdeildir í málinu.
Stúlkan, sem um ræðir, hefur verið í fóstri hjá kærendum frá um það bil X árs aldri, eða frá júlí X. Það sé óumdeilt að stúlkan dafnar vel í fóstrinu og að stúlkan hefur ekki verið í umsjá föður frá þeim tíma. Fram að því hafi hún verið í umsjá foreldra sinna beggja en einnig á Vistheimili barna og að lokum í umsjá föður og móður hans til skamms tíma.
Þá sé það einnig óumdeilt að umgengni við föður hafi gengið nokkuð vel frá því að stúlkan hóf dvöl sína hjá kærendum og hafi henni liðið að mestu vel með umgengnina, en það sé ekki síst að þakka stuðningi kærenda við umgengnina sem meðal annars hafa boðið föður á heimili sitt og einnig haft við hann bein samskipti, veitt upplýsingar um stúlkuna og sent myndir. Hafa þeir þannig lagt sig fram um að viðhalda góðum og kærleiksríkum samskiptum við föður. Rof hafi þó orðið á þeim samskiptum þegar faðir lagði fram til Landsréttar afrit af slíkum samskiptum í dómsmálinu varðandi forsjársviptingu hans. Fannst kærendum þar rofið traust á milli þeirra og lokuðu á samskiptin.
Á fundi Barnaverndarnefndar B hinn 12. júlí 2022 hafi verið úrskurðað um umgengni stúlkunnar við föður, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl). Umgengni hafi verið ákveðin 1,5 klukkustund í senn, 12 sinnum á ári, þ.e. mánaðarlega. Auk þess sé ákveðið að umgengni skuli vera undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Þá geti fósturforeldrar verið viðstaddir, kjósi þeir það.
Fyrst og fremst byggja kærendur á því að tíðni umgengninnar í hinum kærða úrskurði sé of mikil og þar af leiðandi óhentug fyrir stúlkuna. Er það afstaða þeirra að við tíðni umgengni fósturbarna við kynforeldra og aðra í upprunafjölskyldu verði að taka mið af markmiði fóstursins. Stúlkan sé í varanlegu fóstri sem ætlað er að standi til 18 ára aldurs hennar. Markmiðið sé því ekki sameining hennar við upprunafjölskyldu sína heldur áframhaldandi vera hjá fósturforeldrum til fullorðinsára. Stúlkan eigi því rétt til stöðugleika í sínum aðstæðum og möguleika á að aðlagast fósturfjölskyldunni sem sinni eigin.
Umgengni fósturbarna við upprunafjölskyldu sína sé því í þeim tilgangi að viðhalda tengslum sem þegar séu til staðar og einnig til að börn geti þekkt uppruna sinn. Er vísað til ítarlegrar umfjöllunar um þessi markmið og um sjónarmið að baki 74. gr. bvl. í hinum kærða úrskurði. Af hálfu kærenda sé tekið undir þá umfjöllun.
Í hinum kærða úrskurði sé jafnframt umfjöllun um eldri úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála og þau sjónarmið sem jafnan hafa legið til grundvallar úrskurðum um umgengni kynforeldra við börn í varanlegu fóstri. Í hinum kærða úrskurði sé dregin sú ályktun að helst sé litið til aldurs barns við upphaf fósturs og tengsla þess við kynforeldra. Þá séu raunveruleg tengsl venjulega sérstaklega metin sem og svokölluð frumgeðtengsl. Þá skipti máli hvort verið sé að fara fram á aukna umgengi frá því sem áður hafi verið ákveðið. Jafnframt sé tekið fram í hinum kærða úrskurði að lögmaður kærenda hafi vísað til þessarar stjórnsýsluframkvæmdar við málflutning fyrir nefndinni fyrir hönd kærenda.
Lögmaður, fyrir hönd kærenda, taki að mestu undir þessi sjónarmið og vilja kærendur vísa til þeirra en gera þó þá athugasemd að þeir telja að það skipti ekki sköpum hvort verið sé að fara fram á aukna umgengni frá því sem áður hafi verið eða ekki. Meiru máli skiptir um hvers konar fósturvistun sé að ræða, þ.e. varanlega eða tímabundna, eins og ítarlega er fjallað um í kæru þessari.
Þá vilja kærendur að auki benda á ítrekaðar forsendur í úrskurðum er varða umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fá frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda sé markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá sé einnig ítrekað byggt á því að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna að styrkja tengsl þeirra heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi einnig í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.
Þannig byggja kærendur kröfu sína um breytingu á hinum kærða úrskurði á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig umgengni í varanlegu fóstri skuli best hagað og telja þeir að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu, en á þeim sé þó ekki byggt í hinum kærða úrskurði. Beri því að fallast á kröfu kærenda um breytingu hins kærða úrskurðar, enda komi lögmætisregla stjórnsýsluréttarins, auk jafnréttisreglunnar, í veg fyrir að tækt sé að breyta út af fyrri framkvæmd umgengni í varanlegu fóstri að óbreyttum barnaverndarlögum.
Í hinum kærða úrskurði sé jafnframt nokkur umfjöllun um dómaframkvæmd hjá Mannréttindadómstól Evrópu og vísað í ýmsa dóma, sem allir séu gegn norskum yfirvöldum. Er sérstaklega vísað til málsins Strand Lobben o.fl. gegn Noregi, mál nr. 37283/13, dóms uppkveðnum af yfirdeild Mannréttindadómstólsins hinn 10. september 2019 og einnig er vísað til málsins Abdi Ibrahim gegn Noregi, mál nr. 15379/16, dóms uppkveðnum 10. desember 2021.
Kærendur benda á að þeir dómar sem vísað sé til í hinum kærða úrskurði varða annaðhvort málsmeðferð um forsjársviptingu eða ákvarðanir um fjölskyldusameiningu. Er fjallað um málefnið í samhengi við það hvort málsmeðferð norskra yfirvalda sem lýtur að því hvort börn eigi að snúa að nýju til foreldra sinna að fósturvistun lokinni eða hvort ákveða eigi um varanlega vistun þeirra frá foreldrum sínum, og eftir atvikum ættleiðingu, standist túlkun Mannréttindadómstólsins á 8. gr. Mannréttindasáttmálans um friðhelgi fjölskyldu.
Enginn dómanna taki beint á ákvörðunum um umgengni í varanlegu fóstri, enda sé slíkt úrræði ekki til á hinum Norðurlöndunum og í fáum öðrum Evrópulöndum. Vissulega sé fjallað um umgengni fósturbarna við kynforeldra sína í tilvitnuðum dómum Mannréttindadómstólsins, en sú umfjöllun snúi að því að það sé grundvallarþáttur í matinu að í tímabundnu fóstri eigi að stefna að fjölskyldusameiningu og umfjöllunarefnið því að nokkru leyti hvort ákvarðanir um tíðni og inntak umgengni hafi verið teknar með hliðsjón af því. Slíkt mat hafi þegar fram í máli þessu og verið framkvæmt af réttum yfirvöldum hér á landi og fyrir liggur að markmið með vistun stúlkunnar sé því alls ekki sameining með upprunafjölskyldunni heldur þvert á móti sé það markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar vistun hennar og umönnun hjá fósturfjölskyldu sinni.
Mál þessi hjá Mannréttindadómstólnum sem hafa verið til umfjöllunar séu í engu sambærileg við það mál sem hér sé til umfjöllunar, enda sé ekki stefnt að sameiningu stúlkunnar við upprunafjölskyldu sína. Báðir foreldrar hennar hafi verið sviptir forsjá hennar með dómum Landsréttar og ákvörðun í framhaldinu tekin um að hún skuli vistuð í varanlegu fóstri hjá kærendum.
Í 2. mgr. 65. gr. bvl. séu skilgreindar tvær tegundir fósturvistunar, þ.e. varanlegt fóstur sem ætlað er að haldist þar til forsjárskyldur falli niður lögum samkvæmt. Hins vegar geti fóstur verið tímabundið sem vísi til fósturs er vara eigi í afmarkaðan tíma á meðan unnið sé að því að bæta aðstæður foreldra þannig að barnið geti snúið aftur til þeirra. Tiltekið sé að tímabundið fóstur skuli alla jafna ekki standa lengur en tvö ár. Sambærilegt ákvæði sé ekki að finna í norskum barnaverndarlögum.
Í hinum kærða úrskurði séu þó þessi sjónarmið, þ.e. þau er stafa frá túlkun MDE á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi fjölskyldu og skyldu til að hafa markmiðið um fjölskyldusameiningu í fyrirrúmi við ákvarðanatöku um umgengni í tímabundnu fóstri, felld undir varanlegt fóstur með því að staðhæfa að forsjársvipting sé í raun ekki endanleg eða varanleg ráðstöfun, enda hafi foreldrar þann rétt að krefjast endurskoðunar þeirra ráðstafana á grundvelli 34. gr. bvl. Þeirri staðhæfingu mótmæla kærendur harðlega.
Ljóst má vera að skýr greinarmunur sé gerður á tímabundnu fóstri og varanlegu fóstri í íslenskum rétti, sbr. áður tilvitnaða 2. mgr. 65. gr. bvl., og þrátt fyrir tilvist 34. gr. laganna sem veitir þrönga undanþágu til foreldra um að leita endurskoðunar forsjársviptingarráðstafana fyrir dómstólum verður ekki fullyrt að þar með sé varanlegt fóstur barna forsjársviptra foreldra í raun ekki varanlegt heldur tímabundið. Þá telja kærendur það þannig varhugavert að leggja eigi til grundvallar sjónarmið um sameiningu barns og foreldra þegar teknar séu ákvarðanir um umgengni þeirra og samvistir á meðan á varanlegu fóstri stendur.
Því sé þannig sérstaklega mótmælt að reifuð sjónarmið í hinum kærða úrskurði er stafa frá túlkun MDE á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi fjölskyldu eigi við um mál þetta, eða í raun nokkur önnur mál þar sem um sé að ræða umgengni foreldris við barn í varanlegri fósturvistun hér á landi.
Að lokum byggja kærendur á því að hinn kærði úrskurður varðar umgengni í varanlegu fóstri sem komst á í kjölfar forsjársviptingar beggja foreldra stúlkunnar. Var samningur um varanlega fósturvistun undirritaður hinn 29. mars 2022. Á meðan fóstrið var tímabundið fór umgengni föður fram hálfsmánaðarlega, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 657/2021, með það í huga að líkur gætu verið á því að stúlkan færi á ný í umsjá föður, enda lægi ekki enn fyrir niðurstaða forsjársviptingarmáls gegn föður. Umgengnin gekk að mestu vel en mikil vinna hafi verið lögð í það af hálfu kærenda og einnig starfsmanna Barnaverndar B að undirbúa stúlkuna vel og stuðla að því að jákvæð tengsl gætu myndast og viðhaldist á milli stúlkunnar og föður.
Ítrekað skal að stúlkan hafi verið einungis ríflega X árs gömul þegar hún fór úr umsjá föður og óljóst hvort frumgeðtengsl hafi myndast á milli hennar og föður. Miðað við lýsingar í forsjárhæfnismati G, dags. 20. ágúst 2020, sem liggur fyrir í gögnum málsins virtist stúlkan í vanlíðan í umgengni við föður sem matsmaður fylgist með sumarið 2020 og taldi matsmaður að mögulega væri tengslavandi til staðar en þó ekki tengslaröskun, en stúlkan myndi þurfa lengri tíma til að ná eðlilegri tengslamyndun. Mælti matsmaður með vistun stúlkunnar utan heimilis en að komið yrði á reglulegri umgengni við föður og föðurömmu.
Síðar, eða vorið 2021, fylgdist dómkvaddur matsmaður H með umgengni stúlkunnar og kynföður sem gekk vel og er lýst í matsgerð hans sem liggur fyrir í gögnum málsins. Í niðurstöðukafla matsgerðar H segir orðrétt um tengsl stúlkunnar og kynföður:
„Fyrstu mánuði ævi sinnar dvaldi hún hjá foreldrum sínum þar sem áhyggjur vöknuðu um aðbúnað hennar og er ljóst í dag að þau voru ekki hæf til annast um hana á þessum tíma. F bjó á ólíkum heimilum og ýmist með báðum foreldrum eða öðru þeirra, þar til kom að vistun á I. Þar var hún hjá móður sinni í 10 daga áður en hún yfirgaf barn sitt en þá kom E í hennar stað. E var í fjóra mánuði á I og svo annan eins tíma á sínu heimili með stúlkuna. Þegar F var tekin frá föður sínum var hún farin að sýna alvarleg einkenni tengslaröskunar og jafnvel var grunur um einkenni á einhverfurófi eins og lýst er að ofan. Hjá fósturforeldrum bar á þessum einkennum í fyrstu og allt sem benti til vanrækslu. Fljótlega urðu framfarir og er staða stúlkunnar sérlega góð í dag.“
Nokkuð sé gert úr því í hinum kærða úrskurði að fyrrgreindir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að umgengni sé meiri en gengur og gerist í varanlegri vistun í þessu máli vegna jákvæðra tengsla föður og stúlkunnar. Einnig sé vísað til tengslamats Í því til stuðnings sem sé meðal gagna málsins. Með vísan til framangreinds verði þó að álykta að þau tengsl sem þó séu til staðar nú á milli stúlkunnar og föður mynduðust ekki fyrr en eftir að hún fór úr umsjá hans og hafa þannig myndast í umgengni. Það séu hin raunverulegu tengsl sem séu á milli þeirra feðgina eins og þau birtast í fyrrgreindu tengslamati. Í einfaldaðri mynd sé hægt að segja að niðurstaða þess mats sé sú að þau séu eins og vinir sem finnist gaman að leika sér saman.
Með vísan til þess telja kærendur að ekkert bendi til að stúlkan sé í þörf fyrir svo tíða umgengni sem hinn kærði úrskurður segir til um heldur þvert á móti hafi hún, í ljósi brotinnar forsögu og erfiðra aðstæðna hjá kynforeldrum, mun ríkari þörf fyrir frið og ró í fóstrinu og tíma til að aðlagast fjölskyldunni, enda sé markmið vistunarinnar að hún tilheyri fjölskyldu kærenda til frambúðar. Í þeirri fjölskyldu eigi hún foreldra, systkini, afa og ömmur, frændur og frænkur og svo framvegis.
Sem fyrr segir bera kærendur ekki brigður á að jákvæð tengsl séu til staðar á milli stúlkunnar og föður en sakna þess að tengslafræðingur hafi ekki lagt mat á hagsmuni stúlkunnar af umgengni og finnst matið fremur bera keim af hagsmunum föður og þörf hans fyrir tengsl við stúlkuna. Telja kærendur þannig að það vanti í málið að meta hver sé raunveruleg þörf stúlkunnar fyrir að rækta slíkt „vinasamband“ við foreldri sitt umfram það að eiga við hann leikstundir tvisvar til sex sinnum á ári eins og fram komi í hinum kærða úrskurði að sé algengasta fyrirkomulag umgengni í varanlegu fóstri. Þá virðist heldur ekki hafa verið lagt mat á það út frá sjónarhóli stúlkunnar hvernig fari best á því að haga umgengni svo að tryggt verði að það hafi ekki áhrif á getu stúlkunnar til að efla og styrkja tengsl sín við fósturfeður til frambúðar.
Til viðbótar byggja kærendur á því að þeir telja það horfa mjög til röskunar og truflunar á heimilislífi þeirra og stúlkunnar ef umgengni til frambúðar yrði einu sinni í mánuði. Þá telja þeir að slík umgengnistilhögun myndi raska ró stúlkunnar í fóstrinu og gæti haft þær alvarlegu afleiðingar að hin góðu tengsl sem þegar hafa myndast á milli hennar og þeirra myndu skaðast.
Þá skal þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Þeir virði þann rétt stúlkunnar og munu ávallt leitast við að styðja við umgengni hennar við upprunafjölskyldu sína svo að hún megi njóta þeirra réttinda.
Með vísan til alls framangreinds krefjast kærendur endurskoðunar á inntaki umgengni stúlkunnar F við föður samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar B hinn 12. júlí sl. Er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði þrisvar sinnum á ári í 1,5 klukkustund í senn, í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna.
Í athugasemdum lögmanns kærenda við greinargerð Barnaverndar B kemur fram að kærendur ítreki öll fyrri sjónarmið sem fram komu í ítarlegri kæru þeirra. Ekkert sem fram hafi komið í greinargerð barnaverndarnefndarinnar haggar því sem þar hafi verið lýst eða gefi tilefni til frekari umfjöllunar.
Kærendur vilji þó upplýsa að fyrir liggur bókun Barnaverndarnefndar B, dags. 6. september 2022, þar sem fjallað sé um kröfu föðurömmu til umgengni við stúlkuna. Er niðurstaðan sú að nefndin telji rétt að föðuramma eigi umgengni við stúlkuna þrisvar til fjórum sinnum á ári, eftir því hversu mörg skipti faðir leyfir henni að sameinast við sína umgengni. Fyrir liggur í tölvupósti frá starfsmanni barnaverndarnefndar að faðir samþykkir eitt skipti í umgengni með sinni umgengni og gert sé ráð fyrir að málið gangi til úrskurðar fljótlega hjá nefndinni með þeim forsendum, en kærendur hafi ekki frekari upplýsingar um framgang þess máls.
Kærendur vilji vekja athygli á því sem haft sé eftir föðurömmu á fundi barnaverndarnefndar og fram kemur í hjálagðri bókun. Þar sé af hálfu föðurömmu talað um að rétt sé að líta til „fjölda skilnaðarbarna“ á landinu sem auðveldlega fari á milli heimila, jafnvel viku og viku í senn, og það virðist henni óskiljanlegt hvers vegna stúlkan í þessu máli megi ekki vera í samvistum við föður og föðurfjölskyldu til samræmis við slík sjónarmið.
Ljóst má vera að staða fósturbarna sé allt önnur en skilnaðarbarna og vilja kærendur leggja áherslu á það þótt það virðist liggja í augum uppi. Þá hafa kærendur verið þeirra skoðunar að rétt sé að varðveita tengsl stúlkunnar við bæði föður og föðurömmu, en heppilegt sé þó og æskilegt að takmarka þá umgengni við þau þekktu sjónarmið sem lýst hafi verið í kæru, en að öðrum kosti sé hætta á því að tengsl stúlkunnar við fósturforeldrana og fjölskyldur þeirra beri skaða af.
Verði úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengni föður við stúlkuna staðfestur verður um að ræða umgengni 12 sinnum á ári. Auk þess má búast við að föðuramma fái umgengni tvisvar sinnum á ári til viðbótar. Einnig liggur fyrir úrskurður um að móðir barnsins skuli eiga umgengni við stúlkuna tvisvar sinnum á ári. Yrði því samtals um að ræða 16 skipti á ári sem stúlkan færi til upprunafjölskyldu sinnar. Kærendur hafi þegar lýst því yfir við Barnaverndarnefnd B að svo tíðri umgengni treysti þeir sér alls ekki til að sinna til frambúðar. Gæti slík niðurstaða því jafnvel leitt af sér fósturrof fyrir stúlkuna.
Þannig telja kærendur að stúlkan sé ekki í neinni þörf fyrir svo tíða umgengni við föður og til umfjöllunar sé í máli nr. 379/2022, heldur þvert á móti hafi hún, í ljósi brotinnar forsögu og erfiðra aðstæðna hjá kynforeldrum, mun ríkari þörf fyrir frið og ró í fóstrinu og tíma til að aðlagast fósturfjölskyldunni, enda sé það markmið vistunarinnar að hún tilheyri þeirri fjölskyldu til frambúðar.
Sem fyrr segir bera kærendur ekki brigður á að jákvæð tengsl séu til staðar á milli stúlkunnar og föður en sakna þess að tengslafræðingur hafi ekki lagt mat á þessa „andstæðu“ hagsmuni stúlkunnar og hvernig best fari á því að haga umgengni svo að tryggt verði að hún hafi ekki áhrif á getu stúlkunnar til að efla og styrkja tengsl sín við fósturfeður til frambúðar.
Hvað lagarök varðar vísast til þekktra sjónarmiða um beitingu 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og beitingu þeirra við málsmeðferð barnaverndarnefnda og úrskurðarnefndar velferðarmála.
Kærendur árétta að verði úrskurður Barnaverndarnefndar B staðfestur, yrði sú niðurstaða ekki í samræmi við niðurstöður í sambærilegum málum hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að faðir hafi verið sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B þann 15. september 2021 og ekki sé stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Stúlkan hafi nú verið í umsjá fósturforeldra sinna síðan í júlí 2020 og í varanlegu fóstri frá 29. mars 2022. Fram kom í forsjárhæfnismati, dags. 20. ágúst 2020, að stúlkan hafi á mjög stuttum tíma náð gríðarlegum framförum eftir að hún fór í umsjá fósturforeldra. Einnig hafi það komið fram í sálfræðilegri matsgerð dómkvadds matsmanns, dags. 25. apríl 2021, sem gert hafi verið fyrir héraðsdóm.
Starfsmenn Barnaverndar B hafi bókað á meðferðarfundi þann 23. febrúar 2022 um áhyggjur þeirra vegna umgengni í málinu og hafi þá verið bókað að leitað yrði til sérfræðings í tengslum foreldra og barna sem fengin yrði til að vera viðstödd umgengni föður við stúlkuna til að meta tengsl þeirra. Þann 15. mars 2022 barst Barnavernd B tengslamat frá Í, sérfræðingi í tengslamati barna og foreldra, sem unnið hafi verið að beiðni starfsmanna.
Í mætti á fund barnaverndarnefndar þann 7. júní 2022 og gerði nánar grein fyrir mati sínu. Í lýsti þá tengslum föður við stúlkuna sem góðum og tók fram að faðir og stúlkan væru miklir vinir. Þá sagði Í að hún myndi alltaf leggja til meiri umgengni en þá sem starfsmenn höfðu lagt til, til að viðhalda tengslum föður við stúlkuna, og nefndi hún þá til að mynda einu sinni í mánuði í eina og hálfa klukkustund í senn. Nefndin óskaði eftir því við Í í kjölfar fundar nefndarinnar að hún myndi skila inn áliti sínu á umgengni föður við stúlkuna. Í skilaði því inn þann 19. júní 2022, sjá meðfylgjandi bréf, gagn nr. 5 í afriti.
Í áliti Í, dags. 19. júní 2022, kemur fram að ef hugsað sé um hagsmuni barnsins og til þeirra góða tengsla sem ríkja á milli stúlkunnar og föður, hvort sem þau tengsl hafi myndast í rúmri umgengni eður ei, þá telji Í að það væri miður ef þau góðu tengsl stúlkunnar við föður yrðu rofin. Vísað sé til þess að börn eigi rétt á að þekkja uppruna síns og að eiga góðar minningar úr sinni frumbernsku með frumönnunaraðila sé hverju barni dýrmætt. Í staðfesti í bréfi sínu það sem kom fram í máli hennar á fundi nefndarinnar og lagði til að umgengni yrði einu sinni í mánuði í eina og hálfa klukkustund í senn og þá undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B.
Þann 12. júlí 2022 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B um að faðir ætti umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í eina og hálfa klukkustund í senn, undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Þá fái fósturforeldrar, annar eða báðir, að vera viðstaddir umgengni.
Í kæru lögmanns fósturforeldra til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 22. júlí 2022, er gerð krafa um að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 12. júlí 2022 vegna umgengni föður við dóttur sína, verði breytt þannig að umgengniskröfu föður verði hafnað og umgengni ákveðin þrisvar sinnum á ári í 90 mínútur í senn, en að ákvæði um að umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti verði staðfest.
Lögmaður vísar til þess fyrst og fremst að tíðni umgengninnar í hinum kærða úrskurði sé of mikil og þar af leiðandi óhentug fyrir stúlkuna. Vísað sé til þess að markmiðið er ekki sameining hennar við upprunafjölskyldu heldur áframhaldandi vera hjá fósturforeldrum til fullorðinsára. Þá benda kærendur á ítrekaðar forsendur í úrskurðum er varða umgengni við fósturbörn við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fá frið til að aðlagast fósturfjölskyldum og að ótækt sé að breyta út af fyrri framkvæmd á umgengni í varanlegu fóstri að óbreyttum barnaverndarlögum. Þá mótmæla kærendur harðlega þeirri staðhæfingu að varanlegt fóstur sé ekki í raun endanlegt vegna möguleika á endurskoðun ráðstafana samkvæmt 34. gr. barnaverndarlaga.
Þá vísar lögmaður til þess að nokkuð sé gert úr því í hinum kærða úrskurði að matsmenn sem hafa komið að málinu hafa lagt til meiri umgengni en gengur og gerist í varanlegri vistun. Vísar lögmaður til þess að tengsl á milli föður og stúlkunnar hafi ekki myndast fyrr en hún fór úr hans umsjá og hafa þannig tengsl þeirra myndast í umgengni. Þá kemur fram að ekkert bendi til að stúlkan sé í þörf fyrir svo tíða umgengni sem hinn kærði úrskurður kveður á um og til viðbótar byggja kærendur á því að þeir telji það horfa mjög til röskunar og truflunar á þeirra heimilislífi að stúlkan eigi umgengni við föður sinn einu sinni í mánuði.
Með hliðsjón af öllu framansögðu og því sem kemur fram í gögnum málsins og í úrskurði Barnaverndarnefndar B þann 12. júlí 2022 er það mat nefndarinnar að sú ákvörðun að faðir eigi umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í eina og hálfa klukkustund í senn í varanlegu fóstri samræmist hagsmunum hennar miðað við stöðu málsins í dag.
Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga þarf að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans getur verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum stúlkunnar. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu aðildarríki tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins, enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu aðildarríki virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum barnsins.
Fari hagsmunir aðila ekki saman þá verða hagsmunir annarra að víkja vegna hagsmuna stúlkunnar. Meta verður hagsmuni og þarfir barns í hverju máli fyrir sig út frá gögnum málsins. Í greinargerð lögmanns fósturfeðra sé vikið að því að kærendur byggja kæruna meðal annars á því að þeir telja það horfa mjög til röskunar og truflunar á heimilislífi þeirra og stúlkunnar ef umgengni til frambúðar yrði einu sinni í mánuði.
Eins og fram hefur komið í gögnum málsins hafa matsmenn í málinu, þar af einn dómkvaddur, metið það svo að það séu hagsmunir stúlkunnar að eiga rúma umgengni við föður sinn. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum þegar stúlkan var í tímabundnu fóstri að faðir ætti að eiga rúma umgengni við stúlkuna. Þá sé ekki hægt að líta fram hjá tengslamati því sem framkvæmt var af Í að beiðni starfsmanna Barnaverndar B sem mælti með því að umgengni yrði í samræmi við úrskurð nefndarinnar. Í gögnum málsins liggur ekkert fyrir um að stúlkan verði fyrir slæmum áhrifum af umgengni við föður, þvert á móti hefur það komið fram að þau eigi fallegt og gott samband sem sé að mati tengslasérfræðings ekki gott að rjúfa. Þá liggur ekkert fyrir að umgengni eins og nefndin úrskurðaði um sé óhentug fyrir stúlkuna eins og lögmaður kærenda vísar til.
Ljóst sé að ef hagsmunir fósturfeðra og stúlkunnar fara ekki saman þá verða hagsmunir fósturfeðra að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2006. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að rétt sé að leyfa stúlkunni að njóta vafans og hafa umgengni eins og hún var ákveðin með úrskurði nefndarinnar þann 12. júlí 2022.
Barnaverndarnefnd B telur sig ekki geta horft fram hjá dómum sem hafa fallið undanfarið hjá Mannréttindadómstól Evrópu en í úrskurði nefndarinnar þann 12. júlí 2022 sé vísað í nokkra slíka dóma. Í þeim dómum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu túlkað til að mynda 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Samkvæmt þeim sé það réttur stúlkunnar að þekkja uppruna sinn og viðhalda þeim tengslum sem eru til staðar, óháð því hvort tengsl voru mynduð fyrir eða eftir að stúlkan fór í varanlegt fóstur. Nefndinni ber að leggja mat á hagsmuni barnsins og það sem því er fyrir bestu og skulu hagsmunir barnsins ávallt hafa forgang þegar barnaverndarnefndir gera ráðstafanir sem varðar barnið samkvæmt. 1. mgr. 3. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þannig getur það eitt og sér að fóstrið sé orðið varanlegt [ekki] orðið til þess að umgengni barnsins við föður sé takmörkuð verulega. Slíkar takmarkanir á umgengni verða að samræmast hagsmunum barnsins í hverju og einu máli.
Með hliðsjón af öllu framansögðu er það mat Barnaverndarnefndar B að sú ákvörðun að faðir eigi umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í eina og hálfa klukkustund í senn í húsnæði á vegum Barnaverndar B og undir eftirliti starfsmanna og að fósturforeldrar fái að vera viðstaddir, samræmist hagsmunum stúlkunnar.
Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til niðurstöðukafla í úrskurði Barnaverndarnefndar B þann 12. júlí 2022 og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi, er gerð sú krafa að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
IV. Afstaða stúlkunnar
Samkvæmt hinum kærða úrskurði var afstöðu stúlkunnar til umgengni við föður ekki aflað vegna ungs aldurs hennar.
V. Afstaða föður
Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu föður til kærunnar og barst hún með bréfi lögmanns föður þann 16. september 2022. Fram kemur í bréfi lögmanns að faðir krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Krafa föður byggir á því að um sé að ræða hóflega umgengni sem sé ekki til þess fallin að raska ró eða stöðugleika dóttur hans. Þvert á móti sé það mat föður að dóttir hans muni njóta góðs af umgengninni, enda eigi þau góð og sterk tengsl við hvort annað. Faðir taki undir rökstuðning hins kærða úrskurðar sem sé vel ígrundaður og rökstuddur. Þótt faðir hafi óskað eftir enn rýmri umgengni og að hún færi fram án eftirlits þá sætir hann hinum kærða úrskurði því að hann telur nauðsynlegt að umgengni komist í fastar skorður til að tryggja stöðugleika í lífi dóttur hans. Faðir gerir þar af leiðandi engar athugasemdir við hinn kærða úrskurð sem slíkan en telur þó ástæðu til að gera örfáar athugasemdir við kæru fósturforeldra.
Í fyrsta lagi telur faðir einsýnt að ekki sé unnt að verða við kröfu fósturforeldra í ljósi 4. mgr. 51. gr. bvl. þar sem fram kemur að úrskurðarnefnd velferðarmála geti ýmist staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti, auk þess sem nefndin getur einnig vísað málinu til meðferðar að nýju. Af orðalagi ákvæðisins má vera ljóst að úrskurðarnefndin getur ekki orðið við kröfu fósturforeldra um breytta umgengni.
Í öðru lagi gerir faðir athugasemdir við fullyrðingar fósturforeldra þess efnis að stúlkan hafi ekki átt góð tengsl við föður við upphaf fósturs og að þessi tengsl hafi myndast í umgengni eftir að dóttir hans fór í fóstur. Gögn málsins bera þess skýr merki að tengsl föður og dóttur hafi verið til staðar í langan tíma og skoðanir fósturforeldra breyta því ekki. Það var meðal annars vegna þessara tengsla sem ákveðið var að faðir færi með stúlkuna af I inn á heimili sitt á sínum tíma en þá hafi aðkoma fósturforeldra að málinu eðli málsins samkvæmt verið engin og ljóst að frumtengsl þeirra séu ekki fósturforeldrum að þakka. Faðir vilji taka fram að það sé rétt sem kemur fram í kæru fósturforeldra að framan af voru samskipti á milli aðila góð og hafi það verið upplifun hans að aðilar væru að vinna í sameiningu að hagsmunum dóttur sinnar. Föður hafi sárnað þegar fósturforeldrar lokuðu á öll samskipti og átt erfitt með að skilja afstöðu þeirra. Samskiptin sem lögð voru fram í dómsmáli því sem höfðað var á hendur föður til forsjársviptingar voru lögð fram af lögmanni hans þar sem talið var að þau kynnu að hafa þýðingu við úrlausn málsins. Faðir hafi ekki litið svo á að um trúnaðarsamskipti væri að ræða, enda vörðuðu þau umgengni hans við dóttur sína sem krafist var að hann yrði sviptur forsjá yfir. Föður þyki miður að fósturforeldrar erfi þetta við hann. Ekki síst í ljósi þess að hann hafi verið að berjast fyrir forsjá dóttur sinnar. Faðir sé sem fyrr til fulls samstarfs og reiðubúinn að eiga í góðum samskiptum í þágu dóttur sinnar.
Í þriðja lagi telur faðir rétt að taka fram að hvorki lögmætis- né jafnréttisreglan komi í veg fyrir að umgengni sé ákvörðuð rýmri en algengt sé að kveðið sé á um þegar varanlegt fóstur er annars vegar. Þótt algengt sé að umgengni sé með einhverjum ákveðnum hætti þá jafngildir það því ekki að barnaverndaryfirvöldum sé óheimilt að úrskurða um rýmri umgengni ef hagsmunir barnsins mæla með því. Stjórnsýsluframkvæmdin í málum sem þessum beri þess merki að jafnan krefjist hagsmunir barns þess að umgengni við kynforeldri sé takmörkuð verulega en útilokar ekki að aðstæður geti verið á annan veg. Það sé engin fortakslaus regla í íslenskum lögum sem kveður á um hversu oft umgengni skuli vera við kynforeldri þegar varanlegt fóstur sé komið á heldur ræðst það af heildarmati á hagsmunum og þörfum barnsins hverju sinni. Rúm umgengni í varanlegu fóstri gengur ekki í berhögg við nein lög eða reglur heldur leggja ákvæði bvl. beinlínis þá skyldu á barnaverndaryfirvöld að meta hagsmuni og þarfir barnsins hverju sinni fremur en að fylgja fyrri framkvæmd í blindni.
Í fjórða lagi sé vert að benda á að mál föður og dóttur hans sé sérstakt að mörgu leyti og því ekkert óeðlilegt að umgengni sé ákvörðuð með öðrum hætti en jafnan gengur og gerist í málum sem þessu. Þó að forsjárhæfni föður sé að mati dómstóla talin verulega skert vegna röskunar á einhverfurófi og vitsmunalegra erfiðleika og hann talinn ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar vegna þessa, þá sé óumdeilt að stúlkunni stafar engin hætta af föður og öll umgengni stúlkunnar við hann hefur gengið vel. Þá sé það mat fjölmargra sérfróðra aðila sem að málinu hafa komið að stúlkan njóti góðs af rúmri umgengni við hann. Vangaveltur, mat eða skoðanir fósturforeldra ganga ekki framar mati þessara sérfróðu aðila og föður þykir miður að fósturforeldrar séu ekki reiðubúnir að hlusta á það sem fram er komið í málinu. Það sé ekkert sem bendir til þess að umgengni við föður raski ró dóttur hans eða komi í veg fyrir tengslamyndun við fósturforeldra. Þvert á móti virðist hún aðeins njóta góðs af umgengni við hann. Í niðurlagi kæru fósturforeldra kemur fram að þeir muni ávallt leitast við að styðja við umgengni stúlkunnar við upprunafjölskyldu sína en séu núna engu að síður mótfallnir umgengninni sem úrskurðað hefur verið um. Fósturforeldrar höfðu ef til vill væntingar um að umgengni yrði tvisvar til sex sinnum á ári líkt og algengt er, en þarfir og hagsmunir hvers fósturbarns eru mismunandi. Í tilfelli stúlkunnar telja sérfræðingar að hún njóti góðs af rúmri umgengni við kynforeldri sitt og fósturforeldrar verða að sýna þessum sérstöku aðstæðum skilning.
Í fimmta og síðasta lagi vísar faðir til ítarlegrar umfjöllunar hins kærða úrskurðar og álita sérfróðra aðila um gagnsemi umgengninnar fyrir stúlkuna. Sérstaklega sé vísað til þess sem fram kom hjá Í tengslasérfræðingi fyrir Barnaverndarnefnd B, en hún var fengin sérstaklega af Barnavernd B til að meta tengsl föður og dóttur hans með tilliti til hvernig best væri að haga umgengni og lagði til þá umgengni sem úrskurðað hefur verið um.
VI. Niðurstaða
Stúlkan F er X ára gömul sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar.
Með hinum kærða úrskurði frá 12. júlí 2022 var ákveðið að faðir stúlkunnar hefði umgengni við hana einu sinni í mánuði í 1,5 klukkustund í senn. Umgengni færi fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða á öðrum þeim stað sem aðilar kæmu sér saman um og yrðu eftirlitsaðilar á vegum Barnaverndar B viðstaddir ásamt fósturforeldrum, öðrum eða báðum, kysu þeir það.
Kærendur krefjast þess að úrskurðarnefndin breyti hinum kærða úrskurði. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði. Verður því að meta kröfu kærenda sem beiðni um að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við föður á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kærenda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins er stúlkan í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B.
Samkvæmt gögnum málsins er það afstaða sérfræðinga að mikilvægt sé að stúlkan eigi umgengni við föður vegna fyrri tengsla þeirra og eru það forsendur hins kærða úrskurðar. Fram kemur í niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndarinnar að óvilhallir matsmenn og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi metið það svo að það væru hagsmunir stúlkunnar að hafa rúma umgengni við föður. Ákvörðun um umfang umgengni byggir á tengslamati Í þar sem fram kom:
„Álit og tillögur að umgengni barns með föður
Líkt og fram kom á fundi barnaverndarnefndar þá lagði ég, tengslamatsaðili, til umgengni barns með föður einu sinni í mánuði alls 1,5 klst. undir eftirliti í höfuðstöðvum Barnaverndar B.
Áður, fyrir forsjársviptingu föður, var umgengni aðra hverja helgi í 3 klst í senn undir eftirliti Barnaverndar B.
Með þessu fyrirkomulagi er verið að draga verulega úr umgengni barns við föður, en með því að barn hitti föður í stutta stund en reglulega er minna rask á högum barns og þá líka fósturforeldra.
Því tel ég að tíð umgengni í styttri tíma væri til þess fallin að viðhalda góðum tengslum barns við föður, fremur en umgengni tvisvar til þrisvar á ári.“
Í sálfræðilegri matsgerð H, dags. 25. apríl 2021, kveðst hann taka undir mat þeirra sérfræðinga sem komið hafa að málinu og hafa mælt með því að stúlkan færi í fóstur en að faðir hefði rúma umgengni við hana og umfram það sem gengur og gerist í svona málum. Faðir sé viðkunnanlegur og hlýr í viðmóti og elski dóttur sína. Ekki hafi verið hægt að sjá annað en að þeim líði vel saman og ættu samverustundir þeirra á milli að geta verið þroskandi og gefandi fyrir báða aðila. Benti H á að mikilvægt væri í þessum samhengi að það ríkti sátt og samvinna um útfærslu á þesssu.
Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við föður. Í málinu liggja fyrir gögn sérfræðinga sem telja að það séu hagsmunir stúlkunnar að hún hafi rúma umgengni við hann. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur sem fyrr að það séu enn hagsmunir stúlkunnar eftir forsjársviptingu að eiga rúma umgengni við föður. Byggir það mat á áliti þeirra sérfræðinga sem þegar hafa komið að máli barnsins og lagt til að umgengni verði umfram það sem almennt gerist í málum sem þessum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að mál þetta hafi nokkra sérstöðu, meðal annars vegna þess hve ríkan þátt faðir hefur átt í lífi stúlkunnar hingað til. Þá styðja gögn málsins að tilfinningatengsl séu til staðar á milli stúlkunnar og föður sem myndast hafa þegar í frumbernsku og varhugavert getur verið að rjúfa. Úrskurðarnefndin tekur þannig undir álit þeirra sérfræðinga sem komið hafa að málinu að rík umgengni stúlkunnar við föður sé henni til hagsbóta. Þá gefa gögn málsins til kynna að samskipti á milli stúlkunnar og föður hennar hafi gengið vel, séu innihaldsrík og að stúlkan njóti þess að eiga samverustundir með föður.
Úrskurðarnefndin telur enn fremur að ekki sé ástæða til að ætla að rík umgengni stúlkunnar við föður komi til með að raska tengslum hennar við fósturforeldra þar sem þeir eru uppalendur hennar og virðast sinna því hlutverki af kostgæfni.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni föður við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 12. júlí 2022 varðandi umgengni F, við E, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson