Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 466/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 466/2024

Þriðjudaginn 4. febrúar 2025

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 25. september 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B frá 13. ágúst 2024, um að synja kæranda um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði B að afhenda kæranda gögn í máli vegna umgengni við dóttur hans. Í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar segir, auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„B synjar afhendingu tölvupóstsamskipta frá 8. desember 2023 til 23. janúar 2024 á grundvelli 1. og 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“.

Lögmaður kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. september 2024. Með bréfi, dags. 2. október 2024, til B var óskað eftir greinargerð ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustunnar barst með bréfi, dags. 16. október 2024, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2024, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með bréfi, dags. 5. nóvember 2024 og voru þær sendar barnaverndarþjónustunni til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2024. Athugasemdir B bárust með bréfi, dags. 28. nóvember 2024 og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærður er úrskurður B, dags. 13. ágúst 2024, um synjun á afhendingu umbeðinna gagna, sem séu eftirfarandi:

1. Dagála umgengnismáls kæranda frá þeim tíma sem nýr vinnsluaðili (D, þann 1. apríl 2023) tók við málinu og til þess dags sem óskað var eftir gögnunum (9. febrúar 2024).

2. Tölvupóstar frá fósturforeldrum og lögmönnum þeirra sem sendir voru barnavernd frá því að D tók við málinu, þ.e. frá 1. apríl 2023 og til [25. september 2024].

Um sé að ræða gögn sem urðu til í umgengnismáli kæranda vegna umgengni við dóttur hans.

Á því sé byggt um gögn sé að ræða sem málið varða og hafi komið til álita við úrlausn þess sbr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Þar að auki eigi faðir rétt skv. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl). Vísað sé enn fremur til 27. gr. reglugerð nr. 56/2004 um málsmeðferða fyrir barnaverndarnefnd.

Í meðfylgjandi tölvupóstum megi sjá ítrekaðar lögmanns kæranda um umrædd gögn og óskýr eða engin svör barnaverndarþjónustunnar - fyrr en lokasvar hafi komið frá E lögmanni barnaverndar 12. mars 2024 um synjun. Sú ákvörðun hafi verið kærð og skv. úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið formgalli á ákvörðun barnaverndar. Endanlegur úrskurður barnaverndar hafi verið sendur lögmanni kæranda þann 30. ágúst 2024 en í fyrri úrskurði hafði vantað leiðbeiningar um kæruleiðir og hafi því leiðrétt eintak verið sent 30. ágúst 2024. Ákvörðun barnaverndar í þeim úrskurði sé hér með kærð.

Í fyrsta lagi teljast dagálar gögn málsins og lögmaður kæranda hafi aldrei áður fengið synjun á afhendingu slíkra gagna og á því sé byggt að kærandi eigi fullan og ótakmarkaðan rétt til þessara gagna. Eina gagnið sem afhent hafi verið sé stutt greinargerð vinnsluaðilans. Það teljist ekki til dagálaskráninga sem barnvernd sé lagalega skylt að halda, sbr. 39. og 42. gr. bvl. Um þessa kröfu sé ekki fjallað í úrskurði barnaverndar.

Í öðru lagi komi skýrt fram í greinargerð D (vinnsluaðila málsins hjá barnavernd) að andstaða fósturforeldra við umbeðið tengslamat hafi ráðið því að vinna við tengslamatið hafi aldrei farið fram, þrátt fyrir að umdæmisráð hefði beðið um það. Að þessi andstaða fósturforeldra hefði komið fram í tölvupóstum þeirra og lögmanns þeirra til barnaverndar. Af því megi sjá að tölvupóstar þessir höfðu úrslitaáhrif um að ítarlegt tengslamat, A og dóttur hans, hafi aldrei farið fram líkt og áformað hafði verið, og sem umdæmisráð hafði sérstaklega óskað eftir að færi fram. Slíkt skiptir miklu máli fyrir tengsl þeirra og ákvörðun um umgengni, enda hafi átt að rannsaka málið skv. 10 gr. ssl. og rannsóknarreglu bvl. með þessu tengslamati sem aldrei fór fram.

Þá sé öllum órökstuddum, einhliða ásökunum í úrskurði barnaverndar um rneinta opinbera birtingu kæranda á umbeðnum gögnum hafnað. Fullyrt sé að kærandi hafi „ítrekað birt viðkvæmar upplýsingar um barnið, fósturforeldra og starfsfólk barnaverndarþjónustu“ í úrskurði barnaverndar. Samt sem áður sé hvorki rökstutt né útskýrt nánar hvaða upplýsingar sé verið að fullyrða um, hvar þær eigi að hafa verið birtar eða hvenær. Fullyrt sé í úrskurði barnaverndar að kærandi hafi „birt gögn“ á „ýmis konar heimasíðum“. Ekki sé nefnt hvaða heimasíðum eða hvaða gögn. Þá fullyrði barnavernd að kærandi hafi „brotið gegn friðhelgi einkalífs dóttur sinnar“ í úrskurði sínum, þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið dæmdur fyrir slík brot. Þá séu engin gögn þessu til stuðnings lögð fram. Um einhliða, órökstuddar og ósannaðar ásakanir sé að ræða sem í reynd sé með ólíkindum að stjórnvald skuli leyfa sér að hafa uppi. Að mati kæranda sýni þetta glögglega hversu neikvæða afstöðu stjórnvaldið hafi í garð kæranda og að starfsmönnum stjórnvaldsins sé persónulega í nöp við kæranda og hafi lengi verið.

Þá sé byggt á reglu meðalhófs af hálfu kæranda. Væri þetta raunveruleg hætta, sem á er byggt, að sé ekki, væri hægt að ganga skemur og t.d. veita heimild til að skoða gögnin hjá B. Lögmaður kæranda lýsir því yfir að hún muni ekki afhenda kæranda þessi gögn (tölvupósta fósturforeldra og lögmanns þeirra), heldur eingöngu sýna kæranda gögnin og segja honum frá efni þeirra. Með þeim hætti sé trúnaður tryggður. Geti þessi ástæða því ekki komið til greina við synjun á afhendingu gagnanna.

Þá sé því hafnað að 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 geti átt við í málinu.

Þá sé mikið skoðunarefni hvort B sé ekki vanhæf til að úrskurða um beiðni kæranda. Bent sé á að þjónustan hafi verið látin víkja sæti í umgengnismáli kæranda vegna vanhæfis. Mál þetta spretti upp frá umgengnismálinu og hljóti þjónustan einnig að vera vanhæf til að taka þessa ákvörðun. Enda skíni í gegn persónuleg andúð embættisins á kæranda þar sem órökstuddar, ósannaðar ásakanir séu settar fram gegn kæranda þar sem reynt sé að sverta hans persónu í augum úrskurðarnefndarinnar og þannig koma í veg fyrir að hann fái gögn. Þá sé beinlínis fullyrt í úrskurðinum að kærandi hafi „brotið friðhelgi einkalífs“ dóttur sinnar og þar með gerst sekur um mannréttindabrot gegn eigin dóttur. Hér sé um ærumeiðandi aðdróttanir gegn kæranda að ræða, í úrskurði opinbers stjórnvalds, sem þegar hafi verið gert vanhæft í málefnum kæranda, án nokkurs stuðnings við haldbær gögn.

Þessar ásakanir barnaverndar í úrskurðinum séu einar og sér nægar til að kveða á um vanhæfi stjórnvaldsins í málum kæranda, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. ssl.

B hafi sem stjórnvald engar lagalegar heimildir til að dæma um það hvort kærandi hafi framið mannréttindabrot eða önnur lögbrot. Lögmaður kæranda minni á að embættið hafi þegar reynt að fá slíkan úrskurð frá Persónuvernd en mistókst þær tilraunir, einmitt á þeim grunni að aðeins dómstólar, en ekki stjórnvöld, hafi lagaheimild til að taka afstöðu til þess hvort tjáning sé í andstöðu við lög. Samt sem áður leyfi embættið sér að fullyrða um sekt kæranda og meint brot gegn friðhelgi einkalífs, og noti síðan þá fullyrðingu til að skerða réttindi kæranda, sem sýnir hversu mikil andúð sé af hálfu starfsmanna embættisins í garð kæranda og ófagleg vinnubrögð. Telur kærandi útilokað að hann geti fengið réttláta eða hlutlausa málsmeðferð hjá umræddu embætti.

Af ofangreindri ástæðu einni saman sé útilokað að taka til greina málsástæður barnaverndar um hættu á að friðhelgi einhverra aðila verði raskað. Eingöngu dómstólar hafi vald til að dæma um slíkt, og það hafi ekki verið gert. Að því sögðu verði að ganga út frá því að kærandi hafi ekki gerst sekur um nein friðhelgisbrot og því útilokað fyrir stjórnvald að byggja á því sem ástæðu fyrir takmörkun á rétti kæranda til afhendingar gagna. Barnavernd geti ekki dæmt kæranda sekan um friðhelgisbrot og síðan notað þann „dóm sinn“ sem ástæðu til að svipta hann rétti til gagna málsins.

Þegar umdæmisráð hafi tekið til greina málsástæður kæranda um vanhæfi embættisins, hafi það m.a. verið á þeim grunni, að starfsmenn barnaverndar hefðu ítrekað beitt þöggunartilburðum gegn kæranda með kæru, stefnu, refsingum um minni eða enga umgengni, til að reyna að fá kæranda til að þegja um óréttlætið sem hann hafi verið beittur af þeirra hálfu, sem starfsmennirnir voru látnir víkja sæti vegna vanhæfis. Hins vegar haldi þetta áfram nú með nýjum úrskurði barnaverndar.

Á því sé byggt að í hinum kærða úrskurði hafi B farið langt út fyrir lög og lagaheimildir sínar, sbr. lögmætisregluna.

Á því sé byggt að kærandi njóti tjáningarfrelsis og að það sé stjórnarskrárvarinn réttur hans að fjalla opinberlega um mannréttindabrot, umgengnistálmanir barnaverndar og félagslegt ofbeldi/illa meðferð sem feli í sér að tengsl hans við dóttur hans hafi verið slitin og eyðilögð af hálfu opinbers stjórnvalds og að notaðar hafi verið í þeim efnum ólögmætar aðferðir eins og t.d. blekkingar og rangfærslur í skýrslum embættisins. Slík vinnubrögð barnaverndar séu þekkt og ekkert launungarmál. Benda megi t.d. á opinbera umfjöllun um þetta […]. Barnaverndaryfirvöld hafi verið að slíta tengsl barna við fjölskyldur sínar og sundra fjölskyldum í áratugi og þar með fremja illa meðferð á þegnum landsins líkt og staðfest hafi verið með óyggjandi hætti í nýlegri rannsóknarskýrslu Vöggustofunefndar (brot gegn 3. gr. MSE og 68. gr. stjskr.). Hafi kærandi ríkt frelsi til að tjá sig um slíka meðferð sem hann og dóttir hans hafa fengið og það hafi hann og gert. Kærandi sé heldur ekki bundinn neinum trúnaði um umgengnismál sitt skv. lögum.

Barnaverndarþjónusta hafi enga lagalega heimild til að refsa kæranda fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt með því að neita að afhenda gögn. Jafnvel þótt svo væri, þá sé girt fyrir allar slíkar ástæður með yfirlýsingu lögmanns kæranda um að gögnin verði ekki afhent kæranda beint, heldur aðeins sýnd honum og honum kynnt efni þeirra. Þannig sé einnig útilokað að afhending gagnanna geti „skaðað hagsmuni barnsins“ líkt og barnaverndarþjónustan haldi fram.

Bent sé á að umdæmisráðið úrskurðaði um umgengni án þess að fá niðurstöðu rannsóknar sem þeir sjálfir báðu um (tengslamatið). Það sé alvarlegt mál og þarfnast nánari skoðunar. Það liggur ljóst fyrir að andstaða fósturforeldra og lögmanna þeirra, sem birtist í umbeðnum tölvupóstsamskiptum, hafi verið ástæða þess að umbeðið tengslamat fór ekki fram. Af þeim sökum hafi verið girt fyrir rannsókn málsins í umræddu umgengnismáli og því ljóst að efni tölvupóstanna hafði rík og mikil áhrif á vinnslu umgengnismálsins.

Bent sé á greinargerð D, fyrrum vinnsluaðila málsins og þess sem þar komi fram um þetta: „Fósturforeldrar greindu frá því að vera ósátt við“... (hvernig matið færi fram) „Fósturforeldrar... sögðust hafa ráðfært sig við lögfræðing sinn og fengið skýr svör um að þeim væri heimilt að neita því að vinna við matið færi fram“ ... (með þeim hætti sem ákveðið var). „Fósturforeldrum... (var kynnt sú ákvörðun að þeim væri ekki stætt að neita umræddu mati, í tölvupósti 7 desember).

„Lögmaður fósturforeldra hafði samband" ... 1l. desember til að ítreka andstöðu fósturforeldra við matið.

„Fósturforeldrar sendu (D) tölvupóst eftir fyrsta viðtal tengslamatssérfræðings við stúlkuna... með kröfum um frestun matsins.

Þrátt fyrir ítrekaðar ákvarðanir barnaverndar um að fresta ekki vinnslu matsins hafi því samt verið frestað ítrekað og að lokum hafi verið hætt við matið þar sem fósturforeldrar „höfnuðu allri frekari samvinnu og eða viðtölum af nokkru tagi við sérfræðing“ (sjá greinargerð D).

Að ofangreindu virtu sé fullljóst að umrædd tölvupóstssamskipti höfðu mikil áhrif á vinnslu málsins og rannsókn þess og beinlínis komu í veg fyrir að málið yrði rannsakað með fullnægjandi hætti. Þess sé krafist að barnavernd verði gert að afhenda umbeðin gögn án tafar.

Í viðbótargreinargerð kæranda, dags. 5. nóvember 2024, er ítrekað það sem komi fram í fyrri greinargerð, dags. 25. september 2024 sem og kröfur kæranda um afhendingu þar til nefndra gagna.

Í fyrsta lagi séu gerðar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð barnaverndarþjónustunnar það sem hún í nýjustu greinargerð sinni afneiti því að um nokkurt vanhæfi sé að ræða og að nýr vinnsluaðili hafi einungis verið ráðinn til að koma til móts við vantraust föður. Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar komi m.a. fram orðrétt:

„Hefur því títtnefnt vanhæfi sem kærandi heldur fram aldrei verið staðfest formlega af þar til bærum aðilum.“

Bent sé á að í nýlegu minnisblaði sjálfrar barnaverndarþjónustunnar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2024. komi skýrt fram:

,,vegna vanhœfis B var leitað til annarra barnaverndarþjónusta til að taka við málinu með aðstoð frá BOFS, en það gekk ekki eftir.“

Á fundi aðila með umdæmisráði þar sem umgengnismálið hafi verið tekið fyrir á síðasta ári, hafi komið skýrt fram sú niðurstaða umdæmisráðs að barnaverndarþjónustan væri vanhæf og þess vegna hafi verið farið í að finna nýjan aðila til að taka við málinu.

Í greinargerð BOFS um mál, dags. 6. júní 2023, þetta sé vanhæfi barnaverndarþjónustunnar einnig staðfest, en þar komi m.a. fram:

,,Barna- og fjölskyldustofa skoðaði mögulegt vanhæfi yfirmanns B í málinu og taldi ljóst að um vanhæfi hennar væri að ræða á grundvelli 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sbr. 6 tl 1 mgr 3 gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það mat stofnunarinnar að undirmenn hennar séu jafnframt vanhæf á grundvelli... (sömu laga).... endar varðar málið nú yfirmann starfsmanna persónulega“.

,,B ber því ábyrgð á að ... ráða til þess utanaðkomandi aðila í ljósi vanhæfis...“

Í tölvupósti lögfræðings barnaverndar, dags. 7. júní 2023 komi fram:

,,...það vantar ákvæði í lögin sem veita BOFS eða GEV heimild til að fyrirskipa öðrum barnaverndarþjónustum að taka að sér mál þegar um slíkt vanhæfi er að ræða eins og er í þessu máli“.

Því sé nýjustu greinargerð barnaverndarþjónustunnar þar sem þessu öllu sé afneitað og snúið á hvolf, mótmælt í heild sinni sem röngu og að verið sé að fara vísvitandi og af ásetningi með rangt mál af hálfu barnaverndarþjónustunnar. Það sé mjög alvarlegt mál og rýrir trúverðugleika þjónustunnar enn frekar. Þetta eitt og sér ætti að nægja til að draga megi óhlutdrægni þjónustunnar í efa með réttu, sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Þá sé ekki verið að halda fram vanhæfi bæjarfélagsins í heild sinni, líkt og barnaverndarþjónustan virðist vilja meina í greinargerð sinni, heldur barnaverndarþjónustunnar í heild sinni. Það sé í umboði barnaverndarþjónustunnar sem lögfræðingurinn vinnur málið - auðvelt sé að sjá þetta af t.d. efni greinargerðar þeirra sem ber yfirskriftina „Greinargerð B“.

Varðandi málatilbúnað barnaverndarþjónustunnar um málsástæður kæranda um tjáningarfrelsi hans og meint friðhelgisbrot, verður hann ekki skilinn öðruvísi en að undir þær sé tekið. Þ.a. að barnaverndarþjónustan sé sammála því að einungis dómstólar hafi vald til að dæma um sekt eða sakleysi kæranda þegar kemur að meintum friðhelgisbrotum. En að hins vegar felist það í skyldum barnaverndarþjónustu að „vernda börn gegn meintum friðhelgisbrotum“ sem felast í því að fjallað sé um þau opinberlega á internetinu.

Sé svo væri áhugavert að vita hvers vegna barnaverndarþjónustan situr ekki um samfélagsmiðla síður foreldra, eða síður eins og Mæðra-tips þar sem það sé daglegt brauð að foreldrar fjalli opinberlega um veikindi barna sinna, birti myndir af þeim, segi frá persónulegum högum þeirra. Nýlega steig tiltekin amma fram í fjölmiðlum undir nafni og í mynd, og á facebook, nafngreindi barnabarn sitt fullu nafni, sagði opinberlega frá veikindum hans, dvöl hans á spítala, og orsökum veikinda hans. Er það þá ekki skylda barnaverndar að rannsaka það mál og öll önnur hin? Eða gegnir barnaverndarþjónustan einungis þessu aukahlutverki þegar kemur að einum tilteknum manni, kæranda í þessu tiltekna máli?

Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar sé fjallað um að faðir hafi ítrekað tekið upp myndbönd og myndir af stúlkunni í umgengni í þeim tilgangi að birta á samfélagsmiðlum. Og að þá hafi B og úrskurðanefnd einnig úrskurðað að birting á myndum og myndböndum af stúlkunni „væru brot á friðhelgi hennar.“

Flestir foreldrar birta myndbönd og myndir af börnum sínum og sjálfum sér á samverustundum, á netinu, facebook, snapchat, Tiktok, Instagram ofl. Telst það virkilega allt saman „brot á friðhelgi“ barnanna? Þegar facebook síða lögfræðings barnaverndarþjónustunnar sé skoðuð blasir við stór mynd af (dreg þá ályktun) barni hennar, birt opinberlega á netinu. Er hún sjálf þá að brjóta mannréttindi barnsins síns? Þá megi einnig sjá facebook síður nefndarmanna í úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem þeir sjálfir hafi birt myndir og myndbönd af sínum börnum opinberlega á facebook. Enn fremur megi sjá nefndarmenn umdæmisráðs F birta opinberlega á netinu myndir af börnum sínum á facebook, sem séu aðgengilegar öllum.

Samt sem áður leyfi þessir sömu nefndarmenn sér að fullyrða í úrskurðum sínum, þar sem þeir fari með opinbert vald, að faðir brjóti gegn friðhelgi dóttur sinnar þegar hann leyfir sér að birta myndir og myndbönd af henni og þeirra samveru á netinu.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 99/2020 dags. 9. júlí 2020 hafi þetta m.a. verið notað sem réttlæting á því að takmarka rétt feðginanna til umgengni:

„Þá krefst kærandi þess að hann fái að njóta umgengni við stúlkuna án eftirlits. Hér telur úrskurðarnefndin að líta verði til forsögu málsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi meðal annars verið að taka upp myndbönd af stúlkunni í umgengni í þeim tilgangi að birta myndböndin á samfélagsmiðlum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með þessari háttsemi hafi kærandi ekki hagsmuni stúlkunnar í fyrirrúmi og með hliðsjón af því verður öryggi stúlkunnar að mati úrskurðarnefndarinnar best tryggt með því að umgengni fari fram í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna barnaverndar.“

Undir þennan úrskurð skrifi m.a. nefndarmenn sem sjálfir birti myndir af sínum eigin börnum á samfélagsmiðlum. Af hverju mega þeir það en ekki kærandi?

Hér sé ekki verið að gera mál þetta persónulegt gagnvart valdhöfum, heldur eingöngu að benda á tvískinnunginn og þá undarlegu holu sem málið hefur velkst í í áraraðir.

Þá sé í barnaverndarlögum hvergi að finna nein lagaákvæði sem kveði á um að barnavernd gegni þessu hlutverki og sé því mótmælt sem röngu.

Í 10. gr. [laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994] segir að sérhver maður njóti tjáningarfrelsis og að sá réttur nái yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda.

Af sögu málsins og gögnum sé fullljóst að kærandi hafi ekki fengið að njóta þessa réttar án afskipta stjórnvalda. Í mörg ár hafi barnaverndarþjónustan, og að því er virðist úrskurðarnefnd velferðarmála einnig, gengið afar hart fram gegn kæranda í því miði að þagga niður í honum. Stöðva tjáningu hans og koma í veg fyrir hana. Hafi opinberu valdi verið misbeitt í þeirri vegferð gegn honum að takmarka tjáningu hans. Honum hafi verið mismunað með þeim hætti að honum sé bannað að taka myndir og myndbönd af dóttur sinni í umgengni og bannað að birta opinberlega þegar það sé í fínu lagi þegar aðrir foreldrar geri slíkt, jafnvel nefndarmennirnir sjálfir. Afar neikvæð afstaða stjórnvalda í garð kæranda skín í gegn í öllum þeirra greinargerðum.

Það sé nógu sárt fyrir kæranda að fá lítið sem ekkert að hitta dóttur sína. Myndir og myndbönd af henni og þeim saman í umgengni sé það eina sem hann eigi til að minnast hennar. Það skiptir hann enn meira máli en aðra foreldra að hafa þessar myndir og þessi myndbönd til að viðhalda einhverri tengingu við dóttur sína. En jafnvel það sé grimmilega hrifsað frá honum og notað gegn honum.

Kærandi byggi á því að allar þessar tilraunir og afskipti barnaverndarþjónustunnar og úrskurðarnefndar velferðarmála feli í sér brot gegn 10. gr. mannréttindasáttmálans og séu ólögmætar og fari langt út fyrir löglegt hlutverk þessara stjórnvalda.

Af þessu leiðir skýlaus krafa kæranda til að stjórnvaldið sem og úrskurðanefndin láti tafarlaust af öllum slíkum tilburðum. Enn fremur vakna upp spurningar um hæfi úrskurðarnefndarinnar hér einnig, hafi hún einnig tekið þátt í þessum ólögmætu afskiptum af tjáningarfrelsi kæranda og m.a. notað opinbert vald til þess. Hverju stjórnvaldi ber skylda til að gæta að eigin hæfi. Tilfinning kæranda og hugur sé a.m.k. löngu farinn þá leið að útilokað sé fyrir hann að fá hlutlausa og málefnalega málsmeðferð, hvort sem það á við um B eða úrskurðarnefnd velferðarmála.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar kemur fram að sé þess krafist að úrskurður þjónustunnar frá 13. ágúst 2024 verði staðfestur.

Varðandi vanhæfi barnaverndarþjónustunnar þá hafi kærandi ítrekað haldið fram vanhæfi barnaverndarþjónustunnar. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 259/2021 hafi ekki verið fallist á það. Hafi því títtnefnt vanhæfi sem kærandi haldi fram aldrei verið staðfest formlega af þar til bærum aðilum. Barnaverndarþjónustan hafi hins vegar ekki komið að umgengnishluta málsins í ljósi vantrausts kæranda á barnaverndarþjónustunni. Þetta hafi einmitt verið gert í þeim tilgangi að ná framvindu í málinu og til þess að kærandi gæti lagt ágreining þennan til hliðar og einbeitingin yrði færð á það sem máli skiptir í þessu máli sem séu hagsmunir stúlkunnar. Það hafi ekki gengið eftir og hafi t.a.m. sálfræðingur kynföðurs bent á að hann dragi í efa að afstaða hans muni breytast með fleiri sálfræðiviðtölum. Einnig megi benda á til að taka af allan vafa að lögfræðingur undir lögfræðideild G kvað upp umræddan úrskurð en og lýtur því engu boðvaldi yfirmanns barnaverndarþjónustunnar. Það sé beinlínis fráleitt að halda því fram að téð vanhæfi sem kærandi haldi fram nái yfir allar deildir og stofnanir G.

Hvað varði afhendingu á umræddum gögnum sé á það bent að umbeðin gögn voru dagálar vegna málsins frá 1. apríl 2023 þar til kæran var lögð fram þann 26. mars 2024 ásamt tölvupóstsamskiptum frá fósturforeldrum og lögmanni þeirra til barnaverndar yfir sama tímabil.

Tekin hafi verið sú ákvörðun að vegna vantrausts kæranda myndi málið verða unnið af verktaka, D. Þetta hafi verið gert í þeirri von að kærandi gæti lagt til hliðar reiði sína og heift gagnvart barnaverndarþjónustunni og þannig væri hægt að halda málinu áfram með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi. Líkt og lögmaður kæranda bendi réttilega á þá sjái barnaverndarþjónustan um það undir eðlilegum kringumstæðum skv. bvl. Líkt og kærandi hafi verið upplýstur um hafi barnaverndarþjónustan ekki komið að umgengnishluta þessa máls og getur þar af leiðandi ekki skráð dagála eins og undir venjulegum kringumstæðum. Barnaverndarþjónustan haldi hins vegar utan um öll þau gögn sem þjónustunni berast frá aðilum sem hafa aðkomu að barnaverndarmálum sbr. 39. gr. bvl., líkt og í máli þessu. Geti B ekki borið ábyrgð né haft áhrif á hvernig málið sé unnið af utanaðkomandi aðilum eða hvernig skýrslum þeir skila, á sama tíma og þjónustan hafi enga aðkomu að málinu líkt og hefur verið ósk kæranda. Umrætt skjal hafi því verið unnið af utanaðkomandi aðila en kærandi hafi bæði verið upplýstur og samþykkur því að D myndi vinna málið á sínum tíma. Hafi kæranda þegar verið afhent samantekt D, verktaka sem vann málið frá 1. apríl 2023 og þar af leiðandi uppfyllt skyldu sína skv. 39. gr. bvl. en geti barnaverndarþjónustan ekki borið frekari ábyrgð á því. Kærandi hafi ítrekað verið upplýstur um að ekki séu frekari gögn fyrirliggjandi frá verktakanum hjá barnaverndarþjónustunni og því ekki tilefni til að fjalla frekar um þann hluta beiðninnar.

Líkt og bent hafi verið á voru umbeðin gögn einnig tölvupóstsamskipti frá fósturforeldrum og lögmanni þeirra til barnaverndarþjónustunnar yfir sama tímabil. í kæru kemur þó fram að umbeðin gögn hafi verið frá 1. apríl 2023 til dagsins í dag. Líkt og fram komi í úrskurði barnaverndarþjónustunnar séu þau tölvupóstsamskipti sem hafnað hafi verið að afhenda frá 8. desember 2023 til 22. janúar 2024 enda frekari tölvupóstsamskipti ekki fyrirliggjandi. Líkt og fram komi í úrskurði sem kveðin hafi verið upp f.h. barnaverndarþjónustunnar sé í umræddum tölvupóstsamskiptum samskipti fósturforeldra við D og sé þar hver tölvupóstur metinn fyrir sig. Líkt og þar komi fram sé mikilvægt að fósturforeldrar geti komið upplýsingum um barnið til þeirra sem unnu málið til barnaverndarþjónustunnar þannig að hægt sé að tryggja trúnað við fósturforeldra og barnið. Líkt og fram kom í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála nr. 26/2015 þarf að taka ákvörðun með það í huga hvaða stöðu barnið sé í og að stúlkan og hagsmunir hennar þurfi að vera í fyrirrúmi. Vísað sé í frekari rökstuðning hins kærða úrskurðar.

Kærandi haldi því fram að einhliða sé því haldið fram að kærandi hafi birt viðkvæmar upplýsingar um barnið, fósturforeldra og starfsfólk barnaverndarþjónustu í úrskurðinum. Hið sanna og rétta sé að kærandi hafi beinlínis haldið úti heimasíðu um stúlkuna www.dottirmin.is, þar sem hann nafngreindi stúlkuna, deildi þar myndum af henni ásamt upplýsingum um starfsfólk og fer út í vinnslu málsins hjá barnaverndarþjónustunni. Einnig hafi kærandi skrifað opinberlega sem honum sé líkt og lögmaður kæranda bendir á heimilt að gera í ljósi tjáningarfrelsis. Hins vegar takmarkast tjáningarfrelsi hans við friðhelgi einkalífs stúlkunnar og fósturforeldra.

Kærandi eigi langa sögu af því að hafa tekið upp umgengni, myndir og myndbönd af stúlkunni, deilt því á samfélagsmiðla og fyrrgreindri heimasíðu sinni. Því hafi ítrekað verið beint gegn kæranda að virða tilmæli um að hafa hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi og láta af þessari háttsemi svo að unnt sé að vinna málið eins og vera ber. Bendi megi til dæmis benda á úrskurð barnaverndarnefndar dags. 15. janúar 2020 þar sem talið var að það geti skaðað hagsmuni barnsins ef kynföður og/eða lögmanni hans yrði veittur aðgangur að gögnum málsins þar sem ekki væri unnt að tryggja rétt barnsins til einkalífs. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi einnig áður fjallað um þetta í máli nr. 99/2020 dags. 10. júlí 2020. Sérstaklega hafi verið tekið fram að umgengni við stúlkuna yrði að fara fram í húsnæði barnaverndarþjónustunnar vegna þess að kærandi hafi ítrekað tekið upp myndbönd af stúlkunni í umgengni í þeim tilgangi að birta myndböndin á samfélagsmiðlum. Dugði þetta ekki til svo kærandi myndi láta af háttseminni og úrskurðaði B dags. 6. maí 2021 þar sem sérstaklega kom fram að birting á myndum og myndböndum af stúlkunni væru brot á friðhelgi hennar. Taldi því nefndin sérstaklega vera þörf á því að úrskurða um að slíkt væri óheimilt. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti úrskurð þennan í máli nr. 259/2021.

Kærandi hafi hingað til ekki farið eftir tilmælum hvort sem það er frá barnaverndarþjónustunni, barnaverndarnefndum eða úrskurðarnefnd líkt og ofangreint ber með sér. Það sé því ljóst að vægari úrræða verður ekki beitt til að tryggja það að stúlkan geti öðlast þá ró sem hún þarf á að halda. Heimasíðuna hafi hann ekki tekið niður þrátt fyrir ofangreind tilmæli frá hinum ýmsu aðilum. Þetta komi m.a. fram í erindi Persónuverndar vegna kvörtunar barnaverndarþjónustunnar þar sem þetta sé m.a. staðfest. Líkt og Persónuvernd benti á hafi það þó ekki verið hlutverk þeirra að meta hvort brotið hefði verið gegn friðhelgi stúlkunnar. Ekki sé tilefni til að tiltaka frekari opinber skrif kæranda og hvaða gögn hann hafi birt nánar hér en sé þess óskað af hálfu úrskurðarnefndarinnar verði góðfúslega orðið við þeirri beiðni. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi ítrekað birt upplýsingar, myndir og myndbönd af stúlkunni og um það hafi verið fjallað af barnaverndarnefnd, úrskurðarnefnd og fleiri aðilum líkt og ofangreint beri með sér.

Það falli í hlutverk þess aðila sem fari með forsjá barns að gæta hagsmuna þess og að ekki sé fjallað um það á opinberum vettvangi gegn vilja þess. Kærandi snúi út úr þeirri staðreynd að kærandi hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar og haldi því fram að um sé að ræða ærumeiðandi aðdróttanir gegn kæranda. Því sé hins vegar haldið fram að með því að deila gögnum, upplýsingum og myndum um stúlkuna sé gengið inn á friðhelgi hennar enda sé það hlutverk þess aðila sem fer með forsjá stúlkunnar að tryggja með sem bestum hætti að svo verði ekki.

Bent sé á að frá því að kvartað hafi verið til Persónuverndar og kærandi kallar með málefnalegum hætti mistök barnaverndarþjónustunnar, hefur færst í aukanna að fjallað sé um rétt barna þegar kemur að umfjöllun um þau á samfélagsmiðlum og netinu. Persónuvernd hafi t.a.m. gefið út upplýsingabækling til foreldra þar sem komi fram að börn þurfi að samþykkja að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum og að vinnsla á persónuupplýsingum sé háð samþykkis barns eða foreldra. Það sé forsjárforeldri sem fari með þetta lögformlega vald. Kærandi fari ekki með það vald og geti því ekki ákveðið að stúlkan þurfi að þola að upplýsingar um hana séu notaðar með þeim hætti sem verið hefur. Þá hafi umboðsmaður barna einnig gefið út viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum. Loks megi nefna á umfjöllun Fjölmiðlanefndar um norskan dóm sem féll árið 2019. Þar hafði móðir deilt myndum og myndskeiðum af dóttur sinni sem hluti af baráttu sinni við barnaverndarnefnd vegna barnsins. Var athæfið talið hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar. Einnig komi fram að það sé hlutverk foreldra að vernda einkalíf barna sinna. Í þessu tilviki sem hér sé til skoðunar falli það í hlutverk þess aðila sem fer með forsjá stúlkunnar sem sé barnaverndarþjónustan. Þá hafi einnig verið á það minnst að jafnvel þó að neikvæð áhrif af slíkri umfjöllun sjáist minna hjá ungum börnum þurfi að taka tillit til þess að þau geti orðið fyrir neikvæðum viðbrögðum á seinni stigum t.d. á unglingsárum.

Kærandi hafi líkt og bent sé á tjáningarfrelsi og sé frjálst að ræða skoðanir sínar á opinberum vettvangi. Þetta hafi ekki verið dregið í efa þó kærandi haldi því fram. Það að draga barn sem hann hafi ekki forsjá yfir inn í þá umræðu með því að fjalla um það með þeim hætti sem verið hefur geti ekki talist boðlegt. Líkt og kærandi bendir á falli það ekki í hlutverk stjórnvalds að skera úr um hvort háttsemi brjóti gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar en um það verður ekki deilt að það falli í hlut barnaverndarþjónustunnar sem fer með forsjá að vernda hagsmuni þess. Verða því ekki frekari málalengingar um það hér.

Umræddir tölvupóstar höfðu ekki áhrif á vinnslu eða úrlausn umgengnismál kæranda og falla þeir því ekki undir gögn málsins skv. 1. mgr. 45. gr. bvl. Þarna sé um að ræða persónulegar upplýsingar frá fósturforeldrum. Líkt og bent sé á í úrskurðinum réði skýr og eindreginn vilji stúlkunnar sem hafði réttilega áhrif á vinnslu umgengnismálsins.

Líkt og rakið sé í úrskurði sem kveðinn hafi verið upp f.h. barnaverndarþjónustunnar sé afhendingu á umræddum tölvupóstum synjað fyrst og fremst til að tryggja hagsmuni stúlkunnar. Þrátt fyrir að kærandi sé aðili að umgengnismáli við stúlkuna sé barnaverndarþjónustu heimilt skv. 2. mgr. 45. gr. bvl. að takmarka rétt aðila að gögnum einmitt í þeim tilvikum þar sem það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra og aðra, t.d. fósturforeldra.

Mikilvægt sé að takmarka rétt kæranda til aðgangs að þessum tölvupóstsamskiptum í ljósi ofangreinds. Líkt og fram komi í 2. mgr. 45. gr. bvl. samræmist það ekki hagsmunum stúlkunnar né fósturforeldra og tengsla þeirra á milli.

Það sé mikilvægt að tryggt sé að stúlkunni verði ekki gert að þola að upplýsingar um hana, myndir eða gögn um vinnslu málsins hjá B séu birt opinberlega. Það hafi sýnt sig að réttur hennar til þess verður ekki tryggður nema með synjun á afhendingu slíkra gagna. Vísað sé til frekari rökstuðnings hins kærða úrskurðar.

Með vísan til alls ofangreinds sé þess krafist að úrskurðarnefnd staðfesti úrskurð sem kveðinn hafi verið upp f.h. B og þannig synjun á afhendingu tölvupóstsamskipta frá 8. desember 2023 til 23. janúar 2024 á grundvelli 1. og 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í viðbótargreinargerð barnaverndarþjónustunnar, dags. 28. nóvember 2024, kemur fram að í málatilbúnaði kæranda sé byggt á því að barnaverndarþjónustan sé vanhæf á grundvelli ráðgjafar Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) til B. BOFS úrskurðar ekki um vanhæfi heldur sé eingöngu um ráðgjöf að ræða. Líkt og skýrt kom fram í greinargerð barnaverndarþjónustunnar sé því ekki formlegt vanhæfi til staðar. Þrátt fyrir það sé ítrekað að málið hafi verið unnið hjá sveitarfélaginu eins og ef formlegt vanhæfi væri til staðar af hálfu G, þetta hafi verið gert með hagsmuni allra aðila að leiðarljósi og með það að markmiði að hægt væri að vinna málið áfram í sátt um hæfi. Lögmanni kæranda og kæranda ætti að vera kunnugt um þetta enda hafi málið verið að mestu unnið af verktökum í því skyni að koma til móts við þá óvanalegu stöðu sem komin hafi verið upp.

Þrátt fyrir aðkomu verktaka þá sé ljóst að einhver embættismaður þarf að bera ábyrgð og taka ákvarðanir f.h. barnaverndarþjónustunnar varðandi ákveðna þætti og þ. á m. afhendingu á gögnum úr skjalakerfi sveitarfélagsins. Lögum samkvæmt hvíli ábyrgð og skylda á sveitarfélaginu að varðveita gögnin. Því sé það ítrekað sem fram komi í greinargerð barnaverndarþjónustunnar að starfsfólk sveitarfélagsins sem vinna að málinu starfi ekki undir þeim yfirmanni sem haldið sé fram að geri barnaverndarþjónustuna vanhæfa. Lögfræðingur velferðarsviðs hafi úrskurðað um synjun á afhendingu gagna í málinu án aðkomu starfsmanna barnaverndarþjónustunnar. Það hafi verið gert eins og hefur þegar verið rökstutt með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi og sambandi hennar við fósturforeldra og friðhelgi stúlkunnar. Ástæða þess að greinargerðin ber heitið „greinargerð B" sé einmitt vegna þess að lögfræðingur velferðarsviðs hafi tekið ákvörðunina sem annars sé tekin af barnaverndarþjónustunni og því f.h. þjónustunnar. Í viðauka I við bæjarmálasamþykkt B um fullnaðarafgreiðslu mála hjá B samkvæmt 3. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 komi fram í 3. gr. að í forföllum eða fjarveru skrifstofustjóra barnaverndarþjónustunnar leysir lögfræðingur lögfræðideildar á stjórnsýslusviði eða sviðsstjóri velferðarsviðs hann af. Ekki sé unnt að veita lögmanni kæranda aðgang að gögnum úr kerfi barnaverndarþjónustunnar/sveitarfélagsins án þess að starfsmaður sveitarfélagsins komi að þeirri ákvörðun.

Starfsfólk sveitarfélagsins sem hafi komið að afgreiðslu og ákvarðanatökum í máli kæranda hafa haft það að leiðarljósi að vinna að lausn málsins með sem bestum hætti þannig að hagsmunum allra aðila yrði gætt. Engin stoð sé í málatilbúnaði kæranda sem virðist byggjast á því að starfsfólk sveitarfélagsins verði vanhæft komi það að ákvarðanatöku sem sé kæranda á móti skapi.

Ummæli og athugasemdir lögmanns kæranda um myndbirtingar starfsfólks sveitarfélagsins af börnum sínum séu ómálefnalegar. Birting foreldra með forsjá af börnum sínum á persónulegri FB síðu verði ekki borin saman þá myndbirtingu sem forsjárlauss kynfaðir stundi af barni í viðkvæmri og erfiðri stöðu, sem opinber aðili, barnaverndarþjónusta sveitarfélagsins, fari með forsjá yfir. Grundvallaratriðið sé að kynfaðir taki ákvarðanir án tillits til hagsmuna stúlkunnar og setur tilfinningar sínar og reiði gagnvart barnaverndarþjónustunni og fósturforeldrum framar hagsmunum stúlkunnar. Sálfræðingur kynföður hafi einnig bent á að afstöðu hans verði ekki breytt með frekari sálfræðiaðstoð og því ólíklegt að hann muni taka leiðbeiningum og virða friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs stúlkunnar.

Ítrekað sé það sem fram hefur komið í greinargerð barnaverndarþjónustunnar að til þess að tryggja friðhelgi stúlkunnar og vernda samband hennar við fósturforeldra og kynföður verði að hafna afhendingu umbeðinna gagna. Þá sé á það minnt að umbeðin gögn höfðu engin áhrif á vinnslu málsins eða ákvarðanatöku af hálfu barnaverndarþjónustunnar skv. 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að dagálum verktaka og tölvupóstsamskiptum fósturforeldra dóttur kæranda við verktaka málsins, dags. 8. desember 2023 til 23. janúar 2024.

Í kæru er því haldið fram að B sé vanhæf til til þess að taka hina kærðu ákvörðun með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í II. kafla stjórnsýslulaga er að finna reglur um sérstakt hæfi eru sett fram með þeim hætti að þar er tekin afstaða til þess við hvaða aðstæður starfsmaður í stjórnsýslu ríkisins eða sveitarfélaga telst vanhæfur til meðferðar máls. Þessi ákvæði laganna fjalla ekki sérstaklega um hvort stjórnvald sem slíkt verði vanhæft til meðferðar tiltekins máls á grundvelli þeirra sömu vanhæfis­ástæðna og tilgreindar eru í 3. gr. laganna. Í 6. tölul. 3. gr. er kveðið á um að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti, en tilgreint er í 1-5. tölulið ákvæðisins, eru fyrir hendi þær ástæður sem séu fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar liggja engar upplýsingar fyrir um atvik sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni starfsmanna í efa. Þá hefur komið fram að starfsmaður lögfræðideildar G tók hina kærðu ákvörðun en ekki starfsmaður B. Verður því ekki fallist röksemdir kæranda að fyrir hendi sé vanhæfi á grundvelli 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í fyrsta lagi er kærð synjun um afhendingu dagála umgengnismáls kæranda frá þeim tíma er nýr vinnsluaðili tók við meðferð málsins þann 1. apríl 2023 og til þess dags sem óskað hafi verið eftir gögnunum þann 9. febrúar 2024.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi þegar fengið afhent frá vinnsluaðila málsins önnur gögn í málinu, þ.e. dagála.

Í 42. gr. bvl. er fjallað um skráningu upplýsinga. Þar segir að barnaverndarþjónustu ber að skrá upplýsingar um málsatvik sem henni eru veittar munnlega ef hún telur þær geta haft þýðingu fyrir úrlausn máls og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess.

Samkvæmt gögnum málsins sendi vinnsluaðili málsins lögmanni kæranda þann 3. janúar 2024 tvískipta samantekt um aðkomu hans að tengslamati í máli stúlkunnar og kæranda. Í samantektinni er í fyrri hluta hennar gerð grein fyrir samskiptum vinnsluaðila við starfsmenn G frá 8. maí 2023 til 18. desember 2023. Í síðari hluta samantektarinnar er gerð grein m.a. fyrir ályktunum vinnsluaðila í kjölfar viðtala við stúlkuna og kæranda. Þá er á bls. 16 í samantektinni gerð nákvæm grein fyrir viðtali vinnsluaðila við stúlkuna sem átti sér stað 12. desember 2023, þ.e. þær spurningar sem lagðar voru fyrir hana og svör hennar. Með tölvupósti 3. janúar 2024 óskaði lögmaður eftir dagálum og tölvupóstsamskiptum vinnsluaðila við fósturforeldra og lögmann þeirra. Í svari vinnsluaðila við beiðni lögmanns kæranda, dags. 8. janúar 2024, sagði um dagála að vinnsluaðili hafi verið með stílabók á hverjum fundi þar sem hann ritaði það sem fram kom. Hann hafi síðan unnið þá samantekt sem hann sendi lögmanni 3. janúar 2024 upp úr stílabókinni. Lögmaður kæranda mun því hafa fengið þá samantekt sem vinnsluaðili málsins vann upp úr stílabókinni. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta svo á að lögmaður kæranda hafi fengið þau gögn frá vinnsluaðila er ber að skrá og geta haft þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 42. gr. bvl.

Í öðru lagi er kærð synjun um afhendingu tölvupóstsamskipta vinnsluaðila við fósturforeldra frá því hann tók við málinu 1. apríl 2023 og til þess dags sem óskað hafi verið eftir gögnunum þann 9. febrúar 2024.

Í hinni kærðu ákvörðun er tölvupóstsamskiptunum líst sem samskiptaþræði sömu aðila vegna sama máls. Þá segir að í gögnunum sé ekki að finna neinar upplýsingar sem höfðu áhrif á vinnslu málsins eða ákvörðun í umgengnismálinu. Þar sé einungis að finna persónuleg samskipti fósturforeldra og vinnsluaðila í tengslum við framkvæmd tengslamatsins auk þess samtal um samskipti og fyrirkomulag matsins.

Í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um upplýsingarétt aðila máls að skjölum og öðrum gögnum  er mál varðar. Í 17. gr. stjórnsýslulaga er svo fjallað um takmörkun á þeim upplýsingrétti og segir í ákvæðinu að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Um málsmeðferð barnaverndarlaga segir í 38. gr. bvl. að ákvæði stjórnsýslulaga gilda með þeim frávikum sem um greinir í bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. bvl. skal barnaverndarþjónusta með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 2. mgr. 45. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Barnaverndarþjónustan getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Í athugasemdum við lagagreinina segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé það að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Þannig er gert ráð fyrir að barnaverndarþjónusta geti í ákveðnum tilvikum ýmist úrskurðað að aðilar fái aðeins að kynna sér gögn án þess að fá þau afhent eða aðilar skuli ekki hafa aðgang að tilteknum gögnum. Slík gögn geta t.d. verið skýrslur sérfræðinga, er byggja á upplýsingum sem þeir hafi aflað í trúnaðarsamtölum eða gögn með upplýsingum sem eru þess eðlis að óheppilegt geti talist vegna hagsmuna barnsins að aðilar fái þau í hendur eða lesi þau.

Eðli málsins samkvæmt geta upplýsingar um málefni barns verið mjög viðkvæmar og því mikilvægt að aðgangur að þeim séu settar ákveðnar skorður. Hér vegast á ólíkir hagsmunir, en meginreglan er sú að forsjárlaust foreldri á rétt til upplýsinga um hagi barns, sbr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003. Við hagsmunamat á því hvort synja eigi upplýsingagjöf til aðila máls eða gera undanþágur frá meginreglunni, ber einnig að líta til 1. mgr. 17. gr. ssl. Hagsmunir foreldris af því að fá umbeðnar upplýsingar skulu víkja fyrir hagsmunum barnsins, t.d. ef það er talið óheppilegt eða skaðlegt fyrir barnið eða samband barns og foreldis. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið umrædd tölvupóstsamskipti og innihalda þau samskipti milli fósturforeldra og vinnsluaðila um framkvæmd tengslamats og koma þar fram upplýsingar um einkamálefni stúlkunnar og fósturforeldra. Er það niðurstaða  úrskurðarnefndar velferðarmála að umrædd gögn séu þess eðlis að ástæða sé til að takmarka aðgang kæranda að gögnunum með tilliti til ríkra hagsmuna barnsins.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B frá 13. ágúst 2024, um að synja kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna í máli er varðar dóttur hans, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta