Mál nr. 26/2013 - endurupptaka
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Úrskurður er kveðinn upp 25. september 2014 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 26/2013: A gegn barnaverndarnefnd B vegna beiðni um fjárstyrk til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð. Á fundi kærunefndarinnar 10. september síðastliðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Með kæru 28. maí 2014 var kærð ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 23. apríl sama ár varðandi beiðni um styrk til að greiða fyrir lögmannskostnað samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga vegna aðstoðar C hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.
Kveðinn var upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
I. Málavextir og kröfugerð
Mál þetta varðar veitingu fjárstyrks á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, vegna barnaverndarmáls A hjá barnaverndarnefnd B, en hann hafði krafist rýmri umgengni við dóttur sína, D. Kærunefnd barnaverndarmála kvað upp úrskurð vegna þessa sama máls 5. mars 2014, þ.e. vegna veitingar fjárstyrks til kæranda. Málinu var vísað frá kærunefnd barnaverndarmála vegna þess að ekki lá fyrir úrskurður eða stjórnsýsluákvörðun barnaverndarnefndar B sem kæranleg væri til kærunefndarinnar. Kærunefndin leit svo á að málið hefði ekki verið til lykta leitt og var því vísað frá samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með bréfi lögmanns kæranda 19. mars 2014 til barnaverndarnefndar B var þess farið á leit að nefndin tæki endanlega ákvörðun um fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannskostnað samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga vegna hagsmunagæslu lögmannsins í málinu. Beiðnin var afgreidd með bókun á fundi barnaverndarnefndarinnar 23. apríl sama ár.
Með kæru lögmanns kæranda 28. maí 2014 var málið að nýju kært til kærunefndar barnaverndarmála á grundvelli bókunar barnaverndarnefndarinnar frá 23. apríl 2014. Með bókuninni samþykkti barnaverndarnefndin að greiða kæranda styrk vegna lögmannsaðstoðar við hann sem nemi 22 klukkustundum. Tímagjaldið var 14.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda var umrætt vinnuframlag 39,3 klukkustundir. Í kæru lögmannsins er bent á að fyrir liggi tímaskýrsla lögmannsins þar sem 39,3 klukkustundir hafi verið unnar við meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd B, en barnaverndarnefndin hafi einungis samþykkt að greiða fyrir 22 klukkustundir. Ógreiddar klukkustundir séu því 17,3.
Kærandi vísar til fyrri kæru varðandi kröfu sína um greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar kemur meðal annars fram að kærandi krefjist þess að nefndinni verði gert að greiða fyrir alla þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda. Þá er þess krafist, verði ekki fallist á tímaskýrslu lögmannsins, að fá rökstudda útskýringu fyrir hverjum lið hvers vegna hann heyri ekki undir 47. gr. barnaverndarlaga.
Barnaverndarnefnd B hafnar því að greiða kæranda fyrir 39,3 klukkustundir.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi vísar til þess að nauðsynlegt sé fyrir hann að fá samþykktan fullan fjárstyrk miðað við fyrirliggjandi tímaskýrslu. Hann hafði áður vísað til þess að engin gögn hafi legið fyrir í upphafi máls þessa þannig að nauðsynlegt hafi verið fyrir lögmann hans að fá allar upplýsingar frá honum í byrjun. Kærandi vilji líka vera vel upplýstur um stöðu mála og réttarstöðu sína og þurfi að vita hvaða úrræði séu í boði og fleira, sem lögmanni hans þyki sjálfsagt að veita honum, enda sé um mikið hagsmunamál fyrir hann að ræða. Barnaverndarnefnd B telji að önnur atriði en þau sem nefndin hafi samþykkt falli ekki undir 47. gr. barnaverndarlaga eða reglur barnaverndarnefndar B um styrk vegna lögmannsaðstoðar. Því sé mótmælt að verulegur hluti vinnunnar hafi snúið að forsjármáli kæranda, en lítil vinna hjá lögmanninum hafi farið í það, eða samtals 4,25 klukkustundir.
Með tilliti til efnahags kæranda, eðlis og umfangs málsins sé engin ástæða til að takmarka þóknun lögmanns.
Lögmaður kæranda bendir á að barnaverndarnefnd B vilji greina á milli umgengnisþáttar máls þessa og annarra þátta og vísi til þess að kærandi hafi ekki verið aðili málsins þegar ákvörðun um að setja barnið í fóstur var tekin. Faðir barns sem verið sé að setja í fóstur teljist aðili máls, en túlka verði rúmt hver sé aðili máls að stjórnvaldsákvörðun. Teljist ekki aðeins sá sem ákvörðun beinist gegn vera aðili máls, heldur einnig sá sem hefur beina, verulega eða sérstaka lögvarða hagsmuni af stjórnvaldsákvörðun, sbr. H 2003:2685. Kærandi teljist aðili máls vegna þess að hann hafi beina, verulega og sérstaka lögvarða hagsmuni af þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar að vista dóttur hans hjá fósturforeldrum.
III. Sjónarmið barnaverndarnefndar B
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að eftir að hafa farið yfir málið að teknu tilliti til eðlis þess og umfangs, samkvæmt gildandi reglum nefndarinnar um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum, sbr. 2. gr. þeirra reglna, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að greiða kæranda styrk vegna lögmannsaðstoðar við kæranda sem nemi 22 klukkustundum. Samþykkt hafi verið 14.000 króna tímagjald að viðbættum virðisaukaskatti.
Í greinargerð framkvæmdastjóra Fjölskyldudeildar B til kærunefndar barnaverndarmála 2. júlí 2014 kemur fram að ákvörðun barnaverndarnefndar byggi á sömu forsendum og sú ákvörðun sem kynnt hafi verið lögmanni kæranda 30. október 2013 og rökstudd hafi verið með bréfi forstöðumannsins til kærunefndarinnar 20. desember sama ár. Barnaverndarnefndin byggi ákvörðun sína einkum á ákvæðum 2. gr. reglna sinna um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum frá 14. október 2003, þar sem segi að tekið skuli tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs máls þegar veittur sé styrkur vegna lögmannsaðstoðar á grundvelli 46. og 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Nefndin hafi ekki undir höndum gögn um fjárhagsstöðu föðurins og geri ekki ráð fyrir að hún hafi áhrif á styrkhæfni hans. Því sé fyrst og fremst horft til umfangs og eðlis málsins. Ekki sé tekin afstaða til hvers og eins af hinum 42 liðum sem fram komi í tímaskýrslunni, en fallist á að greiða nú fyrir 22 klukkustundir vegna málsins, meðal annars á grundvelli viðbótartíma sem skráðir hafi verið eftir 30. október 2013. Kröfu kæranda um að greitt verði fyrir 39,3 klukkustundir vegna málsins, sem varði aðstoð við foreldri án forsjár til andmæla vegna úrskurðar barnaverndarnefndar B um umgengni við barn í varanlegu fóstri, sé því hafnað með vísan til framangreinds og rökstuðnings í fyrri greinargerð frá 20. desember 2013.
IV. Forsendur og niðurstaða
Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 23. apríl 2014 um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar verði afturkölluð og að nefndinni verði gert að greiða fyrir alla þá vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda. Með hinni kærðu ákvörðun var ákveðið að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar sem nemi 22 klukkustundum á 14.000 króna tímagjaldi, en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda var vinnuframlagið 39,3 klukkustundir.
Hin kærða ákvörðun er byggð á 2. gr. reglna barnaverndarnefndar B um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum sem samþykktar voru af barnaverndarnefnd B 14. október 2003. Í þeirri grein reglnanna segir að veita skuli fjárstyrk að teknu tilliti til efnahags foreldra eða forráðamanna barns, eðlis og umfangs málsins ef málefni þeirra sæta meðferð fyrir barnaverndarnefnd B á grundvelli 46. og 47. gr. barnaverndarlaga. Í 7. gr. reglnanna er einnig vísað til 46. og 47. gr. barnaverndarlaga og sagt að reglurnar skuli kynntar aðilum máls og þeim lögmönnum sem taki að sér að aðstoða þá. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni sem sé aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setur. Enn fremur segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. reglna barnaverndarnefndar B frá 14. október 2003 að lögmaður skuli skila sundurliðaðri tíma- og kostnaðarskýrslu með reikningi. Í 6. gr. reglnanna segir að sömu reglur gildi um lögmannsaðstoð þegar málum sé skotið til kærunefndar barnaverndarmála.
Beiðni kæranda um fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð kom fram með bréfi lögmanns kæranda 14. ágúst 2013 til barnaverndarnefndar B. Í bréfinu er vísað til þess að veittum styrk verði varið til greiðslu lögmannskostnaðar vegna hagsmunagæslu kæranda gagnvart barnaverndarnefndinni vegna dóttur hans. Óskað er eftir því að fjárstyrkurinn nái til þeirrar vinnu sem þegar hafi verið unnin vegna málsins og þeirrar vinnu sem eftir sé. Í kostnaðaráætlun er fjöldi vinnustunda áætlaður á meðan málið er til umfjöllunar hjá barnaverndarnefnd og einnig eru tilgreindar þær stundir sem þegar höfðu verið unnar í málinu.
Í sundurliðaðri tímaskýrslu lögmanns kæranda er vinna lögmannsins tilgreind á tímabilinu 8. júlí 2013 til 19. mars 2014, samtals 39,3 vinnustundir, vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að beiðni lögmanns kæranda um fjárstyrk fylgi tímaskýrsla með 39 færslum á tímabilinu 8. júlí til 28. nóvember 2013 og samanlagður tímafjöldi sé 34 tímar. Þetta er ekki í samræmi við gögn málsins en í greinargerð barnaverndarnefndar B til kærunefndarinnar 4. júlí 2014 kemur fram að beiðni lögmanns kæranda frá 19. mars 2014 hafi fylgt ný tímaskýrsla þar sem færslum hafði verið bætt við fyrri skýrslu eftir 30. október 2013. Það sem fram kemur í greinargerðinni er í samræmi við beiðni lögmannsins til barnaverndarnefndarinnar en þar er þess óskað að í hinni endanlegu ákvörðun um fjárstyrk verði tekið tillit til þess tíma sem fór í að kæra ákvörðun forstöðumanns barnaverndar B sem var eftir 28. nóvember 2013.
Með vísan til alls þessa verður að telja að tímaskýrsla lögmanns kæranada, sem er greinargóð og sundurliðuð, vegna 39,3 klukkustunda vinnu fyrir kæranda við málsmeðferð barnaverndarmáls dóttur kæranda fyrir barnaverndarnefnd B á tímabilinu 8. júlí 2013 til 19. mars 2014, verði ásamt öðrum gögnum málsins höfð til marks um eðli og umfang málsins sem verður að horfa til þegar tekin er ákvörðun samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga og 2. gr. reglna barnaverndarnefndar B frá 14. október 2003 um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar, eins og áður er rakið. Í hinni kærðu ákvörðun kemur ekki fram hvers vegna styrkurinn er takmarkaður við 22 tíma og af henni verður ekki ráðið að litið hafi verið til tímaskýrslunnar sem á við um úrlausnarefnið. Með vísan til þessa verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi hvorki verið byggð á réttum grunni né að færð hafi verið fyrir henni viðhlítandi rök. Af þeim sökum ber að fella hana úr gildi.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Ákvörðun barnaverndarnefndar B, sem tekin var með bókun 23. apríl 2014 í máli A vegna greiðslu þóknunar fyrir lögmannsaðstoð, er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Fyrri úrskurður var kveðinn upp 5. mars 2014