Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 184/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 184/2020

Mánudaginn 24. ágúst 2020

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 16. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, dags. 1. apríl 2020, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X ára en hann er sonur kæranda og D. Foreldrar drengsins fara með sameiginlega forsjá. Mál drengsins hófst vegna tilkynningu frá skóla drengsins 15. janúar 2019. Alls hafa borist 12 tilkynningar í máli drengsins.

Í greinargerð um könnun máls, dags. 12. mars 2020, kemur fram það mat starfsmanna Barnaverndar B að drengurinn hafi orðið vitni af ágreiningi og mögulegum átökum á milli foreldra sinna og þess vegna hafi hann verið í viðtölum hjá listmeðferðarfræðingi. Starfsmenn telji miðað við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu að aðstæður drengsins í umsjá foreldra séu viðunandi. Áhyggjuefni sé að foreldrar geti ekki komið sér saman um að eiga samskipti sín á milli sem hafi ekki neikvæð áhrif á líðan og stöðu drengsins. Móðir muni áfram leita sér aðstoðar fyrir sig og son sinn í nærumhverfi. Ekki sé þörf fyrir að málið vinnist áfram á grundvelli barnaverndarlaga og hafi forsjáraðilum verið sent bréf þess efnis. Ekki hafi verið talin þörf á skipun talsmanns við upphaf könnunar málsins.

Á fundi Barnaverndar B þann 1. apríl 2020 var mál drengsins tekið fyrir og var það niðurstaða fundarins að ekki væri talin ástæða til frekari afskipta af hálfu Barnaverndar B og var málinu því lokað, sbr. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 12. gr. laga nr. 80/2011.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi þann 15. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2020, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust þann 27. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. maí 2020, voru athugasemdir kæranda sendar Barnavernd B til kynningar. Viðbótargreinargerð Barnaverndar B barst með bréfi, dags. 9. júní 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júní 2020, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust 21. júní 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júní 2020, voru þær sendar Barnavernd B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji kæra ákvörðun barnaverndar um að loka máli vegna sonar síns og óskar eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli ítarlega um málið og skili niðurstöðu sem sæmi íslensku réttarfari og stjórnsýslulögum. Kærandi fer fram á að gripið verði til ráðstafana til að fyrirbyggja að barnið verði fyrir frekara ofbeldi af hálfu móður og að hugað verði að lífsgæðum barnsins.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi sé búinn að leggja fram gögn sem Barnavernd B hunsi að taka til skoðunar. Vel hafi verið tekið í tilkynningar sem snúi að kvörtun frá móður og fái hún einhliða aðstoð barnaverndar. Kærandi sé orðinn langþreyttur á ásökunum móður um ofbeldi af hans hálfu og að hann fái enga aðstoð frá barnavernd fyrir sig og son sinn. Í þeim tilfellum sem kærandi hafi sent inn tilkynningu sé gripið til undarlegra raka eins og að lögreglan sé búin að skoða málið. Kærandi heldur því fram að mikið sé kvartað yfir vinnubrögðum lögreglu í barnaverndarmálum af hálfu almennings. Því sé ekki góðs viti að vísa í þeirra verklag. Þá hafi verið fullyrt að tilkynning á grundvelli 17. gr. bvl. sé ekki móttækileg þegar kærandi hafi óskað eftir henni. Tilkynning sem sé send af Greiningar- og ráðgafarstöð ríkisins með vísan í 17. gr. bvl. leiði af sér að ráðgjafar þar hafi orðið vitni af ofbeldi samkvæmt 16. gr. sömu laga. Starfsmaður barnaverndar hafi neitað að taka við slíkri tilkynningu sem kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við.

Kærandi telur að Barnavernd B hafi ekki unnið af heilindum þegar komi að velferð sonar kæranda sem sé langveikt barn. Ekki sé verið að tala um „meint ofbeldi“ en móðir barnsins hafi beitt son þeirra ofbeldi og það ítrekað. Sönnunargögn sýni ofbeldið, drengurinn lýsi ofbeldinu og barnavernd rengi upplifun barnsins af ofbeldi frá móður sinni. Kærandi vilji ítreka það að lögregla sé ekki sérfræðingur í barnaverndarmálum og hjá lögreglu hafi barnið ekki fengið réttargæslumann, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir kæranda þar um til allra aðila á öllum stigum málsins, þar með talið til barnaverndar. Kæranda finnist athyglisvert að allir viðurkenni að hafa séð og móttekið myndböndin. Aðeins tveir aðilar hafi séð ástæðu til að tilkynna og þeirri tilkynningu hafi barnavernd hafnað að taka á móti. Þessir tveir aðilar séu starfsmenn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem séu sérfræðingar í uppeldi barna eins og sonar kæranda. Það sé því vítavert að hunsa slíka tilkynningu.

Að mati kæranda hafi fagaðilar ákveðið að hunsa atvikin og sinna ekki lagalegri skyldu sinni og tilkynna þessa háttsemi. Fólk viti það og eigi að skilja að ofbeldi sem hafi verið beitt einu sinni sé oftast endurtekið, ítrekað og jafnvel alvarlegra. Kærandi spyrji því hvers vegna hann þurfi að þola það að tilkynningar allra færustu sérfræðinga landsins séu hunsaðar og rannsókn lögreglu sé gott og gilt lokasvar.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Barnavernd B krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Barnaverndarmál séu undantekningalítið viðkvæm mál sem fjalli um mikilvæga hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra. Meginmarkmið barnaverndarstarfs sé að tryggja að börn, sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Jafnframt skuli leitast við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við. Samkvæmt þeim meginreglum barnaverndarstarfs sem settar séu fram í 4. gr. bvl., skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu og hafa ávallt hagsmuni barna í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. og ákvæði 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í 4. mgr. 4. gr. bvl. komi fram að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra. Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir samvinnu að á milli barnaverndaryfirvalda og foreldra að hún þjóni fyrst og fremst hagsmunum barnsins. Í 7. mgr. sama ákvæðis komi fram að úrræði barnaverndarnefnda skuli ávallt miða við að vægustu ráðstöfunum sé beitt til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því skuli aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmætum markmiðum verður ekki náð með öðru og vægara móti. Í samræmi við markmið laganna séu barnaverndaryfirvöldum fengnar ýmsar heimildir til að hafa afskipti af málum barna þegar hagsmunir barna krefjist þess. Meðal annars sé kveðið á um að sé það niðurstaða eftir könnun að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögunum skuli barnaverndarnefnd gera skriflega áætlun um meðferð málsins í samvinnu við foreldra samkvæmt 23. gr. bvl. um frekari meðferð máls, sbr. og 24. gr. sömu laga. Ef ekki náist samkomulag við foreldra sé gert ráð fyrir því í 4. mgr. 23. gr. laganna að barnaverndarnefnd semji einhliða áætlun um framvindu málsins og beitingu úrræða. Áætlun skuli kynnt foreldrum þar sem kveðið sé á um tillögur um beitingu tiltekinna þvingunarrúrræða sem nauðsynlegt þyki að grípa til.

Í máli þessu hafi það verið niðurstaða starfsmanna Barnaverndar B í kjölfar könnunar málsins að ekki væri þörf á að mál drengsins yrði unnið frekar á grundvelli barnaverndarlaga. Ljóst væri að móðir væri í góðri samvinnu við þjónustumiðstöð og væri að þiggja allan stuðning sem henni byðist vegna drengsins, auk þess sem fyrirliggjandi upplýsingar hafi gefið tilefni til að aðstæður drengsins í umsjá foreldra væru viðunandi.

Í dagál, dags. 3. janúar 2020, séu tölvupóstsamskipti á milli deildarstjóra Barnaverndar B og föður þar sem meðal annars komi fram að faðir hafi sent deildarstjóra myndbandsupptökur. Samkvæmt upplýsingum frá deildarstjóra hafi myndböndin verið skoðuð og lögreglu send myndböndin en kærandi hafi kært hið meinta ofbeldi þangað. Tilkynning í máli drengsins, dags. 25. febrúar 2020, frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi verið móttekin þann 3. mars 2020 og sé hún hluti af gögnum málsins sem hafi verið afhent úrskurðarnefnd. Þar komi meðal annars fram að faðir hafi sent Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins myndbandsupptökur og yrðu þær sendar barnavernd ef þess yrði óskað. Eins og fyrr greinir hafi kærandi þá þegar sent umrædd myndbönd til barnaverndar.

VI.  Niðurstaða

C er X ára gamall og fara foreldrar hans með sameiginlega forsjá. Kærandi er faðir drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð barnaverndar. Hann gerir athugasemdir við að starfsmaður barnaverndar hafi neitað að taka við tilkynningu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Í málinu liggur fyrir að barnavernd hafi móttekið tilkynningu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Því fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á það með kæranda að starfsmaður barnaverndar hafi neitað að taka við tilkynningunni, enda liggur fyrir í niðurstöðu könnunar, dags. 12. mars 2020, að tilkynningin hafi verið meðal þeirra gagna sem lögð voru til grundvallar.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn, sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti í málinu og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Í dagáli Barnaverndar B, dags. 11. mars 2020, kemur fram að starfsmaður barnaverndar hafi haft samband í síma við félagsráðgjafa hjá Þjónustumiðstöð E þar sem fram kom að hún væri búin að hitta móður drengsins og væri að undirbúa stuðning. Þá kvaðst félagsráðgjafi vera að skoða tilsjón og stuðning heima fyrir ásamt námskeiði og hópastarfi fyrir drenginn. Þá tók félagsráðgjafi fram að móðir væri til fullrar samvinnu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að rétt hafi verið af hálfu barnaverndar að loka máli vegna drengsins á þessu stigi. Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að staðfesta verði hina kærðu ákvörðun Barnaverndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 1. apríl 2020, um að loka máli vegna drengsins C, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta