Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 91/204-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 91/2024

Fimmtudaginn 30. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. desember 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í maímánuði 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. desember 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 153.909 kr., að meðtöldu 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 15. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa mætt til vinnu 16. maí 2023 og unnið töluverða yfirvinnu á tímabilinu 16. maí 2023 til 31. maí 2023 vegna álags og uppsafnaðrar vinnu vegna orlofs. Á tímabilinu hafi kærandi skilað 84 dagvinnutímum og 26,64 yfirvinnutímum sem hann hafi skráð samviskusamlega í Excel. Þar sem kærandi sé að jafnaði á jafnaðarkaupi hafi verið ákveðið í samráði við löggiltan endurskoðanda að kærandi myndi fá greitt í samræmi við þann taxta, sbr. meðfylgjandi gögn. Kærandi hafi aldrei heyrt um það að mönnum sé refsað fyrir það að vera duglegir að vinna eftir fæðingarorlof til þess að reyna að greiða skuldir sem hafi safnast upp eftir töku fæðingarorlofs.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir maí 2023 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínu félagi á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. ágúst 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir maí 2023. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Þann 21. ágúst 2023 hafi borist tölvupóstur frá kæranda en þar sem hvorki launaseðlar né tímaskýrslur hefðu borist að fresti liðnum hafi kæranda verið send ítrekun, dags. 6. september 2023. Þar sem engin gögn hefðu borist að fresti liðnum hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 26. september 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á útborgaðri fjárhæð, ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna. Launaseðill og skýringar hafi loks borist frá kæranda þann 28. september 2023 og frekari skýringar ásamt tímaskýrslu 23. til 26. október 2023. Ný greiðsluáskoðun hafi verið send kæranda, dags. 28. desember 2023, og það sé hin kærða ákvörðun.  

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Óumdeilt sé að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 og hafi öðlast tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem sjálfstætt starfandi.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. sé starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Þegar foreldri sé sjálfstætt starfandi skuli það tekið fram í umsókninni og tilgreint um fyrirhugaðan upphafsdag, lengd og tilhögun fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 20. gr.  

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.  

Með umsókn kæranda, dags. 17. janúar 2023, hafi hann sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuð vegna barns sem hafi fæðst X 2022. Tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda, dags. 16. janúar 2023, og hann hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 17. janúar 2023.  

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs í maí 2023 verið 370.491 kr. Frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi fæðingarorlofs þann 1. júlí 2022 hefðu þau hækkað í 454.417 kr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs, sem hafi verið miðað við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, honum til hagsbóta, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr.

Tímabilið 1. til 15. maí 2023 hafi kærandi fengið greiddar 296.393 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 454.417 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 158.024 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir maí 2023 hafi kærandi þegið 664.357 kr. í laun, eða 332.179 kr. í réttu hlutfalli við fæðingarorlof kæranda tímabilið 1. til 15. maí, en það sé sú fjárhæð sem ákvörðun um ofgreiðslu hafi verið miðuð við. Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að um sé að ræða laun vegna maí 2023. Hann hafi því fengið 174.155 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir maí 2023 sé því 133.834 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í málinu hafi kærandi haldið því fram að greiðslur til hans í maí 2023 tilheyri vinnu sem hafi verið unnin á öðru tímabili en því tímabili sem hann hafi verið skráður í fæðingarorlof. Greiðslur til kæranda á tímabilinu séu greiddar af B ehf., félagi í eigu kæranda. Kærandi hafi því verið sjálfstætt starfandi á þeim tíma er hann hafi nýtt rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þann 25. október 2023 hafi kærandi lagt fram tímaskýrslu vegna tímabilsins 1. til 31. maí 2023, ásamt afriti af tölvupóstsamskiptum við bókara sinn, dags. 2. október 2023. Af tölvupóstinum megi sjá að ekki hafi legið fyrir tímaskýrsla vegna maí 2023 við upphaf málsins heldur hafi verið ákveðið að útbúa hana undir rekstri þess sem og með hvaða hætti það yrði gert og frá hvaða tíma kærandi ætti að segjast hafa byrjað að vinna. Framlögð tímaskýrsla og skýringar kæranda samrýmist ekki öðrum gögnum málsins en á launaseðli fyrir maí 2023 komi fram að um heildargreiðslu sé að ræða fyrir tímabilið 1. til 31. maí án þess að laun séu nánar sundurliðuð eða skilgreind, svo sem í dagvinnu og yfirvinnu eða á tiltekin tímabil innan mánaðarins. Þá liggi fyrir staðfesting frá Skattinum um að kærandi hafi ekki gert breytingar á launagreiðendaskrá vegna maí 2023. Þannig styðji gögn málsins ekki að kærandi hafi lagt niður störf og fallið af launum þann tíma sem hann hafi verið skráður í fæðingarorlof tímabilið 1. til 15. maí 2023.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem gögn málsins styðji ekki að kærandi hafi lagt niður störf og fallið af launum hjá eigin félagi tímabilið 1. til 15. maí verði ekki séð að kæranda verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt því sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 133.834 kr. útborgað að viðbættu 15% álagi, 20.075 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 153.909 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 28. desember 2023.  

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023.

Í V. kafla laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. 25. gr. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 144/2020 að gert sé ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi. Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 25. gr. skulu eingöngu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið að átt sé við tímabil sem hefjist frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og ljúki frá og með þeim degi sem foreldrið nýti ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar. Hið sama gildi hvort sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli á fyrrnefndu tímabili.

Í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi, sbr. 9. málsl. ákvæðisins.

Um framangreint er ítarlega fjallað í athugasemdum með ákvæði 25. gr. í frumvarpi til laga nr. 144/2020 en þar segir meðal annars svo:

„Ljóst er að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eiga eingöngu að bæta þann tekjumissi sem foreldrar verða fyrir er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri bættan tekjumissinn, sem Fæðingarorlofssjóði er ætlað að bæta, frá vinnuveitanda þykir eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Er því eins og áður segir miðað við að greiðslur sem eru hærri en sem nemur mismun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris á mánuði á viðmiðunartímabili komi til frádráttar fæðingarorlofsgreiðslum. Er þar með tekið tillit til þess að vinnuveitandi geti bætt starfsmanni sínum upp þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóður bætir ekki. Er því við það miðað í frumvarpinu að foreldrar geti hagað störfum sínum líkt og þeir kjósa utan þess tíma er þeir eru skráðir í fæðingarorlof án þess að það hafi áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Þannig á það ekki að koma að sök, í tengslum við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabil þar sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs, þótt foreldri hafi unnið fleiri yfirvinnutíma en á viðmiðunartímabili eða tekið að sér aukavaktir rétt fyrir töku fæðingarorlofs enda oftast eðlilegar ástæður sem liggja þar að baki, svo sem vinna við stór verkefni eða breytt vaktafyrirkomulag. Í því sambandi skiptir það jafnframt ekki máli þótt vinnan hafi farið fram innan sama almanaksmánaðar og fæðingarorlof hófst svo lengi sem vinnan fór fram áður en orlofið hófst.“

Þá segir í 10. málsl. 1. mgr. 25. gr.  að ef foreldri hafi fengið óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir fæðingarorlof eða meðan á fæðingarorlofi standi miðað við tekjur á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.–3. mgr. 23. gr. þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir sama tímabil og það tímabil sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs skuli Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafi verið ætlaðar. Hið sama gildi um óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris á tímabili þar sem foreldri hafi minnkað starfshlutfall sitt samhliða nýtingu réttar til fæðingarorlofs, sbr. 11. málsl. ákvæðisins. Að endingu segir í 12. málsl. 1. mgr. 25. gr. að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir gera lög nr. 144/2020 ráð fyrir því að einstaklingar geti skipt fæðingarorlofi sínu niður í nokkur tímabil og þá stundað vinnu á öðrum tímabilum en fæðingarorlof er tekið. Eins að hægt sé að nýta rétt til fæðingarorlofs samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 13. gr. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X 2022. Kærandi skipti fæðingarorlofi sínu á fleiri en eitt tímabil. Fyrst 100% í júlí 2022, síðan 100% á tímabilinu febrúar 2023 til apríl 2023 og svo 50% í maí 2023, sbr. greiðsluáætlun frá 17. janúar 2023, eða dagana 1. til 15. maí 2023.

Fyrir liggur að kærandi starfaði hjá B ehf., félagi í eigu kæranda, samhliða töku fæðingarorlofs. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort launagreiðslur kæranda í maí 2023 eigi að skerða greiðslur til hans frá Fæðingarorlofssjóði. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi mætt til vinnu 16. maí 2023 og unnið töluverða yfirvinnu út þann mánuð vegna álags og uppsafnaðrar vinnu vegna orlofs. Á tímabilinu hafi kærandi skilað 84 dagvinnutímum og 26,64 yfirvinnutímum. Kærandi lagði fram launaseðil fyrir maímánuð 2023 og tímaskýrslu vegna tímabilsins 16. til 31. maí 2023. Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til þess að gögn málsins styðji ekki að kærandi hafi lagt niður störf og fallið af launum þann tíma sem hann hafi verið skráður í fæðingarorlof. Framlögð tímaskýrsla og skýringar kæranda samrýmist ekki öðrum gögnum málsins þar sem hvorki sé tilgreint tiltekið tímabil á launaseðli maímánaðar 2023 né séu launin sundurliðuð í dagvinnu eða yfirvinnu. Þá hefur sjóðurinn vísað til þess að engar breytingar hafi verið gerðar á launagreiðendaskrá Skattsins vegna maímánaðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreinda afstöðu Fæðingarorlofssjóðs. Á launaseðli fyrir maímánuð 2023 kemur fram að um sé að ræða heil mánaðarlaun fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2023 án nokkurs sundurliðunar á þeirri upphæð eða á dagvinnu og yfirvinnu. Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og viðskiptafræðings sem sér um bókhald B ehf. er ljóst að ekki lágu fyrir samtímagögn um vinnustundir kæranda í maímánuði, enda leggur viðskiptafræðingurinn til að útbúin sé tímaskýrsla með ákveðnum tímalaunum út frá mánaðarlaunum ef Fæðingarorlofssjóður sé ekki til í að afgreiða málið út frá skýringum kæranda um mikla yfirvinnu á tímabilinu 16. til 31. maí 2023. Í kjölfarið kom fram Excel skjal með sundurliðun tíma og launa. Í framangreindu ákvæði 10. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 kemur skýrt fram að Vinnumálastofnun skuli óska eftir því að foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur voru ætlaðar. Að mati úrskurðarnefndar liggja ekki fyrir slík gögn, þ.e. um að laun kæranda í maímánuði séu einungis vegna tímabilsins 16. til 31. maí 2023.

Í greiðsluáætlun frá 17. janúar 2023 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá janúar 2021 til og með desember 2021, hafi verið 740.982 kr. og áætluð greiðslufjárhæð á mánuði miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 592.785 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi töku fæðingarorlofs þann 1. júlí 2022 höfðu þau hækkað í 908.834 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Tekið var mið af þeirri fjárhæð við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020, kæranda til hagsbóta.

Kærandi fékk greiddar 296.393 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023 og var á þeim tíma einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs, 454.417 kr., og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, eða 158.024 kr. án þess að greiðslur frá vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi fékk greiddar 664.357 kr. í laun fyrir maímánuð 2023, eða 332.179 kr. fyrir tímabilið 1. til 15. maí og fékk því greiddar 174.155 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Ofgreiðsla fyrir maímánuð 2023 nam því 133.834 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í samræmi við framangreint nemur fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda 153.909 kr. en ekki liggja fyrir skrifleg gögn um að kæranda verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023 því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. desember 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. til 15. maí 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta