Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 48/2001

Þriðjudaginn, 18. desember 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 17. september 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 13. september 2001.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanneskju, með bréfi dags. 15. júní 2001.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Ég fæddi stúlkubarn þann 7. júní 2001. Síðustu 12 mánuðir fyrir fæðingu barns var þannig hagað:

Júní-ágúst 2000: Vann sumarvinnu í B. Ágúst 2000: Vinn að 5 eininga verkefni hjá D, undir handleiðslu E, prófessors við læknadeild H.Í. Auk þess tek ég haustpróf við líffræðiskor H.Í. September 2000-febrúar 2001: Lokamisseri mitt við líffræðiskor H.Í, útskrifast frá H.Í þann 3. febrúar. Febrúar 2001: Vinn sem líffræðingur hjá D. Mars 2001-júní 2001: Er sjúkraskrifuð, algjörlega óvinnufær vegna háþrýstings og fæ sjúkradagpeninga greidda frá Tryggingastofnun ríkisins. (Sjúkravottorð liggur hjá Tryggingastofnun ríkisins ásamt umsókn minni).

Á þessu má því glöggt sjá að við mínar aðstæður hefði ég aldrei getað uppfyllt 6 mánaða samfellt nám þar sem ég útskrifast í febrúar. Þó lítur Háskólinn svo á að ég sé skráð í fullt nám frá júní 2000-febrúar 2001. Ég hefði heldur aldrei getað uppfyllt kröfur um 6 mánaða samfellda vinnu, þó ég hefði unnið fram á fæðingardag eftir útskrift mína frá H.Í. Ég tel því að ég hafi verið svipt rétti mínum til hærri fæðingarstyrks vegna náms. Það er skilningur minn að með nýju kerfi sem tók gildi um áramót 2000/2001, hafi ekki lengur verið hægt að leggja til jafns nám og vinnu (sumarvinnu í mínu tilfelli).

Þó er augljóst að stúdentar við H.Í útskrifast á mismunandi tímum árs og samkvæmt nýju reglunum er stúdentum sem útskrifast í febrúar gert ókleyft að eignast börn á fyrri hluta árs, þar sem ekki er fræðilegur möguleiki að uppfylla kröfuna um 6 mánaðar samfellt nám. Fólk yrði alltaf að passa uppá að vera búið að vinna samfellt í 6 mánuði eftir útskrift til að eiga þá a.m.k. rétt á fæðingarorlofi. Þetta tel ég ekki vera réttlátt, og er ekki sátt við að lenda í öðrum flokk hvað greiðslur í fæðingarorlofi varðar, en ég augljóslega tilheyri.

Auk þess legg ég fram kæru vegna þess að umsókn mín um að lengja fæðingarorlof vegna veikinda minna á meðgöngu var hafnað, á þeim grundvelli að ég var námsmaður.

Eins og sjá á umsókn minni sæki ég um að fá að hefja greiðslur mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þjónustufulltrúi á staðnum tilkynnti mér þá að því yrði tvímælalaust hafnað þar sem ég var námsmaður. Hinsvegar hefur mér ekki borist nein tilkynning frá Tryggingastofnun ríkisins um það hvort ég hafi rétt á því samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar á því að ég sé ekki námsmaður. Óska ég hér með eftir skýringu á því."

Með bréfi, dags. 19. september 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 26. nóvember 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með umsókn dags. 18. apríl 2001 sótti A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður frá 1. júní vegna væntanlegrar fæðingar 10. júní. Með umsókninni fylgdi staðfesting frá Háskóla Íslands um að hún var skráður stúdent við Háskóla Íslands frá 1. júní 2000 til 3. febrúar 2001 í fullu námi. Vegna þess að í staðfestingunni kom fram að hún hefði verið í fullu námi sumarið 2000 var haft samband símleiðis við nemendaskrá Háskóla Íslands og fengust þær upplýsingar að ekki hafði í raun verið um fullt nám að ræða ... á þeim tíma. Það sama kom síðan fram í símtali við ... A sjálfa og er það einnig staðfest í kæru hennar með því að í júní-ágúst 2000 kveðst hún hafa verið að vinna sumarvinnu, í ágúst 2000 hafi hún unnið að 5 eininga verkefni hjá D (en fullt nám við Háskóla Íslands er almennt 15 einingar á hverri önn) auk þess sem hún hafi tekið haustpróf (þ.e. tekið próf sem hún átti eftir að taka frá því um veturinn 1999-2000).

Með bréfi dags. 15. júní var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks vegna náms á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um sex mánaða samfellt nám á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir m.a..:

"Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks..."

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er nánar fjallað um hvað sé fullt nám í skilningi laganna en þar segir m.a. í 1., og 2. mgr.:

"Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. ...

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur."

A kærir það einnig að hafnað hafi verið umsókn hennar um að lengja fæðingarorlof vegna veikinda sinna á meðgöngu og bendir á að á umsókn sinni sæki hún um að hefja greiðslur mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þjónustufulltrúi á staðnum hafi tilkynnt henni að því yrði tvímælalaust hafnað þar sem hún væri námsmaður.

Í greinargerð með frumvarpi til laganna sem er fjallað um það hvenær greiðslur fæðingarstyrks geti hafist í athugasemdum með 5. mgr. 19. gr. þar sem segir:

"Lagt er til að greiðslur skulu inntar af hendi mánaðarlega og hefjast þær næstu mánaðamót eftir að barn fæðist. Er þá greitt fyrir fæðingarmánuð barns óháð því hvaða mánaðardag barn fæðist. Miðast því upphaf þess tímabils sem fæðingarstyrkur greiðist fyrir við fyrsta dag fæðingarmánuð barns nema foreldri ákveði að greiðslur skuli hefjast síðar."

Í greinargerð með 5. mgr. 19. gr. kemur þannig fram að ekki er ætlast til þess að greiðslur fæðingarstyrks geti hafist fyrir fæðingarmánuð barns. Þá kemur í umsókn A fram á 3 bls. (í kaflanum þar sem óskað er eftir greiðslu fæðingarstyrks) að hún óski eftir að greiðslur hefjist í júní en á bls. 2 (í kaflanum þar sem óskað er eftir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og á ekki við ef sótt er um fæðingarstyrk) hafði hún skrifað að hún óskaði eftir að hefja fæðingarorlof/styrk í maí 2001, þ.e. mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Á umsókn hennar var þannig að finna misvísandi upplýsingar um það hvenær hún óskaði eftir að greiðslur hæfust og var umsókn hennar afgreidd í samræmi við það sem kom fram á þeim stað sem átti við um það sem hún var að sækja um, þ.e. í kaflanum um fæðingarstyrk, enda voru þær upplýsingar sem þar komu fram í samræmi við þær reglur sem gilda um þær greiðslur.

Einnig skal bent á það að í ffl. er hvorki að finna ákvæði sem heimilar lengingu á greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu né ákvæði sem heimilar að greiðsla fæðingarstyrks geti hafist mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eins og er í 2. mgr. 8. gr. og 4. mgr. 17. gr. varðandi greiðslur til konu úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. ef kona hefur verið í vinnu.

Tryggingastofnun ríkisins telur samkvæmt framansögðu að A hafi ekki verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og að hún uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar fyrir því að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður. Jafnframt er ljóst að þegar greiddur er fæðingarstyrkur er hvorki um að ræða heimild til lengingar á greiðslum vegna veikinda á meðgöngu né að greiðslur geti hafist fyrir fæðingarmánuð barns."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. nóvember 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. desember 2001, þar segir m.a.:

"Ég, A legg hér með fram hörð mótmæli við niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins varðandi kæru mína (48/2001).

Það kemur ekkert fram í niðurstöðum þeirra sem ekki var vitað áður. Það er nokkuð ljóst að haustmisseri við Háskóla Íslands er ekki nema 5 mánuðir og því ekki möguleiki fyrir mig að uppfylla kröfurnar um 6 mánaða samfellt nám, þar sem ég útskrifast í febrúar. Það óréttlæti sem ég er að reyna að benda á er að stúdínur sem útskrifast á þessum tíma árs hafa enga möguleika á að eignast barn fyrr en um haustið, ágúst í fyrsta lagi. Ef þær eignast barn fyrir þann tíma, t.d. í júní eins og ég, þá missa þær allan rétt til fæðingarorlofs þar sem þær geta þá heldur ekki uppfyllt kröfuna um 6 mánaða samfellda vinnu eftir útskrift. Að líta þannig á málið að nýútskrifað fólk hafi skilað því sem nemur 75% vinnu eða minna eða hafa verið heimavinnandi, er bara ekki rétt.

Ég tel það vera mikið réttindamál stúdenta að þetta verði lagað í lögunum, ég tel það vera hrein og bein mismunun á fólki að gera stúdínum ekki kleyft að stofna til fjölskyldu eftir áralangt nám við Háskólann fyrr en eftir einhvern ákveðinn tíma. Konur sem útskrifast á vorin eða haustin lenda ekki í þessari klemmu. Þess vegna tel ég mig ekki vera að biðja um eitthvað sem mér ekki ber að fá, ég lít þannig á málið að kerfið hafi brugðist mér, og öllum konum í minni aðstöðu, og að breytinga sé þörf.

Hvað varðar annað ákæruatriði mitt þar sem mér var hafnað um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu minni, þá er það sett þannig fram í niðurstöðum Tryggingastofnunar að ég hafi merkt í "vitlausan reit". Ég get ekki annað en fórnað höndum yfir þeirri niðurstöðu en verð víst að viðurkenna hana. Hinsvegar finnst mér afar undarlegt að þjónustufulltrúar hjá Tryggingastofnun geti ekki aðstoðað mann betur en þetta við útfyllingu á eyðublöðunum, ef þeir kunna ekki á kerfið, hver þá?

Að lokum vil ég koma fram kvörtun á afgreiðslu málsins. Tryggingastofnun ríkisins átti að skila inn greinargerð til úrskurðarnefndar þann 3. október, en ekkert sást frá þeim fyrr en 28. nóvember. Með þessu er verið að sýna fram á mikið virðingarleysi, og ég spyr: ef reglur eru reglur, hljóta þær þá ekki að eiga við Tryggingastofnun líka? "

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2001 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt á því að fá greiddan fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna telst vera 75-100% samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn 7. júní 2001, tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu telst því vera júní 2000 til maí 2001. Háskóli Íslands staðfesti með vottorði að hún hafi verið skráð í fullt nám frá 1. júní 2000 til 3. febrúar 2001. Einnig hefur prófessor við læknadeild skólans staðfest að kærandi hafi unnið að fimm eininga verkefni hjá D í ágúst 2000 og fram eftir hausti. Kærandi uppfyllir samkvæmt framangreindu skilyrði þess að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður.

Kærandi óskaði eftir lengingu fæðingarorlofs, skilyrði þess samkvæmt 7. gr. ffl. er að þunguð kona hafi lagt niður störf vegna heilsufarsástæðna. Þar sem kærandi telst námsmaður að mati úrskurðarnefndarinnar, uppfyllir hún ekki skilyrði laganna fyrir lengingu fæðingarorlofs og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi hefur með námi sínu samkvæmt framangreindu áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi, með hliðsjón af því er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er hafnað. Greiðslur til kæranda skulu vera í samræmi við ákvæði laganna, um greiðslu fæðingarstyrks til námsmanns í fullu námi.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta