Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 24/2001

Þriðjudaginn, 11. september 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 27. júní 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. júní 2001.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu til kæranda í fæðingarorlofi.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Kærandi tilkynnir töku fæðingarorlofs frá 21. maí 2001 til 18. júní 2001.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 7. júní 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í kæru þessari óskar kærandi eftir því að tekið verði tillit til þess að hann hafi óskað eftir því að gera breytingu á tilhögun fæðingarorlofsins, en Tryggingastofnun ríkisins ekki orðið við þeirri beiðni. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Ástæða þess að ég undirritaður kæri þetta greiðslufyrirkomulag er tilkomið vegna þess að ég ætlaði að gera breytingu á tilhögun þeirra. Miðað var við áætlaðan fæðingardag barns sem var 20.05.01. Þá var tekið meðaltal frá mars 2000 til febrúar 2001. Þar sem ekki er hægt að panta fæðingardag fyrirfram, þá fæddist barnið ekki fyrr en 02.06.01. Þar sem 20.05.01. var aðeins áætlaður fæðingardagur. Vildi ég þá gera breytingar á meðaltalinu fyrir greiðsluna og taka frá apríl 2000 til mars 2001 enda töluverðir hagsmunir fyrir mig. Hafði ég þá samband við Tryggingastofnun ríkisins strax á þriðjudeginum 05.06.01. og fékk þau svör að þetta ætti ekki að vera mikið vandamál. Var ég beðinn að hafa samband seinna í vikunni til að fá nánar að vita um framvindu þessa máls, enda var sagt að vinnuveitandi hefði ekki haft samband og tilkynnt mig í feðraorlof.

Hafði ég þá samband við vinnuveitanda og lét hann vita að ég & [hefði hafið] töku feðraorlofs enda var um það samið hjá okkur að fyrirvari væri á dagsetningunni á tilkynningunni til hans og ég mundi hefja töku orlofsins um leið og barnið fæddist. Vinnuveitandi sagði jafnframt að hún þyrfti ekki að skila neinu inn til Tryggingastofnunar ríkisins. Hafði ég þá samband við Tryggingastofnun ríkisins á föstudeginum, 08.06.01. og talaði við B, þá var allt annað komið upp á teninginn hún tilkynnti mér það að búið væri að greiða mér 33% af greiðslunni, og sagði mér jafnframt að það hefði verið tekið mið af 21.05.01. til 18.06.01. sem fram kom á umsókninni á bls. 2. Það er ekki rétt og er meðfylgjandi ljósrit því til staðfestingar. Þessi dagsetning kemur aðeins fram á tilkynningunni til vinnuveitanda. Ég skildi þennan reit óútfylltan vegna þess að ég ætlaði að tilkynna töku feðraorlofs um leið og barnið fæddist enda er það rökrétt. Það kemur einnig fram í bæklingi frá Tryggingastofnun að faðir geti hafið töku feðraorlofs frá fæðingardegi barns...

Það er hjákátlegt að faðir sé búinn með helming orlofsins áður en barnið fæðist. Þetta er engan veginn ásættanlegt að 33% af greiðslunni séu þegar greidd og til að toppa allt er ekkert skattkort með í dæminu, það hlýtur að teljast eðlilegt að ég vilji nýta mér minn persónuafslátt. Ég er jú í vinnu annarsstaðar og er að nota skattkortið þar. Orðrétt stendur á meðfylgjandi ljósriti bls. 4. "Með undirskrift sinni staðfestir foreldri jafnframt að Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar verði látið vita um ófyrirsjáanlegar breytingar á aðstæðum sínum sem áhrif hafa á afgreiðslu umsóknar þessarar og/eða greiðslur samkvæmt henni."

Svo þegar til kastana kemur þá er allt afgreitt og ekki hægt að hrófla við einu né neinu nema hugsanlega með svona kærubréfi. Hér með krefst ég þess og tel það vera minn rétt að þetta verði leiðrétt."

Með bréfi, dags. 3. júlí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 13. júlí 2001. Í greinargerðinni segir:

"Þann 2. apríl 2001 barst umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna áætlaðrar fæðingar barns þann 20. maí dags. 19. mars 2001. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. 21. mars 2001 þar sem tímabil fæðingarorlofs var tilgreint 21. maí-18. júní 2001 en ekki var þar að finna neinar upplýsingar um að gerður hefði verið fyrirvari um að hann myndi hefja töku fæðingarorlofsins um leið og barnið fæddist.

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 ber starfsmanni að tilkynna vinnuveitanda um væntanlega töku fæðingarorlofs í síðasta lagi 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag og sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til Tryggingastofnunar ríkisins 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að tilhögun fæðingarorlofs sé breytt eftir að samið hefur verið um töku fæðingarorlofsins við vinnuveitanda og sótt hefur verið um greiðslur.

Barn A fæddist þann 2. júní 2001, þ.e. 13 dögum eftir áætlaðan fæðingardag, sem er innan eðlilegra frávika frá áætluðum fæðingardegi. Það var því ekki um að ræða ófyrirsjáanlegar breytingar á aðstæðum hans sem áhrif hefðu á afgreiðslu umsóknar hans og/eða greiðslur samkvæmt henni.

Lífeyristryggingasvið telur að skýr heimild þurfi að liggja fyrir um hvort og/eða hvenær sé heimilt að breyta tilhögun fæðingarorlofs og óskar hér með eftir úrskurði nefndarinnar."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2001, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Þann 17. ágúst 2001 bárust athugasemdir frá kæranda, en þar segir m.a.:

"Það er rétt að þar var ekki að finna neinar upplýsingar aðrar en dags. 21. maí-18. júní 2001, enda er tilkynningin þannig úr garði gerð að það er óskað eftir því. Orðrétt stendur. Upphafsdagur fæðingarorlofs, dag, mán., ár. Lok fæðingarorlofs, dag, mán., ár. Reyndar var samkomulag milli mín og vinnuveitenda að ég mundi hefja töku feðraorlofs miðað við fæðingardag barns, en okkur þótti rétt að fylla út reitina, dag, mán., ár, út frá áætluðum fæðingardegi.

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 stendur orðrétt. "Fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt lögum þessum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við a. fæðingu["] einnig stendur "Réttur til fæðingarorlofs stofnast til við fæðingu barns" Þessi klausa "Barn A fæddist... og/eða greiðslur samkvæmt henni" er að mínu mati algjörlega út út korti. Hver eru eðlileg frávik? Orlofið rétt tæplega hálfnað áður en barnið fæðist. Þetta hafði reyndar ófyrirsjáanlegar breytingar í för með sér, áætlaður fæðingardagur er ekki endilega fæðingardagur. Þar sem barnið okkar fæddist ekki fyrr en 2. júní 2001, þá breyttist meðaltal launagreiðslna síðastliðna 12 mán. talsvert, inn kemur mars með launaleiðréttingu vegna kjarasamninga sem eru talsverðir hagsmunir fyrir mig. Í lögunum stendur. 2. gr. Markmið.

"Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði föður og móður." Þá hlýtur að vera átt við utan móðurkviðs, það reyndar fellur um sjálft sig ef 13 dagar eru "eðlileg frávik" Ég tel að það sem undan er skrifað sé skýr heimild til að leiðrétta þetta því einfaldlega rétt skal vera rétt."

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrirhugaðrar töku fæðingarorlofs tímabilið 21. maí 2001 til 18. júní 2001.

Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl. Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, sbr. 1. mgr. 7. gr. ffl. Í athugsemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að fyrirhugað fæðingarorlof geti færst til, óski foreldrar eftir því, þegar barn fæðist eftir áætlaðan fæðingardag.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar, nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að fallast á kröfu kæranda um að útreikningur greiðslna skuli miðast við fæðingu barnsins, þ.e. 2. júní 2001, þar sem réttur til töku fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barnsins svo og heimild til að taka leyfi frá launuðum störfum. Útreikningur við greiðslu til kæranda í fæðingarorlofi skal því miðast við tímabilið apríl 2000 til og með mars 2001.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof sem lagður er til grundvallar greiðslum til A, úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. apríl 2000 til og með 31. mars 2001.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta