Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 21/2001

Þriðjudaginn, 11. september 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 23. maí 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins við ákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 14. maí 2001 til 14. nóvember 2001.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 15. maí 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í kæru þessari óskar kærandi eftir því að marsmánuður 2001 verði tekinn með þegar ákvarðaðar eru greiðslur til hennar í fæðingarorlofi. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Þegar ég hringdi inn í Tryggingastofnun ríkisins til að fá uppgefið hvaða mánuðir teldu inní fæðingarorlof hjá mér var mér sagt að það væru bara apríl og maí á þessu ári sem teldust ekki með. Ég er skráð 24. maí. Vegna þessara upplýsingar vann ég fullan vinnudag og rúmlega það út marsmánuð. Vegna þessa geri ég kröfu um að marsmánuður (sem var erfiður mánuður) verði tekinn inní útreikningana um fæðingarorlof mitt."

Með bréfi, dags. 1. júní 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 11. júní 2001. Í greinargerðinni segir:

"Kærandi óskar endurskoðunar á greiðslum í fæðingarorlofi. Vill hún að við útreikning greiðslna verði tekið mið af tekjum hennar í marsmánuði 2001. Kæran er m.a. byggð á því að um ranga upplýsingagjöf hafi verið að ræða af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingaorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir að átt sé við almanaksmánuði. Kærandi hóf töku fæðingarorlofs þann 12. maí 2001. Því miðast útreikningur á greiðslum til hennar við launatekjur á tímabilinu frá mars 2000 til og með febrúar 2001.

Ekki er unnt að fullyrða um efni þeirra upplýsinga sem kærandi aflaði hjá Tryggingastofnun, enda um munnlegar upplýsingar að ræða. Upplýsingagjöf sem þessi felur augljóslega ekki í sér ákvörðun um greiðslur eða réttindi. Á það er jafnframt bent að reglur laganna eru nokkuð skýrar að þessu leyti, og ættu ekki að gefa tilefni til misskilnings."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. júní 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 14. maí 2001 til 14. nóvember 2001.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarlega greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar, nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í framangreindu ákvæði er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu er skýrt tekið fram þegar fjallað er um 13. gr. ffl. að átt sé við almanaksmánuði, með hliðsjón af því skulu mánaðarlegar greiðslur til kæranda nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. mars 2000 til og með 28. febrúar 2001.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta