Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 18/2001

Þriðjudaginn, 21. ágúst 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 23. maí 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins við ákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 14. maí 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 2. maí 2001 til 2. janúar 2002.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 9. maí 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Kærandi fer fram á endurskoðun útreiknings við ákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Í febrúar 2000 útskrifast ég með Mastersgráðu í B frá Háskóla Íslands. Ég var búin að fá atvinnutilboð frá C (þar sem ég er nú starfandi) en gat ekki byrjað þar fyrr en í maí 2000. Fram að því var ég að kenna tvo áfanga í B við Háskólann á Akureyri aðeins í hlutastarfi og hafði afar lítið upp úr því. Ég hef hins vegar stundað fulla vinnu hjá C frá maí 2000 og vegna góðrar heilsu hef ég getað unnið fullan vinnudag og rúmlega það alveg fram í byrjun maí 2001. Ég geri mér grein fyrir því að útreikningurinn er ekki látinn ná til síðustu tveggja mánaða fyrir áætlaða fæðingu sökum þess að margar konur þurfa að minnka við sig í vinnu og kemur þetta eflaust betur út fyrir flesta. Í mínu tilfelli kemur þetta hins vegar mun verr út og myndi 80% talan hækka sem nemur u.þ.b. 30.000 krónum á mánuði hjá mér ef tekið væri tillit til mars og apríl 2000 (80%: u.þ.b. 220.000.- í stað 191.007.-).

Mér finnst ekki sanngjarnt að taka þessa tvo mánuði (mars + apríl 2000) með í útreikningana þar sem launin þar eru í engu samræmi við núverandi laun. Að auki finnst mér að þar sem ég hef 12 heila mánuði tiltæka til útreiknings hjá núverandi vinnuveitanda að það sé verið að hegna mér fyrir að vera heilsuhraust með því að líta fram hjá mars og apríl 2001.

Ég fer því vinsamlegast fram á að útreikningar á greiðslum til mín úr fæðingarorlofssjóði verði endurskoðaðar og meðaltekjurnar verði reiknaðar út frá þeim 12 mánuðum sem ég hef starfað hjá C... Ég tel rökrétt að miðað sé við núverandi laun en ekki hlutastarf sem tilheyrði millibilsástandi frá námslokum að núverandi starfi. "

Með bréfi, dags. 25. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 11. júní 2001. Í greinargerðinni segir m.a.:

"Kærandi óskar endurskoðunar á greiðslum í fæðingarorlofi. Vill hún að við útreikning greiðslna verði tekið mið af tekjum hennar síðustu 12 mánuði fyrir upphaf orlofs, í stað þess að miða við 12 mánaða tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er regla þessi áréttuð í athugasemdum með frumvarpi til laganna, svo og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kæran lýtur að áhrifum launa kæranda í mars og aprílmánuði árið 2000 á greiðslur í fæðingarorlofi. Laun fyrir þessa mánuði eru umtalsvert lægri en laun eftir þann tíma, en tekjur frá og með maímánuði 2000 og fram að töku fæðingarorlofs hafa verið nokkuð jafnar utan einn sumarleyfismánuð... Aftur á móti er ekki að finna heimild í lögunum til að bregða út af hinni gefnu viðmiðunarreglu til hagsbóta fyrir foreldra. Því er það mat Tryggingastofnunar ríkisins að ekki hafi verið unnt að ákvarða greiðslur til kæranda á annan hátt en gert var."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. júní 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 2. maí 2001 til 2. janúar 2002.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í framangreindu ákvæði er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta