Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 15/2001

Þriðjudaginn, 21. ágúst 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 11. maí 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda í fæðingarorlofi.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 1. maí 2001 til 1. maí 2002.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 23. apríl 2001, var kæranda tilkynnt að synjað sé umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og þess í stað verði greiddur fæðingarstyrkur. Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 29. apríl 2001, er kæranda tilkynnt um synjun á greiðslu fæðingarstyrks vegna náms en þess í stað verði greiddur lægri fæðingarstyrkur. Kærandi telur sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefur verið synjað þar sem hún nær ekki alveg að uppfylla skilyrði um sex mánaða samfellda vinnu fyrir fæðingardag.

Einnig hefur henni verið synjað um fæðingarstyrk þar sem hún uppfyllir ekki skilyrði um fullt nám á síðustu 12 mánuðum. A hefur stundað nám við B undanfarin ár en varð því miður að hætta námi vegna flökurleika þegar skammt var liðið á haustönnina. Þegar flökurleikinn lagaðist byrjaði hún að vinna fullt starf. Atvikin haga því nú þannig að hún hefur hvorki samfellda vinnu síðustu 6 mánuði né 6 mánaða skólagöngu í síðustu 12 mánuðum. A getur hins vegar lagt fram læknisvottorð um að hún varð að hætta námi, einnig getur hún lagt fram læknisvottorð um að hún varð að hætta að vinna 2 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag.

Á síðasta ári voru í gildi lög um fæðingarorlof þar sem fullir fæðingardagpeningar voru greiddir ef móðir hafði unnið yfir 1032 vinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs. Ef þessi lög væru enn í gildi fengi A fullt fæðingarorlof þar sem vinnustundir hennar fara langt yfir þessi tímamörk....."

Með bréfi, dags. 14. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 5. júní 2001. Í greinargerðinni segir m.a.:

"Með umsókn dags. 2. apríl 2001 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. maí vegna væntanlegrar fæðingar þann 26. apríl. Með umsókninni fylgdu tilkynning um fæðingarorlof til C þar sem starfshlutfall hennar var tilgreint 100%.

Í 2. mgr. [7]. gr. laganna segir m.a.: "Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði."

Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir m.a.: "Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir.: "Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk A greidd laun frá C frá desember 2000 en fram til þess laun frá D sem voru það lág tímabilið ágúst-nóvember að ljóst var að hún hafði ekki verið í 25% starfshlutfalli á þeim tíma.

Henni var því með bréfi dags 23. apríl synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. apríl.

25. apríl bárust skólavottorð um að hún hefði hafið nám við B á haustönn 1995 og hefði stundað nám á haustönn 2000 og vottorð um að hún hefði verið nemandi í E sumarið 2000 þar sem hún hefði lokið námi í tveimur fögum. Nánari upplýsingar um skólavist hennar bárust síðan um nám hennar þar sem fram kom að hún hefði verið í sumarskólanum 29. maí til júlíloka og að hún hefði orðið að hætta á haustönninni þann 14. september 2000.

Í 1. mgr. 19. laganna segir m.a.: "Foreldrar í fullu námi eiga... rétt til fæðingarstyrks..."

Fullt nám er nánar skilgreint í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 þar sem segir m.a. í 1. og 4. mgr.: "Fullt nám í skilningi laga um fæðinga- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. ... Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en námið hófst."

A var ekki í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns síns þann 30. apríl síðastliðinn. Hún uppfyllti þannig ekki heldur skilyrði fyrir því að fá greiddan hærri fæðingarstyrk sem námsmaður og var henni synjað um þær greiðslur með bréfi dags. 29. apríl.

Sú undanþága sem felst í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að taka tillit til þess að foreldri sem hefur verið á vinnumarkaðinum byrji í námi og nái ekki að uppfylla tímaskilyrði vegna fæðingarstyrks námsmanna fyrir fæðingu barns á ekki við um A sem hætti í námi og fór eftir það að vinna.

Lífeyristryggingasvið telur samkvæmt framansögðu að A hafi hvorki uppfyllt skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir því að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði né fæðingarstyrk námsmanna og að henni hafi réttilega verið ákvarðaðar greiðslur fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar eða í undir 25% starfi..."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. júní 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 1. maí 2001 til 1. maí 2002.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem þau laun sem hún fékk fyrir störf í nóvember 2000 geta ekki talist til 25% starfs né ávann hún sér rétt á annan hátt, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks, sbr. 19. gr. ffl. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilyrði að námsmenn þurfa að hafa verið í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns síns í 75100% samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, né öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður, er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta