Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 12/2001

Mánudaginn, 2. júlí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 30. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 30. apríl 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. janúar 2001, óskaði kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 1. febrúar 2001 til 1. ágúst 2001.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 2. maí 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarorlofi. Kærandi telur sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Ég hafði samband við [Tryggingastofnun] í október, nóvember og des., til að fá upplýsingar um nýju reglurnar. Ég fékk þau svör að ég yrði að hringja seinna, því það vissi enginn neitt á þessum tíma. Í janúar 2001 þegar ég hringdi fékk ég að vita að ég þyrfti að hafa borgað staðgreiðslu síðustu sex mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma. Það vantaði sem sagt staðgreiðsluna í okt., nóv., des. og janúar. Hafði verið að vinna á veitingastað fram yfir september og hina mánuðina í heildsölu, þar sem ég er annar eigandi þar. Við borguðum okkur engin laun því við erum nýbúnar að stofna hana. Því nýtti maðurinn minn skattkortið mitt þar á eftir september. Ég vil taka það fram að sú sem skoðaði mig á meðgögunni, B hafði engar upplýsingar fyrir mig og í janúar 2001 var hún og aðrir kallaðir á fund út af nýju reglunum. Hefði ég fengið upplýsingar á réttum tíma, hefði ég getað reiknað mér laun í heildsölunni, borgað staðgreiðsluna og heildsalan skuldað mér laun svo seinna, og auðvitað ekki látið manninn minn nýta skattkortið mitt. Þetta kemur sér auðvitað mjög illa fyrir mig og mína fjölskyldu að upplýsingar voru engar á þessum tíma. Fer ég því fram á það að mín mál verði endurskoðuð sem sagt gögn sem eru þegar hjá Tryggingastofnuninni og svo þetta kærubréf."

Með bréfi, dags. 4. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 29. maí 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði dags. 2. janúar 2001 fylgdu útprentun dags. 9. janúar 2001 úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands um fyrirtækið D hf. þar sem fram kemur að A er skráð fyrir framkvæmdastjórn, kvittanir vegna reiknaðs endurgjalds sem kemur fram í september 2000 í skrám skattyfirvalda, vottorð um að hún hafi verið að vinna á tímabilinu 1. febrúar [til] 30. september 2000 hjá E ehf., tilkynning um fæðingarorlof og bréf frá A um að hún hafi unnið fullt starf hjá heildversluninni D frá 12. maí 2000 sem hún sé ein af tveimur eigendum að en þær hafi ekki greitt sér nein laun á árinu 2000 vegna þess að þær séu búnar að vera að byggja upp þetta fyrirtæki.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir m.a. í 1.-4. mgr.:

"Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs...

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum [um] tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur [57.057] kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50-100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur [79.077] kr. á mánuði."

[Fjárhæðir á árinu 2001 eru breyttar frá upprunalegum lagatexta . HJ]

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir:

"Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir:

"Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir:

"Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um er að ræða."

Í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á árinu 2000 eru mánaðarlaun fyrir fullt starf í flokki C(2) (Stjórnendur og aðrir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í iðnaðar- og iðjurekstri, hvers konar verslun, útgerð verktakastarfsemi og persónulegri þjónustu sem greiða alls laun sem samsvara minna en árslaunum 2 starfsmanna) kr. 175.000 (og á árinu 2001, kr. 200.000).

A sótti um að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hæfust frá 1. febrúar 2001 og til þess að hún ætti rétt á þeim greiðslum þurfti hún að uppfylla skilyrði um að hafa verið í starfi síðustu sex mánuði á undan og í a.m.k. 25% starfshlutfalli, þ.e. tímabilið ágúst 2000-janúar 2001. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fékk A hvorki greidd laun [] né var hún með reiknað endurgjald frá október 2000 og þess vegna var hvorki hægt að reikna henni greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem næmi 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af né meta starfshlutfall hennar samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu.

Lífeyristryggingasvið telur að A hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera samfellt í starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuðina fyrir fæðingarorlof og að hún eigi ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 31. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Með ódagsettu bréfi sem móttekið var hjá úrskurðarnefnd 14. júní 2001 er ástæðan fyrir kærunni ítrekuð. Í bréfinu kemur m.a. fram.:

"Ég er að kæra út af því að engar upplýsingar voru að fá um þessi nýju lög. Nýju lögin voru ákveðin í maí 2000, en engar upplýsingar um þau komu fyrr en í janúar 2001 og sú sem ég var hjá í mæðraskoðun, B, var kölluð ásamt öðrum á fund í febrúar 2001 og kynnt fyrir þeim nýju lögin, sem er ansi seint t.d. fyrir mig því ég var áætluð í [] byrjun febrúar. Það sem ég er að segja er það að ég hefði getað borgað staðgr. [plús] annað og fyrirtækið mitt skuldað mér laun, þessa mánuði sem vantaði upp á til að fá fæðingarorlof "auðvitað hefði ég gert það" en það voru engar upplýsingar að fá á þeim tíma sem ég hefði þurft að vita það, því maðurinn minn nýtti skattkortið mitt og ég gat ekki notað skattkortið aftur í tímann út af upplýsingaleysi.

Ég skil þessi nýju lög en það hefðu átt að koma upplýsingar um þau miklu fyrr, eins vil ég taka það fram að ég var send fram og til baka út af upplýsingaleysi hjá Tryggingastofnuninni, það gæti hún F staðfest, en hún hjálpaði mér svo heilmikið.... Mér finnst það engan veginn ganga upp að ég fái bara fæðingarstyrk þegar þetta eru mistök hjá þeim sem áttu að upplýsa þessi lög hjá mæðraskoðun og Tryggingastofnuninni..."

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 1. febrúar 2001 til 1. ágúst 2001.

Kærandi upplýsir í kæru að hún hafi unnið í fjóra mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs í heildsölu sem hún rekur. Einnig kemur þar fram að hún og hennar sameigandi hafi ekki greitt sér laun, þar sem heildsalan hafi verið nýstofnuð.

Í 3. mgr. 7. gr. ffl. segir: "Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi."

Í 3. mgr. 13. gr. ffl. segir: "Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil."

Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði ffl. um rétt foreldris til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru kemur hins vegar fram að kærandi telur sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um skilyrði fyrir rétti til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjaldi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hinsvegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar samkvæmt framangreindu.

Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun Tryggingastofnunar ríksins um greiðslu fæðingarstyrks staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríksins um greiðslu fæðingarstyrks til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta